Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 33

Eyrarlandsvegur 33  virðist lítið frábrugðið þeim hinum húsunum í röðinni á móti Menntaskólanum og gæti hæglega verið frá sama tímabili, þ.e. 3. áratug 20.aldar.P4190010 Staðreyndin er hinsvegar sú að húsið er mikið yngra. Húsið er byggt árið 1971 eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar en ekki er mér kunnugt um hverjir stóðu fyrir byggingunni. Það er ekki gott að segja hvort húsið sé einlyft á kjallara eða tvílyft því hæðarmismunur lóðar gerir það að verkum að það er hærra austanmegin heldur en götumegin, og gildir slíkt hið sama um húsin á þessum slóðum. En götumegin viðrist húsið einlyft. Húsið er með háu risi og snýr göflum en húsið er í raun þrístafna því ein örmjó álma  gengur úr húsinu að sunnanverðu. Forstofubygging er á húsinu framanverðu og svalir ofaná en einnig eru svalir til suðurs og austurs. Í húsinu eru allavega þrjár íbúðir, ein á hverri hæð. Húsið er í góðu standi og fellur vel inn í götumyndina- sem er ekki alltaf sjálfgefið með hús sem eru reist 40-50 árum seinna en næstu hús. Svo virðist sem þess hafi verið gætt í hvívetna við hönnun hússins, sem er hvorki áberandi stærra eða mikið öðruvísi í laginu en húsin nr. 27-31 og 35 við Eyrarlandsveg. Myndin er tekin 19.apríl 2014. 

 Heimildir: Akureyrarkaupstaður.2014. Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Sjá tengil í texta.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 31

Eyrarlandsveg 31 reistu þau Vilhjálmur Júlíusson og Elín Sveinbjarnardóttir árið 1923.P4190009 Hann var frá Barði en það var hjáleiga frá Eyrarlandi og stóð bærinn um 100m norðan við þetta hús á brún hins mikla gils þar sem  Menntavegurinn hlykkjast frá Hafnarstræti við Samkomuhúsið. Gil þetta heitir einmitt Barðsgil. Barðsbærinn er löngu horfin en Vilhjálmur var sonur síðasta bóndans þar, Júlíusar Kristjánssonar. Eyrarlandsvegur 31 er einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi. Forstofuskúr er á framhlið og inngönguskúr eða stigabygging á norðurhlið. Krosspóstar eru í gluggum. Húsið er mjög sviplíkt næsta húsi norðan við, nr. 29 en húsin eru reist sama ár og mögulega eftir sama höfund.  Húsið er líkast  lítið breytt frá upprunalegri gerð en virðist traustlegt og í góðu standi. Líkt og húsin í þessari röð er húsið einbýli og hefur verið svo frá upphafi. Þessi mynd er tekin 19.4.2014.  

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 29

Eyrarlandsveg 29 reistu hjónin Júníus Jónsson og Soffía Jóhannsdóttir árið 1923.P4190008Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með portbyggðu háu risi. Húsið snýr stafni að götu líkt og öll húsin í þessari röð og á framhlið er forstofu með risi en á norðurhlið annar minni inngönguskúr. Krosspóstar eru í gluggum en á forstofu eru skrautlegir margskiptir gluggar beggja vegna dyra og bogalaga skraut ofan við þær. Að öðru leyti er húsið nokkuð látlaust og einfalt í útliti. Húsið hefur líkast til ekki tekið stórvægilegum breytingum að utanverðu og því virðist vel við haldið. Skorsteinn hefur verið fjarlægður af húsinu en á myndinni má sjá ljósbláan ferhyrndan blett efst á miðri þekjunni. Það er líkast til fyrrverandi skorsteinsstæði. Húsið og lóð virðist í góðri hirðu. Þessi mynd er tekin 19.apríl 2014 og á myndinni má greinilega sjá skugga ljósmyndarans. 

Heimildir: Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.  


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 27

Á brekkubrúninni framan við Menntaskólan á Akureyri og Lystigarðinn liggur efri hluti Eyrarlandsvegar. Þessi gata átti einhvern tíma að heita Fagrastræti og taldist syðsta húsið, Eyrarlandsvegur 35, upprunalega standa við Fagrastræti 1. Ég hef þegar fjallað um það hús en nú er ætlunin að taka fyrir húsaröðina frá 27 að 33 í hækkandi númeraröð. Þetta eru sviplík hús, vegleg steinhús frá 3. áratug 20.aldar með einni yngri undantekningu og mynda glæsilega heild. 

P4190007

Húsið á Eyrarlandsvegi 27 reistu hjónin Ólafur Sumarliðason skipstjóri og Jóhanna Björnsdóttir árið 1928. Teikningar gerði Einar Jóhansson.  Húsið  er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á háum kjallara. Húsið snýr stafni að götu og snýr austur- vestur, líkt og öll næstu hús sunnan við. Á suðurhlið er lítill miðjukvistur og svalir framan við hann. Húsið er nokkuð skrautlegt og ber þess merki að hafa verið reist af miklum efnum. Húsið er með steyptu bogadregnu skrauti á göflum og á framhlið er bogadregið útskot með lauklaga þaki (held ég hafi heyrt einhvers staðar eða lesið að svona  þakbúnaður kallist "karnap"). Ef húsinu er flett upp í Landupplýsingakerfi Akureyrar kemur í ljós að húsinu var breytt lítillega 1964 og 1972 og bílskúr var reistur á lóðinni árið 1979 eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar. (veljið flipan "teikningar" til vinstri og sláið húsið inn undir "Gögn"- "Heimilisfangaleit" og "Opna skýrslu" til að nálgast upplýsingarnar). Húsið mun ekki hafa skipt oft um eigendur fyrstu áratugina, en lengi vel bjó Einar sonur Ólafs og Jóhönnu eftir þeirra dag. Húsinu er vel við haldið og lítur glæsilega út sem og einnig gróskumikil lóð, en gróðurinn er kannski ekki áberandi á þeim árstíma sem myndin er tekin þ.e. snemma vors. En myndin er tekin um klukkan sjö í gær, 19.apríl 2014. 

Heimildir: Akureyrarkaupstaður.2014. Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Sjá tengil í texta.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs.  Reykjavík: Örn og Örlygur.


Gleðilega páska

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra páska. Meðfylgjandi eru þessar myndir, sem teknar eru laust fyrir klukkan 9 af Eyjafjarðarfjöllunum Súlum og Bónda og Kerlingu en síðarnefndu fjöllin eru falin bakvið hríðarský. 

P4200002

 

P4200003

 


Hvað er framundan í Húsum dagsins ?

Það eru réttar tvær vikur frá því ég kláraði Miðbæjar- og Gilsskammtinn og ekkert hús komið frá því. Næst ætla ég mér að mynda skemmtilega húsaröð frá 1915-25 við ofanverðan Eyrarlandsveg en einnig ætla ég að taka fyrir hin eina sanna Sjalla. Þess má einnig geta að ég vinn nú í hjáverkum hörðum höndum að því að koma þessum greinum mínum í handritsform í Word-skjal og það er sko engin smá djöfuls vinna. Við fyrstu skoðum eru allir mínir húsapistlar um 130 blaðsíður og það eru bara Akureyrargreinarnar. (Og það er án mynda). Enda afrakstur fimm ára vinnu, en þann 25.júní nk. eru einmitt liðin fimm ár frá því ég birti örgrein og mynd  af Steinhúsinu við Norðurgötu. 

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2014
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 541
  • Frá upphafi: 420858

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 452
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband