Hús dagsins: Klettaborg 1

Sumarið 1939 mun hafa verið annálað góðviðrissumar um allt land, sólríkt P9200983og veðursælt. Í júní það ár mældist rúmlega 30 stiga hiti á Teigarhorni í Berufirði mesti hiti sem mælst hefur hérlendis- og stendur það hitamet enn. En það var einmitt í lok sama mánaðar, júní 1939, að Aðalsteinn Tryggvason sótti um að byggja íbúðarhús, 9x10m á erfðafestulandi Konráðs Vilhjálmssonar. Ekki reyndist unnt að heimila nema bráðabirgðabyggingu á þessum stað, þar eð hann var utan skipulagðs svæðis. Það var síðan um haustið, að skipulagsnefnd heimilaði, að byggja mætti lág íbúðarhús í „brekkunni ofan framhalds Brekkugötu“ ofan við Gefjun (þar sem Aðalsteinn var verkstjóri). Þar með lá fyrir byggingarleyfið fyrir. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Klettaborg 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og flötu þaki. Horngluggar eru til suðurs, í anda funkisstefnunar. Krosspóstar eru í gluggum og veggir múrsléttaðir. Norðurhlið framhlið skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru inngöngudyr og þá er einnig útskot til suðurs. Miklar og veglegar steyptar tröppur liggja frá götubrún upp að húsi, sem stendur ívið hærra en gatan. Við götubrún, nyrst og austast á lóðinni stendur steinsteyptur bílskúr, byggður 1977 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.

Aðalsteinn Tryggvason, sem fæddur var á Akureyri árið 1908 starfaði allan sinn starfsaldur á Ullarverksmiðjunni Gefjun en faðir hans, Tryggvi Jónsson, var þar verkstjóri. Á Gleráreyrum var sem kunnugt er, vagga Akureyrsk iðnaðar í hartnær heila öld allt frá stofnun Tóvélanna árið 1897. Um og eftir miðja síðustu hluta öld risu þarna miklar verksmiðjubyggingar, sumar þeirra þær stærstu og veglegustu á landinu. Atvinna var þar trygg og algengt að  fólk ynni þarna áratugum saman og margir ættliðir innan sömu fjölskyldna. Aðalsteinn vann á Gefjun í 40 ár, en hann lést í árslok 1966. Hann var kvæntur Kristínu Konráðsdóttur, frá Hafralæk í Aðaldal. Bjuggu þau hér í hartnær þrjá áratugi, hann til æviloka. Ekki hefur verið langt fyrir Aðalstein í vinnuna, því Gefjun var beint neðan við Klettaborg Stóð, því í ársbyrjun 2007 voru öll fyrrum verksmiðjuhúsin jöfnuð við jörðu, vegna stækkunar verslanamiðstöðvarinnar Glerártorgs.

Klettaborg 1, sem er einbýlishús, mun að ytra byrði að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Er það í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla til hlotið hið besta viðhald. Þá er lóðin bæði vel gróin og vel hirt og stendur húsið skemmtilega á háum kanti. Liggja að því mjög veglegar og reisulegar steyptar tröppur frá götu. Þá er bílaplan fremst á lóð innrammað af miklum tilhöggnum björgum. Allur er frágangur hinn snyrtilegasti og húsið og umhverfi þess til mikillar prýði. Sunnan við húsið, í brattri brekku, er dálítill trjálundur þar sem mikið ber  m.a. á birki- og grenitrjám. Er þarna um að ræða einstaklega skemmtilegt og aðlaðandi umhverfi. Ekki hefur verið unnin húsakönnun fyrir Klettaborg svo höfundur viti til og því ekki kunnugt um hugsanlegt varðveislugildi. Hins vegar er ljóst, að þessi elsti hluti Klettaborgar er sannarlega áhugaverð og skemmtileg heild. Myndin er tekin þann 20. september 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 838, 30. júní 1939. Fundur nr. 843, 6. okt. 1939. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Klettaborg í máli og myndum

Á næstu vikum mun ég fjalla um elstu húsin við götuna Klettaborg ofan Gleráreyra. Formálinn að færslunni nr. 1 var orðinn heldur langur, enda má segja að ég hafi farið örlítið framúr mér í staðháttalýsingum, svo ég ákvað að þessi formáli yrði einfaldlega að sjálfstæðri færslu, þar sem myndir töluðu einnig sínu máli.

Brekkunni á Akureyri mætti lýsa sem breiðum og P9200988víðlendum hjalla, sem skagar  til austurs undan Eyrarlandshálsinum. Víða á Brekkunni má finna hin ýmsu gil og skorninga, sem og klappir og klettaborgir. Nyrst og austast , næst Glerá má t.d. nefna Hamarkotsklappir, Lækjardal (þar sem Dalsbraut liggur) og Kotárborgir (við Sólborg). Vestasti og efsti hluti Hamarkotsklappa trónir hátt yfir Gleráreyrum, og þar suður af eru ystu götur Mýrahverfis. Neðan fyrrgreindrar klappar að austan er þéttingsbrött hlíð upp af Gleráreyrum en öll er hún meira aflíðandi norðanmegin.  Umrædda hlíð þræðir gatan Klettaborg,  en hún er að stofni til fyrrum þjóðvegur úr bænum, sem löngum lá um Brekkugötu og yfir Glerá ofan Gleráreyra.  

Klettaborg er nokkuð löng gata sem liggur í nokkrum víðum bogum frá SA í NV frá Byggðavegi að Dalsbraut. Stundum er rætt um götuna sem sérstakt hverfi, en við hana standa fjölmörg hús, einbýlishús og raðhús, flest byggð á 1. áratug 21. aldar, og töluverður spölur í næstu íbúðagötur. Þar er um að ræða ytri hluta götunnar, sem tengist Dalsbraut í norðri, en segja má að gatan  skiptist í tvær aðskildar húsaþyrpingar, norðvestantil (ytri) og suðaustan.  Yngri byggðin er norðvestanmegin en austar og sunnar, á horni hlíðarinnar  bröttu upp af Gleráreyrum, standa fjögur PA230473hús sem byggð eru á árunum 1939-46. Þau voru í upphafi „úti í sveit“ á mörkum Akureyrarkaupstaðar, en á þeim tíma náði lögsagnarumdæmi bæjarins að Glerá, sem er u.þ.b. 150 metra frá þessum slóðum.

Klettaborg, eða öllu heldur eldri hlutinn, hefur athygliverða sérstöðu hvað varðar númerakerfi. Það er, að númerin 1-4 standa öll í röð sömu megin götunnar, þ.e. sléttar og oddatölur eru ekki mótstæðar.  Klettaborg er rúmlega 700m löng.

 

 

 

 

MYNDIR: P9200980

Efst: Horft til vesturs að yngri húsaþyrpingu Klettaborgar, 20. sept.  

Önnur: Horft yfir norðvesturhluta Klettaborgar, af Skipaklöpp, norðan Mýrarvegar. Fjær er Glerárþorp, en vinstra megin sjást byggingar Háskólans á Akureyri á Sólborg. 

Þriðja (hér vinstri): Mót Klettaborgar og Byggðavegur haustið 2020. Dágóður trjálundur er í brekkunni ofan götunnar, þarna í haustlitum, myndin enda tekin 20. september. 

 

 

 

 

P1220976

Til vinstri (neðsta mynd): Horft til vesturs að klettinum ofan Gleráreyra þann 22. janúar 2021. Bílastæði Glerártorgs í forgrunni og vestasta horn verslunarmiðstöðvarinnar í hægri jaðri myndar. Suðausturhluti Klettaborgar sést skera hlíðina fyrir miðri mynd og hægra megin sér í Klettaborg 1 og 2. Skíðamaðurinn til vinstri er síðuhafi (en ekki hverwink)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 22. janúar 2021

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 252
  • Frá upphafi: 451262

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband