Hús dagsins: Hólabraut 19

Kannski mætti orða það svo, að húsin vestan Hólabrautar standi „þar sem Oddeyrin mæti Brekkunni“. Alltént er það svo, að vestan götunnar tekur landi að halla nokkuð skarpt upp á við, áleiðis á Ytri Brekkuna. Ysta húsið vestan Hólabrautar er nr. 19.

Það var árið 1944 sem Björgvin Magnússon fékk lóð og byggingarleyfi á Hólabraut 19. P1190961Fékk hann leyfi til að reisa hús, byggt úr steinsteypu með járnbentu steinlofti og lágu valmaþaki. Stærð að grunnfleti 11x7,95m auk útskota; 1,20x6,20m að austan og 1,50x4,25m að sunnanverðu. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Tómasson byggingameistari.

 

Hólabraut 19 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Húsið myndi líklega flokkast sem svokallað „byggingameistarafunkis“ en það skartar horngluggum til suðurs. Svalir eru á efri hæð til suðvesturs. Bárujárn er á þaki, lóðréttir póstar í gluggum og gróf steining eða steinmulningur á veggjum.

 

Þegar heimilisfanginu Hólabraut 19 er flett upp á gagnagrunninum timarit.is koma upp 118 niðurstöður. Sú elsta er úr Degi 28. febrúar 1946 og þar segir „Þú sem tókst rauð rennilásstígvél nr. 39 og skildir eftir önnur minn, á skautaísnum á þriðjudaginn, gjörðu svo vel að skipta í Hólabraut 19“. Undir skrifar Ragna á Gefjun. Umrædd Ragna á Gefjun hét fullu nafni Ragnheiður Hannesdóttir, frá Syðri Ey á Skagaströnd. Ragna starfaði við afgreiðslu á Gefjun hér í bæ í tæpa tvo áratugi eða frá 1935. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1954 en hélt þar áfram störfum á Gefjun-Iðunn. Líkast til hefur húsið verið tvíbýli frá upphafi og ein íbúð á hvorri hæð, og margir átt hér heima á þremur aldarfjórðungum. Í húsinu var einnig um tíma, á fyrri hluta 6. áratugarins, starfrækt reiðhjólaverkstæði Hannesar Halldórssonar. 

Hólabraut 19 er reisulegt og traustlegt hús. Lóðin er einnig gróin og til mikillar prýði íP8180238 umhverfinu. En næsta umhverfi Hólabrautar 19 er  hvanngræn brekka, sem skilur að Hólabraut og Brekkugötu. Brekka þessi er þéttingsbrött upp við Brekkugötu og nýtist börnum sem sleðabrekka á vetrum. Er það álit undirritaðs, að varðveita ætti brekku þessa sem útivistarsvæði og jafnvel mætti koma þar fyrir stökkpöllum o.þ.h. leiktækjum fyrir sleða, skíði og snjóbretti. En nóg um það. Hólabraut 19 er snyrtilegt og glæst hús í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni. Það mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Hólabraut 19 svipar nokkuð til húsanna handan götunnar, sem byggð eru svipuðum tíma. Næstu hús sunnan við, Hólabraut 15 og 17 bera annað svipmót en þau eru líka ívið eldri, byggð snemma á 4. áratugnum.  Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin af Hólabraut 19 er tekin þann 19. janúar 2020, en myndin hér til hliðar sem sýnir brekkuna vestan Hólabrautar er tekin 18. ágúst 2015. Húsin á myndinni eru nr. 25 - 31 við Brekkugötu.

                                                     

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971, 14. apríl 1944. Fundur nr. 991, 15. sept. 1944.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 243
  • Frá upphafi: 420926

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 190
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband