Hús dagsins: Ægisgata 3

 

Húsið reistu þau Garðar Sigurjónsson og Amelía G. Valdemersdóttir árið 1939. P2080016Sögu hússins má rekja til 2.september 1938 er Garðar ritaði bréf til byggingarnefndar óskaði eftir því að fá að reisa íbúðarhús “sömu gerðar og hús þau er þegar hafi verið reist.” Byggingarleyfi var veitt á fundi þann 19.september 1938 en á sama fundi einnig afgreidd byggingarleyfi vegna Ægisgötu 1 og 5. Húsið er byggt eftir sömu teikningu og hús númer 5 og 7. Húsið er einlyft með valmaþaki, hlaðið úr r-steini. Horngluggar- í anda funkisstefnunnar- eru á suðurhlið en lóðréttir, einfaldir póstar eru í gluggum. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Húsið er í mjög góðu standi og virðist nýlega “tekið í gegn” m.a. er á því nýr þakkantur og nýlegir gluggapóstar og gler og hurðir en í stórum dráttum er húsið þó óbreytt frá fyrstu gerð. Þessi mynd er tekin 8.feb. 2015.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41, fundur nr. 823, 19.sept. 1938. Fundargerðarbækur Byggingarnefndar eru óútgefnar varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Ægisgata 2

 Jón Jósefsson vélsmiður og Guðrún Jóhannsdóttir reistu húsið árið 1936 en hann fékk byggingarleyfi 9.nóvember það ár.P2080017 Jón ólst upp sunnar á Eyrinni í Lundargötu 15, en bróðir hans var Jóhannes á Borg, glímukappi og hótelstjóri.  Skráð byggingarár hússins í Fasteignaskrá er 1936 en þar sem byggingarleyfið er gefið út seint það ár má ætla að Jón hafi þegar hafið byggingu hússins eða skráð byggingarár hjá Fasteignamati miðist við afgreiðslu byggingarleyfis. Húsið er eitt nokkurra við neðanverða Ægisgötuna sem byggt er eftir teikningu Tryggva með áletruninni “Einbýlishús fyrir S.B.A”. Þessi hús eru 8x9 m á grunnfleti með litlu útskoti á horni, einlyft með valmaþaki Við hlið útidyra er lítill gluggi, meiri á breidd en hæð. Í húsinu eru einfaldir, lóðréttir gluggapóstar og virðast þeir nýlegir. Fleiri "SBA hús" standa ofar við götuna eða á nr. 10-14. Byggt var við húsið til suðurs um 1979 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Viðbygging er með stórum stofuglugga og er jafn há húsinu og einnig með valmaþaki. Einnig er nýlegur sólskáli bakatil við húsið og þá er einnig snotur sólpallur úr timbri framan við húsið. Ægisgata 2 virðist í góðu standi og vel hirt. Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin 8.feb. 2015. 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-40; fundur nr.784 þ. 9-11-1936.

 

Manntal á Akureyri 1940. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Gleðilega páska

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra páska. Meðfylgjandi eru þessar myndir, sem teknar eru laust fyrir klukkan 9 af Eyjafjarðarfjöllunum Súlum, Krumma og Bónda. Eins og sjá má er vorlegt um að litast í Eyjafirði þennan páskadaginn. 

P4050008


Hús dagsins: Ægisgata 1

Húsin við Ægisgötuna neðanverða eru öll með svipuðu lagi, enda hönnuð á svipuðum tíma af sama manni. P2080018Við sum þeirra hefur verið, eins og gengur og gerist, byggt við og önnur eru nánast óbreytt frá upphafi. En Ægisgötu númer eitt reisti Magnús Sigurjónsson bólstrari árið 1939. Hann fékk haustið 1938 leyfi til að reisa hús 11x9,5 m að stærð, en það er eilítið stærra en flest húsin við götuna þá. Húsið er, eins og öll húsin við Ægisgötuna neðanverða reist eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Það er einlyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og horngluggum til suðurs, inngang á miðri götuhlið (austur) og þvottahúsinngang að norðanverðu. Gluggapóstar hússins eru einfaldir, lóðréttir og voru þeir settir í um 1986. Húsið er nokkuð stærra en flest húsin við neðri hluta götunnar,yfir 100 fermetrar, en stór stofuálma er á bakhlið norðvestanmegin. Hana byggði Magnús árið 1953 og stækkaði húsið þá úr 95 í 125 fermetra.  Lóðin er nokkuð stór og nýtur þess að Ægisgatan og Ránargatan eru ekki alveg samsíða á þessum parti. Sem áður segir er húsið einbýli og hefur verið svo frá upphafi. Þess má líka geta, að húsið hefur alla tíð haldist innan sömu fjölskyldu, núverandi íbúar eru Lilja Magnúsdóttir sem fædd er í húsinu og maður hennar Birgir Sveinarsson, en hann  veitti mér góðfúslega ýmsar upplýsingar m.a. um viðbyggingu hússins. Þessi mynd er tekin þ. 8.feb. 2015.

Heimildir: Birgir Sveinarsson, munnleg heimild (netspjall)

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-40, fundur nr. 823, 19.sept. 1938. Fundargerðarbækur Byggingarnefndar eru óútgefnar varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


Næst á dagskrá: Ægisgatan sunnanverð

Ég held áfram skipulagðri umfjöllun minni um þvergötur Oddeyrar með Eyrarveginn sem "markalínu". Næst neðan við Ránargötu liggur Ægisgatan til norðurs, á milli húsa nr. 7 og 9 við Eiðsvallagötu. Við Ægisgötuna er heilsteypt götumynd einlyftra funkishúsa eftir Tryggva Jónatansson, byggð á síðari hluta 4.áratugarins. Á þessum árum var mikill húsnæðisskortur í bænum og kreppa ríkjandi en fyrir Tryggva vakti að hanna lítil hús fyrir efnaminna fólk sem þarna fékk tækifæri til að búa í einbýlishúsum. Í grúski mínu um Oddeyrina hefur Húsakönnun Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs verið hálfgerð "biblía" en þar er markalína skipulagðrar umfjöllunar Eiðsvallagatan; þ.e. í grófum dráttum miðað við eldri byggð en 1930. Þar er hins vegar fjallað eilítið um hús Tryggva Jónatanssonar og sagt að þau séu flest hlaðin úr r-steini, einangruð með mómylsnu með valmaþaki úr timbri, járnvarið, húsin búin raflýsingu, venjulegri miðstöð, eldavél og þvottapotti og frágangur eins og best verður á kosið. Húsin þóttu hinsvegar ekki merkileg og jafnvel lágkúruleg og kölluð "hundakofar" (Guðný Gerður og Hjörleifur 1995: 108). Það er hins vegar ljóst að þessi hús stóðu fyllilega fyrir sínu og voru ekki síðri en hýbýli manna á þessum tíma. Og enn standa þessi ágætu hús Tryggva Jónatanssonar fyrir sínu, flest þeirra óbreytt frá fyrstu gerð. 

Heimildir:  

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri gaf út. (Öndvegisrit þetta er einnig aðgengilegt á pdf-formi, sjá slóð í færslu)

 


Hvernig liggur landið?

Þennan veturinn hefur Eyrin verið mér hugleikin, ég hef fjallað um Eiðsvallagötu eins og hún leggur sig, Norðurgötu, Ránargötu og næst á dagskrá er Ægisgatan, en síðarnefndu tvær göturnar eru þvergötur norður úr Eiðsvallagötu. Nú eru e.t.v. einhverjir áhugasamir lesendur sem þekkja hvorki haus né sporð á Eyrinni og átta sig engan vegin á staðháttum. Svipað og þegar ég heyri talað um Bergstaðastræti, Bræðraborgarstíg, Nönnugötu eða eða aðrar götur í Reykjavík. Hér hef ég búið til óskaplega frumstætt yfirlitskort og mynd af þeim hluta Oddeyrar sem ég hef tekið fyrir á þessari síðu. Þetta hverfi er steinsnar frá Miðbænum eins og sjá má hér. 

Hér hef ég rissað upp mjög grófa afstöðumynd sem sýnir Oddeyrina sunnan Eyrarvegar, þeir hlutar sem ég hef tekið fyrir nú þegar - eða á næstu vikum- merktir gulu. ATH. HLUTFÖLL OG STEFNUR ENGAN VEGIN RÉTTAR.

  P4020001

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd (nauðsynlegt að stækka hana upp með því að smella á hana) sem tekin er ofan af Neðri-Brekku sólríkan síðsumardag (31.ágúst) 2013 sýnir nokkurn vegin hvernig landið liggur á syðsta og elsta hluta Oddeyrar. Eiðsvallagata er nyrst en Ránargata og Ægisgata liggja þaðan til norðurs. Í forgrunni eru hús við Munkaþverárstræti en handan fjarðar má sjá býlið Halllandsnes lengst til hægri og ofar framkvæmdasvæði Vaðlaheiðarganga

S-Oddeyri


Tækjakosturinn

 Ég tilheyri þeim hópi fólks sem notar síman til sáralítils annars en að hringja og senda skilaboð og hef einhvern vegin ekki vanið mig á að nota síman til myndatöku. En ég lét loksins verða af því um daginn að verða mér út um snúru saman síma og tölvu. Því notaði ég tækifærið og myndaði myndavélina mína!

Einhverjir lesendur þessarar síðu kunna kannski að ímynda sér að ég gangi um götur Akureyrar með margra kílóa, risastóra og fullkomna myndavél. En það er alls kostar ekki rétt. Sú myndavél sem allar húsamyndirnar á þessari síðu eru teknar á kemst auðveldlega í vasa; en þannig finnst mér best að hafa það. Hún er 6 megapixla,af gerðinni Olympus FE120 og ég viðurkenni að stundum getur hún hökt og hikstað en meðan hún virkar skal hún notast. Myndavélina keypti ég í Hagkaup í mars 2006 og var á henni tveggja ára ábyrgð, sem rann þá út fyrir réttum sjö árum. En hér er gripurinn á bak við myndirnar hér á síðunni: 

007

 


Ránargata að Eyrarvegi

Ránargata 1 (1931)

Ránargata 2 (1932)

Ránargata 3 (1931)

Ránargata 4 (1932)

Ránargata 5 (1933)

Ránargata 6 (1932)

Ránargata 7 (1934)

Ránargata 9  (1934)

Ránargata 10 (1950)

Ránargata 11 (1971)

Ránargata 12 (1946)

Ránargata 13 (1897)*

Ránargata 14 (1985)

*Ránargata 13 var flutt á þessa lóð um 1950 en var reist 1897 á Hafnarstræti 107. 

Ekkert hús stendur á Ránargötu 8 en þar er bílastæði og lítill hverfisleikvöllur. Húsin við Ránargötu sunnan eða neðanverða spanna afar breitt aldursbil, eru á aldrinum 30-118 ára, en flest eru húsin byggð árin 1931-50, utan þrjú þeirra sem eru áratugum eldri og yngri. Meðalaldur húsanna við Ránargötu neðanverða árið 2015 er tæp 76 ár: 

ranargata_statistik


Hús dagsins: Ránargata 14

Elsti hluti Ránargötu liggur milli Eyrarvegar og Eiðsvallagötu. P1310008Þó er það svo að á horni götunnar og Eyrarvegar stendur lang yngsta húsið við götuna, Ránargata 14. Húsið er byggt árið 1985 eftir teikningum Gísla Kristinssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, og virðist undir vissum áhrifum frá útliti nærliggjandi húsum s.s. Ránargötu 12 og Norðurgötu 40 og húsum við efri hluta götunnar, sem eru um 40 árum eldri en þetta hús. Helsta sérkenni þessa húss er tvímælalaust útskotið eða kvisturinn á norðvesturhorninu sem er úr timbri og þegar þetta er ritað málað í sterkum grænum lit. Þessi mynd er tekin 31.jan. 2015.

 


Hús dagsins: Ránargata 12

Þórður Snæbjarnarson reisti Ránargötu 12 árið 1946-47 eftir teikningum Guðmundar P2080008Gunnarssonar. Um er að ræða tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki undir áhrifum frá Funkis-stefnunni; grunnflötur hússins því sem næst ferningslaga og horngluggar á framhlið. Á suðurhlið er lítið útskot og í kverkinni milli þess og meginálmu hússins eru tröppur og inngangur á efri hæð. Sá inngangur er á miðri fyrstu hæð og því gengið upp tröppur innandyra á efri hæð. (Hvort þetta fyrirkomulag er hugsað til að spara snjómokstur með færri útitröppum skal ósagt látið hér.) Húsið virðist að mestu leyti óbreytt að ytra byrði miðað við upprunalegar teikningar. Þó hefur póstum verið skipt út þegar gluggar voru endurnýjaðir. Húsið lítur vel og er því greinilega vel við haldið. Það er eini fulltrúi Funkis-stefnunnar við Ránargötu neðan Eyrarvegar en fleiri ámóta hús eru ofar við götuna enda er sá hluti lítið eitt yngri. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hefur verið svo frá upphafi. Þessi mynd er tekin 8.febrúar 2015.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 15
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 446
  • Frá upphafi: 450838

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 343
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband