Hús dagsins: Hólabraut 18

Við bregðum okkur af "rúntinum" svokallaða við Skipagötu út á sunnan- og ofanverða Oddeyri en þar, undir brekkurótum liggur Hólabrautin frá Gránufélagsgötu að Akureyrarvelli. Í hugum margra telst sá hluti Oddeyrar sem liggur ofan (vestan) Glerárgötu, þ.m.t. Hólabrautin, til Miðbæjarins. 

Hólabraut 18 reisti Guðmundur Tómasson byggingameistari árið 1944.P1190962 Hann fékk aðra lóð austanmegin Hólabrautar, norðan Gránufélagsgötu auk byggingarleyfis snemma árs 1943. Fékk hann að reisa hús úr steinsteypu, tvær hæðir á lágum grunni með valmaþaki, 10,4x7,85m, auk útskots að vestan, 4,7x1,2m. Hann óskaði jafnframt eftir að fá leyfi til að reisa 7x11m skúr á baklóð. Það fylgir raunar sögunni, að hann hafði þegar hafið byggingu skúrsins, og hefði þurft leyfi fyrir honum fyrirfram. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson, en viðbyggingu teiknaði Guðmundur Gunnarsson.

Hólabraut 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en einfaldir þver- eða lóðréttir póstar í flestum gluggum. Byggt var við húsið 1955 og er sú viðbygging samliggjandi næsta húsi, Hólabraut 16, þar sem ÁTVR („Ríkið“) er til húsa. Á efri hæð, sunnanmegin eru voldugar steyptar svalir, sem standa á stólpum og mynda þar með skýli við inngang neðri hæðar.

 

Skagfirski trésmiðurinn og kexsmiðjuforstjórinn Guðmundur Tómasson er sjálfsagt orðinn lesendum þessarar vefsíðu að góðu kunnur. Að ekki sé minnst á þá lesendur sem e.t.v. þekktu hann persónulega. Guðmundur teiknaði og byggði þó nokkur hús á Akureyri áratugina 1930-50, og starfrækti verkstæði og smíðaði m.a. líkkistur. Á meðal annarra húsa Guðmundar má nefna Helgamagrastræti 23 og Skipagötu 2, sem var einmitt umfjöllunarefni þar síðasta pistils hér. Þeir bræður Eyþór (löngum kenndur við Lindu) og Guðmundur Tómassynir starfræktu á Hólabraut 18 trésmíðaverkstæði. Í Degi þann 19. mars 1947 mátti einmitt sjá auglýsingu þess efnis, að líkkistuvinnustofa þeirra væri flutt í Hólabraut 18. En fleira var smíðað á Hólabraut 18 um miðja 20. öld. Eflaust kannast einhverjir við hin sígildu Leifsleikföng. Þau voru smíðuð og framleidd á Hólabraut 18 en Baldvin Leifur Ásgeirsson frá Gautstöðum á Svalbarðsströnd bjó hér um árabil og starfrækti fram til 1960 leikfangasmiðju sína, téð Leifsleikföng. Leikföngin voru afar vinsæl og sannkölluð barnagull, en á þessum árum var innflutningur á slíkum gripum smár í sniðum, svo ekki sé meira sagt. Þá rak Baldvin hér síðar þvottahúsið Mjallhvíti. Einnig var hér starfrækt fyrir Olivetti ritvélar og reiknivélar á áttunda áratugnum. Þá hafa margir átt og búið í Hólabraut 18 um lengri og skemmri tíma. Nú eru í húsinu þrjár íbúðir.

 

Hólabraut 18 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Húsakönnun fyrir reit þann er afmarkast af Hólabraut í vestri, Gránufélagsgötu í suðri, Laxagötu í austri og Smáragötu í norðri var unnin árið 2011. Þar telst húsið ekki hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur, en götumynd Hólabrautar talin hafa nokkurt gildi. Ekki er annað hægt en að taka undir það, enda Hólabrautin skemmtileg og áhugaverð götumynd, enda þótt stutt sé. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 23. jan. 1943.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 242
  • Frá upphafi: 420925

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 189
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband