Norðurgata að Eyrarvegi

Ég hef sett mér það markmið að taka fyrir nánast hvert einasta hús á reitnum Norðurgata- Eyrarvegur- Ægisgata- Eiðsvallagata. Byggingarsögulega má í grófum dráttum skipta Oddeyrinni í þrjú hverfi. Elsti hlutinn og um leið sá er byggðist upp á lengstum tíma er syðsti hlutinn frá Strandgötunni að Eiðsvallagötunni en þar eru hús byggð frá 1873- 1930. Milli Eiðsvallagötu og Eyrarvegar eru hús byggð að mestu leiti hús frá fjórða áratugnum en nyrsti hlutinn er að mestu leyti byggður eftir 1945. Hér fjalla ég helst um gömul hús og miða ég þar almennt við fyrri hluta 20.aldar. (Að sjálfsögðu með undantekningum). Því mun ég láta staðar numið við Eyrarveg í þessari skipulögðu gatnaumfjöllun hér, en að sjálfsögðu er ekki loku fyrir það skotið að taki eins og eitt og eitt hús á Völlunum, Eyrarvegi eða Norðurgötu 40+ síðar meir. En neðan við Eyrarveg standa eftirfarandi hús við Norðurgötu:

Norðurgata 1 (1900)

Norðurgata 2 (1897)*

Norðurgata 2b (1911)

Norðurgata 3 (1899)

Norðurgata 4 (1897)

Norðurgata 6 (1898)

Norðurgata 8 (1933)

Norðurgata 10 (1926)

Norðurgata 11 (1880)**

Norðurgata 12 (1926)

Norðurgata 13 (1886)

Norðurgata 15 (1902)

Norðurgata 16 (1926)

Norðurgata 17 (1880)**

Norðurgata 19 (1920)

Norðurgata 26 (1926)

Norðurgata 28 (1924)

Norðurgata 30 (1923)

Norðurgata 31 (1926)

Norðurgata 32 (1930)

Norðurgata 33 (1927)

Norðurgata 34 (1930)

Norðurgata 35 (1939)

Norðurgata 36 (1930)

Norðurgata 37 (1933)

Norðurgata 38 (1929)

Norðurgata 40 (1946)

* Í umfjölluninni um Norðurgötu 2 fylgir einnig umfjöllun um Strandgötu 23

** Pistlarnir um Norðurgötu 17 og 11 eru tveir fyrstu sem birtust á þessari síðu og eru mjög stuttaralegir. Hér eru ítarlegri greinar um þau hús en þá skrifaði ég fyrir vef Akureyri Vikublað:

N-11 AKV.is

N-17 Akv.is

Hér kemur örlítil tölfræði sem ég tók saman mér til gamans:

Nordurgata_excel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er ill læsileg í þeirri upplausn sem þetta kemur fyrir hér í færslunni en þarna er reiknað út að meðalaldur húsanna sem standa við  Norðurgötuna neðan Eyrarvegar árið 2015 er 98,56ár (Ath. horfin hús eru ekki með í þessum reikningum). 3 hús eru byggð á 9.tug 19.aldar, 5 á 10.áratugnum, 2 á 1.áratug 20.aldar, 1 á 2.áratug 20.a. 10 á 3.áratugnum. 6 á þeim fjórða og eitt hús, nr. 40 er byggt á 5.áratugnum. Við Norðurgötuna standa skv. þessu 8 hús sem byggð eru fyrir aldamótin 1900. 

Norðurgatan telur upp í 60 en eins og áður sagði ætla ég að láta staðar numið í skipulagðri umfjöllun hér, þar sem ég dreg Eyrarveginn sem markalínu. En hér eru hins vegar svipmyndir úr ofanverðri Norðurgötunni:

Hér er horft til suðurs við mót Norðurgötu og Grenivalla. Vinstra megin sjást hús nr. 56 og 54 en trjáskrúð skyggir á neðri hús.P6200056 Norðurgata 38 er þarna áberandi í fjarska með sínn rauða lit. Hægra megin eru 49. 47, 45 og 43. Myndin er tekin á miðnætti á Sumarsólstöðum 20.júní 2012.

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er tekin frá mótum Eyrarvegar og Norðurgötu og hér sjást Norðurgata 42, 44, 46 og einnig má greina þarna nr. 48 og 50 gegn um haustlaufaþykknið. Myndin er tekin á þeirri skemmtilegu dagsetningu 10.október 2010 eða 10-10-10 ;)PA100017

 

 

 

 


Hús dagsins: Norðurgata 40

Það er ekki ofsögum sagt að á Oddeyrinni um miðja síðustu öld hafi verið blómlegt verslanalíf. Hverfisverslanir voru þó nokkrar ásamt fjölmörgum sérverslunum enda þekktust stórmarkaðir á borð við Krónuna, Bónus eða Nóatún ekki þá. P1040005Á austurhorni Norðurgötu og Eyrarvegar stendur Norðurgata 40, sem er eitt margra húsa sem áður hýstu hverfisverslun, þó ekki sjáist greinilega merki þess í dag (engir stórir búðargluggar t.d.). Húsið reisti Ragnar Jónsson kaupmaður árið 1946. Varðveittar eru teikningar af húsinu frá 22.ágúst 1945 undirritaðar af G. Tómassyni en ekki er ljóst fyrir það “G.” stendur. Einnig eru járnateikningar eftir Halldór Halldórsson frá maí 1946. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og horngluggum í anda Funkis- stefnunnar. Tröppur eru uppá efri hæð og inngangur á vesturhlið þ.e. Hliðinni sem snýr að Norðurgötu. Gluggar eru með einföldum póstum. Húsið er ekki ósvipað t.d. Eiðsvallagötu 6 og 8 í stórum dráttum en hús með þessu lagi voru ekki óalgeng á þessum árum. Að utan hefur húsið verið einangrað og klætt báruðu plasti sk. "lavella" frá Svíþjóð.(áb. 30.3. ´15 frá Einari í Norðurgötu 38) Neðri hæðin var verslunarrými frá upphafi en 12.ágúst 1947 birtist eftirfarandi auglýsing í Alþýðumanninum:

Undirritaður hefir opnað nýja verzlun í húsinu NORÐURGÖTU 40 undir nafninu „HEKLA". •— Þar fást flestar vörur: Matvörur, hreinlætisvörur, sælgæti, öl og gosdrykkir o. fl. — Lítið inn og athugið verð og gæði, og afgreiðslu verzlunarinnar. Akureyri 5.ágúst 1947. Anton Ásgrímsson.

Verslunin í Norðurgötu 40 kallaðist Tonabúð í daglegu tali. Árið 1955 er Kaupfélag Verkamanna hinsvegar komið með útibú í þetta pláss og var þarna fram eftir 7.áratugnum.Húsið hefur síðustu áratugi verið íbúðarhús, ein íbúð á hvorri hæð. Húsinu er mjög vel við haldið og lítur vel út og lóð hefur einnig verið sinnt af alúð og natni. Myndin er tekin fjórða janúar 2015.

 

Heimildir eru fengnar af Landupplýsingakerfi Akureyrar (sjá tengil hér í hliðarglugga) og vísað er í heimildir af timarit.is í texta með tenglum. 


Hús dagsins: Norðurgata 38

Norðurgötu 38 reistu Jón Sigurðsson og Rannveig Sigurðardóttir árið 1929 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. P1040003Í Manntali 1930 sést að í húsinu eru tvær íbúðir í húsinu en þá búa þar áðurnefnd Jón og Rannveig ásamt fjórum börnum sínum og Júlíus Júlíusson og Margrét Sigtryggsdóttir ásamt fimm börnum. Þá eru skráðir í húsinu tveir leigjendur þannig að alls bjuggu hér alls 15 manns. Þess má geta að síðan hefur verið byggt við og húsið og það stækkað verulega ! Húsið hefur um nokkurt árabil verið útvörður byggðarinnar á Eyrinni í norðri en næstu hús norðan við voru ekki reist fyrr en eftir 1940. En Norðurgata 38 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og stórum kvistum. Þá er einnig tvílyft viðbygging austan á húsinu og er hún með lágu risi. Krosspóstar eru í gluggum en stór “stofugluggi” er á suðurhlið viðbyggingar. Þá er einnig lítill inngönguskúr á norðurstafni. Fyrst var húsinu breytt verulega árið 1964 en þá var viðbyggingin aftan til reist en árið 1986 voru kvistirnir stóru settir á þakið. Kvistirnir setja mikinn svip á húsið, en þeir eru af þeirri gerð sem ég hef stundum heyrt kallaða “Hafnarfjarðarkvisti”. Húsið er nokkuð dæmigert steinhús frá 3.áratug síðustu aldar og lítur vel út; virðist í góðu standi. Það er svipað gerðar og Norðurgata 36 hvað varðar hæð og byggingarlag og sömu sögu má segja um næsta “par” sunnan við. Þessi hús gefa götumyndinni skemmtilegan svip. Myndin er tekin 4.jan. 2015.

 Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 37

 

Norðurgata 37 stendur á horni Eyrarvegar og Norðurgötu, vestan megin. P1040001Sögu hússins má rekja til ársins 1933, en þann 16.janúar þ.á. fékk Árni Jónatansson leyfi til að byggja á lóð Ólafs Ágústssonar sem jafnframt afsalaði lóðinni til Árna. Þau skilyrði sem sett voru varðandi byggingarleyfið var að ekki skyldu vera útitröppur við húsið, forstofuinngangur á NA-horni og gluggar í kjallara á suðurstafni skyldu vera beint niður af gluggum efri hæðar. Ekki fylgir sögunni hvers vegna þessi skilyrði voru sett. En Norðurgata 37 er einlyft timburhús á háum kjallara og með lágu risi. Það er múrhúðað að utan eða forskalað sem kallað er og gluggar eru nýlegir, án pósta. Lóðin hefur fengið mikla yfirhalningu síðustu ár, steypt upp og reist ný girðing en einnig er við húsið bílskúr, sambyggður skúrum á nr. 35 og Eyrarvegi 20 en sú lóð liggur að Norðurgötu 37 í vestri. Húsið hefur einnig hlotið miklar endurbætur og virðist í góðu standi. Á suðausturhorni hússins hangir skemmtileg, útskorin kýr, sem lætur ekki mikið yfir sér en er býsna skrautleg og á móti hangir númer hússins hangir á hinu horninu. Lengi vel var sérstakur umbúnaður um útidyr, lítið timburskýli, um 1x1,5m að stærð sem náði út á gangstétt og voru þar ytri útihurðir og þrep niður að útidyrum. Þessi bygging var fjarlægð 2011. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin 4.jan. 2015.

Heimildir:  Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35 nr 689, 16.jan.1933.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

 

 


Hús dagsins: Norðurgata 36

 

Á Norðurgötu 36 stendur reisulegt steinsteypuhús með háu risi. P1040002Það reisti Bogi Ágústsson árið 1930 eftir teikningum Ágústs Ágústssonar. ( Mér er ekki kunnugt um hvort þeir voru bræður.) Samkvæmt manntali árið 1930 bjuggu í húsinu Bjarni Marteinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir ásamt börnum sínum Frosta og Hönnu Skagfjörð, en Bogi Ágústsson er þar ekki skráður sem íbúi. En alltént reisti Bogi Ágústsson húsið og einhvern tíma mun húsið hafa kallast Bogahús. (Annað Bogahús stóð við Hafnarstræti, skáhallt á móti Samkomuhúsinu) Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og á lágum grunni með bárujárni á þaki. Kvistur er á framhlið og þykir mér líklegt að þar sé um síðari tíma viðbót að ræða. Gluggapóstar eru einfaldir með lóðréttum fögum. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á neðri hæð og önnur á efri hæð og risi. Húsið lítur vel út, m.a. er á því tiltölulega nýlegt þakjárn. Norðurgata 36 telst hafa varðveislugildi sem hluti af heild skv. Húsakönnun Minjasafnsins frá 1995.  Þessi mynd er tekin þann 4.janúar 2015.

 

 

Heimildir: Manntal á Akureyri 1930. Óútgefið rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 35

Í maí 1939 fékk Sigurbjörn Friðriksson, vörubílsstjóri hjá Rafveitu Akureyrar, leyfi til að reisa hús við Norðurgötu 35. P1040006 Það skyldi vera tveggja hæða, efri hæð úr r-steini en neðri hæð steinsteypt, húsið kjallaralaust og timburgólf milli hæða. Teikningar gerði Aðalsteinn Þórarinsson. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi en einlyft viðbygging er á vesturhlið og við norðurmörk lóðar. Bárujárn er á þaki og þverpóstar í gluggum. Gluggasetning er nokkuð hefðbundin og regluleg, þrír gluggar á efri hæð en inngangur á miðri framhlið og gluggi sitt hvoru megin við hann og tveir gluggar á hvorri hæð á stöfnum. Þá er einnig bílskúr á norðurmörkum, sem er sambyggður skúr við næsta hús norðan við, nr. 37. Ein íbúð er í húsinu en gætu hafa verið tvær áður. Samkvæmt Oddeyrarbókinni góðu telst húsið hafa varðveislugildi sem hluti af þeirri heild sem húsaröðin við Norðurgötu. Húsið er í frábæru standi og lítur vel út og sömu sögu er að segja um lóð og næsta umhverfi sem hefur á síðustu árum hlotið mikla yfirhalningu sem sómi er af. Þessi mynd er tekin þann 4.janúar 2015.

Heimildir:  Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1935-40 nr 835, 23.maí 1939.

Manntal á Akureyri 1940. Bæði þessi rit eru óútgefin, en eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

 


Hús dagsins: Norðurgata 34

Árið 1930 reistu þeir Gestur Jóhannsson og Guðmundur Tryggvason íbúðarhús á tveimur hæðum á Norðurgötu 34. P1010017Er það reist eftir teikningum Halldórs Halldórssonar byggingarfulltrúa en hann teiknaði býsna mörg hús á Eyrinni á þessum árum. Hús Halldórs eru að öllu jöfnu einföld og látlaus og er Norðurgata 34 þar engin undantekning. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, kjallaralaust.  Við norðurstafn er tvílyft forstofubygging og þar eru steyptar tröppur á efri hæð. Undir þakskeggi eru múraðir tíglar til skrauts, sem e.t.v. hafa einhvern tíma verið málaðir öðrum lit en húsið sjálft og verið meira áberandi. Á upprunalegum teikningum frá maí 1930 er aðeins stigapallur á efri hæð en ekki forstofubygging en aðrar teikningar frá febrúarlokum 1950 sýna húsið með forstofubyggingunni. Því hefur húsið líkast til fengið núverandi útlit um það leyti. Húsið er að miklu leiti óbreytt síðan þá fyrir utan að gluggapóstum hefur verið breytt á neðri hæð, þar eru þverpóstar en krosspóstar á efri hæð. Norðurgata 34 lítur vel út og virðist í góðu standi. Fljótt á litið virðist húsið "systurhús" númer 32 en þrátt fyrir svipaða stærð og lögun er um tvö ólík hús að ræða, hvort af sinni gerð. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin 1.1.2015.

 


Hús við Lundargötu

Ég er í og með að vinna í einhvers lags skipulagi hér á síðunni. Einn liður í því að taka saman í eina færslu umfjallanir innan sömu gatna. Hér koma húsin við eina elstu götuna á Eyrinni, Lundargötu. Elstu færslurnar eru frá upphafsdögum þessarar síðu sumarið 2009 en yngstu ritaði ég haustið 2013. 

Lundargata 2

Lundargata 5 

Lundargata 6

Lundargata 7 (og Gránufélagsgata 10)

Lundargata 8

Lundargata 9

Lundargata 11

Lundargata 12

Lundargata 13

Lundargata 15

Eru ekki fleiri hús við Lundargötu ?

Á lóðum nr.1,3 og 4 standa ekki hús. Lundargata 1 og 3 voru rifin um 2002-03 að mig minnir. Á Lundargötu 10 stóð hús sem kallað var Gunnarshólmi, byggt 1924 en brann í febrúar 1990, en þar var reist nýtt hús árið 2002. Það stóð einnig bakhús við Lundargötu 13, 13b sem rifið var 2004. Ég á ekki myndir af þessum húsum en hér á þessari mynd gefur hins vegar að líta gafl Lundargötu 17. Þessi mynd er tekin fyrir réttum 10 árum í janúar 2005 og sýnir Lundargötu 15.  Á Lundargötu 17 stóð hús, einlyft forskalað timburhús með stórum miðjukvisti að framan og minni að aftan. Húsið var upprunalega reist á númer 10 árið 1894 en flutt á þennan stað 1920. Lundargata 17 skemmdist í bruna 6.maí 2007 og var rifið tveimur árum seinna.

Til hægri má sjá suðurstafn Lundargötu 17. L17stafn_jan05

lundargata 15


Hús dagsins: Norðurgata 32

Við Norðurgötu 32 sveigir gatan örlítið til austurs við gatnamót Grænugötu, en hún liggur á milli Glerárgötu og Norðurgötu og markar norðurmörk Eiðsvallar. P1010012Á þeirri lóð stendur tveggja hæða steinhús sem er ekki ósvipað og næsta húsum að lögun og svipar nokkuð til t.d. Eiðsvallagötu 4 og 9. Húsið reisti kona að nafni Aðalbjörg Friðriksdóttir árið 1930 en teikningar gerði Ármann Sveinsson. Norðurgata 32 er, sem áður segir, steinsteypuhús á tveimur hæðum með lágu risi. Gluggar eru með krosspóstum og bárujárn er á þaki en efst á göflum eru kantarnir bogadregnir. Húsið er reist sem íbúðarhús en vel má vera að neðri hæð hafi einhvern tíma hýst einhvers konar verkstæði eða starfsemi. Ekki hefur húsinu verið breytt mikið og er að líkindum svipað og í upphafi í stórum dráttum. Endurbætur fóru fram á húsinu á 10.áratugnum, þá voru veggir einangraðir upp á nýtt og klæddir en einnig hefur húsið verið “tekið í gegn” að innan. Á lóðinni eru einnig skúrbyggingar og sólpallur eða verönd við bakhlið, þ.e. austan megin. Húsið er allt hið glæsilegasta að sjá og umhverfi þess til prýði. Húsið er einbýlishús og hefur að líkindum verið svo alla tíð. Fast upp að húsinu sunnan megin stendur mikill silfurreynir (Sorbus intermedia) sem er mjög gróskumikill á sumrin en er einnig býsna skrautlegur að sjá í vetrarskrúða, líkt og á þessari mynd sem er tekin er sl. Nýjársdag 2015.

 

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

 


Hús dagsins: Norðurgata 30

Árni Valdimarsson og Sigurgeir Jónsson reistu Norðurgötu 30 árið 1923. P1010013Um var að ræða tveggja hæða timburhús með lágu risi og með á lágu kjallara en steinsteyptur skúr á norðausturhorni. Ekki er ósennilegt að húsið hafi verið klætt steinblikki frá upphafi en sú klæðning var á húsinu a.m.k. fram á 10.áratug 20.aldar. Það fylgir ekki sögunni en líklegt þykir mér að þeir hafi búið með fjölskyldum sínum hvor á sinni hæð. Það er hins vegar alls ekki sjálfgefið þó að tveir menn hafi reist tveggja hæða hús að þeir hafi haft íbúðir sínar á hvorri hæð. Allt eins geta menn í tilfelli sem þessu hafa deilt annarri hæðinni og haft einhverja starfsemi á hinni. Á fyrstu áratugum 20.aldar tíðkaðist auk þess að margar fjölskyldur bjuggu kannski á einni hæð húsa, sem voru ekki stærri en Norðurgata 30 að grunnfleti. Á bakhlið hússins á norðausturhorni er forstofubygging með hallandi skúrþaki og einnig stendur geymsluskúr á lóðinni. í húsinu voru lengst af tvær íbúðir. Á árunum eftir 1990 voru gerðar miklar endurbætur á húsinu, bæði að utan sem innan og nú er húsið klætt láréttum panelborðum og nýlegir sexrúðupóstar í gluggum. Er húsið því allt sem nýtt og hið stórglæsilegasta að sjá. Nú er ein íbúð í húsinu. Þessi mynd er tekin 1.jan. 2015.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 328
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband