Hús dagsins: Þingvallastræti 25

Þingvallastræti er ein elsta og helsta umferðaræð Brekkunnar en gatan er hálfur annar kílómeter og liggur uppaf Gilinu og áleiðis í átt að fjallsrótum. PC080072Gatan tengdist Hlíðarbraut, stofnbraut Glerárþorps með brú á Glerá um 1980 en þá náði hafði byggðin teygt upp að býlinu Lundi, sem stendur undir svokölluðum Háubrekkum við rætur Súlumýra. Fyrstu húsin við Þingvallastræti voru reist um 1930 og lengi vel náði byggðin aðeins upp að Helgamagrastræti, þvergötu norður úr Þingvallastræti sem tók að byggjast eftir 1935. En 1936 var þetta hús, sem nú stendur við Þingvallastræti 25 byggt. Það stóð um 200 metra spöl ofan við Sundlaugina og var efsta hús þéttbýlisins og taldist eiginlega á mörkum þéttbýlis og sveitar. Lundur, sem stendur nærri kílómeter ofar á Brekkunni taldist uppi í sveit, en þangað náði þéttbýlið ekki fyrr en eftir 1970. Líklega hefur þetta hús verið byggt sem grasbýli en á Brekkunni voru á þessum tíma mýrar, mógrafir og beitarlönd; Eyrarbúar áttu kýr sem teymdar voru upp og niður Gránufélagsgötu og Oddeyrargötu sem kallaðar voru Kúagötur.

En Þingvallastræti 25 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og á lágum kjallara. Það er undir áhrifum frá fúnkísstefnu, nánast ferningslaga á grunnfleti en þó nokkuð óhefðbundið útlits, gluggasetning ekki eins fastskorðuð og oft var á funkishúsum t.d. við Helgamagrastræti og Ægisgötu. Stórir og sérstæðir gluggar og bogadreginn dyraumbúnaður gefur húsinu sinn sérstaka svip. Húsið er klætt grjótmulningi. Á austurmörkum lóðar stendur bílskúr, sem líklega er einhverjum áratugum yngra en húsið sjálft. Umhverfi hússins ber þess merki að það er reist í þáverandi dreifbýli, en lóðin er geysi víðlend og mikið stærri en næstu lóðir. Ekki var farið að byggja að ráði í næsta nágrenni hússins fyrr en árin um og eftir 1950 og þá á móti húsinu. En húsið er einbýli og hefur líkast alla tíð verið. Það er í mjög góðu standi og umhverfi þess til fyrirmyndar. Þessi mynd er tekin 8.des 2012.

PS. Ef einhver kannast við að Þingvallastræti 25 hafi haft nafn má endilega upplýsa mig og lesendur um það hér í athugasemd eða gestabók. Einnig hvort einhvers lags búskapur hafi verið í tengslum við húsið sem var útvörður þéttbýlis í efri byggðum Akureyrar um miðja 20.öld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 436909

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 345
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband