Hús dagsins: Grænagata 4-6

Við Grænugötu standa tvö parhús, sem hvort um sig bera tvö númer. P8280977Vestra húsið er Grænagata 4-6, og er vesturhluti hússins nr. 4 og austurhlutinn nr. 6. Húsin reistu Byggingasamvinnufélagið Garður árið 1946 eftir teikningum Sigurðar Hannessonar. Það var á fundi Bygginganefndar 3. maí 1946 að nefndin samþykkti  að heimila félaginu að reisa „hús á lóðunum norðan Grænugötu“. Fram kemur að uppdráttur fylgi, en húsunum er ekki lýst nánar eins og oft tíðkaðist. Téða uppdrætti að húsunum gerði Sigurður Hannesson og þar má sjá skipulagðan sérstakan „Forgarð“ sunnan við húsin. En á þessum árum var orðið vart við tilhneigingu til þess að skipuleggja hús og lóðir í meira mæli með tilliti til sólar og veðurs, t.a.m. að skipuleggja garða eða svæði á lóðum til suðurs.  Það má t.d. sjá þennan mun nokkuð greinilega á hverfinu sunnan Eiðsvallar, þar sem flest húsin standa við götu eða alltént ekki mikið fjær götubrún en fáeina metra. Norðar á Eyrinni, þar sem byggðin er yngri eru húsin almennt lengra inn á lóðum. Síðar, þegar bílaeign varð almennari, urðu bílastæði nauðsynleg á hverri lóð og það hafði einnig áhrif á það, hvar húsin voru staðsett á lóðum.

Grænagata 4-6 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum kjallara. Á þaki eru fjórir smákvistir á hvorri hlið og á stöfnum eru steyptar tröppur upp að dyrum. Áfast tröppum eru inngönguskúrar fyrir kjallara og svalir fyrir efri hæð. Húsið er klætt steiningarmúr og bárujárn er á þaki.

Árið 1950 fengu þeir Jóhannes Jónsson, Friðgeir Sigurbjörnsson, Sigurður L. Pálsson og Jón G. Jónsson, sem væntanlega áttu hver um sig sína íbúð í húsinu,  leyfi til að gera smávægilegar breytingar á húsinu. Fólust þær breytingar í því, að byggja norðan við tröppur, inngönguskúra fyrir kjallara, hlaða handrið úr steini og hlaða skjólvegg við norðanverðar tröppurnar. Að öðru leyti mun húsið næsta lítið breytt frá upphafi, að ytra byrði.

Þegar heimilisföngunum „Grænugötu 4“ og „Grænugötu 6“ er flett upp í gagnagrunninum timarit.is birtast alls 103 niðurstöður, (57 fyrir nr. 4 og 46 fyrir nr. 6). Fyrst er Grænugötu 6 getið í Morgunblaðinu 3. Nóvember 1948, en þá er tilkynnt um silfurbrúðkaupsafmæli þeirra Unnar Sveinsdóttur (ranglega nefnd Guðrún þarna) og Snorra Lárussonar símritara, sem þá voru búsett í húsinu og væntanlega með fyrstu íbúum hússins.  Þau bjuggu þó ekki mörg ár hér en fluttu til Reykjavíkur 1950. Unnur var fædd í Hafnarfirði en Snorri Seyðfirðingur, en bróðir hans var hið valinkunna tónskáld, Ingi T. Lárusson. Margir hafa búið í húsinu þessi rúmu 70 ár og nú eru alls fimm íbúðir í húsinu, tvær í nr. 4 og þrjár nr. 6.

 Húsið er reisulegt og í góðu standi og myndar ákveðna heild ásamt systurhúsi sínu, P8280975Grænugötu 8-10 og stutt en heilsteypt götumynd Grænugötu skemmtileg umgjörð grænu perlu Oddeyrar, Eiðsvallar. Og fyrst minnst er á grænar perlur, má nefna að lóð hússins er mjög gróskumikil, vel hirt og til prýði í umhverfinu.  Mestan svip setur þó geysimikil Alaskaösp, sem er líklega ein sú stærsta á Akureyri, þ.e.a.s. að rúmmáli (hærri aspir eru t.d. við Oddeyrargötu og Bjarmastíg). Öspin er margstofna og króna hennar sérlega mikil og hæðin líkast til um eða yfir 20 metrar. Árið 2005, þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga gaf út bæklinginn Merk tré á Akureyri mældist hæðin 16,5 metrar. (Einhvern tíma hafði greinarhöfundur spurnir af því, að drjúgur hluti aspartrjáa á Akureyri væru afleggjarar af „Grænugötuöspinni“ annars vegar og Hamarstígsöspinni hins vegar. Ekki skal þó neitt fullyrt um það hér). Myndirnar með færslunni eru teknar þann 28. ágúst 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1052, 3. maí 1946. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1125, 11. ágúst 1950. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 440782

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband