Hús dagsins: Möðruvallastræti 6

Það er eitthvað sérlega viðeigandi við það, að fyrsta "Hús dagsins" á nýju ári sé nr. 6 og birtist á 6. degi ársins wink.

Möðruvallastræti 6 reisti Ásgeir Austfjörð múrarameistari árið 1940.PA270986 Hann fékk lóðina haustið 1938 og rúmu ári síðar fékk hann að breyta húsinu, þ.e. að reisa 1,20x3,9m útskot til austurs á norðurenda. Húsið reisti Ásgeir eftir eigin teikningu, en á sama tíma reisti Jón Sigurðsson myndasmiður hús eftir sömu teikningu á Hlíðargötu 9. Sá er þó munur á húsunum, að á Möðruvallastræti 6 er útskot á framhlið, þ.e. nyrsti hluti framhliðar skagar 1,20m fram.  

Möðruvallastræti 6 er einlyft steinsteypuhús í funkisstíl með einhalla aflíðandi þaki, á lágum kjallara. Veggir eru klæddir steiningarmúr, þakpappi á þaki og lóðrétt fög í gluggum. Í kverk milli framhliðar og útskots eru inngöngudyr og steyptar, bogadregnar tröppur upp að þeim. Á suðurhlið er verönd úr timbri.

Ásgeir Vilhelm Austfjörð, sem fæddur var á Eskifirði 1905, starfaði sem múrarameistari og byggði mörg hús og teiknaði nokkur. Hann tók þátt í byggingu hinna ýmissa stórhýsa  á 3. -5. áratug 20. aldar, svo sem kjötbúð KEA í Hafnarstræti, veglegra skólabygginga að Hólum í Hjaltadal svo fátt eitt sé nefnt, auk byggingar og teikninga íbúðarhúsa.  Þá kom hann einnig  að byggingu Akureyrarkirkju. Hann kemur fyrir nokkrum sinnum í bókunum Bygginganefndar frá því um 1940 þar sem hann sækir um byggingarleyfi fyrir hönd annarra. Ásgeir bjó hér til æviloka, en hann lést langt fyrir aldur fram snemma árs 1952. Ásgeir var kvæntur Svanhildi Baldvinsdóttur frá Ólafsfirði. Síðar bjuggu hér, á efri árum, Zophonías Árnason, lengi vel yfirtollvörður, og Sigríður Davíðsdóttir. Þau heiðurshjónin gáfu   Zontaklúbbnum á Akureyri Aðalstræti 54  árið 1951, auk ýmissa annarra muna, þar sem klúbburinn setti á fót safn um Nonna. Téð Aðalstræti 54 er að sjálfsögðu Nonnahús, en húsið höfðu foreldrar Sigríðar átt. Sjálfsagt er mörgum ekki kunnugt um þessa sögu um uppruna safnsins um Nonna og sjálfsagt að halda henni til haga, sem og rausnarskap þeirra Sigríðar og Zophoníasar.

Húsið hefur líkast til alla tíð verið einbýlishús og margir átt hér heima. Það er í megindráttum leyti óbreytt frá upprunalegri gerð, nema hvað árið 1967 var þaki breytt og sett á það kantur, eftir teikningum Snorra Guðmundssonar og timburverönd á suðurhlið er tiltölulega nýleg. Húsið og lóð eru í góðri hirðu og til mikillar prýði, á lóðinni eru m.a. gróskumikil reynitré. Tröppurnar bogadregnu og steypt handrið í stíl setja að vissu leyti nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Möðruvallastræti 6 hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs eða 5. stigs varðveislugildi sem hluti hinnar heilsteyptu þrenningar funkishúsa nr. 4-8 við Möðruvallastræti. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 825, 17. okt 1938.  Fundur nr. 844, 31. okt 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 450
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 287
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband