Hús dagsins: Aðalstræti 44; Elínarbaukur

Húsaröðin við sunnanvert Aðalstræti er einkar geðþekk, skipuð lágreistum timburhúsum frá miðri 19. öld undir skógi vöxnum brekkum Naustahöfða. Þessi hluti bæjarins hefur löngum kallast Fjaran, en þessi elsta byggð Akureyrar skiptist í Akureyri annars vegar, á eyrinni undir Búðargilinu og Fjöruna undir brekkunum. Innbærinn er heiti sem kom ekki til fyrr en löngu síðar, eftir að byggðin hafði breitt úr sér milli Oddeyrar og Akureyrar. Í tilfellum margra þessara húsa er erfitt að slá föstu um byggingarár, ef ekki ómögulegt. Engin bygginganefnd var starfandi í bænum fyrr en 1857 og því ekki um að ræða nein byggingarleyfi. Þá voru dæmi um að hús væru flutt annars staðar frá. Eitt þessara húsa er Aðalstræti 44. Það er skráð með byggingarárið 1840 og telst því í 3. – 5. sæti yfir elstu hús bæjarins, ásamt Aðalstræti 52 og Lækjargötu 2a. Húsið hefur löngum kallast því áhugaverða nafni Elínarbaukur.  Byggingarár er þó raunar óljóst, jafnvel líklegt að það sé a.m.k. hálfum öðrum áratug yngra en skráð byggingarár segir til um en hér látum við Aðalstræti 44, eðaIMG_2915 Elínarbauk njóta vafans.

Aðalstræti 44 er einlyft timburhús á lágum steingrunni með háu risi. Að vestan tengist húsið steinsteyptri viðbyggingu, sem einnig er með háu risi, samsíða framhúsi. Viðbyggingin tengist eldra húsi með tengibyggingu úr timbri sem er með portbyggðu mansardþaki. Á framhlið er smár kvistur með einhalla, brattri þekju og einnig eru kvistir á þekju tengibyggingar, einn hvoru megin og tveir kvistir á bakhlið.  Á veggjum hússins er listasúð, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Á steinsteypta hluta hússins eru veggir múrsléttaðir og ýmist krosspóstar eða einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum.

Hver byggði Aðalstræti 44 og hvenær?

Líkt og algengt er með elstu hús Akureyrar eru takmarkaðar heimildir um byggingu Aðalstrætis 44, sem í  manntali 1860 er einfaldlega hús nr. 56 á Akureyri. Byggingarár er talið vera nærri 1840 eða í síðasta lagi um 1854. Svo vill reyndar til, að árið 1840 er einnig tilgreint hús númer 56 í manntali Akureyrarkaupstaðar en ekkert óyggjandi, að um sama hús sé að ræða. Í heimildum eru tveir menn taldir líklegastir til að hafa byggt húsið. Bjarni Sívertsen Arnórsson Gunnarsen eða Bjarni Gunnarsen stúdent, verslunarmaður hjá Havsteensverslun. Hann var úr Reykjavík og hafði verið skrifari hjá amtmönnum Norðlendinga, fIMG_2916yrst hjá Grími Jónssyni og síðar Bjarna Thorarensen. Bjarni er sagður „stúdent og kaupmaður á Akureyri“ á vefnum islendingabok.is. Hann strauk af landi brott frá eiginkonu sinni, Elínu Einarsdóttur Thorlacius og tveimur ungum börnum, haustið 1858 (sbr. Jón Hjaltason 2001:34). Ekki fer fleiri sögum af honum, hann er ekki með skráð dánardægur á islendingabok.is nema hvað hann er sagður á lífi árið 1868 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:783). Hafi Bjarni og Elín byggt þetta hús hefur það varla verið fyrr en nær 1850, en þau voru fædd 1823 og 1827 og því á barns- og unglingsaldri árið 1840. Einhverjar kenningar eru um, að Kristján Tómasson, tómthúsmaður, hafi byggt húsið. Hann er allavega einn af fyrstu eigendum þess. Hafi Kristján byggt húsið hefur það allavega verið mun seinna en 1840, einfaldlega vegna þess, að Kristján var fæddur árið 1834. Hann  hefur líklega flust hingað um 1857, en árið 1859 fær hann leyfi hinnar nýju Bygginganefndar til að reisa fjós á lóðinni.

Við skulum bregða okkur ein 170 ár aftur í tímann, til ársins 1855 og glugga í manntalið það ár. Kristján Tómasson var fæddur árið 1834, sem fyrr segir, á Háahamri (hjáleiga í landi Stóra-Hamars) í Öngulsstaðahreppi og uppalinn á Ytri - Tjörnum. Árið 1855 er hann skráður til heimilis að Hrafnagili, þar sem hann er í vinnumennsku. En víkjum nú sögunni til Akureyrar.  Árið 1855 er búsett á „Akureyri verslunarstað“, Helga Egilsdóttir, 26 ára, ásamt móður sinni Guðnýju Kráksdóttur og stjúpföður, Steini Kristjánssyni. Auk hennar búa í sama húsi faðir Guðnýjar, Krákur Jónsson, barnung dóttir Helgu, Anna Jónasína Jónasdóttir, fósturbarn Steins og Guðnýjar, Guðný Þorsteinsdóttir og sonur Steins, Friðbjörn. (Löngu síðar verður hús þeirra þekkt sem Friðbjarnarhús). Helga Egilsdóttir var fædd á Bakka í Öxnadal. Hún hafði tveimur árum fyrir þetta, 1853 siglt til Danmerkur, p8150040.jpgþar sem hún nam ljósmóðurfræði í eitt ár og heimkomin, 1854, gerðist hún sérleg ljósmóðir eða yfirsetukona Akureyrarkaupstaðar. Hvort leiðir yfirsetukonu Akureyrarbæjar og vinnumannsins á Hrafnagili höfðu þegar legið saman árið 1855 vitum við ekki, en þann 8. október 1857 gengu þau í hjónaband. Og um svipað leyti fluttu þau í næsta hús norðan við Stein og Guðnýju. Kannski byggðu þau húsið, það hefur þá gerst um svipað leyti og þau giftu sig. Hins vegar finnst ekkert byggingarleyfi fyrir húsinu, sem gæti líka bent til þess, að húsið hafi þegar verið risið (höfum í huga, að bygginganefndin tók til starfa vorið áður). Þá er auðvitað líka sá möguleiki, að þau hafi flutt hús annars staðar frá og sett niður við hliðina á Steinshúsi.

Hér langar höfund til að setja fram eina kenningu um byggingu Aðalstrætis 44, sem er gjörsamlega úr lausu lofti gripin og algjörlega án ábyrgðar, en er mögulega ekki vitlausari en hvað annað. Kannski er hér borið í bakkafullan lækinn af vangaveltum um uppruna hússins. Hér að framan er nefnt Friðbjarnarhús, sem stendur næst sunnan Elínarbauks, við Aðalstræti 46.  Enda þótt húsið sé kennt við Friðbjörn Steinsson byggði hann ekki húsið. Faðir hans, Steinn Kristjánsson byggði það upp úr smiðju sem Ingimundur Eiríksson, járnsmiður úr Reykjavík, hafði selt honum. Ingimundur reisti smiðjuna árið 1849 en Steinn Kristjánsson fluttist til Akureyrar árið 1851 frá Geirhildargörðum í Öxnadal. Það vill svo til, að árið 1840 er Ingimundur Eiríksson járnsmiður einmitt búsettur í „höndlunarstað Eyjafjarðar“ þ.e.a.s. Akureyri. Og það sem meira er, hann og fjölskylda hans eru búsett í húsi nr. 56, þ.e. sama númeri og þau Helga og Kristján árið 1860. Reyndar skal þess getið, að þessi númer þurfa ekki endilega að tákna sama húsið. Árið 1850 er Ingimundur t.d. skráður í húsi númer 62 en þau Bjarni Gunnarsen og Elín Einarsdóttir í húsi nr. 44. (Árið 1855 eru engin númer á húsunum á Akureyri í maIMG_2920nntalinu)  En kannski er rökrétt að álykta, að Ingimundur hafi reist smiðju sína í bakgarði íbúðarhússins, jafnvel lítið eitt sunnar og ofar. Kannski er það tilfellið, að Ingimundur Eiríksson járnsmiður hafi reist Aðalstræti 44 árið 1840?

„Maður Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu“

Enda þótt byggingarleyfi fyrir húsinu finnist ekki, er Kristján Tómasson engu að síður nefndur í bókunum bygginganefndar. Þann 18. júní 1859 er honum leyft að reisa lítið fjós á lóðinni, fyrir 2 kýr á bakvið Sæmundsens hesthús, sem staðsett er bakvið íbúðarhús Kristjánsson og hefur Sæmundsen gefið leyfi til þess. (Umræddur Sæmundsen er væntanlega Ari P. Sæmundsson, sem átti þar næsta hús norðan við. Það sem heita má merkilegt við þetta byggingarleyfi, er að í bókunum bygginganefndar er Kristján tilgreindur „maður Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu“ og í registrum segir einfaldlega Kristján Tómasson „yfirsetukonumaður“. Gegnum tíðina hefur almennt tíðkast, að kalla konur frúr eftir starfstétt eiginmanna sinna, sbr.læknisfrú, prestsfrú o.s.frv. en það hlýtur að vera næsta sjaldgæft í opinberum skjölum, að karlmenn séu kenndir við starfstétt eiginkvenna. Þau Helga og Kristján áttu hér heima til ársins 1865 en þá hlaut Helga embætti yfirsetukonu í Reykjavík. Hvorugt þeirra varð langlíft, Helga lést úr taugaveiki árið 1867 og Kristján ári síðar. Um Helgu Egilsdóttir segir í minningargrein: Frá þessu tímabili [er hún giftist Kristjáni árið 1857 þar til hún flutti til Reykjavíkur] dvaldi hún hjer á Akureyri og stundaði köllun sína með alúð og samvizku semi og óþreytandi elju; hún tók á móti hjer- um fullt 300 börnum og kenndi 10 kvenn- mönnum ljósmóðurfræði (Án höf 1869: 1).

Elínar þáttur Einarsdóttur

Árið 1860 býr hér, ásamt þeim Helgu og Kristjáni, kona að nafni Elín Einarsdóttir Gunnarsen og er sögð lifa á saumaskap og maðurinn hennar [téður Bjarni Gunnarsen] sé strokinn úr landi. Elín Einarsdóttir var líkast til fædd í Saurbæ í Eyjafirði en hún var dóttir sr. Einars Hallgrímssonar Thorlacius, sem þar þjónaði sem prestur á árunum 1823 til 1867 og lét m.a. reisa núverandi Saurbæjarkirkju. Elín ólst hins vegar upp á Miklagarði hjá föðurafa sínum, sr. Hallgrími Thorlacius og er árið 1845 búsett á Hrafnagili hjá föðurbróður sínum, sr. Hallgrími Hallgrímssyni Thorlacius en árið 1850 er hún búsett í húsi nr. 44 á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Gunnarsen. (Kannski hafa þau byggt húsið um eða skömmu fyrir 1850?)  Hún hefur líkast til búið hér áfram eftir að Kristján og Helga fluttu suður, því árið 1873 kaupir hún húsið af erfingjum þeirra. Mögulega hefur hún byggt húsið ásamt Bjarna og fengið inni hjá nýjum eigendum hússins sem leigjandi eftir að hann strauk úr landi. 

Tveimur árum eftir að Elín eignaðist húsið, eða 1875, hóf hún veitingarekstur en fram að því hafði hún að mestu fengist við saumaskap. Fékk hún fullgilt leyfi bæjaryfirvalda til að starfrækja veitingasölu, þ.e.a.s. selja kaffi og léttar veitingar sem hún og gerði hér í húsinu. Áfengisleyfi var ekki inni í veitingaleyfi Elínar. Kallaðist húsið Elínarbaukur. Bauksnafnið kom til af því, að í bænum hafði verið rekið veitingahús sem kallaðist Jensensbaukur eftir iðngrein vertsins, Lauritz H. Jensens, sem var beykir. Komst þannig upp sú hefð, að nefna veitingahús bauka, enda þótt vertinn kæmi hvergi nálægt beykisiðn.  Jensen þessum var raunar nokkuð í nöp við veitingarekstur Elínar, ekki aðeins vegna samkeppninnar, heldur fremur vegna þess, að  hann uppástóð að Elín stælist til að selja mönnum áfengi. Jensen hafði þurfti mikið að hafa fyrir því að mega selja áfenga drykki, m.a. sjá  ferðamönnum fyrir öllu mögulegu sem þeir þörfnuðust m.a. þvotti, gistingu og fóðri fyrir hesta. M.ö.o. virðast kaupin hafa gerst þannig á (Akur)eyrinni, að til þess að öðlast vínveitingaleyfi þurftu menn að reka fullburðug gistiheimili eða hótel, samhliða veitingarekstri.  Þannig færu ferðamenn, sem gistu hjá honum, á kaffihúsið til Elínar en kæmu drukknir til bIMG_2930aka í gistingu hjá honum og væru þar með óspektir (sbr. Jón Hjaltason 1994: 330). Það mun hafa verið í ársbyrjun 1877 sem Jensen var nóg boðið og skrifaði amtmanni kvörtunarbréf vegna þessa.  Elín gerði sér þá lítið fyrir og sótti um leyfi til að reka „reglulegt veitingahús“, nokkurs konar „uppfærslu“ á fyrra leyfi sínu. Og úr varð, að Elín fékk leyfi til að selja áfenga drykki og gistingu en þó með þeim skilyrðum, að aldrei mátti skort mat handa gestum og hey handa hestum og ekki mátti fara fram „næturslark eða ólögleg spilamennska“ (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2012:50).  Það fylgir þó ekki sögunni, að á Elínarbauk hafi verið stundum lögleg spilamennska. Elín rak „bauk“ sinn um áratugaskeið en auk þess leigði hún íbúðarherbergi í húsi sínu. Sama ár og Elín fékk fullgilt veitingaleyfi kom til bæjarins Magnús nokkur Jónsson frá Öxnafelli í Saurbæjarhreppi. Hann hafði þá stundað nám í úrsmíði í Kaupmannahöfn og mun hafa verið einn fyrsti úrsmiður, sem settist að á Akureyri. Hann leigði hjá Elínu og starfrækti hér úrsmíðaverkstæði sitt (sbr. Jón Hjaltason 2001:230) væntanlega það fyrsta slíka í bænum. Lesendur geta ímyndað sér, hversu rúmt hefur verið um  veitinga- og gistiheimili Elínar, íbúa hússins og úrsmíðaverkstæðið á þessum árum, en þá stóð aðeins fremri hluti hússins, um 42 m2 að grunnfleti!  

Elín Einarsdóttir átti hér heima, allt til dánardægurs árið 1914. Eignaðist þá sonur hennar, Einar Thorlacius Bjarnason, húsið. Hann seldi það fljótlega Vigfúsi Sigfússyni, veitingamanni á Hótel Akureyri en hann er skráður eigandi hússins 1915 og þar eru leigjendur Halldór Þorgrímsson verkamaður og fjölskylda hans. Árið 1916 var Aðalstræti 44 metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt:  Íbúðarhús úr timbri með pappaklæddu þaki, einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Austanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa, eitt herbergi og eldhús og búr vestanmegin. Í risi voru tvö íbúðarherbergi og geymsla. Grunnflötur hússins var sagður 7,2x5,4m og hæðin 3,7m (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 28). Eigendur, þegar þessi lýsing var gerð, 28. nóvember 1916, voru erfingjar Vigfúsar Sigfússonar, en hann lést tæpum tveimur mánuðum fyrr  eða 1. október. Árið 1918 er Hallgrímur Helgason beykir orðinn eigandi hússins. Hann fékk árið 1920 leyfi til að reisa skúr eða viðbyggingu vestan við húsið. Ekki kemur fram hversu stór sá skúr eigi að vera. Árið 1928 er Hallgrími heimilað að byggja hæð ofan á skúrinn. Engin mál eru á byggingunni en tekið fram, að byggingarfulltrúa sé falið „að segja fyrir um styrkleika og stærð þessarar byggingar“ (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1928: nr. 611).  Fékk húsið þá það lag, sem það hafði fram undir aldamótin 2000. Á teikningum frá Rafveitu Akureyrar sést, að skúrinn hefur þjónað sem geymsla í upphafi, en umræddar teikningar eru frá því um 1923.

Hallgrímur Helgason og afkomendur. Viðbyggingarsaga

Í ítarlegri manntalsskýrslu frá árinu 1940 kemur fram, að tvær íbúðir séu í húsinu, ein á hvorri hæð. Þar kemur einnig fram, að hvorki sé í húsinu miðstöðvarkynding, vatnssalerni né bað en þó rafmagn og vatnsveita. Þá er húsið sagt réttra 100 ára, m.ö.o byggt 1840. Árið 1940 eru átta manns búsettir í húsinu: Annars vegar þau Hallgrímur Helgason og Matthildur Grímsdóttir ásamt dætrum þeirra, Önnu Soffíu og Helgu Sigríði. Hins vegar Kristveig María, einnig dóttir Hallgríms og Matthildar, hennar maður Indriði Jakobsson og börn þeirra Edda Sigurlaug og Þórhallur Helgi.

Það er skemmst frá því að segja, að þær Helga og Anna Soffía áttu hér heima alla sína tíð eftir þetta, Anna lést árið 1985 og Helga árið 1988. Margir, sérstaklega Innbæingar, muna eftir Helgu Hallgrímsdóttur úr kjörbúð KEA eða Höepfner, en þar stóð hún vaktina í hartnær hálfa öld.  Í byrjun árs 1987 segir Helga í viðtali við Dag „Núna bý ég hér ein, en áður var hér margt fólk, jafnvel nokkrar fjölskyldur, en núna er rétt pláss fyrir mig eina,“ […] Stofan í þessu húsi þykir nú ekki stór, en í henni bjuggu eitt sinn hjón með 5 börn, þar fyrir utan var a.m.k. ein önnur fjölskylda í húsinu, ef ekki tvær.“ (Helga Hallgrímsdóttir (Helga Jóna Sveinsdóttir) 1987: 11). Eftir lát þeirra eignaðist frænka (systursonardóttir) þeirra Önnu og Helgu, Anna Kristveig Arnardóttir, húsið. Hún er því langafabarn Hallgríms Helgasonar og þannig hefur húsið haldist innan sömu ættar frá árinu 1918 eða í 107 ár!  Í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbærinn saga hús og fólk, segir Anna Kristveig einmitt frá því, að hún hafi ákveðið það 12 ára gömul að kaupa hús frænkna sinna, sem gáfu henni ýmislegt góðgæti sem hún ekki fékk heima hjá sér, þegar hún yrði stór og stóð hún við það (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:55). Og hún gerði gott betur en að eignast húsið; hún stóð fyrir mikilli uppbyggingu og endurbótum á húsinu þegar þar að kom.

Á árunum 1997-2000 fóru sem sagt fram miklar framkvæmdir við Aðalstræti 44. Viðbyggingar frá 3. áratug 20. aldar voru rifnar en byggt við á ný til vesturs, eftir teikningum Finns Birgissonar. Um var að ræða aðferð, sem löngum hefur verið talin sem skólabókardæmi um það hvernig byggja skal við friðuð, gömul hús. Það er, skil á milli gamla hússins og nýbyggingar eru skýrt afmörkuð með látlausum tengigangi, þannig að viðbygging breytir ekki yfirbragði gamla hússins, sem fær að njóta sín óhindrað. Viðbyggingin er auk þess í sams konar byggingarstíl og upprunalega húsið en mjög skýrt hvar um er að ræða viðbyggingu og eldra hús. Innanstokks bætast við fleiri fermetrar sem eru sannarlega kærkomnir fyrir eigendur og íbúa hússins. Nokkrum árum fyrr var byggt við Aðalstræti 52 og segja má, að tenging nýbyggingar Menntaskólans á Akureyri (sem er reyndar orðin um 30 ára gömul) við Gamla Skóla frá 1904, sé af sama toga.  Við þessar byggingarframkvæIMG_2913mdir voru einnig endurnýjaðir gluggar, veggklæðning og þak á eldra húsinu. Húsinu hefur æ síðan verið vel við haldið og er til mikillar prýði í einni rótgrónustu götumynd Akureyrar. Umhverfið er einnig mjög gróskumikið en líkt og önnur hús á þessum slóðum stendur húsið á geysi víðlendri lóð sem prýdd er hinum ýmsu trjám. Ber þar e.t.v. mest á miklu furutré suðaustan við húsið. Efsti hluti Naustahöfða, sem sumir kalla „Innbæjarbrekkuna“ er á síðustu árum orðinn skógi vaxinn að mestu, nokkurs konar grænn trefill yfir Aðalstræti.  Aðalstræti 44 eða Elínarbaukur var friðlýstur 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 15. ágúst 2009 og 16. febrúar 2025. 

Heimildir: Án höfundar. 1869. Húsfrú Helga Egilsdóttir Norðanfari 7. júní 30. tbl. bls. 1.

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 11, 18. júní 1859. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 489, 22. okt. 1920. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 611  30. apríl 1928. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Helga Jóna Sveinsdóttir.1987.  „Búðin var mitt annað heimili” í Degi 14. janúar, 8. tbl 70. árg. bls. 2.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni 

http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • IMG_2913
  • IMG_2915
  • IMG_2930
  • IMG_2920
  • IMG_2916

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.3.): 68
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 366
  • Frá upphafi: 443269

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 174
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband