Hús dagsins: Norðurgata 60

Að frátöldum húsum ÍSPAN, Viking Brugg (áður SANA) og Hagkaupa, sem lengst af töldust til Norðurgötu 55, 57 og 62  en teljast hin síðari ár viðP4220997 Furuvelli, eru Norðurgata 60 og 53 ystu húsin við Norðurgötu. Í þessari umfjöllun verður miðað við núverandi norðurmörk götunnar. Hvers vegna þessi munur er á oddatölunum og sléttu tölunum (60-53) er höfundi ekki kunnugt um; lóðir nr. 39 og 41 eru auðvitað jafn langar og lóðirnar frá 42-50 en hins vegar er ekkert hús á bilinu 21-29, þar sem Eiðsvöllurinn liggur að götunni. Það er raunar ekki óalgengt með eldri og lengri götur Akureyrar að fáeinar meinlausar gloppur finnist í númerakerfunum.  

Það var haustið 1946 að Þorsteinn Þorsteinsson fékk lóðina og að reisa hús austan Norðurgötu, norðan „fyrirhugaðrar þvergötu“ sem síðar hlaut nafnið Grenivellir. Byggingarleyfi fékk hann einnig fyrir tveggja hæða húsi, 12,4x9,5m, tvær hæðir á lágum grunni, byggt úr steinsteypu og með valmaþaki. Húsið reisti hann eftir eigin teikningum.

Húsið er tveggja hæða steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Á austurhlið er útbygging sem skagar eilítið til norðurs út frá meginálmu hússins. Á suðausturhorni er inndregið skot á efri hæð og eru þar svalir en á vestanmegin á suðurhlið eru lóðrétt steypt bönd milli glugga, og upp að þakbrún ofan glugga efri hæðar. Setur þessi einfalda skreyting skemmtilegan svip á húsið.

Þorsteinn Þorsteinn skipasmiður, sem byggði húsið, var fæddur að Hálsi í Svarfaðardal. Hann starfaði hjá Skipasmíðastöð KEA og tók þátt í stofnun Slippstöðvarinnar árið 1952, ásamt Skapta Áskelssyni. Þeir voru einnig nágrannar, en Skapti byggði og bjó í Norðurgötu 53, beint handan Norðurgötu 60. Þorsteinn var kvæntur Þóru Steindórsdóttur  og bjuggu þau hér um áratugaskeið, Þorsteinn til æviloka (1980) og Þóra um árabil þar á eftir. Húsið hefur alla tíð verið tvíbýli og á móti þeim Þóru og Þorsteini bjuggu þau Anna Sigurðardóttir frá Syðra- Hóli í Öngulsstaðahreppi og Sveinn Brynjólfsson vélstjóri, frá Nesi í Saurbæjarhreppi . Hafa síðan ýmsir átt hér heima. Árið 1959 var byggt við húsið að norðvestan, eftir teikningum , tvílyft mjó álma með valmaþaki, í samræmi við upphaflegt útlit hússins á vesturhlið hússins og fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur. Er húsið nokkurn veginn óbreytt að gerð síðan þá. Árið 1989 keyptu Hagkaup 10m breiða spildu nyrst af lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Á sama tíma var Norðurgötu lokað í norðurendann og síðan liggur göngustígur milli Norðurgötu og Furuvalla. (Kannski telst sá stígur ysti hluti Norðurgötu).

Norðurgata 60 er glæst og reisulegt hús og til mikillar prýði. Það er í afbragðs góðri hirðu og allt hið snyrtilegasta og það sama má segja um lóðina. Á mörkum hennar er girðing með steyptum stöplum og skrautlegu járnavirki sem einnig er mjög vel við haldið. Steypt bönd á suðausturhorni hússins setja á það afar skemmtilegan svip; gefa húsinu ákveðin sérkenni. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hluti mikillar þyrpingar sambærilegra steinhúsa frá miðri 20. öld, sem nyrsti hluti Norðurgötu er hluti af.

Þá er það álit höfundar, að Norðurgatan í heild sinni sé virkilega varðveisluverð. Því hún er að mörgu leyti eins og þverskurður af íslenskri íbúðarhúsagerð frá ofanverðri 19. öld og fram á hina miðja 20. Þar má finna algengar gerðir timburhúsa 19. aldarsteinsteypuhús af þeirri gerð sem tíðkaðist fyrst hérlendis, verkamannabústaði Guðjóns Samúelssonar og hús í funkisstíl frá áratugunum 1930-50. Svo ekki sé minnst á, að við götuna stendur eina grjóthlaðna hús Akureyrar- svo vitað sé. Vitaskuld eru fjölbreyttar húsagerðir og frá ýmsum tímum við margar aðrar götur á Akureyri og annars staðar en Norðurgatan er svo skemmtilega uppbyggð, að gatan er nokkurn veginn byggð í tímaröð og er fyrir vikið eins og skipulagt safn um íslenska húsagerð. Þá er rétt að halda til haga, að í Húsakönnun sem unnin var um hluta Oddeyrar fyrir þremur áratugum er syðsti og elsti hluti götunnar metinn sem varðveisluverð heild. Myndin af Norðurgötu 60 er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. (Ritið er einnig aðgengilegt á netinu, sjá tengil á pdf-skjal að ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Merkilegt þetta með gloppurnar. Í Rvík er þetta akkúrat öfugt, þar sem kannski nr.12 og líka 12a, jafnvel 12b. Þetta eru yfirleitt bakhús á sömu lóð. Ég veit ekki um neina gloppu hér, nema þegar hús hefur verið rifið og ekkert komið í staðinn.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 25.7.2021 kl. 12:13

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, þetta er athyglivert, hér tíðkast líka að bakhús beri b-númer. (Nokkuð mörg þeirra t.d. á Oddeyri hafa því miður verið rifin). En þetta er svolítið sérstakt, þegar heilu tugina vantar inn í öðru megin eða alfarið, eða nokkur númer inn á milli. Mögulega er þetta í einhverjum tilfellum til komið vegna skipulagsbreytinga eða einhvers slíks. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 25.7.2021 kl. 20:28

3 identicon

Nú sendir löggan á Ak. frá sér tilkynningu um uppákomu (slagsmál, minnir mig) á Hamarskotstúni, nokkuð óþjált í munni. Var þetta ekki Hamarkot, en ekki Hamarskot? Ég ætla ekki að senda þeim póst, en kanski gerir þú það.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.7.2021 kl. 13:15

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Jú þetta er Hamarkotstún, og aðliggjandi gata í norðri heiti Hamarstígur. Síðarnefnda heitið vefst reyndar oftar fyrir fólki, þar sem ekki er munur í framburði og mörgum þykir eðlilegt að þetta sé HamarSstígur. En þessi heiti draga nafn sitt af "höm" sem mun uppspretta sem ekki hemar yfir eða leggur í frosti. Sjálfsagt fær löggan einhverjar ábendingar um þetta...mögulega frá rótgrónum "Brekkusniglum". 

Arnór Bliki Hallmundsson, 26.7.2021 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 436899

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 336
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband