Hús dagsins: Skólastígur 1

Skólastígur liggur í vinkil til norðurs frá Hrafnagilsstræti í átt að Íþróttahöllinni og Sundlaugarsvæðinu en sveigir til austurs niður að Rósenborg (fyrrum Barnaskóla Íslands) og framhjá Brekkuskóla (áður Gagnfræðaskólanum). Við götuna standa sjö hús, öll sunnanmegin en norðanmegin eru bílastæði fyrir íþróttamannvirkin og Brekkuskóla og neðst Rósenborg. Neðsti og austasti hluti götunnar er nokkuð brattur og er gatan lokuð í þann enda fyrir bílaumferð. Strangt til tekið nær Skólastígur þó niður að Eyrarlandsvegi en er gegnt milli bílastæðis Rósenborgar og plans á milli húsa nr. 8 og 12 við Eyrarlandsveg. Á milli Skólastígs og Hrafnagilstrætis liggja Möðruvallastræti og Laugargata. Alls er Skólastígur um 360m langur frá Eyrarlandsvegi en frá planinu við Rósenborg að Hrafnagilsstræti eru um 330m.

Skólastígur  1.

Skólastíg 1 reisti Kári S. Johansen árið 1942. PC070954Fékk hann lóðina og leyfi til byggingar húss á einni hæð á kjallara, með steyptum gólfum og loftum 12x10,30m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Adam Magnússon.

Skólastígur er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum og bárujárni á þaki. Gluggapóstar eru einfaldir, lóðréttir og gluggasetning í anda funkisstíls. Útskot að framan og steyptar tröppur í kverkinni á milli. Áfast húsinu að vestan er bílskúr og ofan á honum svalir. Bílskúrinn er byggður árið 1957 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi, en þaki hefur hins vegar verið breytt, úr flötu þaki í valmaþak.

Húsið hefur frá upphafi verið tvíbýlishús, en þarna var einnig starfrækt verslun um skamma hríð á fimmta áratug 20. Aldar. Í desember 1945 var auglýst hér opnun Verslunarinnar Bárunnar, þar sem fengust matvörur, gos, sælgæti, hreinlætisvörur og ýmislegt annað.   Kári S. Johansen sem byggði húsið var fæddur og uppalin í Noregi. Hann starfaði áratugum saman hjá KEA, lengi vel sem forstjóri vefnaðarvörudeildar félagsins.  Hann var kvæntur Sigríði Laufeyju Árnadóttur, sem fædd var á Gröf í Öngulstaðahreppi og bjuggu þér hér um langt árabil. Á fimmta áratug 20. aldar bjó hér Sesselja nokkur Eldjárn, frá Tjörn í Svarfaðardal, en hún var valinkunn fyrir ötult starf í þágu slysavarnarmála, stofnaði m.a. kvennadeild Slysavarnarfélagsins árið 1935. Margir muna sjálfsagt eftir Sesseljubúð, neyðarskýli á Öxnadalsheiði sem nefnt var eftir henni.

Skólastígur 1 er reisulegt og traustlegt hús og í góðri hirðu. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það miðlungs varðveislugildi (4. stig af 8) og sagt hafa gildi fyrir götumynd Skólastígs. Götumynd með húsaröð er aðeins öðru megin Skólastígs, þ.e. sunnanmegin. Norðanmegin eru skólalóð og byggingar Brekkuskóla, ásamt bílastæðum fyrir skólann, Sundlaugina og Íþróttahöllina. Lóðin er vel gróin og snyrtileg, þar  ber mikið á gróskumiklum birkitrjám, og á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki. Sem áður segir eru tvær íbúðir í húsinu. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 899, 27. feb 1942. Fundur nr. 904, 27. mars 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/hus akonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 471
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband