Hús dagsins: Möðruvallastræti 4

Þann 1. september 1939 réðust herir Þjóðverja inn í Pólland, og er sú dagsetning sögð marka upphaf Seinni Heimstyrjaldar í Evrópu. En það var nákvæmlega ári fyrr, 1. sept. 1938,PA270989 sem Marinó L. Stefánsson kennari fékk úthlutaða lóð við Möðruvallastræti, næst sunnan við Helga Skúlason. Það var hins vegar ekki fyrr en vorið eftir, eða í maí 1939 sem honum var leyft að reisa hús „samkvæmt meðfylgjandi teikningu og lýsingu“. Ekki er að finna frekari útlistun á málum eða byggingarefni eða byggingargerð hússins í bókunum Bygginganefndar. En teikningar Halldórs Halldórssonar frá maí 1939 lýsa húsinu nokkuð ágætlega, þar sést m.a. að húsið er 8,20x9,00m að grunnfleti og undir hálfu húsinu kjallari, þar sem voru geymsla og þvottahús. Og að sjálfsögðu miðstöðvarklefi, því á þessum tíma voru flest hús kynt með kolum.

Möðruvallastræti 4 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni með einhalla, aflíðandi þaki (skúrþaki). Á bakhlið, eða til vesturs, er einlyft viðbygging sem einnig er steinsteypt. Pappi er á þaki og veggir með steiningarmúr og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum.

Marinó Laxdal Stefánsson, sem byggði húsið, var fæddur að Refsstöðum í Laxárdal en uppalin á Skógum á Þelamörk. Hann var búfræðingur og kennari að mennt, og starfaði við kennslu allan sinn starfsaldur og raunar vel það, því hann mun hafa tekið einstaka börn í heimakennslu í rúman áratug eftir starfslok. Marinó bjó ekki í mörg ár hér, en hann fluttist suður 1945.  Þar kenndi hann m.a. í Laugarnesskóla lengst af við Breiðagerðisskóla.  Í um hálfa öld bjó hér Eðvarð Sigurgeirsson ljósmyndari og frá 1978 starfrækti hann ljósmyndastofu sína hér.  Hann var í hópi ötulustu og  þekktustu ljósmyndara landsins á 20. öld og var auk þess brautryðjandi í kvikmyndagerð. Hann kvikmyndaði m.a. leiðangra um hreindýraslóðir um 1940, og þá tók hann þátt í björgunarleiðangrinum sem sótti áhöfn Geysis á Bárðarbungu haustið 1950. Kvikmyndaði hann þar hið einstæða björgunarafrek.  Eðvarð nam ljósmyndun hjá bróður sínum Vigfúsi, og tók við rekstri ljósmyndastofu hans á fjórða áratugnum. Margar ljósmyndir þeirra bræðra hafa birst t.d. í bókum og víðar og sýna margar hverjar Akureyri, hús og mannlíf á fyrri helmingi síðustu aldar og hafa ómetanlegt heimildagildi.  Eðvarð bjó hér til æviloka, 1999 en hann var fæddur 1907.

Húsið hefur tekið nokkrum breytingum gegn um tíðina, en þó langt frá því að upprunalegt útlit hafi raskast mikið.  Árið 1953 var byggt við húsið eftir teikningum Bjarna St. Konráðssonar og 1964 var þaki breytt úr flötu í einhalla, eftir teikningum Tómasar Böðvarssonar. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Í Húsakönnun 2016 hlýtur húsið 5. Stigs (af 8-9) eða miðlungs varðveislugildi sem hluti götumyndar, og þar segir að „[...]saman  mynda  húsin við Möðruvallastræti 4, 6 og 8 áhugaverða húsaröð og götumynd fremur  áþekkra húsa sem byggð eru undir áhrifum funksjónalisma.“ (Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016: 89). Húsið er einfalt og látlaust funkishús og er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði og sama er að segja um gróðri prýdda lóðina, sem römmuð er inn með steyptum stöplum og járnavirki. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 822, 1. sept. 1938.  Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Fundur nr. 904, 27. mars 1942 Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 50
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 626
  • Frá upphafi: 420733

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 493
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband