Bjöllur

Einhvern tíma heyrði ég að Volkswagen Bjallan væri mest framleiddi bíll sögunnar. Ekki þori ég að fullyrða að svo sé en eitt er víst að það er ansi mikið til af þessum þýsku eðalvögnum. Framleiðsla þeirra hófst um 1940 og nutu þeir fádæma vinsælda um allan heim áratugina á eftir. Hér eru nokkrar Bjöllur sem ég hef myndað. Efri tvær myndirnar eru teknar á árvissri sýningu Bílaklúbbs Akureyrar, 17.júní 2009. Á þeirri bláu sést greinilega ein sérstaða Bjöllunnar en í þeim var vélin aftur í þar sem kalla má skott, eða hvað? Mér finnst einhvernvegin að skott hljóti að þýða farangursrými en að vélin sé í húddinu. Þ.a. á Bjöllunni er húddið að aftan en skottið að framan. Silfraða Bjallan þótti mér alveg einstaklega glæsilega og varð hún á vegi mínum í eitt skipti í maí 2006 þegar ég var "úti að viðra myndavélina". Sú hvíta að neðan er árgerð 1967 og hefur verið í eigu sama manns frá upphafi og hefur staðið á þessum stað við Aðalstræti alla tíð. Ég er á því að hana ætti hreinlega að friða, rétt eins og gömlu húsin.

p6170243.jpg   p6170242.jpg

p6050027.jpgp5010017.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá þér að bjallan var mest framleiddi bíllinn, það er að segja á þeim tíma sem hann var framleiddur í Þýskaland. Síðan þá hafa komið aðrar tegundir sem hefur verið framleitt meir af, td Toyota Corolla og VW Golf.

Saga bjöllunnar hefst um 1937, þá fengu þjóðverjar flugvélahönnuðinn Porche til að hanna bíl sem gæti orðið almenningseign. Verkefnið var fjármagnað með sölu á bréfum til landsmanna, nokkurskonar fyrirframgreiðslu fyrir bíl. Verkefnið snerist hinsvegar í raun um að hanna léttann bíl sem gagnast gæti í stríði. Á stríðsárunum var framleitt fjöldinn af þessum bílum, bæði afturdrifnum og fjórhjóladrifnum og komu þeir vel út. Jafnvel voru framleiddir bílar sem gátu flotið á vatni og var sett á þá skrúfa sem tengdist við mótorinn.

Í stríðslok voru verksmiðjurnar í Wolfsburg, þar sem bjallan var framleidd, í rúst. Það var fyrir elju og atbeina bresks liðþjálfa, man ekki nafnið, að hafist var handa við að koma verksmiðjunni í gang. Fyrstu bílarnir voru smíðaðir úr hlutum sem dregnir voru út úr rústunum. Þá hófst framleiðsla á hinni eiginlegu bjöllu. Á undraverðum tíma tókst undir stjórn þessa Breta að koma verksmiðjunni á fullt skrið og var þett eina verksmiðjan fyrstu árin.

Þessir bílar voru einfaldir og ódýrir, það varð til þess að þeir urðu gríðarlega vinsælir um allan heim. Litlar breytingar urðu á bílnum, helst um smávægilegar boddý breytingar að ræða en kramið var óbreytt allt fram á áttunda áratuginn. Þá var samkeppnin orðin harðari og ákváðu framleiðendurnir að fórna framfjöðruninni fyrir nýtískulegri fjöðrun. Allt frá upphafi hafði bjallan verið með föstum rörabita sem boltaður var framaná burðarbitann undir bílnum. Þessi biti var með snerilfjöðrun (flexitor) og  þótti það gamaldags. Ákveðið var að setja svokallaða McPerson fjöðrun að framan. Vandamálið var að boddýið var ekki styrkt til samræmis við þetta og áttu bílarnir til að brotna að framan.

Þetta var í raun upphafið að endalokunum, salan hrundi og verksmiðjurnar í þýskalandi ákváðu að hætta framleiðslunni og snúa sér að Golfinum í staðinn. Þá hafði um nokkurt skeið verið settar upp verksmiðjur víða um heim og héldu sumar þeirra áfram framleiðslu á bjöllunni. Td voru verksmiðjur á Indlandi, Mexikó og í Brasilíu ásamt fleiri löndum. Bjallan var, að ég held, framleidd lengst í Brasilíu og eru aðeins örfá ár síðan enn var verið að framleiða þær þar. Ég held að því sé hætt núna.

Þessir bílar voru tækniundur einfaldleikans, sjálfur átti ég nokkrar bjöllur og langar alltaf í eina.

Gunnar Heiðarsson, 18.5.2010 kl. 20:33

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sá miskilningur hefur stundum komið upp að hin nýja Bjalla sé eitthvað í ætt við þá gömlu. Það er ekki rétt, eina sem þær eiga sameiginlegt er VW merkið. Nýja bjallan er í raun Golf með bjöllulaga boddýi.

Gunnar Heiðarsson, 18.5.2010 kl. 20:37

3 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Þakka fyrir þennan fróðlega pistil, Gunnar. Mig minnir  að það hafi verið 2006 sem síðasta Bjallan rann af færibandinu í Brasilíu, það var raunar í flestum fjölmiðlum, enda stórfrétt. Og já, þessi nýja "Bjalla" hefur mér alltaf sýnst mjög lítið "bjölluleg".

Arnór Bliki Hallmundsson, 19.5.2010 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 586
  • Frá upphafi: 420788

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband