Hús dagsins: Ægisgata 19

Á þeirri skemmtilegu dagsetningu 3.3.´44 hélt Bygginganefnd Akureyrar fund nr. 966. P5011002Á meðal fundarefna var umsókn Kristins Kristjánssonar um lóð við Ægisgötu, næst norðan við Guðmund Magnússon. Var honum veitt lóðin en það látið fylgja, að óvíst væri hvenær skólplögn kæmi þangað. Þessi staður var nefnilega í útjaðri byggðarinnar á þessum tíma. Tæpum tveimur mánuðum eftir lóðarveitinguna fékk Kristinn leyfi til að byggja hús, eina hæð á lágum grunni, byggt úr r-steini með valmaþaki, 12x12m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Þórður S. Aðalsteinsson.

Ægisgata 19 er einlyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki. Grunnflötur er ferningslaga, 12 metrar á kant svosem fram kemur í afgreiðslu bygginganefndar. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárna á þaki og lóðrétt fög í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar eru á suðurhornum.

Kristinn Gunnsteinn Kristjánsson (1916-1996) og Jóhanna Þorsteinsdóttir (1917-1998), sem reistu húsið árið 1944 bjuggu hér nánast allan sinn aldur eftir það, í hálfa öld. Kristinn var ættaður frá Ólafsfirði en Jóhanna fædd og uppalin á Akureyri. Þau unnu að jafnaði á sömu vinnustöðum, við skógerð. Lengi vel voru störfuðu þau á Skógerð J. Kvaran en síðar á skógerð Iðunnar á Gleráreyrum. Jóhanna var mjög virk í hinum ýmsu félagsstörfum, var t.a.m. í Kvenfélaginu Hlíf í meira en 50 ár og sat þar lengi í stjórn.

Eigendaskipti hafa ekki verið tíð eftir daga þeirra Kristins og Jóhönnu en húsið hefur nú verið í eigu sömu fjölskyldu í meira en 20 ár. Hefur húsið hlotið margvíslegar endurbætur, m.a. nýtt þak og er allt í hinni bestu hirðu. Er það þó nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð. Lóð er einnig gróskumikil og ber nokkuð á ræktarlegu reynitré suðaustanmegin á lóð, vafalítið gróðursett af Jóhönnu og Kristni á sínum tíma. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 966, 3. mars 1944. Fundur nr. 973, 28. apríl 1944. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 474
  • Frá upphafi: 436829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband