Hús dagsins: Helgamagrastræti 51

Helgamagrastræti 51, sem um áratugaskeið var nyrsta húsið við P5030884Helgamagrastræti vestanvert, reisti Hjörtur Björnsson. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1945 en árið 1943 fékk Hjörtur lóðina og byggingaleyfi fyrir steinsteyptu húsi á einni hæð með kjallara og með járnklæddu valmaþaki úr timbri. Stærð að grunnfleti 8,0x8,3m auk útskots að austan 1,4x4m. Teikningar gerði Tryggvi Jónatansson.

Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Slétt múrhúð er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið og inngöngudyr í kverkinni á milli, og steyptar tröppur að þeim.

Helgamagrastræti 51 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Hjörtur Björnsson búfræðingur og iðnverkamaður og kona hans, Þóra Haraldsdóttir munu hafa búið hér í ríflega áratug, en árið 1957 eru þau flutt að Vökuvöllum. Kenndi Hjörtur sig þann bæ æ síðan. Vökuvellir stóðu skammt  norðan Naustabæja, þar sem nú eru göturnar Vaðlatún og Lækjartún í Naustahverfi. Hjörtur hefur líklega stundað einhvern búskap meðan hann bjó hér, en hann átti Hamarkotstúnið og gripahús þar, sem hann seldi árið 1954. Síðar voru lagðir stígar og trjám plantað á Hamarkotstúni, sem nú er eitt helsta græna svæði ytri Brekkunnar, en túnið liggur á milli Þórunnarstrætis og Byggðavegar  norðan og ofan Sundlaugar.  Margir hafa búið í Helgamagrastræti 51 eftir tíð þeirra Hjartar og Þóru. Húsið mun óbreytt frá upphafi, virðist traustlegt og í góðri hirðu og er til mikillar prýði í glæstri götumynd. Garðurinn er mjög gróskumikill, þar eru stæðileg tré af ýmsum gerðum, greni, reyni og birki og margt runnagróðurs. Á lóðarmörkum er einnig steyptur veggur með stöplum, eins og svo víða á ytri Brekkunni og er honum haldið vel við. Ein íbúð er í húsinu. Helgamagrastræti 51 hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 sem hluti hinnar áhugaverðu heildar sem funkishúsaröðin við Helgamagrastrætið er.

Helgamagrastrætið er líklega ein lengsta og heildstæðasta funkishúsaröð sem finna má á Akureyri.Efst og syðst eru Samvinnubyggingafélagshúsin, tveggja hæða með flötum þökum byggð fyrir 1940 en sunnar og neðar eru húsin stærri að grunnfleti og flestöll með valmaþökum. Þau hús eru flest byggð árin 1940-1945. Að undanskildum Helgamagrastræti 10 (1985), leikskólanum Hólmasól (2005) og fjölbýlishúsinu við nr. 53 (1990) er gatan öll byggð á árunum 1936-50. Sammerkt með lang flestum þessara húsa eru grónar lóðir með miklum trjágróðri, steyptir veggir, oft með járnavirki við lóðarmörk sem einnig mynda skemmtilega heild ásamt húsunum. Myndin af Helgamagrastræti 51 er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Fundur nr. 955, 3.sept. 1944.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 17
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 466
  • Frá upphafi: 436805

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 297
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband