9.9.2023 | 18:06
Hús dagsins: Litli-Hvammur
Í sumar hafa Hús dagsins verið stödd í Eyjafjarðarsveit. Nú fer að hausta og færist umfjöllunin í kaupstaðinn aftur. Næsta sumar (eða jafnvel fyrr, ef þannig liggur á síðuhafa) er síðan aftur ætlunin, að senda Hús dagsins í sveit. En hér er nyrsta hús Eyjafjarðarsveitar að vestanverðu.
Þegar ekið er suður Drottningarbrautina á leið fram í sveit blasir götumynd Aðalstrætis við á hægri hönd, einlyft timburhús með risþökum. Rétt sunnan við merki Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar, skammt frá þar sem Kjarnaskógi sleppir, blasir við vegfarendum látlaust og snoturt hús í svipuðum stíl og húsin við Aðalstrætið og gæti vel átt heima í þeirri götumynd. Hér er þó ekki um að ræða allra, allra syðsta hús Innbæjarins heldur ysta hús Eyjafjarðarsveitar vestan ár. Húsið er látlaust og snoturt timburhús frá öðrum áratug 20. aldar, Litli-Hvammur.
Litli-Hvammur stendur í brekku nokkurri skammt ofan Eyjafjarðarbrautar vestri. Á brekkubrúninni ofan hússins eru tún býlisins Hvamms. Brekka þessi er raunar syðsti hluti mikilla og víðlendra hlíðalendna undir Lönguklettum og Súlumýrum þar sem m.a. eru Kjarnaskógur, Naustahverfi og Brekkan á Akureyri. Þarna er um að ræða sköpunarverk ísaldarskriðjökla eins og svo margt í Eyjafirðinum. Það er rétt hægt að ímynda sér, að á ýmsu hefur gengið, þegar ísaldarjöklar skópu úr gríðarmiklum hraunlagamassa það stórskorna umhverfi, sem nágrenni Akureyrar og Eyjafjörðurinn er. En það hefur líka tekið hundruð þúsunda eða milljónir ára. En byggingartími timburhússins í Litla Hvammi hefur væntanlega aðeins mælst í mánuðum, nánar tiltekið einhverjum mánuðum áranna 1915 og 1916.
Litli-Hvammur er einlyft timburhús á lágum kjallara. Það er bárujárnsklætt, veggir og þak og með krosspóstum í gluggum. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með háu risi og skagar hún eilítið út fyrir norðvesturhorn hússins. Á kortavef map.is mælist grunnflötur hússins um 7x6m, útskot um 4x5m; 2x3m meðfram bakhlið og 2x4m útfrá norðurstafni. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar 1990 er húsið alls 142 fermetrar en í sams konar ritverki 20 árum fyrr eru húsin mæld í rúmmetrum og er húsið þá sagt 280 rúmmetrar (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:261 og Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722).
Það mun hafa verið árið 1915 að þau Jón Guðlaugsson og María Árnadóttir frá Bjargi í Glæsibæjarhreppi stofnuðu nýbýli á 10 hekturum, nyrst í landi Hvamms, þar sem Jón var fæddur og uppalinn. Áður höfðu staðið þarna íveruhús fyrir húsmennskufólk, mögulega frá árinu 1906 en ábúendatal Litla-Hvamms í Byggðum Eyjafjarðar nær aftur til þess árs. Árið eftir stofnun nýbýlisins var húsið risið og munu þau Jón og María hafa búið þar til ársins 1920, að Aðalsteinn, bróðir Jóns, fluttist hingað. Litli Hvammur hefur væntanlega aldrei talist stórbýli, enda landrými nokkuð takmarkað til framfærslu búpenings. Árið 1933 var Litli-Hvammur metinn til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt. Ein hæð með porti. Á aðalhæð 4 herbergi og forstofa. Tvö herbergi á lofti. Skúr-andyri [svo] við húsið (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.10). Húsið allt sagt úr timbri að því undanskildu, að helmingur kjallaragólfs var steyptur. Miðstöð var í kjallara hússins en steinolía notuð til lýsingar. Mál hússins voru skráð 7x6,3m en hæð 6,2m. Eigandi árið 1933 var Guðbrandur Ísberg. Ábúendaskipti virðast nokkuð tíð í Litla- Hvammi á fyrri helmingi 20. aldar og tvisvar fór bærinn í eyði þ.e. árabilin 1932-36 og 1937-40 en árið 1940 flytja Valdemar Antonsson frá Finnastöðum og Áslaug Jóhannsdóttir frá Garðsá í Litla-Hvamm (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722-24). Húsið hefur auðvitað mestalla tíð verið einbýlishús en á tímabili þjónaði það einnig sem skólahús. Í Litla-Hvammi var nefnilega rekinn heimavistarskóli á vegum Hrafnagilshreppsins á árunum 1946-48, var þá kennt á neðri hæð en nemendur bjuggu í tveimur herbergjum í risinu (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722). Ábúendur árin 1948-63 voru þau Halldór Guðlaugsson frá Hvammi og Guðný Pálsdóttir frá Möðrufelli, en Halldór var bróðir téðs Jóns Guðlaugssonar sem stofnaði nýbýlið og byggði íbúðarhúsið. Er þau Halldór og Guðný brugðu hér búi árið 1963 lauk hefðbundnum búskap í Litla-Hvammi.
Þegar Byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil á prenti miðaðist það við árið 1970 og var búskapur þá þegar aflagður í Litla-Hvammi. Þá voru ábúendur þau Jóhann Pálmason frá Teigi og Helga Jónsdóttir frá Klauf í Öngulsstaðahreppi. Þá stóðu, auk íbúðarhússins, fjós úr steinsteypu, braggahlaða og geymsla úr steini og asbesti. Túnstærð var 5,66 hektarar og túnin leigð öðrum bændum til slægna. Kemur þar fram, að þegar búfé var í Litla Hvammi hafi beitiland verið sameiginlegt með Hvammi (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:261). Þá hafa einnig verið nautgripir í Litla Hvammi, þar stóð fjós fyrir tíu kýr. Nú eru fjós, hlöður og geymslubyggingar sem stóðu við Litla-Hvamm árið 1970, löngu horfnar. Árið 1985 fer Litli-Hvammur í eyði í þriðja sinn á 20. öld og var þá jörðin sameinuð móðurjörðinni þ.e. Hvammi (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:722-24). Tveimur árum síðar flytja hins vegar hingað þau Hallgrímur Indriðason frá Espihóli og Lilja Jónsdóttir frá Vaglagerði í Akrahreppi. Höfðu þau starfað við Kristneshæli um árabil, hann sem smiður en hún við símavörslu en nýlega farið á eftirlaun. Endurbyggðu þau húsið af miklum myndarbrag og ræktuðu myndarlega upp í umhverfi þess. Auk þess héldu þau fáein hross, en árið 1990 eru tvö hross skráð sem búrekstur í Litla-Hvammi. Hafa þau verið hýst í hesthúsi, sem byggt var 1942 og stendur enn skammt norðan við íbúðarhúsið. Sigrún Klara Hannesdóttir, tengdadóttir þeirra hjóna, skrifar eftirfarandi í minningargrein um Hallgrím í dagblaðinu Degi í mars 1998: [...] ákváðu þau að festa kaup á Litla-Hvammi, sem þá var orðinn heldur hrörlegur bær við jaðar Kjarnaskógar. Fannst mörgum það hið mesta óráð og að vart yrði þar aftur um mannabústað að ræða. En Hallgrímur Indriðason hélt sínu striki, sem endranær, og endurbyggði húsið af þvílíkum dugnaði að athygli vakti (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1998:VI). Hlutu þau Hallgrímur og Lilja viðurkenningu Eyjafjarðarsveitar fyrir fagurt umhverfi og snyrtimennsku árið 1997. Hallgrímur lést ári síðar og flutti Lilja þá til Akureyrar.
Í Byggðum Eyjafjarðar 2010 er Litli-Hvammur á meðal eyðibýla í Eyjafjarðarsveit, og sagður í eyði frá 1998. Eigendur þá eru Kristín Hallgrímsdóttir og Grétar Sigurbergsson (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:623). Þá er húsið reyndar sagt 193 fermetrar en sem fyrr segir, var það sagt 142 fermetrar í Byggðunum 1990. Hvernig skyldi standa á því? Ekki var húsið stækkað í millitíðinni. Því er til að svara, að í Fasteignaskrá er íbúðarhúsið sagt 142,4 fermetrar en hesthúsið norðan við íbúðarhúsið 50,7 fermetrar. Þannig virðist þessar tvær stærðir vera lagðar saman í samantektinni árið 2010.
Enda þótt ekki hafi verið formleg eða föst búseta í Litla-Hvammi hefur húsið verið nýtt af eigendum þess og haldið við, og það með miklum sóma. Húsið stendur á skemmtilegum stað í brekkunni sunnan Kjarnaskógar og er raunar umfaðmað gróðri og brekkan umlukin ræktarlegum trjágróðri, sem þau Hallgrímur Indriðason og Lilja Jónsdóttir hafa væntanlega gróðursett á sínum tíma. Húsið er til mikillar prýði sem nokkurs konar útvörður vestanverðrar Eyjafjarðarsveitar í norðri, fyrsta húsið sem blasir við vegfarendum þegar bæjarmörkum Akureyrar sleppir. Litli-Hvammur er væntanlega aldursfriðaður, þar sem húsið er byggt fyrir árið 1923. Myndirnar eru teknar 20. maí 2016, 4. desember 2022 og 9. september 2023.
Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Sigrún Klara Hannesdóttir. 1998. Hallgrímur Indriðason (minningargrein). Í Degi, 56. tbl. 82. árgangur (Blað 3: Íslendingaþættir) bls. VI. Akureyri: Dagsprent (sótt á timarit.is)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 18
- Sl. sólarhring: 57
- Sl. viku: 435
- Frá upphafi: 440792
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 210
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.