Hús dagsins: Ægisgata 24

Ægisgötu 24 reisti Helgi E. Steinarr árið 1944. Hann sótti í mars þ.á.PC080994 um lóðina norðan við Pálma Ólafsson (þ.e. 22) en gat ekki fengið hana „sökum háspennuleiðslunnar“ en fékk næstu lóð norðan við. Það er ekki útskýrt nánar, en mögulega  hefur rafstrengur annaðhvort legið þar yfir, eða verið þar fyrirhugaður. Alltént fékk Marinó Tryggvason lóð nr. 22 ári síðar. Um vorið 1944 fær Helgi byggingarleyfi: Hús úr r-steini á einni hæð með lágum grunni með valmaþaki, 9,5x7,8m auk útskots að austan 3,5x3,2m. Teikningar gerði Tryggvi Jónatansson.

Ægisgata 24 er einlyft r-steinhús með lágu valmaþaki. Útskot eru að framanverðu fyrir miðju og bakálma nyrst. Veggir eru klæddir steiningarmúr og bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs.

Helgi E. Steinarr hét fullu nafni Helgi Marinó Einarsson Steinar og var fæddur árið 1892 og er í Manntali 1901 skráður í Pálshúsi í Hvanneyrarsókn í Siglufirði. Hann mun lengst af hafa starfað sem kjötmatsmaður en einnig verkstjóri. Hann var kvæntur Laufeyju Jónsdóttir, frá Syðra Krossanesi (sbr. Manntal 1901). Bjuggu þau hér um áratugaskeið. Árið 1956 fékk Helgi leyfi til að byggja við húsið, 3,5 metra til norðurs eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Helgi og Laufey voru ötult garðyrkjufólk og var garðurinn við Ægisgötu 24 annálaður fyrir fegurð og grósku. Var t.a.m. margverðlaunaður, hlaut verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar 1951.   Tuttugu árum síðar, 1971 vakti Fegrunarfélagið aftur athygli á garði Helga og Laufeyjar, auk tveggja annarra sem verðlaunin höfðu hlotið, og að garðinum hefði verið haldið við af sömu alúð og natni.

Ægisgata 24 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu. Það er nýmálað og viðgert að utan og þak er nýlegt eða frá 2010. Samtímis var byggt við húsið að norðaustan, eftir teikningum Bergs Steingrímssonar, framlenging á útskotinu til austurs. Er húsið til mikillar prýði og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Lóðin er afmörkuð með steyptum kanti, svo sem tíðkaðist þegar húsið var byggt. Svo sem fram kom hér að framan var garðurinn hinn gróskumesti og glæsilegasti í áraraðir. Enn í dag er lóðin við Ægisgötu 24 með þeim gróskumeiri og fegurstu í bænum, prýdd ýmsum trjátegundum, runnum og plöntum og haldið við og hirt í hvívetna. Er um sannkallaða fagmennsku að ræða, því þar er að verki Tryggvi Marinósson, garðyrkjufræðingur með meiru, sem hér hefur búið í á fjórða tug ára. Trúlega eru ekki margir af þeim görðum, sem Fegrunarfélagið verðlaunaði um og upp úr miðri síðustu öld, sem hafa haldið grósku sinni jafn vel í seinni tíð, og garðurinn við Ægisgötu 24.

Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Lesendur kannast orðið við þetta stef sem kannski mætti taka saman í eina setningu: Að lokum legg ég til að Ægisgatan í heild sinni verði friðuð. (Enda þótt síðuhafi hafi hvorki fagþekkingu né forsendur til þess að meta varðveislugildi húsa eða gatna getur hann auðvitað haft á því skoðanir). Myndin er tekin þ. 8. desember 2021.

 Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.970, 31. mars 1944. fundur nr. 974, 5. maí 1944. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1241, 20. apríl 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 495
  • Frá upphafi: 436890

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 327
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband