Hús dagsins: Gilsbakkavegur 13

Fjögur efstu húsin við Gilsbakkaveg eru öll reist árin 1945-46. PB110721Þar er um að ræða þrjú íbúðarhús og stórhýsi Frímúrarareglunnar sem stendur efst á horninu þar sem mætast Gilsbakkavegur, Kaupangsstræti, Þingvallastræti og Oddeyrargata. En efsta íbúðarhúsið á Gilsbakkavegi er hús nr. 13 en það hús reisti Tómas Björnsson kaupmaður árið 1946. Árið áður sótti hann um að fá leigðan hluta Akureyrarbæjar í efstu íbúðarhúsalóðinni við Gilsbakkaveg. En hann hafði þegar tryggt sér þann hluta sem KEA átti í lóðinni. Haustið 1945 var Tómasi leyft að reisa hús á lóðinni, ein hæð með valmaþaki út tré, járnklætt, 11,7m á breidd og 14,5m á lengd. Teikningarnar gerði Guðmundur Gunnarsson, en þær munu ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar sjá raflagnateikningar Haraldar Guðmundssonar frá júlí 1946. En Gilsbakkavegur 13 er einlyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum  kjallara. Austarlega á framhlið er kvistur og svalir út af honum. Útskot eru til vesturs og suðurs (austarhluti framhliðar skagar eilítið fram) en steypt verönd og inngöngudyr í horninu mill framskots og suðurhliðar. Þá er einnig bílskúr áfastur austurhlið og svalir ofan á. Einfaldir póstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Húsið var frá upphafi íbúðarhús, en þarna var til heimilis snemma á 7.áratugnum umboðið fyrir Scania vörubíla. Það  starfrækti Árna Árnason. Húsið hefur nýverið hlotið miklar endurbætur og er allt sem nýtt en þó næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Húsið prýðir skemmtileg svalahandrið á kvisti og lóðin er innrömmuð af voldugum steyptum kanti sem myndar vissa heild með húsinu. Á þessum kafla er Gilsbakkavegur mjög brattur og hæðarmismunur lóðar því nokkur milli austurs og vesturs. Kantur þessi er meira en mannhæðar hár austast en e.t.v. 120-30cm vestast. Þá eru á lóðinni gróskumikil reynitré. Nú er starfrækt í húsinu gistiheimili sem kallast Hvítahúsið. Ekki ætti að væsa um þá ferðalanga sem gista hið glæsta hús Gilsbakkaveg 13. Myndin er tekin þ. 11.nóv. 2017.

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1022, 4.júní 1945. Fundur nr. 1034, 12.okt. 1945Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Bloggfærslur 22. desember 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 341
  • Frá upphafi: 420314

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 234
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband