10.6.2016 | 10:36
Hús dagsins: Barð (áður Aurora) við Eyrarlandsveg 25.
Eyrarlandsvegi á Brekkunni mætti skipta í tvo hluta, efri og syðri hluta, sem liggur á brekkubrúninni framan Lystigarðs og lóð Menntaskólans á Akureyri. Hið tilkomumikla timburhús skólans, Gamli Skóli frá 1904 stendur nr. 28 við götuna. Neðri og nyrðri hluti liggur frá Grófargili bak Akureyrarkirkju og upp á brún Barðsgils. Upp það gil liggur hinn svokallaði Menntavegur frá Hafnarstræti norðan Samkomuhúss. Á þessu stað mætast Eyrarlandsvegur og Hrafnagilsstræti en þarna einnig liggur gatan Barðstún á brekkubrúninni, samsíða efri hluta Eyrarlandsvegar. En við hvaða Barð er gilið og gatan kennd ? Því verður svarað hér.
Gegnt Gamla Skóla standa sex íbúðarhús, Eyrarlandsvegur 25, 27, 29, 31, 33 og 35. Á nr. 25 stendur hús nokkuð frábrugðið næstu húsum, steinhús með flötu þaki. En þarna stóð áður smábýlið Barð, hjáleigan úr landi Stóra- Eyrarlands. Hér ætla ég að mestu að fjalla um það hús sem síðast stóð þar . Hér til hliðar má sjá teikningu höfundar að Barði eins og það mun hafa litið út fyrstu áratugi 20.aldar. Stuðst var við ljósmynd sem birtist í Húsakönnun um MA-reit (sjá tengil í heimildaskrá) Íbúðarhúsið á Barði stóð nokkurn veginn þar sem Eyrarlandsvegur 25 stendur nú. Það var ekki stórt eða háreist, aðeins um 35 fermetrar (3,9x8,8m segir í Fasteignamati 1918) en saga þess var nokkuð sérstök. Það kom t.d. hingað til lands með skipi og hýsti nokkuð merkilega starfsemi áður en það settist að á Barði.
Um aldamótin 1900, þ.e. 1899-1900 var hópur danskra vísindamanna staddur á Akureyri við rannsóknir á norðurljósum. Fyrir þeim hópi fór Adam Paulsen eðlisfræðiprófessor en með í för voru einnig þeir Harold Moltke greifi og listmálari, Dan B. La Cour, eðlisfræðingur og Ivar B. Jantzen nemi. Þeir höfðu bækistöðvar á nokkrum stöðum við bæinn í litlum húsum, ekki ósvipuðum vegavinnuskúrum, sem þeir fluttu með sér. Mun ein stöðin hafa verið sem næst hátindi Ytrisúlu en eitt húsið, sem þeir kölluðu Auroru settu þeir niður ofan Naustagils. Kom þetta hús til Akureyrar forsmíðað frá Danmörku, þann 9.ágúst 1899. Þarna var bækistöð Norðurljósamanna en einnig vinnustofa Moltke greifa en eftir hann liggja mörg málverk af norðurljósum. Í húsinu voru einnig geislavirk efni fyrst notuð á Íslandi, en Paulsen notaði þau við segulmælingar. Efnin sem hann notaði fékk hann hjá Pierre Curie en hann og kona hans Marie voru frumkvöðlar í uppgötvun og nýtingu geislavirkra efna. Til er fræg mynd sem m.a. prýðir anddyri Icelandair hótels á Akureyri, sem sýnir prúðbúið fólk skála í kampavíni á tindi Súlna. Þar má m.a. sjá Moltke greifa í félagi við heiðursfólk á Akureyri m.a. Axel og Önnu Schiöth. Aurora stóða á barmi Naustagils, nærri suðurmörkum Kirkjugarðs Akureyrar. Hér er ítarleg ritgerð um Norðurljósamennina (sem margir Akureyringar kölluðu svo) og málverk Moltkes. Þess má einnig geta, að við mælingu grunnlínu Akureyrar sumarið 1900 höfðu landmælingamennirnir dönsku bækistöð í Auroru.
Á sama tíma, snemma sumars árið 1900 hugðist Olgeir Júlíusson bakari (faðir Einars alþingismanns) byggja á Barði. Fékk hann leyfi til að reisa hús 14x7al.að stærð suðvestan við gamla bæinn. Ekki kemur neitt frekar fram í bókunum Bygginganefndar frá þessum árum, en vitað er að einhvern tíma á bilinu 1901-05 (mögulega síðla árs 1900) var húsið Aurora flutt á þennan stað og varð að íbúðarhúsi á Barði. Hvort tilfellið hafi verið, að Olgeir hafi fengið leyfi til byggingar húss af þessari stærð og síðan óvænt fengið það tilboð að flytja Auroru-húsið í stað byggingar, eða að hann hafi strax í júní 1900 haft augastað á húsinu og fengið leyfi til að flytja það þangað fæst ekki upplýst. Mögulegt er, að byggingaleyfið vísi til steypts grunns sem undir húsinu var. En árið 1918 fást þessar upplýsingar um Barð í Fasteignamati. Húsið er sagt íbúðarhús úr timbri með járnklæddu þaki, einlyft með lágu risi 3,9x8,8m að stærð, 3 herbergi og byggt 1900. Þar standa einnig gripahús og heyhlaða úr steinsteypu með járni á þaki. Húsakosturinn er metinn á kr. 2900 en lóðin sem sögð er 448 fermetrar á kr. 400. ( Ég ætla ekki að reyna að snara þessum tæplega 100 ára krónutölum til núvirðis! ). Eigandi er Haraldur Júlíusson, bróðir Olgeirs. Þar er Barð sagt nr. 2 við Eyrarlandsveg en fékk að öllum líkindum númerið 25 þegar húsin nr. 27-31 tóku að byggjast um 1923.
Líklegt má telja að búskapur hafi verið stundaður vel framan af 20.öld en á 4.áratugnum var næsta nágrenni hússins að mestu fullbyggt.
Kjallari var undir húsinu, og til er sú saga að bankaræningi hafi verið þar í felum þar til hann komst í skip frá Akureyri. Þessi saga er rakin nokkuð skilmerkilega í rammagrein á bls. 66 í bók Steindórs Steindórssonar (1993), Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Var þar um að ræða bankastjóra, sem einn daginn virtist gufaður upp og á sama tíma kom í ljós að sjóðir bankans virtust í verulegi ólagi. Bankastjórans var leitað lengi en í raun var hann allan tíman í felum hjá Maríu [Flóventsdóttur] í Barði (móður Olgeirs og Haraldar) sem einnig kom honum til hjálpar með hest og söðul. Síðar fréttist af þessum sama bankastjóra í Ameríku. Það kemur fram í frásögninni að aldrei var Maríu álasað fyrir þetta tiltæki, heldur þótti þetta til marks um fádæma góðmennsku fátæku húsfreyjunnar í Barði.
Húsið breyttist lítið þann tíma sem það stóð og aldrei var það stækkað, þrátt fyrir að vera aðeins þessir 30 fermetrar á einni hæð. Húsið var upprunalega panelklætt að utan en fékk síðar steinblikkklæðningu, líkt og mörg timburhús. Um 1968 var húsið flutt upp í Hlíðarfjall þar sem hugmyndin var að nýta það sem skýli fyrir gönguskíðafólk. Á myndinni hér til hliðar má sjá Barðshúsið eða Auroru fyrir framan Skíðahótelið. Myndina fékk ég senda frá Víði Gíslasyni en hana tók Hermann Sigtryggsson um 1969.Veitti hann góðfúslegt leyfi til notkunar á henni hér. Ef rýnt er inn í myndina má sjá áletrunina "Eyrarlandsvegur 25" á horni hússins.
Húsið reyndist ekki fullnægjandi þar uppfrá og fór ekki betur fyrir því en svo að það fauk í aftakaveðri og skemmdist og var rifið í kjölfarið. Lauk þar með sögu þessa stórmerkilega húss, sem 70 árum áður hafði verið flutt á skipi til Akureyrar í þeim tilgangi að vera bækistöð vísindarannsókna. Alla tíð bjó sama fjölskyldan í barði, Júlíus Kristjánsson og áðurnefnd María Flóventsdóttir og börn þeirra, Olgeir (flutti reyndar í Strandgötu 41 á Oddeyri fljótlega eftir að hann reisti húsið) Haraldur, Þorgerður, Jakobína og Kristrún Júlíusbörn. Sú síðasttalda var kölluð Rúna í Barði og er hún mögulega einn annálaðasti ræstitæknir sem sögur fara af. Í nær hálfa öld, frá árinu 1912 starfaði hún við þrif á göngum Menntaskólans á Akureyri og margir fyrrum nemendur skólans muna eftir henni. Hér er minningargrein um þessa heiðurskonu úr skólablaði Menntaskólans á Akureyri, Muninn frá vetrinum 1967 en Rúna lést í nóvember 1966 (fædd 1882).
Núverandi hús á Eyrarlandsvegi 25 er byggt árið 1970 eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Það er einlyft steinsteypuhús með flötu þaki en stendur á kjallara. Lóðin er mishæðótt og er inngangur í kjallara austanmegin. Austurhlið hússins snýr einmitt að götunni Barðstúni- sem heitir eftir Barði.
Á þessari mynd er horft á Eyrarlandsveg 25 úr norðri. Austurhlið hússins snýr að götunni Barðstúni, sem gengur þarna til suðurs frá Eyrarlandsveginum á barmi Barðsgils. Þarna stóðu íbúðarhús og byggingar á Barði. Myndin er tekin 18.maí 2015.
Upprunalega stóð Barðshúsið, eða Aurora, á höfðanum á suðurbarmi Búðargils, sunnan Kirkjugarðsins. Það er u.þ.b. á þeim slóðum sem þessi mynd er tekin þann 8.nóv. 2015.
Heimildir:
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 189, 6.júní 1900.
Óprentað, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Fasteignamat á Akureyri 1918
Ópr. varðveitt á Hskjs. Ak.
Leó Kristjánsson. (Án árs) Þrjár greinar um norðurljósaleiðangra til Íslands á árunum 1883-1910. Pdf-skjal á slóðinni https://notendur.hi.is/leo/Nordurljos.pdf
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Nordlysets maler. Harald Moltkes Malerier på Meteorologisk Institut. Höf. Peter Stauning og Sören Henrikssen, Köbenhavn 2008. Vísað er á greinina í krækju í texta.
Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sérlegur heimildamaður minn við skrif þessarar greinar heitir Víðir Gíslason. Hann veitti mér margvíslegar heimildir, bæði gegn um símtöl og tölvupósta og kann ég honum bestu þakkir fyrir.
Hermanni Sigtryggssyni þakka ég einnig kærlega fyrir góðfúslegt leyfi til birtingar á ljósmyndinni af Barði við Skíðastaði.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 15
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 506
- Frá upphafi: 436901
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 338
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.