Hús dagsins: Glerárgata 14

Úr Miðbænum færum við okkur spottakorn út á Oddeyrina, en við Glerárgötu standa nokkur steinhús frá miðri 20. öld. Þess má reyndar að geta, að landfræðilega tilheyrir ytri hluti Miðbæjar Akureyrar Oddeyrinni. En syðst í þessari steinhúsaröð við Glerárgötuna er Glerárgata 14. 

Glerárgötu 14 munu feðgarnir Georg Karlsson og Sverrir, sonur hans,P1190989 hafa reist ásamt Sigurði Hannessyni, eftir teikningum þess síðastnefnda. Var það sumarið 1949, þeir að Georg og Sigurður sóttu um þessa tilteknu lóð sem þá var ekki sögð tilbúin til byggingar. Hvers vegna lóðin telst ekki byggingarhæf er ekki tilgreint, en geta má þess, að á þessum tíma voru næstu hús norðan (Glerárgata 16 og 18) og sunnan við (Fjólugata 20) þegar risin. En tveimur árum síðar, vorið 1951, er þeim feðgum og Sigurði veitt byggingarleyfi fyrir húsinu, samkvæmt fyrirliggjandi teikningu og um haustið er þeim leyft að hækka úr 1,5 í 2 metra. Skráð byggingarár hússins er 1954 og hefur húsið þá væntanlega verið fullbyggt.

Glerárgata 14 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Útskot er norðanmegin á framhlið og svalir sunnanmegin á milli. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og sléttur múr á veggjum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og fjölmargir búið í því um lengri eða skemmri tíma. Sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is eru hins vegar nokkuð áberandi auglýsingar frá sjöunda og áttunda áratug sl. aldar, þar sem Iðnaðarbanki Íslands er sagður með útibú í Glerárgötu 14.  Árið 1995 er raftækjabúðin Radíónaust sögð til húsa á Glerárgötu 14. Þar er raunar á ferð e.k. „ruglingur“ með götuheiti, en Radíónaust var til húsa á neðstu hæð Sjallans valinkunna, sem stendur við GEISLAGÖTU 14. En svo vill til, að austurstafn Sjallans liggur að Glerárgötu, enda taldist hann í upphafi standa við Glerárgötu 7.  

Húsakönnun fyrir þetta svæði hefur ekki verið unnin, svo höfundur viti til, og því liggur ekki fyrir hvort húsið eða húsaröðin hafi varðveislugildi. Húsið tilheyrir hins vegar stuttri og heillegri röð samstæðra húsa, steinhúsa frá miðbiki 20. aldar, og gæti höfundur vel séð fyrir sér að sú röð hafi nokkurt gildi. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð.  Glerárgata 14 er reisulegt hús í góðri hirðu og til mikillar prýði við fjölförnustu götu bæjarins; Þjóðveg 1 um Akureyri. Lóðin er gróskumikil og vel hirt og römmuð inn af vönduðum steyptum vegg með járnavirki. Gróskan er eðlilega ekki áberandi á meðfylgjandi mynd, sem tekin er um hávetur, eða þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1112, 29. júlí 1949. Fundur nr. 1137, 18. maí 1951. Fundur nr. 1144, 26. okt. 1951. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 247
  • Frá upphafi: 420930

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 194
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband