Hús dagsins: Skólastígur 3

Fyrstu lóðum við Skólastíg var úthlutað á fundi Byggingarnefndar Akureyrar þannPC070956 27. febrúar 1942(fyrir réttum 78 árum þegar þessi skrif eru birt hér) og voru það lóðir nr. 1 og 3. Lóð nr.1 fékk Kári Johansen, lengi forstjóri vefnaðarvörudeildar KEA en hina lóðina, nr. 3 fengu þeir Kristján Mikaelsson og Arinbjörn Steindórsson. Nokkrum mánuðum síðar, eða um sumarið fengu þeir leyfi til húsbyggingar á lóðinni. Fengu þeir að byggja hús á einni hæð á háum kjallara, með valmaþaki, byggt úr steinsteypu með steinlofti yfir kjallara. Stærð að grunnfleti 9,5x8,6m auk útskota 4,6x1,0m að vestan og 6,2x1,2m að norðan. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Þær teikningar, sem aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu, eru raunar dagsettar tveimur áratugum eftir byggingu hússins. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1943.

Skólastígur 3 er tveggja hæða steinsteypuhús með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki, einföldum, lóðréttum póstum í gluggum og steiningu á veggjum. Austurhluti framhliðar skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru tröppur og inngöngudyr á efri hæð. Á vesturhlið er einnig útskot og svalir til SV. Þær voru stækkaðir árið 1991 eftir teikningum Bjarna Reykjalín.

Þeir Arinbjörn Steindórsson og Kristján Mikaelsson, sem byggðu húsið, voru báðir frumkvöðlar í svifflugi og tveir af þremur fyrstu hér í bæ, sem luku fullnaðarprófi í svifflugi, árið 1940. (Sá þriðji var Jóhannes Snorrason).  Arinbjörn var fæddur í Reykjavík en bjó hér í bæ um nokkurt árabil en fluttist aftur suður og rak þar Efnagerðina Sælkerann en seinna og lengst af við byggingarvinnu. Kristján Mikaelsson, sem var fæddur var á Akureyri var lengi vel búsettur í Bandaríkjunum og starfaði sem flugmaður, en hann var einnig múrarameistari að mennt. Margir hafa búið að Skólastíg 3, sem alla tíð hefur verið tvíbýlishús. Á fimmta áratugnum bjó hér, dr. Sveinn Þórðarson eðlisfræðingur sem þá ritstýrði tímaritinu Náttúrufræðingnum og kenndi við Menntaskólann á Akureyri. Hann varð síðar skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni og  prófessor við háskólann í Red Deer í Alberta í Kanada.

Skólastígur 3 er reisulegt og traustlegt hús og í góðri hirðu. Umhverfis norðausturhorn hússins er verkleg timburverönd og vesturhluti lóðar prýddur gróskumiklum trjá- og runnagróðri. Húsið hlýtur miðlungs- eða fjórða stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2016 og sagt mynda heild ásamt húsi nr. 1, sem fulltrúar einfaldra funkishúsa.  Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð og hefur svo verið frá upphafi. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 899, 27. feb 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Bloggfærslur 27. febrúar 2020

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 550
  • Frá upphafi: 420867

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 459
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband