29.11.2015 | 11:30
Hús dagsins: Gránufélagsgata 16
Árið 1926 var ekki algengt að konur stæðu fyrir húsbyggingum, en það ár reistu þær Sigríður Þorláksdóttir og Jónína Jónsdóttir Gránufélagsgötu 16. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, bárujárn er á þaki og steyptar tröppur upp á efri hæð á vesturhlið en inngöngudyr að götu á framhlið. Inngangur er á efri hæð á vesturstafni og steyptar tröppur að götu. Þverpóstar eru í gluggum. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði húsið en neðri hæð virðist innréttuð sem íbúð árið 1938, samkvæmt teikningum Tryggva Jónatanssonar. (Það er í sjálfu sér ekki ólíklegt að Tryggvi hafi teiknað húsið, en teiknaði fjölmörg hús á Akureyri á 3. og 4. áratug 20.aldar ). Á milli hússins og Gránufélagsgötu 18 stendur einnar hæðar steinsteypt tengibygging með flötu þaki, byggð um 1943 eftir teikningum Gústavs Jónassonar . Telst sú bygging standa við Gránufélagsgötu 18 og er reist sem viðbót við það hús. Sé heimilisfanginu Gránufélagsgötu 16 slegið upp í gagnagrunn timarit.is er ekki að sjá að þarna hafi farið fram verslun eða nein meiri háttar starfsemi, enda hefur húsið líkast til fyrst og fremst verið íbúðarhús alla tíð. En elsta heimildin sem timarit.is gefur upp varðandi húsið er frá 1928 en þá er Zophonías Jónsson gjaldkeri hins nýstofnaða Sjómannafélags búsettur þarna. En Gránufélagsgata 16 er látlaust, einfalt og skemmtilegt hús og nýtur sín vel í fjölbreyttri götumynd Gránufélagsgötu. Þessi mynd er tekin 29.sept. 2015.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Einnig aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2015 | 09:07
Hús dagsins: Gránufélagsgata 23
Ég hef nokkuð haldið mig við Neðri Brekku síðustu vikur en nú liggur leiðin niður á Oddeyri, líkt og í síðustu færslu. Ég mun næstu vikurnar taka fyrir "eitt og eitt" hús á þessu svæði. Hér berum við niður á Gránufélagsgötu.
Snorri Jónsson timburmeistari reisti endur fyrir löngu verkstæðishús á þessari lóð, og taldist það bakhús við Norðurgötu 11, en það hús reisti Snorri um 1880. Hermundur Jóhannesson eignaðist það hús um 1920 og stækkaði það og byggði upp og sótti einnig um byggingarleyfi fyrir nýju húsi á baklóðinni árið 1927. Ekki virðist hann hafa nýtt það leyfi en vorið 1934 fékk hann leyfi til að reisa steinsteypt hús á tveimur hæðum, kjallaralaust, 8,2x9,5m að stærð. Teikningar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson en Steinn Steinsen verkfræðingur mun hafa annast járnateikningu.
Gránufélagsgata 23 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki. Elsta álma hússins er svo til ferningslaga að grunnfleti en tvívegis hefur verið byggt við húsið, 1948 og 1976 og er pússning á veggjum viðbygginga. Elsti hluti hússins er hins vegar klæddur steinmulningi með hrafntinnu og kvartsi er hönnunin talin undir áhrifum frá byggingu Þjóðleikhússins, (Guðný Gerður og Hjörleifur 1995: 83) en Steinn Steinsen kom einnig að byggingu þess. Gluggapóstar eru ýmis konar, á vesturhlið er gluggi sem ég kalla einfaldlega stóran stofuglugga, en einnig eru á húsinu þverpóstar með þrískiptum opnanlegum fögum, einfaldir lóðréttir póstar og margpósta gluggar á neðri hæð. Á vesturhlið er inngangur og litlar svalir beint ofan við hann. Sem áður segir hefur tvívegis verið byggt við húsið, í fyrra skiptið var byggð einlyft bygging með svölum á norðurhlið en árið 1976 var sú bygging hækkuð til jafns við upprunalegt hús. Neðri hæð var löngum verkstæði, þar rak Jóhannes Hermundarson lengi líkkistuvinnustofu en bjó á efri hæð ásamt fjölskyldu sinni. Húsið er talið hafa nokkurt gildi vegna sérstakrar gerðar, enda er húsið einkar skemmtilegt útlits. (A.m.k. að dómi þess sem þetta ritar) Almennt eru fallegustu götumyndirnar og heildirnar taldar þær sem skipa svipuð hús að gerð. En andstæður geta einnig verið skemmtilegar og þar mynda Gránufélagsgata 23 og Norðurgata 11 skemmtilega tvennd, fulltrúi timburhúsa 19.aldar annars vegar og nýmóðins steinsteypuhúsa 20. aldar hins vegar. Þessi mynd er tekin 29.sept. 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr.722, 31.maí 1934.
Héraðsskjalasafnið á Ak. (óprentað, óútg.)
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2015 | 12:11
Hús dagsins: Hólabraut 15, Hólabraut 17
Hólabraut 15
Við rætur Brekkunnar, þar sem Gránufélagsgatan mætir Oddeyrargötu stendur reisulegt steinhús frá upphafi 4.áratugs 20.aldar. Þar er um að ræða Hólabraut 15 en Hólabraut er efsta þvergatan í norður frá Gránufélagsgötu. Í hugum flestra hlýtur þessi staður að tilheyra Miðbænum en landfræðilega hlýtur Oddeyrin að ná að Brekkunni þannig að ég flokka Hólabraut sem Oddeyri.
Árið 1930 fékk Sigurbjörg Pálsdóttir leyfi til að reisa steinhús, 9x10m, tveggja hæða með kjallara og háu risi. Byggingaleyfið fékk hún í tveimur áföngum, í seinna skiptið var henni leyft að setja kvist á hús sitt. Teikningar að húsinu hafa varðveist, en þær eru óundirritaðar og því telst höfundur ókunnur. Húsið er byggt sem hluti húsaraðar samkvæmt Aðalskipulaginu frá 1927.
Hólabraut 15 er stórt og reisulegt steinsteyptuhús, tvíltyft með háu risi og miðjukvisti á bakhlið enm framhlið er smærri þríhyrndur kvistur. Inngangar eru í húsið á tveimur stöðum, að framanverðu á kjallara og er þar gengið inn á stigagang en einnig til suðurs þar sem gengið er inn á fyrstu hæð. Þar eru steyptur bogadreginn tröppupallur með skrautlegu handriði. Verklegir steyptir þakkantar setja svip sinn á húsið sem annars er nokkuð látlaust að gerð. Krosspóstar eru í gluggum en margskiptir póstar í gluggum stigagangs. Bárujárn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, í upphafi eru tvö rými sem kallast vinnustofur í kjallara en líkast til tvær íbúðir hvor á sinni hæð en ris er ekki með á teikningunum. Það hefur fyrir löngu verið innréttað sem íbúð. Húsið er í ágætu standi og lítur vel út og stendur það á stórri og gróskumikilli lóð. Húsið er á áberandi og fjölförnum stað og nýtur sín vel og er það talið hafa þó nokkurt varðveislugildi skv. Húsakönnun frá 2011. Í húsinu eru fjórar íbúðir. Myndin er tekin þ. 15.9.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 648, 21.5.1930. Fundur nr. 650, 21.7.1930.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Hólabraut 17
Bygginganefnd Akureyrar var stofnuð árið 1857 og voru allir fundir hennar frá upphafi númeraðir. Á 700. fundi nefndarinnar, sem haldinn var vorið 1933 var meðal fundarefna afgreiðsla byggingarleyfis til bræðranna Olgeirs og Þórhalls Guðmundssonar sem fengu að reisa steinsteypt hús á kjallara, 8x10m með háu risi, kvisti og forstofu að norðan. Húsið var sagt næst norðan við hús Sigurbjargar Pálsdóttur, þ.e. Hólabraut 15. Olgeir gerði sjálfur teikningarnar að húsinu. Þar virðist gert ráð fyrir tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð og verkstæði og geymslur í kjallara.
Hólabraut 17 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu risi. Miðjukvistur er á framhlið en langur kvistur með flötu þaki á bakhlið. Sá kvistur er það sem ég kalla hornstæður að sunnanverðu, þ.e. kvistur nær að suðurgafli hússins og raunar er risinu því lyft að hluta að aftanverðu. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir en á kjallara er múr með áferð sem ég hef líkt við krem á djöflatertu en mér skilst að kallist spænskur múr. Krosspóstar eru í gluggum en margskiptir póstar í kjallaragluggum. Hólabraut 17 er reisulegt hús og í góðu standi og er talið hafa nokkurt varðveislugildi skv. Húsakönnun. Húsið er h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð en kvistur bakatil er á upprunalegum teikningum. Það myndar skemmtilega tvennd ásamt húsi nr. 15, en um er að ræða tvö reisuleg steinhús frá fyrri hluta 4.áratugarins. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þ. 15.sept. 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 700, 20.5.1933.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Svona líta Hólabraut 15 og 17 út að vestanverðu (þ.e. bakhliðir). Hér er horft frá Brekkugötu, rétt norðan við Amtsbókasafnið. Þessi hús blasa því við mér þegar ég sit á Héraðskjalasafninu að garfa í bókunum Bygginganefndar og fleiri skjölum...Myndin er einnig tekin þ. 15.sept sl.
Bloggar | Breytt 22.11.2015 kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2015 | 09:24
Hús dagsins: Gilsbakkavegur 5
Árið 1926 fékk Ingimar Eydal kennari og ritstjóri leyfi til að reisa tvílyft steinsteypuhús, 10,5 x 9 m [ þ.e. um 95 fermetrar að grunnfleti] á eignarlóð KEA, beint vestur af Syðra Melshúsi. Ári síðar fékk hann leyfi til að setja litlar svalir á norðvesturhorn húss síns, sem þar er sagt standa við Oddagötu. (Heitið Gilsbakkavegur virðist ekki koma til sögunnar fyrr en eftir 1927). En árið 1930 telst húsið standa við Gilsbakkaveg 5 og er þá efsta húsið við götuna, enda voru næstu hús ofan við voru ekki reist fyrr en 1945-6. Þá búa í húsinu alls 20 manns, m.a. Ingimar og Guðfinna Eydal en einnig Þorleifur Þorleifsson og Rósa Leósdóttir.
Gilsbakkavegur 5 er af nokkuð algengri gerð steinhúsa frá þriðja áratug 20.aldar. Húsið er tveggja hæða steinsteypuhús á kjallara og með háu risi, örlítill kvistur er á vesturhlið. Veggir eru múrsléttaðir en bárujárn á þaki en þverpóstar í gluggum. Inngangar eru á austur og vesturhlið en sólpallur á norðvesturhorni og timbursvalir ofan hans. Húsið er í góðu standi og mun að mestu óbreytt frá upphafi a.m.k. að ytra byrði. Það finnast a.m.k. engar teikningar af breytingum á húsinu á vef Landupplýsingakerfis Akureyrarbæjar. Alls eru þrjár íbúðir í húsinu, ein í risi og hvor íbúðin á sinni hæð. Þessi mynd er tekin þ. 18.ágúst 2015.
Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 582, 22.3.1926. Fundur nr. 599, 18.7.1927.
Manntal á Akureyri 1930.
Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2015 | 12:03
Hús dagsins: Gilsbakkavegur 1a
Oddagata og Gilsbakkavegur tengjast að neðanverðu í stuttum boga þar sem á aðra hönd standa efstu hæðir stórhýsanna við Hafnarstræti 95-99 (Krónan, Amarohúsið) en á hina hornhús gatnanna tveggja, númer 1. Á milli þeirra stendur eitt hús, sem telst standa við Gilsbakkaveg 1a. Um er ræða tvílyft steinsteypuhús í Funkisstíl, byggt 1935. Upprunalega taldist húsið á lóð Kristjáns Sigurðssonar kennara í Oddagötu 1 en í Manntali 1940 telst húsið vera nr. 1A við Gilsbakkaveg. Þá búa þar alls 11manns, þau Eggert og Guðrún Melstað ásamt börnum og tvær mæðgur Guðrún Sæunn Sæmundsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Eggert og Guðrún reistu einmitt húsið árið 1935 en Kristján Sigurðsson fékk leyfi fyrir byggingunni í umboði Eggerts. Nefndin vildi ekki leyfa timburloft á milli hæða heldur krafðist hún steinlofts. Húsið var sagt 8,5x8,8m. Sem þýðir að aðeins munar 30 cm að grunnflötur hússins sé fullkomlega ferningslaga. Húsið er tvílyft steinsteypuhús [innskot: í bókun Bygginganefndar er húsið sagt ein hæð á kjallara] með flötu þaki þaki. Horngluggar, eitt helsta einkenni funkisstefnunnar í húsagerð hérlendis eru á suðurhlið en einfaldir þverpóstar í gluggum. Húsið er íbúðarhús og hefur alla tíð verið og er líkast til að mestu leyti óbreytt frá upprunalegri gerð. Það er skemmtilega einfalt og látlaust eins og títt er með funkishús. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin 18.ágúst 2015.
Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 741, 24.apríl 1935
Manntal á Akureyri 1940.
Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2015 | 09:21
Hús dagsins: Gilsbakkavegur 1
Á milli Skátagils og Grófargils liggja tvær götur, Oddagata norðan megin og Gilsbakkavegur sunnan megin, ofan Grófargils. Hvort að gatan dragi nafn sitt af því, að hún þræðir bakka Gilsins eða af stórbýlinu Gilsbakka í Borgarfirði skal ósagt látið hér. En gatan er skipuð fjölbreyttum og skemmtilegum húsum, sem flest eru byggð á 5. áratug 20.aldar. Hér ætla ég hins vegar að taka fyrir elstu og neðstu húsin, sem byggð eru fyrir 1940. Ég hef nú þegar tekið fyrir elsta húsið við götuna sem er Syðra Melshús, byggt 1906. Melshúsin stóðu ein á þessari melbrekku í nærri tvo áratugi en fyrst var byggt í Melshúsalandi árið 1923. Það hús stendur enn og um er að ræða annað elsta hús Gilsbakkavegar, Gilsbakkaveg 1.
Gilsbakkaveg 1 reistu þau Steindór Jóhannesson járnsmiður og Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir árið 1923. Steindór fékk leyfi til að reisa sunnan Oddagötu, beint austan við Syðra- Melshús, 7,5x8,75m, steinsteypt íbúðarhús, ein hæð með porti og risi. (Bygg.nefnd Ak. 1923). Hann vildi í upphafi fá að setja kvist á húsið fyrr en fékk ekki leyfi til þess fyrr en nokkrum mánuðum síðar, er hann hafði þegar hafið byggingu hússins. Hvers vegna það leyfi fékkst ekki í upphafi fylgir ekki sögunni. En þarna var heitið Gilsbakkavegur ekki komið til sögunnar að því er virðist, en gatan kemur fyrir í Manntali 1930.
En Gilsbakkavegur 1 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni, með portbyggðu risi og miðjukvisti sem nær gegn um ris. Á miðri framhlið hússins er inngönguskúr með risþaki og tröppur upp að honum og annar inngönguskúr á bakhlið. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Smekklegur sólpallur er við bakhlið hússins og suðurhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til upprunalega einbýlishús en ekki er ólíklegt að fleiri en ein fjölskylda hafi búið þar samtímis á einhverjum tímapunkti. Húsið var allt tekið í gegn um 1991, sbr. teikningar Svans Eiríkssonar hér þá var framhúsið byggt og bíslagi bakhliðar breytt auk þess sem skipt var um þak. Húsið er því að mestu sem nýtt og í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja um lóðina. Í húsinu er ein íbúð. Þessi mynd er tekin þ. 18.ágúst 2015.
Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 532, 19.3.1923. Fundur nr. 541, 12.7.1923.
Manntal á Akureyri 1930.
Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2015 | 23:51
Hús við Oddagötu
Í sumar birti ég tvær færslur um Melshús, tvö timburhús frá upphafi 20.aldar sem standa á melbrekku milli Grófargils og Skátagils, ofan við Miðbæinn. Þau teljast standa við Gilsbakkaveg og Oddagötu. "Hús dagsins" eru yfirleitt hús byggð fyrir 1930-40 og við þær götur standa þó nokkur eldri steinhús. Því var auðvitað um að gera að taka þau fyrir líka. Ég tók Oddagötuna fyrir - eins og hún leggur sig- núna í október.
Ytra Melshús; Oddagata 3b (1905)
og Syðra Melshús; Gilsbakkavegur 3 (1906) birt 26.júlí 2015
Oddagata 1 (1927) birt 11.okt. 2015
Oddagata 3 (1927)birt 16.okt. 2015
Oddagata 9 (1928) birt 21.okt. 2015
Oddagata 7 (1933) birt 24 okt 2015
Oddagata 11 (1927) birt 28.okt 2015
Oddagata 15 (1946) birt 1.nóv 2015
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2015 | 23:35
Hús við Laxagötu
Septembermánuður var á þessum vettvangi að mestu helgaður Laxagötu á ofanverðri Oddeyri. Tók ég götuna alla fyrir, enda standa þar fá hús.
Laxagata 2 (1932) birt 13.sept.2015
Laxagata 3 (1933) birt 15.sept 2015
Laxagata 4 (1932) birt 17.sept 2015
Laxagata 5 (1933) birt 21.sept. 2015
Laxagata 7 (1943) birt 23.sept 2015
Laxagata 8 (1935) birt 26.9.2015
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2015 | 13:49
Hús dagsins: Oddagata 13 og Oddagata 15
Efstu húsin við Oddagötu eru númer 13 og 15. Þau eru bæði reist árið 1946 og eru því yngst húsa við götuna, sem flest eru byggð árin 1926-28.
Oddagata 13
Oddagötu 13 reisti Jónína Sigurðardóttir árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur það á lágum kjallara. Húsið er klætt grjótmulningi sem að öllum líkindum er frá upphafi og í gluggum eru einfaldir póstar þverpóstum en langbandi með opnanlegu fagi vinstra megin. Bárujárn er á þaki. Inngangur og steypt verönd er á götuhlið á litlu útskoti; inngöngu og stigaálmu og ofan inngöngupalls eru nýlegar svalir, byggðar um 2013. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hafa að öllu líkindum verið alla tíð. Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi. Það stendur nokkuð ofan við Oddagötu 11. Oddagata 13 og 15 mynda nokkuð skemmtilega tvennd í götumyndinni. Húsin eru jafngömul og þó gjörólík séu má greinilegt þykja á formi þeirra og lögun að þau eru nokkuð yngri en húsin neðar við götuna. Þó eru þessi tvö hús raunar gjörólík. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2015.
Oddagata 15
Húsið á Oddagötu 15 reisti Stefán Guðnason árið 1946 eftir teikningum Ágústs Pálssonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir en bárujárn er á þaki og í gluggum eru krosspóstar. Stór stofugluggi er á vesturhlið og svalir á efri hæð. Á austurhlið er bílskúr með flötu þaki, sambyggður kjallara með svölum ofan á. Hann er að öllu líkindum byggður samtímis húsinu, alltént er hann að finna á upprunalegum teikningum. Inngöngudyr eru m.a. í kjallara á austurhlið og á norðurstafni á hæð og eru steyptar tröppur að þeim og á suðurhlið er útgangur á svalir ofan á bílskúrnum. Það sem ég myndi segja að gæfi húsinu sérstakan svip er kringlóttur gluggi stigagangs á austurhlið.
Oddagata 15 hefur alla tíð verið íbúðarhús, en á teikningum er gert ráð fyrir skrifstofu á neðri hæð inn af anddyri. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist raunar sem nýtt og allur frágangur hússins og lóðar afar snyrtilegur- og þar gerir hvíti liturinn ákveðinn gæfumun. Þessi myndir eru teknar á góðviðrisdegi haustið 2015, nánar tiltekið þann 28.október.
Heimildir:
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 120
- Sl. sólarhring: 244
- Sl. viku: 479
- Frá upphafi: 446070
Annað
- Innlit í dag: 94
- Innlit sl. viku: 331
- Gestir í dag: 94
- IP-tölur í dag: 92
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar