Hús dagsins: Helgamagrastræti 49

Helgamagrastræti 49 byggði Böðvar Tómasson byggingameistari eftir eigin teikningum.P5030885 Hann fékk lóðina og byggingaleyfi vorið 1942. Böðvar fékk að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð með kjallara undir hálfu húsinu, að stærð 10x7,72m auk útskots að stærð 1,25x4,40m. Byggingaleyfið var veitt með því skilyrði, að húsið yrði byggt með valmaþaki en Böðvar sóttist eftir því að hafa þakið með „skúrlagi“ líklega einhalla aflíðandi. Þannig má telja ljóst, að bygginganefnd hefur lagt áherslu á, að húsin við götuna bæru sama svipmót þ.e. öll með valmaþaki.

Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu valmaþaki. Steiningarmúr er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið. Í kverkinni á milli er inngangur og slútir þak yfir.  Áfast suðurhlið hússins er sólpallur úr timbri.

Böðvar Tómasson byggingameistari og kona hans, Kristín Jóhannesdóttir, sem byggðu Helgamagrastræti 49 bjuggu hér allt til dánardægra, en hún lést árið 1981 og hann tíu árum síðar (hafði þá dvalið á Dvalarheimilinu Hlíð um nokkurt skeið). Böðvar var frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði en hún frá Syðra Hvarfi í Skíðadal. Bróðir Böðvars var Eyþór Tómasson framkvæmdastjóri, sem Akureyringar þekktu og þekkja auðvitað enn sem Eyþór í Lindu. Böðvar og Kristín voru metnaðarfull og vandvirkt garðyrkjufólk og byggðu gróðurhús á lóðinni. Þar mun Kristín hafa unað löngum stundum við ræktun rósa og annarra skrautblóma. Kristín Jóhannesdóttir, sem kenndi sig við Syðra Hvarf var skáld og sendi frá sér ljóðabækur, Liljur í lundi (1962) og Rósir í runni (1965). Eflaust hefur garðræktin í gróðurhúsinu og garðinum við Helgamagrastræti 49 veitt henni innblástur, svo sem ráða má af titilljóði síðarnefndu bókarinnar; Rósir í runni:

Ég vil rækta rósir

i runni við mitt hús.

Það eykur yndi og gleði,

ég er til þess svo fús.

 

A sælu sumarkveldi

ég sit og horfi á þær.

Ein er hvítust allra,

hún er svo fin og skær.

 

Hér er rauða rósin,

sem regnið vætti i dag.

Hun breiðir út blöðin fögru

svo blítt um sólarlag.

 

Og rósin gula gleður,

með grænu blöðin sin.

Það hlýjar mér um hjarta

að hugsa um blómin mín.

 

Nú moldin milda angar,

svo mjúk við foldarbarm.

Og nóttin, þýð og þögul,

þreyttan hvílir arm.

Kristín Jóhannesdóttir frá Syðra Hvarfi.

Sjálfsagt heyrir margt af rósum og runnum Kristínar og Böðvars sögunni til, en engu að síður er lóðin enn þann í dag mjög gróskumikil. Þar standa nokkur stæðileg lerkitré og fleiri tré, sem þau heiðurshjón hafa eflaust gróðursett á sínum tíma. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð.

Helgamagrastræti 49 er næst nyrsta húsið í langri funkishúsaröð við Helgamagrastrætið og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af þeirri áhugaverðri heild. Frá upphafi virðist einmitt hafa verið lögð áhersla á, að götumyndin væri samstæð og heildstæð, sbr. þá staðreynd, að Böðvari var uppálagt að byggja hús sitt með valmaþaki en ekki skúrþaki. Enda er það svo, að öll íbúðarhúsin, hvert og einasta við Helgamagrastrætið frá nr. 32-51 eru með valmaþaki. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 30. apríl 1942.  Fundur nr. 8. maí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Kristín Jóhannesdóttir. (1965). Rósir í runni. Selfoss; Prentsmiðja Suðurlands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0685
  • IMG_0776
  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 541
  • Frá upphafi: 419483

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 441
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband