26.2.2013 | 20:26
Hús dagsins: Glerárgata 1.
Um áratugaskeið, var núverandi hluti Þjóðvegar 1 í gegn um Akureyri, Glerárgatan aðeins ein af þvergötum Strandgötu líkt og Lundargata, Norðurgata og Grundargata. lengi vel lá þjóðleiðin um Hafnarstræti og Aðalstræti og upp Brekkugötu, ofan SíS verksmiðjanna og yfir elstu brúna á Glerá, skammt neðan stíflunnar. Við síðasta áfangan á breikkun Glerárgötunnar uppúr 1980 viku mörg eldri hús við Glerárgötuna og nú standa aðeins örfá eftir neðan Grænugötu. Glerárgata 1 er eitt þeirra sem eftir standa en hús nr. 3, sem var tvílyft hús með lágu risi vék ekki fyrir breikkun götunnar, en var hinsvegar rifið 2004. Glerárgata 1 er byggð um 1900, einlyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu portbyggðu risi og miðjukvisti af nokkuð dæmigerðri gerð timburhúsa frá þessum tíma. Á bakhlið er stigabygging og inngönguskúr á suðurgafli. Á bakhlið er einnig minni kvistur með hallandi þaki. Húsið er einbýlishús og hefur líkast til verið síðastliðna áratugi en ekki er ósennilegt að á fyrri hluta 20.aldar hafi nokkrar fjölskyldur búið í húsinu í einu. Það var t.d. ekki óalgeng skipting í húsum af þessari gerð að tvær fjölskyldur byggju í hvor í sínum enda rishæðar og aðrar tvær í sitt hvorum enda hæðar. Kvistir voru oft gerðir á ris og rishæðum stundum lyft til að rýmka en í tilfelli þessa húss er það ekki raunin. Ég er reyndar ekki klár á því hvort kvistur er upprunalegur eður ei. En Glerárgata 1 er stórglæsilegt bárujárnsklætt timburhús og sómir sér ágætlega á einum fjölförnustu gatnamótum Akureyrarkaupstaðar. Frá áramótum mun húsið vera friðað en þá tóku í gildi ný lög þar sem öll hús eldri en 100ára eru friðað. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2013 | 17:38
Hús dagsins: Fróðasund 3
Ef talað er um "stór nöfn" í húsbyggingasögu Akureyrar á fyrri hluta 20.aldar er Tryggvi Jónatansson einn þeirra. Hann var um langt árabil byggingafulltrúi hér í bæ og teiknaði mörg hús í fúnkísstíl þegar hann var allsráðandi um 1935-50. Ægisgatan er t.d. að mestu leyti teiknuð af Tryggva. En þetta hús, Fróðasund 3, sem stendur aðeins fáeina metra frá Þjóðvegi 1 í gegn um Akureyri, Glerárgötu, er meðal fyrstu verka hans. En húsið var reist árið 1925 af Jónasi Hallgrímssyni. Ekki var það nú listaskáldið góða úr Öxnadal , (enda var þetta tæpri öld eftir hans dag) en þessi sami mun hafa reist Gránufélagsgötu 29 nokkrum árum fyrr. Fróðasund 3 var upprunalega einfalt og látlaust hús, einlyft steinsteypuhús með háu risi og mjög lágum grunni. Árið 1966 var húsinu breytt töluvert, byggt við það einlyft inngöngubygging á bakhlið auk bílskúrs og flatir kvistir á fram og bakhlið, einfaldur á bakhlið en sá á framhliðinni nær eftir allri þekjunni og munar raunar ekki nema nokkrum centimetrum að telja megi að risi hafi verið lyft. Kvisturinn mikli er mjög ráðandi í svipgerð hússins og dökkur litur undirstrikar það mjög. Í Oddeyri; Húsakönnun eru kvistir og viðbygging sögð bera húsið ofurliði. Líklegt þykir mér að ris hafi ekki verið innréttað sem íbúðarrými áður en kvistir voru byggðir og þáverandi íbúar hafi viljað stækka húsið um helming. Nú er húsið einbýli og hefur verið lengi. Húsið lítur vel, kvisturinn mikli gefur því mjög sérstakan svip. Það sómir sér ágætlega á þeim "opinbera" stað sem það stendur á, við fjölförnustu götu bæjarins og Þjóðveg 1, allir sem keyra beinustu leið gegn um Akureyri til eða frá Miðbæ eða gegn um bæinn sjá þetta hús. Umhverfi þess er líka í góðri hirðu, lóð er stór (á mælikvarða elsta hluta Oddeyrar) og vel gróin reynitrjám og ýmsum gróðri. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2013 | 17:42
Kal á túnum og grasflötum
Ég segi hérna einhversstaðar að ég muni skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars. Nú ætla ég að sýna smá viðleitni í að standa fyrir máli mínu því hér hef ég nánast eingöngu birt Húsapistla í allavega hálft ár. Ef undan er skildar nýjárs - og jólakveðjur. Hér ætla ég því að ræða aðeins um kalskemmdir. En nú þegar farið er að líða á veturinn eru margir spenntir eða kannski öllu heldur uggandi um það hvernig tún og grasflatir munu koma undan vetri. Þessi vetur a.m.k. hér norðanlands hefur nefnilega verið einstaklega slæmur hvað varðar hættu á kalskemmdum. Snjór hefur verið yfir meira og minna samfleytt frá því í nóvemberbyrjun og jafnvel fyrr og um jólaleytið kyngdi niður snjó. Síðan hefur hitastigið mikið til rokkað um og yfir núllið- sem aftur veldur því að snjórinn bráðnar og frýs á víxl og það sem áður var tuga centimetra jafnfallinn snjór er nú oftar en ekki orðinn "massívur" svellbunki. Til eru margar gerðir kalskemmda en svellkal er einmitt sú gerð sem oftast hrjáir grasflatir. Í stuttu einföldu máli verður svellkal til þannig að grösin anda undir svellinu og gefa frá úrgangsefni á borð við koldíoxíð, etanól og mjólkursýru. Enda þótt grösin nái að anda geta ekki komist í burtu gegn um svellið og grösin beinlínis kafna í eigin úrgangsefnum. Þegar snjóa leysir á vorin eða í löngum þíðuköflum kemur þessi súrbeiska lykt af sverðinu, sumir kalla hana vorlykt eða sveitalykt en einnig kallast hún lokalykt. Sú lykt verður til við efnabreytingar þegar úrgangsefnin og sem grösin anda frá sér komast í tæri við súrefni og það myndast allskonar "viðbjóður". Það er ekki svo að grös þoli ekki að liggja undir svelli, en þegar þetta er orðið langur tími eða meira en þrír mánuðir þá er veruleg hætta á kalskemmdum. Þegar þetta er ritað hafa sumar grasflatir og tún legið undir snjó og svelli frá því í október eða fjóra mánuði og mikla og langvarandi hláku og ausandi rigningu með þarf til að losa mestu svellin! Mér dettur þetta í hug því á laugardaginn átti ég leið framhjá íþróttavelli hér í bæ þar sem veghefill var á ferðinni fram og aftur; líklega til að láta lofta um grasflötina. Og þar gaus upp einhver sú megnasta lokalykt sem ég hef nokkurn tíma fundið- þetta minnti á kæsingarlykt. Þannig að það hafði greinilega nóg af efnum safnast fyrir undir svellinu, en vonandi að þetta sleppi til. Kalskemmdir eru nefnilega ekkert grín og íþróttavellir, tjaldflatir og golfvellir eru töluvert viðkvæmari fyrir þeim heldur en beitartún.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2013 | 17:05
Hús dagsins: Gránufélagsgata 20
Eitt elsta hús sem enn stendur við Gránufélagsgötu verður 105 ára á þessu ári. Það stendur á horni hennar og Hríseyjargötu, skáhallt á móti síðasta Húsi dagsins, Gránufélagsgötu 29. En það er þetta hús, Gránufélagsgata 20. Húsið, eða öllu heldur eystri hluta þess reistu systurnar Anna og Kristbjörg Kristbjarnardætur árið 1908. Ekki þekki ég til nánar til sögu þeirra en þær hafa eflaust verið miklar kjarnakonur; það var allavega sjaldgæft á þessum árum að konur stæðu einar í húsbyggingum. Mér hefur sjálfum fundist lagið á þessu húsi minna svolítið á skó eða stígvél, en húsið er einlyft að hluta og tvílyft að hluta og stendur á háum hlöðnum kjallara. Eystri hlutinn, sá eldri er einlyftur úr timbri með háu risi og tveimur smákvistum en vestari endinn er tvílyftur með lágu risi, nánast ferningslaga að grunnfleti og mun sá hluti hússins steyptur. Vesturendinn, sem er hálfpartinn eins og kastalaturn er viðbygging frá 1927. Kjallari hússins er hár og djúpur og vel gæti ég trúað að hann hafi einhverntíma á þessari rúmu öld hýst einhvern iðnað eða verkstæði eða verslun. En á fyrri hluta 20.aldar voru skil milli iðnaðar- og íbúðarhúsnæðis ekki heilög, raunar var algengast var að iðnaðarmenn eða verslunarmenn sem vour einyrkjar stunduðu vinnu sína og byggju í sama húsinu. Síðustu áratugina hefur húsið allavega verið íbúðarhús, nú eru líklega þrjár íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð í austurenda og ein í vesturhlutanum. Þegar Húsakönnun Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur var unnin fyrir um tveimur áratugum voru fjórar íbúðir í húsinu. Húsið er í góðu standi og setur mjög skemmtilegan svip á umhverfi sitt, enda svolítið óhefðbundið í laginu. Þessi mynd er tekin 12.jan 2013.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Breytt 2.3.2013 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2013 | 15:54
Hús dagsins: Gránufélagsgata 29
Um Gránufélagsgötuna hef ég nokkrum sinnum fjallað hér á þessari síðu, en númeraröðun húsa er svolítið sérstök- svo ekki sé meira sagt. En næst neðan Norðurgötu stendur hús númer 27 en þar neðan við er síðan Sambyggingin, sem er númer 39-41 og þar neðan er Gránufélagsgata 43, sem er samskonar hús, nema bara einn hluti af tveimur eða þremur. Húsin standa í aldursröð, byggð 1926 (nr.27), 1929 og 1930. En neðan við 43 má segja að þráðurinn sé tekinn upp að nýju því þar stendur Gránufélagsgata 29- sem sést hér á myndinni.
En Gránufélagsgötu 29 reistu þeir Aðalsteinn Þórðarson og Jónas Hallgrímsson árið 1917. Það er einlyft timburhús með portbyggðu háu risi á háum og mjög svo verklegum steyptum kjallara, en veggir kjallara standa á að giska 30 cm út fyrir veggi. Krosspóstar eru í gluggum. Árið 1924 var húsið stækkað, byggð mjó einlyft bygging með skúrþaki við bakhlið og forstofuskúr á austurgafl. Líklega hefur steinblikkklæðningin sem nú er einnig komið þá en vel má vera að hún hafi verið frá upphafi, ekki viss hversu snemma Gunnar Guðlaugsson húsasmiður var farinn að flytja hana inn en það var í kringum 1920. Líklegt er talið að húsinu hafi við þessar breytingar einnig verið lyft eða hnikað til og þá steyptur undir nýr grunnur. Á svipuðum tíma voru einnig eldri hús við Norðurgötu 11 og 13 gerð upp og m.a. sett á hærri kjallara. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og lengst af einbýli en vel getur verið að því hafi á fyrri hluta tuttugustu aldar verið skipt í fleiri íbúðir og leiguherbergi. Húsið virðist í góðu standi og vel við haldið og er til prýði í götumynd Gránufélagsgötu- þar sem gætir mikillar fjölbreytni í húsagerð. Lóðin er einnig nokkuð stór miðað við nærliggjandi lóðir og er hún vel gróin. Þessi mynd er tekin laust fyrir hádegi sunnudaginn 12.janúar 2013.
Sem áður segir er húsið byggt 1917. Það er því nokkru eldra en húsaröðin fyrir ofan, sem er reist eftir Aðalskipulagi frá 1927. Hugsanlegt er að samkvæmt skipulaginu hafi átt að stokka upp númerakerfinu og hús nr. 39-43 reist eftir því kerfi. En síðan fór það nú svo að ekki var byggt meira eftir þessu skipulagi (utan Strandgata 37) og þ.a.l. númeraröðinni ekki breytt né heldur númer nýju húsanna leiðrétt. Það er alltént sú kenning sem ég hef oftast heyrt mögulega talin líklegust en annars hef ég ekki lesið það í neinni bók eða rekist á nokkurn sem veit með vissu hverju þessi númeraröð sætir! Ekki veit ég til að nokkurn tíma hafi staðið til að leiðrétta þetta. Ég hefði sagt að úr því sem komið er ætti alls ekki að hrófla við þessari númeraröðun vegna aldurs og hefðar; þetta ætti beinlínis að njóta friðunar. Veit að pizzasendlar og póstberar sem hafa senst í Gránufélagsgötuna eru e.t.v. ekki sammála mér þarna
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Að ógleymdum munnlegum heimildum úr ýmsum áttum í Sögugöngum um Oddeyrina, sem ég hef stundað frá sumrinu 1997.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2013 | 17:19
Hús dagsins: Setberg og Skarð (við Hamragerði)
Í síðustu færslu fjallaði ég um stórbýlið Lund sem stendur ofarlega á Suðurbrekkunni. En á Brekkunni, líkt og í Glerárþorpi voru þó nokkur býli fram yfir miðja 20.öld, þó miklu færri og stærri á Brekkunni en í Þorpinu og flest þeirra viku fyrir byggð. En um 500 metrum norðaustan við Lund standa tvö hús við götuna Hamragerði sem skera sig nokkuð úr, eru greinilega talsvert eldri en flest hús við götuna (sem byggðist að mestu sitt hvoru megin við 1970) og afstaða og lega öðru vísi og lóðir víðáttumeiri. En hér eru fyrrum bæjarhús.
Skarð stendur við Hamragerði 11. Þar var upprunalega byggt árið 1923 af Sigþóri Jóhannssyni en næsti ábúandi eftir honum var Tryggvi Emilsson rithöfundur frá 1931-1937. Upprunalega bæjarhúsið brann í mars 1937 og var bærinn í eyði nokkur ár þar til Jón G. Guðmann settist þarna að og reisti núverandi hús árið 1940. Skarð er nokkuð dæmigert fúnkíshús, einlyft á kjallara með flötu þaki og horngluggum. Ég er hreinlega ekki viss hvort húsið er timburhús eða steinhús en allavega eru veggir járnklæddir. Einhvern tíma hefur verið byggt við húsið til norðurs. Landareign Skarðs hefur líklegast afmarkast af Gleránni og náð yfir mest það svæði þar sem nú eru Dalsgerði, Háagerði og S-gerðin, og yfir Lækjardalinn svokallaða þar sem Kotárlækur rennur, og Dalsbraut var lögð 2003-04. Háskólinn á Akureyri á Sólborg stendur í landi Skarðs en Sólborg var upprunalega reist sem sambýli um 1970 á landi sem Akureyrarbær keypti úr landi Skarðs. Á Skarði var ætíð myndarlegur bústofn, bæði nautgripir, fé og hænsni en þar hefur greinilega verið mikil trjárækt. Því víðáttumikil lóðin sem eftir stendur af jörðinni er þétt vaxin skógi sem er í góðri hirðu eins og allt umhverfi hússins og húsið sjálft. Það hefði ekki verið viðlit að mynda þetta hús af götunni að sumarlagi því þá hverfur húsið nánast alveg inn í trjáþykknið.
Setberg stendur litlu norðar eða við Hamragerði 15 og það hús var reist árið 1934 af Sigurði Jóhannessyni sem hafði fengið úr landi Skarðs 2 dagsláttur undir smábýli. Setberg er einlyft steinsteypuhús með lágu risi, en hefur líkast til eitthvað verið stækkað gegn um tíðina og einnig byggður bílskúr á lóðinni. Þegar mest var komst bústofninn í Setbergi upp í 12 kýr og 40 kindur en kýrnar voru hýstar um tíma í kjallara hússins en annar bústofn í útihúsum sem löngu eru horfin. Sigurður Jóhannesson bjó hér til dánardægurs árið 1957 og þá hefur búskap væntanlega verið hætt því í Byggðum Eyjafjarðar (1990) telst Setberg fara í eyði þá. En húsið sem slíkt er aldeilis ekki í eyði, það er nú einbýli og er í góðu ásigkomulagi. Bakatil á lóð hússins stendur enn súrheysturn eða neðsti hluti hans eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin er frá Dalsbraut, en hún liggur bakvið og neðan Hamragerðis um Lækjardalinn.
Þessi tvö hús, Skarð og Setberg setja skemmtilegan svip á götumynd Hamragerðis, frábrugðin öðrum húsum við götuna og bera þess á margan hátt greinilega merki að vera fyrrverandi sveitabæir. Myndirnar með þessari færslu eru teknar 2.feb. 2013.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2013 | 15:46
Hús dagsins: Lundur
Lundarhverfi er efsta hverfi Suðurbrekkunnar og afmarkast af Þingvallastræti í norðri og Mýrarvegi í austri og eftir 2008 Miðhúsabraut að vestan og ofan en áður voru það Háubrekkur, neðstu hlíðar Súlumýrastallsins sem tóku eftir að efstu götum sleppti. Lundarhverfi reis að mestu á 8.áratug síðustu aldar og er að miklu leyti raðhúsa- og fjölbýlishúsabyggð. Hverfið heitir eftir húsinu á myndinni en það er býlið Lundur og stendur húsið við götuna Viðjulund en gatan er raunar aðkeyrslan og planið að Lundarhúsunum, sem annars standa húsin við Skógarlund. Lundur var reistur árið 1924 af Jakobi Karlssyni kaupmanni og bónda. Árið 1924 var þessi staður um 1500m frá þéttbýlismörkum Akureyrar en efstu hús bæjarins stóðu þá við Oddeyrargötu og Eyrarlandsveg og áratugum saman var Lundur úti í sveit. En Lundur er einlyft steinsteypuhús (gæti mögulega verið byggt úr r-steini) á kjallara með háu risi, gaflsneiddu og litlum bogadregnum kvisti á suðurhlið. Á vesturhlið er einlyft viðbygging úr steinsteypu, sennilega frá því eftir 1950. Sambyggt íbúðarhúsi voru mikil steinsteypt útihús, fjós var fyrir 20-30 gripi, hlaða og súrheysturnar sem nú eru horfnir. Í tíð Jakobs var þarna eitt stærsta kúabú við Eyjafjörð og var gripunum beitt á tún þar sem síðar varð Lundarhverfi. Síðar var þarna rekið tilraunastöð fyrir nautgriparæktun en öllum búrekstri var hér hætt um 1975, er Lundarhverfi var nánast fullbyggt. Útihúsin hafa í seinni tíð verið notuð undir iðnað og verslun, Hjálparsveit Skáta á Akureyri hafði þarna sína aðstöðu frá því um 1980 til 2000 og þarna var á tímabili hestaverslun en nú er þarna jógamiðstöð; svokallaður Orkulundur. Enn er búið í íbúðarhúsinu. Lundarhúsin eru glæsileg að sjá enda segir Tryggvi Emilsson í endurminningum sínum (1977:214) að búgarðurinn hafi verið [...] ein vandaðasta bygging sem þá hafði risið undir Súlutindum [...]. Þessi mynd er tekin 2.feb 2013.
Heimildir: Tryggvi Emilsson (1977). Baráttan um brauðið. Reykjavík: Mál og menning.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 300
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 188
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar