Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Munkaþverárstræti 7

Einn íbúa Friðbjarnarhúss, Aðalstrætis 46, í febrúar 1930 var Björn nokkur Axfjörð. P5250533Hann fékk þá útvísaða lóð við Munkaþverárstæti sem þá var við efri mörk þéttbýlis í bænum. Síðsumars fékk hann byggingaleyfi fyrir húsi 7,60x8m einni hæð með háu risi og kjallara út steinsteypu en húsið úr timbri og járnvarið. Björn gerði einnig teikningarnar af húsinu. Skömmu síðar var reist fjós og hlaða á bak við húsið og stendur sú bygging enn. Þess má geta, að Björn fékk byggingaleyfið fyrir Munkaþverárstræti 7 þann 25.ágúst 1930, en þann sama dag fæddist skoski stórleikarinn Sean Connery.

Í upphafi hefur verið húsið átt að vera járnvarið timburhús, en raunin varð sú að húsið var reist úr steinsteypu. Greinarhöfundur velti fyrir sér þeim möguleika að húsið væri forskalað en Manntal 1940 tekur af öll tvímæli um það; þar er húsið skráð sem steinsteypuhús. Munkaþverárstræti 7 er tvílyft steinsteypuhús með háu með stórum hornkvisti að framan en kvisti með einhalla þaki á bakhlið. Á suðurhlið eru svalir á rishæð og segja má að þær séu innbyggða því þekja slútir yfir þær. Svalirnar eru einnig á efri hæð og standa þær á súlum en þær eru tvöfalt lengri en svalir rishæðar, og eru þannig yfirbyggðar til hálfs. Bárujárn er á þaki hússins en krosspóstar í gluggum, nema í kvisti er sexrúðugluggi. Hann er frábrugðinn þeim sexrúðugluggum sem algengir eru, að því leitinu til, að hann er láréttur; þ.e. meiri á breidd en hæð. Á lóðinni stendur einnig einlyft bakhús með háu risi, sambyggð íbúð og bílskúr. Er bílgeymsla í norðurhluta byggingarinnar með stafn til austurs en íbúð í suðurhluta. Krosspóstar eru í gluggum bakhúss og bárujárn á þaki.

Upprunalega var bakhús fjós og hlaða, en Björn Axfjörð virðist hafa stundað einhvern búskap. Árið 1942 býður hann allavega landbúnaðartæki á borð plóg og herfi til sölu, einnig aktygi og reiðinga. (Það þarf þó alls ekki að vera samasemmerki milli þess, og að hann hafi stundað búskap nákvæmlega þarna).

Munkaþverárstræti 7 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er raunar sem nýtt en það var að mestu leyti endurbyggt um 1990, kvistur stækkaður og verönd byggð ásamt svölum og þekja lengd til suðurs. Hönnuður þeirra breytinga var Haukur Haraldsson. Bakhús var endurbyggt árið 2008 eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar og er sú framkvæmd geysi vel heppnuð. Ein íbúð er í húsinu og einnig er íbúð í bakhúsi. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi sem hluti húsaraðarinnar og tekur einnig fram, að breytingarnar fari húsinu vel. Lóðin er einnig vel gróin, þar er m.a. mikið grenitré á suðurhluta. En ofan við húsið, bak við lóðina má finna skemmtilegt grænan reit.

 

Eins og greinir hér frá að framan var gegndi bakhús hlutverki fjóss og hlöðu. P5200520Ekki er ólíklegt að skepnur sem íbúar Munkaþverárstrætis 7 héldu, hafi verið beitt á túnblett bak við húsið. Svo skemmtilega vill til, að þessi túnblettur til staðar en á bak við þessa húsaröð, nr. 3-13 er nokkuð stórt grænt svæði sem afmarkast af Munkaþverárstræti í austri, Helgamagrastræti í vestri, Bjarkarstíg í norðri og Hamarstíg í suðri. Samkvæmt lauslegri flatarmálsmælingu undirritaðs á götukorti Landupplýsingakerfisins er svæði þetta um 3500 fermetrar eða 0,35 ha. að stærð. Hvort þessi túnblettur beri nafn veit ég ekki, en tel það svosem ekki ólíklegt og eru allar upplýsingar um slíkt vel þegnar. Á fjórða áratug 20.aldar voru leigðir þarna út kartöflugarðar og mögulega eitthvað lengur. Vorið 1935 fær m.a. Júlíus Davíðsson (Hamarstíg 1) leigt þarna 250 fm ræktarland en næsta garð fengu þeir í félagi Jón Norðfjörð og Sigurður Áskelsson í Oddeyrargötu 10, ömmubróðir greinarhöfundar. Bærinn ákvað ársleigu á görðum þarna 3 krónur en setti garðleigjendum það skilyrði, að þeir skyldu “[...]á brott með allt sitt hafurtask bænum að kostnaðarlausu sé þess krafist.” (Bygg.nefnd.AK. 745; 31.5.1935). Þessi græni unaðsreitur er einnig skemmtilegur útsýnisstaður, en áður hef ég minnst á þennan reit í umfjöllun um hús við Hamarstíg. Hér er mynd sem tekin á fögru vorkvöldi eða vornóttu, skömmu eftir miðnætti 20.maí sl. Myndin af húsinu er hins vegar tekin fimm dögum síðar, á Uppstigningadag, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 642, 17.feb 1930. Fundur nr. 651, 25.ágúst 1930.

Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 745, 31.maí 1935.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal 1940

Þrjár ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar og varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 5

Vorið 1930 hugðist Friðjón Tryggvason,búsettur á Glerárbakka, fá lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, þá þriðju að austan, sunnan frá.P5250524 Erindi Friðjóns tók Bygginganefnd fyrir þann 22.apríl og komst að lagði til að “[...]mönnum sem ekki eru búsettir í bænum sje ekki leigðar lóðir fyrr en sýnt sje að þeir flytji í bæinn og geti reist sómasamleg hús þegar í stað.” (Bygg.nefnd. Ak. nr.646, 22.4.1930).

Enda þótt Glerárbakki stæði rétt norðan Glerár( h.u.b. á móts við verslunarmiðstöðina Glerártorgs í dag) líklega innan við einn kílómetra frá Munkaþverárstræti, stóð bærinn í Glerárþorpi. Og á þeim tíma tilheyrði Glerárþorp Glæsibæjarhreppi; sveitarfélagamörkin lágu um Glerá. En þannig var staðan, utanbæjarmenn fengu ekki byggingarlóðir nema að sýnt þætti að þeir væru í stakk búnir til að byggja (og hananú!). Gilti þá auðvitað einu um hvort þeir byggju 20 metra eða 50 km frá bæjarmörkunum. En mánuði síðar, 21.maí, hefur Bygginganefnd komist að þeirri niðurstöðu að téður umsækjandi geti byggt. Þá er Friðjóni leigð lóðin og byggingarleyfi fékk hann þremur vikum síðar. Fékk hann að reisa íbúðarhús steinsteypt r-steinhús, á einni hæð á kjallara og með porti og risi og miðjukvisti, 8,2x8m að grunnfleti. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson, en hann á ófáar teikningar að Akureyrskum íbúðarhúsum frá þessum tíma.

Sú lýsing sem gefin er upp í byggingarnefndarbókuninni á enn við, húsið er einlyft steinhús með portbyggðu risi og á lágum kjallara og með miðjukvisti. Í gluggum eru krosspóstar á hæð en einfaldir póstar á rishæð og í kjallara og bárujárn er á þaki. Á bakhlið er nokkuð breiður kvistur með einhalla þaki. Þar er um að ræða síðari tíma viðbót- en ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Hér er það auglýst til sölu árið 1947 í Íslendingi og þar er eigandinn Viggó Ólafsson. Þá eru í húsinu tvær íbúðir og líklega hefur svo verið frá upphafi. Þær gætu vel hafa verið fleiri á einhverjum tímapunkti. Aftur er það auglýst til sölu í ársbyrjun 1964 og þá er þar sögð átta herbergi og í húsinu geti verið tvær litlar íbúðir, algerlega aðskildar. Sá sem auglýsir þar er Tryggvi Þorsteinsson, skólastjóri og skátaforingi með meiru. Hann bjó ásamt fjölskyldu í þessu húsi um árabil og þarna bjuggu einnig foreldrar hans Þorsteinn Þorsteinsson gjaldkeri og frumkvöðull í fjallaferðum og Ásdís Þorsteinsdóttir. Þeir feðgar Tryggvi og Þorsteinn hafa líkast til lagt af stað héðan í þann frækilega björgunarleiðangur sem þeir leiddu í september 1950 á Vatnajökul eftir Geysisslysið. Munkaþverárstræti 5 er reisulegt hús og í góðu standi. Það skemmdist nokkuð í bruna fyrir um fjórum áratugum og var líkast til endurbyggt að stórum hluta eftir það. Húsið er hluti skemmtilegrar raðar steinsteypuklassískra húsa syðst við Munkaþverárstrætið og Húsakönnun 2015 metur það til varðveislugildis sem hluti þeirrar heildar. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin að kvöldi sl. Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 646, 22.apríl 1930. Fundur nr. 648, 21.maí 1930. Fundur nr. 649, 14.júní 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentuð og óútgefin og varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 3

Gleðilega Hvítasunnu, kæru lesendur og landsmenn allir. Hús dagsins þennan Hvítasunnudag stendur við Munkaþverárstræti, en sú ágæta gata er á neðri Brekkunni, og liggur til norðurs út frá Hamarstíg, neðarlega. Hún liggur raunar næst ofan við neðanverða Oddeyrargötu og Brekkugötu og nær allt norður að Hamarkotsklöppum. Það er þó tæpast hægt að segja hún liggi samsíða þessum götum þar eð þær götur skáskera brekkuna upp í mót en Munkaþverárstræti liggur í mjúkum boga norður eftir þvert á brekkuna. 

Árið 1930 fékk Sigurjón Sumarliðason landpóstur frá Ásláksstöðum í Kræklingahlíð leigða lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, vestan megin norðan hornlóðar P5250526[við Hamarstíg]. Þá fékk Sigurjón leyfi til að reisa íbúðarhús á lóðinni. 8,75x8,25 að grunnfleti, eina hæð á kjallara með háu risi. Breyta þurfti teikningum vegna kjallara að vestan, en ekki kemur fram í hverju þær breytingar skyldu felast. Húsið skyldi vera steinsteypt með tvöföldum veggjum. Því má gera ráð fyrir, að útveggir hússins séu sérlega þykkir. Teikningar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

Munkaþverárstræti 3 er reisulegt steinsteypuhús, af mjög algengri gerð þess tíma, einlyft á háum kjallara og með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti; steinsteypuklassík. Framan á kvisti má sjá byggingarárið letrað með steyptum stöfum- en slíkt virðist ekki hafa verið óalgengt á þessum árum. Á þó nokkrum húsum má sjá ártalið 1930 á kvistum en einnig ártöl á bilinu 1926-29. Á norðurhlið er forstofubygging og steyptar tröppur upp að inngöngudyrum með skrautlegu steyptu handriði. Forstofubyggingin er með flötu þaki, mögulega hefur þar verið gert ráð fyrir svölum. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Kjallaraveggir eru með hrjúfri múrklæðningu; spænskum múr en veggir eru múrsléttaðir.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, hér má sjá það auglýst til sölu árið 1961 en þá er það sagt “tvær íbúðarhæðir og kjallari” og seljist í einu eða tvennu lagi. Þarna bjó sem áður segir Sigurjón Sumarliðason ásamt konu sinni Guðrúnu Jóhannsdóttur, en hann gerðist Vesturfari seint á 19.öld- en sneri til baka fimm árum síðar. Hann mun hafa verið þekktur og annálaður fyrir svaðilfarir og hetjudáðir í póstferðum sínum. Enda má nærri geta hvernig ferðir milli landshluta hafa verið þegar Sigurjón fór sínar póstferðir: Fæstar ár voru brúaðar, farskjótinn hross og veðráttan og færðin sú sama og gerist í dag. Þarna bjó einnig á fjórða áratug 20.aldar Páll Halldórsson, skrifstofumaður, sem meðal annars starfaði sem erindreki Fiskifélags Íslands. Í upphafi hafa íbúðirnar líklega verið á hæð og í risi. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og sömu sögu er að segja af lóðinni. Sunnan og vestan hússins stendur snoturt og grenitré. Húsið er hluti af skemmtilegri röð steinsteypuklassískra húsa nr. 3-13 og fellur undir varðveisluflokk 1 í Húsakönnun 2015, sem hluti þeirrar raðar. Myndin er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 644, 17.mars 1930. Fundur nr. 645, 31.mars 1930.

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 11

Hríseyjargötu 11 mun vera byggð árið 1933 af Þóri Sigurþórssyni. P5010524Í janúar það ár sækir Gunnar Guðlaugsson um lóð fyrir hans hönd við Hríseyjargötu, næst norðan við hús Lárusar Hinrikssonar (þ.e. Hríseyjargötu 11). Um vorið sækir Þórir um að fá að reisa hús á lóðinni, en er gerður afturreka vegna ófullkominna teikninga og þess, að hann hugðist innrétta íbúð í kjallara. Það gat bygginganefnd ekki fallist á, en á þessum árum voru kjallaraíbúðir bannaðar eða a.m.k. mjög illa séðar. En þann 15.júní 1933 heimilar Bygginganefnd Þóri Sigurþórssyni að reisa hús á lóðinni, timburhús á steyptum kjallara, 7x7,6m að stærð. Ekki fylgir sögunni hver teiknar húsið en upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar finna teikningar Guðmundar Hermannssonar að breytingu hússins árið 1957 en þar er líklega um að ræða kvistbyggingu á vesturhlið (bakhlið) þar sem innrétta á eldhús. Þá er eigandi hússins Gunnlaugur Friðriksson.P5010525

Hríseyjargata 11 er einlyft timburhús á háum kjallara með háu risi. Kvistur með einhalla aflíðandi þaki er á bakhlið hússins auk stigabygginga og inngönguskúrs. Veggir eru múrhúðaðir (forskalaðir) en líklega hefur húsið verið bárujárnsklætt í upphafi. Í gluggum eru einfaldir þverpóstar með þrískiptu efra fagi. Sem áður segir er kvistur frá 1957, eftir teikningum Guðmundar Hermannssonar og mögulega hefur húsið verið forskalað á svipuðum tíma. Húsið hefur sl. Áratugi verið einbýlishús en í upphafi voru íbúðir fleiri, líkast til ein á hæð og önnur í risi.

Þarna bjuggu um 1940 þau Olgeir Júlíusson bakari og Sólveig Gísladóttir Olgeir byggði árið 1900 á Barði, eða öllu heldur, flutti þangað húsið Auroru sem danskir vísindamenn höfðu notað í norðurljósarannsóknum Sonur þeirra var Einar, alþingismaður og verkalýðsforkólfur. Mögulega hafa Olgeir og Sólveig búið á neðri hæð hússins, en á rishæðinni bjuggu árið 1938 systkinin Guðrún, Sigurborg og Snæbjörn Björnsbörn. Guðrún lést síðla árs 1938 og virðist systir hennar hafa lent í einhvers konar deilum við Svein Bjarnason framfærslufulltrúa varðandi kistulagningu hennar. Þess má geta, að þarna stóðu öll spjót að Sveini vegna meintrar aðfarar hans varðandi kistulagningu og útför Guðrúnar Oddsdóttur, bæjarstyrkþega. Ég hyggst ekki rekja það mál hér en þessi skrif Sveinbjargar eru ágætis heimild um aðstæður innandyra í Hríseyjargötu 11. En hér rekur Guðrún í löngu máli aðstæður til líkkistuflutninga ofan af rishæð hússins og hefur sér til fulltingis fjóra virta iðnaðarmenn, Hermund Jóhannesson, Hermann Jóhannesson, Pál Friðfinnsson og Þorstein Stefánsson. Þeir votta m.a. að í stigauppgöngu séu svo þröngar beygjur að ógerningur sé að koma líkkistu þar niður nema reisa hana upp á rönd. Einnig kemur þarna fram að hæð upp að risglugga sé 5 1/2 metri. En Hríseyjargata 11 er reisulegt hús og stæðilegt og virðist í góðri hirðu og hefur hlotið ýmsar endurbætur undanfarin ár, t.d. Er verið að endurnýja þakklæðingu þegar þessar myndir eru teknar þann 1.maí 2017.

 

Heimildir:  

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“(Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur 690, 23.jan 1933, nr. 698, 1.maí 1933 og nr. 701, 15.júní 1933.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Klapparstígur - Krabbastígur

Ég reyni reglulega að gera færslurnar aðgengilegar gegn um einn tengil. Hér eru tenglar á greinar sem ég skrifaði í mars og apríl sl. um tvær stuttar götur á Neðri- Brekkunni, Klapparstíg og Krabbastíg.

Klapparstígur. Hinn Akureyrski Klapparstígur er mun styttri en nafni hans í miðborg Reykjavíkur, en við þann fyrrgreinda standa einungis fjögur hús. Húsin standa öll sömu megin, en handan götu eru áhorfendabekkir Akureyrarvallar.  

Klapparstígur 1 (1930)

Klapparstígur 3 (1933)

Klapparstígur 5  (1938)

Klapparstígur 7 (1967)

Við Krabbastíg standa aðeins þrjú hús:

Krabbastígur 1 (1930)

Krabbastígur 2 (1930)

Krabbastígur 4 (1936)

Meðalaldur húsa við Krabbastíg mun býsna drjúgur, eða um 83,5 ár, þar eð húsin sem við hann standa eru 81 og 87 ára. 

 


Úr myndasafninu: Svipmyndir af Fálkafelli

Ég á býsna margar húsamyndir, líkt og lesendur þessarar síðu hafa orðið varir við. Þær telja víst um 900 hefur mér sýnst - en af sumum húsum á ég fleiri en eina mynd og jafnvel fleiri en tvær. En hvert er það hús sem ég á flestar myndir af, hvaða hús hef ég ljósmyndað oftast? Því er fljótsvarað. Það er nefnilega skátaskálinn Fálkafell á norðaustanverðum Súlumýrum. Ég hef ekki tölu á þeim útilegum sem ég hef farið þangað uppeftir sl. 22 ár sem ég hef verið félagi í skátafélaginu Klakki og sl. tíu ár hefur myndavélin ætíð verið með í för. Þá hef ég oft brugðið mér í hjól- eða göngutúra uppeftir með myndavélina. Það er sannarlega við hæfi að birta hér myndaþátt um Fálkafell í dag, 22.maí 2017 því í dag eru liðin 100 ár frá stofnun fyrstu skátasveitarinnar á Akureyri. (Líklega verður kominn 23.maí þegar þessi færsla birtist) Var það danskur maður, Viggo Hansen (síðar Öfjörd) sem stóð fyrir stofnun sveitarinar. Fálkafell hefur drjúgan hluta þessarar aldar verið órjúfanlegur hluti skátastarfs á Akureyri, en skálinn var byggður aðeins hálfum öðrum áratug eftir upphaf skátastarfs í bænum. Elsti hluti skálans er byggður 1932 (skálinn hefur raunar verið stækkaður og breytt verulega í a.m.k. fjórum áföngum) og hefur hann verið í samfelldri notkun þessi 85 ár. Mun Fálkafell því vera elsti útileguskáli landsins sem enn er í notkun- og ætti með réttu að njóta einhverrar friðunar. Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið af Fálkafelli, og einnig innandyra.

Hér er Fálkafell að sumarlagi, að kvöldi 9.júlí 2009. P7090026 Þess má geta, að ég hafði verið skáti í fimm ár og farið a.m.k. tíu útilegur í Fálkafell áður en ég kom þangað að sumri til.   

 

 

 

 

 

 

 

Það getur oft orðið snjóþungt við Fálkafell, en skálinn stendur í 370m hæð. Þessar myndir eru teknar þann 29.mars 2014

P3290078 P3290087

Að sjálfsögðu nýtti ég tækifærið þarna og brá mér upp á þak. Hér má sjá skemmtilegt sjónarhorn, Akureyri með skorstein Fálkafells í forgrunni.

P3290085

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér P9180463er horft á skálan frá suðvestri í haustsólinni þann 18.sept 2016. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru komnar myndir frá vetri, sumri og hausti og þá er sjálfsagt að bæta við mynd, tekinni að vorlagi- nánar til tekið þann 13.maí 2006.

P5130012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru skátar undir suðurvegg Fálkafells að elda eitthvað girnilegt, undir stjórn Árna Más Árnasonar, í febrúar 2007. Glugginn hægra megin er á eldhúsinu, en sá hluti hússins mun vera sá elsti. Glugginn vinstra megin er hins vegar á viðbyggingu frá 1965, en þá var skálinn lengdur til vesturs. 

P2240024

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Steinsnar norðan Fálkafells stendur eldiviðarskúr/kamar sem sjá hægra megin á þessari mynd, sem tekin er 6.mars 2016....

P3060344

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

...þá er einnig brunnhús u.þ.b. 70 metrum norðan skálans og þangað er allt neysluvatn sótt. Það geta aldeilis orðið átök þreyttum og stuttfættum skátum í mittisdjúpum snjó, að ekki sé talað um í kolbrjálaðri stórhríð í ofanálag. Þessir skátar fóru hins vegar létt með að sækja vatnið þennan góðviðrisdag 28.febrúar 2015.

 P2280025

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En nú skulum bregða okkur inn fyrir...

Hér má sjá svipmyndir af svefnlofti, borðsal og eldhúsi. Eins og sjá má eru þetta sérlega geðþekkar vistarverur.

P2280035PA250050

 

 

 

 

 

P3060351

P3060349

Skálinn er kyntur með kabyssu sem tengist inn á miðstöðvarkerfi. Ný kabyssa var sett upp haustið 2014 (mynd til vinstri) en forveri hennar var orðinn ansi slitinn- en hafði aldeilis skilað sínu. Kyndiklefinn- sem kallast yfirleitt kabyssuherbergi er norðanmegin í húsinu, hinu megin við eldhúsið. Sá hluti skálans mun vera að stofni til bíslag sem byggt var við upprunalegt hús um 1943. Sá hluti hússins var lengst af forstofa eða allt þar til núverandi forstofubygging var byggð 1982. 

P2280033PA250051

Fálkafell hefur töluvert breyst í áranna rás. Hér má sjá mynd af skálanum eins og hann leit út á fjórða áratugnum. 

Og svona leit hann út eftir fyrstu viðbyggingu, 1943. ATH. MYNDIN ER SPEGLUÐ. Núverandi kabyssuherbergi mun vera í bíslaginu sem er vinstra megin á mynd 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 2

Sl. vikur hef ég tekið fyrir elstu og neðstu hús Hamarstígs en færi mig nú niður á Oddeyri í umfjölluninni, nánar tiltekið að hinu 94 ára gamla steinhúsi við Hríseyjargötu 2.

Hríseyjargata er ein margra þvergatna sem liggja til norðurs út frá Strandgötu. P9170457Hún liggur á milli húsanna Strandgötu 39 og 41. Á bakvið síðarnefnda húsið stendur einmitt Hríseyjargata en húsið var upprunalega reist á baklóð þess. En Hríseyjargötu 2 reisti Kristján Jónsson bakari í Strandgötu 41 árið 1923. Húsið var tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Húsið var í upphafi hænsnahús, fjós og geymsla enda þótt byggingarleyfið væri fyrir íbúðarhúsi. Húsið var innréttað sem íbúðarhús árið 1937 og gerði Tryggvi Jónatansson teikningar að þeirri breytingu. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið í upphafi.

Hríseyjargata 2 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, með perluákasti á veggjum og bárujárni á þaki og krosspóstum í gluggum. Stafn hússins snýr að götu og snýr sá til vesturs en inngangar eru á suðurhlið hússins. Steyptar tröppur eru upp að inngangi á efri hæð, og áfastur þeim er mikill timburpallur. Norðanmegin er bílskúr og geymsluskúr sambyggður húsinu. Á teikningum frá 1937 eru geymslur á neðri hæð (sem er raunar að nokkru niðurgrafin) og íbúð á þeirri efri. Síðar var innréttuð íbúð á neðri hæð og hélst sú íbúðaskipan fram á 10.áratuginn. Skömmu fyrir 1990 var húsið tekið í gegn að utan, það múrhúðað og málað, eins og segir í Húsakönnun um Oddeyri 1990 (sbr.Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995). Húsið var einnig allt endurnýjað að innan um 1998-2000 og um svipað leyti var sólpallurinn byggður við uppgöngu á efri hæð. Húsið er því í góðu standi, að mörgu leyti sem nýtt. Lóðin er ekki stór en engu að síður vel nýtt og skipulögð. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið ekki talið hafa varðveislugildi en “geta orðið til prýði í framtíðarbyggð á Oddeyri” (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 95) Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir það. Myndin er tekin 17.september 2016.

 

 

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Hamarstígur 8

 

Á horni Hamarstígs og Helgamagrastrætis, númer 8 við fyrrnefnda götu stendur einlyft steinhús. Það er frábrugðið húsunum neðan við þ.e. 2-6 sem eru stór steinsteypuklassík með háu risi og miklum kvistum. Nr. 8 er hins vegar dæmigert funkishús; ferkantað með horngluggum og flötu þaki. Þessi hús eru reist sitt hvoru megin við innreið funkisstíls í Akureyrskri húsagerði, 2-6 á árunum 1930-32 en nr. 8 var fullbyggt 1936.P1210484

En árið 1935 fékk Gunnar R. Pálsson byggingarleyfi á horni Helgamagrastrætis og Hamarstígs, næst vestan við hús Jóhanns Frímann og Kristins Þorsteinssonar, þ.e. Hamarstígs 4. Húsið skyldi vera ein hæð úr steinsteypu með kjallara undir hálfu húsinu og með flötu þaki. Gunnar teiknaði húsið sjálfur, en hann teiknaði einnig Hamarstíg 3 fyrir Ásgrím Garibaldason fáeinum árum áður. Ef rýnt er í teikningar, má sjá upprunalega herbergjaskipan m.a. dagstofu til suðurs og anddyri og eldhús í norðvesturhorni. Það er beint ofan við þvottahús, kyndiklefa og kolageymslu, en auk þeirra rýma er geymsla í kjallara, sem aðeins er undir hálfu húsinu- í samræmi við leyfi Bygginganefndar. En þarna er einnig teiknaður halli á þaki, enda eru fullkomlega flöt þök ekki sérlega hentug við íslenskar aðstæður (og raunar á það við víðar í heiminum). Þar kemur fram að þakhallinn skuli ekki vera minni en 1:70.

Hamarstígur 8 er einnar steinsteypuhús á kjallara, og virðist að mestu leyti óbreytt frá fyrstu gerð m.v. teikningar. Húsið er raunar tvær álmur, norðurhluti breiðari til vesturs en stofuhluti til suðurs eilítið mjórri. Í kverkinni á milli suður- og norðurhluta eru inngöngudyr og steyptar tröppur og eru þær yfirbyggðar, þ.e. þekja hússins nær yfir þær. Horngluggar, eitt einkenna funkisstefnunar eru á nokkrum stöðum, m.a. á öllum hornum til suðurs, en í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar. Skorsteinn hússins er stór og voldugur og má segja að hann setji ákveðinn svip á húsið.

Gunnar Pálsson, sá er teiknaði og byggði húsið bjó ekki lengi í húsinu, en 1937 er hann fluttur til Reykjavíkur. Húsateikningar hafði hann ekki að aðalstarfi a.m.k. ekki til langs tíma en starfaði m.a. á Ríkisútvarpinu á fyrstu árum þess. Hann var mikilvirkur söngvari, og söng með Karlakórnum Geysi meðan búsettur hér, en með Karlakór Reykjavíkur eftir að hann fluttist hafði numið. Hann varð líklega þekktastur fyrir flutning sinn á laginu “Sjá dagar koma”. (Akureyrarbær, Teiknistofa, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 20) Gunnar hafði numið söng í Bandaríkjunum og fluttist þangað síðar og bjó þar til æviloka 1996. Sama ár og Gunnar fluttist vestur, 1943, flytur í húsið Sníðastofa Dómhildar Skúladóttur og þremur árum síðar auglýsir Sigvaldi Þorsteinsson húsið til sölu. Síðan hafa margir átt húsið og búið þar, en öllum eigendum og íbúum hefur auðnast að halda húsinu vel við því það virðist í fyrirtaks hirðu. Það hefur lítið sem ekkert verið breytt eða stækkað frá upphafi, ef nokkuð. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, líkt og gengur og gerist með flestallar lóðir á neðri Brekku og á lóðarmörkum er enn upprunaleg steypt girðing með skrautlegu járnavirki, sem er líkt og húsið í frábærri hirðu. Samkvæmt Húsakönnun 2015 er húsið í varðveisluflokki 1, og þá sem hluti funkisraðar við Helgamagrastræti. Þessi mynd er tekin þann 21.janúar 2017.

 

Á þessari slóð, á Soundcloud síðu Guðmundars Karls Einarssonar, má heyra flutning Gunnars Pálssonar á þessu valinkunna lagi Sigurðar Þórðarsonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, Sjá dagar koma, ásamt karlakór Reykjavíkur. Undirleikari er Fritz Weishappel. Hljóðritunin er gerð 1937 eða tveimur árum eftir að Gunnar teiknaði og byggði Hamarstíg 8.

 

Sjá dagar koma

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.


Davíð Stefánsson

 

Heimildir: 

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan,neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinnineðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur 755, 23.ágúst 1935, nr. 756 30.ágúst 1935.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Hamarstígur 3

 

Hlíðargata nefnist gata sem liggur, samsíða Oddeyrargötu, til suðurs frá Hamarstíg. Á horni þeirra tveggja gatan stendur reisulegt steinsteypuhús, Hamarstígur 3.P3180518

Síðsumars 1933 fékk Ásgrímur Garibaldason úthlutað byggingarlóð við Hamarstíg, næst vestan við hús Júlíusar Davíðssonar (þ.e. Hamarstígur 1). Í bókunum Byggingarnefndar er Ásgrímur titlaður sem bifreiðareigandi- sem bendir óneitanlega til þess að bílaeign hafi ekki verið sérlega almenn á þessum árum- sem hún var sannarlega ekki. Teikningarnar að húsi Ásgríms gerði Gunnar R. Pálsson. Þann 25.október 1933 fékk Ásgrímur byggingarleyfi fyrir húsi á lóð sinni; einni hæð á kjallara með flötu járnþaki, 9,5x9m. Á upprunalegum teikningum er gert ráð fyrir tveimur íbúðum, sú í kjallara þó nokkru minni en íbúð á hæð en í kjallara eru einnig þvottahús og geymslur, ásamt kyndiklefa og kolageymslu.

Hamarstígur 3 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með flötu þaki. Væntanlega er eilítill halli á þakinu, en kantur stendur hærra svo þakið virðist flatt. (Algjörlega flöt þök eru svosem ekkert sérlega sniðug við íslenskar aðstæður). Kantur er skreyttur steyptum ferningum sem gefa húsinu óneitanlega skemmtilegan svip og veggir eru klæddir spænskum múr. Gluggar eru með einföldum þverpóstum með margskiptu efra fagi. Húsið er nánast ferningslaga nema hvað lítil forstofuálma, jafn há húsinu er til vesturs. Þar eru inngangar, annars vegar á neðri hæð til vesturs en þar er einnig inngöngudyr á efri hæð. Þangað liggja steyptar tröppur með skemmtilegu, tröppulaga handriði. Á teikningum er gert ráð fyrir að stiginn sé á tveimur pöllum og neðri tröppur snúi mót vestri. Mögulega hefur svo verið í upphafi en hugsanlega hefur því verið breytt við byggingu. Í Húsakönnun 2015 er húsið talið undir áhrifum frá Funkisstefnu, sem var að ryðja sér til rúms á síðari hluta 4.áratugarins. Húsið er ekki ósvipað t.d. Klapparstíg 3 að gerð en þar er einnig um að ræða ferningslaga hús, klætt spænskum múr og með skrautbekk á þakbrún.

Lóðin er vel gróin, og þar ber kannski hæst grenitré mikið sunnan og vestan við húsið. Fljótt á litið sýnist mér þetta geta verið Sitkagreni, einhvern tíma skildist mér að helsta einkenni þess væru uppsveigðar greinar, brattari efst og það væri áberandi keilulaga. Tréð er líklega áratuga gamalt og setur mikinn svip á umhverfið. Það gerir húsið einnig, en það er sérlega reisulegt og í góðu standi. Svo er að sjá, ef húsið er borið saman við teikningar að það sé algjörlega óbreytt frá fyrstu gerð þ.e. ytra byrði þess. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 18.mars 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundir nr. 709, 7.sept 1933 og nr. 710, 25.okt. 1933.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Hamarstígur 1

Vorið 1933 fékk Júlíus Davíðsson byggingarleyfi á lóð sinni við Hamarstíg sunnanverðan. Hann hafði þremur árum áður reist húsið Oddeyrargötu 22 í félagi við Ásgeir P3180519Kristjánsson. Fékk Júlíus leyfi til að reisa hús að stærð 7,8x6,6 m, ein hæð úr timbri, forskalað á háum kjallara. Júlíus mun þó ekki hafa flutt inn í húsið (sbr. Ak.bær, Teiknistofa Arkikekta, Gylfi Guðjónsson, 2015: 58). Hér má sjá í Degi frá ársbyrjun 1934 hvar Júlíus Davíðsson auglýsir “nýtt hús á góðum stað í bænum”. Líklegra er þó að Júlíus hafi leigt húsið, því í júní 1935 veitir Bygginganefnd honum leyfi til að reisa pall úr steinsteypu austan undir húsinu að Hamarstíg 1. Árið 1955 var húsið stækkað til vesturs, eftir teikningum Ásgeirs Valdimarssonar. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur.

Hamarstígur 1 er einlyft steinhús á háum kjallara og með valmaþaki, í tveimur álmum. Sú eystri er eldri og snýr A-V en vestari álman snýr N-S. Undir henni er innbyggð bílgeymsla. Á austurhlið er sólskýli. Inngangur er á austurhlið og stál/timburtröppur upp að þeim- og steyptar tröppur að götu. P3180520Krosspóstar eru í gluggum og á norðurgafli vesturálmu er stór gluggi “stofugluggu” með 9 smárúðum. Sem áður segir, mun Júlíus ekki hafa flutt inn í húsið, en í marslok 1934 auglýsir Aðalheiður Halldórsdóttir, þarna búsett, að hún saumi alls konar kvenna- og barnafatnað.

Það getur verið gaman að rýna í þessar blaðaopnur sem varðveittar rafrænt eru á timarit.is. Á þessari tilteknu blaðsíðu, þar sem svo vill til að Hamarstígur 1 kemur fyrir á einum stað má m.a. sjá auglýst slægjulönd bæjarins; hólmar og flæðar, auglýsta til leigu fyrir komandi sumar ásamt spildum í Kjarnanýrækt sem leigð eru til tveggja ára. Þær lendur hafa að öllum líkindum verið á svipuðum slóðum og nú er Kjarnaskógur. Þá má sjá auglýstan þarna saltfisk hjá Eggerti Einarssyni og Verslunin Esja og Kaupfélag Verkamanna bjóða niðursoðna ávexti, fyrrnefnda verslunin býður þrjár tegundir en Kaupfélagið fjórar. Þarna má einnig sjá útvarpsdagskrána fyrir dagana 27. -31.mars 1934 og hún er einföld: Dagskráin stendur að öllu jöfnu frá 19-21.30, erindi (m.a. flutt af Sigurði Nordal og Jóni Eyþórssyni) og upplestrar en messur á fimmtudag og föstudag, enda um að ræða Skírdag og Föstudaginn langa. Barnatími er kl. 18.45 á laugardeginum og leikþáttur kl. 20.30 sama kvöld. En nú er ég kominn töluvert út fyrir efni þessa pistils.

Árin 1934-35 eru auglýstir þarna á vegum fundir á vegum Voraldar . Ekki fylgir sögunni hvaða félagsskapur umrædd Voröld er. Hvort hér sé um að ræða Kvenfélagið Voröld veit ég ekki. Það ágæta kvenfélag var stofnað 1933 af 24 konum og kom að mörgum góðum málefnum og líknarmálum - og gerir enn undir nafninu Aldan/Voröld. Kvenfélagið Voröld starfaði hins vegar í Öngulsstaðahreppi og því e.t.v. langsótt að ætla, að Voraldarkonur hafi fundað á Brekkunni á Akureyri. (Hér eru upplýsingar frá lesendum vel þegnar, ef einhver lumar á slíkum).

Hamarstígur 1 er stórbrotið og snyrtilegt hús. Það er byggt í áföngum og greinileg skil á milli upprunalegs hús og yngri bygginga, viðbyggingar frá 1955 og sólskála frá 9.tug 20.aldar. Það er alls ekki þannig, að viðbyggingar spilli útliti, heldur falla allir húshlutar hver að öðrum og útkoman hinn glæsilegasta. Lóðin er vel gróin og ber þar helst á miklum reynitrjám bæði framan við austanmegin og vestan húss. Þá er á lóðarmörkum upprunalegur steyptur veggur með skrautlegu járnvirkisem talin er varðveisluverður skv. Húsakönnun 2015. Ein íbúð mun í húsinu. Myndirnar eru teknar þann 18.mars 2017.

 

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr.699, 9.maí 1933. Fundur nr.746, 7.júní 1935.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P6220002
  • IMG_3739
  • IMG_3753
  • IMG_3712
  • IMG_3713

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.9.): 36
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 817
  • Frá upphafi: 454537

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 563
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband