20.3.2015 | 07:42
Hús dagsins: Ránargata 11
Ránargata 11 er byggð árið 1971 eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Hvort um er að ræða fyrsta húsið sem reis á lóðinni eða ekki er mér ókunnugt um en húsið er um 40 árum yngra en næstu hús neðan við og í hópi yngstu húsa við götuna. Ránargata 11 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki. Gluggar eru stórir og póstalausir. Hús með þessu lagi voru ekki óalgeng á 8.áratug síðustu aldar og þó nokkur sams konar hús eru á Brekkunni og í Glerárþorpi. Húsið er hins vegar eini fulltrúi þessarar gerðar á Eyrinni enda talsvert yngra en flest hús í nágrenninu. Húsið virðist traustlegt og gott og vel við haldið. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin 8.febrúar 2015.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2015 | 09:08
Hús dagsins: Ránargata 10
Ránargötu 10 byggði Árni Valdimarsson árið 1950 eftir teikningum Mikaels Þorsteinssonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og á lágum grunni. Einlyft viðbygging, bílskúr, með flötu þaki er á norðurstafni. Á risi eru breiðir kvistir með hallandi þökum. Inngangur er á suðvesturhorni hússins og þar ofan við eru svalir. Gluggapóstar eru einfaldir. Stórir gluggar, "búðargluggar" eru á götuhlið neðri hæðar endar er húsið eitt nokkurra húsa á Eyrinni sem lengi vel hýstu hverfisverslun. Elstu auglýsingar sem ég fann við ritun þessarar greinar voru dagsettar 14.nóv 1951 en þá eru auglýstar niðursoðnar súrsætar agúrkur, Handey fiskisósa og Worcester sósa í Kjötbúð KEA að Ránargötu 10. Þannig er ljóst að verslun hefur verið á neðri hæð svo að segja frá upphafi en húsið er sem áður segir byggt 1950. Ljóst er að KEA verslunin hefur fljótt þurft að stækka við sig því teikningar að viðbyggingu; lager eru gerðar árið 1957. Síðar var þessari byggingu breytt í bílskúr. Kaupfélagið var eins og flestir Akureyingar vita og muna ansi umsvifamikið á 20.öldinni og rak margar minni hverfisverslanir bæði á Eyrinni og á Brekkunni. Kaupfélagið rak hér verslun, kjötbúð og síðar kjörbúð í tæp 40 ár en 1989 ákvað félagið að loka útibúinu hér í kjölfar dalandi reksturs. Þá var tíð hverfisverslana eiginlega liðin en árið eftir opnaði hér matvöruverslunin Ránargötubúðin, og þar var sagt að hverfisverslunin væri endurvakin . Þegar ég flutti á Eyrina árið 1997 man ég eftir að neðri hæð þessa húss sem hálfgerðu félagsheimili vélhjólafólks. Hæðinni var svo breytt í íbúð nokkrum árum seinna og nú eru í húsinu tvær íbúðir, á neðri hæð og efri hæð og risi. Efri hæð hefur alla tíð verið íbúð. Ránargata 10 segir ákveðna sögu verslunarhátta sem voru og þætti þeim sem þetta ritar vert að halda þeirri sögu á lofti- og því ætti varðveislugildi hússins að vera ótvírætt af þeim sökum. Húsið er í mjög góðu standi- ekki mörg ár síðan það var allt endurnýjað og gert upp. Þessi mynd er tekin 8.2.2015.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2015 | 18:09
Hús dagsins: Ránargata 9
Á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar fást þær upplýsingar að Ránargata 9 sé byggð 1934, en þar eru ekki gefnar upp upprunalegar teikningar. Hugsanlegt er að þau Elínborg Jónsdóttir og Kristinn Stefánsson hafi byggt húsið en alltént búa þau þarna vorið 1940. Um 1954 var byggt við húsið að norðanverðu og er sú viðbygging breiðari en upprunalega húsið og eru svalir í kverkinni milli bygginganna. Viðbyggingin var reist eftir teikningum Ásgeirs Markússonar frá 1953. Þá var eigandi hússins Jóhann Kristinsson. Þá voru einnig gerðar teikningar að bílskúr á lóðinni. Ránargata 9 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Gluggar eru með einföldum póstum og járn er á þaki á framhlið eru inngönguskúrar með valmaþaki. Húsið lítur vel út og er vel við haldið, í því eru tvær íbúðir. Þessi mynd er tekin 8.2.2015.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2015 | 08:17
Hús dagsins: Ránargata 7
Á Landupplýsinakerfi Akureyrarbæjar má finna uppdrátt Halldórs Halldórssonar dagsettan 22.febrúar 1934 að Ránargötu 7. Þar kemur hinsvegar ekki fram fyrir hvern er teiknað. Teikningarnar voru samþykktar 6.apríl 1934 og í skjölum Byggingarnefndar er bókað að Tryggvi Jónsson fái byggingarleyfi við Ránargötu skv. framanlögðum teikningum. Ránargata 7 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Á teikningum er að vísu talað um stofuhæð og kjallara þ.a. Kannski mætti allt eins kalla húsið einlyft á háum kjallara. Í stórum dráttum er húsið líkast til lítt breytt frá upprunalegri gerð. Gluggapóstum hefur að víus verið verið breytt, í þeim eru einfaldir þverpóstar en ekki virðist hafa verið byggt við húsið. Járn á þaki virðist nýlegt og á framhlið er þakgluggi. Húsið lítur vel út og er í góðu standi. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 8.febrúar 2015.
Heimildir eru að vanda fengnar úr Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar, sem vísað er í með tengli hér í færslunni og á hliðarstikunni. Af teikningunum les ég svo nöfn þeirra sem teiknað er fyrir en það er forsenda þess að finna byggingarleyfið. Því í Byggingarnefndarfundargerðunum er gatna og númera yfirleitt ekki getið heldur hver byggir og staðsetningu gjarnan lýst sem t.d. "sunnan við hús/lóð Jóns Jónssonar o.s.frv. vestan við Gunnugötu". Fundargerðir Byggingarnefndar eru varðveittar í mörgum bindi á Héraðsskjalasafninu og byggingarleyfi Tryggva Jónssonar er getið í bindinu 1930-35, fundur nr. 718, dags. 6.apríl 1934.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2015 | 14:19
Hús dagsins: Ránargata 6; Bæjarhúsið
Ránargata 6 var reist árin 1931-32 sem fjölbýlishús af Akureyrarbæ, sennilega til að mæta mikilli þörf á mannsæmandi húsnæði í bænum. Á fundi byggingarnefndar þann 24.ágúst 1931 var samþykktur uppdráttur af húsi því sem bæjarstjórnin er að láta byggja við Ránargötu . Af þessu má ráða að bygging hafi verið hafin þarna síðsumars 1931. Húsinu er lýst að stærð 13,3 x 8,2 m á lágum grunni með háu risi, byggt úr r-steini með járnbentum súlum í veggjum. Ekki er hins vegar getið hver gerði uppdráttinn sem samþykktur var .
Ránargata 6 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum. Á miðri framhlið er inngangur og þar er dyraskýli; risþak sem stendur á steyptum súlum. Húsið er ekki ósvipað að stærð og Ránargata 2 en bæði þessi hús eru byggð sem eins konar fjölbýlishús. Í upphafi voru a.m.k. fjórar íbúðir í húsinu, og gætu þær vel hafa verið fleiri. Skömmu fyrir jólin 1948 er t.d. auglýstur ýmis varningur m.a. barnavagn, herrajakki, bílsæti og dekk til sölu hjá aðila sem ekki getur nafns en segist vera á 3.hæð til vinstri í þessu húsi. 3.hæð þessa hús getur varla verið neitt annað en rishæðin, og þessar upplýsingar benda til þess að tvö íbúðarrými hafi verið í risi á þeim tíma. Sem áður segir var það Akureyrarbær sem lét byggja húsið en hversu lengi bærinn átti húsið er mér ókunnugt um. Það liggur í hlutarins eðli að þar sem húsið var frá upphafi leiguhúsnæði með mörgum íbúðum hafa margir átt hér heimili í lengri eða skemmri tíma. Í Manntali árið 1940 eru 22 einstaklingar skráðir til heimilis í Ránargötu 6. Það hefur þó bara verið þó nokkuð rúmt um íbúana borið saman við það að um 1920 voru 19 íbúar í húsinu Lundargötu 11, en ég gæti ímyndað mér að það hús sé u.þ.b. Þriðjungur af Ránargötu 6 miðað við rúmtak. Húsið er fyrir margt löngu komið í einkaeign og eru nú tvær íbúðir í húsinu. Ránargata 6 er stórt og glæsilegt hús og er í mjög góðu ástandi, þak og gluggar virðast nýir. Þessi þrenning, nr. 2, 4 og 6 myndar skemmtilega heild, húsin eru öll svipuð að gerð að mörgu leyti- númer fjögur kannski "númeri smærra". Myndin af Ránargötu 6 er tekin í froststillu laugardaginn 31.janúar 2015.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35; fundur nr.669 24.8.1931.
Mannatal 1940. Bæði ritin eru óútgefin, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2015 | 09:37
Hús dagsins: Ránargata 5
Árið 1933 fékk Maron Sölvason leyfi til að byggja "íbúðarhús vestan Ránargötu, næst norðan við Soffíu Sigurðardóttur". Húsið átti að vera 10 x 7,8 m timburhús, járnvarið á steinsteyptum kjallara með lágu risi og teiknaði Maron húsið sjálfur. Upprunalega hefur húsið ekki verið ósvipað að gerð og t.d. Norðurgata 37, sem er byggð sama ár en það hús er frá upphafi múrhúðað. Timburhús voru orðin heldur sjaldgæf á þessum árum enda steinsteypan í raun tekin við sem helsta byggingarefnið. Árið 1950 var byggt við húsið bakatil, var þar um að ræða einlyfta byggingu með skúrþaki en einnig var byggt á húsið hátt ris og mun húsið þá hafa fengið núverandi útlit. En Ránargata 5 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara og með háu risi. Veggir eru klæddir steinblikki en þak er klætt bárustáli en í gluggum eru breiðir, margskiptir krosspóstar. Húsið er til mikillar prýði í götumynd Ránargötu og er í góðu standi og sömu sögu er að segja um lóð og nánasta umhverfi. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin í vetrarsólinni þ. 31.janúar 2015.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarbæjar. Fundargerð nr. 708 dags. 22.sept 1933. Óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2015 | 07:58
Hús dagsins: Ránargata 4.
Árið 1931 fékk Gunnar Jónsson skipasmiður lóð við Ránargötu norðan við hús Magnúsar og Óskars Gíslasona, þ.e. Ránargötu 2. Fékk hann leyfi til að reisa tvílyft steinhús 8,5x7,5m, ein hæð á kjallara. Byggingarleyfi fékkst með því skilyrði að ris yrði hækkað og yrði 3 metrar. Ránargata 4 er tveggja hæða steinsteypuhús með háu risi. Gluggapóstar eru ýmist einfaldir eða krosspóstar og bárujárn er á þaki. Litlar svalir eru á efri hæð hússins til norðurs. Að austan eða á bakhlið er viðbygging, einlyft með flötu þaki og á henni er stór og víður gluggi til suðurs. Ég kalla slíka glugga einfaldlega stofuglugga. Gunnar Jónsson hefur ekki átt húsið í mörg ár en í Manntali 1940 eru skráðar tvær fjölskyldur í húsinu, Jónas Aðalsteinn Tómasson og Friðrika Steinunn Guðmundsdóttir og Þórður Magnússon og Vilhelmína Hansdóttir. Líklega hafa hvor hjónin um sig búið á hverri hæð ásamt börnum en íbúar hússins árið 1940 eru ellefu talsins. Byggt var við húsið skömmu fyrir 1970 og fékk þá það lag sem það nú hefur. Teikningarnar að viðbyggingu eru dagsettar 28.júní 1966. Á þeim virðist risið lægra en nú er og krosspóstar eru í gluggum. Sennilega eru þær byggðar á upprunlegum teikningum sem gerðu ráð fyrir lægra risi, en þá hefði húsið líkast til haft svipað lag og t.d. Norðurgata 32 og 34. Upprunalegar teikningar hússins eru ekki aðgengilegar í gagnagrunni Landupplýsingakerfisins, og ekki endilega víst að þær hafi varðveist. Fyrstu áratugina voru tvær íbúðir í húsinu en nú er það einbýli. Húsið fellur vel inn í hina glæstu götumynd Ránargötunnar. Þessi mynd er tekin 8.feb. 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35, nr.661 4.maí 1931. Fundargerðarbækur eru varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Manntal á Akureyri 1940. Einnig varðveitt á Hskjs. Ak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2015 | 08:57
Hús dagsins: Ránargata 3
Í síðustu færslu tók ég fyrir Ránargötu 1. Númer 2 fjallaði ég um fyrir rúmum tveimur
árum ásamt Eiðsvallagötu 7 og því færi ég mig að næsta húsi, þ.e. Ránargötu 3.
Ránargötu 3 reisti Soffía Sigurðardóttir árið 1931 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti á bakhlið. Gluggar eru með einföldum lóðréttum póstum, en bárujárn er á þaki. Gert er ráð fyrir svölum út frá miðjukvisti á bakhlið. Upprunalega og lengst af var húsið tvíbýlishús, voru þá íbúðir á neðri hæð annars vegar og efri hæð og risi hins vegar. Að ytra byrði er húsið að mestu leyti óbreytt frá upphafi. Gluggum hefur þó verið breytt, enda þekktust póstar af þeirri gerð sem nú eru í húsinu ekki árið 1931. Kvistur kom mjög snemma á húsið en leyfi fyrir honum var gefið út í ársbyrjun 1932, hugsanlega meðan húsið var enn í byggingu eða fokhelt. Húsið var allt "tekið í gegn" um 2007 en þá var því breytt úr tvíbýli í einbýlishús og nokkrar breytingar gerðar á innra skipulagi hússins. Því má draga þá ályktun að húsið sé allt eins og nýtt að innan en það er einnig vel út lítandi að utan. Ránargata 3 er einfalt og látlaust og gerð og fellur vel að götumyndinni. Það er í hópi elstu húsa við Ránargötuna. Þessar myndir er tekin síðasta dag janúarmánaðar 2015. Neðri myndin sýnir bakhlið hússins með kvistinum en sú hlið snýr að baklóð Norðurgötu 30.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. ( Fundir dags 5.10.´31 og 11.1.´32.) Óútgefið, aðgengilegt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar- sjá tengil hér í hliðarstiku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2015 | 14:33
Hús dagsins: Ránargata 1
Ránargata er vestust og elst þvergatnanna sem liggja út frá Eiðsvallagötu en liggur samsíða Norðurgötu alla leið upp að Grenivöllum. Gatan tók að byggjast á 4.áratug 20.aldar og fyrstu byggingarleyfin vegna húsa við Ránargötu voru gefin út 1930. Í Manntali 1930 eru hinsvegar engir íbúar skráðir við götuna. Gatan er að mestu byggð á aldarfjórðungnum 1930-55, yngri húsin ofar. Eyrarvegur sker götuna og hef ég ákveðið að sú gata verði markalína umfjöllunarinnar hér.
Steingrímur Eggertsson og Kristján Kristjánsson fengu byggingarleyfið haustið 1930 og ári síðar reistu þeir húsið, en teikningarnar gerði Halldór Halldórsson. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, ekki ósvipað mörgum húsum í nágrenninu. Ef húsbyggingarsaga þessa svæðis er skoðuð virðist sem mikið hafi verið byggt árin 1930 og 31, en mun minna næstu árin á eftir. ATH. Þessi fullyrðing er einungis byggð á fljótlegum ályktunum höfundar en ekki studd neinni rannsókn og ber að taka með þeim fyrirvara. Fyrstu árin var einnar hæðar útbygging að norðan en árið 1934 var byggð hæð ofan á hana og húsið væntanlega þá fengið lag sem það nú hefur. Lítil viðbygging var einnig reist vestan megin enn seinna. Sexskiptir eða tvíbreiðir krosspóstar eru í gluggum hússins. Húsið er reist sem íbúðarhús, en sennilega var flutt inn í það eftir áramótin 1931 því enginn íbúi er skráður í húsinu 1.desember 1930- frekar en í nokkru húsi við Ránargötuna. Upprunalega voru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð og skiptust þær í eldhús, dagstofu og tvö herbergi sem skrifuð er Sv.st. á teikningum og geri ég ráð fyrir að það standi fyrir svefnstofa. Ránargata 1 er skemmtilegt, einfalt og látlaust hús. Það sem helst setur svip sinn á húsið er m.a. snoturt dyraskýli á ofan við framdyr. Myndin er tekin í vetrarsólinni laugardaginn 31.janúar 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35.
Manntal á Akureyri 1930. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 13.11.2016 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2015 | 13:50
Öskudagurinn á Glerártorgi
Ég átti leið um Glerártorg, helsta verslunarkjarna okkar Norðanmanna laust fyrir hádegi og einu sinni sem oftar var myndavélin með í för. Ég er, líkt og flestir nú orðið, alltaf með myndavél á mér í símanum en ég nota hana spart. Eiginlega ekki neitt- því fyrir mér er síminn bara til hringinga og skilaboðasendinga. En alls konar fígúrur voru á ferðinni þarna og hér koma nokkrar svipmyndir.
Bloggar | Breytt 19.2.2015 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 4
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 435
- Frá upphafi: 450827
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 332
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar