Hús dagsins: Hafnarstræti 95

Einhverjir gætu eflaust haldið, að fyrrum höfuðstöðvar KEA og P8170991byggingin sem kenna má við Stjörnu Apótek séu eitt og sama húsið. En svo er aldeilis ekki, því um er að ræða þrjú samliggjandi hús. Elst er hornhúsið nr. 91, KEA húsið valinkunna, byggt 1930 en hús nr. 93 er byggt 1945. Yngst í þessari húsaröð er Hafnarstræti 95. Raunar er öll húsaröðin frá 91-101 (KEA að Amaro) samliggjandi og samstæð heild ólíkra húsa.

Upprunalegt hús á Hafnarstræti 95 reisti Eggert Melstað  árið 1906. Þar starfrækti Jóninna Sigurðardóttir Hótel Goðafoss um árabil. Hótel Goðafoss var hins vegar rifið í mars 1971 og árin 1971-74 reis af grunni núverandi hús, nýbygging KEA, eftir teikningum Hákonar Hertevig. Voru teikningarnar gerðar á teiknistofu Sambandsins. Byggingastjóri framkvæmdarinnar var Gísli Magnússon múrarameistari. (Síðuhafi hikar ekki við að kalla húsið „nýbyggingu KEA“ enda þótt byggingin sé nærri hálfrar aldar gömul og KEA sé löngu horfið á braut úr húsinu). Samhliða þessum framkvæmdum var einnig byggt við húsið á Hafnarstræti 93, tvær hæðir með flötu þaki vestan til. Eru þessar byggingar í raun samtengdar, þannig að raunar mætti telja Hafnarstræti 95 viðbyggingu við nr. 93 (sem aftur mætti telja viðbyggingu við nr. 91).

Hafnarstræti 95 er sex hæða steinsteypuhús með flötu þaki, og eru efstu tvær hæðir inndregnar. Að vestan liggur húsið upp að brattri melbrekku, svokölluðu Skessunefi, sem skilur að Grófargil og Skátagil. Fimmta hæð hússins liggur að Gilsbakkavegi og þaðan er inngangur. PA280251Að vestan liggur suðurhlið hússins að mjög djúpu porti (Kaupfélagsportinu). Frá suðvesturhorni hússins liggja miklar tröppur af Gilsbakkavegi og niður í porti og munu þær að stofni til vera frá því að húsið var byggt, en þarna hafði löngum legið gönguleið ofan af Skessunefi og niður í miðbæ. Hér til hliðar má sjá mynd af umræddum tröppum, tekna haustið 2015, nánar tiltekið 28. október. Gluggasetning framhliðar er nokkuð sérstök, verslunargluggar á jarðhæð og gluggaraðir og þriðju og fjórðu hæð. Á annarri hæð eru hins afar mjóir og háir gluggar, einskonar „gluggaræmur“ og setja þeir vissan svip á húsið. Á fimmtu hæð eru svalir meðfram allri vesturhlið.

Hafnarstræti 95 hefur alla tíð verið verslunar- og þjónustuhúsnæði, lengst af í eigu KEA og hýsti starfsemi þess. Í blaðinu Hlyni frá 15. janúar 1974 má sjá mjög ítarlega frásögn af hinni glæstu nýbyggingu KEA. Þar kemur m.a. fram, að húsið sé 3532 m2 að flatarmáli og 11.437 m3. Á fyrstu hæð er Stjörnuapótek, vefnaðarvöru- og teppadeild á annarri hæð og á fjórðu hæð sé gert ráð fyrir Skattstofunni, sem einnig fái til afnota rými í nr. 93. Á efstu hæðum voru birgðageymslur Matvörudeildar KEA, og þaðan gengt frá Gilsbakkavegi. Þriðja hæðin var að mestu óinnréttuð í ársbyrjun 1974, en þar gert ráð fyrir skrifstofum.  Skemmst er frá því að segja, að enn er rekið apótek á götuhæð. Núverandi apótek er rekið undir merkjum Apótekarans. Þá er Skatturinn enn til húsa á fjórðu hæð hússins.  Í Hafnarstræti 95 er einnig Grófin geðverndarmiðstöð og hinar ýmsu skrifstofur, lögmannsstofur o.fl. og tölvufyrirtækið Þekking. Húsið er í mjög góðri hirðu og hluti af hinni miklu húsaröð yst við Hafnarstrætið. Í Húsakönnun 2014 er húsið ekki talið hafa varðveislugildi sem slíkt, umfram önnur í húsaröðinni, en röðin í heild talin hafa nokkurt gildi. Myndin af Hafnarstræti 95 er tekin þ. 17. ágúst 2020.

 

Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Var eldra húsið þarna ekki það sem kallað var Jerusalem?

P.S. Ég hef verið að lesa Gæfuleit e. Viðar Hreinsson (2005), ævisögu Þorsteins M. Jónssonar, skólastjóra og bókaútgefanda á Akureyri, sem var af Héraði eins og margir sem létu til sín taka á Ak. Þeir voru með fyrirtæki sín hlið við hlið á Ráðhústorgi, Þ.M.J. og annar Héraðsmaður, Indriði Helgason rafvirki. Bókin er fróðleg f. áhugafólk um sögu Akureyrar.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 22.12.2020 kl. 12:24

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð.

Jerúsalem var næsta hús sunnan við, þ.e. Hafnarstræti 93. Það brann árið 1945 og núverandi hús byggt skömmu síðar.

Ég hef þessa bók í huga, eflaust áhugaverð. Það nefnilega leynast oft ýmsar skemmtilegar og fróðlegar upplýsingar í ævisögum og endurminningar- fróðleikur sem ekki er annars staðar að finna. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 23.12.2020 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 66
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 362
  • Frá upphafi: 421479

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 234
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband