Vesturbrú vígð í gær

Þann 15. september 2019 var ég á ferðinni á hjóli um Vaðlaheiði. Á bakaleiðinni gerði sunnan slagveður (í kaldara lagi af sunnanvindi að vera) og hugðist ég fara svokallaða Þverbraut, gömlu brýrnar þrjár yfir óshólma Eyjafjarðarár. Þegar komið var að vestursporð vestustu brúarinnar blasti við heldur óskemmtileg sjón. Þar hafði verið komið fyrir girðingargrind, sömu gerðar og notuð er til afmörkunar byggingarsvæða og annarri í vinkil. Heldur þótti okkur félögunum þetta súrt og töldum það hefði verið lágmarks kurteisi, að láta vita hinu megin, að leiðin væri lokuð í annan endann. Því urðum við að snúa við þarna í slagviðrinu og halda út Eyjafjarðarbraut eystri og yfir Leiruveginn. Ég hefði ekki boðið í það, að reka þarna hrossastóð og þurfa að snúa því á punktinum. 

Nokkru síðar var upplýst í fjölmiðlum, að brúin hefði lent inn á stækkuðu öryggissvæði Akureyrarflugvallar. Óhjákvæmilega var klippt á ansi skemmtilega göngu- og hjólaleið en auðvitað hljóta öryggismál flugvallar að vega þyngra en útivistarleið. Í september í fyrra gat maður allt eins ímyndað sér, að þessi skemmtilega göngu- hjóla- og reiðleið heyrði sögunni til. Varla yrði ráðist í margra milljóna framkvæmd við nýja brú þarna? Og hvar myndi hún vera; hversu sunnarlega ? Yrði hún Eyjafjarðarsveitar- eða Akureyrarmegin sveitarfélagamarkanna ? Og hvenær kæmi hún ? Líklega yrði maður að sætta sig við orðinn hlut. Gönguleiðir eru líka víða um Akureyri og nærsveitir og lítið mál er að hjóla fram að Miðbraut milli Laugalands og Hrafnagils, vilji maður bregða sér á þessar stuttan hring frameftir. Öðru máli gegnir hins vegar um hestamenn. Þverbrautin var eina leið Akureyrskra hestamanna að högum og aðstöðu í Hólmunum og reiðvegi frameftir. Því var þeim mikið kappsmál að fá nýja brú og munu þeir hafa haft mestan veg og vanda af því, að ráðist var í smíði nýrrar brúar.

Í gær, 1. júlí,  var komið að vígslu nýrrar brúar. Var það hátíðleg og skemmtileg stund í sólríku og góðu veðri, þó tæki að blása nokkuð úr norðri þegar á leið. Karlakór Akureyrar flutti nokkur lög og ávarp flutti Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi. Kynntar voru niðurstöður úr nafnasamkeppni fyrir nýju brúna og var nafnið Vesturbrú fyrir valinu. Er það vel viðeigandi, þar eð brúin er yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár. Það var svo Sigurður Ingi Jóhannsson sem klippti á borðann ásamt ungri hestakonu úr Létti. Það voru einmitt félagar í Létti sem riðu hópreið yfir brúna og í kjölfarið fylgdu skokkarar, þá hjólreiðamenn (þ.m.t. sá sem þetta ritar) og gangandi. Austanmegin var síðan boðið upp á léttar veitingar. Hér eru nokkrar myndir: 

P7010963

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010965

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010980

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010983

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010986

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010988

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til fróðleiks má nefna, að Vesturbrú mun vera fyrsta brúin sem rís yfir Eyjafjarðará á 21. öld og með henni telst mér til, að ellefu brýr séu á Eyjafjarðará.

Og hverjar eru þessar ellefu brýr ? Þær eru, eftir því sem ég kemst næst, talið frá suðri (fremst) til norðurs:

1. Brú við Halldórsstaði

2. Brú við Vatnsenda/Leyning

3. Hringmelsbrú (Bogabrú við Sandhóla)

4. Brú á móts við Möðruvelli

5. Reiðbrú við Melgerðismela

6. Brú á Miðbraut (Hrafnagil-Laugaland)

7. Vesturbrú

8.-10. Brýrnar á Þverbrautinni yfir Hólmana

11. Brúin á Leiruvegi (er eiginlega eins utarlega og hægt er á ánni, liggur eiginlega yfir Pollinn). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Er þessi brú - og hinar - bæði fyrir ríðandi og hjólandi fólk? Það getur nú verið hættulegt, hér f. sunnan hafa orðið óhöpp, hestar hafa fælst þegar hjólandi fólk kemur á móti þeim.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 3.7.2020 kl. 12:25

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð. Allar brýrnar á listanum, að undanskildum Hólmabrúnum (gömlu brýrnar á Þverbrautinni og nýja Vesturbrúin) og reiðbrúin við Melgerðismela eru ætlaðar ökutækjum (hjólum, bílum). Brýrnar yfir Hólmana hafa nýst fyrir hjólandi, ríðandi og gangandi. Það er rétt að það getur skapað hættu; einhvern tíma skildist mér að hross hræddust hross meira en bíla. Það hefur hins vegar sloppið hingað til, eftir því sem ég kemst næst, með gagnkvæmri tillitssemi allra. Það væri a.m.k. óðs manns æði að hjóla á fullri ferð yfir brú þar sem hross- að ég tali nú ekki hrossastóð kæmi á móti. En mönnum dettur svosem ýmislegt í hug, og sumir sjá ekki neitt nema sjálfa sig undecided

Arnór Bliki Hallmundsson, 3.7.2020 kl. 17:28

3 identicon

Þessi óhöpp hafa víst orðið í skóglendi, í Heiðmörk og við Rauðavatn, þar sem lítið útsýni er. Hestinum bregður þegar hjólreiðamaður beygir inn á stíginn, hvorugur sér hinn fyrr en þeir eru komnir of nálægt hvor öðrum.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 3.7.2020 kl. 21:54

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Örlítil leiðrétting: "einhvern tíma skildist mér að hross hræddust hross" þarna að ofan á auðvitað að vera "hross hræddust HJÓL" laughing. (Liggur kannski í augum uppi- en rétt skal vera rétt). Stígar fyrir þessa blönduðu umferð í skóglendi og með litla yfirsýn geta vitaskuld verið varasamir. Held t.d. að hurð skelli stundum nærri hælum í Kjarnaskógi þar sem hjólreiðamenn koma á mikilli ferð gegn um skógarþykknið. En þar eru reyndar sérstakir, afmarkaðir hjólastígar. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 5.7.2020 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 586
  • Frá upphafi: 420788

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband