Gilin á Akureyri

Í síðustu færslu minntist ég á Gilið margfræga eða Grófargil eins og það heitir raunar. Það er einnig kallað Listagil enda ekki að ástæðulausu því þar eru staðsett mörg gallerý, tónleikasalir ( Deiglan, Ketilhús ), Listasafn Akureyrar  sem og Myndlistarskólinn. Hefur þar á síðustu 15-20 árum farið fram markviss uppbygging listastarfs en áður var iðnaðarstarfsemi ríkjandi í gilinu. En Grófargil er aðeins eitt af mörgum giljum sem skera bæjarbrekkuna á Akureyri, en nokkur þeirra bera nöfn og hér ætla ég að fara yfir þau helstu. Nyrst þeirra, samhliða Grófargilinu er Skátagil. Það liggur skáhallt upp frá Hafnarstrætinu (Göngugötunni ) og er brattur göngustígur sem liggur þar neðst uppá bílastæði ofan Amarohússins. Þaðan liggur svo Oddagatan upp að höfðanum þar sem gilin tvö greinast. Á teikniborðinu mun vera mikil uppbygging á Skátagilinu sem útivistarsvæði og er það í tengslum við nýjan og endurbættan miðbæ. Um kílómeter sunnan Grófargils er síðan Búðargil eða Lækjargil eins og það er stundum líka kallað en Lækjargata liggur upp það gil. Það er mest þeirra gilja sem skera Brekkuna. Í norðurhlíð Búðargils voru kartöflugarðar Akureyringa allt frá aldamótunum 1800 eða þar um bil og enn eru ræktaðar þar kartöflur. Þá voru þarna vinsælar skíðabrekkur á vetrum. Norðurendi Kirkjugarðsins nær að suðurbrún gilsins en sá staður kallast Höfðinn (minnir að hann heiti annaðhvort Búðarhöfði eða Naustahöfði "fullu nafni" ). Það er einn af glæsilegustu útsýnisstöðum Akureyrar. Í neðri hluta Lækjargötunnar eru íbúðarhús en við efri hlutann voru lengi vel hesthús, þau síðustu voru rifin um 2005. Fyrir ekki svo löngu síðan var maður eiginlega kominn upp í sveit þegar komið var upp úr Búðargilinu. Beint upp af því var býlið Hlíð  og tún allt um kring. Sunnan Kirkjugarðs, beint upp af Minjasafninu og Nonnahúsi er síðan Skammagil. Þar upp liggur gamall vegur sem var áður leiðin frá Kirkjunni upp í Kirkjugarð. Nú er hann hluti gönguleiðar sem liggur upp Skammagil eftir brekkubrúninni og niður Búðargilið, sk. Nonnaslóð. Lítið eitt sunnar, við veginn ofan Skautahallar er svo Naustagil. Það lætur ekki mikið yfir sér enda mun grynnra en hin gilin sem talin er upp hér og auk þess skógi vaxið að mestu leyti. Þá eru ótalin nokkur gil eða skorningar í brekkunni ofan Flugvallar auk þess sem nokkrir skorningar eru í brekkunni ofan Hafnarstrætis, sá mesti ofan Samkomuhússins. Líklegt þykir að það gil beri nafn en mér er alltént ekki kunnugt um það. Þar upp liggur mjór, snarbrattur og hlykkjóttur stígur sem kallaður er Menntavegurinn. Fyrir gangandi er hann kærkomin stytting á leið uppá Brekku en hann getur verið illfær í hálku og snjó. Um árabil hefur það verið fastur liður í busavígslu Menntaskólans á Akureyri er að láta nýnemana ganga upp Menntaveginn. En þessi stígur kallast hins vegar aðeins Menntavegur þegar farið er upp, á niðurleið nefnist hann Glötunarbraut ! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 276
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 572
  • Frá upphafi: 420593

Annað

  • Innlit í dag: 237
  • Innlit sl. viku: 440
  • Gestir í dag: 229
  • IP-tölur í dag: 224

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband