Hús dagsins: Aðalstræti 19; Sæmundsenshús.

Aðalstræti 19 reistu þeir Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson fyrir Sigurð Hjörleifsson Kvaran lækni árið 1905.P6190010 Þau árin voru þeir í óða önn að byggja húsaröðina númer 33-41 við Hafnarstræti og tveimur árum áður höfðu þeir reist Aðalstræti 15 en það er mjög svipað Aðalstræti 19 að gerð. Húsið er tvílyft timburhús á lágum steinsteyptum kjallara og með lágu valmaþaki.  Húsið er bárujárnsklætt en fram til um 1935 mun hafa verið lárétt borðaklæðning á húsinu með láréttum skrautböndum. Krosspóstar eru í gluggum. Tvær útbyggingar eru aftan á húsinu, önnur lítil, trapisulaga en önnur stærri, líklega stigahús. Húsið er plankabyggt en það er hlaðið úr plönkum 3ja tommu þykkum og 7 tommu háum. Sigurður átti húsið í rúman áratug eða til 1917 og hafði læknastofu og biðstofu í vesturenda neðri hæðar en bjó á efri hæðinni. Þó var svefnherbergi læknishjónanna á neðri hæðinni- innaf læknastofunni ! Sigurður ritstýrði einnig blaðinu Norðurlandinu meðan hann bjó í húsinu og var þá skrifstofa blaðsins hér einnig. Húsið var lengi kallað Sæmundsenshús eftir Pétri j. Sæmundsen, en hann bjó hér eftir að tengdasonur hans, Hallgrímur Davíðsson keypti húsið af Sigurði árið 1917. 

P6190012

Húsið hefur ekki skipt oft um eigendur því árið 1986 áttu börn Hallgríms, Margrét og Pétur húsið. Þá hafði húsið verið í tæp 70 ár í eigu sömu fjölskyldu. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni og hefur svo verið um áratugaskeið. Húsið virðist í góðu standi og lóð og er vel hirt. Undir suðurvegg  hússins stendur mikið stórt og verklegt lerkitré, sem ég gæti ímyndað mér að sé eitt hið stærsta sinnar tegundar á Akureyri. Ég gæti trúað að tréð sé á bilinu 15-18 metrar á hæð. Myndirnar af Aðalstræti 19 eru teknar 19.júní 2014.

 

 

 

 

Á þessari mynd sem tekin er til norðurs  má sjá lerkitréð mikla við suðurvegg Aðalstrætis 19.  

P6190011

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


"HÚS DAGSINS" 5 ÁRA.

Hús dagsins: Norðurgata 17

Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997.P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

Ég minntist á að þetta væri 3.-4. elsta hús Oddeyrar. Sjálfsagt mál er að telja upp þau hús á Oddeyri sem teljast eldri en Steinhúsið. Norðurgata 11 er jafn gamalt (1880), Lundargata 2 (1879), Strandagata 27 (1876) og elst er Strandgata 49, Gránufélagshúsið, (1874).

Og þessar athugasemdir bárust:  

 Það verður eflaust gaman að fylgjast með framhaldinu hjá þér að kynna okkur gömlu húsin á Akureyri.Númi er höfuðborgarbúi,en hefir flakkað mikið til norðurlands,er hálfur þingeyingur.Ég fór í göngutúr um gamla hluta Akureyrar í fyrra í fyrsta sinn,og þvílíkar gersema gamalla húsa sem þið eigið á Akureyri,og gaman að sjá hve mörg  hafa verið vel gerð upp.Hafðu þökk fyrir þetta framtak þitt.

Númi (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 11:02

2identicon

Þakka viðbrögðin og hrósið. Mun setja inn fleiri myndir og umfjallanir á komandi dögum og vikum...  

Arnór B.H. (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 14:51

3identicon

Schnilld maður... þetta blogg fer í internethringinn minn =)

Mummi (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 14:00

4Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

 

Magnað :-)

Arnór Bliki Hallmundsson, 26.6.2009 kl. 15:42

5identicon

 

Glæsilegt Arnór, glæsilegt!

Mjög fróðlegar greinar, ég hef mikinn áhuga á að lesa fleiri svona eftir þig.

Ég á eftir að kíkja oft við hérna yfir hádegiskaffibollanum mínum!

Jens (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 12:51


Hús dagsins: Aðalstræti 17.

Síðastliðin fimmtudag, 19.júní, var ég á ferðinni með myndavél í Innbænum. Næstu greinar hér á síðunni verða því um hús við Aðalstræti sem mér þótti alveg verðskulda að mynda og fjalla stuttlega um hér.P6190009 Aðalstræti 17 sést hér á þessari mynd.  Aðalstræti 17 er byggt 1899. Það er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og miðjukvisti beggja vegna á húsi. Húsið stendur á steyptum kjallara og er klætt steinblikki og í gluggum eru tiltölulega nýlegir sexrúðupóstar. Örlítill inngönguskúr er á norðurgafli og inngöngubygging eða stigahús á bakhlið. (Reyndar mun stigi hafa verið rifinn úr þeirri byggingu fyrir margt löngu). Húsið reisti Kristján Sigurðsson kaupmaður en hann átti það ekki lengi og líklegt er talið að það hafi verið reist fyrir næsta eiganda hússins, Odd Björnsson prentsmið. Hann setti á stofn prentsmiðju  þarna 1901 og eignaðist allt húsið þremur árum síðar. Í millitíðinni átti húsið Einar H(jörleifsson) Kvaran skáld. Ástæða þess að húsið er talið byggt sérstaklega fyrir prentsmiðju er sú að  burðarbitar undir neðri hæð eru sterklegri og sverari en venjan var- sem bendir til þess að gólfinu hafi verið ætlað að þola þungar vélar. 

P6190013

Prentsmiðjan var í norðurenda hússins en íbúð í suðurenda en í risi var skrifstofa (Odds, væntanlega) auk íbúðaherbergja fyrir prentnema. Prentsmiðjan var starfrækt í þessu húsi til ársins 1934. Oddur virðist hafa selt íbúðarhluta hússins 1918 en þá kaupa þeir Mikael Guðmundsson og Björn Grímsson suðurhluta. Þegar bókin Akureyri; Fjaran og Innbærinn var skrifuð fyrir tæpum þremur áratugum hefur húsið ekki skipt oft um eigendur en þá hafa sömu eigendur átt suðurhluta hússins frá 1967 en sama fjölskyldan átt norðurenda frá 1934. Enn er húsið parhús og eru að ég held ein íbúð í hvorum hluta. Aðalstræti 17 er glæsilegt hús og í góðri hirðu og það sama á við um lóðina sem er stór og gróskumikil. Um 1990 var lögð ný íbúðargata samsíða hluta Aðalstrætis, Duggufjara og snýr húsið bakhlið að þeirri götu. Því eru hér myndir af bæði af bæði bak- og framhlið Aðalstrætis 17.  

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


Hús dagsins: Aðalstræti 2

Það þarf ekki endilega að vera einfalt að ákvarða byggingarár húsa. Það á sérstaklega við um hús sem byggð eru löngu áður en nokkur núlifandi maður fæddist og fyrir tíma formlegra byggingarleyfa og teikninga og áður en ljósmyndun varð almenn. Síðan eru það hús sem byggð eru í áföngum. (Þú getur t.d. staðið í stofu frá 1936 í húsi sem skráð er byggt 1887 o.s.frv.) Stundum eru hús svo gjörbreytt að allri gerð og stærð frá upprunalegu lagi að fráleitt væri að tala um upprunalegt byggingarár sem það rétta.  Ég er þannig að ég hugsa fyrst og fremst í ártölum. Það fyrsta sem ég man um sögu húsa er byggingarár en ég get hins vegar hæglega gleymt því hver byggði húsin. Eins getur það hverjir bjuggu þar og hvaða starfsemi var þar skolast til hjá mér. Ef ég sé skrautlegt og áhugavert hús þá einhvernvegin verð ég ævinlega að vita hvað það er gamalt.

P6190016

 Húsið hér á myndinni, Aðalstræti 2, er eitt þeirra húsa þar sem ekki er auðvelt að slá föstu um byggingarár.   Samkvæmt fasteignaskrá (Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar ) er byggingarár hússins 1886 en uppruni þess er rakinn til 1850-53. Húsið fékk þó ekki núverandi lag fyrr en líklega um 1926. En Aðalstræti 2 er í raun tvö sambyggð hús, eldri hlutinn snýr stöfnum norður- suður en nyrðri hlutinn, sá yngri, snýr austur vestur. Syðra húsið er tvílyft timburhús á lágum grunni með háu risi og tveimur litlum á framhlið og einum stórum gaflkvisti á suðurenda. Norðurhúsið er hinsvegar tvílyft á lágum kjallara og með lágu risi og með steyptum inngöngupalli eða verönd að framan. Þá er steinsteypt viðbygging með skúrþaki vestan á húsinu. Allt er húsið klætt kvarsmulningi, sk. skeljasandi.

Saga hússins er rakin til ársins 1853 en þá reistu Gunnlaugur Guttormsson og Margrét Halldórsdóttir hús sem er væntanlega elsti hluti þessa hús. Upprunalega taldist húsið standa við Eyrarlandsveg (sem nú er Spítalavegur). Til er a.m.k ein ljósmynd af húsinu eins og það leit út upprunalega, en hún sést á bls. 64 í bókinni Akureyri: Fjaran og Innbærinn eftir Hjörleif Stefánsson (1986). Húsið var af algengri gerð timburhúsa þess tíma, ekki óáþekkt húsum nr. 50 og 52 við Aðalstrætið. Gunnlaugur lést 1859 en Margrét eignaðist þá húsið. Bróðir hennar, Jóhannes Halldórsson bæjarfulltrúi og kennari og fyrsti skólastjóri Barnaskóla Akureyrar leigði húsið um tíma og annaðist þar skólahald  Akureyringa. Margrét seldi húsið árið 1877 Jósep Jóhannessyni járnsmiði en 1886 kaupir Magnús Jónsson úrsmiður húsið. Freistandi er að álíta að Magnús hafi hækkað húsið um eina hæð og skráð byggingarár hússins miðist við þá framkvæmd. Þá kenningu styður ljósmynd sem er frá því fyrir 1890 (Steindór 1993: 52) og þar sést að húsið er orðið tvílyft með háu risi, með fjórum gluggum á efri hæð og tveimur frá suðri á þeirri neðri, útidyr og einum glugga norðan útidyra. Hjörleifur Stefánsson (1986) vill hins vegar meina að Jósep hafi gert þessar breytingar áður en hann seldi Magnúsi húsið en Magnús mun hins vegar hafa lengt húsið um 4 álnir til norðurs, auk þess sem hann reisti norðurhluta hússins talsvert seinna. 

Á mynd sem dagsett er 3.ágúst 1912, einnig í Akureyrarbók Steindórs bls. 105 sést að norðurbyggingin er risin en hún er þá örlítið hærri en eldra húsið. En Magnús Jónsson mun hafa reist norðurhlutann í áföngum 1899 og 1904, eina hæð í senn. Á myndinni frá 1912 eru kvistirnir og ókomnir á suðurhluta- sem einnig virðist mjórri. Sigmundur J. Sigurðsson tók við rekstri úrsmiðjunnar eftir dag Magnúsar og segir Steindór að orðrétt að hann hafi látið "[...]stækka húsið og byggja hæð ofan á það svo það er gerbreytt" (Steindór Steindórsson 1993: 21).  Þessar breytingar voru gerðar árið 1924 og þá mun hann hafa breikkað húsið um þrjá metra og hækkað risið og reist kvistina. Sennilega hefur ætlunin verið að innrétta þar íbúðarrými en af því varð ekki, því í Innbæjarbók Hjörleifs kemur fram að ris sé óinnréttað. Sama ár og Sigmundur stækkaði suðurhlutann byggði Carl J. Lilliendahl, eigandi norðurhlutans steinsteypta byggingu með skúrþaki vestan á þann hluta og 1926 byggði hann steinsteyptu tröppurnar framan á húsið. Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu sem áður segir skóli og úrsmíðaverkstæði, sportvöruverslun og einhvern tíma var, skilst mér, lítil hverfisverslun í kjallara norðurhússins. Íbúar hússins gegn um tíðina skipta eflaust hundruðum- ef ekki þúsundum. Nú eru í húsinu alls fjórar íbúðir ef mér skjátlast ekki, ein á hvorri hæð og í risi í suðurhluta og ein í norðurhluta. Húsið er ráðandi í umhverfi sínu og er skemmtilega sérkennilegt og öðruvísi að gerð og greinilegt að það er byggt í áföngum. Það er í góðu standi og lóð hefur verið tekin öll í gegn fyrir einhverjum árum síðan og er gróskumikil og aðlaðandi. Þessi mynd er tekin fyrr í dag, 19.6. 2014. 

Hér má sjá Aðalstræti 50 og 52, en upprunalega var nr. 2 sviplíkt þeim húsum. Myndirnar eru teknar 29.5.2010 og 15.8.2009.

p5290051.jpg P8150042

 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


Nokkur hús á Ásbrú

Helgina 6.-8.júní sl.  skrapp ég í Reykjanesbæ og komst þar í Sögugöngu um Varnarliðssvæðið. Þó byggingar þær teljist ekki mjög gamlar er mikil saga á bak við þær og saga þessa svæðis, sem í um 60 ár var utan lögsögu Íslands og framandi mörgum Íslendingum, geysimerk og henni þarf að halda á lofti. Söguganga á borð við þessa sem ég tók þátt í um daginn er liður í því. Leiðsögumaður var Eysteinn Eyjólfsson, stjórnmála- og sagnfræðingur frá Keflavík.

P6070004

 Bandaríski herinn settist hér að  árið 1941. Það gefur því auga leið að byggingar eftir herinn eru ekki eldri en það, en elsta byggingin á Varnarliðssvæðinu er "Atlantic Studios" og er það byggt 1943. Byggingin var upprunalega viðgerðarverkstæði fyrir orrustuflugvélar en er nú kvikmyndaver og tónleikasalur.

 

 

 

 

 

 Hér var einskonar miðbær Varnarliðssvæðisins og húsið hér að neðan var lengi vel aðal samkomu- og skemmtistaður svæðisins. Húsið er í hópi elstu húsa Varnarliðssvæðisins, byggt árið 1955. Það var ekki ómerkari maður en skemmtikrafturinn og leikarinn Bob Hope (1903-2003) sem vígði þessa byggingu en hann var ötull við að ferðast milli bandarískra herstöðva og skemmta mönnum þar. Nú er þarna m.a. veitingastaður og um tíma var þarna lítil sjoppa sem þjónaði íbúum Ásbrúar.  

P6070013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6070017 P6070018

Til vinstri má sjá vatnstank Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar  og fyrir miðri mynd er einskonar loftvarnarbygging. Hún var þannig úr garði gerð að þarna gat hópur fólks hafst við einangraður í þrjá mánuði ef til árásar kæmi.  Á myndinni hægra megin er síðan Slökkvistöðin en slökkvilið vallarins var mjög vel búið og stundaði öflugar forvarnir. Aldrei brann hús til grunna á Vellinum þessi 60 ár sem herinn var hér !

 Hér  má sjá bankann (tveggja hæða bygging með valmaþaki), sem var útibú American Express og lögreglustöðina.

P6070027  P6070021

Þeir sem leið eiga um Varnarliðssvæðið veita því fljótt athygli að þar er lítið sem ekkert af trjám. 

P6070033

Fyrir því var ástæða- það var nefnilega ekki talið heppilegt að hugsanleg óvinalið gætu falið sig í skógi. Því Kaninn var vel meðvitaður um það að litlar og snotrar hríslur verða stóreflis tré eftir einhverja áratugi. Undantekning frá þessari skógræktarreglu voru bústaðir hinna hæst settu þ.e. "Admirals" en þarna má sjá nokkuð stór tré sem þeir hafa væntanlega plantað. Aðmírálarnir bjuggu í húsum sem þessu og höfðu ágætis rými, í þessu húsi voru t.d. tvær íbúðir og bjuggu foringjarnir á efri hæðum og höfðu gestastofur á neðri hæð. Þeir höfðu líka bílskúra en þetta  munu þeir einu slíku sem finna má á Varnarliðssvæðinu. Foringjabústaðirnir eru í hópi eldri húsa á svæðinu, byggðir milli 1950-60.

(Þess má geta að þessi hús lentu inni á Flugöryggissvæði Keflavíkurflugvallar þegar NATO tók að sér loftrýmiseftirlit hér og þess vegna er þessi víggirðing fyrir. Hún er því ekki komin frá Varnarliðinu). 

 

Munnleg heimild: Eysteinn Eyjólfsson leiðsögumaður í Sögugöngu um Ásbrú. 7.júní 2014. 

 


Flóran á bökkum Glerár

Í gær, þann 12.júní, átti leið um göngustíginn sem liggur á norðurbakka Glerár, frá Glerárbrú við Olís og upp að Neðra Glerárgili. Myndavélin var með í för. Þarna er nokkuð fjölskrúðugt plöntulíf og hér eru nokkrar svipmyndir.                       

P6120017

Þessir burknar sem gægjast upp úr grjótinu vöktu mesta athygli hjá mér en þeir eru aðeins nokkrir og á afmörkuðum stað þarna á bakkanum. Hugsanlega eru þetta garðplöntur sem hafa "villst" þangað. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6120018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér eru fræ túnfífils föst í köngulóarvef... 

P6120015

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkuð þéttur asparskógur er þarna og undir trjánum eru kerfill og ætihvönn- sá fyrrnefndi u.þ.b. mannhæðarhár. 

 

 

P6120014P6120013 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru m.a. smjörgras, stök viðja, hrafnaklukka og ég er nokkuð viss um að blöðin á efri  myndinni fyrir miðju tilheyri eyrarrós. 

 

P6120011P6120012P6120009

P6120010


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2014
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 291
  • Frá upphafi: 420166

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband