Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Strandgata 19b; Laxamýri

Í byrjun árs 1906 birtust í Akureyrarblöðunum þær fréttir að Sigurjón Jóhannesson bóndi á Laxamýri í Reykjahverfi, S-Þingeyjarsýslu hyggðist flytja til Akureyrar á hinu nýja ári. Hafði hann búið stórbúskap á þeirri kostajörð í meira en 40 ár, síðustu 14 árin í félagsbúi með sonum sínum, Agli og Jóhannesi, en hugðist nú flytja í kaupstaðinn á efri árum, en hann var orðinn 73 ára. Annar sonur Sigurjóns, Lúðvík, átti heima að Strandgötu 19 og fékk Sigurjón keypta lóð af Gránufélaginu á bakvið hús Lúðvíks. Kannski hafa einhverjir haldið, að Sigurjón myndi reisa sér lítið og lágreist smáhýsi í bakgarði sonar síns. En það var aldeilis öðru nær; hús Sigurjón var umtalsvert stærra og veglegra og gnæfði yfir framhúsin nr. 17 og 19 og er enn þann dag í dag eitt af tilkomumestu húsum sunnanverðrar Oddeyrar.20240121 IMG 1415

Þann 18. janúar 1906 bókaði Bygginganefnd Akureyrar eftirfarandi: „Sigurjóni Jóhannessyni frá Laxamýri var leyft að byggja hús á lóð hans bak við hús þeirra Lúðvíks Sigurjónssonar og Eggerts Stefánssonar við Strandgötu og sje [svo] miðjan á húsinu fyrir miðju sundinu milli húsa hinna nefndu húsa. Húsið er byggt úr timbri, 15x15 [álnir] einlyft með porti og kvisti og með „veranda“ á framhlið 6x2 ¼ al. [álnir]“ (Bygg. nefnd. Ak. nr. 305, 1906).

Sigurjón á Laxamýri ætlaði aldeilis ekki að reisa neitt smáhýsi þarna á baklóðinni hjá syni sínum. Og það sem meira var, húsið var reist í hinum svokallaða sveitserstíl, sem á þeim tíma var það allra glæstasta í húsbyggingum. Til húsbyggingarinnar réði hann frænda sinn, Sigtrygg Jónsson frá Espihóli, sem hálfu öðru ári fyrr hafði stýrt byggingu eins stærsta og veglegasta húss bæjarins, Gagnfræðaskólans við Stóra Eyrarland (Gamli Skóli, Menntaskólinn).  Sveitserhúsin voru reist að norskri fyrirmynd og voru einnig kölluð katalóghús. Sú nafngift kom til af því, að þau væru valin úr bæklingum eða „katalógum“ frá norskum timbursmiðjum eða hönnuð með þau til hliðsjónar. Helstu einkenni þeirra var mikill umbúnaður og skraut, útskurður á stöfnum og kvistum, skrautlistar og bríkur, oft skrautlegir gluggapóstar auk þess sem oft var grunnflötur og lofthæð þeirra rýmri en áður hafði tíðkast.  Það liggur víst ekki óyggjandi fyrir, hvort akureyrsku sveitserhúsin hafi einhver komið algjörlega forsmíðuð eða tilhöggvin að utan en í sumum þeirra hafa fundist númeraðir bjálkar, sem benda ótvírætt til þess, að húsin hafi verið forsmíðuð eða tilbúin til samsetningar. Gagnfræðiskóli Sigtryggs, stærsta timburhús bæjarins fyrr og síðar, reis á aðeins sex mánuðum og  1906, sama ár og Sigtryggur og Sigurjón byggðu Laxamýri, var annað álíka stórhýsi og Gagnfræðaskólinn, Samkomuhúsið á Barðsnefi, reist á sama hraða. Þeirri byggingu stýrðu þeir Guðbjörn Björnsson, Guðmundur Ólafsson og Björn Björnsson. Þessi byggingarhraði þykir benda til þess, að hús þessi hafi komið tilhöggvin. Hins vegar er það skjalfest, að Sigtryggur hannaði skólahúsið (Snorri Jónsson timburmeistari hafði þar einnig hönd í bagga) en mögulega hefur það verið forsmíðað ytra eftir hans forskrift. Ekki hafa varðveist neinar upprunalegar teikningar svo greinarhöfundur viti til af Laxamýri en freistandi að giska á, að Sigtryggur hafi haft sama háttinn á og við byggingu skólahússins. Það er, hannað húsið og fengið það forsmíðað, e.t.v. skipt við sama fyrirtæki og útvegaði viðinn í skólahúsið.  En hús Sigurjóns var alltént fullbyggt haustið 1906 og inn í það flutt.

Strandgata 19b er einlyft timburhús, bjálkabyggt segir í uppmælingateikningu Haraldar S. Árnasonar,  með háu portbyggðu risi og á háum kjallara. Á framhlið er stór miðjukvistur sem skagar út fyrir húshliðina og tveir smærri kvistir beggja vegna. Kvisturinn er í raun efri hæð forstofubyggingar en að henni eru tröppur og verönd framan við. Á bakhlið er einnig útskot með einhalla þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins en forstofubyggingu að framan prýða margskiptar skrautrúður, sumar glerjaðar með lituðu gleri. Þakbrúnir slúta langt út fyrir brúnir og þar blasa við útskornir sperruendar. Við efri gluggabrún neðri hæðar er skrautlisti. Neðan hans er lárétt panelkæðning en ofan lista eru lóðrétt þil, ydd að neðan og mynda þannig nokkurs konar kögur við listann. Neðan við glugga á frP8200685amhlið er timburklæðningunni raðað í nokkuð sérstakt, tígullaga mynstur. Framangreint mætti telja til einkenna sveitserstílsins. Grunnflötur hússins er nærri 9x10m, útskot á bakhlið um 2,5x3 og forstofubygging að framan um 1,5x4m.

Sigurjón Jóhannesson var kvæntur Snjólaugu Þorvaldsdóttur frá Krossum á Ársskógsströnd. Á meðal barna þeirra var Jóhann (1880-1919) skáld og rithöfundur, sem er e.t.v. þekktastur fyrir leikverk sín Galdra-Loft og um Fjalla-Eyvind. Hún lést árið 1912 og segir svo í bókinni „Af norskum rótum“ að eftir lát hennar hafi Sigurjón ekki unað lengur í kaupstaðnum og flust aftur að Laxamýri í viðbyggingu, sem hann lét reisa við gamla bæinn þar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:188). Árið 1913 eru íbúar hússins m.a. þær Jóhanna Sigurgeirsdóttir og Elísabet Sigurðardóttir, titlaðar lausakonur og Margrét Sigurðardóttir búðarstúlka en Sigurjón er enn skráður eigandi. Sigurjón virðist hafa flust hingað aftur síðasta æviárið en hann er skráður hér til heimilis árið 1914, ásamt dóttur sinni, Soffíu, lækni.  Sigurjón Jóhannesson  lést árið 1918. Árið 1916 eru komnir til sögunnar nýir eigendur að húsinu. Umræddir eigendur áttu húsið drjúgan hluta 20. aldar og í hugum margra Akureyringa er þessi félagsskapur og Laxamýri að Strandgötu 19b tengt órjúfanlegum böndum. Þetta var Hjálpræðisherinn.

Hjálpræðisherinn á Akureyri var stofnaður árið 1904 og hafði m.a. verið til húsa í Norðurgötu 11 (árið 1907) en 1916 festi hann kaup á stórhýsinu við Strandgötu. Það ár er skráður til heimilis, H. Nielssen, foringi í Hjálpræðishernum en auk hans þau Jón Halldórsson skipstjóri og Klara Bjarnadóttir, kona hans. Einnig þrír skólapiltar, Stefán Hallgrímsson, Þorleifur Þorleifsson og Gestur Jóhannsson. Þann 5. september 1916 heimilaði Bygginganefnd Akureyrar Hjálpræðishernum að reisa samkomuhús úr steinsteypu á lóð sinni við Laxamýri, 10x7 metrar grunnfleti. Húsið skyldi standa að lóðarmörkum að sunnan og vestan. Á suðurgafli og vesturhlið skyldu vera eldvarnarveggir. Þetta hús var risið í mars 1917, þegar Strandgata 19b var virt til brunabóta. Þá var Laxamýri sagt vera íbúðarhús, einlyft með porti og kvisti, kjallara og skúr við bakhlið. Á gólfi við framhlið voru tvær stofur og forstofa, við bakhlið tvær stofur, eldhús, búr og forstofa. Á lofti voru sjö íbúðarherbergi og gangur en sjö geymsluherbergi í kjallara. Útveggir voru timburklæddir og þak járnvarið, grunnflötur sagður 9,4x8,8m og hæð 9,4m. Þá voru á húsinu 28 gluggar og tveir skorsteinar sem tengdust átta kolaofnum, eldavél og þvottapotti.20240121113056 IMG 1417

Árið 1917 eru efst á íbúaskrá Strandgötu 19b þau Kristian og Bertha Johnsen, hann titlaður „kaptain“ og mætti því leiða leikur að því, að hann hafi verið leiðtogi Hjálpræðishersins á þeim tíma. Þá er einnig annað hús skráð á sama heimilisfang og þar búsettur Georg Anderssen mótoristi og fjölskylda hans. Væntanlega er þar um að ræða steinhúsið, sem Hjálpræðisherinn reisti 1916. Í steinhúsinu fóru löngum fram stærri mannamót en í Laxamýri rak herinn gistiheimili  (sjómannaheimili), eldhús og alls kyns hjálparstarfsemi, sem hernum var og er tamt að sinna, auk þess sem búið var í því.  Í þessum húsum Hjálpræðishersins fóru fram ýmsar samkomur; jólaskemmtanir, bíósýningar og ýmislegt barnastarf og eiga eflaust margir góðar minningar úr Laxamýri og salnum þar vestan við.

Sjálfsagt mætti skrifa langar greinar, ef ekki heila bók, um sögu og starfsemi Hjálpræðishersins á Akureyri og á landsvísu. En hér var Hjálpræðisherinn til húsa í rúm 60 ár eða fram til um 1980 er Akureyrarbær eignaðist húsið. Meðan húsið var í eigu bæjarins hýsti það m.a. Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar, fjölskyldudeild og skrifstofur menningarmála.  Eftir að húsið komst í einkaeigu árið 1996 var það innréttað sem íbúðarhús. Síðar hafa verið þarna lögmannsstofur og nú er nýsköpunarfyrirtækið Eimur til húsa í Strandgötu 19b.pa100014.jpg

Samkomusalur Hjálpræðishersins er nú horfinn fyrir mörgum áratugum og það má ímynda sér, að hefði Sigurjón Jóhannesson reist hús sitt, Laxamýri, aðeins fáeinum metrum vestar hefði það orðið að víkja fyrir breikkun Glerárgötu! En Laxamýri reisti hann á þessum stað og húsið stendur enn, svo óþarft er að mála skrattann á vegginn. Sumir eru þó þeirrar skoðanir, að eldri hús séu aðeins til óþurftar og rétt sé, að rífa þau sem flest til að rýma fyrir nýtísku byggingum. Komi það einhvers staðar til, að slík viðhorf verði ráðandi í skipulagsgerð er æskilegt að til staðar sé sterk og bindandi löggjöf um húsverndun.

Strandgata 19b, Laxamýri, er eitt af glæstustu og tilkomumestu húsum Oddeyrar og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt enda þótt það standi ekki fremst við götu. Það er eitt nokkurra stórglæstra og skrautlegra sveitserhúsa bæjarins og er í afbragðs góðri hirðu.  Í Húsakönnun 2020 er varðveislumat í fimm undirflokkum, þ.e. listrænt gildi, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildim upprunalegt gildi og tæknilegt ástand. Skemmst er frá því að segja, að húsið er metið með hátt gildi í öllum flokkum og með hátt varðveislugildi sem „hluti af mjög samstæðri byggð við Strandgötu. Húsið er með eldri húsum á Akureyri, góð hlutföll, samræmi í gluggasetningu“ (Bjarki Jóhannesson 2021:48). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, þar sem það er byggt árið 1923 og húsaröðin við Strandgötu telst einnig varðveisluverð heild.  Myndirnar eru teknar þann 10. október 2010 (10.10.´10), 20. ágúst 2017 og 21. janúar 2024.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 305, 18. janúar 1906. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 432, 5. Sept. 1916. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is


Hús dagsins: Strandgata 21

Þann 3. maí 1986 átti sá merkisatburður sér stað, að Íslendingar tóku í fyrsta skipti þátt í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þann dag voru einnig liðin slétt 100 ár frá því aðIMG_0074 Bygginganefnd Akureyrar afgreiddi byggingaleyfi til handa þeim Einari Pálssyni kaupmanni og Þórði Brynjólfssyni trésmiði. Fengu þeir leyfi til byggingar húss á Oddeyri, 14 álna langt frá austri til vesturs, á móti húsi O. Hauskens og 20 álnir milli húsanna. Síðar var Lundargata lögð þarna á milli. Umrætt hús Hauskens var einmitt flutt um nokkra metra og komið fyrir við Lundargötu, nánar tiltekið nr.2 og stendur þar enn. Og hús Einars Pálssonar og Þórðar Brynjólfssonar stendur einnig enn og er Strandgata 21.

Strandgata 21 er tvílyft timburhús með tiltölulega lágu risi, á steyptum kjallara. Á húsinu eru viðbyggingar að vestan og norðan. Tvílyft bygging er meðfram vesturstafni með einhalla þaki og skagar hún um 3 metra út frá norðurhlið. Bygging þessi er um 2 metra innan við suðvesturhorn framhússins og eru tröppur að inngöngudyrum í kverkinni á milli. Á bakhlið er tveggja hæða útskot, u.þ.b. 2x3m sem nokkurs konar „framhald“ af nyrðri hluta stigaálmu að vestan. Er hún einnig með einhalla þaki í gagnstæða átt við vesturbyggingu. Áfast norðanmegin er einnig einnar hæðar bygging, kjallaralaus með háu einhalla þaki. Sú álma er um 6x3m. P8081036Veggir eru múrhúðaðir „forskalaðir“ á þremur hliðum en norðurhlið, þ.e. bakhlið er öll bárujárnsklædd. Í gluggum eru ýmist einfaldir þverpóstar eða krosspóstar. Bárujárn er á þaki. Bakálma hefur áður tengst bakhúsi sem nú er horfið og til marks um það er forláta hurð sem væntanlega hefur áður verið innandyra. Þá deilir sú bygging ekki grunni með framhúsi og vesturálmu og gólfflötur hennar því lægri. Grunnflötur Strandgötu 21 án viðbygginga er nærri 6x9m, grunnflötur viðbyggingar við vesturgafl er um 8x2m og bakbyggingar samanlagt um 9x3m.   

Sem fyrr segir reistu þeir Einar Pálsson og Þórður Brynjólfsson trésmiður húsið árið 1886. Það sumar risu þrjú hús í röð við Strandgötuna, er síðar hlutu númerin 17, 19 og 21 og standa þau öll enn árið 2024. Ekki er víst hvort húsið hefur verið tvílyft í upphafi en ljóst er (út frá ljósmyndum) að húsið hefur verið orðið tvílyft um 1895.P8081035 Líklegast hafa þeir Einar og Þórður búið hvor á sinni hæð, en ekki er fullvíst hvort húsið hafi verið tvílyft frá upphafi eða hækkað um eina hæð síðar. Þórður virðist ekki hafa búið þarna lengi en hann er ekki skráður hér til heimilis í Manntali 1890. Þar kallast húsið einfaldlega „Hús Einars Pálssonar, Oddeyri“ og eru þar til heimilis 19 manns. Annars vegar þau Einar Pálsson og María Kristín Matthíasdóttir ásamt börnum og hins vegar þau Sophus Franz Sophusson blikksmiður og kona hans, Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir. Þarna eru einnig búsettar þrjár vinnukonur og vinnumaður og ein námsstúlka. Einar Pálsson var fæddur og uppalinn á Myrká í Hörgárdal, sonur sr. Páls Jónssonar sem sat þar frá 1846 til 1858, er hann fékk Velli í Svarfaðardal. Einar Pálsson starfaði hjá Gránufélaginu, var sagður pakkhússtjóri árið 1901 og einnig mun hann hafa sinnt spítalaumsjón (hann er allavega sagður verslunarmaður og spítalahaldari á islendingabok.is). María Kristín Matthíasdóttir var hins vegar fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en fluttist síðar til Reykjavíkur og var þar í vinnumennsku.

Það er ekki víst að Þórður Brynjólfsson hafi búið lengi í þessu húsi. Mögulega var hann byggingastjóri Einars og sótti um byggingaleyfið með honum, en Þórður var trésmiður. Á islendingabok.is er aðeins að finna þrjá með þessu nafni, sem miðað við fæðingardag gætu hafa verið að brasa í húsbyggingum árið 1886. Sá Þórður Brynjólfsson sem greinarhöfundur telur líklegastan til að hafa komið að byggingu Strandgötu 21 var fæddur árið 1862 í Vestmannaeyjum. Hann var sonur Brynjólfs Halldórssonar í Norðurgarði, sem mun hafa verið annálaður formaður á sínum heimaslóðum. Þórður er sagður hafa farið til Vesturheims árið 1887 og lítt spurst til hans eftir það, hann er a.m.k. ekki skráður með dánardag á Íslendingabók.  Það má eflaust leiða að því líkur, að hann hafi unnið við húsbyggingu fyrir Einar og sveitunga sinn úr Eyjum, Maríu, með það að markmiði, að safna sér fyrir farareyrinum vestur. Það vill einnig svo til, að viku eftir að  Einar og Þórður fengu lóðina og byggingarleyfið, var Pétri nokkrum Tærgesen, sem hét fullu nafni Hans Pétur Tærgesen, úthlutað þarnæsta lóð vestanIMG_0075 við. (Norski skipstjórinn Johan Jacobsen fékk lóðina á milli þeirra á næsta fundi Bygginganefndar). Hans Pétur fór einnig til Vesturheims, mögulega 1887. Hver veit, nema þeir Hans Pétur og Þórður hafi verið í samskiptum á byggingarsvæðunum og annar mögulega sannfært hinn um vesturferð. Kannski voru jafnvel samferða? En látum nú staðar numið af misviturlegum vangaveltum og getgátum um löngu látna heiðursmenn. 

 Einar Pálsson og fjölskylda eru enn búsett hér árið 1901 og þá hefur húsið fengið númerið 15 við Strandgötu. Númerakerfið virðist hafa verið frjálslegt, röðin nokkuð tilviljunarkennd og sum hús númerslaus. Ári síðar hefur númerakerfið verið samræmt og húsið fengið númerið 11 og næsta hús vestan við 9. Þá er eigandi hússins Erlendur Sveinsson skraddari.  Árið 1904  eignaðist Eggert Einarsson frá Syðri- Skjaldarvík í Glæsibæjarhreppi húsið. (Hann var ekki sonur Einars Pálssonar, svo það komi fram). Raunar eru þeir tveir skráðir eigendur hússins, Eggert Einarsson, titlaður verksmiðjumaður og Frímann Frímannsson verslunarstjóri. Frímann er skráður þarna til heimilis til ársins 1906 en árið 1908 búa hér aðeins Eggert og Kristín Kristjánsdóttir, sem titluð er þjónustustúlka. Til samanburðar má nefna, að árið 1901 bjuggu hér 18 manns, a.m.k. þrjár fjölskyldur. Árið 1909 gengu þau í hjónaband, Eggert Einarsson og Guðlaug Sigfúsdóttir frá Svarfaðardal og síðla það ár eignast þau tvíbura, Karl og Vernharð. Auk verslunarreksturs starfrækti hann einnig öl- og gosdrykkjaverksmiðju og gekk hann undir nafninu Eggert Límonaði.

Vernharð Eggertsson (1909-1952) var á sinni tíð þekktur ævintýramaður sem m.a. var fyrsti maðurinn til að brjótast út af Litla-Hrauni, barðist í borgarastyrjöldum á Spáni og var á flótta undan kanadísku riddaralögreglunni. Þorlákur Axel Jónsson hefur fyrir fáeinum árum tekið saman ævisögu Vernharðs og kallast hún Dagur Austan, mikil skemmtilesning þar á ferð. Þar er húsinu að Strandgötu 21 lýst á eftirfarandi hátt: Það er hátt til lofts á hæðunum tveimur og gluggarnir eru stórir. Eggert Einarsson rak þarna verslun sína, sjálf búðin var í austurenda hússins, sneri út að Lundargötu og þaðan var gengið inn í hana. Eldhúsið var á sömu hæð. Gengið var inn í íbúðina frá Strandgötu. Stofa og svefnherbergi voru á efri hæðinni. Í viðbyggingu á lóðinni norðan hússins lagaði Eggert gosdrykki og í kjallaranum bruggaði hann öl (Þorlákur Axel Jónsson 2009:12). P3040045 - afritÁ austurstafni hússins var lengi vel gat   kjallaraveggnum, sem sjá má á meðfylgjandi mynd frá 2010. Um er að ræða fyrrum loftunargat frá ámum Eggerts en nokkur sex tommu göt voru á kjallaranum sem þjónuðu þeim tilgangi. Mun gerilminn hafa lagt um nágrennið, þegar bruggið stóð yfir (sbr. Þorlákur Axel Jónsson 2009:13). Eggert, María og börn þeirra  bjuggu í húsinu um áratugaskeið. Bruggstarfsemin fluttist síðar í viðbyggingar norðan hússins. Ónefnd vinnukona sem dvaldist hjá þeim um tíma lýsir þeim sem myndarhjónum og vel stæðum en fengu sjaldan gesti. Vinnukonan, sem fékk sérherbergi á efri hæðinni, sinnti m.a. börnunum og hafði umsjón með helstu heimilisverkunum.  Nema hvað hún hellti ekki upp á kaffi; Eggert treysti nefnilega engum nema sjálfum sér fyrir því, en hann lagaði ketilkaffi „eftir öllum kúnstarinnar reglum“ (sbr. Þorlákur Axel Jónsson 2009:14).

Húsið var metið til brunabóta árið 1917. Þar er því lýst sem tvílyftu íbúðar- og verslunarhúsi með skúr við bakhlið og útbyggingu við vesturgafl. Það er ekki ljóst hvenær útskotið á vesturstafni reis, eða skúrinn við bakhlið. Ekki finnast byggingarleyfi fyrir þessum byggingum en mögulega hafa þær verið á húsinu frá upphafi. Herbergjaskipan árið 1917 var á þá leið, að á neðri hæð voru sölubúð og skrifstofu að framanverðu en stofa og forstofa að aftanverðu. Á efri hæð voru alls fimm stofur (herbergi), eldhús, búr og forstofa það síðasttalda að aftanverðu eða norðanmegin. Í risi voru þrjú geymsluherbergi og kjallari sagður skiptur í tvennt. Grunnflötur var sagður 10,4x6,3m og hæð 9,4m. Veggir voru timburklæddir og þak járnklætt. (sbr. Brunabótafélag Íslands, nr. 281, 1917).

  Árið 1918 var Eggerti heimilað að reisa skúr áfastan bakhlið hússins, 4x3m að stærð, með því skilyrði, að fjarlægð að næsta húsi yrði ekki minni en 6,3m. Næsta hús var Lundargata 1 en þar var um að ræða hús sem reist var 1891 en rifið um 1998. (Síðar tengdust húsin saman með viðbyggingum). Þremur árum síðar fær Eggert að „lengja efri hæð skúrs til austurs norðan við húsið“. Skilyrði bygginganefndar voru eftir sem áður, að gæta að fjarlægð við næstu hús og að járnverja norðurhlið. Löngu síðar, eða vorið 1941, sækir Eggert um viðbótarbyggingu við húsið. Ekki er getið um afstöðu eða mál en sett þau skilyrði, að byggingarfulltrúi hafi umsjón með framkvæmdinni og að teikningar séu framlagðar. Þær teikningar eru einmitt aðgengilegar á kortasjá Akureyrarbæjar og sýna, að hér er um að ræða skúrbyggingu áfasta tveggja hæða álmunni norðvestanmegin. Teikningarnar sýna hana aðeins á einni hæð, svo líklega hefur hún verið hækkuð síðar.p3040045.jpg

  Eggert Einarsson lést árið 1942, en Þóra dóttir hans bjó hér áfram og hélt áfram verslunarrekstri. Margir Akureyringar, sem komnir eru til vits og ára muna eflaust eftir verslun Þóru Eggertsdóttur en hún var starfrækt fram á 7. áratuginn. Síðustu áratugi hafa verið samkomusalir í húsinu en ekki hefur verið búið hér um langt árabil. Hjálpræðisherinn hafði um skeið, í upphafi níunda áratugarins, aðsetur sitt í húsinu. Það vill hins vegar svo til, að í þessum fyrrum brugghúsi við Strandgötu 21 eru AA-samtökin nú til húsa og hafa verið áratugum saman.  

 Strandgata 21 er látlaust hús og einfalt að gerð en setur þó svip á umhverfi sitt sem hluti húsaraðarinnar við Strandgötu. Í Húsakönnun 2020 er það metið með miðlungs varðveislugildi sem slíkt, og viðbyggingar taldar spilla útliti þess. (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:49). Það er hins vegar friðað vegna aldurs og sem hluti einstakrar, varðveisluverðrar götumyndar og er svo sannarlega prýði af húsinu, sem stendur á einum fjölförnustu slóðum bæjarins.

Myndirnar eru teknar 4. mars 2010, 8. ágúst 2022 og 26. febrúar 2023.

 

Heimildir : Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 71, 3. maí 1886. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 448, 6. maí 1918, nr. 496, 9. maí 1921 og nr. 322, 27. nóv. 1906. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 870, 1. apríl 1941. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Þorlákur Axel Jónsson. 2009. Dagur Austan; Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson. Akureyri: Völuspá útgáfa.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is


Hús dagsins: Strandgata 19

Innan bæjarmarka Akureyrar standa, svo höfundur viti til, 12 hús frá árabilinu 1880-1890. Svo vill til, að helmingur þeirra, sex að tölu er byggður 1886! Mætti þá ætla, að nokkur uppgangur hafi verið í bænum það ár og mikið byggt miðað við önnur ár? Það er reyndar ekki svo einfalt. Einhver þeirra húsa sem byggð voru á þessu árabili hafa brunnið eða verið rifin og einnig er það svo, að byggingarár húsa sem byggð voru á þessum tíma þarf í einhverjum tilfellum að taka með fyrirvara. Á milli Strandgötu og Glerárgötu vill svo til, að standa þrjú hús af téðum „1886 árgangi“ Akureyrarhúsa í röð. Eitt þeirra er Strandgata 19, sem margir kannast við undir nafninu Brattahlíð. Einhverjum kynni að þykja það sérkennilegt nafn á húsi á marflatri eyri en ástæða þeirrar nafngiftar verður rakin síðar í greininni...20240121114120_IMG_1425

Strandgötu 19 reisti norskur skipstjóri að nafni Jon Jacobsen, sem bygginganefnd Akureyrar kallaði reyndar upp á íslensku Jón Jakobsson, þegar hún bókaði lóðamælingu og byggingaleyfi fyrir hann þann 10. maí 1886. Húsið Jons skyldi 12 álnir að lengd og 10 álnir á breidd og lóðamörk 10 álnir vestan við hús Þórðar Brynjólfssonar og „[...] í rjettri línu með því og öðrum húsum í strandgötunni“ (Bygg.nefnd Ak. nr. 72, 1886). Þarna er talað um strandgötuna með litlum staf en nafnið Strandgata kom ekki til fyrr en um aldamót 1900. Í Manntali árið 1890 eru öll hús á Oddeyri kennd við eigendur eða húsbændur og þetta hús því einfaldlega kallað Hús Jóns Jacobsen, Oddeyri. Þá búa í húsinu, auk Jóns, kona hans, Katrín Guðmundsdóttir Jacobsen og þrjár ungar dætur þeirra, Anna, Emma og Dagmar. Ári síðar eignuðustu þau soninn Jakob Lúther.

Strandgata 19 er tvílyft timburhús á lágum steinkjallara og með lágu, aflíðandi risi. Að norðan, þ.e. bakhlið, er tvílyft viðbygging eða bakálma og er hún með lágu einhalla þaki mót austri. Austanmegin á bakhlið er einlyft bygging, einnig með einhalla þaki en þak hennar hallar til norðurs, líkt og á framhúsinu. Framhlið hússins er klædd sléttri klæðningu, nánar tiltekið lökkuðum spónaplötum en á stöfnum er listasúð á neðri hluta en lárétt panelklæðning á efri hluta. Undir gluggum efri hæðar er listi eða skrautband meðfram neðri gluggalínu. Á neðri hæð eru síðir „verslunargluggar“  en einfaldir, lóðréttir póstar í flestum öðrum gluggum. Undir rjáfrum eru tígullaga smágluggar. Grunnflötur  framhúss er 8,21x6,38m, vestri útbygging 4,43x3,21m og sú eystri 3,78x3,21m (skv. uppmælingarteikningum Loga Más Einarssonar). 20240121114052_IMG_1424

Jón Jacobsen mun hafa verið fæddur árið 1854 í Noregi. Á Íslandi virðist hann fyrst hafa alið manninn í Hrísey en þaðan mun hann hafa komið til Akureyrar árið 1883. Mögulega hefur hann kynnst konu sinni, Katrínu Sesselju Guðmundsdóttur (1862-1943) á Hríseyjarárunum, en hún var árið 1880 vinnukona á Stóru – Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Katrín mun hafa verið úr Húnavatnssýslu, sögð fædd í Bergsstaðasókn, en skráð sem niðursetningur á Tyrfingsstöðum í Skagafirði árið 1870. Þau flytja til Akureyrar árið 1883 og þremur árum síðar byggja þau þetta hús á Oddeyri. Höfðu þau þá eignast tvær dætur, Önnu í febrúar 1884 og Emmu í september 1885.  Þau hafa væntanlega verið nýflutt í nýja húsið þegar sú þriðja, Dagmar, fæddist í ársbyrjun 1887.  Jón Jacobsen mun hafa flust til Noregs árið 1898 skv. islendingabok.is. Hefur hann þá væntanlega verið alfarinn, því ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hann eftir það dánardagur hans ekki skráður á téðri Íslendingabók. Kannski hefur Jón aðeins ætlað sér á vertíð til Íslands en ílengst og dvölin orðið hátt í tveir áratugir. Hvort Katrín fylgdi manni sínum til Noregs fylgir ekki sögunni en alltént er hún búsett á Akureyri árið 1901, húskona í Strandgötu 19a. Þar er hún skráð gift en enginn eiginmaður búsettur þar. Þannig mætti ætla, að þau hafi aldrei slitið samvistum þó hann flytti af landinu og hún yrði eftir. Árið 1901 búa þau Jakob Lúther og Dagmar hjá móður sinni, sú síðarnefnda titluð „veik“ í manntali. Emma var þá orðin vinnukona á Möðruvöllum í Hörgárdal, en elsta dóttirin, Anna Salbjörg hafði látist aðeins 12 ára gömul, árið 1896.  Og þann 4. mars 1902, réttum tveimur mánuðum eftir fimmtánda afmælisdag sinn, lést Dagmar Jacobsen, mögulega af umræddum veikindum. Af börnum þeirra Jóns og Katrínar Jacobsen komust þannig aðeins tvö til fullorðinsára. Jakob Lúther fluttist til Noregs árið 1906 og á Íslendingabók segir að hann hafi siglt um öll heimsins höf. Hann fluttist til Bandaríkjanna 1919 en ekki liggja fyrir upplýsingar um dánardægur hans. Emma, sem lést árið 1950, mun hafa flust austur til Norðfjarðar, er skráð þar sem húsfreyja árið 1930.

(Sem fyrr segir er Katrín Guðmundsdóttir og tvö börn hennar skráð til heimilis að Strandgötu 19a árið 1901. Það er ekki víst að um sé að ræða þetta hús, þar sem númeraröðin við götuna var með öðrum hætti og jafnvel nokkuð óskipulögð. Sem dæmi um þetta má nefna, að hús Snorra Jónssonar er sagt nr. 23 árið 1901 en ári síðar er það nr. 19. Þá er númeraröðin orðin samræmd og þá er fyrrum hús Jóns Jacobsen orðið Strandgata 9).

Árið 1902 eignast húsið Lúðvík Sigurjónsson. Hann var fæddur og uppalinn á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu. Bróðir hans var Jóhann skáld, sem kannski er þekktastur fyrir leikrit sín um Fjalla Eyvind og Höllu sem og Galdra- Loft. Lúðvík gerði nokkrar breytingar á húsinu, sem í upphafi var einlyft með háu risi. Á Þorláksmessu 1904 var Lúðvík heimilað að byggja 5 álna kvist á su20240121113141_IMG_1418ðurhlið hússins og setja dyr á vesturstafn og byggja upp að þeim tröppur. Kvistinn byggði hann hins vegar ekki, því í febrúar 1905 sækir hann um og fær leyfi til að byggja „eina lofthæð ofan á hús sitt“ og gera má ráð fyrir, að efri hæðin hafi risið það ár. Fékk þá húsið það lag sem það nú hefur. (Þess má reyndar geta, að skráð byggingarár hússins virðist miðast við þessar breytingar).  Svipmót hússins er í raun ekki ósvipað húsum sem standa við Hafnarstræti 31-41 en þau risu einmitt á árabilinu 1903-06. Hvort að sú hönnun hafi verið höfð til hliðsjónar við stækkum Strandgötu 19 (nr. 9 árið 1905) er alls óvíst og þarf raunar ekki að vera, en gaman að skoða þetta í samhengi. Síðla árs 1906 fékk Lúðvík að reisa viðbyggingu norðan við húsið, 5 álnir að breidd og 3,5-4 álnir að hæð (lægri að framan, m.ö.o með hallandi þaki). Árið 1906 vildi einnig svo til að faðir Lúðvíks, Sigurjón Jóhannesson bóndi á Laxamýri, þá orðinn 73 ára, ákvað að bregða búi og flytja til Akureyrar. Reisti hann sér hús í bakgarði sonar síns og það sem kannski var sérstakt við það, var að bakhúsið var mikið stærra og íburðarmeira en framhúsið! Um var að ræða eitt af stærri einbýlishúsum Oddeyrar, timburhús í norskum sveitserstíl, sem þá var það allra veglegasta í húsabyggingum. Nefndi Sigurjón húsið að sjálfsögðu Laxamýri. Árið 1911 eignast Egill, bróðir Lúðvíks húsið, en sá síðarnefndi býr þar áfram. Þremur árum síðar er skráður til heimilis í húsinu Brynjólfur Stefánsson skósmiður. Og árið 1915 er Brynjólfur orðinn eigandi hússins.

Í árslok 1916 var Strandgata 19 virt til brunabóta og þá sagt tvílyft íbúðar- og verlsunarhús með lágu risi og stórum skúr við bakhlið. Á neðri hæð voru tvær sölubúðir, skósmíðaverkstæði og vörugeymsla. Á efri hæð voru alls fjórar stofur, eldhús og forstofa. Kjallari var óinnréttaður. Húsið var timburklætt og pappi á þaki. Á húsinu var einn skorsteinn og 20 gluggar en mál voru sögð 8,2x6,3m og hæð 6,9m. Gerð var athugasemd um það, að skorsteinsveggir væru of þunnir í lofti og þekja ójárnvarin (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr.165).IMG_0077

Brynjólfur mun hafa stundað iðn sína hér og um 1920 hefur hann almennan verslunarrekstur  í húsinu. Mögulega hefur hann tekið við rekstri af Lárusi Thorarensen, sem virðist hafa verslað hér á 2. áratug 20. aldar, auglýsir m.a. „dýrtíðarkol“ árið 1918. (Eða réttara sagt, Bjargráðanefnd úthlutaði kolunum og þau mátti nálgast hjá Lárusi).  Verslun sína kallaði Brynjólfur, Bröttuhlíð og birtist það heiti fyrst á prenti vorið 1920. Í fyrstu virðist hann hafa verslað með skófatnað, leðurvörur og annað álíka en árið 1922 býður hann til sölu hinar ýmsu vörur, auk skófatnaðar m.a. sápur, hnífa, borðbúnað, leirtau, kaffi, sykur og sveskjur og auglýsir Bröttuhlíð sem heildverslun. Árið 1927 hækkar Brynjólfur vestari hluta bakálmu hússins. Fékk hann framkvæmdaleyfi gegn því, að hann byggði eldvarnarvegg (steyptan, gluggalausan vegg) að norðan og járnklæddi vesturstafn. Teikningarnar að þeim breytingum gerði Gunnar Guðlaugsson trésmiður í Lundargötu 10. Hann var einnig mikill frumkvöðull í skátastarfi hér í bæ.P6220124

   Við þessar byggingaframkvæmdir Brynjólfs mun húsið hafa fengið að mestu það lag sem það hefur nú. Ef við förum nú leifturhratt yfir sögu þessarar aldar sem liðin er frá upphafsárum verslunar Brynjólfs Stefánssonar er skemmst frá því segja, að alla tíð síðan hefur verið einhvers konar verslun eða þjónusta á neðri hæð hússins en íbúð á þeirri efri. Brattahlíðarnafnið mun aðeins hafa verið á versluninni um nokkurra ára skeið á 3. áratug sl. aldar en nafnið festist á húsið og í hugum margra kallast Strandgata 19 ætíð Brattahlíð enn í dag. Árið 1927 tilkynnir Brynjólfur, að hann hafi opnað nýja verslun, Verzlunina Oddeyri þar sem Brattahlíð var áður. Um áratug síðar opnar Pöntunarfélag Verkamanna, verslun þarna en virðist staldra stutt við.  Brynjólfur Stefánsson átti hér heima til dánardægurs, síðla árið 1947. Á meðal verslana sem starfræktar hafa verið í Strandgötu 19, miðað við auglýsingar í blöðum má nefna Verslunina Skeifuna sem þarna er auglýst 1956 og Óskabúðina sem m.a. er auglýst þarna árið 1964 og mun hún hafa verið við lýði fram undir 1977. Árið 1978 er gullsmíðastofan Skart þarna til húsa og greinarhöfundur man eftir myndbandaleigu í húsinu um 1990. Síðasta áratug eða svo hafa verið starfræktar hárgreiðslustofur á neðri hæðinni og þegar þetta er ritað hárgreiðslustofan Hárið þar til húsa.  Í Húsakönnun 1990 er Strandgata 19 sögð hafa varðveislugildi sem hluti af heild og árið 2020 hlýtur húsið hátt varðveislugildi og skorar hátt á öllum mælikvörðum þess, að því undanskildu, að skúrbyggingar á bakhlið teljast spilla heildarmynd (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021: 47). Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað og götumynd Strandgötu flokkast einnig sem varðveisluverð heild. Strandgata 19 er svo sannarlega til mikillar prýði í einni tilkomumestu götumynd bæjarins.

Myndirnar eru teknar 22. júní 2011 og 26. febrúar 2023. Og þar sem Strandgata 19 var máluð og yfirfarin að utan sumarið 2023 þótti mér ófært annað en að taka nýjar myndir af húsinu og þær eru teknar 21. janúar 2024. 

 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 72, 10. maí 1886. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904, nr. 287, 25. feb. 1905 og nr. 322, 27. nóv. 1906. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 591, 8. apríl 1927. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is


Hús dagsins: Munkaþverárkirkja

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá, hins vegar. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt  hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Að Munkaþverá standa reisuleg bæjarhús, m.a. ríflega aldargamalt steinsteypt íbúðarhús en litlu norðar og vestar er kirkja staðarins, timburkirkja frá árinu 1844. Er hún umlukin ræktarlegum trjálundi sem prýðir kirkjugarðinn umhverfis hana. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar.IMG_1191

Sögu jarðarinnar Munkaþverár má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku. Þó á helgihald sér lengri sögu á Þverá efri, en þar reisti téður Ingjaldur hof til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klaustursins. Öldum saman var starfrækt klaustur að Munkaþverá og var það löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199).  Klaustrið var starfrækt til siðaskipta eða í tæp 400 ár en klausturhúsin og klausturkirkja munu hafa staðið áfram þó ástand þeirra hafi nokkuð hnignað. Sveinn nokkur Torfason sem átti Munkaþverá á 18. öld gerði endurbætur á klausturhúsunum og endurbyggði klausturkirkju, sem fauk 1706. Síðasta klausturbyggingin mun hafa staðið fram yfir aldamótin 1800 en margar eyddust í eldsvoða um 1772. Munu byggingar klaustursins hafa staðið framan við þar sem þáverandi bæjarhús, nokkurn veginn þar sem nú er trjálundurinn sunnan kirkjunnar og klausturkirkjan á svipuðum stað og núverandi kirkja.  Það er hins vegar ekki fullljóst, hvort miðaldabyggingarnar hafi staðið á sama stað og byggingarnar á 18. öld. Fyrir áhugasama um ítarlegri umfjöllun um sögu Munkaþverárklaustur bendir höfundur á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands en einnig er saga klaustursins rakin nokkuð ítarlega í Eyfirðingabók sr. Benjamíns Kristjánssonar. En víkjum nú að núverandi Munkaþverárkirkju, sem byggð er aðeins fáeinum áratugum eftir að síðustu klausturbyggingar Munkaþverár hurfu sjónum.

Forveri núverandi Munkaþverárkirkju var timburkirkja sem Sveinn Torfason reisti árið 1706 eða 1707 eftir að klausturkirkja frá miðöldum skemmdist í óveðri. Sú var orðin ansi hrörleg í nóvember árið 1843, svo mjög, að prestur neitaði að messa þar lengur en til næsta vors af því ástIMG_1188and hennar væri hreinlega orðið hættulegt (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:203). Og næsta vor, nánar tiltekið í lok maí var kirkja þessi rifin og um sumarið reis ný kirkja og byggingameistari var hinn valinkunni timburmeistari, Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni.

Þorsteinn Daníelsson var fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni í utanverðum Hörgárdal og bjó þar lengst af. Hann nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið eftir. Prófstykki hans var saumakassi úr mahogany með inngreiptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Þorsteinn var mikilvirkur smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn reisti margar kirkjur og íbúðarhús, auk þess að smíða báta og skip. Á Akureyri standa a.m.k. tvö hús Þorsteins, Minjasafnskirkjan við Aðalstræti (upprunalega reist á Svalbarði árið 1846) og Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum (talin byggð 1844 eða ´48) en Þorsteinn reisti einnig Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Á Hofi í fyrrum Arnarneshreppi stendur tæplega 200 ára gamalt hús Þorsteins, sem kallast Hofsstofa, byggð 1828, og á Skipalóni reisti Þorsteinn smíðahús árið 1843 sem enn stendur. Eitt fyrsta hús Þorsteins var Lónsstofa á Skipalóni, byggð árið 1824 og á því 200 ára afmæli í ár! Mun það annað hús Eyjafjarðarsvæðisins á seinni öldum (klukknaport framan Möðruvallakirkju frá 1781 er hæpið að flokka sem hús) til þess að ná 200 ára aldri en nærri þrír áratugir eru síðan Laxdalshús náði þeim mjög svo virðulega aldri. (Það verður svo ekki fyrr en 2035 að fjölgar í hópi tveggja alda gamalla húsa á Akureyrarsvæðinu er Gamli Spítalinn og Skjaldarvíkurstofa (talin hluti Gránufélagshúsanna) fylla 200 árin). 

Það er til nokkuð skilmerkilega skrásett hvenær byggingaframkvæmdir hófust á Munkaþverárkirkju en svo vill til, að það var nánast upp á dag 100 árum fyrir lýðveldisstofnun; grunnurinn var hlaðinn 18. og 19. júní 1844 og hann frágenginn um miðjan júlí. Fullbúin var kirkjan síðsumars og var vígð sunnudaginn 15. september. Þetta þótti nokkuð mikill byggingarhraði enda sagt að „vinnuharka Danielsen [en svo var Þorsteinn Daníelsson jafnan nefndur] og eftirrekstur hafi keyrt fram úr öllu hófi, og unni hann hvorki sér né öðrum svefns né matar” (Kristmundur Bjarnason 1961:261).  Munu smiðir hafa skotið á fundi þegar þeim ofbauð svefnleysið og vinnuharkan og rætt hvað þeir gætu gert til þess að fá stundarhvíld. Segir sagan, að einn hafi tekið upp á því að látast sofna og þegar Þorsteinn kom að honum, hafi hann sprottið upp og sagt hafa dreymt að andskotans amtmaðurinn þeysti að Lóni á Rauð sínum. Við þetta hafi Þorsteini brugðið og riðið þegar íIMG_1187 stað heim að Lóni, en af þessu mætti ráða, að Þorsteinn hafi verið trúaður á drauma og mjög var hann hræddur um konu sína gagnvart Grími amtmanni (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262).  En væntanlega hafa smiðir geta slakað á meðan Þorsteinn var í burtu þann daginn. Þorsteinn hefur pískað sína menn grimmt áfram við smíði Munkaþverárkirkju, enda þekktist ekkert sem hét vinnulöggjöf, lögboðin matarhlé eða hvíldartími.  Annað var þó aldeilis uppi á teningnum hjá Ólafi Briem við byggingu Saurbæjarkirkju hálfum öðrum áratug síðar, þar sem þess var gætt, að kirkjusmiðir fengju nóg af brennivíni til hressingar við vinnuna!

Munkaþverárkirkja er einlyft timburhús með háu risi og stendur á hlöðnum grunni. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn er á þaki. Á mæni er ferstrendur turn með innsveigðu pýramídalaga þaki og er það klætt skarsúð. Á turninum er ekki kross, heldur vindhani með fangamarki Kristjáns konungs áttunda. Þrír gluggar eru á hvorri hlið, fjórir á kórbaki og þrír á framhlið; tveir sitt hvoru megin við inngöngudyr og einn undir rjáfri. Í flestum gluggum eru sexrúðupóstar. Þá er smár gluggi á turni. Á suðurhlið er kvistur, nokkurn veginn á miðri þekju. Samkvæmt vefsíðu Minjastofnunar er grunnflötur Munkaþverárkirkju 13,33x6,94m og Kristmundur Bjarnason segir hana 6,10 m á hæð að mæni. (Greinarhöfundur giskar á, að hæð upp að toppi turns sé eitthvað nærri 9 metrum).

Tveimur mánuðum eftir vígslu kirkjunnar, 16. nóvember 1844 vísiterar prófastur, H. Thorlacius kirkjuna og lýsir henni m.a. á eftirfarandi hátt: Hún er að lengd 20 ¼ alin þar af er lengd framkirkjunnar inn að kórs skilrúmi 13 álnir. Breidd hennar er 10 ¼ alin, hæð hennar frá gólfi upp á efri bitabrún 4 álnir, 10 þumlungar, frá efri bitabrún upp í sperrukverk 5 álnir, 10 þumlungar. Í framkirkjunni eru, fyrir utan krókbekk og þverbekk framan við kórs skilrúmið 18 sæti, eins og í kórnum er umhverfis tilhlýðilegir bekkir. […] Húsið er umhverfis að bindingsverki, klætt utan með slagborðum og panel, standþil grópað að innan með tvöföldu þaki, súðþak að innan. Í kirkjunni allri er vel lagt þilgólf á þéttum aurstokkum, festum í fótstykki á hvörju [svo] húsið hvílir. […] Upp af fremri burst kirkjunnar er byggður upp fagur turn með stöng þar upp af, á hvörri [svo] leikur vindhani úr látúni, járnbryddur, gagnhöggvinn með fangamerki vors allra mildasta konungs Kristjáns áttunda. Uppi í turninum eru IMG_1186kirkjunnar tvær góðu, gömlu klukkurnar á nýjum rambhöldum með nýjum járnumbúnaði (Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:204). Vísitasíulýsingin er auðvitað mikið lengri og ítarlegri en hér er stiklað á því stærsta. Hún tekur þó af öll tvímæli um það, að turninn hefur verið á kirkjunni frá upphafi svo og vindhaninn en turnbyggingar voru ekki algengar á íslenskum kirkjum fyrir miðja 19. öld.

Fljótlega virðist sem borið hafi á leka í kirkjunni, nánar tiltekið í gegnum turn meðfram turnstöng, en árið 1849 var „duglegur timburmaður” sagður að störfum að gera við lekann og kirkjan bikuð  ásamt neðri hluta turnsins. Árið 1861 var kvisturinn settur á þak suðurhliðar. Leki virðist hafa verið nokkuð þrálátt vandamál á tjörguðum kirkjuþökum (og væntanlega öðrum slíkum þökum) 19. aldar. Þegar áratugirnir líða virðast fúi og leki fara að verða nokkuð til vandræða, en árið 1887 var þakið, að turninum undanskildum járnvarið. Í vísitasíu árið 1900 er ytra byrði kirkjunnar sagt „stórgallað af fúa, sömuleiðis turninn, en [kirkjan] að öðru leyti vel stæðileg“ (Guðrún, Stefán, Gunnar 2008:209). Um 1911 var ofn settur í kirkjuna en á næsta áratug er mikið rætt um framtíð kirkjunnar á Munkaþverá. Skal gert við hana eða einfaldlega byggð ný kirkja? Um 1920 leggur prófastur  til að klæðning sé endurnýjuð og um leið skuli vindhani fjarlægður og járnkross settur í staðinn. Mögulega hefur það þótt stinga í augu, að nýfengnu fullveldi og sjálfstæði í bígerð, að á kirkjunni væri merki Danakonungs. En vindhaninn prýðir kirkjuna enn!  Árið 1924 er skráð í vísitasíu, að söfnuður hafi beinlínis gefist upp á hinu áttræða guðshúsi og vilji byggja nýtt á „hentugri og fallegri stað“. Felur biskup þá húsameistara að gera teikningu að nýrri 170-180 manna kirkju en fátt um svör. Það vildi nefnilega svo til, að Munkaþverárkirkja átti hauk í horni þar sem var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Guðjón Samúelsson vildi nefnilega endilega halda í hina gömlu timburkirkju og bauð fram ráðgjöf sína til viðgerðar kirkjunni, svo hún yrði „söfnuðinum fyllilega samboðin”.  Söfnuðurinn samþykkti þetta, en vildi þó eiga teikningar að nýju kirkjunni í bakhöndinni. Viðgerð fór fram um 1932 og tveimur árum síðar var lagt rafmagn í kirkjuna til lýsingar (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Sama ár, þ.e. 1934, var kirkjan einnig virt til brunabóta og segir í matslýsingu m.a. að í kirkjunni, sem mælist 13,3x6,9m að grunnfleti og 6,3m há,  sé kolaofn  með járnpípu í steinsteyptri kápu og leirrör uppúr þakinu  í stuttri múrpípu. Haft er á orði, að vel sé um þetta búið og hafi svona verið í mörg ár og ekki komið að sök (sbr. Björn Jóhannsson, 1934). Sjálfsagt er þarna átt við hvort tveggja brunavarnir og leka.

 Á aldarafmælinu 1944 fóru einnig fram gagngerar endurbætur á kirkjunni, sem hafði nokkuð látið á sjá þrátt fyrir viðgerðirnar áratug fyrr. Steypt var utan um grunnhleðslu og kirkjan máluð að innan hátt og lágt auk nokkurra breytinga og endurnýjunar að innanverðu. Til málningarvinnunnar var ráðinn hinn valinkunni málarameistari Haukur Stefánsson. Nokkrum árum fyrr hafði prófastur mælt með því, að ekki aðeins yrði sökkullinn múrvarinn heldur kirkjan öll múrhúðuð (forsköluð) að utan  (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Til allrar lukku varð ekkert úr því, en nú er vitað að „forskölun” er einn versti óvinur gamalla timburhúsa. Hins vegar var kirkjan klædd asbestplötum árið 1955 en þeirri klæðningu var skipt út fyrir slétt járn skömmu síðar. Árið 1985 fóru fram gagngerar endurbætur á Munkaþverárkirkju eftir forskrift arkitektanna Stefáns Jónssonar og Grétars Markússonar en sá síðarnefndi mældi upp kirkjuna og gerði að henni teikningar. Umsjón með þessum framkvæmdum, sem færðu hina þá 140 ára kirkju nokkurn veginn til upprunalegs horfs sá Tryggvi HjIMG_1190altason á Rútsstöðum II.  Fjórum áratugum síðar virðist kirkjan, sem í sumar á 180 ára afmæli, í prýðis góðu ásigkomulagi, hefur eflaust hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð síðan.

Munkaþverárkirkja var friðlýst skv. ákvæði þjóðminjalaga árið 1990. Hún er elst kirknanna sex í Eyjafjarðarsveit og mun þriðja elsta varðveitta timburkirkja landsins (sbr. Guðrún, Stefán og Gunnar 2007:216), á eftir Knappsstaðakirkju í Stíflu (1840) og Bakkakirkju í Öxnadal, sem aðeins er árinu eldri, eða byggð 1843. Munkaþverárkirkja mun rúma um 160 manns í sæti og í henni er reglulega helgihald og athafnir. Líkt og allar hinar fimm kirkjur Eyjafjarðarsveitar er hún sérleg prýði og perla í umhverfi sínu. Þá er umhverfi hennar einstaklega geðþekkt, en umhverfis hana er nokkuð víðlendur og vel hirtur kirkjugarðuIMG_1196r, prýddur miklum trjágróðri. Skammt norðan kirkjunnar stendur áhaldahús, sem byggt hefur verið í stíl við kirkjuna. Sunnan kirkjunnar, þar sem talið er að klaustrið hafi staðið á miðöldum er stytta af Jóni biskupi Arasyni eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Styttan var gerð 1954 og vígð formlega í ágúst 1959. Kirkjan, gróskumikill kirkjugarðurinn og bæjarhús Munkaþverár mynda sérlega fallega, órofa heild í fagurri sveit. Myndirnar eru teknar þann 7. október 2023.

Hér með lýkur yfirferð undirritaðs um kirkjur Eyjafjarðarsveitar. Greinum þessum er auðvitað aðeins ætlað að stiklað á stóru og kannski vildu einhverjir sjá meira kjöt á beinum” þessara umfjallana. Þeim skal bent á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands (sjá heimildaskrá). Þar er rakin ítarlega byggingarsaga kirknanna, auk þess sem sagt er frá innra skipulagi þeirra, gripum, munum og -öðru slíku.

Heimildir: Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af vef m.a. minjastofnun.is, esveit.is o.fl.


Húsaannáll 2023

Kannski má segja, að ákveðin kúvending hafi orðið í umfjöllunum mínum um söguágrip eldri húsa á Akureyri og nágrenni á árinu 2022. Sá sem skoðar þessa vefsíðu aftur að árdögum sér væntanlega, að ólíku er saman að jafna, hvort um ræðir pistla, skrifaða árin 2009 eða ´10 eða árin 2021-22. Kemur þar ýmislegt til. Ég hafði löngum lofað sjálfum mér því, að ef ég væri búinn að fjalla um hús hér, þá væri ég búinn að því. Það yrði óvinnandi vegur, að ætla að endurrita pistla um húsin eða uppfæra hina eldri. En að því kom, að ég gat ekki setið á mér lengur hvað þetta varðaði. Ég var nokkuð spurður að því, hvort ég væri búinn að taka fyrir hin og þessi hús, sem var yfirleitt tilfellið. Hins vegar þóttu mér þau skrif næsta hjákátleg, í samanburði við þau sem hafa tíðkast hér sl. 4-5 ár, svo mér fannst varla hægt að benda á þau. Ekki það, að ég skammist mín fyrir þessar fyrri umfjallanir en þær mega heita börn síns tíma. Þá hefur mér, eins og gefur að skilja, áskotnast hinar ýmsu heimildir til viðbótar á þessum 10-13 árum, stundum leiðréttingar á einhverju sem var rangt, auk margs sem mig langar að koma á framfæri. Þá var og mikil hvatning til þessara endurskrifa, að ég fór í samstarf við akureyri.net og þar birtast flestir þeirra nýju pistla, sem ég birti hér.  Þar hef ég og fengið góðar viðtökur og það eru þær, sem og vitneskjan um það, að fjöldi fólks hefur að þessum skrifum mínum gagn og gaman sem ævinlega hvetja mig áfram í þessari vegferð. 

Þessi formáli fylgdi Húsaannál 2022 í fyrra og á einnig við fyrir árið 2023. En á liðnu ári hélt ég þessari vegferð áfram, tók fyrir eldri hús bæjarins í lengra og ítarlegra máli. Það krefst meiri heimildavinnu og yfirlegu og fyrir vikið urðu pistlarnir færri, stundum aðeins 2-3 í hverjum mánuði. Ég er eiginlega kominn aftur í það skipulag, eða skipulagsleysi, sem einkenndi þessa umfjöllun fyrstu árin, að taka húsin fyrir nokkurn veginn tilviljunarkennt, svo stundum er einnig dálítill tími í umhugsun, hvað verður næst. Í sumar ákvað ég svo, að "senda Hús dagsins í sveit" og frá maílokum til septemberbyrjunar voru gömul hús í Eyjafjarðarsveit til umfjöllunar. Það er nefnilega ekki aðeins innan þéttbýlismarka Akureyrar, sem finna má gömul og áhugaverð hús. Næsta sumar hyggst ég endurtaka þennan leik og fara þá e.t.v í fleiri áttir en "frameftir". Í Hörgársveit leynist til dæmis hús, sem á 200 ára afmæli í ár! Það verður "Hús dagsins" 25. júní nk. en þá verða einnig liðin 15 ár síðan þessi vegferð hófst. Þessi umfjöllun um Eyjafjarðarsveitarhúsin var ekki ákveðin fyrirfram heldur kom raunar til af því, að í kjölfar umfjöllunar um Grundarkirkju þótti mér einsýnt að fjalla um íbúðarhús staðarins frá upphafi 20. og lokum 19. aldar. Og þá, eins og svo oft á áður á þessum vettvangi leiddi einfaldlega eitt af öðru. Og á aðventunni tók ég fyrir  kirkjur Eyjafjarðarsveitar, eina á hverjum sunnudegi, en þær eru alls sex að tölu. Pistill um þá sjöttu birtist svo á morgun, á þrettándanum. 

Hér eru "Hús dagsins" á árinu 2023: 

JANúAR

5. janúar Hríseyjargata 1; Steinöld (1903)

19. janúar Lundur (1925)

FEBRÚAR

2. febrúar Ós; Skólahús Glerárþorps í Sandgerðisbót (1908)

14. febrúar Gránufélagsgata 39-41; Sambyggingin (1929)

24. febrúar Strandgata 17 (1886)

MARS

10. mars Lundargata 6 (1897)

20. mars Fróðasund 10a (1877)

30. mars Grundargata 6 (1903)

APRÍL

7. apríl Strandgata 35 (1888)

21. apríl Lundeyri í Glerárþorpi (1946, rifið 2023)

30. apríl Hafnarstræti 88; Gamli bankinn (1900)

MAÍ

11. maí Hafnarstræti 86; Verslunin Eyjafjörður (1903)

28. maí Grundarkirkja (1905)

JÚNÍ

9. júní Grund II (1893)

17. júní Grund I (1910)

28. júní Möðrufell (1920)

JÚLÍ

7. júlí Saurbær (1927)

19. júlí Kaupangur (1920)

ÁGÚST

3. ágúst Leifsstaðir (1928)

19. ágúst Hvassafell (1926)

SEPTEMBER

9. september Litli-Hvammur (1916)

27. september Gamla Gróðrarstöðin á Krókeyri (1906)

OKTóBER

13. október Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107) (1897)

27. október Grundargata 3 (1885)

NÓVEMBER

15. nóvember Brekkugata 3 (1903)

DESEMBER

3. desember Saurbæjarkirkja (1858)

10. desember Hólakirkja (1853)

17. desember Möðruvallakirkja (1848)

24. desember Kaupangskirkja (1922)  

Alls voru "Hús dagsins" 28 að tölu á árinu 2023, 16 hús á Akureyri og 12 í Eyjafjarðarsveit. Tæplega öld skilur að yngsta húsið, Lundeyri, og það elsta, Möðruvallakirkju en fyrrnefnda húsið var reyndar rifið sl. vor, "Hús dagsins" greinin því einhvers konar minningargrein. Meðaltal byggingarára er 1902 og meðalaldur "Húsa dagsins" á árinu 2023 því 121 ár. 


Nýárskveðja

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughing

IMG_1353

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þakka innlit og athugasemdir hér á þessari síðu og einnig þakka ég kærlega fyrir góðar viðtökur á bókum undirritaðs en þær voru tvær á síðasta ári;

oddeyri_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Oddeyri Saga hús og fólk, þar sem ég er meðhöfundur ásamt Kristínu Aðalsteinsdóttur

Brýrnar yfir Eyjafjarðará_sýnishorn_forsíða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

og Brýrnar yfir Eyjafjarðará.

(Minni jafnframt á, að nóg er til af báðum bókunum, og hægt að fá eintak hjá mér en bækurnar fást einnig í Pennanum Eymundsson- "Brýrnar" skilst mér að séu reyndar aðeins fáanlegar, utan Akureyrar, í útibúinu Austurstræti) 

Nýársmyndin að þessu sinni er tekin rétt fyrir klukkan 2  í dag í syðstu og yngstu byggðum þéttbýlis Akureyrar; á mörkum Naustahverfis og Hagahverfis, í dag við Naustagötu og horft fram Eyjafjörðinn.  Geislar nýársólar ná aðeins að gægjast gegnum skýjaþykknið. Til vinstri eru fjölbýlishús við Davíðshaga en vinstra megin sést í Naust II en fjær sést í (frá vinstri) Kaupangssveitarfjall, Garðsárdal nokkurn veginn fyrir miðri mynd og hægra megin við hann er Staðarbyggðarfjall, sveipað skýjabólstrum.  

Gleðilegt nýtt ár. 


Jólakveðja 2023

Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. smile

 

jolakvedja_2023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Að þessu sinni er jólamyndin tekin við óshólma Eyjafjarðarár, horft af Vesturbrú fram eftir. Mynd tekin 12. des. sl.)


Hús dagsins: Kaupangskirkja

Yngst kirknanna í Eyjafjarðarsveit, 101 árs þegar þetta er ritað, er Kaupangskirkja. Það er því e.t.v. táknrænt, að hún skuli vera byggð úr steini en að Saurbæjarkirkju undanskilinni, eru hinar fimm úr timbri. Það vill hins vegar svo til, að torfkirkjan í Saurbæ er yngri en allar timburkirkjur héraðsins frá 19. öld (Grundarkirkja er byggð í upphafi 20. aldar). Þegar greinarhöfundur greip í sitt helsta heimildarit við ritun þessara pistla; Kirkjur Íslands, margra binda ritverk um friðaðar kirkjur á Íslandi rak hann í rogastans, því Kaupangskirkju var ekki að finna í 10. bindinu, þar sem kirkjur Eyjafjarðarprófastsdæmis eru til umfjöllunar. Þetta á sér hins vegar eðlilegar skýringar; í „kirkjubókunum“ er aðeins fjallað um friðaðar kirkjur og Kaupangskirkja hafði einfaldlega ekki verið friðlýst þegar bókaflokkurinn var ritaður. Nú er Kaupangskirkja hins vegar aldursfriðuð, líkt og allar byggingar sem byggðar eru fyrir 1923.IMG_1279

Sögu Kaupangs má líklega rekja til upphafs búsetu manna í Eyjafirði, hvorki meira né minna. Skammt norðan bæjarins er Festarklettur, þar sem sagt er að Helgi magri hafi lagt skipi sínu að landi. Hét hann áður Galtarhamar og dregur væntanlega nafn sitt af gelti Helga, sem mun hafa verið bíldóttur. Sá mun hafa farist í á, sem rennur þar skammt frá, og þaðan komið nafnið Bíldsá. Segir í Landnámu, að Helgi magri hafi búið einn vetur á Bíldsá sem talin er sama jörð og Kaupangur er nú. Síðar er talið, að þarna hafi verið verslunarstaður eða kaupstefnur og nafnið Kaupangur til komið þannig (Brynjólfur Sveinsson, Guðrún María Kristinsdóttir 2000:60). Áin, sem rennur norðan Kaupangs heitir hins vegar enn Bíldsá og rennur hún um Bíldsárskarð.  Milli Kaupangs og miðbæjar Akureyrar eru tæpir 7 kílómetrar.  Hvenær kirkja reis fyrst í Kaupangi mun ekki ljóst, en Kaupangskirkju mun þó getið í Auðunnar máldaga árið 1318. Kaupangur er alltént með elstu kirkjustöðum landsins. Kannski hefur kirkja risið á Kaupangi ekkert mjög löngu eftir kristnitöku(?).

    Árið 1920 reisti eigandi Kaupangs, Bergsteinn Kolbeinsson,IMG_1281 þar veglegt steinhús. Þá stóð þar timburkirkja, sem talin var úr sér gengin. Mögulega hefur sú kirkja verið verk timburmeistara á borð við Þorstein Daníelsson og Ólafs Briem á Grund, en hennar er reyndar ekki getið í ítarlegu æviágripi hins síðarnefnda í Eyfirðingabók Benjamíns Kristjánssonar. En timburkirkjan í Kaupangi hefur væntanlega verið byggð á 19. öld og fyrirrennarar hennar verið torfkirkjur. En það mun hafa verið árið 1921 að söfnuður Kaupangskirkju leitaði til byggingafræðingsins Sveinbjarnar Jónssonar um hönnun á nýrri kirkju.

     Ólafsfirðingurinn Sveinbjörn Jónsson, var aðeinsP7100167 25 ára þegar þetta var, og hafði nýlega lokið námi í byggingafræðum í Noregi. Hann hafði árið 1919 fundið upp sérstakan hleðslutein, r-stein og smíðað sérstaka vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.  En Sveinbjörn tók sem sagt að sér að teikna og reisa nýja Kaupangskirkju og hana reisti hann að sjálfsögðu úr hinum nýstárlega r-steini. En r-steinninn var steyptur múrsteinn sem var í laginu eins og lítið  r.  Við hleðslu komu tveir fletir þvert, hvor á annan og mynduðu  vísaði „þverleggurinn“ inn í vegginn og var þannig hleðslan tvöföld. Þannig myndaðist holrúm milli „þverleggjanna“ sem einnig mynduðu einskonar burðarstoð. Í holrúmið var svo troðið einangrun. Oftast var þar um að ræða mó eða torfmylsnu.

    Það var ekki einasta, að byggingarefnið væri nýstárlegt heldur var útlit Kaupangskirkju nokkuð nýstárlegt miðað við það sem menn áttu að venjast; í stað turns fyrir miðju var turninn staðsettur á norðvesturhorni kirkjunnar. Gefur það kirkjunni mjög sérstakan svip en gera má ráð fyrir, að einhverjum kunni að hafa líkað þetta misjafnlega. Því væntanlega er íhaldssemi nokkur þegar kemur að kirkjubyggingum.IMG_1283

    Kaupangskirkja er steinhús með koparþaki. Á norðvesturhorni er turn með brattri, pýramídalagaðri spíru og kross upp á henni. Undir turni, þ.e. norðvestanmegin á framhlið eru bogalaga inngöngudyr en allir gluggar eru einnig bogadregnir. Á hvorri hlið, norður og suður, eru þrír gluggar, tveir smáir gluggar að kórbaki (bakhlið) og þrír smágluggar, sá í miðið hæstur, nokkurn veginn fyrir miðri framhlið. Á turni eru tveir smáir gluggar til norðurs og vesturs. Í turni Kaupangskirkju eru tvær klukkur, sú stærri 29cm í þvermál en sú stærri 36,5cm. Síðarnefnda klukkan ber merkinguna Ceres of Hull 1870, Leckie; Wood & Munro. Builders. Aberdeen. Er sú talin vera úr skipinu Ceres frá Hull á Englandi, sem smíðað var 1870 en fórst í Kattegat árið 1882 (sbr. Guðmundur Karl Einarsson án árs) Smærri klukkan er ómerkt og því lítið vitað um uppruna hennar. Á kortavef map.is mælist grunnflötur Kaupangskirkju 7x11m, P8090015turninn nærri 2x2m, ferningslaga.

      Þegar líða tók á 20. öldina tók tímans tönn að vinna á Kaupangskirkju, líkt og öllum mannanna verkum og sýnt þótti, að fara þyrfti í endurbætur á henni. Í þær var ráðist árið 1988, og var kirkjan endurvígð þá um sumarið. Var þá m.a. skipt um bekki, gólfið flísalagt og skipt um altari (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1082). Væntanlega hefur um svipað leyti,einnig verið farið í eitthvert viðhald að utanverðu. Var kirkjan endurvígð eftir endurbæturnar í ágúst 1988. Að ytra byrði er ekki annað að sjá, en að Kaupangskirkja hafi hlotið fyrirtaks viðhald þessa þrjá og hálfa áratugi sem liðnir eru frá endurbótum. Hún virðist alltént í mjög góðu ásigkomulagi að utan. Kaupangskirkja er sem fyrr segir yngsta kirkja Eyjafjarðarsveitar og segir það kannski sitthvað um meðalaldur þeirra, að hún er nýlega orðin aldargömul. Líkt og eyfirsku kirkjurnar allar er Kaupangskirkja mikil prýði og sérlegt kennileiti í fallegu umhverfi sínu og myndar ákaflega skemmtilega heild ásamt íbúðarhúsinu í Kaupangi. Þá er nokkuð myndarlegur trjágróður í kirkjugarðinum umhverfis kirkjuna og er það álit greinarhöfundar, að hann sé til prýði. Einhverjir kynnu þó eflaust að telja, að hann skyggði á glæsta kirkjubygginguna. Meðfylgjandi myndir eru teknar þann 12. desember 2023, myndirnar af Iðnaðarsafninu þ. 10. júlí 2011. Sumarmyndin af Kaupangskirkju er tekin 9. ágúst 2010.

Heimildir: Brynjólfur Sveinsson (Guðrún María Kristinsdóttir, myndatexti). 2000. Svæðislýsing. Í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Líf í Eyjafirði bls. 59-94. Akureyri: Höfundar og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

EHB. Kaupangskirkja endurvígð. Í Degi, 31. ágúst 1988, sótt af timarit.is (sjá tengil í texta).

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Karl Einarsson. [Án árs] Kirkjuklukkur Íslands; Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands. Sótt á Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


Hús dagsins: Möðruvallakirkja

Á Eyjafjarðarsvæðinu eru tveir Möðruvellir. Hvort tveggja valinkunn höfuðból og kirkjustaðir. Möðruvellirnir eru annars vegar í Hörgárdal og hins vegar framarlega í Eyjafirði, í fyrrum Saurbæjarhreppi. Þar ber okkur niður að þessu sinni, en á Möðruvöllum í Hörgárdal fyrirfinnast svo sannarlega byggingar, sem verðskulda umfjöllun sem „Hús dagsins.“ Möðruvellir í Eyjafirði standa hins vegar sunnarlega undir Möðruvallafjalli, spölkorn frá Núpá, sem rennur úr Sölvadal í Eyjafjarðará. Lengi vel lá Eyjafjarðarbraut eystri um bæjarhlaðið, milli íbúðarhússins og gripahúsa en um 2005 var brautin færð norður og vestur fyrir og gamli vegurinn nýtist nú sem heimreið. Frá Akureyri eru um 25 kílómetrar að Möðruvöllum um Eyjafjarðarbraut eystri.  Á Möðruvöllum stendur timburkirkja frá 1848. Stendur hún austan og ofan íbúðarhússins og gömlu Eyjafjarðarbrautar, sunnan við fjárhúsin. Hana lét þáverandi eigandi Möðruvalla, Magnús Ásgeirsson, reisa.P5140987

Á Möðruvöllum hefur verið búið frá 10. öld en fyrsti ábúandi mun hafa verið Eyjólfur Valgerðarson, sonarsonur Auðuns rotins og Helgu Helgadóttur magra, sem námu land að Saurbæ. Eyjólfur var faðir Guðmundar ríka, sem var annálaður höfðingi Norðlendinga. Guðmundur ríki er talinn hafa staðið fyrir byggingu fyrstu kirkju á Möðruvöllum, en hann lést árið 1025. (Kannski eru nákvæmlega 1000 ár frá fyrstu kirkjubyggingu á Möðruvöllum þegar þetta er ritað). Fyrsti nafngreindi prestur að Möðruvöllum var Ketill Möðruvellingaprestur og mun hann hafa verið þar fyrir 1047. Svo ekki hefur liðið langt frá frá kristnitöku þar til kirkja reis að Möðruvöllum. (Nú veltir greinarhöfundur vöngum. Í ritgerð Benjamíns Kristjánssonar (1970:34-50) í Eyfirskum fræðum er sagt frá Katli presti Þorsteinssyni sem bjó að Möðruvöllum og var þar kirkjuprestur. Sá Ketill var langafabarn Guðmundar ríka, og er sagður hafa búið á Möðruvöllum frá því um 1100. Getur þar ekki verið um að ræða sama Ketil og sagt er frá í Kirkjum Íslands (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007:245) og kom að Möðruvöllum fyrir 1047 og nefndur var Möðruvallaprestur. Enda Ketill Þorsteinsson, sem síðar varð biskup, fæddur um 1075.  Þarna getur verið, að heimildum beri ekki saman, eða sem einnig er líklegt, að um sé að ræða tvo séra Katla, sem sátu staðinn með hálfrar aldar millibili. Einhver, höfundi fróðari um þessi mál, verður að skera úr um þetta). Árið 1318 var kirkjan á Möðruvöllum helguð heilögum Marteini. Í kaþólskum sið munu löngum hafa verið stafkirkjur á Möðruvöllum en eftir siðaskipti urðu bindingsverks- og torfkirkjur algengari. Árið 1769 var ein slík, þ.e. torfkirkja á Möðruvöllum. Í vísitasíu biskups níu árum síðar var hún m.a. sögð af 14 stöplum, undir sjö bitum og jafn mörgum sperrum, þiljuð í hólf og gólf. Guðshús þetta var 18,5 álnir að lengd og 8 álna breitt. Umrædd torfkirkja var orðin nokkuð hrörleg þegar líða tók á 19. öld. Árið 1840 segir prófastur að kirkjubóndi, Magnús Ásgrímsson, hafi í hyggju að endurbyggja kirkjuna. Eitthvað mun það hafa dregist því sex árum síðar  fær hún umsögnina: Hús þetta er sem fyrri vel um hirt en tekur mjög að fyrnast svo ei er þörf á endurbyggingu við fyrsta hentugleika“ (Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún, Gunnar 2007: 248). Og fyrsti hentugleiki var strax árið eftir; bygging Möðruvallakirkju hófst þá, sumarið 1847, og var byggingameistari Flóvent Sigfússon en auk þess komu að byggingu hagleiksmenn úr sveitinni, m.a. Ólafur Briem á Grund og Friðrik Möller á Möðruvöllum. Um vorið munu allir sóknarmenn hafa hafist handa við að draga grjót í grunninn, rífa gömlu kirkjuna, gera undirhleðslur og stétt. Þá fluttu þeir timbur á staðinn. Þann 10. júní 1847 er þess getið í vísitasíu að kirkjan sé „undir byggingu“ og verði líklegast ekki lokið fyrr en sumarið efP5140992tir.

Möðruvallakirkja er timburhús á steingrunni, 11,7x5,41m að grunnfleti. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn á þaki. Tvöfaldir sexrúðupóstar eru í gluggum hliða, tveir smærri gluggar á austurstafni (bakhlið) og annar slíkur undir rjáfri á framhlið. Smáturn með krossi er á framhlið kirkjunnar, en þar er um að ræða ferkantað krossstæði, á að giska 1,5m hátt, skreytt pílárum. Kirkjan er stöguð niður en fyrir hefur komið, að hún hafi verið hætt komin vegna hvassviðra.  Framan við Möðruvallakirkju stendur ekki síður stórmerkilegt mannvirki, klukknaport frá árinu 1781. Um er að ræða eitt elsta mannvirki á Eyjafjarðarsvæðinu, hálfum öðrum áratug eldra en elsta hús Akureyrar. Klukknaport þetta mun það eina sinnar tegundar sem varðveist hefur, en port af þessari gerð voru algeng við kirkjur víða um land.

Byggingameistari Möðruvallakirkju var sem fyrr segir, Flóvent Sigfússon. Hann var Hörgdælingur, fæddur árið 1801 í Hólkoti í þeim dal en bjó síðar í Glæsibæjarhreppi og Árskógsströnd m.a. Ytra-Krossanesi, Ósi og síðast Fagraskógi. Er hann byggði Möðruvallakirkju var hann búsettur í Kálfsskinni. Flóvent nam snikkaraiðn erlendis (væntanlega í Danmörku, í Kirkjum Íslands er aðeins sagt, að hann hafi haldið utan). Flóvent dvaldi á Skipalóni sem ungur maður og hefur þar eflaust fengið áhuga og komist upp á lag með smíðar. Því á Skipalóni bjó einhver annálaðisti húsasmiður og timburmeistari Eyjafjarðarsvæðisins, Þorsteinn Daníelsson. Flóvent var einmitt einn helsti samstarfsmaður Þorsteins lengi vel. Flóvent smíðaði árið 1840 timburkirkju á Knappstað í Stíflu og mun sú kirkja elsta varðveitta timburkirkja landsins.  Löngum var talið, að Möðruvallakirkja hafi verið hönnun Þorsteins Daníelssonar. Flest bendir þó til að Flóvent eigi heiðurinn af hönnun kirkjunnar, þar ber m.a. að nefna handverk og smíðisgripi sem sannarlega eru hans verk, m.a. pílárasettan turnstallinn og frágangur altaris. Þá sjást nokkur augljós líkindi með Knappsstaðakirkju og Möðruvallakirkju en kirkjan er heldur frábrugðin kirkjum, sem vitað er að Þorsteinn reisti (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:249). Auk Flóvents vann Friðrik Möller, smiður á Möðruvöllum, að stjórn byggingar og unnu þeir saman um sex mánaða skeið. Þá kom Ólafur Briem timburmeistari á Grund að byggingunni um 20 daga skeið.  Nokkuð glögglega hefur verið fjallað um Ólaf Briem í greinum um Saurbæjarkirkju og Hólakirkju en minna mun vitað um starfsferil Friðriks á Möðruvöllum (sbr. Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún og Gunnar 2007:248). Auk þeirra komu bændur af nærliggjandi bæjum að byggingunni um nokkra daga skeið, Páll á Helgastöðum, Sveinn á Æsustöðum og Benjamín á Björk í Sölvadal. Jón Sveinsson í Fjósakoti var við smíði í 25 daga. Alls var kostnaður við bygginguna 1172 ríkisdalir og 9,5 skildingar (sbr. Benjamín Kristjánsson 1970:46).

Fullreist var Möðruvallakirkja sumarið 1848 og var hún vísiteruð  þann 3. júlí það ár. Var henni lýst á eftirfarandi hátt: Hún er í lengd innan þilja 18 álnir, ½ þumlungi í fátt; breidd 8 álnir, ½ þumlungi í fátt; á hæð undir bita 3 álnir, 17 þumlungar og frá neðri bitabrún til mænis 4 álnir, 15 ½ þumlungar.[...] Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt utan með slagborðum og allt þiljað innan með grópuðum standborðum [...] (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 249). Kemur þar einnig fram, að alls munu sextán baksláar sæti (kirkjubekkir), átta hvoru megin auk krókbekks undir stiga sem lá upp á „plægt loft [söngloft] með tilhlýðilegum tröppustiga með pílárum á innri hlið.“

Möðruvallakirkja hefur nokkrum sinnum fengið að kenna á veðurofsa. Án þess að greinarhöfundur þekki nokkuð til veðuraðstæðna þarna fremra má geta sér þess til, að stífir og ofsafengnir vindstrengir renni sér ýmist úr Sölvadalnum eða niður af Möðruvallafjallinu í ákveðnum áttum. En a.m.k. þrisvar á 19. öld skekktist kirkjan í hvassviðri. Fyrst var það 2. mars árið 1857 að tveir bitar færðust úr skorðum og hnikuðust upp af lausholtum, svo kirkjan skekkist. Þetta var lagfært þannig, að bitarnir voru festir  með járngöddum við lausholtin, gegnum bjálka sem festir voru utan á lausholtin. Þá mun kirkjan aftur hafa hnikast til í hvassviðri árið 1865 en eftir það rétt af og skorðuð með stórgrýti, sem dregið var að. Aftur skekktist kirkjan í roki árið 1885 og voru þá járnfestingar bættar og endurnýjaðar.  Það er nokkuð athyglisvert, að ári eftir að kirkjan skekktist í fyrsta skiptið, þ.e. 1858, var reist ný kirkja í Saurbæ, handan Eyjafjarðarár. Það þykir nokkuð sérstakt, að hún er torfkirkja en á þessum tíma höfðu byggingar slíkra kirP5140990kna að mestu lagst af. Ein kenning á því, hverju það sætti er sú, að torfhús þyldu vindálag betur en timburhús, sem var hættar var við að skekkjast eða hreinlega fjúka...

Um 1890 var kirkjan farin að láta nokkuð á sjá og þess getið í visitasíum. Gegnumgangandi höfðu verið nokkur vandræði með þak, stundum veggir og gólf en einnig voru rúður oft sprungnar. Sjálfsagt afleiðingar hvassviðra. Þó munu hafa verið hlerar fyrir suðurgluggum í upphafi. Í upphafi var kirkjan tjörguð en slíkt var æði viðhaldsfrekt, tjarga þurfti hús oft og reglulega til að halda svertunni og glansinum; best var að tjarga annað hvert ár ef vel átti að vera (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 250). Árið 1895 voru gerðar gagngerar endurbætur á kirkjunni, grunnur hækkaður og steinlímdur, þak endurnýjað og gert við fúaskemmdir. Þá var tjaran skafin af og kirkjan hvítmáluð. Tjaran hélt þó áfram að gera skráveifur, því það vildi bera á því, að tjöruleifar hitnuðu í sólskini og mynduðu svartar skellur í hvítri málninguna. Varð þetta þrálátt að því er virðist áratugum saman eftir málninguna.  Pappaþakið frá 1895 var tjöruborið og tjöruna þurfti oft að endurnýja en engu að síður var þakið hriplekt. Tjaran var nefnilega fljótt að tapa vatnsvarnareiginleikum sínum því í sólskini vill hún fara af stað. Þessa gætti sérstaklega á suðurhlið, á móti sól.  Þessa eðliseiginleika tjörunnar getum við eflaust séð nokkuð glögglega á háspennustaurum úr timbri. Þeir eru oftar en ekki svartflekkóttir og á þeim má greina misþykkar tjöruskellur. En væntanlega hafa þeir verið allt að því altjargaðir í upphafi. Og fyrst minnst er á háspennustaura má geta þess, að rafmagn var leitt í Möðruvallakirkju árið 1962. Væntanlega var rafmagnið nýtt til kyndingar líka, en frá árinu 1917 hafði kolaofn verið í kirkjunni. Hann hafði þó verið leystur af hólmi árið 1934 með olíufýringu en sú reyndist svo illa, að tólf árum síðar var henni skipt út fyrir gamla kolabrennarann.

Möðruvallakirkja hefur alla tíð verið bændakirkja þ.e. í eigu Möðruvallabænda.  Kannski sakna einhverjir þess, að í umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveit séu rakin ítarlega presta- og ábúendatöl staðanna. Það væri hins vegar efni í aðrar og enn lengri greinar því hér eru það fyrst og fremst kirkjurnar og þeirra saga sem er til umfjöllunar. Væri því e.t.v. borið í bakkafullan læk, að gera ítarlega grein fyrir ábúendasögu kirkjustaðanna á þessum vettvangi. Á 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1948 fóru fram gagngerar endurbætur á henni á vegum Möðruvallabænda, feðgana Valdimars Pálssonar og Jóhanns sonar hans. Fólust þær endurbætur m.a. í endurbótum á gólfi, lagfæringu trappa og afstúkun forkirkju. Þá var Haukur Stefánsson ráðinn til málningarvinnu innandyra. Haukur var löngum þekktur sem Haukur málari og var annálaður fyrir mikilfenglegar innanhússkreytingar, málverk og munstur m.a. á stigagöngum.

Þann 21. desember 1972 gekk yfir Eyjafjörð ofsarok og fór þá Möðruvallakirkja ansi illa og raunar miklu verr heldur en nokkurn tíma á 19. öldinni. Fauk hún um hálfa breidd sína til norðurs, skekktist og brotnaði. Á suðurhlið var kirkjan stöguð með kengjum við þrjú mikill björg en svo mikill var veðurofsinn, að miðbjargið lyftist, slóst undir kirkjuna svo gólfið skall á það með tilheyrandi skemmdum. Hefðu þessara grettistaka ekki notið við, hefði væntanlega ekki þurft að spyrja að leikslokum. Og ekki voru menn sammála um téð leikslok, eða möguleg ævilok Möðruvallakirkju. Þjóðminjavörður, Þór Magnússon hvatti til endurbyggingar og kirkjubændur voru áfram um endurbyggingu kirkjunnar. Söfnuðurinn vildi frekar nýja kirkju, mögulega á Syðra Laugalandi eða Hrafnagili, en endurbætur á þeirri gömlu. Þjóðminjavörður taldi varðveislugildi kirkjunnar og gripa hennar verulegt og beitti sér fyrir því, að Þjóðminjasafnið fengi að annast endurbygginguna. Árið 1976 hófust endurbætur kirkjunnar og stóðu þær yfir í ein sex ár. Steyptur var nýr grunnur og gert við allar skemmdir hvort sem þær voru að völdum ofviðrisins 1972, fúa eða elli. Umsjón með endurbótunum hafði Gunnar Bjarnason trésmiður en hinn annálaði húsasmíðameistari, Sverrir Hermannsson, kom einnig að verkinu. Árið 1982 taldist Möðruvallakirkja fullgerð að utan. Fimm árum síðar mættu þeir feðgar Guðvarður Jónsson og Snorri Guðvarðsson til Möðruvallakirkju og máluðu í hólf og gólf. Endurbætt Möðruvallakirkja var endurvígð á 140 ára afmælisárinu, 1988.P5140991

Ekki er annað að sjá, en að Möðruvallakirkja hafi frá þessum endurbótum hlotið hina bestu umhirðu og viðhald. Kirkjan sem slík er auðvitað sannkölluð perla og nokkurs konar safngripur en í henni er einnig margt gripa og muna sem margir hverjir eru einstakir. Þar ber helst að nefna altaristöflu frá 15. öld, alabastursbrík sem Benjamín Kristjánsson segir vera (1970:47) „einn hinn merkilegasti forngripur sem enn er í kirkju hér á landi.“ Klukknaportið framan við kirkjuna er einnig sannkölluð gersemi sem slíkt, og er sem fyrr segir, hið eina sinna tegundar, sem varðveist hefur. Þar hanga þrjár klukkur, framleiddar í Danmörku með ártölunum 1769, 1799 og 1867. Portið og kirkjan mynda einstaka órofa heild, ásamt hlöðnum garði umhverfis. Bæjarstæði og ásýnd Möðruvalla í umhverfinu er svo allt hið fegursta. Möðruvallakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Þá er klukknaportið  einnig friðlýst og hefur verið í umjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021.

Heimildir: Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason. 2007. Möðruvallakirkja í Eyjafirði. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 245-282. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

 Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.


Hús dagsins: Hólakirkja

Fremstu byggðir Eyjafjarðar kúra undir skjóli brattra hlíða, rúmlega 1000 metra hárra fjalla, Eyjafjarðardals og afdala hans. Skammt norðan við þar sem Torfufellsfjall klýfur Eyjafjarðardalinn eru geysileg framhlaup beggja vegna Eyjafjarðarár. Annars vegar eru það Leyningshólar vestan ár en austan ár og eilítið utar nefnast Hólahólar. Eru þeir kenndir við bæinn og kirkjustaðinn, sem standa við norðurjaðar hólanna. Hins vegar er bæjarnafnið Hólar væntanlega til komið vegna hólanna. Hólar standa við Hólaveg en þar er um að ræða 12 kílómetra veg sem tengir byggðina austanmegin ár (Austurkjálka) við Eyjafjarðarbraut vestri. Að bænum liggur um 80 metra heimreið en frá bæjarhlaðinu eru um 38 kílómetrar til Akureyrar.  Á Hólum stendur snotur timburkirkja sem á stórafmæli á þessu ári, 170 ára. Og til þess að setja þennan árafjölda í eitthvert samhengi má nefna, að frá áramótum til 17. júní, eru u.þ.b. 170 dagar. Og fyrst minnst er á þjóðhátíðardaginn má einnig nefna, að við lýðveldisstofnun var Hólakirkja 91 árs!

Á Hólum hefur verið búið frá Landnámsöld IMG_1169en þar mun fyrstur hafa búið Þorsteinn, bróðir Víga Glúms á síðari hluta 10. aldar. Á Hólum er talið, að kirkja hafi verið byggð á upphafsárum kristni hérlendis og þar hafi afkomendur téðs Þorsteins verið að verki. Mun sú kirkja hafa verið helguð Jóhannesi skírara. Elstu lýsingar á kirkju á Hólum eru frá 1729 og þar er Hólakirkja torfkirkja, þiljuð í hólf og gólf. Stærðar er ekki getið að öðru leyti en að hún er sögð með 8 sperrum, bitum og skammbitum, en Benjamín Kristjánsson (1970:114) telur ljóst, að hún hafi verið svipuð að stærð og núverandi kirkja. Þessa kirkju leysti ný af hólmi árið 1774 en hún var einnig þiljuð torfkirkja, 16 álnir milli stafnbita og 7,75 álnir á breidd.  Um miðja 19. öldina var hin 75 ára gamla torfkirkja orðin næsta hrörleg. Árið 1851 kallaði Hallgrímur Thorlacius, prófastur á Hrafnagili, eigandi kirkjunnar til þá Ólaf Briem, timburmeistara á Grund og Ólaf Egilsson á Gilsá til að meta ástand hennar. Og úrskurður þeirra var sá, að kirkjan væri ónýt og byggja þyrfti nýja. Og úr varð, að Ólafur Briem hófst handa við kirkjusmíði á Hólum haustið 1852 og fullbyggð var kirkjan árið 1853.

Hólakirkja er timburhús með háu risi. Stendur hún á lágum steinhlöðnum grunni. Á veggjum er timburklæðning, nánar tiltekið slagþil og bárujárn á þaki. Inngangur, klukkur  og kross eru á mæni vesturhliðar, með öðrum orðum snýr framhlið kirkjunnar til vesturs en fyrir því var löngum rótgróin hefð. Á bakhlið, eða kór, eru þrír gluggar, þar af einn undir rjáfri en þrír gluggar eru á hvorri hlið. Tveir smáir gluggar eru einnig á framhlið. Þá er kvistur á þaki suðurhliðar. Grunnflötur Hólakirkju er 10,58x5,90m.

Frá æsku og uppvexti Ólafs Briem (1808-1859) á Grund var sagt í greininni um Saurbæjarkirkju. Ólafur nam trésmíðar í Danmörku á árunum 1825-31 og kom heim að námi loknu og hóf vinnu við smíðar.IMG_1248 Hann reisti verslunar- og íbúðarhús víða á Norðurlandi auk þess sem hann stýrði byggingum eða vann við byggingar alls átta kirkna. Fáein hús Ólafs Briem standa enn, Saurbæjar- og Hólakirkja og hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu á Akureyri mun vera Skjaldarvíkurstofa Ólafs Briem. Ólafur hafði verkstæði sitt á Grund og endurbætti þar nokkuð húsakost. Kirkju reisti hann á Grund árið 1842 en sú vék rúmum 60 árum fyrir núverandi kirkju. Þar var að verki annar stórhuga maður, Magnús Sigurðsson, löngum kenndur við Grund. (Svo vill reyndar til, að þegar barnungur Magnús Sigurðsson horfði um 1855 löngunaraugum frá Öxnafelli, austan Eyjafjarðarár, yfir að Grund og ákvað, að hann skyldi eignast þessa jörð er hann yrði stór, var eigandi og ábúandi Grundar einmitt Ólafur Briem). Ólafur gegndi ýmsum embættisstörfum, var m.a. hreppstjóri og auk þess tók hann þátt í hinum annálaða Þjóðfundi árið 1851. Var hann kjörinn þangað sem annar þingmaður Eyfirðinga, en einnig fór á fundinn Eggert, bróðir Ólafs, sýslumaður á Espihóli. Alls fóru níu manns úr Eyjafirði á Þjóðfundinn.  Ólafur Briem var annálaður fyrir kveðskap. Ein af mörgum vísna hans er eftirfarandi:

Þó hann rigni, þótt ég digni,

Þó að aldrei lygni meir,

áfram held ég alls óhrelldur

yfir keldur, mold og leir.

 

Síðar lagði Hannes Hafstein út af þessari vísu og hér má heyra hana í flutningi Guðmundar Óla Scheving.IMG_1171

Eins og gjarnt er um hagyrðinga brást Ólafur Briem oft við ýmsum aðstæðum og uppákomum með stökum. Hér má nefna tvennt. Eitt sinn er Ólafur var að flytja tilkynningu yfir kirkjugestum á Grund eftir predikun heyrði hann hrotur frá einum þeirra. Varð þá til þessi vísa:

Hvað mun bóndinn hafast að

um helgidaganætur,

hrotur sem á helgum stað

heyrast til sín lætur?

Mun sá sofandi hafa vaknað við vondan draum. Svo var það eitt sinn, er Ólafur var sem embættismaður að annast arfskipti vildi svo til, að meðal erfingja voru þrír prestar, sem rifust áberandi mest. Ekki fer sögum af málalokum en á einhverri stundu kvað ÓlafurIMG_1174 - afrit - afrit

Metur kæran Mammon sinn

margur hempugálginn,

í þeim nærir andskotinn

ófriðsemdar nálginn.

Ekki er ólíklegt, að margar vísur hafi heyrst við byggingarstörf Ólafs. Ólafur Briem lést 15. janúar 1859, nýorðinn fimmtugur en hann var fæddur 29. nóvember 1808.  

Sem fyrr segir lauk smíði Hólakirkju sumarið 1853 og 7. nóvember var hún vísiteruð í fyrsta skiptið. Var henni þar lýst á eftirfarandi hátt:

Guðshús þetta er milli þilja á lengd 16 álnir, 7 þumlungar, hvar af kórinn er af máli þessu 6 álnir og 5 þumlungar, á breidd 8 álnir og 3 kvartil; á hæð frá gólfi og upp undir bita 3 álnir og 11 þumlungar og frá neðri bitabrún í sperrukverk 4 ¾ alin, allt að innan mælt. Sperrur eru níu og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt að utan með slagborðum og að innan allt þiljað með plægðu pósta standþili. Þakið er tvöfalt, súðþak að innan en rennisúð að utan. [...] Í kirkjunni allri er nýtt þilgólf plægt á þéttum aurstokkum. Í framkirkjunni eru 7 baksláarsæti hverju megin fyrir utan tvo krókbekki, sem eru sinn á hvorri hlið,sömuleiðis sitt hverju megin í kirkjunni og myndar skilrúm milli kórs og kirkju bak þeim (Kristmundur Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason 2007:100). Er kirkjan talin „yfir höfuð allt prýðilega byggð.“  Hins vegar leið ekki á löngu að ýmissa vankanta færi að gæta, t.d. vantaði tröppur og svo virðist sem það hafi dregist að tjarga kirkjuna til vatnsvarnar. Þó getur prófastur þess, að verið sé að tjarga kirkjuna árið 1856 en hvort því verki var ekki lokið eða tjörgunin ófullnægjandi því árin á eftir mælist prófastur enn til tjörgunar. Þá var þakleki þrálátur og virtist þar veiki hlekkurinn vera kvisturinn. Þá gerðist það ítrekað í ofsafengnum sunnanáttum, að rúður brotnuðu þegar möl og jafnvel grjót fauk á þær. Árið 1860 voru settir hlerar á suðurhliðina og tröppur við inngöngudyr og tveimur árum síðar var hún tjörguð (Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar 2007:111).

Hólakirkja er mögulega fyrsta upphitaða kirkjan hérlendis. Það var árið 1862 að settir voru í hana tveir vindofnar og þótti það aldeilis tíðindum sæta en kirkjur voru löngum óupphitaðar. Frá þessu var skýrt í Norðanfara: Það er sannarlega nýlunda og hér á landi dæmalaus, að sóknarpresturinn til Miklagarðs og Hóla í Eyjafirði, séra Jón Thorlacius* í Saurbæ, hefur nú í haust keypt til Hólakirkju, sem er af timbri, tvo vindofna, er hann hefur látið setja í hana, annan í kórinn en hinn í framkirkjuna, til þess að hita upp, þá messað er og kaldast þykir (úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117). Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það hefur verið fyrir kirkjugesti til sveita, eftir margra kílómetra göngu eða ferð á hestbaki að sitja í frostköldum kirkjum: Allir, sem reynt hafa að sitja hér í kirkjum á vetrardag og ekki síst í hörku og harðviðrum, vita hvað það er kalt og næstum óþolandi. Og þegar menn koma þangað sveittir og illa til reika og norpa þar svona á sig komnir meira og minna aðsettir eða skjálfandi alla messugerðina út, er naumast að menn geti veitt athygli því, er presturinn prédikar, enda hafa vandkvæði þessi aftrað mörgum frá því að sækja kirkju á vetrum[...] (Úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117-118). Vindofnar þessir yljuðu kirkjugestum Hóla í tæpa tvo áratugi en árið 1880 var skráð að þeir væru orðnir ónýtir. En það dróst aldeilis von úr viti, að gert yrði við þá eða fengnir nýir: Í tæplega hálfa öld stóðu ofnarnir ónýtir í Hólakirkju og hafa líklega verið orðnir eins og hvert annað húsgagn í kaldri kirkjunni þegar þeim var skipt út árið 1928! P8291009Af „hitamálum“ Hólakirkju er það að segja, að einn kolaofn kom í stað ofnanna frá 1862 og var hann notaður til ársins 1960 er hann var fluttur á Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar á Akureyri og mun þar enn safngripur (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:112). Fjórum árum síðar var leitt rafmagn í kirkjuna og leysti það kolakyndinguna af hólmi.

Svo virðist sem þakleki og aðrir vankantar hafi verið þrálátt vandamál í Hólakirkju en árið 1883 fóru fram á henni endurbætur sem miðuðu m.a. að upprætingu leka, auk ýmiss annars. Þá var kirkjan máluð árið 1890 en hafði fram að því verið tjörguð. En tjöruleifar gátu gert skráveifur undir málningu sérstaklega í sólskini og hitum. Upp úr aldamótum voru viðraðar hugmyndir um að bárujárn kunni að vera endanleg lausn við leka og það var sett á um 1905. En ekki reyndist sú lausn algild, upprunalegar þakklæðningar, skarsúð og rennisúð hafa líklega verið orðnar skemmdar af fúa, svo timbrið hélt ekki þaknöglum og inn streymdi snjór í hríðarveðrum. Þakið virðist þó hafa haldið vatni eftir þessar aðgerðir. Næstu ár og áratugi fóru fram endurbætur á grunni, á 100 ára afmælinu 1953 vísiteraði biskup hana og sagði hana í mjög góðu ástandi. Segir m.a. að kirkjan „hafi aðdáanlega vel staðið af sér tímans tönn og er enn í ágætu ástandi nærri því eins og frá henni var gengið fyrir 100 árum. Hefur sér Hallgrímur ekkert til sparað að gera kirkjuna sem bezt úr garði, og var smíði hennar öll hin vandaðasta bæði traust og snotur“ (Benjamín Kristjánsson 1970:116). Þetta kann að virðast í mótsögn við það sem fram kemur hér að framan, að kirkjan hafi verið sílekandi og hvorki haldið vatni né vindi! En höfum í huga, að fyrrgreind upptalning nær yfir 100 ára tímabil og kirkjan orðin 30-50 ára þegar þessir vankantar fara að láta á sér kræla. Og höfum einnig í huga byggingarefni, verkþekkingu og byggingartækni þess tíma. Auk þess var öllum viðgerðum og viðhaldi sinnt mjög samviskulega og árið 1953 hafði sökkull nýlega verið endurbættur. Hversu vel sem hús eru byggð nagar þau tímans tönn; um fjörutíu árum síðar var ástand Hólakirkju talið mjög bágborið og vart orðið við fúa í fótstykki, burðarviði og klæðningu. Var þá kallaður til hinn annálaði húsasmíðameistari Sverrir Hermannsson en hann á heiðurinn af endurbótum margra gamalla timburhúsa á ofanverðri 20. öld.

Skemmst er frá því að segja, að á árunumIMG_1172 1991-95 var kirkjan endurnýjuð nánast gjörsamlega frá grunni- og raunar grunnurinn líka því í viðgerð fólst einnig viðgerð á sökkli. Umsjón með framkvæmdum hafði sem fyrr segir, Sverrir Hermannsson, eftir forskrift og teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Árið 1991 var byrjað á norðurhlið kirkjunnar, suðurhlið og gaflar voru endurnýjaðir árið eftir og 1993 var komið að þakinu. Árið 1995 voru kirkjutröppur endurnýjaðar og kirkjan máluð að utan (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:117-118). Þá var hún máluð að innan 1997 og þar var að verki Snorri Guðvarðsson málarameistari, sem löngum hefur sérhæft sig í málun gamalla kirkna. Allar endurbætur Hólakirkju í lok síðustu aldar voru unnar þannig, að sem mest væri nýtt af gömlu efni sem hægt var. Þá má geta þess, að raflagnir og rafmagnstafla voru einnig endurnýjaðar en mikilvægi þess skal aldeilis ekki vanmetið þegar í hlut eiga gamlar timburkirkjur. Því ef eitthvað kemur upp á í gömlum og úr sér gengnum raflögnum í meira en 150 ára gömlum timburhúsum þarf víst ekki að spyrja að leikslokum.

Nú er ekki annað að sjá, en hin aldna timburkirkja að Hólum sé sem ný, enda nokkuð stutt frá gagngerum endurbótum og kirkjunni ævinlega vel við haldið. Kirkjan, sem er fremsta kirkja Eyjafjarðar, nýtur sín einstaklega vel á snotru bæjarstæðinu og kirkjugarðurinn umhverfis hana er einnig til prýði. Ræktarleg reyni- og birkitré standa vörð um hið 170 ára gamla guðshús, kannski þykir einhverjum, að þau skyggi á hana en af þeim er engu minna prýði en kirkjunni sjálfri. Samkvæmt vefsíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar Hólakirkja 120 manns í sæti og er bændakirkja sem þýðir að hún er eign bænda, væntanlega Hólabænda. Hólakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 29. ágúst 2020 og 7. október 2023.

*(Nú gæti einhver lesandi staldrað við séra Jón Thorlacius í Saurbæ, árið 1862. Kom það ekki fram í greininni um Saurbæjarkirkju, að Einar Thorlacius hafi setið í Saurbæ á þessum tíma? En hér er ekki um að ræða nafnarugling hjá undirrituðum, enda þótt mörg fordæmi séu fyrir slíku, heldur var það svo á þessum tíma, að tveir prestar, feðgarnir Einar Thorlacius (1790-1870) og Jón Einarsson Thorlacius (1816-1872), sátu í Saurbæ. Væntanlega hefur Jón verið tekinn að mestu við prestskapnum, enda Einar faðir hans kominn yfir sjötugt þegar þetta var).  

 

 

Heimildir:

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristinn Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason. 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 105-137. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

 

Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 440782

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband