Hús dagsins: Glerárgata 16

Þann 5. apríl 1946 settist Skarphéðinn nokkur Guðnason niður við bréfaskriftir.P1190990 Skrifaði hann tvö bréf til Byggingarnefndar Akureyrarkaupstaðar. Annað bréfið sneri að löggildingu hans sem byggingarmeistara og hitt varðandi byggingarleyfi á lóð, sem honum hafði verið úthlutað við austanverða Hörgárbraut hálfum öðrum mánuði áður. Sótti hann um að reisa hús, 11,75x8,20m á grunnfleti, tvær hæðir á lágum grunni, útveggir og skilveggir úr steinsteypu en loft, gólf og þak úr timbri. Á fundi Byggingarnefndar þann 12. apríl hlaut Skarphéðinn löggildingu sem byggingarmeistari innan Akureyrarkaupstaðar og tveimur vikum síðar var honum veitt byggingarleyfið. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Glerárgata 16 er tvílyft steinsteypuhús með  lágu valmaþaki. Austanmegin á norðurhlið er útskot og svalir á efri hæð til vesturs og þá er einlyft viðbygging með einhalla þaki nyrst á bakhlið (austurhlið) Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Skarphéðinn Guðnason, sem byggði húsið, var frá Hafrafellstungu í Öxarfirði. Hann starfaði sem múrari og trésmiður og fékk sem áður segir, löggildingu sem byggingarmeistari um svipað leyti og hann fékk byggingarleyfi fyrir Glerárgötu 16. Hann vann m.a. hjá Stefáni Reykjalín og hefur eflaust komið að byggingu margra húsa hér í bæ. Skarphéðinn var kvæntur Þuríði Jónsdóttur, sem einnig var Axfirðingur, frá Ærlækjarseli. Bjuggu þér um árabil, en frá upphafi var húsið tvíbýli og bjuggu þau á efri hæð en leigðu neðri hæðina. Skarphéðinn lést árið 1985, en Þuríður 1972. Hafa margir átt heima í húsinu og íbúðaskipan líklega ævinlega sú sama og í upphafi. Árið 1987 var byggt við húsið til austurs; einlyft geymslubygging við norðausturhorn. Teikningarnar að þeirri breytingu gerði Mikael Jóhannesson.

Glerárgata 16 er látlaust og reisulegt hús í funkisstíl, sem sómir sér vel í götumynd fjölförnustu götu Akureyrar. Lóð er gróin og vel hirt, sem og húsið sjálft og á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki. Ekki liggur fyrir húsakönnun um þetta svæði svo síðuhafi viti til, þannig að hugsanlegt varðveislugildi liggur ekki fyrir. En væri sá sem þetta ritar spurður álits, væri það, að götumynd Glerárgötu hefði mikið gildi, sem og húsin hvert fyrir sig. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið - Akureyrar, ekki þitt. En ég játa að ég fletti þér upp í Ísl.bók og varð steinhissa á því að þessi tegund af nörd skyldi vera svo ungur.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 29.8.2020 kl. 15:22

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Þakka kveðjurnar- fyrir hönd Akureyrar.Þú hefur þá líka séð á Íslendingabók, að ég deili víst ekki afmælisdegi með Akureyri, heldur Lýðveldinu Íslandi og Jóni Sigurðssyni ;)

Ég viðurkenni það já, að ég er líklega með þeim allra yngstu sem hafa þetta áhugamál og ástríðu, og kemur tiltölulega hátt fæðingarártal (1985) mörgum á óvart sem komast að því. Sjálfum finnst mér reyndar "ungdómurinn" einhvern veginn skína í gegn um skrifin hjá mér...ýmislegt sem ég veit ekki, þekki ekki og (eðlilega) man ekki, en ég reyni annars að byggja sem mest á heimildum. En ég spái svosem miklu minna í eigin aldur heldur en aldur húsanna í bænum wink.

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 31.8.2020 kl. 23:35

3 identicon

Takk f. svarið. Það vildi svo til að ég kom til Akureyrar bæði afmælisárin: 2012, þá í byrjun júní, og 1962. Litlu svarthvítu myndirnar mínar þaðan eru framkallaðar í september, en í millitíðinni hafði ég dvalist hjá ættingjum á Austurlandi, og ólíklegt að ég hafi verið á Ak. á afmælisdaginn. - Þá fékkst gos, sælgæti o.fl. sem hét allt annað en f.sunnan. En ef maður tók með sér flösku af Flóru gosi á leið suður, þá vildi enginn sjoppa kaupa hana, því merkið var í glerinu, eins og skoða má á Iðnaðarsafninu. Þá fór maður með tómar flöskur og seldi, upp í þær sem voru keyptar.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 2.9.2020 kl. 21:35

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl aftur og takk fyrir skemmtilegar sögur. Gaman að hafa verið stödd í bænum bæði afmælisárin. Það var víst allt önnur framleiðsla á Akureyri og í Reykjavík lengi vel, svolítið eins og að koma til útlanda hvað varðar vöruúrval. Sér Akureyrskt sælgæti og gos og ýmis matvara sem ekki fékkst fyrir sunnan; og öfugt. Ekki jafn mikið um flutninga landshorna á milli enda aðstæður til slíks allt aðrar (sjóflutningar, vondir vegir). Nú er öldin aldeilis önnur; það hafa verið dæmi um að vörur framleiddar á Akureyri ferðist a.m.k. eina ferð til Reykjavíkur á dreifingastöð eða eitthvað slíkt og stoppi jafnvel á fleiri stöðum áður en hún nær í hillu í verslun, staðsettri innan við 1 km frá framleiðslustað. Á víst að heita "hagkvæmni". En nóg um það- ætlaði ekki nú að fara út í eitthvert nöldur um vörudreifingar.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 3.9.2020 kl. 17:33

5 identicon

Sæll enn. Svo var allur ullariðnaðurinn. Mamma átti dragt úr ull, sem var unnin, spunnin og ofin á Akureyri, og saumuð af klæðskera þar f. stríð. Dragtin er nú á Textílsafninu. En það var auðvitað minna um tilbúin föt um 1960, flestar húsmæður saumuðu á sjálfar sig og börnin. Þau föt og fataefni sem fengust f. norðan held ég að hafi yfirleitt verið framleidd þar, eða kannski flutt inn frá útlöndum. 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 4.9.2020 kl. 16:39

6 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Áhugavert, það hefur örugglega ótrúlega margt varðveist af fatnaði og textíl frá þessu árabili einmitt vegna þessarar hagsýni og nýtni sem ríkjandi var- og raunar nauðsynleg. Engu (sáralitlu a.m.k.)hent, heldur gert við og allt nýtt. Ullar- og fataiðnaðurinn á Akureyri var hálfgerð stóriðja áratugum saman.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 6.9.2020 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 235
  • Frá upphafi: 436947

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 167
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband