3.12.2023 | 00:23
Hús dagsins: Saurbæjarkirkja
Á komandi aðventusunnudögum (eða helgum) hyggst ég birta umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveitar eina af annarri. Þær eru hins vegar sex en aðventusunnudagarnir fjórir. Grundarkirkju tók ég fyrir fyrr í sumar. Hyggst ég fara hringinn frá vestri, fram og út að austan. Þannig hefst umfjöllunin við Saurbæ, þá eru það Hólar, næst Möðruvellir og loks Kaupangskirkja. Munkaþverárkirkja verður svo fyrsta Hús dagsins á nýju ári, mögulega á nýársdag en sú kirkja á stórafmæli, 180 ára, á hinu nýja ári 2024.
Fremstur hinna þriggja hreppa, er sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar fyrir rúmum þremur áratugum, var Saurbæjarhreppur. Dregur hann nafn sitt af Saurbæ, sem stendur undir miklum hálsi norður af Hleiðargarðsfjalli, sem mun kallast Saurbæjarháls. Á Saurbæjartorfunni standa m.a. byggingarnar Sólgarður, félagsheimili Saurbæjarhrepps sem byggt var í áföngum frá 1934, 1954 og 1980 en hýsir nú Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Stendur Sólgarður fast við Eyjafjarðarbraut vestri. Bæjarhús Saurbæjar standa á hól nokkrum ofan Sólgarðs og þar er um að ræða veglegar byggingar frá 1927 og síðar, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Í þeim húsakynnum hefur Búsaga, samtök um búnaðarsögusafn, komið sér fyrir og þar leynast margir dýrgripir úr sögu búvéla 20. aldar. Nýjasta rós í hnappagat þessa geðþekka staðar við mynni Eyjafjarðardals er svo kýrin Edda, stórvirki eldsmiðsins Beate Stormo í Kristnesi en henni var komið fyrir á hólbrún norðan Sólgarðs í ágústbyrjun 2023. En krúnudjásn Saurbæjartorfunnar hlýtur þó að vera kirkjan, torfkirkja frá miðri 19. öld. Stendur hún framan eða austan við bæjarhús Saurbæjar og nefnist umræddur hóll einmitt Kirkjuhóll. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu við Saurbæjarkirkju eru tæpir 29 kílómetrar.
Sögu Saurbæjar má rekja til landnáms en þar mun hafa búið Helga, dóttir Helga magra og maður hennar Auðun rotinn. Hversu snemma Saurbær varð kirkjustaður liggur ekki nákvæmlega fyrir en þar reis klaustur eftir miðja 12. öld. Sjálfsagt mætti skrifa mikið ritverk um sögu kirkjustaðarins og klaustursins að Saurbæ en hér látum við hana liggja milli hluta og hefjum umfjöllun á 19. öld. Það var árið 1822 að séra Einar Hallgrímsson Thorlacius kom að Saurbæ og hóf þar prestsskap og sat þar í nærri hálfa öld. (Kristján Eldjárn segir reyndar, að sr. Einar hafi komið að Saurbæ árið 1823). Kirkjubyggingin á Saurbæ þegar séra Einar kom að staðnum var torfkirkja með timburþiljum, reist um 1794. Sjálfsagt hefur Einari þótt tími kominn á nýja kirkju þegar leið á hinu löngu embættistíð hans, en ekki verður ráðið af heimildum að sú frá 1794 hafi verið orðin hrörleg enda þótt suðurveggur hafi verið farinn að fyrnast, skv. visitasíu árið 1856 (Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason, 2007:287). En þótt ekki væri endilega aðkallandi þörf á nýrri kirkju ákvað sr. Einar engu að síðar að reisa nýja kirkju um þetta leyti og réði til byggingarinnar Ólaf Briem timburmeistara á Grund.
Saurbæjarkirkja er torfhús með timburstöfnum, en veggir grjóthlaðnir neðst og með klömbruhnausum efst og torf á þaki. Á suðurhlið er smár kvistur. Á stöfnum er slagþil, lóðrétt timburborð og þrír smáir sexrúðugluggar á framhlið, tveir sitt hvoru megin dyra og einn ofan þeirra. Tvær klukkur hanga á framhlið, önnur með gotnesku lagi, 32cm í þvermál og tíu árum eldri en kirkjan sjálf. Stærri klukka, 40 cm í þvermál er með síðrómönsku lagi, með einfaldri strikun efst og neðst. Hún mun ævaforn, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason (2007:301) telja hana vart yngri en frá 14. öld eða lokum þeirrar 13. Með öðrum orðum, stærri bjallan utan á Saurbæjarkirkju gæti verið meira en 700 ára gömul; frá svipuðum tíma og Íslendingasögurnar voru ritaðar eða skömmu eftir Sturlungaöld! Undir norðausturhorni kirkjunnar mun vera steyptur kjallari frá því um 1960. Timburhluti Saurbæjarkirkju, þ.e. kirkjan að frátöldum torfveggjum er 9,63x5,33m en torfveggir eru 10,8m að lengd og skaga því um tæplega 60cm út fyrir timburstafnana hvoru megin. Torfveggur sunnanmegin er 1,7m á breidd en norðurveggur 2,2m. Alls er því grunnflötur Saurbæjarkirkju að viðbættum torfveggjum 10,8x9,23m.
Byggingameistari Saurbæjarkirkju var Ólafur Briem timburmeistari á Grund. Hann var fæddur á Kjarna í Eyjafirði þann 29. nóvember 1808. Hann fluttist barnungur að Grund í Eyjafirði ásamt foreldrum sínum, Gunnlaugi Briem sýslumanni og Valgerði Árnadóttur. Hann sýndi ungur tilhneigingar til smíða og hagleiks og faðir hans, sem hafði í bernsku ætlað sér að verða myndhöggvari, vildi gefa syni sínum tækifæri til þess að þroska þessa hæfileika sína. Sendi hann bréf til ekki ómerkari manns en Bertels Thorvaldsen og leitaðist eftir því, að hann tæki Ólaf til náms í höggmyndalist. En Thorvaldsen var þá búsettur í Róm og þangað var nokkuð örðugt um póstsendingar fyrir 200 árum síðan. Ekki er vitað, hvort Bertel fékk nokkurn tíma bréfið en það varð úr, að Ólafur var sendur til náms í trésmíði til Danmerkur. Þangað sigldi hann tæplega 17 ára gamall, haustið 1825. (Nú gætu gárungar lagt saman tvo og tvo og fengið þá niðurstöðu, að hefði Ólafur numið höggmyndalist hjá Thorvaldsen stæði kannski ekki kirkja þarna heldur myndastytta).
Smíðanáminu lauk Ólafur árið 1831 og fluttist þá heim aftur og hóf störf við smíðar. Settist hann að á Grund og bjó þar allan sinn aldur eftir það. Hann kvæntist Dómhildi Þorsteinsdóttir árið 1838. Ólafur hafði smíðaverkstæði á Grund og mun hafa bætt nokkuð húsakostinn, hann byggði t.d. nýja kirkju þar árið 1842. Hana reif annar stórtækur Grundarbóndi, Magnús Sigurðsson, eftir 1905 er hann hafði reist hina veglegu kirkju er þar stendur nú. En Ólafur stýrði eða kom að byggingum fjölda kirkna og timburhúsa m.a. flestallra kirkna í Eyjafirði, Hrafnagili, Miklagarði, Grund, Hólum og Möðruvöllum (aðeins tvær síðasttaldar standa enn) auk Hvanneyrarkirkju á Siglufirði, á Þóroddsstað í Kinn og Draflastöðum í Kinn (sbr. Benjamín Kristjánsson 1968:113-118). Þá reisti einnig verslunarhús í kaupstöðum. Í Skjaldarvík reisti hann veglega stofu (íbúðarhús) árið 1835. Það hús flutti Gránufélagið á Oddeyri árið 1876 og mun það vera austasti hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:255). Ólafur Briem lést í byrjun árs 1859, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann reisti Saurbæjarkirkju. Ólafur mun koma nokkuð við sögu í næstu pistlum um kirkjur Eyjafjarðar.
Það mun vera nokkuð nákvæmlega skráð hvernig vinnu var háttað við smíði kirkjunnar en að henni komu ýmsir lærlingar, snikkarar og ýmsir sóknarmenn úr hreppnum lögðu einnig til sjálfboðavinnu. Þá var ráðinn maður, sérstaklega til torfhleðslu. Launuð vinna mun hafa verið 218 dagsverk en sjálfboðavinna um 60 dagsverk. Alls hljóðaði reikningurinn upp á 633 ríkisdali og auk vinnunnar var þar fæði og hressing til handa vinnumönnum, auk kaffis og brennivíns eftir venjunni og brennivín til svölunar undir púlinu fyrir þá sem óku grjóti og timbri til kirkjunnar (sbr. Kristján Eldjárn 1964:15). Af þessu má ráða, að ekki skorti kirkjusmiði brennivín meðan á vinnu stóð!
Það kann að þykja dálítið sérstakt, að Saurbæjarkirkja sé torfkirkja þegar það er haft í huga að hún er yngst 19. aldar kirknanna í Eyjafirði og reist af byggingameistara, sem sérhæfði sig í timburhúsabyggingum. Þegar leið á 19. öld var það almennt svo, að timbrið ætti að taka við af torfinu. En þetta mun eiga nokkrar skýringar. Mögulega gæti það hafa verið nýtni; norðurveggur eldri kirkjunnar frá 1794 var nýtilegur og mun hann að einhverju leyti vera uppistaða núverandi kirkju. Þá gæti íhaldssemi sr. Einars Thorlacius hafa haft áhrif, hann hafði verið prestur í meira en 40 ár og kominn á efri ár. Þá er ein athyglisverð kenning reifuð í Kirkjum Íslands: Þá er hugsanlegt að hrein skynsemi hafi ráðið ferðinni [að byggja úr torfi] en kirkjan stendur berskjölduð uppi á hæð þar sem vindur getur orðið sterkur. Þegar þannig háttar til er mikið öryggi af torfklæðningu (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:297). Löngu síðar reyndi einmitt á þetta. Haustið 1900, nánar tiltekið þann 20. september, gekk annálað ofsaveður yfir Norðurland. Þá gerðist það, að nýtt þinghús Saurbæjarhrepps, sem reist hafði verið úr timbri fremst á Kirkjuhólnum fauk af grunni, lenti á kirkjugarðsveggnum og brotnaði í spón (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:836). Hafi þeir sr. Einar og Ólafur Briem ákveðið að reisa kirkjuna með torfveggjum sem vörn gegn ofsaveðri, má segja að þarna hafi komið á daginn, að þeir höfðu lög mæla. Voru þeir reyndar báðir löngu látnir þegar þetta gerðist. Af þinghúsmálum Saurbæjarhrepps er það að segja, að úr viðum hússins sem fauk var reist nýtt þinghús á sama stað. Það var rifið um 1934, þegar reist var nýtt samkomuhús úr steinsteypu austan og neðan hólsins.
Elsta lýsing á Saurbæjarkirkju er frá því hún var nýbyggð, nánar tiltekið 25. ágúst 1858. Þá vísiteraði prófasturinn Guðmundur E. Johnsen hina nýbyggðu kirkju. Visitasíuskýrslan er mjög löng og írtarleg en hér eru nokkrar glefsur: Kirkja þessi, sem er torfkirkja, er að lengd 14 ½ alin, þar af er kórinn 5 ¾ alin; á breidd er hún 7 álnir, 13 þumlungar; á hæð frá gólfi og á efri bitabrún 3 álnir, 14 þumlungar, og er frá efri bitabrún til mænis 4 álnir, 1 þumlungur, allt mælt að innan. Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar hvíla á lausholtum yfir 18 stoðum. Húsið er byggt á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring og alþiljað að innan, bæði til hliða og á báðum stöfnum upp í gegn, með plægðu póstþili. [...] Bæði stafnþilin eru hið ytra af heilum borðum og venjulegum vindskeiðum. Fyrir kirkjunni er sterk vængjahurð á járnum, með járnlokum að ofan og neðanverðu á öðrum vængnum að utan og innan eru strikaðir listar og yfir dyrunum að utanverðu er þríhyrningur einnig með listum allt um kring, sem er málaður með bláum lit, ásamt hurðinni og dyraumbúningnum að utan.
Að lokum segir prófastur: Yfir höfuð er smíðið á kirkjunni fagurt, sterkt og vandað. Suðurveggur hússins er nýhlaðinn upp af torfi og grjóti, en á ofan á hinn gamla norðurvegg, sem var eins góður og nýr, hefur verið hlaðið, eins og þak hússins útheimti. Húsið er og vel þakið og hellulagt og þilin bæði eru einu sinni bikuð (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:289-290).
Prestsetur var Saurbær til ársins 1931 en ekki fann greinarhöfundur prestatal fyrir staðinn við fljótlega leit. Hér verður gerð tilraun til slíks tals: Sr. Einar Thorlacius lét af prestsembætti í Saurbæ, og prestskap yfirhöfuð, árið 1867 þá orðinn 77 ára og hafði þá þjónað í Saurbæ í um 45 ár. Saurbæ í Eyjafjarðarsýslu virðist ekki að finna í Manntali árið 1870 en árið 1872 sest þar að séra Jón Austmann. Gegndi hann embætti til ársins 1881. Þá tók við sr. Guðjón Hálfdánarson sem lést tveimur árum síðar. Eftir fráfall Guðjóns settist sr. Jakob Björnsson að í Saurbæ og sat þar rúm 30 ár, eða til 1916. Það er ekki að sjá í manntölum árin á eftir að nýr prestur setjist að í Saurbæ eftir að Jakob lét af störfum en hann er skráður sem prestur emeritus. Saurbæjarprestakall hafði raunar verið lagt niður árið 1907 og lagt undir Grundarþing. Árið 1920 fluttist hins vegar í Saurbæ séra Gunnar Benediktsson.
Framangreindir prestar höfðu eflaust allir sinn hátt á viðhaldi kirkjunnar og hugmyndir um breytingar. Um 1880 koma t.d. fram hugmyndir um að rífa torfveggi og klæða veggina með timbri. Um svipað leyti var tekið niður klukknaport og klukkunum komið fyrir á núverandi stað, á vesturstafni kirkjunnar. Á þriðja áratug 20. aldar voru uppi hugmyndir um að reisa nýja kirkju úr steinsteypu en af því augljóslega ekki. Þáverandi prestur, sr. Gunnar Benediktsson réðst hins vegar í byggingu veglegs prestseturs úr steinsteypu, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, og leysti það hús af hólmi torfbæ sem jafnframt var rifinn. Fáeinum árum eftir byggingu prestsetursins, eða árið 1931, fluttist Gunnar hins vegar í burtu. Var hann síðasti presturinn sem sat að Saurbæ.
Það mun hafa verið svo snemma sem á fjórða áratug 20. aldar að torfkirkjan í Saurbæ fór að vekja athygli þeirra, sem leið áttu um Eyjafjörð. Árið 1937 var t.d. nefnt í vísitasíu, að töluverður ferðamannastraumur sé til Saurbæjar að skoða kirkjuna (sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:293). Líkt og nærri má geta var ferðamannaiðnaðurinn og ferðavenjur fólks þá, töluvert frábrugðnar því sem nú er. Orðið ferðamannastaður hafði t.d. aðeins birst tvisvar í rituðu máli árið 1937 skv. timarit.is, en skemmtiferðir og ferðalög án hagnýts erindis voru lítt þekkt og ekkert endilega hátt skrifuð meðal almennings í bændasamfélagi fyrri tíma. Það var svo árið 1953 að biskup lagði fram formlega fyrirspurn til Þjóðminjavarðar; Kristjáns Eldjárn, um hvort hið opinbera hyggðist vernda kirkjuna sem forngrip og hvort hið opinbera væri tilbúið að kosta viðgerð kirkjunnar (Sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:294).
Á árunum 1959-60 fór fram viðamikil viðgerð á Saurbæjarkirkju, að innan jafnt sem utan á vegum Þjóðminjavarðar. Var þá m.a. steyptur kjallari undir norðausturhorn og farið í hinar ýmsu framkvæmdir á torfhleðslum. Þá voru vindskeiðar á stöfnum málaðar hvítar, sem setur nokkurn svip á kirkjuna en áður voru þær tjargaðar. Hönnuður og umsjónarmaður þessara framkvæmda var Sigurður Egilsson. Aftur voru gerðar endurbætur á kirkjunni árin 2002-2005 undir stjórn Haraldar Helgasonar, arkitekts á Þjóðminjasafninu. Saurbæjarkirkja hefur verið í umsjón og vörslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962 og hefur safnið tryggt kirkjunni fyrsta flokks viðhald og hirðingu alla tíð síðan. Saurbæjarkirkja er ein af fáum torfkirkjum landsins og nýtur friðunar sem slík en hún var friðuð árið 1990. (Raunar var hún friðlýst sem fornminjar árið 1959 en sú friðlýsing mun ekki hafa talist gild vegna formsatriða). Enn er kirkjan notuð sem sóknarkirkja, þar eru haldnar skírnir, brúðkaup og stundum messur. Einhverjum kann að þykja það ótrúlegt, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar kirkjan 60 manns í sæti. (Gildir kannski þar sama lögmál og félagsheimilið í Stuðmannamyndin Með allt á hreinu; sem var lítið að utan og stórt að innan). Saurbæjarkirkja er til mikillar prýði í fallegu umhverfi og svo sannarlega ein af perlum eða djásnum Eyjafjarðar. Hefur hún laðað að ferðamenn frá því löngu áður en ferðaþjónusta varð sú undirstöðuatvinnugrein, sem hún nú er. Myndirnar eru teknar 13. júní, og 29. ágúst 2020, 11. ágúst 2021 og 8. ágúst 2023.
Heimildir: Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.
Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 283-312. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Kristján Eldjárn. 1964. Á söguslóðum. Saurbæjarkirkja í Eyjafirði. Í Morgunblaðinu 177. tbl. 51. árg. 31. júlí 1964. Bls. 15. (af timarit.is)
Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2023 | 08:39
Hús dagsins: Brekkugata 3
Brekkugata 3 er vafalítið eitt af stærstu timburhúsum Akureyrar en það er alls fjórar hæðir og stendur á norðvesturhorni Ráðhústorgs. Við norðurenda hússins fer Brekkugatan að halla uppá við. Fá hús hefur verið byggt við jafn oft og Brekkugötu 3, en húsið hefur verið stækkað á flestalla kanta, til þriggja átta og upp á við.
Brekkugata 3 er stórhýsi, þriggja hæða timburhús á steinsteyptum kjallara og með lágu aflíðandi risi með broti (mansard). Stigabygging er á bakhlið og þar er gengið inn á efri hæðir hússins en neðsta hæð er steinsteypt og þar er gengið inn frá götu. Verslunar- og þjónusturými er á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Húsið er allt bárujárnsklætt, bæði veggir og þak. Gluggar framhliðar eru heilir og póstlausir en annars eru krosspóstar í gluggum hússins. Á bakhlið hússins stendur einnig steinsteypt bakhús, Brekkugata 3b. Það hús er tvílyft steinsteypuhús með einhalla þaki en það var byggt í áföngum árin 1931-44. Þessi hús, Brekkugata 3 og bakhúsið voru tengd saman með einlyftri tengibyggingu árið 1970. Grunnflötur framhússins, án útbygginga, er skv. teikningum Haraldar Árnasonar frá 2014 um 8,88x10,22m. Að vestan er viðbygging, 6,45x3,48 og útskot á norðurstafni, 4,50x1,85m. Á suðurhlið er viðbygging við jarðhæð, 3,15x13,30m. Grunnflötur bakhúss, u.þ.b. 12x10m, útskots til vesturs 3x6m og tengibygging er um 8x9m að grunnfleti (ónákvæmar mælingar af map.is).
Árið 1901 fluttist til Akureyrar 28 ára gamall Þjóðverji að nafni Heinrich Bebensee. Hann var klæðskeri eða skraddari og stundaði iðn sína í húsi Einars Jónssonar málara á Oddeyri (Norðurgata 9, síðar flutt á Fróðasund 11). En haustið 1902 fór Bebensee að huga að húsbyggingu. Þann 18. september það ár mældi bygginganefnd lóð fyrir hann norðan við hús Jósefs smiðs. Var Bebensee heimilað að reisa hús, 14x10 álnir sem eru eitthvað nærri 6,3x8,8m, að grunnfleti, 5 álnir (rúmir 3 metrar frá lóðarmörkum Jósefs). Umrætt hús Hús Jóseps [Jóhannessonar] járnsmiðs, var þá nýrisið eða í byggingu. Það er í Manntali 1902 kallað Vesturgata 1 en varð ári síðar Brekkugata 1 og er það enn. Bebensee rak klæðskerastofu í húsinu og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Guðbjörgu Bjarnadóttur (1879-1933) frá Illugastöðum í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Guðbjörg tók upp ættarnafn eiginmanns síns, Bebensee.
Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1903 en árið 1907 heimilaði bygginganefnd Hinrik Bebensee eftirfarandi: (ath. stafsetningu, orðrétt tilvitnun)
- a) Byggja viðbót við norðurstafn hússins, áframhald af framhlið hússins 3 ál.x 7 ál. , að því áskyldu að eldvarnargafl sje settur fyrir norðurstafn viðaukans. Glugga og dyraskipun á framhlið má breyta eptir framlagðri teikningu.
- b) Breiðka húsið um 6 ál. með því að byggja við bakhlið hússins skúr jafnháan þakskeggi. Stærð hans verði 6 x 14ál. (Bygg.nefnd. Ak 1907: nr. 328)
Við þessar breytingar mun þak hússins hafa fengið svipað lag og það hefur síðan, en húsið var enn aðeins tvílyft. Á gamlársdag árið 1916 var húsið metið til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og klæðskerahús, tvílyft með lágu risi og kjallara undir 2/3 af húsinu, eldvarnargafl við norðurstafn. Á gólfi (neðri hæð) við framhlið, þ.e. austamegin: ein stofa, klæðskerabúð og forstofa. Á gólfi við bakhlið þ.e. vestanmegin á neðri hæð: Klæðaskurðarstofa, tvö herbergi og forstofa. Á lofti voru alls sex stofur, þrjár austanmegin og aðrar þrjár vestanmegin og í vesturhluta efri hæðar var eldhús og búr. Þrjár geymslur voru í kjallara. Við bakhlið var lítill skúr og viðbygging við norðurstafn, jafnhá húsinu. Í húsinu voru fimm kolaofnar og ein eldavél sem tengdust tveimur skorsteinum. Allt var húsið járnklætt, veggir jafnt sem þak. Mál hússins voru sögð 10,7x10,4m og 7,5m á hæð (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 197).
Af Heinrich Bebensee er þá sorgarsögu að segja, að hann hvarf frá heimili sínu haustið 1921 og var talinn hafa drukknað. Á vordögum 2024 mun birtast ítarleg grein í Súlum, norðlensku tímariti um sögu Brekkugötu 3 og þar hyggst greinarhöfundur fjalla nánar um hvarf Heinrichs Bebensee.
Eftir sviplegt fráfall Bebensee mun bróðir Guðbjargar, Sveinn Bjarnason, hafa tekið við húseigninni og árið 1923 tók hann til við að stækka húsið. Fékk Sveinn leyfi til að byggja upp 3. hæð hússins, með því skilyrði að eldvarnarveggurinn [frá 1907] yrði rifinn og steyptur oplaus veggur kæmi norður og vestur við útbyggingu. Mátti sá veggur ekki vera þynnri en 23 cm og nægilegt járn skyldi vera í steypunni. Á ljósmynd frá 1927 sést að húsið hefur það lag sem það hefur nú, orðið alls fjórar hæðir.
Sveinn Bjarnason, sem starfaði um árabil sem framfærslufulltrúi Akureyrbæjar, átti allt húsið og leigði út íbúðir og herbergi. Á meðal 25 íbúa Brekkugötu 3 árið 1930 er Karl Ottó Runólfsson, titlaður kennari. Karl (1900-1970) var einn af fremstu tónskáldum þjóðarinnar og er kannski þekktastur fyrir lagið Í fjarlægð . Sveinn Bjarnason stóð í miklum byggingarframkvæmdum að Brekkugötu 3 mestallan fjórða áratuginn, en árið 1931 reisti hann fyrsta áfanga bakhúss, Brekkugötu 3b. Árin 1935-37 átti hann í miklum samskiptum við Byggingarnefnd vegna bakhússins, hann vildi hækka húsið og ýmist nota viðbótarhæð undir iðnað og íbúðir. Árið 1944 byggir Sveinn enn við bakhúsið og líkt og í tilfelli framhússins tveimur áratugum fyrr, hækkaði hann húsið um eina hæð. Sú bygging var gerð eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Á árunum 1969-70 gengur enn í garð breytingaskeið á Brekkugötu 3 en þá mun hafa verið byggð tengibygging milli fram- og bakhúss, auk þess sem byggt var við framhúsið, einnar hæðar bygging til suðurs. Margvíslegar breytingar hafa þannig verið gerðar á Brekkugötu 3 gegnum tíðina.
Húsið hefur hýst ýmsa verslunar-, veitinga-, og iðnaðarstarfsemi, allt frá því húsið var klæðskerastofa Bebensee hins þýska og yrði alltof langt mál að telja það upp hér. M.a. hófst starfsemi verslunar Tiger (nú Flying Tiger) á Akureyri um 2002. Í húsinu hefur líka verið hárgreiðslustofa, saumastofa og Sparisjóður, svo fátt eitt sé nefnt. Bakhúsið hefur lengst af verið vörugeymsla, verkstæði og einnig íbúð. Þar var einnig leiktækjasalur um hríð. Ljóst er að Brekkugata 3 er hús með langa og merka sögu að baki, þarna hafa vafalítið þúsundir manna starfað og búið í gegnum tíðina og fólk á öllum aldri sem á minningar um einhverja verslun eða starfsemi þarna. Sjálfsagt hafa fá hús í bænum tekið jafn miklum breytingum gegn um tíðina og Brekkugata 3. Á efri hæðum hússins eru nú nokkrar leiguíbúðir og Vistvæna búðin á götuhæð.
Brekkugata 3 er stórt, stórbrotið og reisulegt hús og setur mikinn svip á hjarta Miðbæjar Akureyrar, Ráðhústorg. Það er í góðri hirðu og til mikillar prýði og á bakvið það er gróskumikil lóð sem nær upp í brekkuna neðan Bjarmastígs. Þar stóð lengi vel ein elsta og merkasta stafafura landsins, en hún féll í ofsafenginni haustlægð seint í september 2022. Í Húsakönnun, sem unnin var um Miðbæjarsvæðið er það sagt hafa [...]gildi fyrir götumynd Brekkugötu og Ráðhústorgs. Húsið er reisulegt og stendur á áberandi stað (Landslag arkitektastofa 2014:38). Þá er húsið aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. ágúst 2015 og 14. nóvember 2023. Á myndinni frá 2015 sést stafafuran mikla vel.
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðarbækur frá 1902-21, 1921-30, 1930-35, 1935-1941 og 1941-48. Fyrstu þrjár fundargerðir, viðvíkjandi Brekkugötu 3: nr. 237, 18. sept. 1902, nr. 328, 17. júní 1907 og nr. 535, 1. maí 1923. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær. Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 18.11.2023 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2023 | 22:08
Eyfirskar svipmyndir. Sólríkir haustdagar í fremri byggðum.
Ásamt því að viða að mér fróðleik og skrifa um gömul mannvirki eru hjólreiðar eitt mitt helsta tómstundagaman. Þar hef ég tök á því að sameina samgöngumáta, áhugamál og líkamsrækt. Einhvern veginn hef ég ekki náð tökum á því að fara í ræktina, það er hlaupa á brettum eða lyfta lóðum o.s.frv. í yfirbyggðum líkamsræktarstöðvum heldur fellur mér betur, að stunda mína hreyfingu utandyra. En ég hefði eflaust gott af hinu. Á góðviðrisdögum veit ég fátt betra en að stíga á fákinn og bruna af stað, helst eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þá er ævinlega stefnt fram í Eyjafjarðarsveit en fram að Hrafnagili liggur stórfínn göngu/hjólastígur og ágætt að komast á Eyjafjarðarbrautirnar af honum. Ég hætti mér sjaldan í hina áttina, þ.e. út með Kræklingahlíð og áleiðis til Dalvíkur (eða Reykjavíkur) en mér stendur nokkur stuggur af því að hjóla á þjóðvegi 1. Í þessum hjóltúrum er myndavélin ævinlega með í för en það er líka eitthvað, sem ég hef unun af, að taka myndir af umhverfinu. Í svona hjóltúrum sameinast þannig ótalmörg hugðarefni, hjólreiðar, ljósmyndun, líkamsrækt, húsa-og mannvirkjasaga (ég tek oft myndir af gömlum húsum og brúm á þessum ferðum) og náttúrufræði því Eyjafjarðarsvæðið er ríkt af hinum ýmsu náttúrufyrirbrigðum, sem vert er að gefa gaum. En hér koma nokkrar svipmyndir, flestar teknar á hjóltúrum um nærsveitir Akureyrar laugardagana 7. og 21. október sl.
BYGGING LANDSINS- í bókstaflegri merkingu!
Ísland er myndað fyrir tilstuðlan eldvirkni síðustu 20 milljón ára eða svo. Elstu hlutar landsins eru Austfirðir og Vestfirðir en yngstu hlutarnir eru á Reykjanesskaga og við Kröflu. Eyjafjarðarsvæðið er talið um 7-10 milljón ára gamalt. Þar hefur verið óskapleg eldvirkni en það sést á því, að óvíða er að finna hærri fjöll, Tröllaskaginn nær mest rúmlega 1500 metra hæð í vestanverðum Eyjafirði, nánar tiltekið í hátindi Kerlingar. Hæð íslenskra fjalla ræðst að mestu leyti af því, hversu mikið efni hefur hlaðist upp.
Kerling, séð annars vegar frá Finnastaðaá og hins vegar af Eyjafjarðarbraut eystri. Bærinn fyrir miðju á myndinni til hægri heitir Alda. Strýtulaga hnjúkurinn á myndinni til vinstri kallast Jómfrú.
Þeir sem séð hafa klettabelti í fjöllum kunna að hafa veitt því athygli, að þau eru oftar en ekki í mörgum lögum. Mætti líkja þeim við lagköku (randalín) þar sem klettaböndin eru eins og botnarnir en malar- og jarðvegslög eins og sultan. Þarna er um að ræða hraunlagastafla frá myndun landsins. Á myndinni fyrir neðan má sjá allt að 40 slík lög frá efstu skriðum upp af fjallsbrúnum í fjallinu Tröllshöfða framarlega í Eyjafirði. Þarna er semsagt um að ræða hraunlög sem runnið hafa hvert ofan á öðru í fyrndinni. Á milli hvers gætu hafa liðið fáein ár en í flestum tilvikum eru líklega hundruð eða þúsundir ára milli hraunlaga. Á þeim tíma hefur myndast gróður og jarðvegur, sem síðan hefur orðið undir nýjum hraunum; þar eru komin millilögin.
Þarna hefur verið gríðarleg framleiðsla á hraunum, sem hlaðið hefur upp meira en kílómetra þykkum stafla, mörg þúsund ferkílómetra að flatarmáli. Eldvirkni byggði upp en síðar kom að roföflunum, þar sem mest munaði um ísaldarjökla. Þeir skópu dali og firði og þegar stuðnings þeirra naut ekki við, áttu fjallshlíðar til að gefa sig. Þannig var það t.d. í tilfelli Möðrufellsfjalls:
Í haustmorgunsólinni má mjög greinilega sjá hraunlagastaflann en aðeins á hluta fjallsins. Þannig er nefnilega mál með vexti, að fyrir einhverjum þúsundum ára var þarna ægilegt framhlaup sem "opnaði á" hraunlagastaflann sem þarna blasir við sem mikið hamrastál. Og það sem meira er, þetta hefur gerst tvisvar, því greina má aðra "hillu" eða skál ofar í fjallinu. Framhlaup þetta myndaði hólaþyrpingu, sem alsett er grettistökum og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957: 179-180) telur, miðað við athugun öskulaga, að neðra berghlaupið hafa átt sér stað fyrir 2500-3000 árum en það efra fyrir um 5-6000 árum.
ÝMISLEGT, EITT OG ANNAÐ
Við Sólgarð stendur kýrin Edda. Hún er stórvirki þúsundþjalasmiðsins Beate Stormo í Kristnesi. Edda var flutt á þennan stað sl. sumar og er nú sérlegt kennileiti á þessum slóðum. Það var auðvitað ekki hægt annað, en að fá mynd af sér með henni þegar við Árni Már Árnason vorum á ferðinni um fremri byggðir Eyjafjarðar þ. 8. ágúst sl.
Horft af brúnni. Nánar tiltekið brúnni við Halldórsstaði, fremstu brú yfir Eyjafjarðará og jafnframt þá einu sem er á einkavegi. Halldórsstaðir er jafnframt eini bærinn í Eyjafirði, þar sem heimreiðin liggur yfir Eyjafjarðará.
Horft NIÐUR af brúnni
Liðið haust hefur verið sérlega blíðviðrasamt. 21. október var veðrið líkt og á sumardegi en það er ekki sjálfgefið, að á þessum tíma árs viðri fyrir langhjólreiðar. (Það er reyndar ekki sjálfgefið yfir hásumarið heldur). Hér má sjá Hólavatn. Sumarbúðir KFUM og K nokkurn veginn faldar í trjágróðri nærri miðri mynd.
Ef marka má skiltið, má finna Sprengisand þarna í skógarrjóðrinu . Myndin er tekin við Hólsgerði, fremsta byggða ból Í Eyjafirði. Þangað eru 46 km frá Akureyri. Frá Hólsgerði eru líka um 290 kílómetrar til Selfoss! Það er, ef farið um Laugafell, Nýjadal, Skeið og Þjórsárdal.
Þessi mynd er tekin við heimreiðina að Villingadal. Sú heimreið er líklega með þeim lengri á landinu en hún er rúmir 2 kílómetrar og liggur um syðstu hluta Leyningshóla. Áin fyrir miðri mynd er Torfufellsá, en til vinstri á mynd eru einmitt hlíðar Torfufellsfjalls. Snævi þakta fjallið í miðjunni mun vera Leyningsöxl en um hana klofnar Torfufellsdalur í Svardal í vestri (vinstra megin á mynd) og Leyningsdal í austri. Raunar heitir dalurinn Torfufellsdalur austanmegin og Leyningsdalur vestanmegin.
VEGIR OG BRÝR
Fremsta brúin á Eyjafjarðarbraut eystri er yfir Torfufellsá. Þaðan eru 43 km til Akureyrar.
Þegar það spurðist út, að ég hyggðist gefa út bók um brýr yfir Eyjafjarðará var ég mikið spurður, hvort Hólabrú yrði með. En í bókinni eru aðeins þær brýr, sem yfir ána liggja á því herrans ári 2023. Hólabrú var mjó göngubrú; hengibrú úr timbri, plankar með sem héngu á vírum á milli árbakkana á merkjum Ártúns og Skáldsstaða. Brúin var byggð 1948 en tekin niður skömmu eftir aldamótin. Enn standa uppi af henni tveir staurar á austurbakkanum.
Elstu brýr yfir Eyjafjarðará, sem enn eru í notkun, eru jafngamlar, byggðar 1933. Um er að ræða Stíflubrú við Möðruvelli og Hringmelsbrú eða Bogabrúin við Sandhóla. Þessar myndir eru teknar 28. ágúst 2022.
Yfir eitt hrikalegasta gljúfur Eyjafjarðarsveitar, Munkaþverárgil, liggur hins vegar ein elsta, ef ekki allra elsta brú sem enn er í notkun á þjóðvegi. Hún er að stofni til frá 1913 en var endurbyggð 1958.
(Verðum við ekki að hlýða á "Bridge over troubled water" (Brú yfir ólgandi vatn) þeirra Simon og Garfunkel fyrst við erum að spá í þessar brýr).
Og ætli það sé þá ekki ágætt að ljúka þessari myndasýningu með nokkrum myndum, sem teknar eru á Eyjafjarðarbraut vestri og Hólavegi, undir yfirskriftinni "Country Roads" (Sveitavegir) John Denver.
Þar sem þessi færsla er að breytast úr myndasýningu í einhvers konar útvarpsþátt er kannski allt í lagi að deila með lesendum lagi, sem mér þykir alveg óskaplega gaman að hlusta á, þegar ég er á ferðinni um sveitavegina; "Fugitive" flutt af Merle Haggard. Að hafa þetta lag í "Bluetooth" hátalara, hangandi á stýrinu í bland við niðinn af dekkjunum um Eyjafjarðarbrautirnar á 25-30km hraða er eiginlega ólýsanlegt!
Bloggar | Breytt 8.12.2023 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2023 | 20:31
Hús dagsins: Grundargata 3
Sum hús hafa breyst meira en önnur gegnum tíðina. Grundargata 3 á Oddeyrinni tilheyrir líklega fyrrnefnda hópnum en tíðin sú slagar reyndar hátt í hálfa aðra öld í því tilfelli...
Grundargata 3 er eitt af elstu húsum Oddeyrar, en það var reist 1885-86 af Einari Sveinssyni og Jónatan Jósepssyni. Það var mögulega síðla í ágúst árið 1885 að Bygginganefnd kom saman á Oddeyri í tilefni af beiðni Einars Sveinssonar um leyfi til að byggja hús á lóð sem hann hafði fengið fyrir norðan hús Ólafs Jónssonar. Dagsetningu vantar í þessa tilteknu fundargerð bygginganefndar, en næstu tveir fundir á undan eru skráðir 20. og 24. ágúst, 1885. Húsið átti að vera 12x9 álnir (u.þ.b. 7,6x5,7m), 10 álnir frá grunni að úthýsi Ólafs og í beinni línu með íbúðarhúsi og hesthúsi hans að austan. Húsið átti að snúa frá norðri til suðurs. Á næstu árum og áratugum byggðust fleiri hús við götuna í þessari sömu línu með húsi Ólafs og fékk sú gata nafnið Grundargata. Umrætt hús Ólafs Jónssonar brann til grunna árið 1908.
Grundargata 3 er tvílyft timburhús, nyrsti hluti þess steinsteyptur, á lágum kjallara með lágu risi. Framhlið og stafnar eru múrhúðaðir en bárujárn á veggjum bakhliðar. Miðhluti hússins er eilítið inndreginn að aftan en síðari tíma viðbyggingar skaga örlítið út fyrir upprunalegan grunnflöt að aftan, útskot á suðurenda nokkru lengra. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki.
Í upphafi var hús Einars Sveinssonar, síðar Grundargata 3, töluvert öðruvísi en nú og lag þess líkast til ekki óáþekkt næsta húsi, Grundargötu 5, (sem var reyndar byggt rúmum áratug síðar). Það er, einlyft timburhús á lágum kjallara með háu risi. Einar Sveinsson hefur ekki átt húsið lengi, mesta lagi í fimm ár, en húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar. Í Brunabótavirðingu frá 1917 er Jónatan Jósepsson, sem byggt mun hafa norðurhlutann og bjó þar lengst af í norðurhluta hússins, einnig sagður hafa byggt suðurhluta þess. Það gæti jafnvel verið, að Jónatan hafi keypt eða tekið við byggingaleyfi Einars eða framkvæmdinni. Árið 1890 kallast húsið Jonathanshúsið og Edvaldshús og eru eigendur þess Jónatan Jósepsson, titlaður húsbóndi og erfiðismaður í manntali og Edvald Jónsson húsbóndi og beykir. Sá síðarnefndi mun hafa átt suðurhlutann. Í téðu manntali árið 1890 búa alls fjórtán manns í Jónatanshúsinu og Edvaldshúsi á Oddeyri, fjölskyldur þeirra Jónatans og Edvalds. Þess má geta, að árið 1890 báru tveir íbúar hússins titilinn erfiðismenn, en auk Jónatans var Ágúst Jónsson, 26 ára húsmaður hjá Eðvaldi Jónssyni, einnig titlaður erfiðismaður.
Jónatan Jósepsson (1854-1931) var múrari og mun lengi hafa verið sá eini í bænum. Hann var fæddur og uppalinn á Hólum í Saurbæjarhreppi. Á meðal barna Jónatans og konu hans, Jónínu Guðmundsdóttir (1854-1943) frá Akurseli í Kelduhverfi , var sonurinn Tryggvi. Hann var fæddur 15. apríl 1892, líkast til í þessu húsi. Tryggvi lærði múriðnina af föður sínum og hlaut meistararéttindi í þeirri iðn. Hann var einn af mikilvirkari húsateiknurum á Akureyri og á heiðurinn af mörgum húsum frá fyrri hluta 20. aldar m.a. á Oddeyri og neðri hluta Brekkunnar. Stór hluti Ægisgötunnar, heilsteypt röð einlyftra steinhúsa með valmaþaki og horngluggum, eru verk hans.
Í byrjun árs 1913 fær þáverandi eigandi suðurhlutans, Steinn Jóhannsson leyfi til byggingar, jafnbreiða húsinu og 5 álnir að lengd. Ári síðar, eða snemma árs 1914, sækir Jónatan Jósepsson um að stækka sinn hluta til norðurs og sú viðbygging var úr steinsteypu. Bygginganefnd setur sem skilyrði, að Jónatan semji við eiganda nábúalóðarinnar norðan við, þar eð viðbyggingin virðist ná inn á hana. Einnig setti nefndin það skilyrði, að ekki væru dyr, gluggar eða önnur op á norðurveggnum. Ekki liggja fyrir lýsingar, en ljóst að þessi viðbygging var tvílyft með lágu risi.
Í brunabótamati árið 1916 er suðurhluta Grundargötu 3 lýst á eftirfarandi hátt: Einlyftur með háu risi á lágum kjallara, lítill skúr áfastur við bakhlið, sameiginlegur með húshlutunum og geymsluskúr við suðurstafn. Á neðri hæð austanmegin (framhlið) voru stofa og hálf forstofa en vestanmegin eldhús og forstofa. Á lofti voru þrjú herbergi og gangur. Húsið sagt 6,9x5,7m að grunnfleti. Norðurhluti er metinn í tvennu lagi, annars vegar upprunalega húsið frá 1885 sem er sagt einlyft með háu risi og kjallara, innra skipulag nokkurn veginn það sama og í suðurhluta, nema hvað í risinu er aðeins eitt herbergi og gangur. Þessi hluti hússins er sagður 5,6x3,8m. Svo virðist, sem breidd norðurhlutans sé mæld meðfram götu (N-S) en breidd annarra hluta hússins þvert á götustefnu (A-V). Þetta sést á því, að breidd suðurhlutans (5,7m) er nokkurn veginn jöfn lengd norðurhluta (5,6m). Steinsteypta viðbyggingin er sögð tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu með lágu risi á lágum kjallara, 6,3x3,7m. Þar voru ein stofa, austanmegin og vestanmegin eldhús og forstofa. Á efri hæð tvær stofur og gangur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 234 og 235).
Árið 1920 fær Jóhann Steinsson leyfi til að byggja við suðurhlutann, ekki kemur þó fram í hverju sú viðbygging felst en fram kemur í Húsakönnun 1995 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 93) að þá hafi suðurhlutinn verið hækkaður, væntanlega til samræmis við nyrsta hluta hússins. Þá skagar syðsti hluti hússins eilítið út úr bakhlið upprunalega hússins, líkt og nyrsti hlutinn. Síðar var miðhlutinn hækkaður og húsið múrhúðað. Á tímabili var hluti norðurhluta hússins með háu risi og smáum kvisti en væntanlega fékk framhlið hússins núverandi útlit um 1964. Þá voru gerðar breytingar á húsinu, sem var í eigu Magnúsar Albertssonar, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Kemur þar fram að sá hluti hafi áður verið ein hæð og ris en ekki fullkomlega ljóst, hvort sú breyting sé þegar orðin eða hvort breytingarnar felist í því, að umræddur hluti sé hækkaður. Í téðri Húsakönnun frá 1995 kemur reyndar fram, að eftir 1920 hafi húsið allt verið orðið tvílyft og fengið það lag sem það enn hefur. Á ljósmynd frá 1931 má hins vegar sjá, að örlítil sneið af framhliðinni, líklega suðurhluti rishæðar upprunalega hússins, er með háu risi og kvisti. Það er allavega nokkuð ljóst, að oft hefur verið prjónað við Jónatans- og Eðvaldshúsið, sem byggt var 1885 og myndar nú nokkurs konar kjarna í Grundargötu 3.
Vegna mikilla breytinga hlýtur húsið ekki hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020 en er engu að síður hluti varðveisluverðrar heildar. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, en elsti hluti þess er í hópi allra elstu húsa Oddeyrar. Grundargata 3 er dæmi um hús, sem tekið hefur miklum breytingum og verið byggt í mörgum áföngum á mörgum áratugum. Miklar viðbyggingar og breytingar frá upphaflegri gerð hafa að öllu jöfnu áhrif á metin varðveislugildi húsa og teljast þá sjaldnast til tekna. En óneitanlega er það svo, að margviðbyggð og margbrotin hús eru ekkert síður áhugaverð. Margar og miklar viðbyggingar segja vissa sögu og oft skapa síðari tíma viðbyggingar viðkomandi húsum sérstöðu og gera þau í raun einstök. Myndirnar eru teknar 27. október 2023.
Tilgátuteikning höfundar af byggingaþróun Jónatans-og Edvaldshúss" eða Grundargötu 3. Á teikningunni er vitaskuld allir mögulegir fyrirvarar, t.d. varðandi kvisti, gluggapósta og dyrarskipan.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 70, 1885 (ódagsett). Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 374, 10. janúar 1913. Fundur nr. 387, 10. feb. 1913 Fundur nr. 476, 19. maí 1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2023 | 18:09
Hús dagsins: Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107)
Eftir síðustu grein um Gömlu Gróðrarstöðina hafði samband við mig Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ. Hann vann um tíma í Gróðrarstöðinni og ber húsinu vel söguna. Erindi hans var, að honum hafði áskotnast teikningar af Gróðrarstöðinni og koma því á framfæri að langafi hans, Guðlaugur Pálsson timbursmiður, hafi flutt inn efnið í húsið og stýrt byggingu þess. Þá muni nafn hans hafa sést letrað á fjalir inni í húsinu. Þannig var byggingameistari og mjög líklega hönnuður Gróðrarstöðvarinnar, Guðlaugur Pálsson. Þakka Jóni Birgi kærlega fyrir þessar ábendingar. En af Krókeyrinni færum við okkur á Oddeyrina...
Ránargata er ein þvergatnanna sem gengur norður frá Eiðsvallagötu á Eyrinni.Liggur hún samsíða og vestan við Ægisgötu en austan við Norðurgötu. Ránargata tók að byggjast uppúr 1930 en flest húsin við hana voru byggð á fimmta og sjötta áratugnum. Húsin eru flest nokkuð svipuð, tveggja hæða steinsteypt hús með lágum valmaþökum. En hús nr. 13, sem stendur á horninu við Eyrarveg sker sig dálítið úr. Það er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti, járnklætt á steyptum kjallara. Grunnflötur er um 16x8,70m. Byggingalagi þess svipar raunar mjög til elstu húsa Oddeyrar t.d. við Strandgötu, Norðurgötu og Lundargötu. Enda er um að ræða hús frá því skömmu fyrir aldamótin 1900, um hálfri öld eldra en nærliggjandi hús. Og það er aðflutt, stóð áður við Hafnarstræti 107, þar sem nú er aðsetur Sýslumanns og áður Útvegsbankinn.
Ránargötu 13, áður Hafnarstræti 107, reistu þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir árið 1897. Þess má geta, að hún var systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns. Húsið byggðu þau við fjöruborðinu í krikanum milli Oddeyrar og Bótarinnar. Var það eitt af fyrstu húsum sem risu á hinu langa og illfæra einskismannslandi er í þá daga aðskildi Akureyri og Oddeyri. Ekki var um neitt byggingarleyfi að ræða, enda segir í Jónsbók, að bygging hafi hafist áður en landið var lagt undir kaupstaðinn, en það var árið 1896. Var þá land Stóra-Eyrarlands á Brekkunni lagt undir lögsögu Akureyrarkaupstaðar. Fram að því tilheyrði brekkan milli Akureyrar (Innbæjarins) og Oddeyrar Hrafnagilshreppi, kaupstaðarlandið þannig í raun tvær hólmlendur inni í hreppnum. Það var hins vegar ekki fyrr en í febrúar 1897 að Júlíus keypti lóð milli Oddeyrar og Torfunefs með fyrirvara um nánari útmælingar. Það getur þó vel verið, að Júlíus hafi þegar hafið byggingu hússins árið áður enda þótt lóðin væri ekki í höfn formlega, en slíkt var ekkert einsdæmi. Á upphafsárum þéttbýlis á Oddeyri gátu meira að segja liðið nokkur ár frá því að hús var byggt og lóð var mæld út. Það var svo 6. apríl sama ár að lóðin var mæld út, 15 faðmar norður-suður og 22 faðmar austur-vestur. Söluverðið var 10 aurar á hverja fer-alin húsagrunns(63x63cm). Þá bættust við 10 aurar fyrir hvern faðm af annarri lóð, en höfum í huga að á þessum stað (þ.e. yst í Bótinni) var langt til næstu húsa árið 1897. Svo hæg voru heimatökin fyrir Júlíus, að stækka lóðina. Þá er rétt að geta þess, að ein alin er nálægt 63 centimetrum og faðmur var sagður 3 álnir (um 190cm). Þannig var lóð Júlíusar við Hafnarstræti 107 um 28x40m að stærð.
Júlíus Sigurðsson (1859-1936), sem fæddur var á Ósi í Hörgárdal, nam skipasmíðar hjá Snorra Jónssyni en við stofnun Gagnfræðaskóla á Möðruvöllum settist hann þar á skólabekk. Fékkst eftir það við barnakennslu, samhliða smíðum en réðst til Benedikts Sveinssonar (síðar tengdaföður Júlíusar) sýsluskrifara árið 1889. Þá fluttist hann til Akureyrar árið 1893 og gerðist þar amtsskrifari og amtsbókavörður. Þegar útibú Landsbankans var opnað á Akureyri árið 1902 var hann ráðinn útibústjóri og gegndi því starfi í nærri þrjá áratugi. Mestallan þann tíma, eða frá 1904-1931 var bankaútibúið starfrækt í Hafnarstræti 107. Þegar húsið var virt til brunabóta í lok árs 1916 var það sagt íbúðar- og bankahús einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara. Enda þótt húsið sé sagt bankahús er aðeins minnst á þrjár stofur og forstofur austanmegin (við framhlið) á neðri hæð, og tvær stofur, eldhús, búr og forstofu vestanmegin (við bakhlið). Væntanlega hefur útibúið verið starfrækt í einhverri stofanna. Á lofti voru alls sex herbergi, gangur og geymsla, en fimm geymslurými í kjallara. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var sagt járnklætt timburhús.
Þau Júlíus og Ragnheiður ræktuðu myndarlegan og gróskumikinn garð á suðurlóðinni og átti Ragnheiður fjós og dálítið tún í brekkunum bak við húsið og stundaði þar myndarbúskap og hafði karla í vinnu við hann. Það þótti dálítið sérstakt að konan sæi alfarið um búskapinn og segir Jón Sólnes (síðar ráðherra), sem vann um tíma í bankanum hjá Júlíusi, að Ragnheiður hafi yfirleitt ekki sést þegar hann heimsótti Júlíus. Hún var yfirleitt á kafi við bústörfin. Lýsandi fyrir það, var fleyg saga um tilsvar Júlíusar, þegar komið var nautið handa kúnum og hann einn heima við: Nú hvur andskotinn, nautið komið og Ragnheiður ekki heima! (Jón G. Sólnes (Halldór Halldórsson skráði) 1984: 22).
Júlíus lést árið 1936 og tveimur árum síðar flutti Ragnheiður í nýtt hús, sem hún hafði reist ofan við fyrrum tún sitt, við Bjarmastíg. Eignaðist þá Útvegsbankinn húsið við Hafnarstræti 107. Í febrúar 1953 birtist auglýsing frá Útvegsbankanum í bæjarblöðunum, þar sem húseignin Hafnarstræti 107 er boðin til sölu til niðurrifs og flutnings af lóð. Í maímánuði sama ár færir Bygginganefnd Akureyrar til bókar, að Karl Friðriksson og Jón Þorvaldsson fái aðra lóð vestan Ránargötu frá Eyrarvegi suður. Einnig, að þeir fái að flytja á lóðina gamla Íslandsbankahúsið, Hafnarstræti 107, þar sem ætlunin er að byggja það í sem líkustu formi og það er nú. Þurftu þeir að leggja fram teikningar, sem Jón Þorvaldsson gerði. Árið 1954 mun húsið hafa verið fullbúið á nýja staðnum. Nú ber heimildum raunar ekki saman, því í Sögu Akureyrar var það Árni Jakob Stefánsson sem kom að flutningi hússins ásamt Jóni Þorvaldssyni. Mögulega hefur Árni tekið við hlut Karls. En alltént voru Árni Stefán Jakobsson og fjölskylda hans búsett í húsinu eftir að það var orðið Ránargata 13. Húsið er nokkurn veginn í sömu mynd og þegar það stóð við Hafnarstræti nema hvað glugga- og dyraskipan hefur eitthvað verið breytt. En það er raunar ekki óalgengt þegar í hlut eiga hús á þessum aldri, óháð því hvort þau hafa verið flutt eða ekki. Í húsinu eru tvær íbúðir og mun svo hafa verið síðan húsið var flutt hingað.
Ránargata 13 er stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Það setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt og nokkuð einstakt í götumyndinni enda miklum mun eldra hús og af allt annarri byggingargerð en nærliggjandi hús. Svo skemmtilega vill til, að gegnt húsinu, stendur langyngsta hús götunnar, Ránargata 14, sem byggt er 1985. Ránargata 13 er væntanlega aldursfriðað og hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020. Það er ætíð æskilegra, ef hús verða að víkja, að þau séu flutt heldur en að þau séu rifin. Hið stórmerka hús þeirra Júlíusar Sigurðarsonar og Ragnheiðar Benediktsdóttur, sem víkja þurfti fyrir nýbyggingu Útvegsbankans, stendur enn með prýði og glæsibrag, þökk sé þakkarverðu framtaki stórhuga manna fyrir 70 árum síðan.
Myndirnar eru teknar þann 17. febrúar 2023.
Heimildir:
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020 (minjastofnun.is)
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-53. Fundur nr. 1168, 18. maí 1953. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.
Jón Hjaltason (2004) Saga Akureyrar 4.bindi: Vályndir tímar. Akureyrarbær.
Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt 14.10.2023 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2023 | 17:18
Hús dagsins: Gamla Gróðrarstöðin á Krókeyri
Ein af eyrunum undir Akureyrarbrekkunum er Krókeyri. Líkt og hin eiginlega Akureyri er Krókeyrin að mestu orðin umlukin síðari tíma uppfyllingum. Á Krókeyri er m.a. safnasvæði Iðnaðarsafnsins og Mótorhjólasafnsins auk græns unaðsreits sem e.t.v. fáir vita af, þ.e. Gróðrarstöðvarreiturinn. Þar stendur einnig háreist timburhús frá upphafi 20. aldar, Gamla Gróðrarstöðin. Það var reist af Ræktunarfélagi Norðurlands, undir forystu Sigurðar Sigurðarsonar.
Gamla Gróðrarstöðin er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi. Á bakhlið, nær norðurstafni er mjótt útskot (stigabygging) sem nær upp að þakbrúnum. Allt er húsið járnklætt, veggir jafnt sem þak og krosspóstar í flestum gluggum. Á framhlið neðri hæðar eru póstarnir víðari með margskiptum póstum. Bretti eða bönd eru undir gluggum og eru þau samfelld eftir hliðum hússins og sams konar bönd eru á efstu hæðarskilum undir stöfnum. Á þakskeggjum og þakbrúnum má sjá skreytta, útskorna sperruenda en slíkt var meðal einkenna katalóg- eða sveitserhúsa, veglegra húsa, sem komu tilsniðin frá Noregi. Húsið mælist um 11x8m á kortavef og útskot nærri 2x2m.
Um aldamótin 1900 átti sér stað ákveðin vakning í trjárækt á Eyjafjarðarsvæðinu og raunar landinu öllu. Um var að ræða mikið brautryðjendastarf en trú manna á slíkri ræktun hérlendis hafði framan af verið takmörkuð. (Trúlega hefðu fáir trúað því þá, að eftir rúma öld yrðu Akureyrarbrekkurnar bókstaflega viði vaxnar milli Stóra- Eyrarlands og fjöru). Hluti þessarar skógræktarbyltingar var stofnun Ræktunarfélags Norðurlands árið 1903 að frumkvæði Sigurðar Sigurðarsonar frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Hann hafði verið ráðinn skólastjóri landbúnaðarskólans á Hólum haustið 1902. Á meðal nýjunga, sem hinn ríflega þrítugi Fnjóskdælingur stóð fyrir, voru sérstök námskeið fyrir bændur. Var það á einu slíku, á útmánuðum 1903, sem hugmyndin að Ræktunarfélaginu varð til og þann 26. mars bundust 46 norðlenskir bændur þar fastmælum um stofnun Ræktunarfélagsins og greiðslu fjárframlags, sem samanlagt nam 500 krónum. Formlegur stofnfundur var svo haldin 11. júní um sumarið og skipuðust æðstu embætti þannig, að formaður var Páll Briem amtmaður, téður Sigurður Sigurðsson gjaldkeri og ritari var Stefán Stefánsson skólameistari (sbr. Steindór Steindórsson 1952:2-3).
Ræktunarfélagsmenn tvínónuðu ekki við hlutina, því um vorið 1903, nokkru fyrir formlega stofnun, hófust þeir handa við jarðvinnu, girðingarvinnu og sáningu á 25 dagsláttu (um 8 hektara) landi, sem Akureyrarbær lét félaginu í té, í Naustagili og við Krókeyri. Var þessi velgjörningur bæjarins, sem afgreiddur var 17. júní 1903, kvaðalaus með öllu, að öðru en því, að landið skyldi tekið til notkunar samkvæmt tilgangi félagsins innan 5 ára, að öðrum kosti félli það aftur til bæjarins (Steindór Steindórsson 1952:11). Mjög fljótlega, líklega allt frá upphafi, sáu Ræktunarfélagsmenn nauðsyn þess, að byggja hús á svæði sínu sem hýsa ætti tilraunastöð. Var það á Aðalfundi félagsins í maí 1905 sem samþykkt var að [...] félagið verji alt[svo] að 7000 krónum til að byggja hús í líkingu við það sem teikning 1 segir (Stefán Stefánsson 1906:9). Því miður fylgir ekki sögunni hver gerði umrædda teikningu 1. Mögulega var um að ræða teikningar frá norskum katalógum og húsið komið tilhöggvið, eða hönnun þess byggst á katalóghönnuninni. Teikningar frá byggingu hússins virðast ekki hafa varðveist en á vef Héraðsskjalasafnsins má finna teikningu af húsinu (ath. þarf að fletta aftast í skjalið) frá því að rafmagn var lagt í það fyrst. Það hefur væntanlega verið árið 1922 en þá um haustið var rafmagni frá Glerárvirkjun hleypt á Akureyri.
Þann 2. nóvember um haustið [1905] hélt Bygginganefnd Akureyrar fund á lóð Ræktunarfélags Norðurlands og bókaði, að félaginu væri leyft, eftir beiðni sinni, að reisa íbúðarhús, tvílyft timburhús á háum kjallara, 10 álnir (6,3m) frá girðingu. Austurhlið í réttri stefnu við girðingu og norðurhlið í réttri stefnu við stólpa norðanmegin við girðingarhliðið. Húsið 16 álnir að lengd og 12 álnir að breidd (u.þ.b. 10x7,5m). Á aðalfundi Ræktunarfélagsins þann 21. júní 1906 sagði Aðalsteinn Halldórsson [...]frá húsbyggingu félagsins í tilraunastöð þess á Akureyri, og sem nú er vel á veg komin. Jafnframt lagði hann fram uppdrátt af húsinu (Stefán Stefánsson 1907:14). Ekki var greint frá höfundi uppdráttar, frekar en fyrri daginn, en freistandi að giska á, að Aðalsteinn Halldórsson hafi verið byggingarstjóri hússins og gert að því endanlega teikningu. Aðalsteinn (1869-1941), sem fæddur var að Björk í Öngulsstaðahreppi, var á þessum tíma forstjóri Tóvélaverksmiðjunnar á Gleráreyrum. Hann var síðustu ár ævi sinnar bóndi í Reykhúsum í Hrafnagilshreppi. Húsinu, sem fullbúið var sumarið 1906, er lýst í þessu sama ársriti: Aðalhúsið er allstórt og vandað 16 ál. langt og 12 ál. breitt tvílyft með 4 ál. háum steinkjallara. Þar er kenslustofa[svo] og svefnherbergi fyrir nemendur og verkamenn, íbúð fyrir aðalstarfsmann, skrifstofa, tilraunastofa, frægeymsluherbergi og gott rúm í kjallara fyrir verkfærasýningu. Húsið var virt í vetur albúið 7,925 krónur (Stefán Stefánsson 1907:7).
Þannig var þetta hús nokkurs konar fjölnotahús þ.e. skóli, heimavist, vinnubúðir og íbúðarhús fyrir tilraunastjóra. Húsið virðist fyrst birtast í manntölum bæjarins árið 1909 og þá undir nafninu Ræktunarfélag Norðurlands. Þar er efst á blaði Þóra Sigurðardóttir húsfrú, þrjú börn og tvær vinnukonur (einnig sögð búsett á Hólum í Hjaltadal). Páll Jónsson, 26 ára ráðsmaður, er einnig þarna búsettur og þá Jóninna Sigurðardóttir sem titluð er skólastýra, auk ellefu námsmeyja. Á þessum árum fór fram matreiðslukennsla í Gróðrarstöðinni, sem Jóninna annaðist. Jóninna Sigurðardóttir var valinkunn fyrir frumkvöðlastarf sitt á sviði heimilisfræði og matreiðslukennslu og sendi frá sér, líklega einu fyrstu matreiðslubók sem gefin var út á íslensku, Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka, árið 1915. Það ár settist önnur merk kona að í Gróðrarstöðinni, Guðrún Þ. Björnsdóttir frá Veðramóti en hún annaðist garðinn og kenndi garðyrkju í Gróðrarstöðinni til ársins 1923, að hún gerðist skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi. Guðrún mun hafa verið fyrsta lærða garðyrkjukonan á Íslandi. Guðrún giftist Sveinbirni Jónssyni byggingameistara, sem löngum var kenndur við Ofnasmiðjuna. Árið 1924 tók Jóna M. Jónsdóttir við umsjónarstarfi garðsins og gegndi hún því í tvo áratugi eða til 1946 (Bjarni og Sigurður 2000:33). Það sama ár réðst til Gróðrarstöðvarinnar Ólafur Jónsson (1895-1980) sem forstöðumaður. Hann var fæddur að Freyshólum í Vallahreppi, S-Múlasýslu og stundaði á árunum 1917-'24 nám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn, eftir útskrift frá Hvanneyri. Var hann valinkunnur fyrir störf sín sem forstöðumaður og tilraunastjóri Gróðrarstöðvarinnar og sem ráðunautur Búnaðarsambands Eyjafjarðar og Sambands nautgriparæktenda. Hann var formaður fyrrnefndu samtakanna frá stofnun í rúma tvo áratugi, 1932 til 1954. Hann stundaði auk þess jarðfræðirannsóknir m.a. í Ódáðahrauni, auk rannsókna á eðli berghlaupa, skriðufalla og snjóflóða. Gaf hann þær rannsóknir út í samnefndum ritverkum, á 5. og 6. áratug sl. aldar; Skriðuföll og snjóflóð, Ódáðahraun og Berghlaup. Skriðuföll og snjóflóð eru líklega einhver ítarlegasti fræði og sagnabálkur um ofanflóð sem völ er á og hafa bækurnar verið endurútgefnar a.m.k. einu sinni. Það má geta sér til, að einhvern hluta þessara ritverka hafi hann ritað innan veggja Gróðrarstöðvarinnar.
Árið 1916 var Gróðrarstöðin virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Kjallari var hólfaður í fimm rými tvö að framan (austan) og þrjú að aftan. Á neðri hæð, sem kölluð var gólf voru fjögur herbergi og forstofa, þar af þrjú herbergi við bakhlið. Á efri hæð eða lofti voru alls fjögur herbergi og eldhús, það síðarnefnda undir bakhlið. Á rishæð eða efralofti voru alls þrjú herbergi, tvö norðanmegin og eitt sunnanmegin. Alls voru í húsinu tvær eldavélar og fjórir kolaofnar. Ennfremur Við bakhlið hússins er skúr er nær upp að veggbrún, í honum er stigi upp á efraloft. Við suðurgafl hússins er aðaltrappa (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 1). Mál hússins voru sögð 10x7,8m, hæðin 12,6m og þess getið, að 33 gluggar voru á húsinu. Allt var húsið járnklætt. Hér má sjá mynd af Gróðrarstöðinni sem líklega er tekin skömmu eftir byggingu hússins. (Á Sarpinum segir að myndin sé tekin á bilinu 1925-32 en það stenst tæplega, því eins og sjá má í brunabótamatinu var húsið allt járnklætt árið 1916. Á fyrrnefndu árabili var auk þess vaxinn upp töluverður trjágróður í kringum húsið).
Förum nú hratt yfir sögu. Um margra áratuga skeið fóru fram plönturannsóknir og tilraunir í Gróðrarstöðinni, á vegum Ræktunarfélagsins í rúma fjóra áratugi en árið 1947 tók ríkið við umsjón með þeirri starfsemi. Þá var búið í húsinu um áratugaskeið, m.a. var hér íbúð forstöðumanns tilraunastöðvarinnar. Árið 1952 keypti Tilraunaráð ríkisins hins vegar húsið Háteig, næsta hús sunnan við Gróðrarstöðina og varð það íbúðarhús tilraunastjóra. Síðustu áratugi hefur Gróðrarstöðin fyrst og fremst verið skrifstofuhúsnæði. Árið 1974 fluttist tilraunastarfsemin á Möðruvelli í Hörgárdal og eignaðist Akureyrarbær þá húsið. Um árabil, eða til ársins 2001, hýsti húsið Garðyrkjudeild og síðar Umhverfisdeild Akureyrarbæjar. Frá árinu 2005 hefur Gamla Gróðrarstöðin verið aðsetur Akureyrarskrifstofu Skógræktar ríkisins. Þannig er skemmst frá því að segja, að alla þessa öld og tæplega tvo áratugi betur hefur húsið verið aðsetur gróður- og trjáræktartengdrar starfsemi. Húsið hlaut gagngerar endurbætur á vegum Fasteigna Akureyrarbæjar á fyrsta áratug 21. aldar, járn endurnýjað á veggjum og þaki og skipt um fúna viði í burðavirki og nú er húsið allt hið glæstasta og nánast sem nýtt væri.
Gamla Gróðrarstöðin er vitaskuld aldursfriðuð þar eð hún er byggð fyrir 1923 en sögulegt gildi hússins í sögu búnaðar- og trjáræktar hlýtur að vera all verulegt. Gamla Gróðrarstöðin er sérlega skemmtilegt hús, háreist og glæst hús sem nýtur sín vel þrátt fyrir að vera umvafið trjágróðri. Má segja að það að garðurinn og húsið myndi einskonar órofa heild. Gróðrarstöðvarreiturinn er auðvitað mikill unaðsreitur en virðist ekki sérlega fjölsóttur og er þannig einhvers konar leynd, græn perla í sunnanverðum Innbænum. Saga hans spannar 120 ár og er samofin sögu Gróðrarstöðvarinnar. Um Gróðrarstöðvarreitinn, ræktunarstarfsemina og tilraunirnar sem fram fóru í Gróðrarstöðinni á síðustu öld væri hægt að skrifa langan pistil, sjálfsagt þykka bók, en sá sem þetta ritar lætur duga hér, að birta nokkrar svipmyndir úr unaðsreitnum við Gróðrarstöðina.
Myndirnar eru teknar 29. maí 2010, 26. apríl 2020 og 9. september 2023. Þá eru einnig svipmyndir úr trjáskoðunargöngu sem Skógræktin stóð fyrir þann 31. ágúst 2014, undir leiðsögn Bergsveins Þórssonar og Sigurðar Arnarsonar.
Brjóstmyndir af tveimur forvígismönnum Ræktunarfélags Norðurlands, Páli Briem og Sigurði Sigurðssyni.
Heimildir:
Bjarni Guðleifsson, Sigurður Blöndal. 2000. Gróðrarstöðin á Akureyri. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. (bls. 33) Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 303, 2. nóv 1905. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.
Stefán Stefánsson. 1906. Fundargerð frá Aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands 25.-27. maí 1906. Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 3. árg. 1905 (útg. 1906) bls. 3-9. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111788#page/n5/mode/2up
Stefán Stefánsson. 1907. Fundargjörð frá Aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands 21.-22. júní 1906. Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 4. árg. 1906 (útg. 1907) bls. 13-17. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111905#page/n0/mode/2up
Stefán Stefánsson. 1907. Ræktunarfélagið (Yfirlit). Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 4. árg. 1906 (útg. 1907) bls. 3-12. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111905#page/n0/mode/2up
Steindór Steindórsson 1953. Ræktunarfélag Norðurlands 1903-1953. ÍÍ Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 2. hefti 49 -50. árg. 1952 (útg. 1953) bls. 3-54. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3115780#page/n0/mode/2up
Ýmislegt af timarit.is og herak.is, sjá tengla í texta. Heimilda sem vísað er í beint (orðrétt) er sérstaklega getið í heimildaskrá.
Bloggar | Breytt 18.5.2024 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2023 | 16:08
BÓK Á LEIÐINNI: Brýrnar yfir Eyjafjarðará
Væntanleg er frá undirrituðum bókin BRÝRNAR YFIR EYJAFJARÐARÁ.
Eins og nafnið gefur til kynna er umfjöllunarefnið brýr sem spanna fljótið Eyjafjarðará. Er ánni Eyjafjarðará fylgt eftir, nokkurn veginn frá upptökum til ósa, milli brúa og hver kafli miðast við eina brú. Hver brú fær 2-3 bls þar sem birtast myndir af brúnum og þeirra nánasta umhverfi. Ekki er þannig um að ræða ítarlega, sögulega umfjöllun eða nákvæmar lýsingar á byggingargerð brúnna heldur fyrst og fremst svipmyndir af brúnum og þeirra nánasta umhverfi, nokkurs konar "ör-byggðalýsing" af Eyjafirði sem hverfist fyrst og fremst um Eyjafjarðará og brýrnar yfir hana. Þá er rétt að nefna, að umfjöllunin miðast við fyrst og fremst við þær brýr sem liggja yfir ána á því herrans ári 2023.
Í þessum skrifuðu orðum er bókin í prentun. Um er að ræða lítið rit með myndum og smáræðis fróðleiksmolum sem ég hef tekið saman um brýrnar sem spanna Eyjafjarðará (auk þess fá tvær aðrar brýr að "fljóta með"). Á þessu hausti eru liðin 100 ár frá því að Eyjafjarðará var brúuð með brúnum þremur yfir hólmana og tvær aðrar brýr fremra eiga níræðisafmæli í ár, svo það er ærið tilefni til þessarar útgáfu nú.
Um árabil hef ég, eins og lesendur þessarar síðu vita, ljósmyndað hús og tekið saman um þau söguágrip, en einhvern tíma hugkvæmdist mér að ljósmynda eina af gömlu brúnum á Þverbrautinni svokölluðu. Síðar meir tók ég myndir af fleiri brúm og í hjóltúr þann 29. ágúst 2020 ákvað ég, að ná ljósmyndum af öllum brúnum sem ég átti eftir. Átti ég þannig myndir af öllum brúnum yfir ána. Þá kom upp þessi hugmynd, að taka þær saman í lítið rit. Afrakstur þessa "brúaleiðangurs" birtist skömmu síðar á þessari síðu.
Leið og beið, og á næstu misserum dundaði ég mér við að setja saman myndir og texta, þannig að úr yrði bók. (Í og með var tilgangurinn einnig sá, að æfa mig í að setja húsaskrif þessarar síðu upp á sama hátt). En ég kunni ekkert að gefa út bækur, svo handritið lá bara óhreyft í tölvunni. Í ágúst 2022 fékk ég símtal frá Kristínu Aðalsteinsdóttur, sem bauð mér til samstarfs við gerð bókarinnar, sem fékk heitið Oddeyri Saga hús og fólk (og er til sölu í Eymundsson og hjá okkur höfundum, svo það komi fram). Það farsæla og gifturíka samstarf leiddi mér fyrir sjónir, að bókaskrif og útgáfa væri bara merkilegt nokk, yfirstíganlegt verkefni. Og upplagt væri, að rit um brýrnar yfir Eyjafjarðará kæmi út árið 2023 en í ár eru liðin 100 ár frá því að brýrnar yfir óshólmana, Þverbrautin voru teknar í notkun!
Auk brúnna yfir Eyjafjarðará fá tvær aðrar brýr í Eyjafirði nokkurs konar heiðursess í bókinni í viðauka. Bókin verður 57 bls. kilja í A5 broti, verð er ekki ákveðið en það sem ég er með í huga er eitthvað um 3000 eða 3500 (endanlegt verð verður gefið upp þegar bókin kemur úr prentun).
Hægt er að panta eintak af Brúnum yfir Eyjafjarðará á netfanginu hallmundsson@gmail.com eða í síma 864-8417. Einnig er hægt að panta eintak af Oddeyri Saga hús og fólk.
Hér eru nokkur sýnishorn af bókinni en athugið, að þetta er óyfirlesnu handriti svo einhverjar setningar gætu orðið öðruvísi í endanlegri útgáfu...(ATH. Það þarf að smella á myndirnar, til þess að sjá þær í betri upplausn).
Að sjálfsögðu fer þetta rit ekki varhluta af áhuga höfundar á gömlum húsum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2023 | 18:06
Hús dagsins: Litli-Hvammur
Í sumar hafa Hús dagsins verið stödd í Eyjafjarðarsveit. Nú fer að hausta og færist umfjöllunin í kaupstaðinn aftur. Næsta sumar (eða jafnvel fyrr, ef þannig liggur á síðuhafa) er síðan aftur ætlunin, að senda Hús dagsins í sveit. En hér er nyrsta hús Eyjafjarðarsveitar að vestanverðu.
Þegar ekið er suður Drottningarbrautina á leið fram í sveit blasir götumynd Aðalstrætis við á hægri hönd, einlyft timburhús með risþökum. Rétt sunnan við merki Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar, skammt frá þar sem Kjarnaskógi sleppir, blasir við vegfarendum látlaust og snoturt hús í svipuðum stíl og húsin við Aðalstrætið og gæti vel átt heima í þeirri götumynd. Hér er þó ekki um að ræða allra, allra syðsta hús Innbæjarins heldur ysta hús Eyjafjarðarsveitar vestan ár. Húsið er látlaust og snoturt timburhús frá öðrum áratug 20. aldar, Litli-Hvammur.
Litli-Hvammur stendur í brekku nokkurri skammt ofan Eyjafjarðarbrautar vestri. Á brekkubrúninni ofan hússins eru tún býlisins Hvamms. Brekka þessi er raunar syðsti hluti mikilla og víðlendra hlíðalendna undir Lönguklettum og Súlumýrum þar sem m.a. eru Kjarnaskógur, Naustahverfi og Brekkan á Akureyri. Þarna er um að ræða sköpunarverk ísaldarskriðjökla eins og svo margt í Eyjafirðinum. Það er rétt hægt að ímynda sér, að á ýmsu hefur gengið, þegar ísaldarjöklar skópu úr gríðarmiklum hraunlagamassa það stórskorna umhverfi, sem nágrenni Akureyrar og Eyjafjörðurinn er. En það hefur líka tekið hundruð þúsunda eða milljónir ára. En byggingartími timburhússins í Litla Hvammi hefur væntanlega aðeins mælst í mánuðum, nánar tiltekið einhverjum mánuðum áranna 1915 og 1916.
Litli-Hvammur er einlyft timburhús á lágum kjallara. Það er bárujárnsklætt, veggir og þak og með krosspóstum í gluggum. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með háu risi og skagar hún eilítið út fyrir norðvesturhorn hússins. Á kortavef map.is mælist grunnflötur hússins um 7x6m, útskot um 4x5m; 2x3m meðfram bakhlið og 2x4m útfrá norðurstafni. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar 1990 er húsið alls 142 fermetrar en í sams konar ritverki 20 árum fyrr eru húsin mæld í rúmmetrum og er húsið þá sagt 280 rúmmetrar (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:261 og Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722).
Það mun hafa verið árið 1915 að þau Jón Guðlaugsson og María Árnadóttir frá Bjargi í Glæsibæjarhreppi stofnuðu nýbýli á 10 hekturum, nyrst í landi Hvamms, þar sem Jón var fæddur og uppalinn. Áður höfðu staðið þarna íveruhús fyrir húsmennskufólk, mögulega frá árinu 1906 en ábúendatal Litla-Hvamms í Byggðum Eyjafjarðar nær aftur til þess árs. Árið eftir stofnun nýbýlisins var húsið risið og munu þau Jón og María hafa búið þar til ársins 1920, að Aðalsteinn, bróðir Jóns, fluttist hingað. Litli Hvammur hefur væntanlega aldrei talist stórbýli, enda landrými nokkuð takmarkað til framfærslu búpenings. Árið 1933 var Litli-Hvammur metinn til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt. Ein hæð með porti. Á aðalhæð 4 herbergi og forstofa. Tvö herbergi á lofti. Skúr-andyri [svo] við húsið (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.10). Húsið allt sagt úr timbri að því undanskildu, að helmingur kjallaragólfs var steyptur. Miðstöð var í kjallara hússins en steinolía notuð til lýsingar. Mál hússins voru skráð 7x6,3m en hæð 6,2m. Eigandi árið 1933 var Guðbrandur Ísberg. Ábúendaskipti virðast nokkuð tíð í Litla- Hvammi á fyrri helmingi 20. aldar og tvisvar fór bærinn í eyði þ.e. árabilin 1932-36 og 1937-40 en árið 1940 flytja Valdemar Antonsson frá Finnastöðum og Áslaug Jóhannsdóttir frá Garðsá í Litla-Hvamm (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722-24). Húsið hefur auðvitað mestalla tíð verið einbýlishús en á tímabili þjónaði það einnig sem skólahús. Í Litla-Hvammi var nefnilega rekinn heimavistarskóli á vegum Hrafnagilshreppsins á árunum 1946-48, var þá kennt á neðri hæð en nemendur bjuggu í tveimur herbergjum í risinu (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722). Ábúendur árin 1948-63 voru þau Halldór Guðlaugsson frá Hvammi og Guðný Pálsdóttir frá Möðrufelli, en Halldór var bróðir téðs Jóns Guðlaugssonar sem stofnaði nýbýlið og byggði íbúðarhúsið. Er þau Halldór og Guðný brugðu hér búi árið 1963 lauk hefðbundnum búskap í Litla-Hvammi.
Þegar Byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil á prenti miðaðist það við árið 1970 og var búskapur þá þegar aflagður í Litla-Hvammi. Þá voru ábúendur þau Jóhann Pálmason frá Teigi og Helga Jónsdóttir frá Klauf í Öngulsstaðahreppi. Þá stóðu, auk íbúðarhússins, fjós úr steinsteypu, braggahlaða og geymsla úr steini og asbesti. Túnstærð var 5,66 hektarar og túnin leigð öðrum bændum til slægna. Kemur þar fram, að þegar búfé var í Litla Hvammi hafi beitiland verið sameiginlegt með Hvammi (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:261). Þá hafa einnig verið nautgripir í Litla Hvammi, þar stóð fjós fyrir tíu kýr. Nú eru fjós, hlöður og geymslubyggingar sem stóðu við Litla-Hvamm árið 1970, löngu horfnar. Árið 1985 fer Litli-Hvammur í eyði í þriðja sinn á 20. öld og var þá jörðin sameinuð móðurjörðinni þ.e. Hvammi (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722-24). Tveimur árum síðar flytja hins vegar hingað þau Hallgrímur Indriðason frá Espihóli og Lilja Jónsdóttir frá Vaglagerði í Akrahreppi. Höfðu þau starfað við Kristneshæli um árabil, hann sem smiður en hún við símavörslu en nýlega farið á eftirlaun. Endurbyggðu þau húsið af miklum myndarbrag og ræktuðu myndarlega upp í umhverfi þess. Auk þess héldu þau fáein hross, en árið 1990 eru tvö hross skráð sem búrekstur í Litla-Hvammi. Hafa þau verið hýst í hesthúsi, sem byggt var 1942 og stendur enn skammt norðan við íbúðarhúsið. Sigrún Klara Hannesdóttir, tengdadóttir þeirra hjóna, skrifar eftirfarandi í minningargrein um Hallgrím í dagblaðinu Degi í mars 1998: [...] ákváðu þau að festa kaup á Litla-Hvammi, sem þá var orðinn heldur hrörlegur bær við jaðar Kjarnaskógar. Fannst mörgum það hið mesta óráð og að vart yrði þar aftur um mannabústað að ræða. En Hallgrímur Indriðason hélt sínu striki, sem endranær, og endurbyggði húsið af þvílíkum dugnaði að athygli vakti (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1998:VI). Hlutu þau Hallgrímur og Lilja viðurkenningu Eyjafjarðarsveitar fyrir fagurt umhverfi og snyrtimennsku árið 1997. Hallgrímur lést ári síðar og flutti Lilja þá til Akureyrar.
Í Byggðum Eyjafjarðar 2010 er Litli-Hvammur á meðal eyðibýla í Eyjafjarðarsveit, og sagður í eyði frá 1998. Eigendur þá eru Kristín Hallgrímsdóttir og Grétar Sigurbergsson (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:623). Þá er húsið reyndar sagt 193 fermetrar en sem fyrr segir, var það sagt 142 fermetrar í Byggðunum 1990. Hvernig skyldi standa á því? Ekki var húsið stækkað í millitíðinni. Því er til að svara, að í Fasteignaskrá er íbúðarhúsið sagt 142,4 fermetrar en hesthúsið norðan við íbúðarhúsið 50,7 fermetrar. Þannig virðist þessar tvær stærðir vera lagðar saman í samantektinni árið 2010.
Enda þótt ekki hafi verið formleg eða föst búseta í Litla-Hvammi hefur húsið verið nýtt af eigendum þess og haldið við, og það með miklum sóma. Húsið stendur á skemmtilegum stað í brekkunni sunnan Kjarnaskógar og er raunar umfaðmað gróðri og brekkan umlukin ræktarlegum trjágróðri, sem þau Hallgrímur Indriðason og Lilja Jónsdóttir hafa væntanlega gróðursett á sínum tíma. Húsið er til mikillar prýði sem nokkurs konar útvörður vestanverðrar Eyjafjarðarsveitar í norðri, fyrsta húsið sem blasir við vegfarendum þegar bæjarmörkum Akureyrar sleppir. Litli-Hvammur er væntanlega aldursfriðaður, þar sem húsið er byggt fyrir árið 1923. Myndirnar eru teknar 20. maí 2016, 4. desember 2022 og 9. september 2023.
Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Sigrún Klara Hannesdóttir. 1998. Hallgrímur Indriðason (minningargrein). Í Degi, 56. tbl. 82. árgangur (Blað 3: Íslendingaþættir) bls. VI. Akureyri: Dagsprent (sótt á timarit.is)
Bloggar | Breytt 10.9.2023 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2023 | 18:56
Hús dagsins: Hvassafell
Sunnan hæsta fjalls Eyjafjarðar, Kerlingar, standa einnig há og brött fjöll eða fjallabálkar og milli þeirra djúpir dalir sem liggja þvert á Eyjafjörðinn, eða austur-vestur. Næst sunnan Kerlingar er Finnastaðadalur og Möðrufellsfjall en sunnan þess er Skjóldalur og Hvassafellsfjall. Fjöll þessi tengjast hinu mikla fjalllendi, er tengist Glerárdal í norðri og Öxnadal í vestri og ná allt að 1400 metra hæð. Á þessu svæði hafa einhver ósköpin öll gengið á í fyrndinni, gífurleg eldvirkni í milljónir ára hefur hlaðið upp margra tuga laga víðáttumiklum hraunstafla. Löngu síðar, á hundruðum þúsunda eða milljónum ára hafa ísaldarjöklar grafið og tálgað hina stórskornu dali í jarðlagastaflann mikla og þegar þeir hopuðu hafa sumar hlíðarnar gefið sig með ofsafengnum berghlaupum. Reginöfl þessi hafa skapað sérlega geðþekka og fallega sveit, sem undir Hvassafellsfjalli og þar suður af kallast Undir fjöllum. Þar má m.a. finna bæinn Hvassafell sem Hvassafellsfjallið heitir eftir og þar stendur sérlega reisulegt, tæplega aldargamalt steinhús.
Íbúðarhúsið í Hvassafelli er einlyft steinhús, byggt 1926, á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Margskiptir krosspóstar eru í gluggum en þeir eru nýlegir og væntanlega í samræmi við upphaflegt útlit hússins, en lengi vel voru þverpóstar í gluggum. Húsið, sem er í eðli sínu einföld og látlaus steinsteypuklassík, prýðir nokkuð skraut. Undir rjáfri á stöfnum og kvisti eru einnig bogalaga smágluggar, smáatriði sem engu að síður hafa mikið að segja um heildarútlit og svip hússins. Á stöfnum og kvisti eru bogadregnir steyptir kantar og toppar, áhrif frá svokölluðum nýbarrokkstíl og var nokkuð algengt í steinhúsum þess tíma sem húsið er byggt. Grunnflötur hússins er nálægt 12x9m auk 2x2m útskots á bakhlið.
Hvassafell stendur sem fyrr segir undir Hvassafellsfjalli, í langri og aflíðandi hlíð neðan fjallsins. Bærinn stendur nokkurn veginn beint neðan við fremsta hnjúk Hvassafellsfjall, sem kallast Hestur og er um 1200m hár. Hæstu hlutar fjallabálksins vestur af Hvassafellsfjalli ná yfir 1300 metra hæð ofan Nautárdals, langt inni á Skjóldal. Að heimreiðinni, sem er um 190 metra löng, eru um 4 kílómetrar að Eyjafjarðarbraut vestri um Dalsveg en sé farinn Finnastaðavegur er vegalengdin að sama vegi 7,5km. Frá miðbæ Akureyrar eru um 27 kílómetrar að hlaðinu á Hvassafelli. Sögu Hvassafells, sem löngum var og er stórbýli má rekja til fyrstu aldar Íslandsbyggðar, þar var bænhús á miðöldum og árið 1712 var jörðin eign Munkaþverárklausturs. Í fyrndinni tilheyrði Hvassafelli skógur í Núpufellsskógum en heimildir eru um það frá lokum 14. aldar (sbr. Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir [án árs]:82). Jónas Hallgrímsson var á barnsaldri settur í fóstur á Hvassafelli hjá móðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, eftir sviplegt fráfall föður hans. Móðir hans, Rannveig Jónsdóttir var fædd í Hvassafelli og var af hinni valinkunnu ætt, sem kennd er við bæinn. Þúsundir, ef ekki tugþúsundir Íslendinga auk þó nokkurra Bandaríkjamanna og Kanadabúa (afkomendur vesturfara) eru af Hvassafellsætt og þar með skyldir Jónasi Hallgrímssyni og móðurfólki hans.
Förum nú hratt yfir sögu, til fyrsta áratugs 20. aldar, en þá voru ábúendur þau Júlíus Gunnlaugsson frá Draflastöðum og Hólmfríður Árnadóttir, fædd á Melum í Fnjóskadal. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar hófu þau búskap að Hvassafelli árið 1907 (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:823) en foreldrar Hólmfríðar, Árni Guðnason og Kristbjörg Benediktsdóttir höfðu búið að Hvassafelli frá árinu 1900. Í upphafi búskapartíðar Júlíusar og Hólmfríður að Hvassafelli stóð þar torfbær eins og víðast hvar í sveitum landsins. Í honum mun hafa verið m.a. þríhólfa baðstofa 10,8x3,7m að stærð, og tvær stofur 5,8x3,2m hvor ásamt skemmum undir alls fjórum burstum (sbr. Jónas Rafnar 1975:52). Um var að ræða nokkuð veglegt hús, af torfbæ að vera, enda Hvassafell löngum stórbýli. En þegar leið á 20. öldina þótti einsýnt, að framtíðin lægi í steinsteypu eða timbri fremur en torfbæjum og um 1926 reistu þau Júlíus og Hólmfríður og synir þeirra, Pálmi og Benedikt nýtt og veglegt steinhús, sem var á pari við veglegustu hús Akureyrar. Hver teiknaði húsið er greinarhöfundi ekki kunnugt um en það má leika sér með tilgátur þess efnis. Hvassafellshúsið er nokkuð sviplíkt húsum á svipuðum aldri við t.d. Eyrarlandsveg og Brekkugötu. Húsið við Eyrarlandsveg 20, sem Tryggvi Jónatansson múrarameistari teiknaði (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:41), er t.d. nokkuð sviplíkt Hvassafelli en Tryggvi var einn af ötulustu húsahönnuðum á þessum tíma og teiknaði fjölmörg, svo kannski má segja, að tölfræðilega séu mestar líkur á að Tryggvi hafi teiknað hús frá þessum tíma. Þá má einnig sjá ákveðin líkindi við Eyrarlandsveg 22 og Strandgötu 33 en þau hús teiknaði Ólafur Ágústsson húsgagnasmiður (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:42 og Bjarki Jóhannesson 2021:57). Þessi byggingarstíll, nýklassík undir áhrifum frá nýbarrok var hins vegar ekki óalgengur í steinhúsum þess tíma og þó nokkrir sem teiknuðu slík hús, svo tilgátur á borð við framangreindar eru afar hæpnar og skal auðvitað tekið með öllum hugsanlegum fyrirvörum. Hvassafells er ekki getið í verkaskrá Guðjóns Samúelssonar í veglegri ævisögu hans (Pétur H. Ármannsson, 2020) svo ólíklegt er, að húsið sé eitt af verkum hans. Greinarhöfundur þiggur að sjálfsögðu með þökkum allar ábendingar um hönnuð Hvassafellshússins (og aðrar ábendingar frá lesendum yfirleitt).
Nýja húsið var reist austan við gamla bæinn og mun um tíma hafa verið búið í báðum húsum samtímis (sbr. Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir [ár árs]:82). Á rafræna ljósmyndasafninu Sarpinum má sjá mynd af Hvassafellshúsinu, líkast til nýreistu, og glittir þar í eina burst gamla bæjarins. Skömmu eftir byggingu nýja hússins, eða árið 1930, tóku þeir bræður, Benedikt og Pálmi við búskap af foreldrum sínum og virðist þannig hafa verið tvíbýlt. Íbúðarhúsið skiptist í tvo eignarhluta, væntanlega eftir miðju, og bjuggu þeir bræður og fjölskyldur þeirra í hvorum hluta fyrir sig. Árið 1934 var nýja húsið í Hvassafelli metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steinsteypu með járnþaki. Veggir eru einfaldir með innþiljum og steypt á milli. Steypt gólf í kjallara og skilrúm úr timbri með steinvegg eftir endilöngu húsinu í kjallara og á stofuhæð og lofthæð. Á stofuhæð fjórar stofur og tvö eldhús og á lofthæð sex herbergi [Af þessu má ráða, að húsið hafi skipst í eignarhluta eftir miðju fremur en að hvor hæð hafi verið eignarhluti, þ.e.a.s. tvö eldhús eru á neðri hæð]. Stærð hússins var sögð 12x9m og hæð 7,3m, miðstöð til upphitunar og steinolía til ljósa. Eignarhlutar þeirra Benedikts og Pálma Júlíussona voru metnir á 8750 krónur hvor um sig og heildarmat hússins þannig 17.500 krónur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 6. mars 1934)
Þegar Byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil á prenti árið 1970 voru þau Einar Benediktsson og Álfheiður Karlsdóttir búsett að Hvassafelli og búa hér félagsbúi ásamt Hauki Benediktssyni (bróður Einars) og Rögnu Rósberg Hauksdóttur. Kemur fram, að þau hafi tekið við búinu þegar faðir þeirra bræðra féll frá árið 1962. Faðir þeirra var téður Benedikt Júlíusson, sem hér hafði stundað búskap frá 1930. Bústofninn árið 1970 taldi alls 67 nautgripi (32 kýr og 35 geldneyti), 240 fjár og 10 hross. Túnstærð er þá sögð 39,24 hektarar og töðufengur um 2000 hestar af heyi (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:305). Álfheiður og Einar bjuggu hér til ársins 1982 er Sigmundur Sigurjónsson og Margrét Jósefsdóttir fluttust hingað. Árið 1990 var Tryggvi Jóhannsson frá Krónustöðum fluttur að Hvassafelli en fyrrnefnd Einar og Álfheiður áttu jörðina, svo enn var hún í eigu afkomenda Júlíusar Gunnlaugssonar og Hólmfríðar Árnadóttur. Taldi þá bústofninn 82 nautgripi (34 kýr) og 10 fjár en ræktað land taldist tæpir 60 hektarar (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:822). Árið 2010 eiga þau býlið og búa þar núverandi (2023) eigendur og íbúar, téður Tryggvi Jóhannsson og Guðrún Harðardóttir. Þá eru nautgripirnir orðnir 237, þar af 60 kýr. Auk þeirra voru 15 alifuglar en fjárbúskap hafði þá verið hætt. Nýtt, tæplega 1000 fermetra fjós hafði þá verið reist þremur árum fyrr. Ræktað land mældist þá 67,7 hektarar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 455).
Íbúðarhúsið í Hvassafelli er reisulegt, skrautlegt og myndarlegt hús á hinu prýðilegasta bæjarstæði. Það er í mjög góðri hirðu, gluggar og þak virðast t.d. nýleg. Húsið, ásamt nærliggjandi byggingum, mynda skemmtilega heild sem er til mikillar prýði í gróskumikilli og fallegri sveit. Aðrar byggingar í Hvassafelli eru m.a. geldneytahús sem reist var árið 1945 sem fjárhús, hlaða frá sama ári, geymslur byggðar 1950 og 1976 og fjós frá 1954 og 1968. Þá er einnig súrheysturn frá árinu 1950 en greinarhöfundi þykja þau alltaf skemmtileg mannvirki, sem hvort tveggja setja svip á umhverfi og sjónræna heild sveita og eru minjar um búskaparhætti fyrri tíma. Nýjast af stærri Hvassafellsbyggingum, fulltrúi 21. aldar er svo veglegt nýtísku fjós sem byggt var 2007. Myndin af Hvassafelli er tekin 3. júlí 2020 en myndirnar af húsunum við Eyrarlandsveg teknar í febrúar 2013 og myndin af Strandgötu 33 er tekin 21. maí 2022. Myndin af Hvassafellsfjalli er tekin 23. apríl 2020.
Heimildir: Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir. [Án árs]. Fornleifaskráning í Eyjafirði IX: Fornleifar í Grundarplássi og undir Fjöllum. Minjasafnið á Akureyri Fornleifastofnun Íslands FS037-94015 pdf-útgáfa: Fornleifaskráning í Eyjafirði IX. Fornleifar í Grundarplássi og undir Fjöllum (minjastofnun.is)
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf
Brunabótafélag Íslands. 1934. Hvassafell. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
ES. Greinarhöfundi bárust eftirfarandi ábendingar frá Gunnari Jónssyni vegna umfjöllunar um Saurbæ og skal þeim komið á framfæri hér:
sr. Gunnar Benediktsson kom að Saurbæ árið 1920 (ekki 1921).
Íbúðarhúsið í Saurbæ er nokkuð örugglega byggt 1927 og fjósið 1929.
Þá var ranglega farið með nafn Sigrúnar Þuríðardóttur, konu Sveinbjarnar Sigtryggssonar, á einum stað og hún kölluð Sigríður Þorsteinsdóttir.
Er þessu hér með komið á framfæri, beðist velvirðingar og Gunnar Jónssyni þakkað kærlega fyrir. Þetta hefur verið leiðrétt á vefsíðu undirritaðs, arnorbl.blog.is.
Bloggar | Breytt 22.8.2023 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2023 | 11:24
Hús dagsins: Leifsstaðir
Umfjallanir um íbúðarhús Guðjóns Samúelssonar í Eyjafjarðarsveit áttu að mynda nokkurs konar þríleik hér. Eins og öllum góðum þríleikjum sæmir, er hann í fjórum þáttum () og hér kemur sá fjórði, Leifsstaðir.
Hátt uppi í hlíðum (100m y.s.) sunnanverðrar Vaðlaheiðar stendur bújörðin Leifsstaðir. Neðan við Leifsstaði eru svokallaðar Leifsstaðabrúnir, að mestu klæddar myndarlegum skógi. Ekki er þeim sem þetta ritar kunnugt um hversu langt má rekja sögu jarðarinnar, eða heldur við hvaða Leif bærinn er kenndur. Núverandi hús á jörðinni er hartnær aldargamalt en það reisti Bergsteinn Kolbeinsson á árunum 1928-30. Hann hafði áður búið í Kaupangi og reist þar veglegt steinhús eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Líkt og í Kaupangi tæpum áratug fyrr, leitaði Bergsteinn í smiðju Húsameistara ríkisins, sem teiknaði fyrir hann reisulegt steinhús með áföstu gripahúsi.
Leifsstaðahúsinu mætti skipta í tvær álmur. Sú syðri er íbúðarhús, einlyft steinhús á háum kjallara með háu risi og smáum miðjukvisti. Áfast húsinu, þ.e. norðurálman er mikil steinsteypt, tveggja hæða bygging með háu valmaþaki, áður fjós og hlaða en mun nú gistirými. Veggir eru múrsléttaðir og stallað bárujárn á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur syðra húss er nærri 9x11m en norðurálman nærri 20x11m. Útskot er á norðausturhorni norðurálmu. Leifsstaðir standa á brún eða hól norðan við Kúalæk, um 1,5km frá Eyjafjarðarbraut eystri og liggur að húsinu um 150m heimreið frá Leifsstaðavegi (sem liggur raunar að Króksstöðum). Frá Akureyri eru um 7 kílómetrar að hlaðinu á Leifsstöðum.
Þegar þau Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir fluttu að Leifsstöðum úr Kaupangi, árið 1928 gæti hafa staðið þar torfbær sá er lýst er í Bæjalýsingum og teikningum Jónasar Rafnar. Sá bær sneri A-V og samanstóð af bæjardyrum (inngöngurými, n.k. forstofa) og stofu en til austurs lágu löng og mjó bæjargöng að baðstofu, sem var austast. Inn af göngunum var eldhús norðanmegin og búr sunnanmegin vestast en áfast henni á vesturhlið var skemma (sbr. Jónas Rafnar 1975:158). Þessi lýsing á reyndar við Leifsstaðabæinn eins og hann var fjörutíu árum fyrr, mögulega hafði hann verið stækkaður eða breytt í millitíðinni. Þegar Bergsteinn og Ingibjörg fluttu að Leifsstöðum höfðu þau nokkrum árum fyrr reist nýtt steinhús í Kaupangi og hófust fljótlega handa við byggingu slíks húss á Leifsstöðum. Leitaði Bergsteinn sem fyrr til Guðjóns Samúelssonar varðandi hönnun hússins. Árið áður, 1927, hafði Jónas frá Hriflu skrifað um nýja húsið á Kaupangi og meðal annars lýst þeirri skoðun sinni, að aðalhlið hússins hefði betur snúið í sólarátt fremur en til vesturs. Hvort þeir Guðjón og Bergsteinn bóndi hafi tekið þetta sérstaklega til greina skal ósagt látið hér, en á Leifsstöðum snúa stafnar í vestur og austur og aðalhliðin mót suðri. Stafninn ber óneitanlega skemmtilega við hlíðar Vaðlaheiðar þar sem bærinn trónir hátt yfir nærliggjandi byggð. Upprunalega teiknaði Guðjón Leifsstaði með tveimur misháum burstum. Var það svipaður stíll og prestsetrið á Saurbæ sem hann teiknaði á svipuðum tíma. Ekki gerði hann ráð fyrir torfþaki í þetta skiptið, líkt og á Möðrufelli og Kaupangi átta árum fyrr. Undir lægri burst Leifsstaðahússins gerði Guðjón ráð fyrir hlöðu en fjósið myndi vera í kjallara íbúðarhússins. Var það löngum alþekkt ráð til upphitunar híbýla til sveita, að íbúðarrými og baðsstofur væru ofan við fjósið þar sem fólkið naut varmans frá kúnum. Að þessu leyti greindi þá á, Guðjón Samúelsson og Guðmund Hannesson héraðslækni sem báðir voru miklir hugsjónamenn fyrir bættum híbýlum landsmanna. Sá síðarnefndi var ekki hrifinn af sambýli manna og skepna undir sama þaki (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:115).
Húsin á Leifsstöðum munu hafa verið fullbyggð árið 1931, íbúðarhúsið 1930 og fjós og hlaða ári síðar. Hvort húsið var byggt með tveimur burstum í upphafi en breytt síðar er höfundi ókunnugt um, en líklega hefur norðurálma hússins, hlaða og fjós, verið byggð með valmaþaki í upphafi. Á Héraðsskjalasafninu er að finna skjöl frá 1934 annars vegar og 1956-67 hins vegar, þar sem finna má lýsingar á flestum bæjarhúsum Öngulsstaðahrepps vegna mats til brunabóta. Flestum, ekki öllum, er þarna lykilorð, því þar er ekki að finna neina lýsingu á Leifsstaðahúsinu. Er það auðvitað miður en stundum er það svo, að heimildir sem leitað er að, finnast ekki eða eru hreinlega ekki til. Það er auðvitað niðurstaða út af fyrir sig. En höfundur telur þó líklegast að íbúðarhúsið sé að mestu óbreytt frá upphafi, þ.e. að ytra byrði. Innra skipulagi hefur væntanlega verið breytt þó nokkuð vegna breyttrar notkunar. Hins vegar er ljóst, að húsið hefur verið raflýst frá upphafi en rafmagn var ekki sjálfsgefið til sveita hérlendis um 1930. Í Degi 6. desember 1928 (52. tbl. 10. árg.) birtist nefnilega eftirfarandi frétt: Þrír bæir í Kaupangssveit, Leifsstaðir, Fífilgerði og Króksstaðir, hafa nýlega komið sér upp rafveitu. Hefir Bíldsá verið virkjuð, og hefir stöðin 20 hestafla kraft. Rafmagnið var notað til ljósa, hitunar og suðu. Var það Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti sem annaðist þessar virkjanaframkvæmdir í Bíldsá en hann byggði margar smærri rafveitur víða um land á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.
Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir bjuggu hér til æviloka, Ingibjörg lést árið 1942 en Bergsteinn árið 1948. Seinni kona Bergsteins, Þóra Sólveig Rögnvaldsdóttir frá Grjótárgerði í Fnjóskadal bjó áfram á Leifsstöðum til ársins 1968. Þá fluttust hingað þau Sigurgeir Elías Ágústsson og Rut Konráðsdóttir og eru þau búsett hér tveimur árum síðar, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil í ritverki, sem út kom 1973. Árið 1970 var bústofn Leifsstaða eftirfarandi: Þrjár kýr og eitt geldneyti, 53 fjár og fjögur hross. Þá eru ræktaðar kartöflur á einum hektara lands, töðufengur 600 hestar og ræktað land 11,38 hektarar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:408). Þá er ljóst, að fyrstu ábúendur nýja Leifsstaðahússins hafa verið ötulir við trjáplöntun, því ræktarlegur trjálundur er sunnan við húsið. Árið 1970 var hann kominn vel á legg, svo trén gætu verið frá fjórða og fimmta áratug aldarinnar. Árið 1990 telur bústofn Leifsstaða 15 hross og ræktað land er 12,6 hektarar. Bergsteinn Eiríkur Gíslason og Halldóra Hafdís Karen Halldórsdóttir eru eigendur jarðarinnar árið 1990 og ábúendur Birgir Stefánsson og Heiða Hrönn Jóhannsdóttir (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1066). Hefðbundinn búskapur mun hafa lagst af á Leifsstöðum á 10. áratug síðustu aldar en um 1995 fór fram annars konar uppbygging á staðnum. Var þá byggt við norðurálmuna og húsunum breytt í gistiheimili, túnum breytt í golfvöll og síðar risu smærri gistiskálar og hús norðan við bæjarhúsin. Árið 2010 eru eigendur og ábúendur þau Árný Petra Sveinsdóttir og Gunnar Thorarensen Gunnarsson. Þá kallast jörðin Leifsstaðir II en jörðinni mun hafa verið skipt árið 1991 og Leifsstaðir II gert að lögbýli. Ekki kemur fram hver stærð ræktaða lands Leifsstaða er, en fram kemur að túnin hafi að mestu verið lögð undir golfvöll. Byggingar eru, auk íbúðarhússins frá 1930, gistihús byggð 1994-95 og 2005 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:593). Umrædd gistihús munu byggð upp úr fjósi og hlöðu frá 1931. Árið 1946 var býlið Brúarland byggt úr landi Leifsstaða, norðan og neðan bæjarins við Leifsstaðabrúnir. Þar hefur á síðustu áratugum risið dágóð íbúðarhúsaþyrping sem kallast Brúnahlíð og enn er byggt á Brúarlandstúnum. Þá eru margir sumarbústaðir og orlofshús í landi Leifsstaða og Brúarlands.
Leifsstaðahúsið er reisulegt en látlaust hús. Þríhyrndur smágluggi upp undir rjáfri setur á það ákveðinn svip, smáatriði sem þó hefur mikið að segja sem svipauki glæsts húss. Það er í mjög góðri hirðu og í raun sem nýtt að sjá. Síðari tíma viðbætur og byggingaframkvæmdir spilla ekki heildarmynd hússins enda hafa þær verið í samræmi við upprunalega samsetningu. Bæjarstæðið er einnig sérstaklega skemmtilegt, hátt uppi í brekkunum með útsýni svo að segja um gjörvallan Eyjafjörð. Suðurhlið hússins sést þó trauðla um langan veg, en þar er mikill skógarlundur, sem einnig er til mikillar prýði. Á Leifsstöðum hefur sl. áratugi verið rekin ferðaþjónusta, gisting, veitingar o.fl. nú undir merkjum Hotel North og eflaust verður enginn svikinn af því, að gista þessar glæstu byggingar í dásamlegu umhverfi. Hvað varðar varðveislugildi eða friðun Leifsstaða er það að segja, að húsið er fáeinum árum yngra en svo, að það teljist aldursfriðað (byggt eftir 1923) en það telst hins vegar umsagnarskylt. Umsagnarskyldum húsum má hvorki breyta né rífa án undangenginnar umsagnar minjaverndaraðila og á þetta ákvæði við um hús byggð bilinu á 1924-40. Þá er húsið auðvitað eitt verka Guðjóns Samúelssonar. Meðfylgjandi myndir af Leifsstöðum eru teknar 17. júlí 2023 en myndin af Brúarlandi þann 31. mars 2020.
ATH. Það kom fram í fyrri grein undirritaðs um Kaupang, að Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir hafi flust að Kaupangi árið 1905. Það er í raun ekki alls kostar rétt, því hið rétta er, að Ingibjörg fluttist að Kaupangi árið 1902 með foreldrum sínum, Sölva Magnússyni og Steinunni Einarsdóttur. Bergsteinn fluttist hins vegar að Kaupangi, er hann giftist Ingibjörgu árið 1905. Þessar upplýsingar fann höfundur í minningargrein Jóns H. Þorvaldssonar um Ingibjörgu í tímaritinu Hlín frá árinu 1946. Er þessu hér með komið á framfæri.
Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Jónas Jónsson. 1927. Byggingar. Í Samvinnunni 2. tbl. 20. árgangur 1. júní 1927. (Af timarit.is)
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Bloggar | Breytt 7.8.2023 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 60
- Sl. viku: 425
- Frá upphafi: 440782
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 203
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar