Oddeyri Saga hús og fólk

BÓKARKYNNING: Það er mér sönn ánægja að tilkynna að bókin Oddeyri Saga hús og fólk, samstarfsverkefni Kristínar Aðalsteinsdóttur og Arnórs Blika Hallmundssonar er komin út! 

Kristín sendi frá sér árið 2017 bókina Innbær hús og fólk þar sem hún fór hús úr húsi í Innbænum, elsta hverfi Akureyrar og birti myndir af húsum þar og tók viðtöl sem fólk sem þar bjó á þeim tíma. Sú bók löngu uppseld.

Gæti verið mynd af texti

Oddeyri saga hús og fólk er af svipuðum toga en þar bætast við söguágrip húsanna, sem síðuhafi á heiðurinn af. (Þeim sem gaman hafa að lestri þessarar síðu gefst hér tækifæri, að lesa skrif síðuhafa á bókarformi). Í bókinni eru um 55 viðtöl og að auki fjallað um söguágrip 24 húsa. Alls er þannig fjallað um 79 hús í öðrum elsta hluta Akureyrar. Viðmælendur völdum við af handahófi og hópur viðmælenda afar fjölbreyttur, fólk sem búið hefur á Oddeyri allan sinn aldur, aðrir aðeins örfáa mánuði, fólk á öllum aldri og ýmsum uppruna, sem á það eitt sameiginlegt að eiga dásamleg heimili á Oddeyri og þykja sérlega vænt um sitt nærumhverfi. Í söguköflunum má finna ýmislegt sem komið hefur upp úr heimildagrúski síðuhafa, margt hvert mjög áhugavert m.a. af húsum á faraldsfæti, sérstæðum númerakerfi auk ýmiss fólks, sem hefur manninn á Oddeyri sl. hálfa aðra öldina eða svo. 

Á Oddeyrinni eru margar perlur og þar drýpur sagan af hverju strái. Það hefur hins vegar borið á því, að hún njóti e.t.v. ekki sannmælis og heyrst hafa þær raddir, að þar séu bara "kofar" og þar ætti nú bara að ráðast í stórfellt niðurrif og helst reisa nýmóðins skýjakljúfa! Sem betur fer eru þær raddir ekki margar eða háværar. Það er svo sannarlega von okkar höfunda, að þetta verkefni okkar verði framtak í þá átt, að hefja Oddeyrina til þess vegs og virðingar sem bæjarhlutinn á svo sannarlega skilið! 

 

Kristínu Aðalsteinsdóttur er ég ævinlega og ævarandi þakklátur fyrir að hafa boðið mér þátttöku í þessu stórkostlega verkefni; þetta hefur verið yndislegt samstarf á allan hátt! 

 

Þess má geta, að bókin er til sölu hjá okkur höfundum fyrst um sinn en kemur væntanlega í bókabúðir á næstu vikum. Beint frá höfundum kostar bókin 7000 kr. og hægt að panta hér í athugasemdum, á hallmundsson@gmail.com eða adalsteinsdottir@gmail.com og við erum auk þess bæði á Facebook! 


Hús dagsins: Kaupangur

Ysti hluti Eyjafjarðarsveitar austanmegin, áður í Öngulsstaðahreppi, hefur löngum nefnst Kaupangssveit, eftir kirkjustaðnum Kaupangi. Bærinn sá stendur á lágum hól í brekkunum austan Eyjafjarðarbrautar eystri, nokkurn veginn beint upp af Þverbrautinni, gamla þjóðveginum yfir óshólma Eyjafjarðarár. Þar standa veglegar steinsteyptar byggingar frá fyrsta fjórðungi 20. aldar, kirkja frá árinu 1922 og íbúðarhús frá 1920. Það má svo geta þess, að rétt efIMG_0698tir að steinhús þessi voru risin, þ.e. árið 1923 var Eyjafjarðará brúuð um Hólmana. Einhver gæti ímyndað sér, að brýrnar hefðu aldeilis nýst vel í aðdrætti og flutninga að húsunum sem eru hvort um sig stórvirki síns tíma. Rétt eftir að húsin miklu á Kaupangi, íbúðarhúsið og guðshúsið, voru risin af grunni; var áin brúuð svo gott sem í túnfætinum!   En höfum í huga, að menn þekktu auðvitað ekki annað, en að áin væri óbrúuð og öll flutningatækni miðaðist við það. Bergsteinn Kolbeinsson Kaupangsbóndi og hans fólk létu brúarleysið alltént ekki aftra sér frá byggingu veglegs steinhúss. Húsið var byggt eftir teikningum stórhuga arkitekts sem nýlega hafði hafið störf eftir námsdvöl í Danmörku og hafði mikinn hug á að bæta húsakost landsmanna þ.m.t. til sveita. Sá var auðvitað enginn annar en Guðjón Samúelsson. Téða kirkju teiknaði hins vegar Sveinbjörn Jónsson. 

       Sögu Kaupangs má líklega rekja til upphafs búsetu manna í Eyjafirði, hvorki meira né minna. Skammt norðan bæjarins er Festarklettur, þar sem sagt er að Helgi magri hafi lagt skipi sínu að landi. Hét hann áður Galtarhamar og dregur væntanlega nafn sitt af gelti Helga, sem mun hafa verið bíldóttur. Sá mun hafa farist í á sem rennur þar skammt frá, og þaðan komið nafnið Bíldsá. Segir í Landnámu, að Helgi magri hafi búið einn vetur á Bíldsá sem talin er sama jörð og Kaupangur er nú. Síðar er talið, að þarna hafi verið verslunarstaður eða kaupstefnur og nafnið Kaupangur til komið þannig (Brynjólfur Sveinsson, Guðrún María Kristinsdóttir 2000:60). Áin, sem rennur norðan Kaupangs heitir heitir hins vegar enn Bíldsá og rennur hún um og niður Bíldsárskarð.  En förum nú hratt yfir sögu, til upphafs 20. aldar, en það mun hafa  verið árið 1905 að BergsteIMG_0746inn Kolbeinsson fluttist að Kaupangi. Bergsteinn var af Suðurlandi, nánar tiltekið úr Gnúpverjahreppi, fæddur á Stóru- Mástungu en fluttist um tvítugt í Bárðardal sem vinnumaður. Þar kynntist hann Ingibjörgu Sölvadóttur úr Svartárkoti. Ingibjörg var hins vegar fædd í Kelduhverfi, nánar tiltekið í Svínadal. Hún hafði flust að Kaupangi ásamt foreldrum sínum, Sölva Magnússyni og Steinunni Einarsdóttir árið 1902. Þegar þau Bergsteinn og Ingibjörg hófu búskap sinn í Kaupang stóð þar nokkuð hefðbundinn bær með því lagi, sem tíðkast hafði um aldir. Einhvern tíma hefur þeim verið ljóst, að þáverandi bæjarhús væru ekki til ásetnings og farið að huga að nýbyggingu. Tvíbýlt virðist hafa verið á Kaupangi árin 1907-16, en þau ár eru jafnan aðrir ábúendur á staðnum ásamt Bergsteini og Ingibjörgu. Á fyrstu áratugum 20. aldar þótti mönnum sýnt, að framtíðin lægi ekki í torfbæjum, sem voru svo mikið sem þrír fjórðu hlutar allra íbúðarhúsa í dreifbýli (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:107). 

     Áður en sagt er frá hönnun Kaupangs Guðjóns Samúelssonar  er rétt að nefna til sögunnar annan merkan mann í sögu húsagerðar og skipulags hérlendis: Guðmund Hannesson lækni.  Guðmundur hafði mikla ástríðu og  beitti sér mjög fyrir bættum húsakosti landsmanna og reifaði hugmyndir sínar um framtíðarskipulag húsa og bæja í tímaritum og eigin ritum m.a. Um skipulag bæja. Guðmundur taldi steinsteypuna byggingarefni framtíðarinnar. Árið 1915 birtist grein eftir Guðmund í Búnaðarritinu og þar var að finna teikningu Guðjóns Samúelssonar af íslenskum sveitabæ og átti hún að sýna nokkurs konar „fyrirmyndarsveitabæ.“ Í þeirri teikningu sjást greinileg áhrif frá dönskum búgörðum en þá hafði Guðjón kynnt sér í námi sínu þar ytra. Kaupangshúsið, sem Guðjón teiknaði í mars 1920, virðist af sama meiði og fyrrgreind teikning við grein Guðmundar. Guðjón Samúelsson hafði, líkt og Guðmundur Hannesson, mikinn áhuga á að bæta húsakost íslenskra bænda og hafði einnig tröllatrú á steinsteypunni. Jafnframt vildi Guðjón þó einnig halda í ákveðin þjóðernisrómantísk einkenni t.d. teiknaði hann þó nokkur hús með burstabæjarlaginu. Kaupangshúsið var með torfþaIMG_0700ki á upprunalegu teikningunni ásamt bogadregnum kvistum, sem voru auðveldari viðfangs við torfþekju. Þá kallaði hann helstu stofu hússins, fyrir miðju á framhlið, baðstofu. Aldrei mun hafa verið torfþak á Kaupangi heldur járnþak frá upphafi, en þakið prýða bogadregnir kvistir. Á sama tíma hefur verið reist ný hlaða á Kaupangi, en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar stendur þar geymsla byggð 1920, sem áður var hlaða (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1056).

       Íbúðarhúsið í Kaupangi er einlyft steinhús á kjallara, með háu risi. Á miðri framhlið (vesturhlið) er bogalaga kvistur en tveir slíkir á bakhlið. Veggir eru múrhúðaðir, bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Horn hússins eru afmörkuð með ferköntuðum súlum, nokkurs konar steyptri eftirlíkingu af steinhleðslu og einnig er skraut efst á stöfnum hússins; steypt lóðrétt bönd sem minna á timburklæðningu. Húsið  stendur sem fyrr segir á lágri hæð við Eyjafjarðarbraut eystri. Að húsinu liggur um 130m heimreið norðan við það, nokkurn veginn beint strik upp hlíðina en sunnanmegin liggur heldur lengri heimreið í sveig að kirkjunni.  Frá Miðbæ Akureyrar eru um 7 kílómetrar að Kaupangi.

      Þann 1. október 1923, fyrir nánast réttri öld þegar þetta er ritað, birtist afar löng og ítarleg frásögn í Tímariti íslenskra Samvinnufélaga af Kynnisför sunnlenskra bænda til Norðurlands vorið 1920. Þar segir svo frá: Í Kaupangi býr Bergsteinn Kolbeinsson, ættaður frá Stóru-Mástungu í Árnessýslu, gildur bóndi við góð efni. Þar stóðum við lengi við, því bæði var rausnarlega tekið á móti okkur, og svo breyttist veður frá því, sem við höfðum átt að venjast, eftir að við komum á Norðurland… [þar] var verið að byggja stórt og vandað steinhús, og sagði Bergsteinn, að það mundi kosta um 40 þús. krónur (Böðvar Magnússon og Kristinn Ögmundsson 1923: 105-106). Sjö árum eftir ferð hinna sunnlensku bænda um Norðurland fjallaði Jónas Jónsson frá Hriflu um nokkur nýleg íbúðarhús til sveita í Samvinnunni og þar á meðal er Kaupangur. Grípum niður í frásögn Jónasar: […]yfirleitt er húsið í Kaupangi hin prýðilegasta bygging. Kjallarinn er lágur, fremur ódýr og eingöngu notaður til geymslu. Íbúðarherbergin eru á aðalhæð. Mjög stór borðstofa er meðfram vesturhlið, en smáherbergi út frá að norðan austan og sunnan. Borðstofan er fyrst og fremst hituð upp, og hin minni herbergi eftir þörfum. Í borðstofunni er borðað, unnið og setið. Þar er heimilisfólkið saman nokkuð í fornum stíl. Með því að gera borðstofuna veglega vildu þeir Guðjón og Bergsteinn vinna á móti þeirri tvístrun heimilisfólksins, sem óhjákvæmilega verður í leiguhúsum kauptúnanna, þar sem hver maður verður meir eða minna einangraður í sínu herbergi. Á loftinu eru aðallega svefnherbergi, bæði fyrir heimafólk og gesti (Jónas Jónsson 1927:164). Niðurstaða Jónasar er sú, að Kaupangshúsið sé hið ágætasta, það sé nokkurs konar fyrirmynd enda þótt það sé alltof dýrt fyrir meðaljarðir. Þó telur hann að hús með burstabæjarlagi hefði farið betur á þessum stað og að prýði hefði orðið af torfþakinu, sem var á teikningunni. Húsið telur Jónas, að geti dugað í nokkrar aldir!

       Árið 1934 er íbúðarhúsið í Kaupangi virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, stærð 13,2x9,5m, 7,6m á hæð. Húsið úr tvöfaldri steinsteypu, öll skilrúm úr steini í kjallara og á stofuhæð, á lofti úr timbri og járnþak á húsinu. Húsið hitað upp með miðstöð, vatnsleiðsla, bað og W.C. (Björn Jóhannesson 1934,P4230954 án bls). Þá mun eigandi hafa verið Árni Guðjónsson. Ekki kemur fram hver eigandi er, en Bergsteinn Kolbeinsson flutti úr Kaupangi á Leifsstaði, ofar og norðar í sömu sveit, árið 1928. Árni Guðjónsson og Bjarnþóra Jóninna Benediktsdóttir eru hér ábúendur frá 1928-1944. Mögulega hafa þau ráðist í byggingu nýrrar hlöðu, en á Kaupangi stendur hlaða sem sögð er byggð 1928.  Þá má nefna að á þriðja áratugnum voru byggð úr landi Kaupangs, norðan og ofan við bæinn, býlin Knarrarberg (1924) og Arnarhóll (1925). Á síðarnefnda bænum bjuggu  í hartnær hálfa öld þau Kristinn Sigmundsson og Ingveldur Hallmundsdóttir, föðurforeldrar þess sem þetta ritar, og stunduðu þar myndar búskap. Þau fluttust að Arnarhóli árið 1940. Knarrarbergslandið telst nú að mestu innan lands Festarkletts, skógræktarbýlis sem byggt var 2010.

      Næstu áratugi búa ýmsir í Kaupangi, stundum virðist hafa verið tvíbýlt. Sigurður Sigurðsson frá Ánastöðum og Unnur Pálmadóttir frá Sílastöðum eru hér ábúendur frá 1959 til 1965 en þá flytjast hingað þau Kristján Hannesson frá Víðigerði og Olga Ágústsdóttir frá Bolungarvík. Ef við grípum niður í umfjöllun Byggða Eyjafjarðar árið 1970 eru hér sögð m.a. hlöður fyrir 1900 hesta af heyi, fjárhús fyrir 250 fjár, fjós fyrir 36 kýr og hesthús fyrir 6 hross. Íbúðarhúsið er sagt 919 rúmmetrar að stærð, byggt 1920 úr steinsteypu. Bústofninn telur 35 kýr, 7 geldneyti, 206 fjár og 2 hross. Túnstærð er sögð 47,48 hektarar og tekið fram, að framræst land til túnræktar sé um 25 hektarar og starengjar til slægna og beitar um 85 hektarar. Ábúendur og eigendur að 1/3 eru téð Kristján og Olga en hina 2/3 á Björn Ingvarsson lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:403). Tuttugu árum síðar, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í öndvegisriti eru á Kaupangi 33 kýr, aðrir nautgripir 48, 12 hross og kartöflurækt en þá hefur fjárbúskap verið hætt. Ræktað land er þá 58,5 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1056). Árið 2010 er enginn búrekstur en ræktað land 60,4 hektarar, væntanlega nytjað af öðrum býlum (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:585). Sömu ábúendur, þ.e. Kristján Hannesson og Olga Ágústsdóttir eru hér 1990 og 2010 og enn mun Kaupangur í eigu fjölskyldu þeirra.

        Kaupangshúsið er reisulegt og glæst hús og í góðri hirðu. Það, ásamt hinni sérstæðu kirkju, með turninn á norðvesturhorni en ekki fremst eða við mæni og útihúsunum á bakvið, myndar mjög skemmtilega sjónræna heild og er Kaupangur mikið kennileiti í byggðinni. Húsið er væntanlega aldusfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923, auk þess sem það er eitt af verkum Guðjóns Samúelsson, raunar með fyrstu húsum sem hann teiknaði á ferlinum. Húsið er að upplagi skrautlegt og setur bogalaga kvistur ásamt steypuskrauti á það skemmtilegan svip. Jónas frá Hriflu taldi að Kaupangshúsið gæti staðið nokkrar aldir; nú er nýlega hafin önnur öld þess og ekki annað hægt að segja, að það standist með prýði. (Aðrir verða hins vegar að dæma um næstu aldir).  Myndirnar eru teknar 23. apríl 2020 og 8. júlí 2023 en myndin af Festarkletti er tekin 17. júlí 2023.

P4230954 - Copy

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Upprunaleg teikning að Kaupangi gerði ráð fyrir torfþaki, hér er brugðið á leik með þá staðreynd í myndvinnslu.

 

Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Böðvar Magnússon og Kristinn Ögmundsson. 1923. Kynnisför sunnlenskra bænda til Norðurlands vorið 1920. Í Tímariti íslenskra samvinnufélaga 2.-3. tbl. 17. árgangur 1. okt 1923. Bls. 76-124. (Af timarit.is)

Brynjólfur Sveinsson (Guðrún María Kristinsdóttir, myndatexti). 2000. Svæðislýsing. Í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Líf í Eyjafirði bls. 59-94. Akureyri: Höfundar og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Jónsson. 1927. Byggingar. Í Samvinnunni 2. tbl. 20. árgangur 1. júní 1927. (Af timarit.is)

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.


Hjólaferð í Laugafell sumarið 2021

Mér þykir býsna gaman að lesa ferðasögur og þá sérstaklega sögur af ferðum um fjöll og óbyggðir Íslands. Er þá ekki upplagt, að deila einni slíkri með lesendum...

Hjólreiðar hafa löngum verið minn helsti samgöngumáti. Hvers vegna ég á ekki bíl, og hef aldrei átt, á sér svosem enga rökrétta skýringu, hefur kannski einna helst með nægjusemi í bland við sérvisku að gera. Ekki er ég andstæðingur einkabílsins nema síður sé og ekki dettur mér í hug, að allir geti tileinkað sér hjólreiðar. Lengst af voru hjólreiðarnar bundnar við sumartímann og þéttbýlismörk Akureyrar en um 2018 fór ég að leggja í vana minn, að hjóla áleiðis að Hrafnagili og prófaði svo alltaf lengri og lengri leiðir, áleiðis fram í fjörð. Það var síðan 29. ágúst 2020, að ég hjólaði að Halldórsstöðum, öðrum fremsta bæ Eyjafjarðarsveitar, 45 km framan Akureyrar og horfði fram Eyjafjarðardalinn: Næsta sumar skal það verða Laugafell! Á svipuðum tíma fékk minn sérlegi hjólafélagi, Árni Már Árnason, sömu hugmynd og veturinn 2020-21 ræddum við þetta fram og til baka, spáðum og spekúleruðum: Við skyldum sko fara, þrátt fyrir úrtöluraddir, en margir hváðu og töldu þetta óðs manns æði hjá okkur, að ekki sé minnst á þann ójafna leik, að annar okkarP8110995 var á rafmagnshjóli en hinn ekki. En við skyldum fara!  

Klukkan 10, þann 11. ágúst 2021, lögðum við félagarnar af stað frá Leirunesti. Heiðskírt var og sólskin og einhver hitamælir sýndi 21 stig. Ferðin gekk tíðindalaust framan af, við gættum þess að fara ekki of hratt til þess að eiga næga orku inni. Við stoppuðum við Botnsreit, við brúna yfir Djúpadalsá, tókum myndir og supum af vatnsflöskum en við urðum ansi þyrstir í sólinni. Um hádegisbilið áðum við undir suðurvegg Saurbæjarkirkju og Árni fékk að hlaða rafhlöðuna sína á Smámunasafninu. Hann var nefnilega á rafmagnshjóli en ekki ég. Ójafn leikur, en  það tafl átti nú eftir að snúast laglega við þann daginn! Eftir málsverð héldum við áfram, hægt og sígandi. Fylltum á vatnsflöskur við svonefnt Klif, norðan við Leyningshóla. Um hálf þrjúleytið fórum við framhjá Hólsgerði, fremsta byggða bóli í Eyjafirði. Þá vissum við, að við vorum hálfnaðir með vegalengdina. En hvað varðar ferðatíma upp að Laugafelli, vorum við rétt að byrja! 

Kaffihlé tókum við í skógarjaðri við eyðibýlið Úlfa, 20210811-150427_WePrtAiRsem er um 1,5 km sunnan Hólsgerðis. Það eru mjög skörp skil á gæðum vegar við Hólsgerði, þegar komið var suður undir bæjarhólinn er vegurinn stórgrýttur og á mörgum stöðum renna þar lækir yfir. Nú þurfti ég að leiða hjólið, afturendinn orðinn nokkuð aumur eftir 5-6 klukkustunda samfellda setu og þungur bakpokinn seig verulega í, svo ég réð orðið ekkert við minnstu brekkur. Ekki leist mér á blikuna, miðað við þá vegalengd og hækkun sem eftir var. En hvað um það; kröftum myndi ég safna við næsta stopp. Á þessum kafla er hækkunin ekki mjög skörp og skástu metrar vegarins slaga jafnvel hátt í gæði sæmilegra malarvega. Okkur þótti sláandi líkindi með Eyjafjarðardalsslóðanum og efsta hluta Fálkafellsvegar, en við erum báðir skátar og höfum farið þangað ófáar ferðirnar. Við svonefndan Brúsahvamm, um 10 kílómetra  frá Hólsgerði er há og brött brekka þar sem vegurinn sveigir undir og fyrir brekkubrún mikla.P8111017 Efst í þeirri brekku, ákváðum við að taka okkur annað nestisstopp, gæddum okkur m.a. á normalbrauði með rúllupylsu, kaffi, safa og kexi. Þá rann upp fyrir okkur skelfileg staðreynd!

Árni hafði verið við öllu búinn, hafði meðferðis auka rafhlöðu, fullhlaðna. Eftir 55 kílómetra vegalengd og tæplega 500 metra hækkun var hleðslan nokkurn veginn búin og hugðist hann skipta um. En það var alveg sama hversu gramsað var í bakpoka, enginn fannst lykillinn, sem nauðsynlegur er til að skipta um rafhlöðu. HANN HAFÐI GLEYMST! Nú voru góð ráð dýr. Það er ekkert grín að rogast með straumlaust rafmagnshjól og hvað þá upp bratta fjallvegi. Ég man ekki hvort við ræddum um að snúa við, en það var þá ekki lengi, því við ákváðum nánast samstundis að halda áfram. Þar gilti einfalt reikningsdæmi: Það voru 55 kílómetrar heim og 30 kílómetrar í Laugafell. Og svo vorum við búnir að borga fyrir gistinguna. Það var þó ljóst, að við myndum þurfa að leiða hjólin töluverðan hluta leiðarinnar.  Leið, sem jafngilti ríflega tvöfaldri vegalengdinni milli Akureyrar og Hrafnagils. Að ekki sé minnst á, að á leiðinni yrðum við að hækka okkur hátt í hæð Súlutinda. En áfram var haldið, löturhægt. Klukkan var hálfsjö og sólin P8111018farin að lækka í vestri. Ægifagurri gulleitri birtu sló austurhlíðar Eyjafjarðardals og áin ótrúlega tær og blá með bláum hyljum í bland við flúðir. Það eina sem skyggði á, var óskapa mývargur við lygnu hyljina! Við drukkum kynstrin öll af vatni, en þarna lá við, að við gætum teygt okkur með flöskurnar út frá vegslóðanum og fyllt á, enda brekkurnar undirlagðar uppsprettum og litlum bunulækjum, sumir eins og skrúfað væri frá litlum krönum inn í brekkunni. Kvöldverð; kaldar kótilettur og brauð, snæddum við skammt frá vaðinu, þar sem vegurinn hlykkjast upp veggbratta hlíðina upp á hálendisbrúnina, allt upp í tæplega 1000 metra hæð.

Eyjafjarðarleið liggur yfir ána á vaði efst á dalnum. Er hann þar svo þröngur, að nær væri að tala um gljúfur frekar en dal. Þangað náðum við rétt fyrir klukkan níu. Það var útséð, að við næðum í skálann fyrir myrkur. Við vorum tæpar tvær klukkustundir að klífa hrygginn háa, sem ég veit því miður ekki hvað heitir, en man eftir að hafa séð nafnið Runu á korti nálægt þessum slóðum. Í svona ferðum er auðvitað upplagt að nýta björtu nætur sumarsins. Eyjafjarðarleið, hins vegar, er þeim ósköpum gædd að hún opnast yfirleitt ekki fyrr en eftir miðjan júlí, þegar fáir albjartir sólarhringar eru eftir af sumrinu. En hins vegar var óviðjafnanlegt að fylgjast með sólinni setjast yfir hálendinu í vestri og varpa gylltri birtu yfir Eyjafjarðardalinn, á meðan við paufuðumst upp hlykkjótta leiðina. Við vorum enn að hækka okkur þegar fór að rökkva verulega.

Myrkrið var dálítið sérstakt; alltaf sáum við roða við sjóndeildarhringinn í vestri og greindum alltaf næstu fáeinu metra en sáum aldrei lengra frá okkur en það. Við tókum aðeins eina sandöldu fyrir í einu. Stundum var hægt að láta sig renna og ná góðri ferð niður þá tók önnur brekka við, upp í mót. Vegurinn þarna var sannkölluð hátíð í samanburði við stórgrýtisurðina á Eyjafjarðardalnum, nema hvað stundum lentum við íP8121025 grunnum sandsköflum. Einhvern tíma sáum við útlínur stöðuvatns en engin leið að átta sig á, hvort það væri við vegbrúnina eða langt í burtu. Þetta var algjörlega óborganlegt, fjarlægðarskynjunin rugluð og þögnin algjör. Stundum þóttist ég heyri í fuglum í sandinum en það var þá í raun hjólið að strjúkast við vegkantinn. Og lognið svo algjört, að hægt var að láta loga á eldspýtu. Og það var svo hlýtt, að þetta var í raun svipað því að vera innandyra. En þess má geta, að sumarið 2021 var eitt það hlýjasta og sólríkasta í manna minnum og þarna hafði verið samfelld hitabylgja yfir Norðurlandi í rúman mánuð! Af og til duttum við í símasamband og vorum þá í sambandi við skálavörð í Laugafelli. Klukkan var þarna komin yfir miðnætti og 14 klukkustundir liðnar frá því við lögðum af stað frá Leirunesti. Við fullvissuðum Laugfellinga um, að ekkert amaði að okkur en ef mögulegt væri, myndum við þiggja að vera sóttir. Sem var ekki hægt. Og áfram héldum við „inn í eyðimerkurnóttina“ eins og segir í söngtexta Helga Björns. Mikið óskaplega var þetta allt saman magnað, töfrandi og dásamlegt en mikið ansi sem þetta var langt! Sandalda eftir sandöldu, upp og niður, niður og upp. Ég var alltaf töluvert á undan Árna, sem átti fullt í fangi með sitt straumlausa hjól, en ég stóðst ekki freistinguna að láta mig renna þar sem það var hægt. Yfirleitt stansaði ég og beið uns ég sá ljósið frá Árna. Eitt var það sem hrjáði okkur umfram annað á þessum áfanga leiðarinnar: Við vorum vatnslausir! Á dalnum gátum við bókstaflega gengið að rennandi vatni í næstu brekku en hér voru engar lindir. Það er ótrúlegt hvað 16 klukkustunda gamalt, kalt kaffi og óblandað djúsþykkni geta verið svalandi við þessar aðstæður!

Loksins, loksins (!) sáum við glitta í vegprestinnP8121029 á bognu stönginni þar sem stendur m.a. Laugafell 4 og Eyjafjörður 37[km]. Armbandsúrið sýndi 2.36. Á slaginu þrjú um nóttina sáum við loks móta fyrir  skálunum fjórum í Laugafelli. Þá voru liðnar 17 klukkustundir frá því við lögðum af stað og 12 klukkustundir frá því við fórum framhjá Hólsgerði, ríflega hálfnaðir með vegalengdina. Við áttum pantaða gistingu á svefnlofti snyrtihússins og vorum við einir um hituna. Sjaldan hefur verið jafn notalegt að skríða ofan í svefnpokann!

Nú förum við hratt yfir sögu. Staðið hafði til, að halda aftur til byggða daginn eftir, en ljóst að það næðist ekki. Í fyrsta lagi tókst okkur að sofa eins og unglingar langt fram undir hádegi, enda vonlegt þar sem ekki var farið að sofa fyrr en um fjögurleytið. Í öðru lagi þurfti að hlaða rafhjólið en það var háð því, að tækist að koma bensínrafstöð af stað. Sem tókst. Hins vegar tæki það fimm til sex tíma að fullhlaða hjólið. Svo við urðum að dvelja aðra nótt. Ekki hefðum við fyrir nokkurn mun viljað missa af þeim dýrðardegi. Við slökuðum á, tókum í spil, fórum í laugina, slökuðum svo aðeins meira á, spiluðum meira og fórum svo aftur í laugina. Fórum í léttan göngutúr um næsta nágrenni skálans, skoðuðum m.a. Þórunnarlaug. Veðrið var með besta móti. Við hugsuðum þá hugsun einfaldlega ekki til enda hvað hefði gerst, hefði Árni ekki getað hlaðið hjólið þarna.P8121042

Við lögðum af stað hálfníu morguninn eftir. Það var gaman að virða fyrir sér þann hluta leiðarinnar í sólskini og heiðríkju, sem hulinn var myrkri á uppleiðinni. Og gaman að láta sig renna niður í Eyjafjarðardal og niður að vaði; við vorum 15 mínútur sömu leið og tók okkur tvo klukkutíma á uppleiðinni! Það var líka sérstakt, að finnast maður vera „rétt ókominn“ heim við Hólsgerði, og mikill léttir að vera kominn til byggða. Um 10 kílómetra frá Laugafelli hafði ég farið að heyra eitthvert sarg úr pedalahúsinu sem ágerðist mjög. Vissi ég ekkert af hverju þetta stafaði en hvimleitt var þetta. Hugkvæmdist mér að hella smurolíu inn fyrir og lagaðist þetta eitthvað. Reyndi lítt á þetta niður að byggð, því lítið þurfti að stíga. Þegar komið var svo að segja á jafnsléttu sagði þetta til sín, hjólið var ægilega þungstigið og breytti þá engu í hvaða gír ég var, svo mesti hraði sem ég náði var um 18-20. Þá  gengu pedalarnir einhvern veginn til hliðanna, líkt og þeir ætluðu af, svo maður þurfti að stíga þá inn og út. Það kom svo í ljós, að lega hafði farið og líklega bara tilviljun að þeir duttu ekki af! En ferðin sóttist fyrir vikið agalega seint. Við komum að Smámunasafninu í Sólgarði um fjögurleytið og fengum okkur vöfflur með rjóma og skoðuðum safnið í rólegheitunum en Árni fékk að bæta þar straum á rafhlöðuna. Lögðum við af stað aftur um fimmleytið eða um það leyti, sem safninu var lokað. Vegna pedalavandræða og rasssæris sóttist mér ferðin afar seint á meðan Árni geystist áfram á rafmagninu. Hafði þessu einmitt verið öfugt farið síðari hluta uppleiðar. Það er dálítið gaman hvernig heildarlengd ferðar breytir vegalengdarskyninu. P8121056Við Grund, rúma 20 kílómetra frá Akureyri, var ég orðinn verulega framlágur en hugsaði með mér, að þetta færi nú alveg að hafast! Vissi af miklum brekkum á næstu kílómetrum þar sem ég gæti náð góðri ferð niður en viti menn - kvöldgolan sem blés á móti eyðilagði það að mestu leyti. Síðustu 15 kílómetrana, framhjá Hrafnagili og áleiðis í bæinn gat ég orðið ekki stigið nema nokkur hundruð metra í einu án þess að taka stuttar pásur. En þetta hafðist.

 

 

 

 

Við afleggjarann að Kjarnaskógi skildu leiðir okkar Árna í þessari mögnuðu ferð, hann hélt heim upp á Brekku, en ég áleiðis eftir Drottningarbrautarstígnum heim á Oddeyrina. Og þangað náði ég klukkan hálfníu. Heimferðin tók þannig 12 klukkustundir. Enda þótt þessi frásögn virðist lítið annað en upptalning á hrakföllum og erfiðismunum er það nú svo, að þetta var með því skemmtilegra og ævintýralegra, sem ég hef reynt.

 

P8131093

Kominn til byggða! Síðuhafi staddur sunnan við Hólsgerði, fremsta byggða ból í Eyjafirði á heimleið úr Laugafelli 13. ágúst 2021. Þess má geta, að hjólinu á myndinni skipti ég út í apríl sl. fyrir Cube, fulldempað rafhjól. (Mynd: Árni Már Árnason) 


Hús dagsins: Saurbær

Fremstur hinna þriggja hreppa, sem sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar í ársbyrjun 1991, er Saurbæjarhreppur. Hann dregur nafn sitt af kirkjustaðnum Saurbæ. Bæjarhúsin og kirkjan standa á hól nokkrum við ystu rætur Hleiðargarðsfjalls, heitir þar Saurbæjarháls ofan við. Undir hólnum neðan við Saurbæ er fyrrum félagsheimilið Sólgarður, nú aðsetur Smámunasafnsins. Að bænum liggur um 170 m heimreið, nokkuð brött, af Eyjafjarðarbraut vestri en að Saurbæ eru um 28 kílómetrar frá Akureyri. Á Saurbæ stendur snotur torfkirkja frá 1858 (verður til umfjöllunar hér innan tíðar) en þar stendur einnig tæplega aldargamalt steinsteypt íbúðarhús með áföstum gripahúsum. Þau mannvirki eru reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar en fyrir þeim framkvæmdum stóð sr. Gunnar Benediktsson.P8111003

      Íbúðarhúsið á Saurbæ er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara með háu valmaþaki, múrhúðuðum veggjum, bárujárni á þaki og krosspóstum í flestum gluggum. Á framhlið (austurhlið) eru steyptar tröppur með voldugu dyraskýli og ofan á því svalir. Áfast húsinu norðanmegin eru fyrrum gripahús og hlaða. Munu þau hús byggð í áföngum, fyrst fjósið norðan við og síðar hlaða. Fjósið er með lágu risi en hlaðan valmaþaki. Yngri fjárhús eru einnig áföst hlöðunni, sú bygging með mænisþaki og snýr stafni í norður. Grunnflötur íbúðarhúss er um 8x12m.

        Saga Saurbæjar nær allt til landnámsaldar, og verður ekki rakin hér svo nokkru nemi, en þar bjuggu fyrst þau Auðunn rotinn og Helga, dóttir Helga magra.  Líklega hefur staðurinn orðið kirkjustaður skömmu eftir kristnitöku, en hér var klaustur um aldamótin 1200. Auk kirkjustaðar var Saurbær prestsetur fram á 20. öld. Núverandi steinhús var einmitt byggt sem slíkt, en þjónaði aðeins sem prestssetur í örfá ár.  Leysti það af hólmi torfbæ, sem á sinni tíð var einn sá stærsti í hreppnum.

         Það var árið 1920, að sr. Gunnar Benediktsson kom að Saurbæ. Gunnar var fæddur að Viðborði á Mýrum í A-Skaftafellssýslu, kvæntur Sigríði Gróu Þorsteinsdóttur, en hún var úr Reykjavík. Þegar þau komu hingað mun torfbærinn mikli hafa verið orðinn hrörlegur og ekki liðið á löngu, að hugað var að byggingu nýs prestsseturs. Var það enginn annar en Guðjón Samúelsson sem fenginn var til að teikna nýtt prestssetur. Guðjón hafði numið í Danmörku og þar kynnst m.a. hönnun búgarða og var mjög hugleikið, að bæta húsakost í íslenskum sveitum. Á sama tíma sótti hann í íslenskar hefðir og var prestssetrið á Saurbæ gott dæmi um það. Húsin teiknaði hann íP8110997 burstabæjarstíl, íbúðarhúsið með tveimur burstum en áfastar fjósbyggingar með þremur smærri. Á svipuðum tíma teiknaði hann auk Saurbæjarhússins tvö önnur burstabæjarprestssetur", á Holti undir Eyjafjöllum og Bergþórshvoli. „Íbúðarhúsið var líkrar gerðar og hin fyrrnefndu [Holt, Bergþórshvoll] auk áfastra útihúsa með þremur göflum fram að hlaði. Saurbæjarhúsinu var valinn staður við andspænis torfkirkjunni frá 1858. Byrjað var að byggja húsið samkvæmt teikningu Guðjóns en því ekki lokið. Leifar þess mynda neðri hæð í núverandi tvílyftu staðarhúsi" (Pétur H. Ármannsson 2020:115). Varðveist hafa tvær teikningar af Saurbæ, önnur dagsett í janúar 1927 (Pétur H. Ármannsson 2020:116) en hin í apríl 1929. Helsti munurinn á þeim er sá, að á eldri teikningunni eru fjósburstirnar tvær og út frá þeim álma með lágu risi, sem snýr stafni í norður. Á yngri teikningunni eru útihúsin þrjár burstir. Áföst gripahús voru þó ekki byggð með burstalagi, heldur með lágu risi og valmaþaki.  

         Líkast til var nýja prestsetrið fullbyggt 1929, sbr. dagsetningu yngri teikninga en í Byggðum Eyjafjarðar er byggingarár sagt 1926 og er það í samræmi við Fasteignaskrá. Íbúðarhúsið mun hafa verið byggt 1927 og fjósið 1929 (ábending frá Gunnari Jónssyni, tölvupóstur 12. ágúst 2023). Byggingarframkvæmdir gætu hafa hafist þá, en nokkurt ósamræmi mun hafa verið í fjárveitingum ríkisvaldsins og byggingaráforma Gunnars, þ.e. byggingarhraða. Oft þurfti sverar úttektir hjá KEA til að brúa það bil, svo séra Gunnar safnaði þannig miklum skuldum (Sbr. Gísli Sigurgeirsson, 2022). Hann naut þó nýja hússins ekki lengi, því hann fluttist héðan árið 1931. Lauk þar með hlutverki Saurbæjar sem prestssetur.  Sigríður Gróa mun hins vegar hafa búið hér áfram í tvö ár eftir það eða til 1933. Seinni maður hennar var Tryggvi Helgason, en þau bjuggu um áratugaskeið að Eyrarvegi 13 á Akureyri.  Sigríður Gróa var þó ekki ein á jörðinni því á þessu árabil bjuggu tvenn hjón önnur hér, þau Þórólfur Sigurðsson og Þórey Ingibjörg Friðriksdóttir sem og Eiríkur Elíasson og Fjóla Stefánsdóttir. Um svipað leyti og nýja húsið var fullbyggt, 1929, var sett upp símstöð á Saurbæ, sem þjónaði hreppnum í rúma hálfa öld, eða til 1981.

          Þann 21. febrúar árið 1934 voru húsin í Saurbæ metin til brunabóta. Var þeim þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, steinsteypt með járnþaki, kjallari með steinsteyptum skilrúmum. Tvöfaldir útveggir á stofuhæð, skilrúm og gólf úr steini, en timburgafl. Á lofti eru skilrúm úr timbri. Eldstæði og reykháfur voru sögð „fullnægja skilyrðum brunamálalaga“ (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1934:nr.41a). Ábúendur voru þau Sveinbjörn Sigtryggsson  og Sigrún Þuríður Jónsdóttir, bæði úr Saurbæjarhreppi, hann fæddur á Hólum en hún í Ytra Dalsgerði. Þau fluttust hingað árið 1933.  Hér að framan kemur fram, að leifar upprunalegu burstabæjarbyggingar myndi neðri hæð í núverandi tvílyftu húsi. En það skýrist af því, að húsið skemmdist í miklum bruna snemma árs 1945. Laust eftir hádegi þann 31. janúar kviknaði í bæjarhúsinu og mun það allt hafa brunnið að steinsteyptri kjallarahæð. Engu var bjargað af efri hæð en nokkru af neðri hæð, skv. frásögn Dags 1. feb. 1945 og ekki segir af slysum á fólki. Talið var að kviknað hefði í út frá skorsteini (sem engu að síður „fullnægði skilyrðum brunamálalaga“ í brunabótamati). En bærinn var endurbyggður og nú í breyttri mynd, í stað burstana var byggð heil hæð og hátt valmaþak ofan á. Fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur.

                Tæplega hálfu öðru ári eftir brunann á Saurbæ var endurbyggingu lokið og þann 25. júlí 1946 heimsóttu fulltrúar Brunabótafélagsins bæinn og lýstu húsinu á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steinsteypu, tvær hæðir með kjallara. Á húsinu er valmaþak. Útveggir tvöfaldir með tróði. Gólf og skilrúm úr steini. Loft á efri hæð úr timbri. Húsið allt málað og gólf dúklögð. Á neðri hæð: 3 stofur, eldhús og tvær forstofur. Á efri hæð 5 svefnherbergi og baðherbergi. Eigandi var kirkjujarðarsjóður (Brunabótafélag Íslands 1946:nr.101). Ábúendur voru þau Daníel Sveinbjörnsson og Gunnhildur Kristinsdóttir, en Daníel var sonur téðs Sveinbjarnar Sigtryggssonar og Sigrúnar Þuríðar Jónsdóttur. Kúabúskapur var löngum aðalsmerki Saurbæjar á 20. öld en þar voru einnig sauðfé og aðrar skepnur. Árið 1970, þegar skrásettar voru Byggðir Eyjafjarðar, voru alls 40 nautgripir á Saurbæ, 25 kýr og 15 geldneyti en einnig 213 fjár og 14 hross. Fjós er þá fyrir 32 kýr og fjárhús fyrir 270 fjár, hlöður rúma 1600 hesta af heyi og votheysgryfja fyrir 100 hesta (Ath. hestar er gömul mælieining fyrir hey, 1 hestur jafngildir um 100 kílóum af heyi). Túnstærð er þá 40,58 hektarar og töðufengur mælist um 2000 hestar (þ.e. 200 tonn af heyi). Þá er Sveinbjörn Daníelsson nýlega (1966) tekinn við búinu af foreldrum sínum ásamt Ingu Sigrúnu Ólafsdóttur (sbr. Ármann DalmannssoP7270919n, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:312).

Þau Sveinbjörn og Inga Sigrún eru ábúendur á Saurbæ árið 1990 þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman annað sinnið. Þá voru aðeins fjögur geldneyti á Saurbæ, 12 hross en ágætt safn af fé, eða 218 fjár. Ræktað land var þá 41,2 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:834).  Þegar Eyjafjarðarbyggðum voru gerð skil þriðja sinnið, árið 2010, var Saurbær í kaflanum Gömul býli í Eyjafjarðarsveit en býlið mun hafa farið í eyði árið 2000. Síðasti skráði ábúandi var Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir dóttir þeirra Sveinbjarnar og Ingu Sigrúnar. Það er nú tilfellið, að töluvert mörg býli virðast hafa farið í eyði á síðasta áratug 20. aldar og fyrsta áratug þeirrar 21. Hluti jarðarinnar 5 hektarar (árið 2010, gæti verið meira nú) er hins vegar lagður undir skógrækt (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, JóP7270926hann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:626).

En er það þá tilfellið, að hin glæstu hús Guðjóns Samúelssonar standi auð og yfirgefin án viðhalds og bíði þess einfaldlega, að verða vindi, veðri og tímans tönn að bráð? Svo er nú aldeilis ekki, því í húsunum hafa samtökin Búsaga, félagsskapur áhugamanna um varðveislu búskaparminja, véla og tækja fengið aðstöðu og eiga þar athvarf í íbúðarhúsinu. Gripahús og hlöður eru nú skjólshús fyrir aldna bensín- og díselknúna gæðinga úr stáli. Búsögumenn hafa sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsum, svo ekki er að sjá, að bærinn hafi verið í eyði í tæpan aldarfjórðung. Saurbæjarhúsin hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi, ættu hreinlega að vera friðuð, þegar litið er til sögu þeirra og staðarins í heild. Húsin eru fáeinum árum of ung til þess að teljast aldursfriðuð. Haustið 2022 birti Gísli SigurgeirssonP7270931 áhugaverða grein á akureyri.net undir yfirskriftinni Sverrir, Sólgarður og Saurbær. Rétt er að mæla með þeirri grein hér. En þar leggur hann til,  að bæjarhúsin á Saurbæ verði gerð upp og þar verði komið upp eins konar lifandi safni um búnaðarsögu Eyjafjarðar.  Þá væri eflaust hægt að hugsa sér húsakost sem veglegan sýningarsal fyrir gömul landbúnaðartæki.  Kannski segir umfjöllun Byggða Eyjafjarðar árið 2030 um Saurbæ frá glæsilegum húsa- og safnkosti Búsögusafns...

Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. ágúst 2021. Hér eru einnig nokkrar myndir af tækjum á vegum Búsögu á Saurbæ, teknar 27. júlí 2019.         

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. 1934. Saurbær, virðing nr. 41a, blað 52. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41

Brunabótafélag Íslands. 1946. Saurbær virðing nr. 101, blað 17. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands, bók II 1944-1951.  Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/42

Gísli Sigurgeirsson. 2022. Sverrir, Sólgarður og Saurbær. Grein á vefmiðlinum Akureyri.net. Birtist 22. október 2022 á slóðinni  https://www.akureyri.net/is/moya/news/sverrir-solgardur-og-saurbaer

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

 


Hús dagsins: Möðrufell; eldra íbúðarhús

Sunnan við hæsta fjall Eyjafjarðar, Kerlingu, stendur öllu lægra fjall sem nefnist Möðrufellsfjall. Helstu sérkenni þess eru tvær „hillur“ framan í fjallinu en þar hefur einhvern tíma skriðið fram ægilegt jarðfall eða berghlaup sem sest hefur neðan í fjallinu sem mikil hólaþyrping, leiti og hæðir. Hólaþyrping þessi er alsett grettistökum og stórgrýti og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957:178-180) telur Möðrufellshraun myndað í tveimur framhlaupum, það síðara fyrir um 2500-3000 árum en óljóst með aldur hins fyrra. Þetta náttúrufyrirbæri er þannig ekki eiginlegt eldhraun, því við Eyjafjörð hefur ekki verið í eldvirkni í milljónir ára og það hraun sem þá rann, löngu orðið að jarðlögum og bergi. Fjallið og „hraunið“ eru kennd við bæinn Möðrufell, sem stendur hátt í brekkunum (um 150 m y.s.) neðan fjallsins. Bæjarstæðið er í víðum hvammi suðaustast í skriðufótum Möðrufellshrauns og þar stendur m.a. gamalt íbúðarhús, teiknað af engum öðrum en Guðjóni Samúelssyni, sem síðar varð Húsameistari ríkisins.P7030963 - afrit

                Saga jarðarinnar Möðrufells nær langt aftur í aldir. Þar var rekin holdsveikraspítali fyrir Norðurland frá miðri 17. öld til ársins 1848, eða í um 200 ár. Einhver annálaðasta sagan tengd Möðrufelli er raunar hálfgerð hryllingssaga, um systkini tvö er líflátin voru saklaus. Sögum ber raunar ekki saman, hvort þau voru líflátin eða földust í Möðrufellshrauni uns þau sultu í hel. Upp af jarðneskum leifum þeirra átti að hafa vaxið reynitré, Möðrufellsreynirinn og af honum komin mörg reynitré á Eyjafjarðarsvæðinu. Hvað varðar sannleiksgildi þjóðsögunnar um systkinin ólánssömu er það staðreynd, að frá fornu fari óx reyniviður í Möðrufellshrauni og út af honum mörg tré. Reynitré, m.a. í valinkunnum reynilundi á Skriðu í Hörgárdal á 19. öld og vafalítið mörg eldri reynitré Akureyrar, voru út af Möðrufellsreyninum. Sumar sögur segja, að öll reynitré í Eyjafirði séu komin  af Möðrufellsreyninum (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444).  Möðrufellsreynirinn var felldur af ungum bónda á miðri 19. öld, og mun hann hafa smíðað úr henni klyfbera. Enn munu finnast reynihríslur í Möðrufellshrauni (Sbr. Hólmfríður Andersdóttir 2000:43). Meðfylgjandi mynd sýnir reynilund við Bjarmastíg 1 á Akureyri, hvort þau eru komin af Möðrufellsreyninum skal ósagt látið hér.P8180231

                Gamla íbúðarhúsið í Möðrufelli er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með miðjukvisti. Á bakhlið er einnig smár kvistur. Krosspóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Grunnflötur hússins mun 12,8x8,8m og í Byggðum Eyjafjarðar er húsið sagt 850 rúmmetrar. Þar kemur einnig fram, að húsið hafi að mestu verið endurbyggt á árunum 1966-68. Möðrufell stendur um 500 metra frá Finnastaðavegi og er heimreiðin um 3 km frá vegamótum þess vegar og Eyjafjarðarbrautar vestri. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu á Möðrufelli gætu verið um 23 kílómetrar.

                Þegar minnst er á Guðjón Samúelsson koma eflaust stórar og glæstar kirkju- eða skólabyggingar og aðrar opinberar byggingar upp í huga margra. En hann teiknaði, sérstaklega í upphafi ferils síns, einnig mörg smærri og íburðarminni hús m.a. til sveita. Eitt þeirra var íbúðarhús fyrir Jón Jónsson, bónda í Möðrufelli, sem hann teiknaði í janúar 1920.  Þá var Guðjón nýkominn frá námi í Danmörku þar sem hann hafði m.a. kynnt sér byggingar á dönskum búgörðum. Guðjón var mjög áhugasamur um að bæta húsakost í íslenskum sveitum en sótti engu að síður í ákveðin sérkenni og byggingarlag fyrri tíma. Teiknaði hann t.a.m. margar byggingar með burstabæjarlagi. Og húsið í Möðrufelli teiknaði hann með torfþaki (!) en slíkt þak var þó aldrei sett á húsið, heldur var hefðbundið timburþak frá upphafi. Þá var gert ráð fyrir að húsið yrði gaflsneitt og kvisturinn með burstalagi (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:398). Jón Jónsson, sem reisti húsið var fæddur á Gilsbakka í Hrafnagilshreppi árið 1867. Hann og kona hans, Ólöf Bergrós Árnadóttir (1861-1936), fædd að Völlum í Saurbæjarhreppi, komu að Möðrufelli árið 1908, en þau höfðu áður verið í Hrafnagilshreppi m.a. á Dvergsstöðum, Reykhúsum og Syðra Laugalandi í Öngulsstaðahreppi. Þarna má segja, að Jón hafi verið kominn á heimaslóðir, því Möðrufell er næsti bær norðan við Gilsbakka, þar sem hann fæddist. Ólöf var heldur ekki langt frá sínum fæðingarstað, en hún var fædd á Völlum í Saurbæjarhreppi.P7030963

                Þegar Jón og Ólöf fluttu að Möðrufelli munu þar hafa staðið þar einhverjir torfskálar en torfbæinn sem þar stóð, og birtist í Bæjalýsingum og teikningum mun fyrri eigandi og ábúandi, Páll Hallgrímsson hafa rifið að miklu að leyti (sbr. Jónas Rafnar 1975:39). Það hefur verið umtalsvert stórvirki að ráðast í byggingu steinhússins á Möðrufelli á sinni tíð, en húsið er eitt af fyrstu slíkum sem risu í Hrafnagilshreppi og með þeim stærri og veglegri í hreppunum framan Akureyrar. Heimildum ber raunar ekki saman um hvort húsið er byggt 1919 eða 1920, en uppdráttur er dagsettur 1920. Hlýtur það að taka af öll tvímæli um byggingarár hússins, en þó ekki loku fyrir það skotið, að bygging hafi verið hafin á árinu 1919, enda þótt teikningar lægju ekki fyrir. Árið 1933 var nýja húsið metið til brunabóta og lýst svo: Íbúðarhús úr steinsteypu, ein hæð með kjallara og porti og kvisti. Á aðalhæð eru 6 herbergi og forstofa. Á lofti eru 5 herbergi og geymsla. Kjallari í 7 hólfum. Steinveggur eftir endilöngum kjallara og aðalhæð. Lengd 12,8m, breidd 8,8m og hæð 7,6m. (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.13). Í brunabótamati kemur einnig fram, að húsið kjallaragólf sé steinsteypt en aðrir innviðir úr timbri og húsið kynt með kolaofnum og steinolía til ljósa.

                Árið 1924 tók dóttir þeirra Jóns og Ólafar, Árnína Hólmfríður og maðurP5201004 hennar Guðbrandur Ísberg Magnússon frá Snóksdal í Dalasýslu, við búskapnum. Árið 1931 tók bróðir Árnínu, Kristinn Óskar Jónsson, og kona hans Jóna Kristín Þorsteinsdóttir við búinu og munu afkomendur þeirra hafa búið hér allt til ársins 1988. Árið 1970 voru ábúendur hér þau Ingvar Kristinsson, sonur téðs Kristins Óskars og Ester Sigurðardóttir. Þá telur bústofn Möðrufells 41 kýr og 19 geldneyti og eitt hross en vegna hringskyrfis hafði allt fé verið skorið árið 1967. Þá er túnstærð 32,52 hektarar og töluvert af ræktanlegu, framræstu landi og töðufengur um 1750 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:292).

                Árið 1990 eru ábúendur þau Bjarni Rúnar Guðmundsson og Ragnheiður Austfjörð. Þá telur bústofninn alls 95 nautgripi, þar af 42 kýr, sauðfé, 18, 7 hross og 13 hænur. Ræktað land telst þá 39,5 hektarar.  Þá, 1990, hafði risið nýtt íbúðarhús norðan þess gamla en það var byggt árið 1985. Þá voru ábúendur Þorsteinn Ingvarsson og Edda Hrafnsdóttir (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:782). Þess má geta, að Þorsteinn er langafabarn Jóns Jónssonar. Þar með þjónaði gamla íbúðarhúsið sem geymsla. Þegar byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil árið 2010 var Lífsval ehf. eigandi jarðar og mannvirkja og ábúandi Þorbjörn Hreinn Matthíasson. Þá eru einungis hross, 37 að tölu, á jörðinni. Auk íbúðarhúsanna frá 1919 (1920) og 1985 standa á jörðinni eftirfarandi byggingar: Hesthús, áður fjós, og hlaða, hvort tveggja byggð 1970, annað hesthús frá 1984 og geymslur byggðar 1935 og 1985 (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444). Standa útihús sunnan og neðan íbúðarhúsa.  

                Gamla íbúðarhúsið á Möðrufelli glæsilegt hús að upplagi og sómir sér aldeilis vel á glæstu bæjarstæði. Það lítur mjög vel út og úr fjarlægð er ekki að sjá, að þar hafi ekki verið búið í tæp 40 ár. Jörðin fór vissulega ekki í eyði þegar flutt var úr gamla húsinu, svo líkast til hefur því verið haldið við að einhverju leyti.  Árið 2012 fór fram úttekt eða rannsókn á nokkrum eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Norðurlandi, m.a. í Eyjafjarðarsýslu og afraksturinn gefinn út á bók; Eyðibýli á Íslandi. Af þeirri umfjöllun má ráða, að umgengni um húsið hafi ekki verið sérlega góð, þegar rannsóknin fór fram, 2012; eyðibýli og yfirgefin hús verða því miður oft fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Þar kemur einnig fram, að herbergjaskipan sé að mestu óröskuð. Möðrufellshúsið gamla er væntanlega friðað vegna aldurs, þar sem það er byggt fyrir 1923 og í eyðibýlarannsókninni hlýtur húsið m.a. eftirfarandi umsögn: Húsið er glæsilegt og staðsetning þess mjög góð með tilliti ti útsýnis, náttúrufars og fallegs umhverfis. Að mati rannsakenda er húsið með reisulegri húsum í sveitarfélaginu. Viðgerð er því bæði raunhæf og æskileg áður en húsið skemmist meira (Axel Kaaber o.fl. 2012: 113). Það er svo sannarlega hægt að taka undir þessa umsögn.   

Meðfylgjandi myndir af Möðrufelli eru teknar þann 3. júlí 2020 og 20. maí 2022. Mynd, sem sýnir reynitré við Bjarmastíg er tekin 18. ágúst 2015.

P7030963 - afrit1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að ofan: Þegar íbúðarhúsið að Möðrufelli var teiknað var gert ráð fyrir torfþaki. Greinarhöfundur ákvað að leika sér aðeins með þá staðreynd í myndvinnsluforriti...

Heimildir:

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmfríður Andersdóttir. 2000. „Í Eyjafirði aldinn stendur reynir“ í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga

Ólafur Jónsson. 1957. Skriðuföll og snjóflóð I. bindi. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.


"Hús dagsins" 14 ára

Það var þann 25. júní árið 2009 að ég ákvað að birta mynd sem ég átti af Norðurgötu 17, Steinhúsinu, inn á þessa síðu hér, sem ég hafði tekið í notkun þremur dögum fyrr. Ekki lét sá pistill mikið yfir sér: 

P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

(Að auki var einhver formáli eða lokaorð) 

Textinn var frekar ætlaður til að styðja við myndirnar. En allt vatt þetta upp á sig, greinarnar urðu lengri og ítarlegri eftir því sem ég komst í viðameiri heimildir. Árið 2009 hélt ég t.d. að Héraðsskjalasafnið væri ekki opið almenningi nema í einhverjum sérstökum tilfellum, timarit.is þekkti ég ekki (veit ekki hvort það var til þá) og vefur héraðsskjalasafnsins var eflaust ekki með sama hætti og nú. Auk margs annars sem nú eru mikilvægustu heimildir við þessi skrif. Þá hafa ótal nýjar bækur og húsakannanir komið út á þessum 14 árum.Þessa sögu hef ég eflaust rakið nokkrum sinnum hér. En venjan er sú, að gera eitthvað hér á vefnum á afmælinu. Að þessu sinni ætla ég að birta nokkur sýnishorn frá hverju ári fyrir sig. 

2009:

Hafnarstræti 96. Birtist 21. ágúst.

2010:

Lundargata 11. Birtist 5. mars. 

2011:

Aðalstræti 74. Birtist 9. janúar. 

2012:

Sláturhús KEA á Oddeyrartanga. Birtist 18. nóvember

2013:

Aðalstræti 72. Birtist 4. ágúst. 

2014:

Lækjargata 11a. Birtist 7. október.

2015:

Goðabyggð 7; áður Vesturgata 9 eða Silfrastaðir. Birtist 8. júlí. 

2016:

Oddeyrargata 38. Birtist 9. september.

2017:

Hamarstígur 8. Birtist 3. maí.

2018:

Hríseyjargata 15. Birtist 6. desember. 

2019:

Holtagata 11. Birtist 5. apríl. 

2020:

Skipagata 8. Birtist 19. júní 

2021:

Grímsstaðir í Glerárþorpi. Birtist 31. júlí. 

2022:

Eyrarvegur 17-19. Birtist 27. mars.

2023:

Grund II. Birtist 9. júní.

Þess má geta, að nýir og ítarlegri pistlar eru væntanlegir um flest þeirra húsa, sem ég tók fyrir hér á síðunni árin 2009-11. Þeir eldri fá að varðveitast hér, á öldum veraldarvefjarins, sem börn síns tíma. Frá vorinu 2022 hafa skrifin hér einnig birst á vefnum akureyri.net.  Og svo kannski stærstu tíðindin: Á næstu vikum eða jafnvel dögum er bók væntanleg í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur, fv. prófessor.  Nánar síðar. 


Meðmæli: Eyðibýli á RÚV

Einn er sá sjónvarpsþáttur, sem sýndur hefur verið síðustu vikur á RÚV, og nokkur undangenginn sumur, sem ég finn mig knúinn til að hrósa. En það eru þættirnir Eyðibýli á RÚV. Þættirnir,í umsjá Guðna Kolbeinssonar, eru sérlega áhugaverðir, fræðandi og skemmtilegir. Umfjöllunin lágstemmd og afslöppuð. Myndatakan og sjónarhornin á myndefnið eru hreinlega óborganleg. Takk fyrir. laughing


Hús dagsins: Grund I

Á Grund standa tvö íbúðarhús, sem stórbóndinn og athafnamaðurinn Magnús Sigurðsson, kenndur við staðinn reisti, það eldra frá 1893 og það yngra byggt 1910. Magnús hafði á barnsaldri heillast af þessari fornu stórjörð og einsett sér að eignast hana, þegar hann yrði stór. Og af því lét hann verða árið 1873, þá 26 ára gamall. Hann keypti þá hálfa jörðina en síðar eignaðist hann allt Grundarland. Magnús bjó á Grund í ríflega hálfa öld, til æviloka, og stóð fyrir mikilli uppbyggingu á jörðinni og hafði þar mikil umsvif; verslunarrekstur, skólahald, auk þess sem ýmsar samkomur og fundir sveitarinnar fóru fram á Grund. Það var árið 1909 sem hann hóf að byggja hús sunnan við íbúðarhúsið, við vesturjaðar kirkjugarðsins. Snemmsumars 1910 sá fyrir endann á verkinu.  En daginn sem síðar varð þjóðhátíðardagur Íslands reið stóráfall yfir.IMG_0584

17. júní, sem löngum hefur verið tengdur miklum hátíðahöldum hjá íslensku þjóðinni, var aldeilis ekki hátíðlegur hjá Magnúsi á Grund og hans fólki árið 1910. Um hádegisbilið var nefnilega stórbruni á Grund: Nýjasta stórvirki Magnúsar, stórhýsi, sem þjóna átti sem sláturhús og samkomuhús brann til ösku á um tveimur klukkustundum. Eldsupptökum er lýst nákvæmlega í ævisögu Magnúsar: [...]Einn öðlingsmaður sem vann að smíðum við bygginguna, kveikti í pípu sinni og varpaði frá sér eldspýtunni. En neisti frá henni lenti í skraufþurri spónahrúgu, sem greip logann, þegar smiðurinn sneri baki að, og fyrr en varði á andartaki hafði spónahrúgan sogað logann í sig, svo að ekkert varð við ráðið – eldurinn læsti sig í þurrviðinn í þiljunum með heiftaráfergju. Heimilisfólk sótti vatn í lækinn og skvetti á og fólk af nálægum bæjum dreif einnig að og tók til við slökkvistarf Vatnsföturnar máttu sín hins vegar lítils: En brátt var ljóst að við ofurefli var að etja, þakið féll og síðan útveggir og þar sem fyrir hádegi var glæsileg bygging, var nú rúst með brennandi sprekum sem fallið höfðu á steingólfið. MenIMG_0590n voru hljóðir og ráðvana. Smiðurinn, sem hafði orðið fyrir því að missa neistann lausan, fékk taugaáfall  (Gunnar M. Magnúss 1972: 238-239).  Það fylgir þó ekki sögunni, hvort umræddur smiður hafi hætt pípureykingum. Ljóst var að tjónið var mikið og það sem verra var, húsið hafði ekki verið vátryggt. Skemmst er frá því að segja, að Magnús hóf endurbyggingu síðar um sumarið upp af steingrunninum. Og haustið 1910 var kjallarinn nýttur sem sláturhús og efri hæðin innréttuð. Nú var mestallt byggt úr steinsteypu, líklega eitt fyrsta stóra steinsteypuhús í hreppunum framan Akureyrar. Og hið endurbyggða hús stendur enn og nefnist Grund I.

       Grund I stendur lítið eitt sunnan við Grund II og um 65m sunnan við kirkjuna. Að Grund liggur um 170m löng heimreið frá Eyjafjarðarbraut vestri en frá miðbæ Akureyrar eru um 21 kílómetri að Grund.  Grund I er einlyft steinhús á háum steinkjallara og með háu valmaþaki. Lítið eitt norðan við miðja vesturhlið er kvistur og undir honum inngöngutröppur. Á austurhlið er einnig kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Veggir virðast klæddir múrplötum, svokölluðum „steníplötum“ en bárujárn er á þaki. Ónákvæm mæling á grunnfleti (map.is) er um 10x24m. Grund I var metið til brunabóta árið 1933 og var þá lýst á þennan hátt: Íbúðarhús, steinsteypt. Ein hæð á háum kjallara. Kvistur á þaki. Á aðalhæð 9 herbergi og tvær forstofur. Kjallari í 7 hólfum. Gólf yfir kjallara er steinsteypt. Einn steinveggur um þvert hús, á aðalhæð og kjallara  (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.24). Mál hússins voru sögð 16,6x8,8m og 6,9m hátt en einnig er skúr við húsið 6,6x8,8m og hæð skúrsins sögð 2,7m. Mögulega er hér um að ræða syðsta hluta hússins, sem síðar hefur verið hækkaður en það kemur heim og saman við það, að húsið gæti verið 23,5m á lengd. Húsið var kynt með miðstöð í kjallara og steinolía til ljósa. ÖllP71520220715_150856 (26) skilrúm og veggir úr timbri nema steinveggur í miðju. Fram kemur, að loft yfir kjallara sé steinsteypt. Húsið er þannig með fyrstu húsum á Íslandi með steyptri plötu milli hæða en allt fram undir miðja 20. öld voru steinhús yfirleitt byggð þannig, að aðeins útveggir voru steyptir en veggir og loft milli hæða úr timbri.

       Upprunalega var húsið Grund I byggt sem fundahús eða samkomuhús með sláturhúsi, fjárrétt og vörugeymslu í kjallara. Mögulega var búið í húsinu frá upphafi en það var „tekið að fullu fyrir íbúðarhús 1926“ (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:286).  Tíu árum fyrr hafði Aðalsteinn Magnússon tekið við jörðinni af foreldrum sínum og samkvæmt ábúendatali Byggða Eyjafjarðar 1990 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:771)  bjuggu Magnús Sigurðsson og Guðrún Þórey Jónsdóttir í þessu húsi síðustu æviár sín. Þau létust 1918 og 1925 (Aðalsteinn og ábúendur eftir hann munu hafa búið í eldra húsinu). Síðari kona Magnúsar var Margrét Sigurðardóttir, en hún hafði komið að Grund sem ráðskona og giftist Magnúsi árið 1924. Magnús Sigurðsson lést á Grund þann 18. júní 1925, tæplega 78 ára að aldri, en hann var fæddur 3. júlí 1847 á Torfufelli í Saurbæjarhreppi. Þá voru liðin 52 ár frá því að hann reið, í kapphlaupi við tímann, austur á Breiðumýri í S-Þingeyjarsýslu til Jakobs Péturssonar þeirra erinda, að kaupa af honum hálft Grundarland. Það hafðist, en aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Jakob og Magnús hanIMG_0588dsöluðu kaupin reið annar ungur maður í hlað, Eggert Gunnarsson frá Laufási. Hann hugðist einnig kaupa Grund, en var fáeinum klukkustundum of seinn; Magnús hafði verið á undan og æskudraumur hans hafði ræst.

                Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Margrét hér áfram, ásamt seinni manni sínum, Ragnari Davíðssyni frá Kroppi. Þau bjuggu hér til ársins 1959 en frá 1950 bjuggu þau hér félagsbúi ásamt Aðalsteinu Magnúsdóttur og Gísla Björnssyni, en Aðalsteina var dóttir Margrétar og Magnúsar Sigurðssonar. Bróðir Margrétar, Snæbjörn Sigurðsson flutti á Grund árið 1948 og var jörðinni þá skipt, Grund I og Grund II. Snæbjörn átti Grund II og bjó í eldra íbúðarhúsinu og er þessi skipting enn í gildi. Eigenda- og íbúaskipti á Grundarjörðunum voru ekki tíð á 20. öld; árið 1990 eru téð Aðalsteina og Gísli eigendur jarðar.  Þá (1990) er fóstursonur þeirra, Bjarni Aðalsteinsson og kona hans Hildur Grétarsdóttur einnig ábúendur. Bústofninn árið 1990 telur IMG_0585alls 150 nautgripi, þar af 67 kýr og sex hross. Tuttugu árum fyrr voru kýrnar 46 og geldneyti 14, en allt sauðfé hafði verið skorið 1967. Hvort sauðfé hafi verið á Grund I frá þeim skurði er höfundi ókunnugt um, síðari árin hefur býlið fyrst og fremst verið kúabú. Og þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman þriðja sinnið, árið 2010 voru kýrnar 117 og aðrir nautgripir 102 og ræktað land tæpir 180 hektarar. Árið 2010 var eigandi Grundar I, Holt ehf. en búið var rekið undir nafni Ljósaborgar ehf. undir stjórn þeirra Öddu Báru Hreiðarsdóttur og Víðis Ágústssonar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 435).

                Af fleiri byggingum sem tilheyra Grund I má nefna fjós byggð 1947, 1983 og geldneytafjós frá 1972, sem áður var vélageymsla. Þá eru, steinsnar frá íbúðarhúsinu, byggingar frá tíð Magnúsar Sigurðssonar, fjós, fjárhús og hlöður frá árunum 1910-15. Þær byggingar eru nú nýttar sem geymslur en hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi vegna aldurs. Grund I er auðvitað aldursfriðað hús, byggt fyrir 1923. Þá er húsið í hópi elstu steinsteypuhúsa Eyjafjarðarsvæðisins.  Það er hluti skemmtilegrar heildar, sem Grundarhúsin, kirkjan mikla og aðrar byggingar staðarins myndar í grænu og búsældarlegu héraði. Grund blasir einmitt skemmtilega P71520220715_150856 (24)við þegar ekin er Eyjafjarðarbraut vestri niður hjalla mikinn sunnan Hólshúsa. (Kirkjuturninn sést raunar lengra að). Á hjalla þessum, vestanmegin vegarins, er enn eitt sköpunaverk Magnúsar Sigurðssonar, Grundarreitur. Var það árið 1900 sem Magnús girti þessa landsspildu af og réði danskan skógræktarmann, Christian Flensborg að nafni, til að standa fyrir skógrækt. Næstu sumur fór trjáplöntun fram og nú er Grundarreitur, sannkölluð græn perla og paradís, einn af helstu skógarreitum Eyjafjarðarsvæðisins. Skógarreiturinn var stækkaður um 1953 og er nú 3,3 ha. (Sbr. Sigurður Blöndal 2000:147). Það er svo sannarlega hægt að mæla með göngu um Grundarskóg, sem opnaður var almenningi árið 1994 og hér eru meðfylgjandi nokkrar svipmyndir. Hægt væri að skrifa langa grein um Grundarskóg en greinarhöfundur eftirlætur slík skrif „skógfróðari“ mönnum og lætur staðar numið hér.

Saga Grundar nær auðvitað mun lengra aftur en sem nemur sögu íbP71520220715_150856 (29)úðarhúsa þar og Magnúsar Sigurðssonar, raunar allt til landnámsaldar. Hér bjuggu löngum miklir höfðingjar og merkisfólk, m.a. Sighvatur Sturluson, bróðir Snorra Sturlusonar, árin 1217 til 1238. Á 16. öld bjó hér Þórunni ríka (um 1511-1593), dóttir Jóns biskups Arasonar, sem „ríkti af miklum skörungsskap á Grund í 60 ár“ (Gunnar M. Magnúss 1972:89). Ein sagan segir, að Þórunn hafi beðið af sér Svartadauða uppi í Laugafelli og þar má finna svokallaða Þórunnarlaug. Það setur eilítið strik í þann reikning, að svartadauðaplágan gekk um það bil 100 árum fyrir daga Þórunnar ríku en stundum er sagt, að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann. Á 14. öld bjó hér hin valinkunna Grundar-Helga, og neðarlega í Grundarreit er strýtuP71520220715_150856 (14)laga hóll, sem nefndur er Helguhóll, eftir henni. Helga hafa verið helsta driffjöðurin fyrir Grundarbardaga í júlí 1372, þar sem Smiður Andrésson hirðstjóri og fylgdarmenn hans voru ráðnir af dögum. Ginnti hún þá á Grund með því að bjóða til mikillar veislu. Þessi atburður var eyfirsku hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurum að yrkisefni. Ætli það sé ekki viðeigandi, að slá botninn í þessa Grundarumfjöllun með Veislunni á Grund í flutningi téðra Helga og Hljóðfæraleikarana.

 

P8121073

 

 

 

Meðfylgjandi myndir úr Grundarreit, ásamt myndinni af Grundarbæjunum, þar sem horft er af Helguhól í Grundarreit eru teknar 15. júlí 2022. Myndirnar af Grund I og þar sem horft er til Grundar frá Eyjafjarðarbraut eystri eru teknar 15. júní 2023. Myndin af Þórunnarlaug í Laugafelli er tekin 12. ágúst 2021.

 

 Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Sigurður Blöndal. 2000. Grundarskógur. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.


Hús dagsins: Grund II (eldra íbúðarhúsið á Grund)

Um miðja 19. öld átti heima á Öxnafelli í Saurbæjarhreppi ungur drengur, hjá afa sínum og ömmu, Magnúsi Árnasyni, þá hreppstjóra og konu hans Hólmfríði Jónsdóttur. Drengurinn var mjög áhugasamur um búskap afa síns, sem þótti sérlega hagsýnn búmaður, vandvirkur og nákvæmur. Drengurinn horfði oftar en ekki hugfanginn yfir Eyjafjarðarána á Kerlingu og hið forna höfuðból, Grund og hinar miklu lendur þess undir hæsta tindi Norðurlands. Hann hreifst af þessari stórjörð og kostum hennar. Það vakti athygli stráks, að á meðan jörð er alhvít á Öxnafelli sér ævinlega í jörð á Grundarlandi. (Gömul saga og ný, um grænna gras hinu megin). Átta ára gamall sagði drengurinn við afa sinn: „Ég ætla að kaupa Grund, þegar ég er orðin stór“  (Sbr. Gunnar M. Magnúss 1972:11). Það er skemmst frá því að segja að drengurinn stóð ekki bara við þessi orð, heldur reisti á Grund einhverjar veglegustu byggingar sveitarinnar á sinni tíð, bjó þar stórbúi og stundaði umsvifamikinn verslunarrekstur. En drengur þessi var auðvitað Magnús Sigurðsson (1847-1925) sem jafnan var kenndur við Grund.P5201027

Elst þeirra bygginga, sem standa á Grund, er eldra íbúðarhúsið, Grund II, en það reisti Magnús Sigurðsson sem íbúðar- og verslunarhús. Stendur það skammt suður og vestur af kirkjunni, um 170 metra austur af Eyjafjarðarbraut vestri. Húsið er 130 ára á þessu ári, fullbyggt árið 1893 og stendur skammt sunnan og vestan við kirkjuna.  Húsið er tvílyft timburhús á steinhlöðnum kjallara. Sunnarlega á vesturhlið er smár inngönguskúr („bíslag“) og timburverönd meðfram austurhlið. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nærri 10x17m og inngönguskúr um 2x2m (ónákvæm mæling af loftmyndum map.is). Tvær íbúðir eru í húsinu, önnur á neðri hæð og hin á efri hæð og risi.

      Frá því að Magnús Sigurðsson kom að Grund árið 1873 vakti alla tíð fyrir honum, að byggja staðinn upp, en jörðin hafði verið í fremur bágu ástandi. Auk mikilla jarðarbóta endurnýjaði hann húsakostinn svo um munaði. Árið 1883 byggði hann við gamla bæinn, sem var hefðbundinn torfbær, hafði þar smíðaverkstæði í viðbyggingunni. Magnús hafði frá unga aldri stundað ýmis viðskipti m.a. fengist við smíðavinnu fyrir bændur og búalið gegn greiðslum í peningum, búfé eða afurðum. Það var síðan árið 1885 að hann hóf skipulagðan verslunarrekstur í hinum nýju húsakynnum en fljótlega fór að þrengja að. Haustið 1890 hélt Magnús til Danmerkur og hugðist m.a. kynna sér það nýjasta í búskap, verslunarháttum, húsbyggingum auk þess að afla sér viðskiptamanna því hann hugði á útflutning og innflutning. (Í þessari dvöl hitti Magnús ungan íslenskan húsasmíðanema, Ásmund Stefánsson, sem síðar stýrði byggingu Grundarkirkju Magnúsar). Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns framfaramál og bættur húsakostur landsmanna var þar á meðal. Og það var einmitt í þessari Danmerkurdvöl  „[...] að nokkru fyrir jól [1890] pantaði Magnús tiltelgda grind í stórhýsi, sem hann ætlaði að reisa á Grund strax á næsta ári. Skyldi grindin og annað timbur í húsið sendast með vorskipum til Íslands“ (Gunnar M. Magnússon 1972:154). Af þessu má ráða, að grind hússins hafi komið tilsniðin til landsins frá Danmörku og hún hafi borist til landsins 1891.

     Það mun hafa verið vorið og sumarið 1891 að Magnús hóf undirbúning byggingaframkvæmda, uppgröft og niðurrif eldri bygginga. Kjallari hússins var hlaðinn úr steini og nokkuð djúpur, miðað við það sem tíðkaðist almennt. Á kreik komst sú þjóðsaga, að við þessar framkvæmdir hafi Magnús komið niður á kistil, fullan af gulli og gersemum. Eins og gefur að skilja var ekkert hæft í því, en ekkert útilokað að ýmsar leifar frá fyrri tíð hafi komið upp, þó ekki hafi verið um fjársjóð að ræða. Fullbyggt var húsið árið 1893 og var þá vafalítið stærsta timburhús í hreppunum framan Akureyrar. Það var raunar á pari við stærstu og veglegustu hús á Akureyri enda stóð Magnús á Grund athafnamönnum kaupstaðarins hvergi á sporði. Í ævisögu Magnúsar, eftir Gunnar M. Magnús, er svo sagt frá:

Þetta var stórt og snoturt hús, 24x14 álnir [u.þ.b.15x9m] að stærð, tvær stofuhæðir og rishæð. Á neðri stofuhæð hafði Magnús verslun sína. Eldhús var í suðvesturhorni á sömu hæð, og gestastofa að suðaustan. Á efri hæð voru svefnherbergi fólksins. Þar var líka skrifstofa verslunarinnar og í suðvesturhorni góð stofa, kölluð Jónínuherbergi. Að vestanverðu á hæðinni var stór stofa, sem notuð var til fundahalda í sveitinni. Þar fóru fram hreppaskil og manntalsþing. Þar kom og heimilisfólki stundum saman til að skemmta sér. Á þessari hæð var löng stofa að austanverðu, er kölluð var baðstofa. Þar hélt vinnufólkið til á kvöldin og þar sváfu vinnukonurnar. En vestur af uppgöngunni, sunnan við uppgönguna, var lítið herbergi, þar sem vinnumennirnir sváfu. Herbergi þeirra var nefnt Hrútakofinn. Í portbyggðri rishæð bjó venjulega húsfólk (Gunnar M. Magnúss 1972: 157).

Þarna má sjá, að verslunar- og íbúðarhúsið var einnig hálfgert „ráðhús“ hreppsins og félagsheimili, sbr.  vesturstofan á efri hæðinni, sem notuð var til fundahalda í sveitinni, hreppaskila og manntalsþinga. Árið 1899 bauð Magnús hreppsnefnd Hrafnagilshrepps, sem var á hálfgerðum hrakhólum, afnot af húsakosti sínum og það til næstu 50 ára! Um leið komu upp hugmyndir um byggingu sérstaks þinghúss, enda hefur það varla verið stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Það leið þó á löngu áður en Þinghúsið á Hrafnagili reis af grunni, en það var árið 1925.P5140999

     Verslun Magnúsar var að miklu leyti sambærileg, hvað varðaði vöruúrval og verð, við helstu verslanir kaupstaða og þótti jafnvel bera af þeim, hvað snyrtimennsku og frágang vara varðaði. Grundarverslun hefur í raun verið einstakt fyrirbæri, það var örugglega ekki algengt að slík verslun væri staðsett í sveit og raunar enn þann dag í dag. Miðað við umsvif og vöruúrval verslunar, var þetta e.t.v. svipað og ef fullburðug Bónus eða Krónuverslun væri staðsett í miðju landbúnaðarhéraði, 20 km frá kaupstað. Magnús lagði einnig áherslu á viðskipti við bændur, sem lögðu inn hjá honum kjöt og afurðir gegn úttektum.  Margir bændur í Saurbæjarhreppi skiptu nánast eingöngu við Magnús.  Þessum umsvifum fylgdi auðvitað mikill flutningur til og frá kaupstaðnum og þar auðvitað notast við hestakerrur og sleða á vetrum. Vegna þessara flutninga flutti Magnús inn bíl, annar manna á Íslandi og fyrstur manna á Norðurlandi, árið 1907. Hann reyndist hins vegar illa, of þungur og kraftlítill, erfitt að útvega varahluti og reyndist raunar verr, ef eitthvað var, heldur en kerrur og sleðar. Þess vegna var Grundarbíllinn ekki í þjónustu Magnúsar nema í hálft annað ár. Þá munaði í raun ekki miklu, að Grundarhúsin hefðu orðið fyrstu raflýstu húsin á Norðurlandi. Rafljós voru fyrst kveikt á Íslandi árið 1904, í Hafnarfirði, og um svipað leyti hafði Magnús samband við Jakob nokkurn Gunnlaugsson í Kaupmannahöfn. Skyldi hann leita tilboða til vátrygginga fyrir húsakost staðarins og auk þess, í raflýsingu á nýju kirkjunni og íbúðarhúsinu. Einhverra hluta vegna varð hvorki af tryggingunni né rafvæðingunni (Gunnar M. Magnúss 1972:228).  Hvers vegna fylgir þó ekki sögunni, mögulega hefur Magnúsi ekki þótt tilboðið hagstætt. (Hvort Magnús hefði fjárfest í rafmagnsbíl, skal hins vegar ósagt látið hér).  Auk þess að standa fyrir stórbúskap og verslun rak Magnús einnig skóla á Grund, á eigin kostnað, í tæpa tvo áratugi, frá 1889 til 1907 en eftir það tók við farkennsla, skv. Fræðslulögum frá 1907. Lengst af annaðist Árni Hólm Magnússon, frændi Magnúsar, kennsluna en Ingimar Eydal, síðar ritstjóri Dags og skólastjóri kom einnig að Grundarskóla síðar.  

     Magnús var kvæntur Guðrúnu Þóreyju Sigurðardóttur frá Gilsbakka. Bjuggu þau á Grund frá árinu 1874 til æviloka beggja, hún lést árið 1918 en hann árið 1925. Magnús kvæntist árið 1924 ráðskonu sinni, Margréti Sigurðardóttur, sem var eigandi hússins árið 1933, þegar það var metið til brunabótamats. Þar eru húsinu lýst svo: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt, tvær hæðir á hlöðnum kjallara, 17x8,5m að grunnfleti og 7,5m hátt. Á stofuhæð voru sex herbergi og geymsla og tvær forstofur. Á efri hæð sjö herbergi, geymsla og gangur og í risi fimm hólf. Kjallari er sagður með steingólfi, með fjórum hólfum. Húsið er kynt með miðstöðvarkatli og steinolía til ljósa (munum, að ekkert varð af mögulegri raflýsingu Grundar tæpum 30 árum fyrr).  Þá eru einnig á staðnum hlóðaeldhús og gömul baðstofa, byggingar úr torfi og grjóti að mestu, árið 1933 (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1933:nr. 25).IMG_0210

      Árið 1910 hafði risið nýtt og veglegt hús á Grund, sem verður umfjöllunarefni næstu greinar, en afkomendur Magnúsar og Guðrúnar bjuggu áfram í þessu húsi. Aðalsteinn, sonur þeirra, og kona hans, Rósa Pálsdóttir voru búsett hér 1916 til 1920, en Aðalsteinn lést árið 1919, aðeins þrítugur að aldri. Þá eru systir hans, Valgerður Magnúsdóttir  og hennar maður Hólmgeir Þorsteinsson sögð eigendur og ábúendur hér 1923- 1929 samhliða bræðrunum Þórhalli og Valdemar Antonssonum frá Finnastöðum, en þeir eru skráðir hér 1920-35, sá síðarnefndi milli 1920 og 23. Magnús Aðalsteinsson, sonarsonur Magnúsar og Guðrúnar er skráður ábúendi hér til ársins 1948 en þá var jörðinni skipt. Norðurhluti jarðarinnar, að mestu leyti, varð þá Grund II og taldist eldra íbúðarhús tilheyra þeirri jörð. Þá fluttust hingað þau Snæbjörn Sigurðsson frá Garðsá og Pálína Jónsdóttir frá Hrísey (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:768-769). Þau voru búsett hér þegar byggða- og ábúendasaga Eyjafjarðar, Byggðir Eyjafjarðar, var tekin saman árið 1970. Þá er íbúðarhúsið sagt 800 rúmmetrar, fjós fyrir 60 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlöður fyrir allt að 3000 hesta, auk votheysturns, véla- og áhaldahúss. Túnstærð er sögð 60,41 hektarar og töðufengur 2800 hestar. Af bústofni er daprara að segja, en hann er enginn, vegna niðurskurðar árið 1967 (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:285). Árið 1990 hefur húsinu formlega verið skipt í tvær íbúðir, II og IIa  Það er fulllangt mál, að telja upp alla ábúendur Grundar hér, en ábúendatöl liggja fyrir í fyrrgreindum bókum. Þá eru eigendur þau Gunnar Egilson flugumferðarstjóri og Auður Birna Kjartansdóttir. Þá taldi bústofninn 18 hross og geldneytapláss í nýju fjósi (b. 1986) nýtt undir þau. Ræktað land var þá 23,8 hektarar. Land Grundar II var hins vegar að mestu í eigu ábúenda Grundar I (Sbr. Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1993:768-769). Árið 2010 eru Gunnar og Auður búsett hér og eigandi ásamt þeim, og ábúandi, sonur þeirra Þorsteinn Egilson. Telur þá bústofninn 29 hross og 10 sauðkindur (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:434).

     Gamla íbúðarhúsið á Grund er sérlega reisulegt IMG_0213og glæst hús og í góðri hirðu, á húsinu er m.a. nýlegt þakjárn. Það er til mikillar prýði í fallegu umhverfi í grænu og búsældarlegu héraði og mynda íbúðarhúsin tvö skemmtilega heild ásamt kirkjunni miklu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, eins og allar byggingar byggðar fyrir 1923. Þá hlýtur menningarlegt varðveislugildi hússins að vera verulegt í ljósi sögu staðarins, hvort sem er frá upphafi vega eða umsvifa Magnúsar Sigurðssonar. Húsið hefur í grófum dráttum haldið upprunalegu útliti sínu að ytra byrði. Að morgni 9. júní las greinarhöfundur á Facebook-hópnum Gömul hús á Íslandi að nú væri kominn nýr áhugasamur eigandi sem hyggði á endurbætur, m.a. lagfæra glugga og annað slíkt. Það verður fróðlegt að sjá þann afrakstur og rétt að óska nýjum eigendum til hamingju og góðs gengis. Verða þær endurbætur eflaust til að auka enn á prýði og virðuleika stórhýsis Magnúsar Sigurðssonar frá 1893, sem er svo sannarlega ein af perlum Eyjafjarðarsveitar. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021, 20. maí 2022 og 15. apríl 2023.

Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.


Hús dagsins: Grundarkirkja

Í síðustu grein var umfjöllunarefnið Hafnarstræti 86, en það hús reisti Magnús á Grund, reisti árið 1903 sem útibú fyrir verslun sína. Nefnt var, að þá hafi hans helsta stórvirki, Grundarkirkja, verið í bígerð. Er þá ekki upplagt, að taka kirkjubygginguna fyrir næst og viðeigandi að grein um hana birtist hér á sjálfan hvítasunnudag...

Nokkurn veginn í miðjum Eyjafirði, liðlega 20 km framan Akureyrar P5201021stendur hið valinkunna höfuðból Grund. Bæjarstæðið er á flata sunnan undir hólaþyrpingu við rætur Kerlingar, hæsta fjalls Norðurlands. Einn af mörgum stórbændum og höfðingjum, sem búið hafa á Grund gegnum aldirnar er Magnús Sigurðsson, sem löngum var kenndur við staðinn.  Á Grund standa byggingar frá áratugunum beggja vegna aldamótanna 1900 sem jafnvel enn þann dag þykja veglegar og bera þær vitni um stórhuga og elju hins merka athafnamanns. Höfuðprýði staðarins hlýtur að vera Grundarkirkjan, ein stærsta timburkirkja landsins og vafalítið með þeim glæstari. Hana reisti Magnús fyrir tæpum 120 árum síðan á eigin kostnað og frumkvæði og sótti fyrirmyndir í kirkjur erlendra stórborga, m.a. Kaupmannahafnar.

                Það er í raun ekki vitað hvenær kirkja reis fyrst á Grund en það mun ekki hafa verið löngu eftir kristnitöku. Þegar Magnús Sigurðsson kaupir og flytur á Grund árið 1874 stóð þar timburkirkja, sem Ólafur Briem timburmeistari hafði reist árið 1842. Á þeim árum, þ.e. þegar Magnús kom að Grund, mun hin forna stórjörð hafa verið í nokkuð bágu ástandi en hann hugði á mikla uppbyggingu. Hann stundaði ekki einungis búskap heldur hóf hann verslunarstarfsemi á Grund árið 1885. Átta árum síðar reisti hann timburhús, íbúðar- og verslunarhús, sem var eitt það stærsta í Hrafnagilshreppi og raunar á pari við stærstu hús á Akureyri og kaupstöðum landsins. Verslunina rak hann í um fjóra áratugi, eða eins og honum entist aldur og heilsa til.  Þá reisti Magnús veglegt og skrautlegt útibú, stórt plankabyggt hús í sveitserstíl, fyrir verslun sína við Hafnarstræti á Akureyri árið 1903. Hvort að sú bygging hafi verið „æfing“  Magnúsar og byggingarmeistara hans fyrir Grundarkirkju skal ósagt látið, en Magnús hafði þá þegar löngu fengið hugmyndina af kirkjubyggingunni.  Kirkjan frá 1842 þótti honum vera orðin hrörleg og smá, hann vildi reisa guðshús, „stærra í sniðum enn aðrar kirkjur, veglegastu kirkju, sem risið hefði á höfuðbólinu og þótt víðar væri skyggnzt um“ (Gunnar M. Magnús 1972:183). Hugmyndir hans voru að byggja eina kirkju fyrir allan Eyjafjörð, framan Akureyrar.  Það var síðan í ársbyrjun 1904, fáum mánuðum eftir að Hafnarstræti 86 reis af grunni, að þeir Sigtryggur Jónasson og Jónas Gunnarsson handa við gluggasmíði fyrir nýju kirkjuna. Um sumarið hófst  kirkjusmíðin sjálf.P5201024

      Viðinn í kirkjuna pantaði Magnús árið 1902 og veturinn á eftir flutti hann timbrið, sem skipað var upp á Akureyri „fram eftir“ með aðstoð bænda úr sveitinni. Þá voru aldeilis ekki flutningabílarnir (Magnús flutti reyndar nokkrum árum síðar inn bíl, fyrstur manna á Norðurlandi, en það er önnur saga) heldur fluttu bændur efnið á hestakerrum og sleðum. Samdi hann við þá, að flutningurinn væri þeirra framlag til kirkjubyggingarinnar og miðaðist við efni og aðstæður hvers og eins. Það sem útaf stæði, félli á Magnús sjálfan. Mánuðum saman voru farnar 2-3 sleðaferðir fram og til baka milli Grundar og Akureyrar með trjávið og vörur til verslunar Magnúsar. Byggingameistari kirkjunnar var Ásmundur Bjarnason. Honum hafði Magnús kynnst rúmum áratug fyrr, er hann dvaldi í Danmörku, þar sem hann m.a. kynnti sér húsagerð þar ytra, og Ásmundur við nám í trésmíði. Ásmundur mun einnig hafa gert lokateikningu kirkjunnar en Sigtryggur Jónsson byggingameistari kom einnig að frumhönnun kirkjunnar. Að sjálfsögðu hafði Magnús sjálfur einnig hönd í bagga við hönnunarvinnuna. Aðrir smiðir sem komu að byggingunni, auk téðs Ásmundar, voru þeir Jónas Stefánsson, Pálmi Jósefsson, Þorsteinn Ágústsson og Maron Sölvason. Málun kirkjunnar, sem þótti gerð af miklu listfengi og natni, annaðist norskur málari, Fredrik M. Möller, en hann var sérmenntaður í skrautmálun og skreytingum húsa.  Mögulega mun kirkjan að hluta eða í heild hafa komið tilsniðin til landsins. Margir hlutar timburverks eru nokkuð greinilega unnir í smíðavélum erlendis en langur byggingatími, 17 mánuðir, þykir benda til þess, að mestöll smíðin hafi farið fram á staðnum. Til samanburðar tók bygging stærstu timburhúsa Akureyrar, Menntaskólans (1904) og Samkomuhússins (1906) aðeins sex mánuði. Þá munu engin skjöl liggja fyrir, sem staðfesta með óyggjandi hætti innflutning á sérstaklega tilsniðnu efni (Sbr. Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson og Þóra Kristjánsdóttir 2007:78-79). Kostnaður við byggingu Grundarkirkju nam 21.907 krónum. Það hefur líklega litla þýðingu að reyna að snara þessari upphæð á núvirði en til samanburðar má nefna, að sumarið 1905, á byggingartíma Grundarkirkja auglýsir kaupmaður á Akureyri kaffi á 55 aura kílóið og púðursykur á 24 aura.  P5201025-DESKTOP-INBRJKD

       Grundarkirkja var vígð við hátíðlega athöfn þann 12. nóvember 1905, með tilheyrandi ræðuhöldum sálmasöng og veisluhöldum í boði staðarhaldara. Alls munu um 800 manns hafa sótt vígsluathöfnina, en þar þjónuðu fjórir prestar, sr. Geir Sæmundsson á Akureyri, sr. Jónas Jónasson á Hrafnagili, sr. Jakob Björnsson í Saurbæ auk séra Matthíasar Jochumssonar. Guðlaugur Ásmundsson, lengst af búsettur á Fremsta-Felli í Köldukinn,  sótti hátíðina og sagði frá henni í Snarfara, handskrifuðu málgagni Lestrarfélags Kinnunga þ. 27. nóv. 1905, en frásögn hans birtist í Súlum tímariti árið 1981. Guðlaugur segir svo frá: Klukkan tólf var saman safnað á rennisléttum fleti suður undan kirkjudyrunum, því hún snýr út og suður; kváðu þá við hvell og há klukknahljóð, var þar samhringing og ekki hringt annað fyrir messu. Að hringingunni lokinni voru opnaðar afarstórar bogadyr á suðurgafli kirkjunnar og tók mannfjöldinn að streyma inn í forkirkjuna, sem mun rúma á að giska tvö hundruð manns (Guðlaugur Ásmundsson 1981:7).

                Í frásögn sinni lýsir Guðlaugur turninum á einkar skemmtilegan hátt: Upp í hann  [turninn] er gengið af lofti kirkjunnar eftir undnum stiga all-löngum, þegar hann þrýtur kemur maður á loft, og þar eru klukkurnar [...]. Þá gengur meðaur upp annan vindings-stiga, álíka langan og hinn og kemur þá á annað loft, síðan hið þriðja og þegar hann þrýtur getur maður gengið út úr turninum á fjóra vegu. Eru þar svalir umhverfis turninn sem rúma marga menn og er þar fagurt um að litast. Efri turninn: Þá er gengið upp beint rið upp að efri brún neðri turnsins; þá tekur við skrúfustigi [...] Getur maður séð sig um út úr honum en hvergi eru á honum svalir. Turninn er þá orðinn þröngur og erfiður uppgöngu. Enda reyndist mörgum það torsótt 12. nóvember [1905], þar sem annar eins manngrúi var saman kominn og allir eða flestir vildu skoða bygginguna. Dagaði víst marga uppi á svölum turnsins, því ekki var það heiglum hent að fara í mannþröng upp efri turnbygginguna (Guðlaugur Ásmundsson 1981: 11-12). Er rétt hægt að ímynda sér, að þarna hefur skapast hálfgert vandræðaástand og líklega eins gott, að ekki væru margir lofthræddir í mannþrönginni, sem „dagaði uppi á svölum turnins.“P5201026

         Grundarkirkja er timburhús, kirkjuskipið 17,15mx9m að grunnfleti en forkirkja 5,05x5,22m. Séra Geir Sæmundsson, sem vísiteraði kirkjuna sumarið 1907 sagði hæð turns frá jörðu 38 álnir (Sbr. Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:66) en það mun nærri 24 metrum.  Tvær gluggaraðir eru á kirkjuskipinu og undir þeim samfelld vatnsbretti eða bönd. Gluggarnir eru bogadregnir og margskiptir og utan um miklir, skreyttir rammar.  Á hvorri langhlið kirkjuskips eru alls 12 gluggar, sex í neðri röð og jafn margir í þeirri efri, en þeir eru smækkuð mynd neðri glugga. Tveir gluggar eru á bakhlið, hvor sínum megin við altaristöflu. Þá er einn gluggi af hvorri gerð á langhlið forkirkju. Á forkirkjunni eru vatnsbrettin miklu á „þremur hæðum“ og á framhlið eru tveir smáir gluggar ofan þriðja vatnsbrettisins. Neðsta vatnsbretti er þar bogalaga en yfir inngöngudyrum, sem ásamt allri framhliðinni, eru lítið eitt inndregnar, er bogalisti. Beggja vegna hans eru tveir smærri bogar, og standa þeir á sívölum súlum, sem væntanlega eru burðarsúlur fyrir forkirkjuna. Ofan á forkirkjunni er turnbyggingin sjálf, áttstrendur turn með lauklaga þaki á „tveimur hæðum“ og stendur efsti hluti turnspíru á átta súlum með bogadregnum skeggjum á milli. Svalir eru ofan á þaki forkirkju allt í kringum turninn og eru á hornum þeirra fjórir smáturnar, með oddmjóum, sívölum spírum. Öll er forkirkjan prýdd hinu ýmsu skrauti og munstri sem greinarhöfundur kann ekki einu sinni að nefna. Á það einnig við um kirkjuna í heild, h.u.b. hvern einasta kant, lista, vatnsbretti, þakskegg eða vindskeið prýða munstur, kögur og útskurður svo kirkjan er í heild eitt stórt listaverk, samsett úr mörgum smærri listaverkum.  Hvort heldur sem er að utan sem innan. Að innan er kirkjan nokkuð hefðbundin að gerð, bekkjaraðir beggja vegna miðgangs (13 vestan megin og 14 austan megin) upphækkaður kór og tvö skrúðherbergi beggja vegna hans. Altaristöfluna prýðir málverk sem sýnir upprisu Krists, eftir danska málarann Anker Lund, frá 1891. Látum staðar numið af lýsingu kirkjunnar hér en mjög ítarlega og nákvæma lýsingu á Grundarkirkju er að finna í 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands á blaðsíðum 70-76.P5140999

                Í kaflanum í Kirkjum Íslands er viðhaldssaga kirkjunnar einnig rakin. Kirkjan var máluð að utan 1920, þakið málað 1932 og steyptur nýr reykháfur. Kirkjan var framan af hituð með tveimur kolaofnum en árið 1934 var þeim þriðja bætt við. Árið 1947 var sett í kirkjuna olíufýring og um svipað leyti (fyrir 1949) var hún máluð í heild sinni. Rafmagn var leitt í kirkjuna árið 1957. Árið 1967 var nefnt í visitasíu, að fúi væri kominn í undirstöður turnsins, afleiðing leka frá turnopinu. Þótti einsýnt, að þörf væri á umfangsmiklum viðgerðum á næstu árum. Árið 1977 var Grundarkirkja friðlýst og árin 1981-82 fóru fram á henni miklar endurbætur. Það segir sig sjálft, að svo stórt veglegt, og skrauti hlaðið timburhús hlýtur að vera býsna viðhaldsfrekt. En Grundarkirkja hefur væntanlega fengið allt nauðsynlegt viðhald síðustu árin, því hún virðist í afbragðs góðri hirðu.P8110993

                Það er eflaust hægt að fullyrða, að Grundarkirkja sé með glæstustu og veglegustu kirkjum landsins og ber vitni um einstaka elju, stórhug og metnað byggjanda síns, Magnúsar Sigurðssonar. Er hún einkar mikil prýði á einstaklega fallegum stað, í hjarta Eyjafjarðar. Afstaða hennar til höfuðátta er einnig einstök og kenningar um, að við þá ákvörðum hafi verið tekið mið af landslaginu, dalnum og fjöllunum (Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:77) en Eyjafjörður liggur frá norðri til suðurs.  Hefur Grundarkirkja verið einstakt stórvirki eins manns á sínum tíma og líklega verið ein af hæstu byggingum landsins (ef ekki sú hæsta) árið 1905. Turn kirkjunnar mun um 24 metra hár og til samanburðar má nefna, að turnar Akureyrarkirkju, sem reist er 35 árum síðar, eru aðeins um fjórum metrum hærri. Kannski fer þannig einkar vel á því, að hið hátimbraða guðshús standi við fótskör hæsta fjalls Norðurlands, hinnar 1538m háu Kerlingar. Grundarkirkja var friðlýst skv. Þjóðminjalögum árið 1978 og skv. aldursákvæði árið 1990.

Myndirnar af Grundarkirkju eru teknar 20. maí 2022 en myndin, þar sem séð er heim að Grund er tekin 14. maí 2021. Myndin af Kerlingu er tekin 11. ágúst 2021.

Heimildir: Guðlaugur Ásmundsson. 1981. [1905]. Grundarkirkja og vígsluhátíðin þar 12. nóvember 1905. Í Súlur Norðlenskt tímarit 21-22. tbl. bls. 6-15.

Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir. 2007. Grundarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 55-107. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 433
  • Frá upphafi: 440790

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 210
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband