Hús dagsins: Gilsbakkavegur 9

Tryggvi Jónatansson byggingameistari átti heiðurinn af býsna mörgum húsum á Akureyri áratugina milli 1920-50. PB110720Eitt þeirra er Gilsbakkavegur 9, en hann fékk árið 1945 leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð nr.9 við Gilsbakkaveg. Húsið byggt úr steinsteypu og með steinþaki, helmingur ein hæð á kjallara. Stærð 13,2x6m + útskot að sunnan, 1x7,7m. Húsið er tvær álmur, byggt á pöllum sem kallað er, vestri hluti er tvílyftur með háu einhalla þaki til norðurs en eystri hluti ein hæð á háum kjallara, með flötu þaki. Í kverkinni milli álmanna eru inngöngudyr og steyptar svalir til suðurs. Á efri hæð eru einnig inndregnar svalir meðfram allri hæðinni. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn og pappi á þaki en veggir eru múrsléttaðir. Á efstu hæðinni er breiður "stofugluggi" til suðurs. Ekki eru horngluggar á húsinu, þó það sé líkast til undir miklum funkis-áhrifum. Upprunalega var vestri álma lægri, ein hæð án kjallara og flatt þak á öllu húsinu. Það má sjá á raflagnateikningum Sigurðar Helgasonar frá vori 1945, en upprunalegar teikningar Tryggva Jónatanssonar af húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar finna teikningar af breytingum sem gerðar voru á húsinu um 1960. Þá var byggð efri hæð með háu einhalla þaki ofan á vesturhlutann, og fékk húsið þá núverandi útlit að mestu. Tryggvi Jónatansson bjó þarna ásamt fjölskyldu sinni fyrstu árin. Þarna bjuggu síðar um árabil tvær systur, þær Iðunn og Þóra Sigfúsdætur frá Syðra Kálfsskinni á Árskógsströnd. Iðunn var kjólameistari en Þóra verslunarkona og saman ráku þær klæðaverslunina Rún í Hafnarstræti 106. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og líkast til alltaf hlotið gott viðhald. Það er a.m.k. í mjög góðri hirðu og lítur vel út og sama er að segja af umhverfi þess. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, líklega frá upphafi. Lóðin hefur einnig hlotið nokkra yfirhalningu, þar er m.a. nýlegt hellulagt plan. Húsið er nokkuð sérstakt að gerð og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Myndin er tekin þann 11.nóv 2017. 

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1007, 16.mars 1945. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 430
  • Frá upphafi: 440787

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 208
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband