Færsluflokkur: Bloggar

"Hús dagsins" 14 ára

Það var þann 25. júní árið 2009 að ég ákvað að birta mynd sem ég átti af Norðurgötu 17, Steinhúsinu, inn á þessa síðu hér, sem ég hafði tekið í notkun þremur dögum fyrr. Ekki lét sá pistill mikið yfir sér: 

P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

(Að auki var einhver formáli eða lokaorð) 

Textinn var frekar ætlaður til að styðja við myndirnar. En allt vatt þetta upp á sig, greinarnar urðu lengri og ítarlegri eftir því sem ég komst í viðameiri heimildir. Árið 2009 hélt ég t.d. að Héraðsskjalasafnið væri ekki opið almenningi nema í einhverjum sérstökum tilfellum, timarit.is þekkti ég ekki (veit ekki hvort það var til þá) og vefur héraðsskjalasafnsins var eflaust ekki með sama hætti og nú. Auk margs annars sem nú eru mikilvægustu heimildir við þessi skrif. Þá hafa ótal nýjar bækur og húsakannanir komið út á þessum 14 árum.Þessa sögu hef ég eflaust rakið nokkrum sinnum hér. En venjan er sú, að gera eitthvað hér á vefnum á afmælinu. Að þessu sinni ætla ég að birta nokkur sýnishorn frá hverju ári fyrir sig. 

2009:

Hafnarstræti 96. Birtist 21. ágúst.

2010:

Lundargata 11. Birtist 5. mars. 

2011:

Aðalstræti 74. Birtist 9. janúar. 

2012:

Sláturhús KEA á Oddeyrartanga. Birtist 18. nóvember

2013:

Aðalstræti 72. Birtist 4. ágúst. 

2014:

Lækjargata 11a. Birtist 7. október.

2015:

Goðabyggð 7; áður Vesturgata 9 eða Silfrastaðir. Birtist 8. júlí. 

2016:

Oddeyrargata 38. Birtist 9. september.

2017:

Hamarstígur 8. Birtist 3. maí.

2018:

Hríseyjargata 15. Birtist 6. desember. 

2019:

Holtagata 11. Birtist 5. apríl. 

2020:

Skipagata 8. Birtist 19. júní 

2021:

Grímsstaðir í Glerárþorpi. Birtist 31. júlí. 

2022:

Eyrarvegur 17-19. Birtist 27. mars.

2023:

Grund II. Birtist 9. júní.

Þess má geta, að nýir og ítarlegri pistlar eru væntanlegir um flest þeirra húsa, sem ég tók fyrir hér á síðunni árin 2009-11. Þeir eldri fá að varðveitast hér, á öldum veraldarvefjarins, sem börn síns tíma. Frá vorinu 2022 hafa skrifin hér einnig birst á vefnum akureyri.net.  Og svo kannski stærstu tíðindin: Á næstu vikum eða jafnvel dögum er bók væntanleg í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur, fv. prófessor.  Nánar síðar. 


Meðmæli: Eyðibýli á RÚV

Einn er sá sjónvarpsþáttur, sem sýndur hefur verið síðustu vikur á RÚV, og nokkur undangenginn sumur, sem ég finn mig knúinn til að hrósa. En það eru þættirnir Eyðibýli á RÚV. Þættirnir,í umsjá Guðna Kolbeinssonar, eru sérlega áhugaverðir, fræðandi og skemmtilegir. Umfjöllunin lágstemmd og afslöppuð. Myndatakan og sjónarhornin á myndefnið eru hreinlega óborganleg. Takk fyrir. laughing


Hús dagsins: Grund I

Á Grund standa tvö íbúðarhús, sem stórbóndinn og athafnamaðurinn Magnús Sigurðsson, kenndur við staðinn reisti, það eldra frá 1893 og það yngra byggt 1910. Magnús hafði á barnsaldri heillast af þessari fornu stórjörð og einsett sér að eignast hana, þegar hann yrði stór. Og af því lét hann verða árið 1873, þá 26 ára gamall. Hann keypti þá hálfa jörðina en síðar eignaðist hann allt Grundarland. Magnús bjó á Grund í ríflega hálfa öld, til æviloka, og stóð fyrir mikilli uppbyggingu á jörðinni og hafði þar mikil umsvif; verslunarrekstur, skólahald, auk þess sem ýmsar samkomur og fundir sveitarinnar fóru fram á Grund. Það var árið 1909 sem hann hóf að byggja hús sunnan við íbúðarhúsið, við vesturjaðar kirkjugarðsins. Snemmsumars 1910 sá fyrir endann á verkinu.  En daginn sem síðar varð þjóðhátíðardagur Íslands reið stóráfall yfir.IMG_0584

17. júní, sem löngum hefur verið tengdur miklum hátíðahöldum hjá íslensku þjóðinni, var aldeilis ekki hátíðlegur hjá Magnúsi á Grund og hans fólki árið 1910. Um hádegisbilið var nefnilega stórbruni á Grund: Nýjasta stórvirki Magnúsar, stórhýsi, sem þjóna átti sem sláturhús og samkomuhús brann til ösku á um tveimur klukkustundum. Eldsupptökum er lýst nákvæmlega í ævisögu Magnúsar: [...]Einn öðlingsmaður sem vann að smíðum við bygginguna, kveikti í pípu sinni og varpaði frá sér eldspýtunni. En neisti frá henni lenti í skraufþurri spónahrúgu, sem greip logann, þegar smiðurinn sneri baki að, og fyrr en varði á andartaki hafði spónahrúgan sogað logann í sig, svo að ekkert varð við ráðið – eldurinn læsti sig í þurrviðinn í þiljunum með heiftaráfergju. Heimilisfólk sótti vatn í lækinn og skvetti á og fólk af nálægum bæjum dreif einnig að og tók til við slökkvistarf Vatnsföturnar máttu sín hins vegar lítils: En brátt var ljóst að við ofurefli var að etja, þakið féll og síðan útveggir og þar sem fyrir hádegi var glæsileg bygging, var nú rúst með brennandi sprekum sem fallið höfðu á steingólfið. MenIMG_0590n voru hljóðir og ráðvana. Smiðurinn, sem hafði orðið fyrir því að missa neistann lausan, fékk taugaáfall  (Gunnar M. Magnúss 1972: 238-239).  Það fylgir þó ekki sögunni, hvort umræddur smiður hafi hætt pípureykingum. Ljóst var að tjónið var mikið og það sem verra var, húsið hafði ekki verið vátryggt. Skemmst er frá því að segja, að Magnús hóf endurbyggingu síðar um sumarið upp af steingrunninum. Og haustið 1910 var kjallarinn nýttur sem sláturhús og efri hæðin innréttuð. Nú var mestallt byggt úr steinsteypu, líklega eitt fyrsta stóra steinsteypuhús í hreppunum framan Akureyrar. Og hið endurbyggða hús stendur enn og nefnist Grund I.

       Grund I stendur lítið eitt sunnan við Grund II og um 65m sunnan við kirkjuna. Að Grund liggur um 170m löng heimreið frá Eyjafjarðarbraut vestri en frá miðbæ Akureyrar eru um 21 kílómetri að Grund.  Grund I er einlyft steinhús á háum steinkjallara og með háu valmaþaki. Lítið eitt norðan við miðja vesturhlið er kvistur og undir honum inngöngutröppur. Á austurhlið er einnig kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Veggir virðast klæddir múrplötum, svokölluðum „steníplötum“ en bárujárn er á þaki. Ónákvæm mæling á grunnfleti (map.is) er um 10x24m. Grund I var metið til brunabóta árið 1933 og var þá lýst á þennan hátt: Íbúðarhús, steinsteypt. Ein hæð á háum kjallara. Kvistur á þaki. Á aðalhæð 9 herbergi og tvær forstofur. Kjallari í 7 hólfum. Gólf yfir kjallara er steinsteypt. Einn steinveggur um þvert hús, á aðalhæð og kjallara  (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.24). Mál hússins voru sögð 16,6x8,8m og 6,9m hátt en einnig er skúr við húsið 6,6x8,8m og hæð skúrsins sögð 2,7m. Mögulega er hér um að ræða syðsta hluta hússins, sem síðar hefur verið hækkaður en það kemur heim og saman við það, að húsið gæti verið 23,5m á lengd. Húsið var kynt með miðstöð í kjallara og steinolía til ljósa. ÖllP71520220715_150856 (26) skilrúm og veggir úr timbri nema steinveggur í miðju. Fram kemur, að loft yfir kjallara sé steinsteypt. Húsið er þannig með fyrstu húsum á Íslandi með steyptri plötu milli hæða en allt fram undir miðja 20. öld voru steinhús yfirleitt byggð þannig, að aðeins útveggir voru steyptir en veggir og loft milli hæða úr timbri.

       Upprunalega var húsið Grund I byggt sem fundahús eða samkomuhús með sláturhúsi, fjárrétt og vörugeymslu í kjallara. Mögulega var búið í húsinu frá upphafi en það var „tekið að fullu fyrir íbúðarhús 1926“ (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:286).  Tíu árum fyrr hafði Aðalsteinn Magnússon tekið við jörðinni af foreldrum sínum og samkvæmt ábúendatali Byggða Eyjafjarðar 1990 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:771)  bjuggu Magnús Sigurðsson og Guðrún Þórey Jónsdóttir í þessu húsi síðustu æviár sín. Þau létust 1918 og 1925 (Aðalsteinn og ábúendur eftir hann munu hafa búið í eldra húsinu). Síðari kona Magnúsar var Margrét Sigurðardóttir, en hún hafði komið að Grund sem ráðskona og giftist Magnúsi árið 1924. Magnús Sigurðsson lést á Grund þann 18. júní 1925, tæplega 78 ára að aldri, en hann var fæddur 3. júlí 1847 á Torfufelli í Saurbæjarhreppi. Þá voru liðin 52 ár frá því að hann reið, í kapphlaupi við tímann, austur á Breiðumýri í S-Þingeyjarsýslu til Jakobs Péturssonar þeirra erinda, að kaupa af honum hálft Grundarland. Það hafðist, en aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Jakob og Magnús hanIMG_0588dsöluðu kaupin reið annar ungur maður í hlað, Eggert Gunnarsson frá Laufási. Hann hugðist einnig kaupa Grund, en var fáeinum klukkustundum of seinn; Magnús hafði verið á undan og æskudraumur hans hafði ræst.

                Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Margrét hér áfram, ásamt seinni manni sínum, Ragnari Davíðssyni frá Kroppi. Þau bjuggu hér til ársins 1959 en frá 1950 bjuggu þau hér félagsbúi ásamt Aðalsteinu Magnúsdóttur og Gísla Björnssyni, en Aðalsteina var dóttir Margrétar og Magnúsar Sigurðssonar. Bróðir Margrétar, Snæbjörn Sigurðsson flutti á Grund árið 1948 og var jörðinni þá skipt, Grund I og Grund II. Snæbjörn átti Grund II og bjó í eldra íbúðarhúsinu og er þessi skipting enn í gildi. Eigenda- og íbúaskipti á Grundarjörðunum voru ekki tíð á 20. öld; árið 1990 eru téð Aðalsteina og Gísli eigendur jarðar.  Þá (1990) er fóstursonur þeirra, Bjarni Aðalsteinsson og kona hans Hildur Grétarsdóttur einnig ábúendur. Bústofninn árið 1990 telur IMG_0585alls 150 nautgripi, þar af 67 kýr og sex hross. Tuttugu árum fyrr voru kýrnar 46 og geldneyti 14, en allt sauðfé hafði verið skorið 1967. Hvort sauðfé hafi verið á Grund I frá þeim skurði er höfundi ókunnugt um, síðari árin hefur býlið fyrst og fremst verið kúabú. Og þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman þriðja sinnið, árið 2010 voru kýrnar 117 og aðrir nautgripir 102 og ræktað land tæpir 180 hektarar. Árið 2010 var eigandi Grundar I, Holt ehf. en búið var rekið undir nafni Ljósaborgar ehf. undir stjórn þeirra Öddu Báru Hreiðarsdóttur og Víðis Ágústssonar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 435).

                Af fleiri byggingum sem tilheyra Grund I má nefna fjós byggð 1947, 1983 og geldneytafjós frá 1972, sem áður var vélageymsla. Þá eru, steinsnar frá íbúðarhúsinu, byggingar frá tíð Magnúsar Sigurðssonar, fjós, fjárhús og hlöður frá árunum 1910-15. Þær byggingar eru nú nýttar sem geymslur en hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi vegna aldurs. Grund I er auðvitað aldursfriðað hús, byggt fyrir 1923. Þá er húsið í hópi elstu steinsteypuhúsa Eyjafjarðarsvæðisins.  Það er hluti skemmtilegrar heildar, sem Grundarhúsin, kirkjan mikla og aðrar byggingar staðarins myndar í grænu og búsældarlegu héraði. Grund blasir einmitt skemmtilega P71520220715_150856 (24)við þegar ekin er Eyjafjarðarbraut vestri niður hjalla mikinn sunnan Hólshúsa. (Kirkjuturninn sést raunar lengra að). Á hjalla þessum, vestanmegin vegarins, er enn eitt sköpunaverk Magnúsar Sigurðssonar, Grundarreitur. Var það árið 1900 sem Magnús girti þessa landsspildu af og réði danskan skógræktarmann, Christian Flensborg að nafni, til að standa fyrir skógrækt. Næstu sumur fór trjáplöntun fram og nú er Grundarreitur, sannkölluð græn perla og paradís, einn af helstu skógarreitum Eyjafjarðarsvæðisins. Skógarreiturinn var stækkaður um 1953 og er nú 3,3 ha. (Sbr. Sigurður Blöndal 2000:147). Það er svo sannarlega hægt að mæla með göngu um Grundarskóg, sem opnaður var almenningi árið 1994 og hér eru meðfylgjandi nokkrar svipmyndir. Hægt væri að skrifa langa grein um Grundarskóg en greinarhöfundur eftirlætur slík skrif „skógfróðari“ mönnum og lætur staðar numið hér.

Saga Grundar nær auðvitað mun lengra aftur en sem nemur sögu íbP71520220715_150856 (29)úðarhúsa þar og Magnúsar Sigurðssonar, raunar allt til landnámsaldar. Hér bjuggu löngum miklir höfðingjar og merkisfólk, m.a. Sighvatur Sturluson, bróðir Snorra Sturlusonar, árin 1217 til 1238. Á 16. öld bjó hér Þórunni ríka (um 1511-1593), dóttir Jóns biskups Arasonar, sem „ríkti af miklum skörungsskap á Grund í 60 ár“ (Gunnar M. Magnúss 1972:89). Ein sagan segir, að Þórunn hafi beðið af sér Svartadauða uppi í Laugafelli og þar má finna svokallaða Þórunnarlaug. Það setur eilítið strik í þann reikning, að svartadauðaplágan gekk um það bil 100 árum fyrir daga Þórunnar ríku en stundum er sagt, að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann. Á 14. öld bjó hér hin valinkunna Grundar-Helga, og neðarlega í Grundarreit er strýtuP71520220715_150856 (14)laga hóll, sem nefndur er Helguhóll, eftir henni. Helga hafa verið helsta driffjöðurin fyrir Grundarbardaga í júlí 1372, þar sem Smiður Andrésson hirðstjóri og fylgdarmenn hans voru ráðnir af dögum. Ginnti hún þá á Grund með því að bjóða til mikillar veislu. Þessi atburður var eyfirsku hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurum að yrkisefni. Ætli það sé ekki viðeigandi, að slá botninn í þessa Grundarumfjöllun með Veislunni á Grund í flutningi téðra Helga og Hljóðfæraleikarana.

 

P8121073

 

 

 

Meðfylgjandi myndir úr Grundarreit, ásamt myndinni af Grundarbæjunum, þar sem horft er af Helguhól í Grundarreit eru teknar 15. júlí 2022. Myndirnar af Grund I og þar sem horft er til Grundar frá Eyjafjarðarbraut eystri eru teknar 15. júní 2023. Myndin af Þórunnarlaug í Laugafelli er tekin 12. ágúst 2021.

 

 Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Sigurður Blöndal. 2000. Grundarskógur. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.


Hús dagsins: Grund II (eldra íbúðarhúsið á Grund)

Um miðja 19. öld átti heima á Öxnafelli í Saurbæjarhreppi ungur drengur, hjá afa sínum og ömmu, Magnúsi Árnasyni, þá hreppstjóra og konu hans Hólmfríði Jónsdóttur. Drengurinn var mjög áhugasamur um búskap afa síns, sem þótti sérlega hagsýnn búmaður, vandvirkur og nákvæmur. Drengurinn horfði oftar en ekki hugfanginn yfir Eyjafjarðarána á Kerlingu og hið forna höfuðból, Grund og hinar miklu lendur þess undir hæsta tindi Norðurlands. Hann hreifst af þessari stórjörð og kostum hennar. Það vakti athygli stráks, að á meðan jörð er alhvít á Öxnafelli sér ævinlega í jörð á Grundarlandi. (Gömul saga og ný, um grænna gras hinu megin). Átta ára gamall sagði drengurinn við afa sinn: „Ég ætla að kaupa Grund, þegar ég er orðin stór“  (Sbr. Gunnar M. Magnúss 1972:11). Það er skemmst frá því að segja að drengurinn stóð ekki bara við þessi orð, heldur reisti á Grund einhverjar veglegustu byggingar sveitarinnar á sinni tíð, bjó þar stórbúi og stundaði umsvifamikinn verslunarrekstur. En drengur þessi var auðvitað Magnús Sigurðsson (1847-1925) sem jafnan var kenndur við Grund.P5201027

Elst þeirra bygginga, sem standa á Grund, er eldra íbúðarhúsið, Grund II, en það reisti Magnús Sigurðsson sem íbúðar- og verslunarhús. Stendur það skammt suður og vestur af kirkjunni, um 170 metra austur af Eyjafjarðarbraut vestri. Húsið er 130 ára á þessu ári, fullbyggt árið 1893 og stendur skammt sunnan og vestan við kirkjuna.  Húsið er tvílyft timburhús á steinhlöðnum kjallara. Sunnarlega á vesturhlið er smár inngönguskúr („bíslag“) og timburverönd meðfram austurhlið. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nærri 10x17m og inngönguskúr um 2x2m (ónákvæm mæling af loftmyndum map.is). Tvær íbúðir eru í húsinu, önnur á neðri hæð og hin á efri hæð og risi.

      Frá því að Magnús Sigurðsson kom að Grund árið 1873 vakti alla tíð fyrir honum, að byggja staðinn upp, en jörðin hafði verið í fremur bágu ástandi. Auk mikilla jarðarbóta endurnýjaði hann húsakostinn svo um munaði. Árið 1883 byggði hann við gamla bæinn, sem var hefðbundinn torfbær, hafði þar smíðaverkstæði í viðbyggingunni. Magnús hafði frá unga aldri stundað ýmis viðskipti m.a. fengist við smíðavinnu fyrir bændur og búalið gegn greiðslum í peningum, búfé eða afurðum. Það var síðan árið 1885 að hann hóf skipulagðan verslunarrekstur í hinum nýju húsakynnum en fljótlega fór að þrengja að. Haustið 1890 hélt Magnús til Danmerkur og hugðist m.a. kynna sér það nýjasta í búskap, verslunarháttum, húsbyggingum auk þess að afla sér viðskiptamanna því hann hugði á útflutning og innflutning. (Í þessari dvöl hitti Magnús ungan íslenskan húsasmíðanema, Ásmund Stefánsson, sem síðar stýrði byggingu Grundarkirkju Magnúsar). Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns framfaramál og bættur húsakostur landsmanna var þar á meðal. Og það var einmitt í þessari Danmerkurdvöl  „[...] að nokkru fyrir jól [1890] pantaði Magnús tiltelgda grind í stórhýsi, sem hann ætlaði að reisa á Grund strax á næsta ári. Skyldi grindin og annað timbur í húsið sendast með vorskipum til Íslands“ (Gunnar M. Magnússon 1972:154). Af þessu má ráða, að grind hússins hafi komið tilsniðin til landsins frá Danmörku og hún hafi borist til landsins 1891.

     Það mun hafa verið vorið og sumarið 1891 að Magnús hóf undirbúning byggingaframkvæmda, uppgröft og niðurrif eldri bygginga. Kjallari hússins var hlaðinn úr steini og nokkuð djúpur, miðað við það sem tíðkaðist almennt. Á kreik komst sú þjóðsaga, að við þessar framkvæmdir hafi Magnús komið niður á kistil, fullan af gulli og gersemum. Eins og gefur að skilja var ekkert hæft í því, en ekkert útilokað að ýmsar leifar frá fyrri tíð hafi komið upp, þó ekki hafi verið um fjársjóð að ræða. Fullbyggt var húsið árið 1893 og var þá vafalítið stærsta timburhús í hreppunum framan Akureyrar. Það var raunar á pari við stærstu og veglegustu hús á Akureyri enda stóð Magnús á Grund athafnamönnum kaupstaðarins hvergi á sporði. Í ævisögu Magnúsar, eftir Gunnar M. Magnús, er svo sagt frá:

Þetta var stórt og snoturt hús, 24x14 álnir [u.þ.b.15x9m] að stærð, tvær stofuhæðir og rishæð. Á neðri stofuhæð hafði Magnús verslun sína. Eldhús var í suðvesturhorni á sömu hæð, og gestastofa að suðaustan. Á efri hæð voru svefnherbergi fólksins. Þar var líka skrifstofa verslunarinnar og í suðvesturhorni góð stofa, kölluð Jónínuherbergi. Að vestanverðu á hæðinni var stór stofa, sem notuð var til fundahalda í sveitinni. Þar fóru fram hreppaskil og manntalsþing. Þar kom og heimilisfólki stundum saman til að skemmta sér. Á þessari hæð var löng stofa að austanverðu, er kölluð var baðstofa. Þar hélt vinnufólkið til á kvöldin og þar sváfu vinnukonurnar. En vestur af uppgöngunni, sunnan við uppgönguna, var lítið herbergi, þar sem vinnumennirnir sváfu. Herbergi þeirra var nefnt Hrútakofinn. Í portbyggðri rishæð bjó venjulega húsfólk (Gunnar M. Magnúss 1972: 157).

Þarna má sjá, að verslunar- og íbúðarhúsið var einnig hálfgert „ráðhús“ hreppsins og félagsheimili, sbr.  vesturstofan á efri hæðinni, sem notuð var til fundahalda í sveitinni, hreppaskila og manntalsþinga. Árið 1899 bauð Magnús hreppsnefnd Hrafnagilshrepps, sem var á hálfgerðum hrakhólum, afnot af húsakosti sínum og það til næstu 50 ára! Um leið komu upp hugmyndir um byggingu sérstaks þinghúss, enda hefur það varla verið stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Það leið þó á löngu áður en Þinghúsið á Hrafnagili reis af grunni, en það var árið 1925.P5140999

     Verslun Magnúsar var að miklu leyti sambærileg, hvað varðaði vöruúrval og verð, við helstu verslanir kaupstaða og þótti jafnvel bera af þeim, hvað snyrtimennsku og frágang vara varðaði. Grundarverslun hefur í raun verið einstakt fyrirbæri, það var örugglega ekki algengt að slík verslun væri staðsett í sveit og raunar enn þann dag í dag. Miðað við umsvif og vöruúrval verslunar, var þetta e.t.v. svipað og ef fullburðug Bónus eða Krónuverslun væri staðsett í miðju landbúnaðarhéraði, 20 km frá kaupstað. Magnús lagði einnig áherslu á viðskipti við bændur, sem lögðu inn hjá honum kjöt og afurðir gegn úttektum.  Margir bændur í Saurbæjarhreppi skiptu nánast eingöngu við Magnús.  Þessum umsvifum fylgdi auðvitað mikill flutningur til og frá kaupstaðnum og þar auðvitað notast við hestakerrur og sleða á vetrum. Vegna þessara flutninga flutti Magnús inn bíl, annar manna á Íslandi og fyrstur manna á Norðurlandi, árið 1907. Hann reyndist hins vegar illa, of þungur og kraftlítill, erfitt að útvega varahluti og reyndist raunar verr, ef eitthvað var, heldur en kerrur og sleðar. Þess vegna var Grundarbíllinn ekki í þjónustu Magnúsar nema í hálft annað ár. Þá munaði í raun ekki miklu, að Grundarhúsin hefðu orðið fyrstu raflýstu húsin á Norðurlandi. Rafljós voru fyrst kveikt á Íslandi árið 1904, í Hafnarfirði, og um svipað leyti hafði Magnús samband við Jakob nokkurn Gunnlaugsson í Kaupmannahöfn. Skyldi hann leita tilboða til vátrygginga fyrir húsakost staðarins og auk þess, í raflýsingu á nýju kirkjunni og íbúðarhúsinu. Einhverra hluta vegna varð hvorki af tryggingunni né rafvæðingunni (Gunnar M. Magnúss 1972:228).  Hvers vegna fylgir þó ekki sögunni, mögulega hefur Magnúsi ekki þótt tilboðið hagstætt. (Hvort Magnús hefði fjárfest í rafmagnsbíl, skal hins vegar ósagt látið hér).  Auk þess að standa fyrir stórbúskap og verslun rak Magnús einnig skóla á Grund, á eigin kostnað, í tæpa tvo áratugi, frá 1889 til 1907 en eftir það tók við farkennsla, skv. Fræðslulögum frá 1907. Lengst af annaðist Árni Hólm Magnússon, frændi Magnúsar, kennsluna en Ingimar Eydal, síðar ritstjóri Dags og skólastjóri kom einnig að Grundarskóla síðar.  

     Magnús var kvæntur Guðrúnu Þóreyju Sigurðardóttur frá Gilsbakka. Bjuggu þau á Grund frá árinu 1874 til æviloka beggja, hún lést árið 1918 en hann árið 1925. Magnús kvæntist árið 1924 ráðskonu sinni, Margréti Sigurðardóttur, sem var eigandi hússins árið 1933, þegar það var metið til brunabótamats. Þar eru húsinu lýst svo: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt, tvær hæðir á hlöðnum kjallara, 17x8,5m að grunnfleti og 7,5m hátt. Á stofuhæð voru sex herbergi og geymsla og tvær forstofur. Á efri hæð sjö herbergi, geymsla og gangur og í risi fimm hólf. Kjallari er sagður með steingólfi, með fjórum hólfum. Húsið er kynt með miðstöðvarkatli og steinolía til ljósa (munum, að ekkert varð af mögulegri raflýsingu Grundar tæpum 30 árum fyrr).  Þá eru einnig á staðnum hlóðaeldhús og gömul baðstofa, byggingar úr torfi og grjóti að mestu, árið 1933 (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1933:nr. 25).IMG_0210

      Árið 1910 hafði risið nýtt og veglegt hús á Grund, sem verður umfjöllunarefni næstu greinar, en afkomendur Magnúsar og Guðrúnar bjuggu áfram í þessu húsi. Aðalsteinn, sonur þeirra, og kona hans, Rósa Pálsdóttir voru búsett hér 1916 til 1920, en Aðalsteinn lést árið 1919, aðeins þrítugur að aldri. Þá eru systir hans, Valgerður Magnúsdóttir  og hennar maður Hólmgeir Þorsteinsson sögð eigendur og ábúendur hér 1923- 1929 samhliða bræðrunum Þórhalli og Valdemar Antonssonum frá Finnastöðum, en þeir eru skráðir hér 1920-35, sá síðarnefndi milli 1920 og 23. Magnús Aðalsteinsson, sonarsonur Magnúsar og Guðrúnar er skráður ábúendi hér til ársins 1948 en þá var jörðinni skipt. Norðurhluti jarðarinnar, að mestu leyti, varð þá Grund II og taldist eldra íbúðarhús tilheyra þeirri jörð. Þá fluttust hingað þau Snæbjörn Sigurðsson frá Garðsá og Pálína Jónsdóttir frá Hrísey (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:768-769). Þau voru búsett hér þegar byggða- og ábúendasaga Eyjafjarðar, Byggðir Eyjafjarðar, var tekin saman árið 1970. Þá er íbúðarhúsið sagt 800 rúmmetrar, fjós fyrir 60 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlöður fyrir allt að 3000 hesta, auk votheysturns, véla- og áhaldahúss. Túnstærð er sögð 60,41 hektarar og töðufengur 2800 hestar. Af bústofni er daprara að segja, en hann er enginn, vegna niðurskurðar árið 1967 (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:285). Árið 1990 hefur húsinu formlega verið skipt í tvær íbúðir, II og IIa  Það er fulllangt mál, að telja upp alla ábúendur Grundar hér, en ábúendatöl liggja fyrir í fyrrgreindum bókum. Þá eru eigendur þau Gunnar Egilson flugumferðarstjóri og Auður Birna Kjartansdóttir. Þá taldi bústofninn 18 hross og geldneytapláss í nýju fjósi (b. 1986) nýtt undir þau. Ræktað land var þá 23,8 hektarar. Land Grundar II var hins vegar að mestu í eigu ábúenda Grundar I (Sbr. Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1993:768-769). Árið 2010 eru Gunnar og Auður búsett hér og eigandi ásamt þeim, og ábúandi, sonur þeirra Þorsteinn Egilson. Telur þá bústofninn 29 hross og 10 sauðkindur (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:434).

     Gamla íbúðarhúsið á Grund er sérlega reisulegt IMG_0213og glæst hús og í góðri hirðu, á húsinu er m.a. nýlegt þakjárn. Það er til mikillar prýði í fallegu umhverfi í grænu og búsældarlegu héraði og mynda íbúðarhúsin tvö skemmtilega heild ásamt kirkjunni miklu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, eins og allar byggingar byggðar fyrir 1923. Þá hlýtur menningarlegt varðveislugildi hússins að vera verulegt í ljósi sögu staðarins, hvort sem er frá upphafi vega eða umsvifa Magnúsar Sigurðssonar. Húsið hefur í grófum dráttum haldið upprunalegu útliti sínu að ytra byrði. Að morgni 9. júní las greinarhöfundur á Facebook-hópnum Gömul hús á Íslandi að nú væri kominn nýr áhugasamur eigandi sem hyggði á endurbætur, m.a. lagfæra glugga og annað slíkt. Það verður fróðlegt að sjá þann afrakstur og rétt að óska nýjum eigendum til hamingju og góðs gengis. Verða þær endurbætur eflaust til að auka enn á prýði og virðuleika stórhýsis Magnúsar Sigurðssonar frá 1893, sem er svo sannarlega ein af perlum Eyjafjarðarsveitar. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021, 20. maí 2022 og 15. apríl 2023.

Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.


Hús dagsins: Grundarkirkja

Í síðustu grein var umfjöllunarefnið Hafnarstræti 86, en það hús reisti Magnús á Grund, reisti árið 1903 sem útibú fyrir verslun sína. Nefnt var, að þá hafi hans helsta stórvirki, Grundarkirkja, verið í bígerð. Er þá ekki upplagt, að taka kirkjubygginguna fyrir næst og viðeigandi að grein um hana birtist hér á sjálfan hvítasunnudag...

Nokkurn veginn í miðjum Eyjafirði, liðlega 20 km framan Akureyrar P5201021stendur hið valinkunna höfuðból Grund. Bæjarstæðið er á flata sunnan undir hólaþyrpingu við rætur Kerlingar, hæsta fjalls Norðurlands. Einn af mörgum stórbændum og höfðingjum, sem búið hafa á Grund gegnum aldirnar er Magnús Sigurðsson, sem löngum var kenndur við staðinn.  Á Grund standa byggingar frá áratugunum beggja vegna aldamótanna 1900 sem jafnvel enn þann dag þykja veglegar og bera þær vitni um stórhuga og elju hins merka athafnamanns. Höfuðprýði staðarins hlýtur að vera Grundarkirkjan, ein stærsta timburkirkja landsins og vafalítið með þeim glæstari. Hana reisti Magnús fyrir tæpum 120 árum síðan á eigin kostnað og frumkvæði og sótti fyrirmyndir í kirkjur erlendra stórborga, m.a. Kaupmannahafnar.

                Það er í raun ekki vitað hvenær kirkja reis fyrst á Grund en það mun ekki hafa verið löngu eftir kristnitöku. Þegar Magnús Sigurðsson kaupir og flytur á Grund árið 1874 stóð þar timburkirkja, sem Ólafur Briem timburmeistari hafði reist árið 1842. Á þeim árum, þ.e. þegar Magnús kom að Grund, mun hin forna stórjörð hafa verið í nokkuð bágu ástandi en hann hugði á mikla uppbyggingu. Hann stundaði ekki einungis búskap heldur hóf hann verslunarstarfsemi á Grund árið 1885. Átta árum síðar reisti hann timburhús, íbúðar- og verslunarhús, sem var eitt það stærsta í Hrafnagilshreppi og raunar á pari við stærstu hús á Akureyri og kaupstöðum landsins. Verslunina rak hann í um fjóra áratugi, eða eins og honum entist aldur og heilsa til.  Þá reisti Magnús veglegt og skrautlegt útibú, stórt plankabyggt hús í sveitserstíl, fyrir verslun sína við Hafnarstræti á Akureyri árið 1903. Hvort að sú bygging hafi verið „æfing“  Magnúsar og byggingarmeistara hans fyrir Grundarkirkju skal ósagt látið, en Magnús hafði þá þegar löngu fengið hugmyndina af kirkjubyggingunni.  Kirkjan frá 1842 þótti honum vera orðin hrörleg og smá, hann vildi reisa guðshús, „stærra í sniðum enn aðrar kirkjur, veglegastu kirkju, sem risið hefði á höfuðbólinu og þótt víðar væri skyggnzt um“ (Gunnar M. Magnús 1972:183). Hugmyndir hans voru að byggja eina kirkju fyrir allan Eyjafjörð, framan Akureyrar.  Það var síðan í ársbyrjun 1904, fáum mánuðum eftir að Hafnarstræti 86 reis af grunni, að þeir Sigtryggur Jónasson og Jónas Gunnarsson handa við gluggasmíði fyrir nýju kirkjuna. Um sumarið hófst  kirkjusmíðin sjálf.P5201024

      Viðinn í kirkjuna pantaði Magnús árið 1902 og veturinn á eftir flutti hann timbrið, sem skipað var upp á Akureyri „fram eftir“ með aðstoð bænda úr sveitinni. Þá voru aldeilis ekki flutningabílarnir (Magnús flutti reyndar nokkrum árum síðar inn bíl, fyrstur manna á Norðurlandi, en það er önnur saga) heldur fluttu bændur efnið á hestakerrum og sleðum. Samdi hann við þá, að flutningurinn væri þeirra framlag til kirkjubyggingarinnar og miðaðist við efni og aðstæður hvers og eins. Það sem útaf stæði, félli á Magnús sjálfan. Mánuðum saman voru farnar 2-3 sleðaferðir fram og til baka milli Grundar og Akureyrar með trjávið og vörur til verslunar Magnúsar. Byggingameistari kirkjunnar var Ásmundur Bjarnason. Honum hafði Magnús kynnst rúmum áratug fyrr, er hann dvaldi í Danmörku, þar sem hann m.a. kynnti sér húsagerð þar ytra, og Ásmundur við nám í trésmíði. Ásmundur mun einnig hafa gert lokateikningu kirkjunnar en Sigtryggur Jónsson byggingameistari kom einnig að frumhönnun kirkjunnar. Að sjálfsögðu hafði Magnús sjálfur einnig hönd í bagga við hönnunarvinnuna. Aðrir smiðir sem komu að byggingunni, auk téðs Ásmundar, voru þeir Jónas Stefánsson, Pálmi Jósefsson, Þorsteinn Ágústsson og Maron Sölvason. Málun kirkjunnar, sem þótti gerð af miklu listfengi og natni, annaðist norskur málari, Fredrik M. Möller, en hann var sérmenntaður í skrautmálun og skreytingum húsa.  Mögulega mun kirkjan að hluta eða í heild hafa komið tilsniðin til landsins. Margir hlutar timburverks eru nokkuð greinilega unnir í smíðavélum erlendis en langur byggingatími, 17 mánuðir, þykir benda til þess, að mestöll smíðin hafi farið fram á staðnum. Til samanburðar tók bygging stærstu timburhúsa Akureyrar, Menntaskólans (1904) og Samkomuhússins (1906) aðeins sex mánuði. Þá munu engin skjöl liggja fyrir, sem staðfesta með óyggjandi hætti innflutning á sérstaklega tilsniðnu efni (Sbr. Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson og Þóra Kristjánsdóttir 2007:78-79). Kostnaður við byggingu Grundarkirkju nam 21.907 krónum. Það hefur líklega litla þýðingu að reyna að snara þessari upphæð á núvirði en til samanburðar má nefna, að sumarið 1905, á byggingartíma Grundarkirkja auglýsir kaupmaður á Akureyri kaffi á 55 aura kílóið og púðursykur á 24 aura.  P5201025-DESKTOP-INBRJKD

       Grundarkirkja var vígð við hátíðlega athöfn þann 12. nóvember 1905, með tilheyrandi ræðuhöldum sálmasöng og veisluhöldum í boði staðarhaldara. Alls munu um 800 manns hafa sótt vígsluathöfnina, en þar þjónuðu fjórir prestar, sr. Geir Sæmundsson á Akureyri, sr. Jónas Jónasson á Hrafnagili, sr. Jakob Björnsson í Saurbæ auk séra Matthíasar Jochumssonar. Guðlaugur Ásmundsson, lengst af búsettur á Fremsta-Felli í Köldukinn,  sótti hátíðina og sagði frá henni í Snarfara, handskrifuðu málgagni Lestrarfélags Kinnunga þ. 27. nóv. 1905, en frásögn hans birtist í Súlum tímariti árið 1981. Guðlaugur segir svo frá: Klukkan tólf var saman safnað á rennisléttum fleti suður undan kirkjudyrunum, því hún snýr út og suður; kváðu þá við hvell og há klukknahljóð, var þar samhringing og ekki hringt annað fyrir messu. Að hringingunni lokinni voru opnaðar afarstórar bogadyr á suðurgafli kirkjunnar og tók mannfjöldinn að streyma inn í forkirkjuna, sem mun rúma á að giska tvö hundruð manns (Guðlaugur Ásmundsson 1981:7).

                Í frásögn sinni lýsir Guðlaugur turninum á einkar skemmtilegan hátt: Upp í hann  [turninn] er gengið af lofti kirkjunnar eftir undnum stiga all-löngum, þegar hann þrýtur kemur maður á loft, og þar eru klukkurnar [...]. Þá gengur meðaur upp annan vindings-stiga, álíka langan og hinn og kemur þá á annað loft, síðan hið þriðja og þegar hann þrýtur getur maður gengið út úr turninum á fjóra vegu. Eru þar svalir umhverfis turninn sem rúma marga menn og er þar fagurt um að litast. Efri turninn: Þá er gengið upp beint rið upp að efri brún neðri turnsins; þá tekur við skrúfustigi [...] Getur maður séð sig um út úr honum en hvergi eru á honum svalir. Turninn er þá orðinn þröngur og erfiður uppgöngu. Enda reyndist mörgum það torsótt 12. nóvember [1905], þar sem annar eins manngrúi var saman kominn og allir eða flestir vildu skoða bygginguna. Dagaði víst marga uppi á svölum turnsins, því ekki var það heiglum hent að fara í mannþröng upp efri turnbygginguna (Guðlaugur Ásmundsson 1981: 11-12). Er rétt hægt að ímynda sér, að þarna hefur skapast hálfgert vandræðaástand og líklega eins gott, að ekki væru margir lofthræddir í mannþrönginni, sem „dagaði uppi á svölum turnins.“P5201026

         Grundarkirkja er timburhús, kirkjuskipið 17,15mx9m að grunnfleti en forkirkja 5,05x5,22m. Séra Geir Sæmundsson, sem vísiteraði kirkjuna sumarið 1907 sagði hæð turns frá jörðu 38 álnir (Sbr. Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:66) en það mun nærri 24 metrum.  Tvær gluggaraðir eru á kirkjuskipinu og undir þeim samfelld vatnsbretti eða bönd. Gluggarnir eru bogadregnir og margskiptir og utan um miklir, skreyttir rammar.  Á hvorri langhlið kirkjuskips eru alls 12 gluggar, sex í neðri röð og jafn margir í þeirri efri, en þeir eru smækkuð mynd neðri glugga. Tveir gluggar eru á bakhlið, hvor sínum megin við altaristöflu. Þá er einn gluggi af hvorri gerð á langhlið forkirkju. Á forkirkjunni eru vatnsbrettin miklu á „þremur hæðum“ og á framhlið eru tveir smáir gluggar ofan þriðja vatnsbrettisins. Neðsta vatnsbretti er þar bogalaga en yfir inngöngudyrum, sem ásamt allri framhliðinni, eru lítið eitt inndregnar, er bogalisti. Beggja vegna hans eru tveir smærri bogar, og standa þeir á sívölum súlum, sem væntanlega eru burðarsúlur fyrir forkirkjuna. Ofan á forkirkjunni er turnbyggingin sjálf, áttstrendur turn með lauklaga þaki á „tveimur hæðum“ og stendur efsti hluti turnspíru á átta súlum með bogadregnum skeggjum á milli. Svalir eru ofan á þaki forkirkju allt í kringum turninn og eru á hornum þeirra fjórir smáturnar, með oddmjóum, sívölum spírum. Öll er forkirkjan prýdd hinu ýmsu skrauti og munstri sem greinarhöfundur kann ekki einu sinni að nefna. Á það einnig við um kirkjuna í heild, h.u.b. hvern einasta kant, lista, vatnsbretti, þakskegg eða vindskeið prýða munstur, kögur og útskurður svo kirkjan er í heild eitt stórt listaverk, samsett úr mörgum smærri listaverkum.  Hvort heldur sem er að utan sem innan. Að innan er kirkjan nokkuð hefðbundin að gerð, bekkjaraðir beggja vegna miðgangs (13 vestan megin og 14 austan megin) upphækkaður kór og tvö skrúðherbergi beggja vegna hans. Altaristöfluna prýðir málverk sem sýnir upprisu Krists, eftir danska málarann Anker Lund, frá 1891. Látum staðar numið af lýsingu kirkjunnar hér en mjög ítarlega og nákvæma lýsingu á Grundarkirkju er að finna í 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands á blaðsíðum 70-76.P5140999

                Í kaflanum í Kirkjum Íslands er viðhaldssaga kirkjunnar einnig rakin. Kirkjan var máluð að utan 1920, þakið málað 1932 og steyptur nýr reykháfur. Kirkjan var framan af hituð með tveimur kolaofnum en árið 1934 var þeim þriðja bætt við. Árið 1947 var sett í kirkjuna olíufýring og um svipað leyti (fyrir 1949) var hún máluð í heild sinni. Rafmagn var leitt í kirkjuna árið 1957. Árið 1967 var nefnt í visitasíu, að fúi væri kominn í undirstöður turnsins, afleiðing leka frá turnopinu. Þótti einsýnt, að þörf væri á umfangsmiklum viðgerðum á næstu árum. Árið 1977 var Grundarkirkja friðlýst og árin 1981-82 fóru fram á henni miklar endurbætur. Það segir sig sjálft, að svo stórt veglegt, og skrauti hlaðið timburhús hlýtur að vera býsna viðhaldsfrekt. En Grundarkirkja hefur væntanlega fengið allt nauðsynlegt viðhald síðustu árin, því hún virðist í afbragðs góðri hirðu.P8110993

                Það er eflaust hægt að fullyrða, að Grundarkirkja sé með glæstustu og veglegustu kirkjum landsins og ber vitni um einstaka elju, stórhug og metnað byggjanda síns, Magnúsar Sigurðssonar. Er hún einkar mikil prýði á einstaklega fallegum stað, í hjarta Eyjafjarðar. Afstaða hennar til höfuðátta er einnig einstök og kenningar um, að við þá ákvörðum hafi verið tekið mið af landslaginu, dalnum og fjöllunum (Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:77) en Eyjafjörður liggur frá norðri til suðurs.  Hefur Grundarkirkja verið einstakt stórvirki eins manns á sínum tíma og líklega verið ein af hæstu byggingum landsins (ef ekki sú hæsta) árið 1905. Turn kirkjunnar mun um 24 metra hár og til samanburðar má nefna, að turnar Akureyrarkirkju, sem reist er 35 árum síðar, eru aðeins um fjórum metrum hærri. Kannski fer þannig einkar vel á því, að hið hátimbraða guðshús standi við fótskör hæsta fjalls Norðurlands, hinnar 1538m háu Kerlingar. Grundarkirkja var friðlýst skv. Þjóðminjalögum árið 1978 og skv. aldursákvæði árið 1990.

Myndirnar af Grundarkirkju eru teknar 20. maí 2022 en myndin, þar sem séð er heim að Grund er tekin 14. maí 2021. Myndin af Kerlingu er tekin 11. ágúst 2021.

Heimildir: Guðlaugur Ásmundsson. 1981. [1905]. Grundarkirkja og vígsluhátíðin þar 12. nóvember 1905. Í Súlur Norðlenskt tímarit 21-22. tbl. bls. 6-15.

Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir. 2007. Grundarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 55-107. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.


Hús dagsins: Hafnarstræti 86; Verslunin Eyjafjörður

Sá hluti Hafnarstrætis, sem telst til Miðbæjar er að hluta til nokkuð tvískiptur hvað húsagerðir varðar. Vestanmegin, upp við brekkuna standa 4-7 hæða steinsteypt stórhýsi á borð við Hótel KEA, Amarohúsið og síðast en ekki síst fyrrum höfuðstöðvar KEA á horninu við Kaupangsstræti. Austan götu eru eldri timburhús í meirihluta. Voru þau flest sannarlega einnig stórhýsi á sínum tíma, þ.e. fyrstu ár og áratugi 20. aldar. Eitt þessara húsa er Hafnarstræti 86.  P8091048

Húsið að Hafnarstræti 86, sem löngum hefur kallast Verslunin Eyjafjörður, reistu byggingameistararnir Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson, sumarið 1903.  Húsið er stokkbyggt eða plankabyggt hús og mun hafa komið tilhöggvið frá Noregi. Byggingaleyfið fékk Ólafur G. Eyjólfsson, ættaður úr Flatey á Breiðafirði, á fundi Bygginganefndar á lokadegi, 11. maí, árið 1903 en tengdafaðir hans og vinnuveitandi, Magnús Sigurðsson, verslunar- og athafnamaður á Grund mun hafa staðið fyrir byggingu hússi (Sbr. Jón Hjaltason 2001:81).  Ekki er um miklar lýsingar á húsinu að ræða í bókunum Bygginganefndar, húsið sagt eiga að vera 20x14 álnir að stærð, tvíloftað og framhlið þess í beinni línu við Bergsteinshús (Hafnarstræti 88).

     Hafnarstræti 86 er stórt tvílyft, bárujárnsklætt timburhús í sveisterstíl. Miðjukvistur er á báðum hliðum hússins og á bakhlið skagar hann langt út fyrir húsið og er þar efsti hluti útskots eða stigahúss á bakhlið. Kvisturinn er eilítið breiðari en stigabyggingin og skagar því einhverja tugi cm út fyrir hana beggja vegna og myndar ákveðið skjól. Norðan við miðjukvist á framhlið er annar smærri kvistur með hallandi þaki. Á suðurhlið er mikil svalabygging á tveimur hæðum og miðhluti hennar lokaðir glerskálar með skrautpóstum. Útskorið skraut, áttstrendar súlur og skrautlegir pilar í handriði setja svip á svalirnar, og húsið allt, mikinn svip. Grunnflötur hússins mun 12,64x8,87m, stigabygging 2,80x3,35m og svalabygging 2,06m að breidd (skv. uppmælingarteikningum Þrastar Sigurðssonar).  

     Plankabygging var byggingaraðferð að norskum hætti, sem téðir Sigtryggur og Jónas tileinkuðu sér, enda þótt aðferðin hefði ekki orðið almenn. En í plankabyggðum húsum var engin grind, heldur voru útveggirnir hlaðnir úr þykkum plönkum. Í samtímaheimildum, nánar tiltekið í Stefni þ. 23. ágúst 1902 er þessari byggingaraðferð lýst á eftirfarandi hátt: „Hótelið er plankabyggt, sem kallað er, grind engin, en 3gja þuml. plönkum stokkað upp í veggina, og þeir geirnegldir á hornunum; aðalskilrúm hússins eru og þannig byggð jafnframt“.  Ennfremur: „Plankaveggirnir eru fyrst klæddir utan með asfalt-pappa og þar utan yfir með vanalegum klæðningsborðum, en innan eru herbergi hússins annað hvort þiljuð með skífum eða pappaklædd. Nokkuð dýrari en grindarbyggðu húsin en eigi stórvægilega telja smiðirnir þannig byggð plankahús.“  Umrætt hótel er Hótel Akureyri við Aðalstræti, sem þá var í smíðum, en það hús brann til ösku í nóvember 1955.

     Árið 1916 er húsinu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar- og verslunarhús, tvílyft með háu risi og kvisti á háum kjallara, skúr við bakhlið og veggsvalir við suðurstafn. Á gólfi við framhlið (þ.e. vestanmegin á neðri hæð) sölubúð, skrifstofa og forstofa, en við bakhlið vörugeymsla, eldhús og stofa. Á annarri hæð  voru þrjár stofur og forstofa vestanmegin en tvær stofur, eldhús og búr austanmegin. Í risi, sem kallað var „efraloft“ voru fimm íbúðarstofur, tvö eldhús og gangur. Kjallara var skipt í fimm geymslurými. Húsið var sagt 10,8m hátt, grunnflötur þess 12,8x8,8m og á því 44 gluggar. Veggir og þak voru járnklæddir og jafnvel er talið, að húsið hafi verið bárujárnsklætt frá upphafi (Sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:190).P8091056

     Sem fyrr segir mun Magnús Sigurðsson, stórbóndi og athafnamaður á Grund hafa reist húsið eftir byggingaleyfi sem tengdasonur hans, Ólafur G. Eyjólfsson fékk. Ólafur er hins vegar skráður eigandi hússins árið 1904 (húsið er ekki að finna í manntali 1903) og er hann búsettur þar ásamt konu sinni, Jónínu Magnúsdóttur og nýfæddri dóttur, Sigurborgu. Þá voru fjórar íbúðir í húsinu og alls búsettir þar 17 manns. Af Ólafi segir Jón Hjaltason (2001:81) eftirfarandi: „[hann]...festi aldrei yndi á Akureyri og þegar honum bauðst árið 1905 að gerast skólastjóri hins nýstofnaða verslunarskóla í Reykjavík greip hann tækifærið fegins hendi.“ Frá upphafi var húsið verslunarhús og var Grundarverslun Magnúsar Sigurðssonar rekin í húsinu en þar réð ríkjum Kristján Árnason frá Lóni í Kelduhverfi. Kristján Árnason réðst sem verslunarstjóri hjá Magnúsi árið 1902. Árið 1909 stofnuðu þeir Magnús og Kristján Verslunina Eyjafjörð. Skemmst er frá því að segja, að sú verslun var starfrækt í nærri 60 ár. En í lengra máli má rekja, að Kristján sat einn að verslunarrekstrinum frá árinu 1919, er Magnús á Grund seldi honum sinn hlut í versluninni en verslunin var fyrstu áratugina nátengd Grundarverslun. Verslunin Eyjafjörður lagði sérstaka áherslu á viðskipti við bændur og fengu þeir að taka þar út vörur gegn afurðum (kjöt, ull o.fl.) sem þeir lögðu inn hausti og vori. Fram undir 1940 starfrækti verslunin meira að segja eigin sláturhús. Um það leyti tók Gunnar, sonur Kristjáns við rekstrinum og rak áfram með glæsibrag um áratugaskeið. Byggði hann við húsið steinsteypta viðbyggingu en í eldra húsinu voru innréttaðar skrifstofur.  Verslunin Eyjafjörður varð gjaldþrota árið 1967 og hafði þá verið starfrækt í um 60 ár og alla tíð í Hafnarstræti.

     Eftir að Verslunin Eyjafjörður lagði upp laupana var ýmis rekstur í viðbyggingunni og hún var rifin árið 1991.  Á árunum 1987 og fram yfir 1990 fóru fram töluverðar endurbætur á húsinu og þar var m.a. að verki hinn valinkunni hagleiksmaður Sverrir Hermannsson. Síðan hefur húsið verið í góðri hirðu og lítur vel út. Húsið er, eins og títt er um hin norskættuðu sveitserhús, sérlega svipmikið og skrautlegt og til mikillar prýði sem eitt af kennileitum Miðbæjarins. Svalabyggingin, skrauti hlaðin, gefur húsinu sinn sérstaka svip. Útstæður kvisturinn á bakhlið hússins er einnig nokkur svipauki, en hann er öllu látlausari. Á suðurhlið bakbyggingar má þó einnig finna skrautleg dyraskýli og handrið. Hafandi þá staðreynd í huga, að Magnús á Grund lét reisa húsið árið 1903 er býsna freistandi að ímynda sér, að með verslunarhúsi sínu við Hafnarstræti hafi Magnús mögulega verið að „æfa sig“ fyrir byggingu einhverrar skrautlegustu byggingar Eyjafjarðarsvæðisins. Nefnilega Grundarkirkju, sem hann hóf að reisa ári síðar. En hvað sem einhverjum vangaveltum höfundar líður er Hafnarstræti 86 eitt af skrautlegri og reisulegri húsum bæjarins og ein af perlum Miðbæjarins. Húsið hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2012 og er vitaskuld aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923. Fjórar íbúðir eru í húsinu. Meðfylgjandi myndir eru teknar þann 9. ágúst 2022.

 

    

Heimildir:

Árni Ólafsson, Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_157.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 247, 11. maí 1903. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri - höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Hafnarstræti 88; Gamli Bankinn

Árið 1890 bjuggu þrettán manns í Húsi Snorra Jónssonar á Oddeyri. Auk fjölskyldu Snorra Jónssonar skipa-og húsasmíðameistara bjó þar meðal annars smíðalærlingur hans, hinn 18 ára gamli Bergsteinn Björnsson, frá Norðurbotni við Tálknafjörð. Átta árum síðar, eða þann 8. nóvember 1898 fékk Bergsteinn keypta lóð á Torfunefi, sunnan við hið nýreista hús Pöntunarfélagsins (KEA) ásamt heimild til uppfyllingar. Það skilyrði var sett að bygging hæfist næsta sumar (1899).P8091051

Þann 22. nóvember 1898 var Bergsteini Björnssyni heimilað að fylla upp á lóð sinni á Torfunefi, 60 álnir (40m) suður með veginum milli bæjarhlutanna. Fékk hann að taka uppfyllingarefnið frítt úr brekkunum ofan fjörunnar, með því skilyrði, að hann hefði byggingu innan þriggja ára frá 1. jan 1899.  Bergsteinn lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur sótti hann um og fékk leyfi 11. apríl 1899 fyrir húsi og það engu smáræðis húsi, 30x16 álnir að grunnfleti. Framkvæmdir við uppfyllingar munu hafa staðið sumarið 1899 og árið eftir var hús Bergsteins risið af grunni. Var það þá eitt stærsta hús bæjarins, en það stóð ekki lengi, því á næstu árum risu mikil stórhýsi eitt af öðru; vestast við Strandgötu, Hótel Akureyri, Gagnfræðaskóli (MA) og Samkomuhúsið. Nútímafólk getur í sömu andránni virt fyrir sér brekkuna á bakvið suðurhluta Hótel KEA og Hafnarstræti 88 og reynt að gera sér í hugarlund, hvers konar verk það hefur verið: Að grafa út úr brekkunni og fylla upp í fjöruborðið, grunninn fyrir hinu reisulega húsi, sumarið 1899. Væntanlega hefur aðeins verið notast við haka, skóflu og hjólbörur, e.t.v. hestakerrur. P8091052En höfum það jafnframt í huga, að Bergsteinn og hans menn þekktu auðvitað ekkert annað.

      Skömmu áður (1897) hafði lærifaðir Bergsteins, Snorri Jónsson, reist á Oddeyri eitt stærsta hús Oddeyrar og Akureyrarkaupstaðar í heild. Var húsið tvílyft með rúmri lofthæð, á háum kjallara og með háu risi, 18,8x9,4m að grunnfleti (skv. Brunabótamati 1916) og hugði Bergsteinn ekkert minna; hús hans var ámóta og raunar örlítið stærra að grunnfleti en 30x16álnir eru nærri 20x12m en í brunabótamati 1916 er grunnflötur hússins sagður 18,8x10,4m. Stórhýsi Bergsteins og Snorra hafa kallast dálítið skemmtilega á yfir Pollinum, svipuð að lögun, stærð og gerð. Aldamótaárið 1900 mun hús Bergsteins hafa verið fullreist. Allt er breytingum undirorpið: Snorrahús var rifið á níunda áratug 20. aldar og Hafnarstræti 88 er nú umlukið enn stærri steinhúsum.

     Hafnarstræti 88 er stórt tvílyft timburhús með háu risi og miðjukvisti á báðum hliðum. Inngöngutröppur og svalir eru á báðum stöfnum. Greinarhöfundur hefur hvergi séð minnst á, að húsið hafi mögulega komið tilhöggvið frá Noregi, eins og mörg skrautleg stórhýsi um aldamótin 1900. Húsið er engu að síður undir miklum áhrifum frá sveitserstílnum norska og flokkast raunar sem slíkt í Húsakönnun 2012. Sem dæmi um það má nefna sérstakt skraut og kögur á svölum milli áttstrendra súlna, skreytt strik eða bönd undir gluggaröðum, þak slúttir yfir veggi og þar blasa við útskornar, útstæðar sperrutær. Kvistir hússins eru skemmtilega rammaðir inn af áttstrendum súlum milli þakskeggs og þakbrúna kvista og efst á þeim eru skrautlegir sperruendar. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak. Grunnflötur mun nærri 19x11m.P8091057

     Í Manntali 1901 er húsið sagt nr. 14 við Hafnarstræti og þar búa alls 24 manns. Þar er Bergsteinn Björnsson sagður Bjarnason. Á þessum árum stundaði hann síldarútgerð meðfram smíðinni og hafði þannig komist í góðar álnir. Árið 1903 telst Bergsteinshús númer 10 við Hafnarstræti og efst á blaði Manntals það ár eru Friðrik Kristjánsson og Jakobína Jakobsdóttir, en Bergsteinn er þar enn til heimilis, titlaður útvegsbóndi. Árið eftir mun Friðrik hafa keypt húsið af Bergsteini, sem jafnframt flutti úr húsinu. Friðrik gerðist bankastjóri Íslandsbanka og opnaði útibú bankans í húsinu árið 1904. Þar var bankinn starfræktur allt til ársins 1930 að hann var lagður niður. Enn þjónaði húsið sem banki, því Útvegsbankinn kom sér fyrir í Hafnarstræti 88 og mun hafa verið þar til ársins 1939. Af Bergsteini er það að segja, að hann fluttist til Vesturheims þegar útgerðin brást og ól þar manninn alla tíð síðan. Stundaði þar smíðastörf og gegndi herþjónustu á árum fyrri heimstyrjaldar (1915-1918). Bergsteinn Björnsson lést í Gimli í Winnipeg árið 1951.

     Friðrik Kristjánsson bankastjóri fluttist einnig til vesturheims en það var með þvílíkum undraverðum hætti og kannski nær að tala um flótta en flutning. Á útmánuðum 1910 virtist Friðrik hafa horfið sporlaust og var hann af flestum talinn af, en einnig spunnust sögur um flótta hans, sem átti að hafa verið í kjölfar meints fjármálamisferlis. Er skemmst frá því að segja, að vikum saman var Friðrik í felum á Barði (sem stóð á brekkubrúninni ofan við Samkomuhúsið) og komst dulbúinn um borð í kútter við Glæsibæ. Leiðarlok Friðriks voru í Ameríku, en hann lést árið 1939 í Wynyard í Saskatchewan. Nánar er fjallað um hinn magnaða landflótta Friðriks Kristjánssonar og afdrif hans á bls. 69-76 í þriðja bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason. 

     Í brunabótamati 1916 er Hafnarstræti 88 lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og bankahús, tvílyft með porti, kvisti og háu risi og kjallara. Þá þegar eru hvort tveggja veggir og þak járnvarið og telja Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir (2003:190) að húsið hafi jafnvel verið bárujárnsklætt frá upphafi. Alltént var bárujárnið komið á húsið árið 1916, en eftir mikla stórbruni hér í bæ 1901 og 1906 fór almennt að tíðkast, að verja timburhús með járni eða steinskífum. Í kjallara voru tvær sölubúðir, skrifstofa og úrsmíðaverkstæði auk geymslurými. Á 1. hæð voru að framanverðu (vestanmegin) þrjár stofur, bankaafgreiðsla og forstofa en „við bakhlið“ eða að austanverðu þrjár stofur, eldhús, búr og tvær forstofur. Á 2. hæð voru alls 7 stofur, eitt eldhús og forstofa. Í risi voru þrjár stofur, eldhús og búr vestanmegin en austanmegin tvær stofur, eldhús, geymsla og forstofa. Við norðurgafl var „stórt óinnréttað rými“ og svalir við suðurgafl. Þrír skorsteinar voru á húsinu og í því 16 kolaofnar, fjórar eldavélar, væntanlega einnig kola- eða mókyntar og einn þvottapottur, kyntur á sama hátt. Árið 1916 voru enn sex ár í rafvæðingu Akureyrar. Húsið sagt 18,8x10,4m að grunnfleti, 12,9m hátt og á því voru 64 gluggar. Eigandi hússins árið 1916 var Íslandsbanki (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916 nr.126).Hafnarstræti 88

     Afgreiðsla Íslandsbanka var í húsinu þar til sá banki lagði upp laupana árið 1930 en þá fluttist Útvegsbankinn í húsið. Tók síðarnefndi bankinn í raun þann fyrrnefnda yfir. Löngu síðar rann svo Útvegsbankinn ásamt tveimur öðrum inn í nýjan banka, sem hlaut nafnið Íslandsbanki! Útvegsbankinn mun hafa verið hér til húsa til ársins 1939. Bankastjóri Íslandsbanka var lengst af Bjarni Jónsson og var hann búsettur hér. Á tímabili var kjötbúð KEA í kjallara hússins á sama tíma og bankaútibú Íslandsbanka var á efri hæðinni og kjötbúðina prýddi veglegur nautshaus. Munu gárungar hafa gripið þetta á lofti og sagt, að þarna væri kominn hinn eini sanni gullkálfur, sem bankamenn dönsuðu í kringum.  Á fyrrihluta 20. aldar bjó í húsinu  Valdemar Steffensson læknir og starfrækti þar lækningastofu sína. Í Hafnarstræti 88 hafa alla tíð verið verslunarrými, þjónusta og smáiðnaður, kannski mætti segja, að húsið verið frá upphafi einhvers konar verslunarmiðstöð. Í bók sinni Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs segir Steindór Steindórsson (1993:122) að „[...]svo ör hafa verslunarskipti orðið þar [í Hafnarstræti 88] að varla hafa fleiri verið í nokkru öðru húsi í bænum“. Það segir e.t.v. sína sögu að sé „Hafnarstræti 88“ flett upp á gagnagrunninum timarit.is, koma upp nærri 2400 niðurstöður, frá 1906 (fram að því var húsið nr. 14 eða 10) til vorra daga. Þess má reyndar geta, að einhver hluti þessa fjölda getur átt við húsið Hafnarstræti 88b, sem byggt var 1945 og rifið 2001, og hýsti m.a. Prentverk Odds Björnssonar og síðar Hitaveitu Akureyrar.  Í Fasteignaskrá eru nú skráðar fjórar íbúðir í Hafnarstræti 88 og fjögur verslunarrými. Í norðurenda er, þegar þetta er ritað, fasteignasala og í suðurenda Rakarastofa Akureyrar. Þangað sækir sá sem þetta ritar að jafnaði sínar hárklippingar og getur ekki annað en mælt með rakarastofunni, enda þótt þessum skrifum sé ekki ætlað að gegna hlutverki auglýsinga.

     Hafnarstræti 88 er eitt af stærstu og reisulegustu timburhúsum bæjarins, skraut í anda sveitserstíls gefur húsinu skemmtilegan svip og er húsið auk þess í mjög góðri hirðu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Í Húsakönnun 2012 fær húsið umsögnina: „Húsið hefur verið endurbyggt af myndarskap. Það fer mjög vel í umhverfinu og setur svip á bæjarmyndina. Hlutföll eru falleg og frágangur allur vandaður“ (Árni Ólafsson 2012: 49). Greinarhöfundur tekur svo sannarlega undir hvert þessara orða.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 8. ágúst 2022 en einnig er mynd frá 31. júlí 2010 þar sem fjöldi manns er samankominn í sögugöngu um Innbæinn og Miðbæinn undir leiðsögn Gísla Sigurgeirssonar. Greinarhöfund minnir, að hann sé þarna að segja frá ævintýrum Friðriks Kristjánssonar bankastjóra.

 

Heimildir:

Árni Ólafsson, Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_157.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 173, 11. apríl 1899. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1879-1900 (vélrituð afrit). Fundir nr. 771 og 772 8. nóv. og 22. nóv. 1898. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Brunabótamat 1917-22. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1917-1922 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Lundeyri; in memoriam

Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust steinhús á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Hér verður stiklað á stóru úr sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.

Það er dálítið örðugra að kortleggja sögu Glerárþorpsbýlanna P5220058heldur en húsa í eldri hverfunum sunnan Glerár. Ástæðan er m.a. sú, að Glerárþorp tilheyrði ekki Akureyri fyrr en 1955 og þau hús komu því ekki inn á borð bygginganefndar bæjarins. Sambærileg nefnd virðist ekki hafa verið starfrækt í Glæsibæjarhreppi. Skipulagsmál bygginga í dreifbýli lúta eðlilega öðrum lögmálum en í bæjum; menn átti jarðir eða jarðaskika og byggðu þar einfaldlega sín íbúðar- og gripahús án nokkurra afskipta, enda þurfti ekki að huga að götumyndum eða útliti bygginga.

Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þá er Lundeyri lýst svona:

„Nýbýli með útveggjum úr torfi á 3 vegu og torfþaki. Timburhlið að framan. Stærð 11+5+5+2 ¾ +2 ¼ álnir.  Skiftist [svo] í: a) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað, með eldavél við múrpípu. b) Gangur: Stærð 2+5+2 ¾ al. c) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað með ofni og rörleiðslu í gegnum 2 þil og ganginn inn í múrpípuna. Kjallari undir húsinu“ (Brunabótafélag Íslands 1918: nr. 58). Það er kannski ekki gott að átta sig á þessum málum, þar sem þau eru öll samanlögð en ekki margfölduð.  Í þessu mati er byggingarárið sagt 1917 en í heimildum er einnig getið byggingarársins 1918 (Lárus Zophoníasson, Steindór Steindórsson). Hversu stórt Lundeyrarlandið var, virðist ekki fylgja sögunni en býlinu fylgdi a.m.k. tún norðan við húsið en lönd Glerárþorpsbýlanna mældust sjaldnast í mörgum hekturum. Lundeyrartún (stundum kallað Lundeyristún), norðan við húsið, var löngum vinsælt leiksvæði barna í Glerárþorpi, nýtt m.a. til boltaleikja.

   Torfhúsið með timburþilinu sem lýst er í brunabótamati árið 1918 hefur væntanlega vikið fyrir húsinu  sem stóð fram á vordaga 2023. Samkvæmt fasteignamati var það hús byggt árið 1946. Ein elsta heimildin sem finnst á gagnagrunninum timarit.is, um Lundeyri, er frá ágúst 1921, þar sem hálft býlið er auglýst til sölu. Mögulega hafa þau Guðmundur Vigfús Guðjónsson sjómaður (1884-1957) Björg Guðmundsdóttir (1885-1971) keypt býlið þá, en þau eru alltént flutt hingað árið 1927. Bjuggu þau hér ásamt börnum sínum til ársins 1956, er Axel Vatnsdal keypti býlið. Það voru því Guðmundur og Björg sem byggðu steinhúsið árið 1946.  Axel Vatnsdal lét breyta húsinu eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hafði alla tíð síðan. Lundeyri var einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað með bárujárnsþaki. Að grunnfleti var það um 12x8m. Samkvæmt teikningum Páls var austurhluti þess í upphafi með einhalla þaki undir háum kanti sunnanmegin en vesturhluti með lágu risi og ívið mjórri en austurhlutinn. Eftir tíð Axels Vatnsdals hafa ýmsir búið í Lundeyri og húsið alla verið tíð einbýli.

   Á meðal barna Guðmundar og Bjargar, sem byggðu nýja Lundeyrarhúsið, var Gestur (1913-1961). Greinarhöfundur minnist þess, að hafa heyrt þess getið, að Gestur muni hafa verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið „Barnið í þorpinu“ og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps  hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið. („Ég kom í ljótt og lítið þorp sem liggur út við sjó“)  Munu þessar lýsingar ekki hafa þótt sanngjarnar gagnvart Gesti og Lundeyrarfólkinu. Um þetta verður ekki fullyrt hér, enda í raun aðeins um sögusagnir að ræða. Það er hins vegar gömul saga og ný, að skáld og verk þeirra geta verið umdeild.  

   Það er gangur lífsins, ef þannig mætti komast að orði, að sum hús þurfa að víkja. Með hverju húsi sem rifið er hverfur ákveðin saga að vissu leyti, enda þótt saga húsa og fólks sem þar ól manninn varðveitist eilíflega í myndum og frásögnum. Nær alltaf er eftirsjá af þeim húsum sem hverfa og í raun gildir það um flest öll hús, að þau hafa alltaf visst tilfinningalegt og sögulegt gildi hjá einhverjum. En mætti þá segja, með þeim rökum, að það ætti bara aldrei rífa nokkurt hús!? Sá sem þetta ritar hefur vissulega haft uppi miklar yfirlýsingar um ansi mörg hús - og stendur við þær - að þau skuli varðveita eða friða. Stundum er því hreytt í undirritaðan, að honum væri mátulegt að eiga og viðhalda viðkomandi húsi sjálfur, sem hann mælir með, að varðveitt verði. En greinarhöfundur hefur þrátt fyrir allt skilning á því, að ekki verða öll hús varðveitt, af ýmsum ástæðum.  Húsafriðun lýtur nefnilega öðrum lögmálum en t.d. friðun náttúrufyrirbrigða á borð við fossa og fjalla. Hús standa ekki bara til þess að vegfarendur geti dáðst að þeim og barið þau augum, þau þurfa viðhald og einhver þarf að eiga þau, búa í þeim eða nýta á annan hátt.

   Að áliti greinarhöfundar ætti niðurrif þó ætíð að vera allra síðasta úrræði og í lengstu lög ætti að huga að endurgerð eða endurbyggingu gamalla húsa. Burtséð frá varðveislusjónarmiðum hlýtur það alltaf að vera betri nýting á auðlindum og þar af leiðandi umhverfisvænna, að nýta þau hús sem fyrir eru, heldur en að rífa og byggja nýtt. Að sjálfsögðu þarf að horfa til fleiri þátta þarna, t.a.m. nýtingu lóðar og byggingakostnaðar og ástand þeirra húsa sem rifin eru. Þannig er það skiljanlegt, þegar reist eru ný hverfi, að stök eldri hús þurfi að víkja. En það er engu að síður bjargföst skoðun höfundar, að gömul býli í þéttbýli skuli varðveitt sem slík, þó e.t.v. mætti, ef nauðsyn krefur, semja um að taka af víðlendum lóðum þeirra undir aðrar byggingar. Þá er góð regla að ný hús sem reist eru á grunnum eldri húsa, hljóti sömu nöfn, svo nöfnin varðveitist með bæjarstæðinu. Þannig væri upplagt, að ný bygging á þessum stað hlyti nafnið Lundeyri. Myndin af Lundeyrarhúsinu er tekin 22. maí 2011 en meðfylgjandi er einnig mynd sem sýnir lóð Lundeyrar að kvöldi 18. apríl 2023.IMG_0239 Það eina, sem eftir lifir af Lundeyri er furutré og líkan af torfbæ. Kannski er torfbærinn litli eftirlíking af upphaflega Lundeyrarbænum ...(?)

Að lokum leggur undirritaður til að öll gömlu býli Glerárþorps, ásamt með sambærilegum húsum á Brekku og í Naustahverfi verði friðlýst!

Heimildir: Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Glerárþorp 1917-1922. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu, kassanr.H9/25.  

Lárus Zophoníasson. 1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“ Súlur X. árg. (bls. 3-33).

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Vegna umfjöllunar um Grundargötu 6

Eitt það allra skemmtilegasta við það hugðarmál mitt, að kanna og skrásetja sögu eldri húsa er, að það má alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt, sem kannski kollvarpar því sem áður var talið eða stendur í heimildum. Þó heimildir styðji við það sem haldið er á lofti, geta þær brugðist og oft ber ólíkum heimildum ekki saman. Stundum koma „nýjar" upplýsingar um eitthvað sem gerðist fyrir meira en 100 árum. Almennt miða ég við regluna hafa ber það sem sannara reynist" og svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þær heimildir sem taldar eru öruggar geta reynst rangar. En því fer fjarri að ég geti varpað allri ábyrgð á heimildirnar, því ég er aldeilis ekki óskeikull sjálfur og oft hafa ýmsar „rósir" ratað hingað inn, sem aðeins skrifast á ónákvæmni eða fljótfærni hjá mér. 

Síðdegis sl. föstudag, fékk undirritaður áhugavert símtal frá Þorsteini Jónassyni. Erindi hans var upprunasaga Grundargötu 6, en pistill undirritaðs hafði þá birst á vefnum. Þorsteinn er langafabarns Jóns Jónatanssonar sem búsettur var í húsinu á fyrsta áratug 20. aldar og gerði þá athugasemd, að hvorki hann né nokkur innan hans ættar hefði heyrt á það minnst, að Jón hefði búið þarna, hvað þá byggt húsið. Hann vissi heldur ekki til þess, að langafi hans hefði nokkurn tíma verið járnsmiður. Manntöl frá þessum tíma sýna þó með óyggjandi hætti, að Jón Jónatansson og Guðrún Sesselja Jónsdóttur bjuggu þarna ásamt börnum sínum Kristjáni (bakara) og Sigurborgu. Það gæti hent sig, að fjölskyldan hefði búið þarna án þess að nefna það síðar við afkomendur sína. En Þorsteinn taldi nánast útilokað, að langafi hans hefði byggt húsið, án þess að nokkurn tíma væri á það minnst innan fjölskyldunnar. Stórfjölskyldan var um áratugaskeið búsett að Strandgötu 37, steinsnar frá Grundargötu 6, svo einhvern tíma hlyti það að hafa borist í tal, hefði ættfaðirinn byggt það hús. 

    Við nánari skoðun mína á gögnum frá Bygginganefnd kom enda eitt í ljós: Á þessum tíma voru búsettir í bænum tveir menn með nafninu Jón Jónatansson. Annar  var tómthúsmaður, síðar póstur, og var fæddur 1850  en hinn var járnsmiður, fæddur 1874. Sá síðarnefndi var löngum búsettur í Glerárgötu 3. Ef skoðuð eru gögn Bygginganefndar, sést nokkuð glögglega í „registrum“ að sami Jón Jónatansson virðist hafa fengið byggingaleyfi í Grundargötu árið 1903 og leyfi til byggingar smiðju í Glerárgötu 3 árið 1919. Þar er í báðum tilvikum um að ræða Jón Jónatansson járnsmið. Í stuttu máli: Jón Jónatansson járnsmiður hefur að öllum líkindum reist Grundargötu 6 árið 1903, en alnafni hans, Jón Jónatansson póstur flutt inn í húsið nýbyggt og búið þar ásamt fjölskyldu sinni. Er þessu hér með komið á framfæri.

Þorsteini Jónassyni þakka ég kærlega fyrir ánægjulegt símtal og vek athygli á því, að allar athugasemdir og ábendingar við pistlana eru þegnar með þökkum. 

 

jon_jonatansson_byggnefnd1902-21

 

 

Að ofan: Úr yfirliti (registrum) fundargerðabókar Bygginganefndar fyrir árin 1902-21. Um er að ræða skjáskot af vefsvæði Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu. Það verður vart annað lesið úr þessu, en að sami Jón Jónatansson hafi fengið húsgrunninn við Grundargötu og fengið að byggja smiðju við GlerárgötuSá Jón var járnsmiður og var búsettur í Glerárgötu 3. Það er hins vegar annar Jón Jónatansson sem skráður er til heimilis að Grundargötu 6 á árunum 1903-12. Virkar næsta ótrúlegt, en rétt að nefna, að það var ekkert einsdæmi, að einn fengi byggingarleyfi en annar flytti inn í húsið eða lyki við bygginguna. Og þá gat auðvitað allt eins verið um alnafna að ræða eins og aðra.

 

 


Gleðilega páska

Óska öllum gleðrilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin á skírdag, 6. apríl sl. á Garðsskaga og sýnir gamla Garðsskagavita og nærumhverfi hans. 

IMG_0130

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_2890
  • IMG_2885
  • IMG_2892
  • IMG_2888
  • IMG_2887

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 300
  • Frá upphafi: 445778

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 194
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband