Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; "Sambyggingin"

Gránufélagsgata 39, 41a og 41 var byggð á árunum 1929-30 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Þetta eru raunar þrjú sambyggð hús og hafa sumir kallað þetta hús Sambygginguna. Þó þetta hús beri þrjú númer og er þ.a.l. þrjú hús  mun ég hér tala um það sem eitt, en greina á milli vesturhluta (39), miðhluta (41a) og austurhluta (41). Er þetta líkast til eitt fyrsta skipulagða fjölbýlishúsið á Akureyri austur-sambygging.

 Árið 1927 var fyrsta skipulag fyrir Akureyrarbæ samþykkt. Þar var gert ráð fyrir þéttri byggð fjölbýlishúsa sk. randbyggingum á Oddeyri og torgum á milli. Þannig áttu göturnar að byggjast á löngum og háreistum fjölbýlishúsum og eldri húsanna ( sem nb. standa flest enn ) beið í mörgum tilfellum skjótt niðurrif. Hefði skipulagi þessu verið framfylgt til hins ýtrasta hefði  byggðin á Oddeyri  líkast til orðið áþekk byggðinni við -Vallagöturnar í Vesturbæ Reykjavíkur ( Verkamannabústaðirnir, göturnar hjá Grund). En þó skipulagið væri stórhuga endaði það nú svo að nú stendur aðeins þetta hús og næsta neðan við nr. 43 sem minnisvarðar um það. Þá er einskonar torg á milli þeirra, sem nú þjónar sem bílastæði fyrir íbúa húsanna og leikskólann Iðavöll, sem er staðsettur á reitnum góða sem afmarkast af Gránufélagsgötu í suðri, Norðurgötu í vestri, Eiðsvallagötu í norðri og Hríseyjargötu í austri. Nú eru sjö íbúðir í húsinu, þrjár í austurenda, þrjár í vesturenda og ein í miðhluta. Líkast til hafa þær verið mun fleiri þegar húsið var byggt, jafnvel yfir 10. Þessi mynd er tekin í janúar árið 2005.

Um númerakerfi Gránufélagsgötunnar hef ég minnst á áður í pistli um skringileg númerakerfi en þar segir m.a.: Að vestan er röðin hefðbundin 19, 21, 23 og 27. En við hliðina á 27 stendur 39,41a og 41. Þessi hús eru ein heild, stórt þrílyft steinhús, kallað Sambyggingin. Neðan 41 stendur svo 43, eins og vera ber. En svo heldur gatan áfram frá 29, neðan við 43. Hús nr. 16 stendur beint á móti 43 og beint á móti 33 er 22. Aldrei hef ég heyrt neina skýringu á því hverju þetta sæti. Ég bjó í Gránufélagsgötu 27 (næsta húsi við 39-41) í tvö ár og oft börðu að dyrum póstsendingarfólk eða pizzasendlar algjörlega "lost" við að finna tiltekin hús í götunni. Þau urðu svo oft enn meira forviða þegar maður benti þeim hingað og þangað að húsunum sem leitað var að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Hahaha það hefur verið hellings heilaleikfimi að bera út póst í þessa götu

Ragnheiður , 17.10.2009 kl. 13:42

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Ójá, það liggur við að það þurfi sérstakt námskeið fyrir póst- eða blaðburðarfólk í þessari götu. Þetta kemst reyndar fljótt upp í vana hjá þeim sem bera þarna út oft eða daglega (sjálfur bar ég út blöð þarna um nokkurra ára skeið) en get ímyndað mér að gatan valdi  óvönum heilabrotum.

Arnór Bliki Hallmundsson, 17.10.2009 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 491
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 323
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband