Hús dagsins: Skipagata 5

Áfast Skipagötu 1 sunnanmegin er Skipagata 5.P1190971 En hvers vegna ekki númer 3 ? Fyrst ber að nefna, að lóðirnar og byggingarleyfin fyrir þessum húsum voru afgreidd samhliða í águstmánuði 1931. Þá fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu, í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Benedikt hins vegar, hafði fengið lóð nr. 5 og vildi halda sig við það, enda þótt í opinberum gögnum sé talað um númer 3. Ástæðan fyrir þessu mun hafa verið sú, að upprunalega átti Ráðhústorg 7 að vera Skipagata 1, en þáverandi eigandi fékk því breytt. Í millitíðinni mun Benedikt hafa fest kaup á lóð nr. 5. Einhvern tíma mun hafa staðið til að breyta þessu og mannskapur mætt til að skipta um húsnúmer, en Benedikt fengið því hnekkt. (Heimild: María Elínar Arnfinnsdóttir, 2020).

Í heimildum á timarit.is birtast auglýsingar um verslun og starfsemi ýmist á Skipagötu 3 og 5 en fyrrnefnda heimilisfangið er sjaldséð í heimildum eftir 1965. Þá er valinkunn veiðarfæraverslun Grána, ýmist sögð á Skipagötu 5 eða 7, en hún mun alla tíð í Skipagötu 7. Þannig hafa númerin verið „flöktandi“ á húsum 5 og 7, sem urðu þá 3 og 5. Flest húsin í röðinni Ráðhústorgs- og Skipagöturöðinni austan megin voru reist í áföngum. Það á við um Skipagötu 5, fyrst byggði Benedikt jarðhæðina og lengst af var húsið tvær hæðir en 3. og 4. hæð hússins reistar árið 2014. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson.

Skipagata 5 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru sexrúðupóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæða eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús.

Skipagata 5 hefur frá upphafi verið þjónustu- og verslunarhús, líkt og flest húsin í Miðbænum, en íbúðir á hæðum. Sem áður segir, er það lengi vel talið nr. 3, en „fimman“ virðist festast í sessi eftir 1960-65. Benedikt Jón Ólafsson, sem byggði húsið var málarameistari og rak þarna málningarvöruverslun um langt skeið og bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Á meðal hinna ýmsu verslana á Skipagötu 5 gegn um áratugina má nefna Cesar, tískuvöruverslun unga fólksins , skóbúðina Skótískuna auk verslunarinnar Sirku. Sem áður segir var húsið lengst af tveggja hæða en árið 2014 voru byggðar ofan á húsið tvær hæðir, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur, og þannig orðið jafnhátt næsta húsi norðan við, Skipagötu 1.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 53) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Með byggingu efri hæða Skipagötu 5 má eiginlega segja, að húsið falli enn betur inn í götumyndina, þar sem orðið er samræmi í hæð samliggjandi húsa. Húsið er eins og gefur að skilja í mjög góðu standi, enda stutt frá endurbyggingu. Þrjár íbúðir eru á efri hæðum hússins en Cintamani verslun á jarðhæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

María Elínar Arnfinnsdóttir. 2020. Munnleg heimild; svar („comment“) við innleggi undirritaðs á Facebook hópnum Miðbærinn 26. apríl. https://www.facebook.com/groups/208295845947836/?multi_permalinks=2675557199221676&notif_id=1587831911412786&notif_t=feedback_reaction_generic


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436887

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 324
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband