Gleðilegt sumar

Óska öllum gleðilegs sumar með þökk fyrir veturinn. cool

Myndin sýnir skrúðgöngu Akureyrskra skáta í Síðuhverfi í morgun en þar var gengið til skátamessu í Glerárkirkju.

P4230009


Hús dagsins: Ægisgata 13

 Í ársbyrjun 1937 fékk Tryggvi Stefánsson skósmiður úthlutað lóð, þeirri ystu að vestan og 15.apríl sama ár fékk hann byggingarleyfið.P2150017 Hér er um að ræða sams konar hús og austan við götuna og líkt og öll húsin við Ægisgötuna er það byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Húsið er mjög líkt húsum sem hann teiknaði sem “Einbýlishús fyrir SBA” árið 1936 og risu það ár og árið á eftir en á Ægisgötu 13 er ekki litla hornútskotið og lega þvottahúss og bakdyrainngangs er frábrugðin. Teikningar að húsinu eru dagsettar 2.feb 1937. Árið 1940 bjuggu í þessu húsi, sem telst 90 fermetrar að stærð 9 manns: Tryggvi Stefánsson og kona hans Sigrún Jónína (föðurnafn hennar illlæsilegt), 5 börn þeirra auk vandalausrar konu, Ingibjargar Gunnarsdóttur 76 ára, sem sögð er á framfæri húsbónda. Þá leigði þarna Ólafur Tryggvason 54 ára bóndi á Dagverðartungu. Þrjú herbergi hússins hafa dugað þeim níu sem þarna bjuggu 1940 líkt og öllum öðrum íbúum þau 78 ár sem húsið hefur staðið því húsið er óbreytt frá fyrstu gerð, herbergjaskipan að mestu sú sama og í upphafi og ekki hefur verið byggt við það. Einhverjar skúrabyggingar eru einnig á lóðinni. Húsið er einstaklega smekklegt og vel við haldið og lóðin sömuleiðis hirt af mikilli natni. Á sumrin og árið um kring að hluta er mikið safn allskonar skrautmuna í steinbeðum umhverfis húsið, vegfarendum til mikillar ánægju og yndisauka. Ein íbúð er í húsinu. Mynd tekin 15.feb. 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. (Fundir 9.jan og 15.aprí 1937)

Manntal á Akureyri 1940. 

Hér er um að ræða óprentaðar og óútgefnar heimildar sem varðveittar eru á Héraðskjalasafninu á Akureyri. Þess má geta að allar upplýsingar sem ég hef upp úr þeim ritum skrifa ég fyrst í litla minnisbók og færi þaðan inn í tölvu þegar heim er komið. Því er viss fyrirvari á að nöfn og dagsetningar eða annað slíkt skolist lítillega til þó yfirleitt gæti ég þess ítarlega að það hendi ekki. 


Hús dagsins: Ægisgata 12

 Á fundi Byggingarnefndar þann 6.október 1936 var Páli Jóhannssyni veitt leyfi til að reisa hús sitt næst norðan við lóðir Tryggva Jónatanssonar.P2150007 Húsið átti að vera 8x9m með útskoti 3,15x 1,50m. Er þetta þá sams konar hús og númer 2, 4, 10 og 14. Einkennandi fyrir þessi hús er lítill hlutfallslega breiður gluggi við hlið framdyra og útskotsins á horninu. Eins og gengur og gerist á tæpum átta áratugum hafa húsin öll tekið mis miklum breytingum að ytra byrði, þ.e. gluggapóstar, hurðir og klæðning og hafa hvert sitt svipmót hvað það varðar. Þessi hús eru með þeim elstu við Ægisgötuna en ljóst er að erfitt er að ákvarða hvert húsanna er elst, en fyrstu byggingarleyfin voru veitt fyrir númer 12 og 2 í október og nóvember 1936. Ljóst er að mörg húsanna hafa því verið samtímis í byggingu en gatan var fullbyggð norður að Eyrarvegi árið 1940. Ægisgata 12 er steinhús og reist eftir sömu teikningu og númer 2, 4, 10, 12 og 14 og ber öll sömu einkenni. Það er að einu leiti frábrugðið hinum húsunum að það er járnklætt og hefur að líkindum verið einangrað upp á nýtt um leið og klæðning kom á. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið er til prýði í umhverfi sem og gróin lóð umhverfis húsið. Myndin er tekin 15.2.2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 11

Af einhverjum ástæðum er ekkert hús númer 9 við Ægisgötu. P2150016Norðan við hús númer 7 stendur Ægisgata 11 en það hús reisti Jón Þorsteinsson, sjálfstætt starfandi vélsmiður árið 1937. Húsið virðist byggt eftir sömu teikningu og næstu hús neðan við en hefur verið stækkað til vesturs. Húsið er einlyft steinhús með valmaþaki og einnig er bakálma með valmaþaki. Járn er á þaki og einfaldir póstar í gluggum. Á viðbyggingu er stór gluggi af þeirri gerð sem ég kalla einfaldlega “stofuglugga”. Á Landupplýsingakerfi Akureyrar má finna uppdrátt af viðbyggingu við húsið, dagsetta í maí 1958 og þá er eigandi Björgvin Júníusson. Í viðbyggingunni var stofa til viðbótar við þá sem fyrir var í suðvesturhorni og lítið herbergi. Húsið virðist í mjög góðu standi, gluggar nýlegir að sjá sem og þakjárn og ekki mörg ár síðan húsið var málað. Á lóðinni eru auk hússins geymsluskúrar og er ein íbúð í húsinu. Myndin er tekin 15.2.2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 10

  Björn Erlendur Sveinssonreisti þetta hús árið 1937. P2150009Í manntali 1940 er hann titlaður vörubílstjóri en þá var íbúafjöldi hússins alls sjö manns en það var raunar ekki óalgengt að 6-9 manns byggju í þessum húsum, sem flest voru og eru um 60-80 fermetrar. Fjölskyldur voru barnmargar og ósjaldan að foreldri eða foreldrar heimilisföður eða húsmóður byggju þar líka. Ægisgata 10 er einlyft steinhús með valmaþaki. Grunnflötur nær ferningslaga en lítið útskot á suðausturhorni.  Hér er um að ræða eitt þeirra hús sem byggt er eftir teikningunni með yfirskriftina “Einbýlishús fyrir SBA Akureyri”.Í gluggum eru krosspóstar en járn á þaki. Skúrar eru á baklóð. Húsið lítur vel út og er vel við haldið, í því eru nýlegir gluggapóstar og nýlegt járn virðist á þaki. Inngangar eru á framhlið og á bakhlið. Í öllum húsum Tryggva Jónatanssonar var sérstakt þvottahús með þvottapotti og inngangur í þvottahúsin og eru þetta líkast til með fyrstu húsum með slíku fyrirkomulagi. Í eldri húsum var ekki óalgengt að kyndiklefar væru innréttaðir sem þvottahús síðar meir. Líkt og nærliggjandi hús er það til prýði í húsaröðinni sem er heilsteypt röð einfaldra og látlausra funkishúsa. Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin 15.feb 2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 8

Eiríkur V. Guðmundsson pylsugerðarmeistari á Kjötiðnaðarstöð KEA og kona hans Anna S. Sveinsdóttir byggðu Ægisgötu 8 árið 1936 skv. Fasteignaskrá, en byggingarleyfi fengu þau 19.febrúar 1937. P2150008Húsin tvö númer 6 og 8 eru nákvæmlega eins, byggð eftir sömu teikningu Tryggva Jónatanssonar og eru þau líklega minnstu einbýlishúsin á Akureyri. Hvort um sig eru óbreytt frá fyrstu gerð, ekki hefur verið byggt við þau og herbergjaskipan er lítið breytt. Húsin skiptust í litla forstofu og innaf henni herbergi vinstra megin og stofa til hægri en lítil snyrting í miðju. Úr stofu var annars vegar gengið inn í eldhús vinstra megin og herbergi eða dagstofu hægra megin en innaf eldhúsi var þvottahús og búr. Inngangar eru á framhlið og einnig þvottahúsinngangur á norðurhlið. Ægisgata 8 er einlyft r-steinhús á lágum grunni og með valmaþaki. Gluggapóstar eru nýlegir á að líta og eru þeir einfaldir lóðréttir. Húsið lítur vel út og virðist í góðri hirðu og lóð umhverfis vel hirt og smekkleg. Á henni eru einnig tveir litlir geymsluskúrar úr timbri og ýmis trjágróður, auk sólpalls við suðvesturhorn hússins. Þessi mynd er tekin 15.febrúar 2015 og sýnir norðurhlið hússins en myndin af Ægisgötu 6 í þeirri færslu sýnir suðurhlið þess húss. Þær hliðar húsana eru nákvæmlega eins enda húsin byggð eftir sömu teikningu.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41; fundur nr.789 þ. 19-2-1937.

Manntal á Akureyri 1940. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 7

Haraldur Kr. Jónsson reisti Ægisgötu 7 árið 1939 eftir teikningum Tryggva Jónatansson en þær voru sams konar og teikningarnar að næsta húsi sunnan við, sem Ásmundur Elíasson byggði. P2150014Við götuna neðanverða standa nokkrar húsagerðir eftir Tryggva sem allar eru keimlíkar. Þrenningin 3-7 er öll byggð eftir sömu teikningu, og eins eru hús 2-4 og 10-14 eftir sömu teikningu og 6 og 8 eru nákvæmlega eins. Húsið er klætt grjótmulningi eða sk. perluákasti sem einnig er stundum ranglega nefnt skeljasandur. Ægisgata 7 er semsagt 8,8x7,2m að grunnfleti líkt og nr. 5 en grunnur hússins virðist eilítið hærri. Horngluggar eru á suðurhlið, inngangar á framhlið og norðurhlið og gluggi norðan við útidyr. Járn er á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum. Húsið er í góðri hirðu sem og umhverfi þess. Framan við húsið og raunar öll húsin neðan við er smekkleg steypt girðing með skrautlegum járnrimlum. Þessar girðingar eru mjög einkennandi fyrir byggðina á Oddeyrinni frá árunum 1935-55. Lóðin er einnig vel gróin og “verkleg” birkitré og fánastöng þar í forgrunni. Myndin er tekin þann 15.febrúar 2015.

 

 

 

 


Hús dagsins: Ægisgata 6

Tvær systur, Oddný og Katrín Þórðardætur, báðar saumakonur á Gefjun reistu Ægisgötu 6 árið 1937. 

P2150012Húsið er “tvíburahús” en það er byggt eftir sömu teikningu og númer 8, sem er líkast til einhverjum mánuðum eldra. Þessi hús eru sennilega ein minnstu einbýlishúsin á Akureyri, aðeins 63 fermetrar að grunnfleti. Þó var það svo árið 1940 að þarna bjuggu auk systranna tvö börn Oddnýjar og tveir leigjendur, Stefán Halldórsson 32 ára verkamaður og Björn Sv. Friðriksson 20 ára vörubílstjóri. Eða alls 6 manns ! Í húsinu bjuggu síðar um áratugaskeið tveir bræður, Gottskálk og Steingrímur Egilssynir frá Garðakoti í Skagafirði og ljóst er að þeir hafa hirt vel um húsið. Það hefur verið einangrað og klætt upp á nýtt og í því eru nýir gluggar með krosspóstum. Árin 2013-14 var húsið allt endurnýjað að innan og er nú allt sem nýtt. Á lóðinni stendur einnig bárujárnsklæddur geymsluskúr sem virðist í góðu standi. Á baklóð er hellulögð verönd þar sem áður var kartöflugarður en framan við húsið er sólpallur úr timbri. Allt er húsið og lóðin til fyrirmyndar í umhirðu og frágangi. Á horni lóðarinnar er hátt og mikið, allavega 15 metra hátt grenitré sem. Fljótt á litið virðist mér þetta vera sitkagreni en mér "trjáfróðari" menn mega endilega leiðrétta mig annaðhvort með skrifum hér við færslu, á Gestabók hér til hliðar (athugasemdafrestur rennur út á tveimur vikum eftir að færsla er birt) eða bara hvernig sem er. Myndin er tekin 15.febrúar 2015.

Hér sést grenið mikla á Ægisgötu 6 í öllu sínu veldi. Á mynd sjást til vinstri, auk Ægisgötu 6, hús nr. 8 og 10 og norðvesturhorn nr. 4 til hægri.

P2150011

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.800, þ. 9.júní 1937.

Manntal á Akureyri 1940. Þar fást upplýsingar um annars vegar stöðu og atvinnu húsbyggjanda og leigjenda og hins vegar hve margir bjuggu í húsunum. 

 

 

 

 


Hús dagsins: Ægisgata 5

Ásmundur Elíasson kyndari á Lagarfossi og Valborg Ingimundardóttir reistu Ægisgötu 5 árið 1939.P2150015 Líkt og öll hús við Ægisgötuna sunnan Eyrarvegar er það byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og hér er um að ræða sams konar hús og númer 3. Byggingarleyfi gerir ráð fyrir að grunnflötur hússins sé 8,80x7,20m eða um 64 fermetrar. Fljótlega byggði Ásmundur þó við húsið til norðvestur, lítið útskot sem á teikningum er sagt 3,7x2m. Teikningarnar eru dagsettar 24.júlí 1940 þannig byggingin hefur komið mjög fljótlega, 1-2 árum eftir byggingu hússins. Ægisgata 5 er einlyft steinsteypt einbýlishús með valmaþaki og horngluggum og einföldum lóðréttum gluggapóstum. Inngangar eru á miðjum austur og vesturhliðum. Líkt og gildir um flest hús í þessari röð er húsið að mestu óbreytt frá fyrstu gerð að ytra byrði. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 15.2.2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar 1935-41. Fundargerð nr. 823 (19.sept. 1938). Óprentuð og óútgefin heimild, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Teikningar eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfi Akureyrar (sjá tengil hér til hliðar). Þær veita oft greinargóðar heimildir um það í fyrsta lagi hver byggði húsin og í öðru lagi hvenær byggt var við þau. Þó má slá þann varnagla að ekki er endilega víst að bygging  hafi farið fram strax og teikningar komu- þó það sé almennt lang algengast. 

 


Hús dagsins: Ægisgata 4

Á teikningum Tryggva Jónatanssonar af Ægisgötu 4 stendur Einbýlishús fyrir SBA Akureyri.P2080015 Fyrir hvað SBA stendur er óljóst en nokkur hús við Ægisgötu eru reist eftir þessari sömu teikningu og eru þau flest óbreytt nema númer 2. En þetta hús reisti Ingibjörg Jónsdóttir árið 1937 og í byggingarleyfinu er tilgreint að húsið sé næst norðan við hús Jóns Jósefssonar. Húsið er einlyft,hlaðið úr r-steini,  og með valmaþaki og er járn á þaki. Í byggingarleyfinu kemur fram að gólf sé "lagt í púkk" en ekki er mér kunnugt um hvað það merkir. Í gluggum eru lóðréttir póstar og með einu opnanlegu fagi í efra horni. Þá er á framhlið hússins þessi hlutfallslega breiði, rétthyrningslaga smágluggi sem einkennir þessi “SBA-hús” Tryggva. Grunnflötur er nánast ferningslaga en lítið útskot er á suðausturhorni. Húsið er að mestu óbreytt frá fyrstu gerð, a.m.k að ytra byrði. Það er í góðri hirðu líkt og flest húsin við Ægisgötuna. Myndin er tekin 8.febrúar 2015.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41, fundur nr.800 þ.9.6.1937. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri. 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 433
  • Frá upphafi: 450865

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 332
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband