Færsluflokkur: Bloggar
20.4.2017 | 20:29
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2017 | 07:30
Úr myndasafninu
Ég luma á hinum ýmsu myndum - sem margar hverjar er alveg vert að birta hér fyrir allra augum. Það er ekki óalgengt að myndavélin fylgi með í göngu- eða hjóltúra- og svosem heldur ekki óalgengt að ég leggi upp slíka túra. Hér eru nokkur sjónarhorn úr nærumhverfi Akureyrar sem mér hefur þótt ástæða til að festa á filmu - eða öllu heldur festa á minniskort- því filman leið undir lok hjá mér fyrir einum 14 árum.
KAFFIKLAUF OG SMJÖRSKÁL
Þessar myndir eru teknar á hjóltúr um Kjarna og Hamra sunnudaginn 24.júlí 2016. Ofan Hamra má finna Kaffiklauf og Smjörskál. Mætti kalla girnileg örnefni; eru kannski Kleinulaut, Brauðgil, nú eða Rjómalækur þarna nærri ? . Kaffiklauf sést á myndinni til vinstri en svo nefnist skarðið á milli Arnarkletts og Krosskletts. Þeir sjást að hluta á myndinni, Arnarklettur til vinstri. Smjörskál nefnist skál norðarlega undir Hamrahömrum. Hún sést á myndinni t.h. og vísar stafninn sem snýr að ljósmyndara svo til beint upp í hana. Þakið tilheyrir Hömrum II, sem nú þjónar sem gistihús fyrir ört stækkandi gestahóp Tjaldsvæðisins á Hömrum. (Meira um Hamra hér) Í Smjörskál drýpur eflaust smjör af hverju strái en þar einnig gnægð aðalbláberja á haustin. Ekki kann nú ég sögurnar á bak við þessi örnefni. Kannski hafa gangnamenn og aðrir sem erindi áttu af Kjarna- Hamra- Naustatorfunni upp á Súlumýrar fengið sér kaffi í eða við Kaffiklauf... ?
Á SÚLUMÝRUM
Ofan Löngukletta og Hamrahamra eru Súlumýrar. Eru þær geysivíðlendar- eins og margir Súlnafarar þekkja. Þær eru ansi vinsæll leikvöllur jeppa- sleða og skíðamanna, já og raunar göngu og hjólamanna...útivistarfólks yfirleitt. Ekki er þar neitt formlegt vegakerfi en þessi slóði liggur eftir austurbrún mýranna, ofan Fálkafells. Hvert liggur slóðinn. Við því er einfalt svar: Spölkorn sunnan við tökustað þessarar myndar er likt og klippt sé á troðninginn, þar sem við taka lyngþúfur og melar. Vegur þessi, sem hvergi er á skrá hjá neinni vegamálastofnun eða á nokkru skipulagi endar eiginlega bara þarna úti í mýri.
Svona til að glöggva sæmilega staðkunnuga á því, hvar þessi mynd er tekin skal hér birt mynd sem tekin er til austurs af sama stað, þarna má sjá skátaskálann Fálkafell og Akureyri líkt og útbreitt landakort. Myndirnar eru teknar sunnudaginn 18.september 2016 í brakandi haustblíðu eins og hún gerist best.
Á Súlumýrum, dágóðan spöl sunnan og ofan Fálkafells má finna hina svokölluðu Steinmenn. Þeir standa á hól framarlega á mýrarstallinum og eru vel sýnilegir úr 2-4km loftlínu frá Akureyri, þrátt fyrir að vera rétt um mannhæðarháir. Myndin er tekin 21.apríl 2012.
Myndin hægra megin er einmitt tekin á Oddeyri þann 4.nóv 2012. Þarna má sjá hólinn þar sem steinarnir standa og í hvítum vetrarsnjó eru kallarnir oft býsna áberandi- þó 6 megapíxla Olympus vélin hafi e.t.v. ekki greint þá þarna með góðu móti.
Á ÞVERBRAUTINNI
Hinn valinkunna Þjóðveg 66, eða Route 66 milli Los Angeles og Chicago þekkja allir. Hann var í almennri notkun frá 1926 til 1985 og var því nánast samtíða öðrum ágætum valinkunnum vegi, mögulega minna þekktum, þ.e. "Þverbrautinni". Hún var hluti þjóðvegakerfisins frá 1923 til 1987. Á henni voru þrjár brýr sem hver um sig þótti mikið stórvirki. Síðustu áratugina hefur þessi leið einkum verið nýtt af hesta- hjóla og göngufólki en 2008 lengdist þessi leið nokkuð þegar flugbrautin var lengd. Þá var lögð lykkja milli bílaplansins við Eyjafjarðarbraut vestri og vestustu brúar. Þar sem leiðin liggur sunnan flugbrautar tók ég þessa mynd í snemmsumarsólinni þann 31.maí 2014. Í forgrunni er Brunnáin sem rennur gegn um Kjarnaskóg og út í Eyjafjarðará við Hólmana en við lengingu flugbrautar var henni veitt í lykkju suður fyrir. Fjöllin þrjú á myndinni heita Staðarbyggðarfjall (Öngulsstaðaöxl, Sigtúnafjall, Uppsalahnjúkur; Staðarbyggðarfjallið er raunar heill fjallgarður), Tungnafjall og Möðruvallafjall (hef líka heyrt heitið Öxnafell á hinu síðastnefnda fjallinu). Milli Staðarbyggðarfjalls og Tungnafjall er Þverárdalur og Mjaðmárdalur er milli Tungnafjalls og Möðruvallafjalls.
LEYNIMYNDIN
Þetta er ein þeirra mynda sem ekki er auðvelt að átta sig á hvar er tekin. Ég ætla ekki að ljóstra því upp því upp strax og þessi færsla er rituð (lesendur mega spreyta sig á ágiskunum ) hvar hún er tekin. Hins vegar get ég þess, að hún er tekin þann 12.október 2013 sunnarlega á Akureyri, á svæði sem aðgengilegt er almenningi en e.t.v. ekki svo fjölsóttu (mögulega vantar upp á, að fólk viti almennt af þessum unaðsreit).
Bloggar | Breytt 17.5.2017 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2017 | 13:37
Gleðilega páska
Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra páska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2017 | 10:42
Hús dagsins: Klapparstígur 7
Nyrsta húsið við Klapparstíg, og jafnframt það yngsta, er Klapparstígur 7. Húsið stendur á fimmtugu í ár en það byggðu þau Ófeigur Baldursson og Þorbjörg Snorradóttir árið 1967, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Klapparstígur 7 flokkast undir módernískt hús, tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og stórum gluggum með einföldum póstum. Inngöngudyr er á efru hæð og þangað eru steyptar tröppur frá götu og mikla svalir eða sólpallur til suðvesturs. Á efri hæð eru stórir stofugluggar til sólarátta; suðurs og austurs en fjórir minni gluggar á neðri hæð. Lóðin, sem liggur við suðurenda Hamarkotsklappa neðri er mishæðótt og því er neðri hæðin niðurgrafin að hluta þ.a. húsið virðist ein hæð bakatil. Klapparstígur 7 er stílhreint og glæsilegt hús og virðist raunar sem nýtt, en er þó um hálfrar aldar gamalt. Það er að mestu óbreytt frá upphafi, en þó voru gerðar á því lítils háttar breytingar árið 2008 skv. þessum teikningum. Húsið er það nyrsta við Klapparstíginn stendur lóðin fast upp við suðurenda Hamarkotsklappa, en við enda götunnar tekur við stígur eða troðningur gegn um trjálund neðan klapparinar. Húsið er snyrtilegt og vel við haldið og stendur á áberandi og skemmtilegum stað, líkt og húsin við Klapparstíginn. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin 1.apríl 2017.
Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Matthías Einarsson (1985). Ófeigur Baldursson. Minningargrein. Birtist í Degi 14.júní 1985, sótt 13.apríl 2017 á slóðina http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=207194&pageId=2672917&lang=is&q=Klapparst%EDg%207
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2017 | 11:09
Hús dagsins: Klapparstígur 5
Réttum sex árum - og degi betur- fyrir stofnun Lýðveldisins Íslands, þ.e. 16.júní 1938 var Margréti H. Eiríksdóttur, Þingvallastræti 14, leyft að reisa íbúðarhús á leigulóð sinni á Klapparstíg 5. Húsið skyldi vera 8,3 x 8m að grunnfleti, steinsteypt með kjallara, tvílyft með flötu þaki. Margrét óskaði eftir því, að fá að byggja aðeins eina hæð til að byrja með en láta aðra hæð bíða að sinni. Bygginganefnd féllst á það, en setti það skilyrði að húsið skyldi fullbyggt innan fimm ára. Þá fékk hún síðar um sumarið leyfi Bygginganefndar til að sleppa kjallara undir húsinu.
En húsið hefur greinilega verið fullbyggt árið 1940 því í Manntali það ár er húsið tvær hæðir, og þar búa á neðri hæð Margrét og maður hennar Helgi Júlíusson og á þeirri efri Jóhanna Jónsdóttir vefnaðarkona ásamt fjórum leigjendum og ársgamalli dóttur, Körlu Hildi Karlsdóttur. Þar er húsið sagt um 5 ára steinsteypt með innviðum timbri.Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín, en hann teiknaði einnig næsta hús vestan við þ.e. Klapparstíg 3. Í upphafi var húsið 8,3x8m að grunnfleti, þ.e. nánast ferningslaga og með flötu þaki. Árið 1966 var hins vegar byggt við húsið til norðausturs og líklegast hefur einhalla þakið verið sett á samtímis. Stefán Reykjalín gerði einnig þær teikningar og þær eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar sést að viðbygging er 11x4,60m að stærð og þar var stofa og herbergi á neðri hæð en stofa og eldhús á þeirri efri, auk inngöngudyra á bakhlið með steyptum tröppum og dyraskýli.
En Klapparstígur 5 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni með aflíðandi, einhalla þaki (skúrþaki), múrhúðað og með bárujárni á þaki. Í gluggum eru einfaldir póstar með lóðréttum fögum og á suðurhlið eru horngluggar í anda funkisstefnunnar en á viðbyggingu eru stórir og víðir gluggar, sem ég hef einfaldlega kallað stofuglugga. Þannig má í rauninni greina það á gluggasetningunni hvor hluti hússins er yngri en húsið er flokkað sem blendingur funkis og modernisma í Húsakönnun 2015. Upprunalega húsið er væntanlega fulltrúi fyrrnefndu stefnunnar og viðbyggingin þeirrar seinni. Í sömu húsakönnun er tekið fram að viðbygging falli ágætlega að gamla húsinu. Það getur sá sem þetta ritar svo sannarlega tekið undir. Klapparstígur 5 er sérlega smekklegt og glæst hús og í góðri hirðu. Skemmtilegt grjóthleðslumunstur á norðurhlið gefur húsinu skemmtilegan svip. Tvær íbúðir í húsinu.
Ég minntist aðeins á húsagerðir áðan, funkis og módernisma. Svo skemmtilega vill til, að húsin við Klapparstíg standa í aldursröð; 1 er byggt 1930, nr. 3 ´33, nr. ´38 og ´66 og það yngsta nr. 7 er byggt 1967. Það vill einnig svo til, að þau eru eins og safn húsagerðarlist á fyrri hluta og upp úr miðri 20.öld. Lítum aðeins á það. Númer 1 er steinsteypuklassík, 3 er steinsteypu-nýklassík, og númer 7 flokkast undir módernisma- en það er langyngst húsa götunnar byggt 1967 þ.e. ári eftir að byggt var við nr. 5. Þannig má segja að nr. 5 brúi bókstaflega bilið milli tímaskeiða og byggingargerða; funkis yfir í módernískt. (Þetta eru auðvitað aðeins hugleiðingar og fabúleringar undirritaðs...) Myndin er tekin laugardaginn 1.apríl sl.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-40. Fundur nr.818, 16.júní 1938.
Fundur nr. 820, 9.ágúst 1938.
Manntal [á Akureyri] 1940.
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2017 | 07:55
Hús dagsins: Klapparstígur 3
Í síðustu færslu tók ég fyrir nokkrar helstu klappir Brekkunnar á Akureyrar. Sumar þeirra eru fáfarnar en líklega þekkja flestir Akureyringar- og aðrir staðkunnugir hér - Hamarkotsklappir norðan Akureyrarvallar, þar sem finna má styttuna af Helga magra og Þórunni Hyrnu og hringsjá og fánastöng. Klapparstígur liggur utan í hæðinni sunnan við Hamarkotsklöpp (sem raunar heitir Myllunef), ofan við Akureyrarvöll og dregur nafn sitt af klöppinni. Gatan sveigir til austurs af ofanverðri Brekkugötu. Einungis fjögur hús standa við Klapparstíg og mun ég taka þau fyrir eitt af öðru í næstu færslum. Klapparstíg 1 tók ég fyrir í síðustu færslu og hér er komið að næsta húsi nr. 3.
Klapparstíg 3 reistu þeir Jón Ingimarsson og Aðalsteinn Tryggvason árið 1933. Þeir fengu í lok júlí það ár leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni og þá hugðust þeir reisa hús á einni hæð á kjallara með porti og kvistum. Líklega hefur því húsi átt að svipa til eina hússins sem þá var þegar risið á Klapparstíg, þ.e. nr. 1. Enda lagði Bygginganefnd það til, að þeir skyldu reisa hús svipað og þau sem fyrir væru á þessu svæði, þegar þeir fengu lóðina úthlutaða. En um mánuði eftir að þeir Aðalsteinn og Jón fengu byggingaleyfið sækja þeir um að fá byggingaleyfi breytt, þ.a. fyrirhugað hús verði tvílyft með flötu þaki, en Bygginganefnd vísar þeirri beiðni áfram til Skipulagsnefndar. Þá þegar voru tilbúnar teikningar að húsi með flötu þaki, en þær eru dagsettar 11.ágúst 1933. Það þarf kannski ekki að tíunda það hér hvert svar nefndanna var, það liggur nefnilega í augum uppi fyrir hvern þann sem ber húsið augum. En þann 16.september 1933 er þeim Aðalsteini og Jóni heimilað að reisa húsið með flötu þaki- með því skilyrði að þakbrík yrði ekki hærri en 50cm. Teikningarnar sem vísað er til hér að framan gerði Stefán Reykjalín en þarna var líklega um frumraun hönnuðarins að ræða, því Stefán var aðeins 19 ára þegar hann teiknar húsið (Sbr. Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 22).
Klapparstígur 3 er tvílyft steinsteypuhús í nýklassískum stíl, með flötu þaki og á lágum kjallara. Veggir eru klæddir spænskum múr, og breiðir krosspóstar með skiptum póstum í efri fögum í gluggum. Inngöngudyr á vesturhlið og steyptar tröppur að honum. Á þakbrún er steypt skrautkögur sem gefur húsinu skemmtilegan svip. Húsið er að því er virðast óbreytt frá upprunalegri gerð, borið saman við teikningarnar frá 1933, gluggapóstar eru samskonar og gluggasetning virðist fljótt á litið óbreytt frá upphafi. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, ein íbúð á hvorri hæð og sjálfsagt ófáir búið hér í lengri eða skemmri tíma. Íbúar hússins hljóta að teljast vel í sveit settir hvað varðar íþróttaviðburði á Akureyrarvelli því við suðurgluggar hússins eru beint upp af áhorfendabekkjum vallarins og mætti eflaust líkja við VIP stúkusæti :) Húsinu er vel við haldið og til mikillar prýði á áberandi stað, og sömu sögu er að segja af lóð sem er vel gróin t.d. stendur gróskumikið reynitré á suðvesturhorni lóðarinnar. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr.702, 29.júní 1933.
Fundur nr. 703, 27.júlí 1933. Fundur nr. 706, 26.ágúst 1933. Fundur nr. 707, 16.sept. 1933.
Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2017 | 21:28
Útsýni af klöppum Brekkunnar.
Síðasta húsafærsla og nokkrar næstu verða um hús við Klapparstíg. Því er ekki úr vegi að skrifa eins og einn lítinn myndaþátt um klappir bæjarins. Innan bæjarlands Akureyrar má finna ógrynni klappa og hvalbaka - sköpunarverk ísaldarskriðjökla. Nyrst á Brekkunni eru nokkrar voldugar klappir s.s. Hamarkotsklappir og ofar eru Skipaklöpp og Háaklöpp. Allt eru þetta fyrirtaks útsýnisstaðir- svo sem sjá má á eftirfarandi myndum.
Hér er horft til norðurs frá Hamarkotsklöppum um miðnæturbil 21.júní 2016.
Til suðurs frá Hamarkotslöppum neðri á Sumarsólstöðum 2016. Hvers vegna segi ég Hamarkotsklöppum neðri ? Jú, vegna þess að Hamarkotsklappir eru samheiti klapparholta sem ná frá svæðinu við Byggðaveg neðanverðan og Ásveg og að Gleráreyrum. Þessi hluti klappanna, sem í daglegu tali er kallaður Hamarkotsklappir kallast raunar Myllunef. (Sbr. Akureyri ; Höfuðborg hins bjarta norðurs e. Steindór Steindórsson, bls. 221).
Útsýn til hánorðurs af Hamarkotsklöppum (efri) vestan og ofan Þórunnarstrætis. Myndin er tekin síðdegis laugardaginn 25.febrúar 2017.
Í gildragi nokkru ofan Klettaborgar liggur skemmtilegur malarstígur upp að norðurenda Mýrarvegar á Brekkunni. Þar austan megin er klöpp nokkur, skógi girt, sem er ágætur útsýnisstaður. Ég hef alla tíð verið þannig að ég verð ævinlega að vita nöfn hverra þeirra náttúrufyrirbrigða sem á vegi mínum verða, hæð fjalla og byggingarár húsa og var lengi vel viðþolslaus að vita ekki hvað þessi klöpp héti- eða hvort hún bæri nafn. Um daginn hugkvæmdist mér svo að fletta upp í "Akureyrarbók" Steindórs Steindórssona og þar var svarið (en ekki hvað): Skipaklöpp.
Hér er horft til SV af Skipaklöpp. Í forgrunni blokkir við Mýrarveg og hús við Kambsmýri. Myndirnar af Skipaklöpp eru teknar þann 23.okt 2016.
Háaklöpp nefnist klöpp nokkur sunnan og ofan Sólborgar. Hún er 84 m y.s. og líklega með betri útsýnisstöðum innan þéttbýlismarka Akureyrar. Hér er horft til austurs af henni 18.mars 2017.
Horft í hánorður af Háuklöpp. Borgir, rannsóknarhús Háskólans á Akureyrar í forgrunni.
Bloggar | Breytt 17.5.2017 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2017 | 12:22
Hús dagsins: Klapparstígur 1
Árið 1929 fékk Hallgrímur Hallgrímsson síldarmatsmaður frá Hjalteyri, leigða lóð á horni Klapparstígs og Brekkugötu og leyfi til að byggja á henni að reisa þar hús; 8x8,8m að stærð auk útskota, ein hæð og port á háum kjallara. Hallgrímur hefur líkast til áformað að húsið sneri hlið að götu því Bygginganefnd sér í bókun sinni ástæðu til að árétta sérstaklega að: Meirihluti nefndar heldur sig fast við það, að á þessum stað verði húsin að snúa stafni í götu, eins og gert er ráð fyrir á Skipulagsuppdrætti. Nefndin hefur ekkert að athuga við teikningu og lýsingu og gefur byggingafulltrúa heimild til að láta hefja verkið, þótt einhver breyting verði við snúning hússins. (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr.632) Hallgrímur hóf því að reisa húsið, sem snýr stafni að götu og var það fullbyggt 1930. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson. Þar má sjá, að í húsinu eru tvö eldhús, á jarðhæð og stofuhæð og tvö baðherbergi, annars vegar á jarðhæð og hins vegar í austurkvisti á svokallaðri porthæð en svo er rishæðin kölluð á teikningunum. Það er ekki annað að sjá á teikningum, að húsið eigi að vera hið vandaðasta í hvívetna, þar eru sex svefnherbergi og stofur á báðum hæðum auk gestastofu.
Klapparstígur er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Stór miðjukvistur er á framhlið (vesturhlið) og annar smærri á bakhlið. Bogadregin forstofubygging á framhlið, beint niður undir kvisti og að henni voldugar, steyptar tröppur og svalir ofan á henni sem gengt er út á af kvistherbergi. Þá er einnig bogadregið útskot með turnþaki á suðurstafni. Miklir steyptir kantar eru á þaki og svalahandrið steypt úr því sem ég myndi kalla bogasteinum- en þeir voru ekki óalgengir í veglegri girðingar og svalahandrið á þessum árum. Gefa þeir jafnan skemmtilegan svip en ekki þekki ég uppruna þessara hleðslusteina. Mögulega hafa þeir verið framleiddir í sömu verksmiðju og r-steinn Sveinbjarnar Jónssonar. Bárujárn er á þaki hússins og krosspóstar eru í gluggum.
Hallgrímur Hallgrímsson átti allt húsið í upphafi, en í ársbyrjun 1934 auglýsir hann efri hæðina til sölu (mögulega er þar átt við rishæð eða portbyggð) og þar kemur sérstaklega fram að íbúðin sé sólrík, en þrír suðurgluggar eru á risi hússins. Dóttir Hallgríms Hrefna Kristín. Hún kvæntist árið 1934 Jóni Sigurgeirssyni, síðar skólastjóra Iðnskólans. Þau bjuggu hér allt þar til Hrefna lést árið 1951 en Jón bjó hér áfram í tugi ára eftir það. Margir hafa búið í húsinu í lengri eða skemmri tíma, líkt og gengur og gerist.
Hér að ofan var greint frá staðfastri áherslu Byggingarnefndar á því, að hús við Klapparstíg sneru stafni að götu. Ef næstu hús götunnar eru skoðuð
mætti álíta, að ekki hafi reynt á þetta ákvæði því þau hús eru frábrugðin nr. 1, ferningslaga með flötum þökum enda reist á bilinu 1933-40 þegar Funkisstefnan var að ryðja sér til rúms. Húsið er skrautleg steinsteypuklassík, og það eina sinnar tegundar við götuna en svipar nokkuð til húsa við Eyrarlandsveg 16-24 og Brekkugötu 27a. Að ytra byrði er húsið h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð og hefur það líkast til hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð- alltént er það í mjög góðu ástandi. Lóðin er einnig mjög vel frágengin og vel gróin- þó það sjáist lítt á meðfylgjandi mynd sem tekin er nærri miðjum janúar. sómir sér vel á þessum stað sem er nokkuð áberandi í bæjarmyndinni, því Klapparstígur liggur utan í hæð beint upp af Oddeyrinni og fjölförnustu götu Akureyrar (Þjóðvegi 1) og gegnt húsinu eru áhorfendabekkir Akureyrarvallar.Tvær íbúðir munu í húsinu, á jarðhæð og á hæð og risi. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr.632, 10.júní 1929.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2017 | 09:42
Hús dagsins: Krabbastígur 4
Við Krabbastíg standa einungis þrjú hús, tvö norðan götu og eitt sunnan megin. Efra húsið norðan megin, þ.e. Krabbastígur 4 stendur á horni götunnar og Munkaþverárstrætis, en þar er um að ræða járnklætt timburhús. Sumarið 1934 sótti Jóhannes Jónasson um byggingarleyfi fyrir hönd Snjólaugar Jónasdóttur um að fá lóð við Krabbastíg, norðan við Gest Bjarnason. Þannig var staðsetningu húsa og lóða og ævinlega lýst í bókunum Bygginganefndar, þ.e. afstaða miðað við lóðir eða hús tilgreindra manna- húsnúmer sjást afar sjaldan. Vildi hún fá að reisa íbúðarhús úr timbri, járnklætt, 7,6x7,6m að stærð. Byggingaleyfið var veitt en þó með þeim skilyrðum að neðri hæð væri steinsteypt og senda skyldi nýja teikningu og lýsingu þar sem fram kæmi hæðarafstaða við götu. Þá teikningu samþykkti bygginganefnd á næsta fundi sínum. Páll Friðfinnsson teiknaði húsið, en upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1936.
Krabbastígur 4 er tvílyft hús á lágum grunni og með lágu risi. Neðri hæð er steinsteypt og múrhúðuð (tæpast hægt að tala um neðri hæð sem kjallara jafnvel þótt hún liggi nokkuð neðar en götubrún) en efri hæð úr timbri og járnklædd. Bárujárn er á þaki. Á norðurgafli er forstofubygging, viðbygging frá um 1967 eftir teikningum Páls Friðfinnssonar, sem teiknaði húsið í upphafi sem áður segir. Sú bygging er múrhúðuð, með einhalla þaki, aflíðandi til norðausturs og inngöngudyr að götu og bakatil á neðri hæð. Efri hæð viðbyggingar er stærri að grunnfleti en neðri hæð og stendur hún á stólpum á nyrsta parti. Gluggapóstar eru þverpóstar með margskiptum efri fögum og á neðri hæð eru neðri fög einnig skiptir í miðju lárétt.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líklega einbýlishús í upphafi en árið 1944 er það til sölu í heilu lagi, sjá hér og þar er Sigurlaug Jónasdóttir, sú er byggði húsið sem hyggst selja það. Fimmtán árum síðar er húsið hins vegar orðið a.m.k. tveir eignarhlutar, sbr. Þessa tilkynningu frá 1959 þar sem Jóhann Hauksson selur Sigurði Karlssyni sinn hluta hússins. Átta árum síðar er byggt við húsið til norðurs og fékk það þá núverandi útlit. Þá eru skv. teikningum tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Krabbastígur 4 er einfalt og látlaust timburhús- eitt fárra slíkra í þessu hverfi sem byggt er á sannkallaðri steinsteypuöld. Það er raunar eina húsið með þessu lagi á þessu svæði en sambærileg hús má finna t.d. Á Fjólugötu en einnig er húsið ekki ósvipað húsunum við Goðabyggð 7 (Silfrastaðir) og Hrafnagilsstræti 27 (Þrúðvangur) sem standa ofar og sunnar á Brekkunni. Þau eru jafnaldrar Krabbastígs 4 og byggð sem grasbýli en þéttbýli tók ekki að myndast á þeim slóðum fyrr en aldarfjórðungi síðar. Líklega er húsið nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði- ef undan er skilin er viðbygging. Húsið og umhverfi þess er til mikillar prýði, við inngönguskúr og lóðarmörk er sólpallur úr timbri og tvö smá þintré sitt hvoru megin við hlið, sem ramma aðkomuna að húsinu skemmtilega inn, a.m.k. að mati þess sem þetta ritar. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur 723, 22.júní 1934. Fundur nr. 724, 20.júlí 1934.Óprentað og óútgefið varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2017 | 11:22
Hús dagsins: Krabbastígur 2
Á fundi Bygginganefndar Akureyrar þann 3.ágúst 1929 var m.a. tekið fyrir erindi frá Byggingafélagi Akureyrar sem sótti um leyfi til að byggja hús fyrir Gest Bjarnason. Húsið skyldi jafnstórt og af sömu gerð og hús Þorsteins Þorsteinssonar. Þar var vísað til 2.liðs sömu fundargerðar, en erindi Byggingarnefndar var nr. 3 í afgreiðslu fundarins. En Þorsteinn hafði sótt um að reisa hús við Brekkugötu, sem skyldi 7,20x8m, ein hæð á kjallara og með lágu risi og varð það hús nr.43 við þá götu. Því er engum blöðum um það að fletta, að Krabbastígur 2 og Brekkugata 43 hljóta að vera reist eftir sömu teikningu, en hana gerði Halldór Halldórsson. Til fróðleiks má bæta við, á þessum sama fundi voru samþykktar fullnaðarteikningar af húsi KEA við Hafnarstræti (Kaupfélagstorginu). Húsið byggðu þeir svo feðgarnir Bjarni Pálsson og áðurnefndur Gestur Bjarnason og flutti 1929-30 og flutti stórfjölskyldan í húsið árið 1930. Hér er fróðlegt viðtal við móður Gests, Sigríði Helgadóttur. Viðtalið birtist í Degi 2.mars 1968 en þann dag varð Sigríður 95 ára, þá elsti innfæddi íbúi en hún var fædd 1873 í Barði.
Krabbastígur 2 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og á háum kjallara, raunar svo háum að telja mætti húsið tvílyft eða kjallara til jarðhæðar en skörp skil eru á milli kjallara og hæðar; þ.e. veggir kjallara eru eilítið þykkri og þ.a.l. kantur á útveggjum á hæðarskilum. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki en spænskur múr er á veggjum. Inngöngudyr eru m.a. á norðausturhorni kjallara. Krabbastígur 2 hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlihús en þó hafa einstaka herbergi verið leigð út. Húsið er í góðu standi og á því er nýlegt þak frá því um 2000. Það er flokkað í varðveisluflokk 1 í Húsakönnun á Norður Brekku 2015 og þar sagt [...] vel við haldið og sómir sér vel í götumyndinni (Ak.bær, Teiknist. Ark., Gylfi Guðjónsson 2015: 144). Lóðin er einnig vel gróin; sunnan undir húsinu er vörpulegt reynitré. Skemmtileg timburgirðing á lóðarmörkum við götu er setur einnig skemmtilegan svip á umhverfi hins látlausa en glæsta 87 ára steinhúss. Myndin er tekin laugardaginn 14.janúar 2017. Hér fyrir neðan má einnig sjá mynd af húsunum tveimur sem Þorsteini Þorsteinssyni og Gesti Bjarnasyni var leyft að reisa í 2. og 3.lið í fundargerð Byggingarnefndar 3.ágúst 1929; jafn st+or og sömu gerðar. Þau hafa vitanlega tekið ýmsum breytingum gegn um tíðina, hvort um sig.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 635, 3.ágúst 1929.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.9.): 49
- Sl. sólarhring: 88
- Sl. viku: 737
- Frá upphafi: 454619
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 498
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar