Hús dagsins nr. 140: Skíðastaðir í Hlíðarfjalli (áður Sjúkrahús Akureyrar)

Eitt vinsælasta skíðasvæði á landinu er ofan Akureyrar, í Hlíðarfjalli og ná efstu brekkurnar uppí 1000m hæð. P3150096En höfuðstöðvar svæðisins eru í 500metra hæð um 7km frá Miðbænum. Helsta bygging svæðisins eru Skíðastaðir, sem sjást hér á myndinni. Er hann einlyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu risi og tveimur burstum á göflum. Langur, flatur kvistur er á miðálmunni. En húsið er byggt árin 1955-57 á þessum stað-en er að stofni til miklu, miklu eldra og hefur ekki alltaf staðið þarna. Húsið var nefnilega reist upprunalega árið 1898 sem sjúkrahús Akureyringa og stóð þá á brekkubrúninni norðan Búðargils- á flata sem kallaðist Undirvöllur.  Guðmundur Hannesson héraðslæknir hafði veg og vanda að þeirri byggingu. Þótti honum að þáverandi sjúkrahúsaðstaða í Aðalstræti væri engan vegin boðleg, enda þröng og starfsaðstæður slæmar - auk þess sem húsið var ekki reist sem sjúkrahús. Húsið var eitt það vandaðasta á Akureyri- og á landinu öllu. Var það búið vatnsleiðslu og vatnssalernum og miðstöðvarkyndingu, en slíkt varð ekki almennt í húsum fyrr en um 1920. Snorri  Jónsson timburmeistari stjórnaði byggingu hússins- en danskur arkitekt L. Thuren teiknaði það en ekki er talið ólíklegt að Guðmundur hafi verið með í ráðum í hönnun hússins. Sjúkrahúsið var að mestu leyti svipað og Skíðastaðir (enda raunar um sama hús að ræða), nema hvað risið er hærra á Skíðastöðum og húsið stendur á hærri grunni. Skömmu eftir að Sjúkrahúsið var reist byggðu Guðmundur og Snorri einnig glæsilegt íbúðarhús en það stendur enn á sínum stað og er Spítalavegur 9. Sjúkrahúsið á Spítalavegi þjónaði Akureyringum og nærsveitarmönnum fram á miðja 20.öld en var orðið þröngt og hrörlegt 1953 þegar nýtt og stórglæsilegt Fjórðungssjúkrahús tók við hlutverki þess. Svo það varð úr að húsið var tekið niður en viðurinn nýttur í nýjan skíðaskála sem enn stendur. Húsið var fullgert 1957. Þá þegar var áratuga hefð fyrir skíðaiðkun í Hlíðarfjalli- og stóð annar eldri og mikið minni skáli, Útgarður, á svipuðum slóðum. Þá voru einnig til eldri Skíðastaðir en sá skáli var byggður um 1930 (rifin skömmu fyrir 1980)  og stóð á Súlumýrum, rétt ofan við Fálkafell. En þetta hús hefur  alla tíð verið skíðahótel, þ.e. gistiaðstaða fyrir hópa sem koma á skíði og eru gistirými á efri hæð en veitingasala og afgreiðsla á neðri hæð ásamt geymslurýmum. Skíðastaðir á sér langa og mikla sögu, bæði sem vinsælt skíðahótel og fyrrum sjúkrahús; þarna eru t.d. margir Akureyringar fæddir! Húsinu er vel viðhaldið og í góðu ástandi en trúlega mæðir mikið á húsinu að utan, því hvassviðrin þarna geta verið all rosaleg í 500 metra hæð og opið fyrir Glerárstrengnum svokallaða. Þessi mynd er tekin fyrr í dag, 15.mars 2012.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason. 2003. Af norskum rótum; gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og menning.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 308
  • Frá upphafi: 420183

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 221
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband