Hús dagsins: Helgamagrastræti 36

Árið 1944 fékk Þorsteinn Benediktsson þessa lóð og byggingarleyfiP5030898 fyrir steinsteyptu íbúðarhúsi, á einni hæð með kjallara undir hluta og járnklæddu valmaþaki úr timbri. Stærð hússins 10,65x8,6 auk útskots að vestan, 5x1,4m. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1945.  Teikningarnar að Helgamagrastræti 36 gerði Tryggvi Jónatansson, eins og að mörgum húsum á Akureyri á 4. og 5. áratug 20. aldar.

Helgamagrastræti 36 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með valmaþaki, útskoti til austurs á framhlið og inngangi í kverkinni á milli. Á suðurhlið er viðbygging, sólskáli úr gleri. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum.

Þau Þorsteinn Benediktsson og Guðrún Jóhannsdóttir, sem byggðu húsið bjuggu þar um áratugaskeið eða allt til æviloka. Hann lést árið 1977 en hún 1981. Árið 1956 byggðu þau bílskúr á baklóð hússins og stendur hann enn, og er hann byggður eftir teikningum þeirra Gunnars Óskarssonar og Páls Friðfinnssonar. Ýmsir hafa átt húsið og búið þar eftir þeirra dag. Húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús og hefur ekki tekið stórvægilegum breytingum að ytra byrði. Sólskáli var byggður við suðurhlið hússins árið 2002 eftir teikningum Haraldar Árnasonar. Meðfram vesturhlið og að sólskálanum er grindverk eða veggur úr gleri. Lóðin er gróin og í góðri hirðu og á lóðarmörkum steyptur veggur sem líklega er frá svipuðum tíma og húsið var byggt.

Helgamagrastræti 36 er traustlegt hús og í góðri hirðu, það hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 983, þ. 21. júlí 1944. Fundur nr. 986, 18. ágúst 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Hvað finnst þér um þessi nýju byggingaráform á Oddeyrinni? Það var fjallað um þetta á rás 1 í gær í Flakki (endurtekið). Þar var talað um að Oddeyrin eigi að verða aðalíbúðasvæðið eftir 200 ár! Hrædd er ég um að þá hafi hækkað svo mikið í sjónum, að farið verði að flæða yfir Oddeyrina, nema byggðir verði varnargarðar. Þetta er varla réttur hestur að veðja á til langrar framtíðar.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 1.11.2019 kl. 18:15

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð.

Ég verð að segja, að þetta þykja mér stórkarlalegar hugmyndir, svo ekki sé meira sagt. Burtséð frá því, hvernig 11 hæða byggingar falla inn í rótgróna, lágreista byggð frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. er þetta líkast til vafasamur staður á marga vegu. M.a. hvað varðar flugumferð, burðarþol svæðis og eins og þú segir, hækkandi sjávarstöðu. Það er að vísu á reiki, hve mikið sjávarborð kemur til með að hækka og á hve löngum tíma en ljóst er, að það mun hækka og eftir 200 ár gæti það alveg farið að ógna byggðum við sjávarmál. Varnargarðar eru vitaskuld lausn og að sjálfsögðu skal verja Eyrina með kjafti og klóm fyrir mögulegum ágangi sjávar.  En þó ég vilji jú veg Oddeyrar sem allra mestan, skyldi maður ætla, að nærtækara væri að skipuleggja byggð til fjarlægrar framtíðar frekar ofar en neðar þar sem því verður við komið. Og þeir sem fara fótgangandi og/eða hjólandi á milli hverfa hér í bæ þekkja, að bæjarland Akureyrar nær svosem fáeina metra yfir sjávarmál wink   

Arnór Bliki Hallmundsson, 2.11.2019 kl. 16:21

3 identicon

Takk f. svarið, Arnór. Auk alls þessa er Oddeyrin eins og allar eyrar mynduð af framburði lækja til sjávar, sem þýðir að það er djúpt niður í berggrunninn. Mjög óheppilegt er að setja há og þung hús á slík svæði, rétt eins og á uppfyllingar. Í Hafnarfirði er farið að síga undan uppfyllingum við Strandgötu, sem eru þó frá 20.öld, sum bílastæði ekki lengur nothæf. 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 2.11.2019 kl. 22:50

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Þetta er líka mjög góður og gildur punktur, sem varðar burðarþol svæða sem að mestu er árframburður og uppfyllingar. Held að eyrar almennt séu ekki góður staður fyrir skýjakljúfa; þúsundir tonna af steypu á smáum blettum. Þess má líka geta, að þegar bryggjan sem þarna er, oft kennd við Eimskip var í byggingu var sig töluvert vandamál (gárungarnir kölluðu bryggjuna Sigöldu). 

Arnór Bliki Hallmundsson, 5.11.2019 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 517
  • Frá upphafi: 436912

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 348
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband