Hús dagsins: Grænagata 2

Grænagata

Grænagata er stutt gata sunnarlega og vestarlega á Oddeyrinni. Hún liggur í A-V milli Glerárgötu í vestri og Norðurgötu í austri og er tengir þannig Eyrina við þessa helstu umferðaræð bæjarins. Gatnamót Grænugötu og Glerárgötu eru nokkuð varasöm og hafa þar orðið slys gegn um tíðina, en ökumenn freistast stundum til að þenja sig ótæpilega á tvöföldum akreinum Glerárgötu. Þá hefur það ítrekað gerst, þegar greinarhöfundur á leið þarna yfir, að stansað er á einni akrein en ökumaður á næstu akrein við hliðina geysist áfram eins og ekkert hafi í skorist. Þarna mætti að ósekju koma hringtorg. Fjögur hús, byggð árin 1946-´62 standa við götuna (þar af tvö parhús) og standa þau öll norðan götunnar. Sunnan Grænugötu er sælureiturinn Eiðsvöllur, en auk Grænugötu  afmarkast völlurinn af Eiðsvallagötu í suðri, Norðurgötu í austri og Glerárgötu í vestrar. Grænagata er um 130m á lengd.

Grænagata 2

Árið 1952 fékk Karl Friðriksson yfirverkstjóri lóðina, P8280973ásamt leyfi til að reisa á henni hús, samkvæmt fyrirliggjandi teikningu. Ekki er húsinu lýst nánar í bókun byggingarnefndar, enda e.t.v. ekki talin þörf á því þar eð teikningar lágu fyrir. En umræddar teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson, og fékk Karl þeim breytt um mánuði eftir að hann hafði hlotið byggingarleyfið, en hafði það ekki áhrif á leyfisveitinguna. Tveimur árum síðar var Karli leyft að reisa bílskúr á lóðinni.

Grænagata 2 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. Norðurhluti vesturhliðar hússins skagar eilítið fram og í kverkinni suðvestanmegin eru steyptar tröppur og inngöngudyr á efri. Þá eru inndregnar svalir á vesturhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum.

Karl Friðriksson, sem byggði Grænugötu 2, var fæddur á Hvarfi í Víðidal, starfaði lengst af sem brúarsmiður og yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni, eða allt frá 1926 til 1960, á hinum ýmsu stöðum á landinu. Voru á þeim árum unnin mikil þrekvirki í samgöngumannvirkjum á landinu. Karl stýrði einnig uppsetningu sauðfjárveikivarnargirðinga á Norðurlandi á 4. áratugnum. Karl var kvæntur Guðrúnu Hannesdóttur.  Árið 1954 byggðu Karl Friðriksson og Jón B. Jónsson múrarameistari, sem einnig bjó í húsinu, bílskúr norðan við húsið, eftir teikningu þess fyrrnefnda. Karl og Guðrún voru ötul við garðyrkju á lóð sinni og hlutu m.a. verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir fegursta garðinn á Akureyri sumarið 1961. Margir hafa búið í húsinu eftir tíð þeirra Karls og Guðrúnar, sem fluttust til Reykjavíkur á 7. áratugnum. Alla tíð hefur húsið verið tvíbýli.

Grænagata 2 er reisulegt og vel hirt hús og til mikillar prýði íP8280972 umhverfi sínu og sömuleiðis vel gróin og ræktarleg lóðin. Á lóðinni stendur gríðarstór og gróskumikil Alaskaösp, sem Karl og Guðrún hafa væntanlega gróðursett á 6. eða 7. áratug sl. aldar. Öspin er líklega með þeim hærri á Akureyri og giskar sá sem þetta ritar á, að tréð sé um eða yfir 20 metra hátt. Ekki hefur verið unnin Húsakönnun fyrir Grænugötu (svo greinarhöfundur viti til) en trúlega myndi hin stutta en  heildstæða húsaröð við götuna hljóta eitthvert varðveislugildi. Það yrði a.m.k. álit þess sem þetta ritar. Grænagata 2 tekur einnig þátt í götumynd Glerárgötu, fjölförnustu götu bæjarins, standandi á horni þessara tveggja gatna. Meðfygjandi myndir eru teknar 28. ágúst 2020.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gatan hinum megin við Eiðsvöllinn heitir Eiðsvallagata en ekki Eiðsvallargata, enda fékk völlurinn nafnið Eiðsvellir árið 1928.

Nafnið breyttist hins vegar síðar í Eiðsvöllur og við völlinn hefur undirritaður búið, meðal annars í Norðurgötu 31, sem er hvíta húsið með rauða þakinu á neðri myndinni. cool

Þorsteinn Briem, 18.9.2020 kl. 21:24

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæll.

Það er rétt, og ekki allir sem átta sig á þessu; gatan heitir nefnilega ekki EiðsvallaRgata, sem væri málfræðilega rökrétt, dregið af EiðsvElli (ekki EiðsvÖllum). Og fyrir því er einmitt þessi ástæða, sem þú nefnir. smile

Arnór Bliki Hallmundsson, 20.9.2020 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 297
  • Frá upphafi: 420318

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband