Hús dagsins: Glerárgata 16

Þann 5. apríl 1946 settist Skarphéðinn nokkur Guðnason niður við bréfaskriftir.P1190990 Skrifaði hann tvö bréf til Byggingarnefndar Akureyrarkaupstaðar. Annað bréfið sneri að löggildingu hans sem byggingarmeistara og hitt varðandi byggingarleyfi á lóð, sem honum hafði verið úthlutað við austanverða Hörgárbraut hálfum öðrum mánuði áður. Sótti hann um að reisa hús, 11,75x8,20m á grunnfleti, tvær hæðir á lágum grunni, útveggir og skilveggir úr steinsteypu en loft, gólf og þak úr timbri. Á fundi Byggingarnefndar þann 12. apríl hlaut Skarphéðinn löggildingu sem byggingarmeistari innan Akureyrarkaupstaðar og tveimur vikum síðar var honum veitt byggingarleyfið. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Glerárgata 16 er tvílyft steinsteypuhús með  lágu valmaþaki. Austanmegin á norðurhlið er útskot og svalir á efri hæð til vesturs og þá er einlyft viðbygging með einhalla þaki nyrst á bakhlið (austurhlið) Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Skarphéðinn Guðnason, sem byggði húsið, var frá Hafrafellstungu í Öxarfirði. Hann starfaði sem múrari og trésmiður og fékk sem áður segir, löggildingu sem byggingarmeistari um svipað leyti og hann fékk byggingarleyfi fyrir Glerárgötu 16. Hann vann m.a. hjá Stefáni Reykjalín og hefur eflaust komið að byggingu margra húsa hér í bæ. Skarphéðinn var kvæntur Þuríði Jónsdóttur, sem einnig var Axfirðingur, frá Ærlækjarseli. Bjuggu þér um árabil, en frá upphafi var húsið tvíbýli og bjuggu þau á efri hæð en leigðu neðri hæðina. Skarphéðinn lést árið 1985, en Þuríður 1972. Hafa margir átt heima í húsinu og íbúðaskipan líklega ævinlega sú sama og í upphafi. Árið 1987 var byggt við húsið til austurs; einlyft geymslubygging við norðausturhorn. Teikningarnar að þeirri breytingu gerði Mikael Jóhannesson.

Glerárgata 16 er látlaust og reisulegt hús í funkisstíl, sem sómir sér vel í götumynd fjölförnustu götu Akureyrar. Lóð er gróin og vel hirt, sem og húsið sjálft og á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki. Ekki liggur fyrir húsakönnun um þetta svæði svo síðuhafi viti til, þannig að hugsanlegt varðveislugildi liggur ekki fyrir. En væri sá sem þetta ritar spurður álits, væri það, að götumynd Glerárgötu hefði mikið gildi, sem og húsin hvert fyrir sig. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Glerárgata 14

Úr Miðbænum færum við okkur spottakorn út á Oddeyrina, en við Glerárgötu standa nokkur steinhús frá miðri 20. öld. Þess má reyndar að geta, að landfræðilega tilheyrir ytri hluti Miðbæjar Akureyrar Oddeyrinni. En syðst í þessari steinhúsaröð við Glerárgötuna er Glerárgata 14. 

Glerárgötu 14 munu feðgarnir Georg Karlsson og Sverrir, sonur hans,P1190989 hafa reist ásamt Sigurði Hannessyni, eftir teikningum þess síðastnefnda. Var það sumarið 1949, þeir að Georg og Sigurður sóttu um þessa tilteknu lóð sem þá var ekki sögð tilbúin til byggingar. Hvers vegna lóðin telst ekki byggingarhæf er ekki tilgreint, en geta má þess, að á þessum tíma voru næstu hús norðan (Glerárgata 16 og 18) og sunnan við (Fjólugata 20) þegar risin. En tveimur árum síðar, vorið 1951, er þeim feðgum og Sigurði veitt byggingarleyfi fyrir húsinu, samkvæmt fyrirliggjandi teikningu og um haustið er þeim leyft að hækka úr 1,5 í 2 metra. Skráð byggingarár hússins er 1954 og hefur húsið þá væntanlega verið fullbyggt.

Glerárgata 14 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Útskot er norðanmegin á framhlið og svalir sunnanmegin á milli. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og sléttur múr á veggjum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og fjölmargir búið í því um lengri eða skemmri tíma. Sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is eru hins vegar nokkuð áberandi auglýsingar frá sjöunda og áttunda áratug sl. aldar, þar sem Iðnaðarbanki Íslands er sagður með útibú í Glerárgötu 14.  Árið 1995 er raftækjabúðin Radíónaust sögð til húsa á Glerárgötu 14. Þar er raunar á ferð e.k. „ruglingur“ með götuheiti, en Radíónaust var til húsa á neðstu hæð Sjallans valinkunna, sem stendur við GEISLAGÖTU 14. En svo vill til, að austurstafn Sjallans liggur að Glerárgötu, enda taldist hann í upphafi standa við Glerárgötu 7.  

Húsakönnun fyrir þetta svæði hefur ekki verið unnin, svo höfundur viti til, og því liggur ekki fyrir hvort húsið eða húsaröðin hafi varðveislugildi. Húsið tilheyrir hins vegar stuttri og heillegri röð samstæðra húsa, steinhúsa frá miðbiki 20. aldar, og gæti höfundur vel séð fyrir sér að sú röð hafi nokkurt gildi. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð.  Glerárgata 14 er reisulegt hús í góðri hirðu og til mikillar prýði við fjölförnustu götu bæjarins; Þjóðveg 1 um Akureyri. Lóðin er gróskumikil og vel hirt og römmuð inn af vönduðum steyptum vegg með járnavirki. Gróskan er eðlilega ekki áberandi á meðfylgjandi mynd, sem tekin er um hávetur, eða þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1112, 29. júlí 1949. Fundur nr. 1137, 18. maí 1951. Fundur nr. 1144, 26. okt. 1951. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Strandgata 1; Landsbankinn

Útvörður Ráðhústorgs (eða Torgsins) í norðri er hin reisulega bygging Landsbankans.P9150218 En húsið stendur raunar ekki við götuna Ráðhústorg heldur við Strandgötu og er efst húsa við hana. Torgið afmarkast nefnilega af Strandgötu í norðri og Brekkugötu í suðri, en samnefnd gatan liggur meðfram torginu sunnan- og austanverðu. Hugmyndin um byggingu ráðhúss á þessum stað hefur líkast til komið fram með fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar árið 1927. Stóðu við Brekkugötu 2 og Strandgötu 1, hús frá fyrri hluta 20. aldar, sem væntanlega hafa átt að víkja. Sem þau og gerðu, þegar Landsbankahúsið var reist og byggt við það. Ekkert varð þó úr byggingu ráðhúss, en torgið hlaut þetta nafn árið 1928. Ár og áratugir liðu og ekkert bólaði á Ráðhúsi, en á meðan hafði Landsbankinn eignast lóðirnar tvær. Forveri Landsbankahússins á Strandgötu 1 var reisulegt timburhús frá 1904, Hótel Oddeyri, þar sem rekið var hótel fram undir 1930 og síðar verslanir.

 Haustið 1947 voru áform Landsbankans um byggingu stórhýsis á lóðunum gerð opinber.   Gerði þá skipulag enn ráð fyrir ráðhúsi þarna og bera þurfti bygginguna undir skipulagsráð. Það var síðan snemma sumars 1949 að Landsbankinn falaðist eftir því við bygginganefnd að fá að reisa hús á lóðum sínum við Strandgötu 1 og Brekkugötu 2.  Byggingin var leyfð með fyrirvara um samráð við Skipulagsnefnd. Hvorki kemur fram nein lýsing byggingar né getið um teikningar í bókun bygginganefndar. Sama ár var fyrrgreint timburhús, áður Hótel Oddeyri, rifið. Árið 1950  setti Bygginganefnd fram skilyrði um 3,14m færslu frá Brekkugötu og snemma árs 1952 sækja þeir Ólafur Thorarensen og Jón Sólnes, fyrir hönd Landsbankans, um leyfi til lækkunar á fyrirhugaðri byggingu. Þó kemur ekki fram, hve hátt húsið hafi átt að vera í upphafi. Skráð byggingarár hússins er 1953 og mun byggingin þá hafa verið fullbyggð. Teikningarnar að húsinu gerði Guðjón Samúelsson.

Landsbankahúsið er þrílyft steinsteypuhús á háum grunni og með háu risi. Grunnflötur er L-laga og styttri álma, fjögur „gluggabil“ til norðurs meðfram Brekkugötu en álman meðfram Strandgötu eða torginu er sex „gluggabil“. Þá er sneiðingur á SV-horni byggingarinnar og þar eru inngöngudyr, sem áður var aðalinngangur bankans. Norðanmegin er viðbygging, álma á einni hæð með flötu þaki. Gluggar eru með margskiptum póstum og voldugir rammar utan um þá, og horn hússins og þakkantar prýddir hinu ýmsu steyptu skrauti, m.a. sperruendum undir þakskeggi. Gluggar neðri hæðar og dyr eru bogadregnir og gefur það húsinu sérstakan svip, ásamt láréttu munstri í múrhúð. Á norðurálmu eru stórir „verslunargluggar“, veggir í raun glerjaðir. Austurhlið er nokkuð áberandi íburðarlítil, aðeins múrsléttaður veggur með einum smáum glugga á þriðju hæð. Kemur það til af því, að upprunalega átti húsið að vera stærra og gert var ráð fyrir, að byggt yrði lengra til austurs. Það hlýtur þó að teljast nokkuð ólíklegt, að byggt verði við húsið til austurs héðan af, en aldrei að vita...

Skemmst er frá því að segja, að þessi 70 ár sem Landsbankahúsið hefur staðið, hefur það hýst Landsbankann. Er afgreiðsla hans og skrifstofur á jarðhæð, og lengst af var gengið inn frá torginu. Frá því um aldamót er aðalinngangurinn hins vegar austan megin á norðurálmu. Um 1975 var byggt við húsið til norðurs, sem áður segir, eftir teikningum sem unnar voru á verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns. Enda þótt húsið hafi fyrst og fremst verið byggt sem höfuðstöðvar Landsbankans fremur en ráðhús,  fór það svo að, skrifstofur bæjarins fluttust þangað inn haustið 1953 og voru um langt árabil. Þannig hefur Ráðhústorgið í raun borið nafn með rentu á því tímabili. Auk skrifstofa bæjarins og bæjarstjóra voru m.a. vinnumiðlun bæjarins og Skattstofan í húsinu á 6. og 7. áratugnum. Þá hafa hin ýmsu fyrirtæki og skrifstofur einnig haft aðsetur á efri hæðum hússins.  Hvort nokkurn tíma hafi verið búið í Landsbankahúsinu er höfundi ekki kunnugt um.

Landsbankahúsið er eitt af helstu kennileitum Ráðhústorgsins og Miðbæjarins og skapar glæsilega umgjörð um Ráðhústorgið. Líkt og útibú Landsbankans á Selfossi og Ísafirði (einnig eftir Guðjón Samúelsson) er útlit hússins undir áhrifum frá Landsbankahúsinu við Austurstræti í Reykjavík. Síðustu áratugi hefur það ætíð verið í bakgrunni þegar fram fara skemmtanir á torginu, en hefð hefur verið fyrir því, að svið standi norðanmegin við torgið. Landsbankahúsið er mikil prýði í umhverfinu, húsið er í afar góðu ástandi og hefur skv. Húsakönnun 2014 mikið „mikið varðveislugildi staðsett á þessum áberandi stað í miðbæ Akureyrar“. (Landslag Arkitektastofa 2014:43). Myndin er tekin þann 15. september 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1109, 10. júní 1949. Fundur nr. 1121, 2. júní 1950. Fundur nr. 1149. 22. feb. 1952. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Ýmsar heimildir af timarit.is; sjá tengla í texta.


Fjarlægðarmörk...

Á þessari mynd (tekin 25. feb. 2018) má sjá Lækjargötu 4 (t.v.) og Lækjargötu 6. P2250734Þau eru orðin 150 og 134 ára, en Stefán Thorarensen byggði Lækjargötu 4 árið 1870 en þeir Þórður Thorarensen og Kristján Gíslason byggðu Lækjargötu 6 árið 1886. Húsin mynda nokkurs konar vinalegt "hlið" inn í Innbæinn um Spítalaveginn, sem tengist Lækjargötunni á milli stafna hinna geðþekku öldunga. Spítalavegurinn er örmjór á milli húsgaflanna, rétt um fimm metrar. Ef bilið milli þessara tveggja húsa væri hins vegar innan við tveir metrar, er jafnvel óvíst að þau stæðu enn: Það hefur nefnilega kviknað í báðum húsunum; annars vegar í febrúar 1936 og hins vegar í janúar 1998. Hefði bilið milli þeirra verið innan við 2 metrar hefðu þau e.t.v. bæði eyðilagst- ef ekki í fyrra skiptið þá mögulega það seinna. Væntanlega skilst meiningin með þessari "dæmisögu"- enda þótt tenging sé e.t.v. langsótt.....Virðum 2 metra regluna.cool


mbl.is Ekki tímabært að herða aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Geislagata 12

Geislagötu 12 reisti Grímur Valdimarsson trésmiður og bílasmiður árið 1942-1945.P1190955 Hann fékk 1942 Grímur Valdimarsson trésmiður og bílasmiður að reisa íbúðarhús við Geislagötu, næst norðan við geymsluhús Sverris Ragnars. Húsið byggt úr steinsteypu með steinsteyptu þaki, 12,6x9,5m að stærð. Það hús, sem snýr að götu, var fullbyggt 1943. Tveimur árum síðar, eða 1945, fékk Grímur að reisa viðbótarbyggingu , 13x8,50m að stærð, steinsteypta með steinþaki. Teikningarnar að húsinu, sem og viðbyggingunni, gerði Guðmundur Gunnarsson.

Geislagata 12 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Bakálma er einlyft með aflíðandi risi. Bárujárn er á þaki og háum þakkanti og múrhúð á veggjum og ýmis konar póstar í gluggum; verslunargluggar á jarðhæð.

Húsið var í senn íbúðar- og atvinnuhúsnæði; Grímur bjó á efri hæð ásamt fjölskyldu sinni en starfrækti trésmíðaverkstæði þar. Eiginkona Gríms var Jónína Ásgerður Jakobsdóttir, frá Miðgerði í Saurbæjarhreppi. Grímur var hins vegar fæddur og uppalin á Stokkhólma í Skagafirði. Hann var, sem áður segir, bifreiðasmiður og var sá fyrsti á Norðurlandi sem lagði þá iðngrein fyrir sig. Hann hafði áður numið trésmíði og fólst bifreiðasmíðin m.a. í því, að smíða yfirbyggingar yfir bíla. Fór sú starfsemi hans einmitt fram á verkstæði hans í Geislagötu 12. Sjálfsagt hafa þó nokkrir þeirra bíla sem Grímur smíðaði varðveist og verið gerðir upp.  Í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið birtast endurminningar Gríms og ekki er annað hægt hér, en að mæla með þeirri lesningu. Þar kemur m.a. fram, að Grímur gangi enn til vinnu sinnar á verkstæði sitt í Geislagötu, en þá (1975) var hann 77 ára gamall.  Grímur og Jónína létust 1985 (Jónína) og 1986. Arfleiddu þau hjúkrunarheimilið Sel annars vegar og Kristneshæli öllum eigum sínum, þ.á.m. húseigninni Geislagötu 12, ásamt verkstæðishúsinu.

Auk verkstæða Gríms hefur Geislagata 12 hýst hina ýmsu starfsemi. Byggingavöruverzlun Akureyrar var rekin hér á fimmta og sjötta áratug 20. aldar og um tíma, árið 1946 var Úthlutunarskrifstofan þarna til húsa. Það er hugtak sem kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir, en um miðja 20. öld var skömmtun  á hinum ýmsu vörum. Þá má nefna raftækjaverslunina RAF sf. og Leikfanga- og gjafaverslun Tómstundaverzlunarinnar, sem opnuð var í húsinu haustið 1965.

Árin 1986-87 voru gerðar á húsinu miklar breytingar og endurbætur, m.a. var þak hækkað og fékk húsið þá núverandi útlit. Teikningarnar að þeim endurbótum gerði Haukur Haraldsson. Ekki voru menn á eitt sáttir með endurbæturnar á húsinu, en til stóð að byggingarnar vikju.  Þá var opnuð í vesturálmu hússins sólbaðsstofan Stjörnusól, sem enn er starfrækt í húsinu og hefur meira að segja stækkað við sig; nú er afgreiðslan í vesturálmunni (framhúsinu). Þar voru áður, þar til um 2015, skrifstofur happdrætta (Fjölumboð) og spilakassasalur (Gullnáman). Á efri hæð hússins er gistirými á vegum Hótels Norðurlands, en aðalbygging þess er einmitt handan götunnar. Húsið er í mjög góðri hirðu og til prýði á fjölfarinni götu í Miðbænum. Það er ekki talið hafa varðveislugildi í Húsakönnun 2014 en sagt hafa gildi fyrir götumynd Geislagötu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 905, 10. apríl 1942. Fundur nr. 1011, 20. apríl 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson 1975. Aldnir hafa orðið, IV bindi. Akureyri: Skjaldborg.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2020
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 14
  • Sl. sólarhring: 42
  • Sl. viku: 263
  • Frá upphafi: 451086

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 209
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband