31.12.2014 | 13:40
Húsaannáll 2014
Þessi tómstundaiðja mín að ljósmynda valin hús á Akureyri og birta um þau litlar greinar hér á vefnum hefur nú staðið í fimm og hálft ár. Ég nenni ekki að rekja söguna á bakvið það í tíunda skiptið eða gefa nokkur fyrirheit hvenær eða hvort ég læt staðar numið. Síðastliðið ár hef ég að mestu tekið fyrir hús sem mér fannst ég eiga eftir- á grundvelli þess að fyrst ég hafði tekið ákveðin hús í vissum götum þá hlyti ég að taka þau hin líka. Þau hús sem hljóta þann heiður að vera Hús dagsins eru ævinlega eldri hús eða standa í eldri hverfum Akureyrar (eða annarra bæjarfélaga þar sem ég á leið um með myndavélina).
Aðeins voru liðnar tæpar 16 klukkustundir af árinu 2014 þegar fyrsta húsagreinin mín birtist um húsið Sunnuhvoll í Glerárþorpi.
7. janúar var það Lundargata 6
13.janúar Lundargata 13
Laugardaginn 18.janúar lagði ég upp í göngutúr um Miðbæinn til að ljósmynda hús í Miðbænum sem mér fannst eiga skilda umfjöllun og birtust greinar um þau hús fram eftir vetrinum. En fyrst lauk ég við að skrifa um hús sem ég hafði myndað á Eyrinni 2.des 2013.
22. janúar Norðurgata 19
27.janúar Norðurgata 12
28.janúar Norðurgata 10
5.febrúar Norðurgata 8
7.febrúar Norðurgata 2b Ég hafði séð það að ég yrði að birta mynd og skrifa um Söluturninn við Norðurgötu 8 fyrst ég hafði fjallað um 10,12 og 19. Stökk því til þann 30.janúar og myndaði það hús og nr. 2b. Þar með hafði ég lokað hringnum um elsta hluta Norðurgötu en fyrsta húsið sem ég tók nokkurn tíma fyrir hér á vefnum var einmitt Norðurgata 17.
Fyrsta húsið úr Miðbæjarröltinu mínu þ. 18.jan birtist þann 12.febrúar.
12.febrúar Hólabraut 13
16.febrúar Hafnarstræti 108
25.febrúar Hafnarstræti 104
1.mars Hafnarstræti 102
8.mars Kaupangsstræti 19-23
17.mars Kaupangsstræti 10-12
27.mars Kaupangsstræti 14 og 16
Næst kom meira en þriggja vikna hlé. En laugardag fyrir páska, 19. apríl, mundi ég eftir því að hafa fjallað um neðri hluta Eyrarlandsvegs en ætti efri hlutan eftir að mestu. Svo ég skellti mér upp á brekku í vorsólinni og stífri norðanátt.
20.apríl Eyrarlandsvegur 27
22.apríl Eyrarlandsvegur 29
25.apríl Eyrarlandsvegur 31
29.apríl Eyrarlandsvegur 33
Á heimleið úr Eyrarlandsveginum myndaði ég svo nokkur hús í Miðbænum- sem sum bíða raunar enn umfjöllunar ;)
5.maí Hafnarstræti 100
14.maí Geislagata 7; Sjallinn
26.maí Aðalstræti 42 (Þarna var um að ræða fjögurra ára gamla mynd sem ég fann í grúski um myndasafnið, því lengi er von á einum )
Um hvítasunnuhelgina brá ég mér í Reykjanesbæ og komst þar í Sögugöngu um gamla Varnarliðssvæðið. Þar var ég að sjálfsögðu með myndavélina á lofti og lagði vel á minnið hvað leiðsögumaðurinn sagði.
16.júní Nokkur hús á Ásbrú
Um ellefuleytið að morgni hins 19.júní brá ég mér suður í Innbæinn að mynda nokkur hús við Aðalstræti. Eftir að hafa snætt hádegisverð sem samanstóð af soðinni ýsu, kartöflum ,rófum og hamsatólg hófst ég handa við skrif um Aðalstræti 2.
19.júní Aðalstræti 2.
23.júní Aðalstræti 17
25.júní voru 5 ár liðin síðan þetta brölt hófst hjá mér og auðvitað fylgdi langur afmælispistill
29.júní Aðalstræti 19
2.júlí Aðalstræti 20
7.júlí Aðalstræti 21
17.júlí Aðalstræti 22
29.júlí Aðalstræti 28
18.ágúst Hafnarstræti 15
Oftar en ekki líður langur tími milli færsla á sumrin. Það stafar einfaldlega af því að þegar veður er gott og nætur bjartar er ég afspyrnu latur við setu við tölvu og skriftir innandyra. En góðviðrisdag einn í september, nánar til tekið þann áttunda brá ég mér í stuttan túr um Eyrina og myndaði nokkur hús þar;
11.september Fróðasund 9
15.september Fróðasund 4
19.september Gránufélagsgata 19
Sunnudagsmorguninn 14.september brá ég mér inn í Innbæ að mynda hús við Lækjargötuna og ætlunin var að öll húsin við götuna fengju umfjöllun hér.
30.september Lækjargata 11
7.október Lækjargata 11a
16.október Lækjargata 14. Þar hafði ég afgreitt alla Lækjargötuna.
21. október Aðalstræti 54b
Í handraðunum leynist oft ýmislegt og í myndasafninu átti ég mynd úr Eiðsvallagötunni frá ársbyrjun 2013.
1.nóvember Eiðsvallagata 30
Ég ákvað að ráðast í það mynda öll húsin við þá götu og vatt mér í það þann 31.okt. Og að sjálfsögðu að skrifa um alla götuna eins og hún leggur sig. Þar er í raun um að ræða einhverskonar frumrannsókn af minni hálfu en þær heimildir sem til eru um húsin við götuna liggja helst í fundargerðum Byggingarnefndar, sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafninu. Einnig má nálgast teikningar á Landupplýsingakerfi Akureyrar en þar kemur yfirleitt fram fyrir hvern er teiknað. En það er eiginlega nauðsynlegt að vita hverjir byggðu húsin áður en flett er upp í bókunum Byggingarnefndar, því þar er allt flokkað eftir nöfnum þeirra sem sækja um byggingarleyfin. Þá kemur vefurinn timarit.is að góðum notum þegar athugað skal hvort og hvaða starfsemi var í húsunum, því hafi auglýsingar birst frá viðkomandi starfsemi og heimilisfang hennar tilgreint kemur það fram í leitinni. Svona rannsóknarvinna getur verið gríðarlega umfangsmikil og eflaust væri hægt að skrifa margra blaðsíðna ritgerð um hvert hús. En ég reyni yfirleitt að hafa þetta stutt og hnitmiðað og miða við að koma fram eftirfarandi upplýsingum um húsin:
Byggingarár- hver byggði- hver teiknaði- hvaða starfsemi var þar gegn um tíðina (ekki endilega tæmandi upptalning)- MYND. Og síðustu vikur hef ég birt pistla um Eiðsvallagötuhúsin í númeraröð:
6.nóvember Eiðsvallagata 1
13.nóvember Eiðsvallagata 3
16.nóvember Eiðsvallagata 4
19.nóvember Eiðsvallagata 5
26.nóvember Eiðsvallagata 6; Bóla
29.nóvember Eiðsvallagata 8
7.desember Eiðsvallagata 9
10.desember Eiðsvallagata 11
13.desember Eiðsvallagata 13
16.desember Eiðsvallagata 14; Gamli Lundur
19.desember Eiðsvallagata 18; Lárusarhús
20.desember Eiðsvallagata 20
Og þá er það upp talið...
Á árinu 2014 tók ég þannig fyrir um 50 hús í 46 pistlum. Flest eru húsin í Innbænum og á Oddeyrinni. Meðalaldur húsanna gæti ég trúað að væri nálægt 80 árum.
Ég mun halda áfram umfjöllun minni um Eiðsvallagötuna á nýju ári, en þau hús sem út af standa eru 22, 24, 26, 28 og 32. Fyrsta "Hús dagsins" á árinu 2015 verður því Eiðsvallagata 22. Eftir það er líklegast að ég taki Brekkugötuna fyrir á sama hátt, en ég hef fátt ákveðið í þeim efnum. Einnig hef ég í hyggju að vinna eitthvað í skipulagningu og utanumhaldi á þessum pistlum en þeir eru orðnir um 300 og finnst mér þetta vera svolítið í belg og biðu hér á þessari síðu. (Ég bý kannski til færslur með tenglum á öll húsin við ákveðnar götu, þ.a. hægt að sé að flett upp auðveldlega). Annars er, líkt og fyrri daginn, fátt skipulagt eða ákveðið varðandi þennan húsavef minn og verður væntanlega svo áfram.
Takk fyrir öll innlitin á árinu 2014.
Arnór B. Hallmundsson.
Bloggar | Breytt 6.9.2022 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2014 | 10:46
Jólakveðja
Óska öllum lesendum þessa vefs og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Þakka innlit og viðtökur á liðnum árum.
Arnór Bliki Hallmundsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2014 | 13:35
Hús dagsins: Eiðsvallagata 20
Þann 2.júlí 1929 fékk Byggingafélag Akureyrar leyfi til að byggja íbúðarhús fyrir Þórð Valdemarsson og Jakob Einarsson og var þar um að ræða Eiðsvallagötu 20. Húsið reis 1930 og er eitt nokkurra húsa við Eiðsvallagötuna þar sem skráðir voru íbúar í Manntali það ár. Eiðsvallagata 20 er steinsteypt, tvílyft með valmaþaki og með krosspóstum í gluggum. Húsið, eins og svo mörg önnur á Eyrinni teiknaði Halldór Halldórsson. Eiðsvallagata 20 er eitt af elstu húsunum við Eiðsvallagötuna og er eitt fárra húsa við götuna þar sem skráðir eru íbúar í Manntali 1930. Þá bjuggu í húsinu alls 16 manns, fjölskyldur áðurnefndra Þórðar og Jakobs en þar bjuggu einnig Stefán Guðjónsson og fjölskylda hans en hann reisti ári síðar hús nokkru neðar við götuna, eða Eiðsvallagötu 30. Þannig hefur verið þríbýli í húsinu a.m.k. fyrsta árið eða svo en annars hafa ævinlega verið í húsinu tvær íbúðir. Ekki veit ég hvort einhver starfsemi var í húsinu, verslun, verkstæði eða skrifstofur en það er alls ekki útilokað. Ein góð leið til að athuga slíkt er einfaldlega að slá heimilisfanginu inn á vefinn timarit.is, því hafi einhvern tíma verið auglýst einhverskonar þjónusta í dagblaði og heimilisfangið með birtist það þar. Húsið er einfalt og látlaust og er lítið breytt frá upprunalegri gerð að utanverðu. Það sem helst er einkennandi fyrir húsið útlitslega er steinhleðslumunstur á hornum og við dyr. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin 31.október 2014 og eru allar myndir sem birtast af Eiðsvallagötuhúsum í næstu umfjöllunum teknar þann dag.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30
Manntal á Akureyri 1930. Bæði þessi rit eru óútgefin, en eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 29.12.2014 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2014 | 10:00
Hús dagsins: Eiðsvallagata 18; Lárusarhús.
Eiðsvallagötu 18 reisti Lárus Björnsson trésmiður árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Húsið stendur , merkilegt nokk, beint á móti húsi nr.1 á horni Eiðsvallagötu og Norðurgötu. Eiðsvallagata 18 er tvílyft steinsteypuhús af þeirri gerð sem ekki er óalgeng við Eiðsvallagötuna og raunar víðar á eyrinni og með háu valmaþaki. Á þaki eru tveir kvistir, norðan og sunnan megin en einnig er á vesturhlið agnarlítill þríhyrndur kvistur, sem er eiginlega nær því að vera þakgluggi en kvistur. Svalir eru til vesturs á efri hæð og tröppur og inngangur á efri hæðina á suðurhlið. Gluggar eru breiðir með tvískiptum lóðréttum póstum en á neðri hæð eru síðir verslunargluggar. Upprunalega var húsið með lágu valmaþaki en rishæðin var líkast til byggð 1955, en þær breytingar hannaði Páll Friðfinnsson og eru þær teikningar dagsettar 25.júní 1954. Hefur þá húsið fengið það lag sem það nú hefur. Á sama tíma var einnig byggður bílskúr sem enn stendur á austurmörkum lóðar. Fyrstu árin var amboðasmiðjan Iðja starfrækt á neðri hæð hússins en þar var Lárus einn eigenda. Þarna var og rekin verslunin Eyrarbúðin, sennilega í um tvo áratugi. Ekki veit ég hvenær nákvæmlega Eyrarbúðinni var komið á laggirnar en fyrsta auglýsingin sem ég finn frá henni á timarit.is er frá 1957. Þarna var um að ræða verslun sem seldi m.a. ýmsar matvörur og sælgæti; nýlenduvöruverslun. Verslunin var ekki sú eina við Eiðsvallagötuna en aðeins þremur húsalengdum var verslunin Bóla. Einhverjum kann að þykja nokkuð ótrúlegt að við sömu götuna,aðeins með þriggja húsalengda millibil gátu tvær hverfisverslanir þrifist og það ágætlega. Þá ber að horfa til þess að á þessum var árum voru verslunarhættir töluvert frábrugðnir því sem nú tíðkast. Eyrarbúðin var hér fram yfir 1970 en árið 1976 gaf Lárus Björnsson Alþýðubandalaginu húsið og þarna var aðsetur þess flokks allar götur frá þeim tíma. Líkt og alþjóð veit leið Alþýðubandalagið undir lok um 1999 en það ár var Samfylkingin stofnuð og hefur Lárusarhús verið aðsetur þess stjórnmálaafls síðan. Efri hæð hússins og ris hefur alla tíð verið íbúð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2014 | 11:57
Hús dagsins: Eiðsvallagata 14; Gamli Lundur.
Elsta hús eða húsin sem enn standa á Oddeyri eru Gránufélagshúsin við Strandgötu 49 en elstu hlutar þess húss eru frá 1873. Það var þó ekki fyrsta húsið sem reis á Eyrinni því árið 1858 risu þar tvö hús, sitt hvoru megin við þar sem nú er Eiðsvöllur. Þar var annars vegar um að ræða torfbæ, sem stóð þar sem nú er Norðurgata 31 og hins vegar var það Lundur, eða Gamli Lundur sem stóð þar sem nú er lóðin Eiðsvallagata 14. Sá Gamli Lundur sem nú stendur er að vísu ekki nema ríflega þrítugur en svo til nákvæm eftirmynd fyrirrennarans en nánar um það síðar.
Eiðsvallagata 14 eða Gamli Lundur er einlyft timburhús á lágum grunni og með háu, bröttu risi af gerð sem algeng var á 19. öld. Smáir sexrúðupóstar eru í gluggum og á suðurhlið er inngönguskúr en aðaldyr hússins á vesturgafli. Allt er húsið veggir jafnt sem þak klætt timbri, svokallaðri listasúð, og að gömlum hætti er húsið allt svartmálað; væntanlega vísun til þess þegar flestöll hús voru tjörguð. Ég hef séð dæmi þess að fólk, sem ekki gjörþekkir húsin á Akureyri, taki feil á Gamla Lundi og Laxdalshúsi í Innbænum en þessi hús eru vissulega ekki ólík fljótt á litið. Húsið er skástætt miðað við götu, þ.e. grunnflötur hússins myndar ekki horn við götu enda er hann mun eldri en gatan sjálf. Þess má einnig geta að hús númer 13 stendur líkast til nærri 200 metrum neðar við götuna en oddatölur Eiðsvallagötunnar liggja nokkru neðar en þær sléttu (nr. 1 er á móti nr. 18).
Lund (sem þá var auðvitað ekki orðinn Gamli) reisti Lárus Hallgrímsson 1857-58. Hann veiktist hins vegar áður en hann náði að ljúka byggingu hússins og í september 1858 er það selt á uppboði Jóni Laxdal. Kaupverðið var 240 ríkisdalir. Hann bjó ekki lengi í húsinu en fyrsta áratuginn voru eigenda- og íbúaskipti nokkuð tíð og oftast nær bjuggu þarna 3-4 fjölskyldur samtímis. Gránufélagið eignaðist húsið 1872 og ári síðar risu áðurnefnd hús þess félags við Oddeyrartanga. Undir stjórn Einars Ásmundssonar í Nesi, framkvæmdastjóra Gránufélagsins var Lundur innréttaður sem sölubúð haustið 1873 og árin um 1880 var starfrækt þarna niðursuðuverksmiðja. Þar var á ferðinni Þorsteinn Einarsson frá Brú á Jökuldal en hann var framkvæmdastjóri þeirrar verksmiðju. Hann var stóð á þeim tíma í byggingu mikils stórhýsis úr steini um 20 metrum suðaustan við Lund en árin 1881-83 mun hann hafa búið í Lundi, e.t.v. flutt inn í steinhúsið 1883. Skráð byggingarár þess húss er 1880 en vel má vera að það hafi tekið nokkur ár að innrétta húsið sem íbúð, en til er ljósmynd frá 1882 sem sýnir húsið fullbyggt að utanverðu. Steinhúsið, sem Þorsteinn reisti í félagi við Björn Jónsson þekkja margir sem Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan og stendur það við Norðurgötu 17. Í niðursuðuverksmiðjunni í Lundi voru aðallega soðnar niður kjötvörur ýmis konar, rjúpur, svið og tungur voru þar í mestu magni en heldur þykir mér ólíklegt að þarna hafi verið framleiddir niðursoðnir ávextir í dós. Eins og gefur að skilja var starfstími verksmiðjunnar haustin eða sláturtíðin. Síðustu áratugina fyrir aldamót bjó þarna Jósef Jónsson ökumaður frá Borgarhóli, líkast til þar til hann reisti Lundargötu 15 árið 1898. Sonur hans var Jóhannes, kenndur við Hótel Borg, glímukappi og athafnamaður og mun hann fæddur í Lundi 5.október 1883.
Á 20.öld þjónaði húsið ýmsum hlutverkum, þar var búið og þar voru einnig verkstæði og geymslur en ástandi hússins fór hrakandi eftir því sem leið á öldina. Upprunalega hét húsið Lundur en hvenær Gamla- viðurnefnið kom á þekki ég ekki. Ég set fram þá tilgátu án nokkurrar ábyrgðar að húsið hafi fengið þessa nafnbót eftir 1924, til aðgreiningar þegar stórbýlið Lundur var reist á Brekkunni. Húsið var í hópi þeirra fyrstu sem voru friðuð skv. Þjóðminjalögum á Akureyri en það var árið 1982 en Akureyrarbær keypti húsið í kjölfarið og seldi aftur með kvöðum um endurgerð. Þá var húsið orðið verulega hrörlegt og auk þess talsvert breytt frá fyrstu gerð. Nýr eigandi, Jón Gíslason smiður reif hinn upprunalega Gamla Lund og byggði það hús sem nú stendur 1984-85 eftir nákvæmum uppmælingum á gamla húsinu. Því er það svo, að Gamli Lundur sem nú stendur er í raun yngsta húsið við Eiðsvallagötuna, að undanskildum raðhúsum, byggðum eftir 2000 sem standa neðst við götuna. Í einhverri sögugöngu um Eyrina heyrði ég það að Gamli Lundur hafi verið orðin svo illa farinn og ónýtur á allan hátt, burðarvirki jafnt sem annað, að endurgerð hefði verið óraunhæf án þess að endurnýja svo til hverja einustu spýtu. Sem var vissulega gert. Húsið er að mestu einn salur og húsið gegn um árin verið notað til samkomuhalds, listsýninga og veisla hvers konar en fyrir fáeinum festu Sjöunda dags Aðventistar kaup á húsinu og er húsið nú þeirra samkomustaður. Gamli Lundur er glæsilegt hús að sjá og til prýði í umhverfinu, sem ekki er af verri endanum því húsið stendur andspænis Eiðsvelli, þeim sælureit Oddeyringa. Þessi mynd er tekin 5.júní 2006 og rétt að taka fram, þar sem um ræðir rúmlega átta ára gamla mynd að húsið er óbreytt frá því sem er á þessari mynd þegar þetta er ritað í desember 2014.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.
Jóhannes Jósefsson, Stefán Jónsson skráði. (1964). Jóhannes á Borg, minningar glímukappans. Reykjavík: Ævisöguútgáfan.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2014 | 21:50
Hús dagsins: Eiðsvallagata 13
Húsið reistu Stefán Snæbjörnsson kaupmaður og faðir hans Snærbjörn Magnússon, árið 1943.Járnateikningar að húsinu eru undirritaðar af H. Halldórssyni og þori ég nánast að fullyrða að þar sé um að ræða Halldór Halldórsson byggingarfulltrúa en hann teiknaði mörg hús hér í bæ á þessu árabili. Hér er um að ræða tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með valmaþaki. Gluggar eru h.u.b. ferningslaga með einföldum lóðréttum póstum (það er e.t.v. álitamál hvort hægt sé að tala um gluggapósta í slíkum tilvikum en ég ætla að gera það hér). Húsið er byggt sem tvíbýlishús og hefur verið það nær alla tíð en upprunalega var ætlunin að hafa þrjár íbúðir; tvær íbúðir á efri hæð . Um 1986 var byggður sólskáli úr gleri á vesturhlið hússins en á myndinni er horft á húsið frá suðri, þ.e. af Eiðsvallagötu. Að öðru leiti er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð enda er það svo með mörg hús frá þessum tíma að þau voru rúmgóð og vel skipulögð frá upphafi. Því hefur ekki endilega verið sama þörf á viðbyggingum líkt og gekk og gerðist með eldri hús. Húsið lítur vel út, á því er nýleg klæðning og nýir póstar. Tvær íbúðir eru í húsinu. Á lóðinni stendur einnig bílskúr sem reistur var um 1968. Myndin er tekin 31.okt. 2014.
Bloggar | Breytt 16.1.2015 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2014 | 08:35
Hús dagsins: Eiðsvallagata 11
Í ársbyrjun 1931 fær Jóhann Kristjánsson leigða hornlóð vestan Hríseyjargötu og norðan Eiðsvallagötu Það er lýsing sem átt getur við þessa lóð en Eiðsvallagata 11 stendur á norðvesturhorni þeirrar götu og Hríseyjargötu. Hins vegar þykir mér ljóst að þar sé um að ræða lóð númer 9, en 5.maí 1942 er þessi lóð leigð til þess sem reisti þetta hús, Eiðsvallagötu 11. En þar ekki minnst einu orði á áðurnefndan Jóhann Kristjánsson eða nokkurn þáverandi lóðarhafa yfirleitt. En húsið Eiðsvallagötu 11 reisti Vilhjálmur Þorsteinsson árið 1942 eftir teikningum Jóns B. Benjamínssonar. Húsið er byggt á pöllum og í upphafi var þetta hús ekki ólíkt Eiðsvallagötu 5 en því húsi var hins vegar breytt verulega síðar. Í byggingarleyfi segir að Vilhjálmi sé leyft að reisa steinhús, "ein hæð með skúrþaki en kjallari undir hálfu húsinu". En húsið er sem áður segir byggt á pöllum og skiptist í tvær álmur, sú vestari er ein hæð en austari er kjallari og hæð. Gluggapóstar eru lóðréttir og horngluggar á göflum, beggja vegna á vesturhlið en aðeins norðanmegin á þeirri eystri. Húsið er múrhúðað að utan með kvarsmulningi, sem í daglegu tali er kölluð skeljasandur. Upprunalega var húsið með flötu þaki en árið 1955 var þaki breytt og nú er valmaþak á húsinu. Hönnuður þeirra breytinga var Guðmundur Gunnarsson. Að öðru leiti er húsið nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði, gluggapóstar eru t.d. eins og skeljasandsmulningurinn er að öllum líkindum upprunalegur. Í húsinu er ein íbúð. Myndina tók ég síðasta dag októbermánaðar árið 2014, en þá myndaði ég öll þau hús í Eiðsvallagötuna er mig vantaði í safnið.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35 og 1941-48 Óútgefin rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2014 | 13:17
Hús dagsins: Eiðsvallagata 9
Eiðsvallagötu 9 munu þau Zophonías M. Jónasson og Guðbjörg Jónsdóttir hafa reist árið 1930. Að öðru leyti virðist upprunasaga hússins óljós í skráðum heimildum, það er t.d. ekki að finna upprunalegar
teikningar að húsinu á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar en þar er gefið upp að byggingarár hússins sé 1930. Í Manntali á Akureyri 1930 er ekki skráður neinn til heimilis að Eiðsvallagötu 9, þ.a. Þá hefur alltént enginn verið fluttur þarna inn. Ekki gat síðuhafi fundið upplýsingar í fundargerðum Bygginganefndar um húsið en upplýsingarnar um byggjendur eru fengnar frá barnabarni Zophoníasar og Guðbjargar, Önnu Þórhallsdóttur. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir veittar upplýsingar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, af nokkuð algengri gerð steinhúsa frá þessum tíma á þessu svæði, svipar til t.d. Eiðsvallagötu 4 og Norðurgötu 33. Krosspóstar eru í gluggum en á framhlið það sem ég myndi kalla þrískipta krosspósta. Forstofuskúr er á austurgafli og er þar gengið inn á efri hæð en einlyft viðbygging bakatil með flötu þaki. Húsið er líkast til tvíbýli frá upphafi með íbúðum hvor á sinni hæð. Viðbyggingin á bakhlið er nýleg, til komin um 2000. Í hillum Héraðsskjalasafnsins liggja margir árgangar af Íbúaskrám Akureyrar og fletti ég húsinu upp í þeirri elstu slíku sem ég fann en hún var síðan 1954. Þá var húsið tvíbýli og þá bjuggu í húsinu Jóhann Jónsson og Ágústa Hinriksdóttir í 9a og Zophonías Jónasson og Guðbjörg Jónsdóttir í 9b. Ef frá er talin viðbyggingin bakatil er húsið ekki verulega breytt frá upphaflegri gerð. Tvær íbúðir eru í húsinu. Þessi mynd er tekin 31.október 2014.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Manntal á Akureyri 1930. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Íbúaskrá Akureyrar 1954. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Auk athugasemda og tölvupóstsskrifa frá Önnu Þórhallsdóttur, apríl 2022.
Bloggar | Breytt 11.4.2022 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 230
- Frá upphafi: 445782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 157
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar