Hús dagsins: Jaðar í Glerárþorpi; Stórholt 8

 

Á lóð númer 8 við Stórholt stendur nýlegt (byggt 1990) og reisulegt steinsteypt einbýlishús. Það er byggt eftir teikningum Aðalgeirs Stefánssonar. En á bakvið það hús, nánast í hvarfi séð frá götunni stendur hinsvegar elsta hús götunnar og raunar eitt af elstu húsum Glerárþorps. Er það húsið Jaðar. Húsið á 100 ára afmæli í ár en það mun byggt 1915.PA240001

   Þar sem Glerárþorp varð ekki hluti af Akureyri fyrr en 1955 koma gömlu býlin þar ekki við sögu í fundargerðum Bygginganefndar Akureyrarbæjar. Ekki er talið fullljóst hvenær húsið er byggt en samkvæmt Steindóri Steindórssyni (1993:137) er húsið byggt 1915, en fyrst mun byggt á Jaðri árið 1908 (sama heimild: 92). Hér miða ég við byggingarárið 1915. Í manntali árið 1920 er tvíbýlt á Jaðri í Glæsibæjarsókn- sem ég geri ráð fyrir að sé þetta hús. Annars vegar búa þau Einar Maríus Sigurjónsson og Guðbjörg Guðmundsdóttir og hins vegar Eðvarð Viggó Guðbrandsson og Guðlög Steingrímsdóttir á Jaðri. Því er ekki óvarlegt að áætla að þau hafi reist húsið- en sá fyrirvari er á því að manntalið er tekið fimm árum eftir (ætlaða) byggingu hússins. Jaðar er einlyft steinsteypuhús (eða forskalað timburhús) með lágu risi. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn á þaki og stendur húsið á lágum grunni. Líkast til er húsið lítið sem ekkert breytt frá upphafi að ytra byrði en gluggapóstar kunna að hafa verið öðruvísi í upphafi. Nú er húsið nýtt sem geymsla en ekki hefur verið búið í því um árabil. Húsið virðist í nokkuð góðu standi og er einfalt og látlaust að gerð. Grunnflötur hússins er líklega um 6x10m. Ef “Jaðri í Glerárþorpi” er flett upp á timarit.is koma ekki upp neinar auglýsingar um starfsemi eða verslun. En eins og gengur og gerist með 100 ára hús er mikil saga bakvið það, þó ekki sé hún skráð nema á blöð eða vef.

Húsið er e.k. "leyndarmál Stórholtsins" því hér er um að elsta hús götunnar, og sést það ekki frá götu. Jaðar fagnar aldarafmæli á þessu ári, sem lýkur eftir tæpar þrjár vikur þegar þetta er ritað, og er raunar eitt af elstu húsum Akureyrar norðan Glerár. Það er mitt álit öll gömlu býlin í Glerárþorpi eigi skilyrðislaust að friða- og hananú og þar Jaðar að sjálfsögðu ekki undanskilinn.

 

 PA240002
Sem áður segir virðist húsið í ágætu standi og sama má segja um umhverfi þess. Sunnan við húsið standa tvö gróskumikil silfurreynitré, sem hljóta að vera áratugagömul. Myndirnar með færslunni eru teknar fyrsta dag vetrar, laugardaginn 24.okt. 2015.

PA240003

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stórholt 8, einbýlishús frá 1990. Sér í norðurstafn Jaðars á bakvið. E.t.v. mætti kalla þetta hús nýja íbúðarhúsið að Jaðri. 

 

Heimildir:  Minjastofnun í samvinnu við Hönnun Skipulag (2012). Húsakönnun- Akureyrarbær- Stórholt-Lyngholt. Unnið fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt sem pdf -skjal á vefnum. Sótt 13.12.2015 á slóðina http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Storholt_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 92
  • Sl. viku: 756
  • Frá upphafi: 417038

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband