30.9.2011 | 17:44
Hús dagsins: Helgamagrastræti 6
Fúnkís var nokkuð ráðandi byggingarstíll í steinsteypuhúsum eftir 1930-35 og framyfir miðja öldina. Helgamagrastræti 6 er mjög gott dæmi um slíkt hús, en það er byggt 1937 eftir teikningum Þóris Baldvinssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús, því sem næst ferningslaga að grunnfleti með horngluggum. Gluggar eru yfirleitt breiðari en á hæðina og póstar einfaldir, í þessum húsum voru krosspóstar og sexrúðugluggar fyrri tíðar víðs fjarri. Einhverntíma heyrði ég það, á þessum tíma væri fyrst farið að hugsa um stærð glugga og afstöðu herbergja til sólar og dagsbirtu við byggingu húsa. Hitt er annað mál, að notagildi var algjört lykilatriði við byggingu fúnkíshúsa. Hver einasti fermetri nýttur til fulls og ekkert óþarfa prjál. Helgamagrastræti 6 er eitt margra tveggja hæða fúnkíshúsa sem Þórir Baldvinsson teiknaði og voru reist 1936-37 fyrir starfsmenn KEA. Eru þetta á annan tug líkra húsa sem standa við efri hluta götunnar. Helgamagrastræti byggðist einmitt upp af þessum húsum, en þá var gatan sú efsta á Akureyri. Öll standa þessi hús enn, en sumum hefur verið breytt og byggt við eins og gengur og gerist. Númer 6 liggur nokkuð vel við myndatöku, en það virðist lítið breytt frá upphafi og auk þess er það vel sjáanlegt frá götu en mikill trjágróður er framan við mörg húsin við Helgamagrastrætið og mörg hálf hulin. (Ekki svo að skilja að það sé neitt neikvætt heldur þvert á móti, garðar með miklum trjágróðri eru mjög aðlaðandi!) Helgamagrastræti er önnur tveggja gatna þar sem er heilsteypt röð lítt breyttra fúnkíshúsa frá 1936-40, en hin er Ægisgata á Oddeyrinni, sem ég fjallað aðeins um hér. Hvort þessar götumyndir eru friðaðar veit ég ekki, en það væri eflaust athugunarvert. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 19:41
Haustlitir í Vaðlaheiði
Um helgina brá ég mér í félagsútilegu Skátafélagsins Klakks í Vaðlaheiði, en þar á félagið skálan Valhöll. Við drifum mannskapinn að sjálfsögðu í gönguferð um nágrennið, þrátt fyrir hellirigningu og dálitla norðangolu. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og haustlitir voru í algleymingi. Berjalyngið rautt, grösin gulleit en ljónslappar og maríustakkar grænir. Það er nú einusinni þannig að í úrkomu skerpist öll litadýrð haustsins og hér eru nokkrar myndir, sem hver um sig segir auðvitað meira en 1000 orð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2011 | 20:48
Hús dagsins: Fjósið, íþróttahús MA
Þessi pistill hefði raunar átt að koma í beinu framhaldi af þessum hér sem birtist fyrir einu og hálfu ári síðan nánast uppá dag. En á lóð Menntaskólans standa þessi tvö rúmlega aldargömlu timburhús, Gamli Skóli fremst, háreist og glæsilega bygging eitt stærsta timburhús Akureyrar. Þetta hér er öllu minna og látlausara og er kallað Fjósið. Húsið stendur á bakvið Gamla Skóla og er þar hálfpartinn í felum. Fjósið var reist árið 1905 sem leikfimihús fyrir Menntaskólann (eða Gagnfræðaskólann eins og hann var þá) en þá var upprunalega var húsið einn stór geymir. Árið 1910-12 var byggt við húsið tvílyft fordyri, sem og útbygging sunnantil, einlyft með risi. Í suðurbyggingunni voru salernisklefar en einnig rými fyrir kýr en þær sáu mötuneyti skólans fyrir mjólk, og þaðan kemur viðurnefnið Fjósið. Þannig var húsið raunar ekki fjós upprunalega heldur leikfimihús frá upphafi. Tvisvar hefur húsið verið tekið algjörlega í gegn 1944 og 1979 en í seinna skiptið fékk húsið það lag að innan sem það hefur enn. Síðast var byggt við húsið árið 1985 en það var einlyft bakbygging með skúrþaki. Upprunalega var þar vélageymsla en 2003 var þar innréttaður líkamsræktarsalur. Fjósið er þannig fjórar álmur, ein tvílyft með lágu risi (íþróttasalur) sem snýr N-S með jafnhárri forstofubyggingu til austurs. Suðurálman (búningsklefar) er einlyft með háu risi en einnig er einlyft bakbygging með skúrþaki vestan við. Húsið er bárujárnsklætt timburhús og hefur örlítil einkenni Sveitserhúsa, þó ekki fari mikið fyrir skrauti- en sperrutær eru útskornar. Þrátt fyrir að salur þessa 106ára húss sé örlítill miðað við nýmóðins íþróttahús eru enn kenndar íþróttir í Fjósinu- og verður eflaust enn um ókomin ár. Þessi mynd er tekin 9.ágúst 2011.
Heimildir: Saga Menntaskólans á Akureyri, 4.bindi. (2008) Ritstj. Jón Hjaltason. Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólan á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2011 | 19:51
Hús dagsins: Grundargata 6; Hjaltalínshús
Grundargötu 6 reisti maður að nafni Jón Jónatansson árið 1903.Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Ris er af svokallaðri mansard gerð. Mansardi mætti sjálfsagt best lýsa þannig að risið sé á "tveimur hæðum", efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu. En húsið var ekki svona í upphafi. Vitað er að árin 1915 og 1920 byggði þáverandi eigandi, Ólafur Ágústsson tvisvar við húsið og í millitíðinni 1918 var húsið virt og þá var það einlyft með portbyggðu risi og viðbyggingu sem hýsti verkstæði. (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995) Árið 1920 er talið að húsið hafi fengið það lag sem það hefur nú en mér dettur í hug að þá hafi mansardþakið verið byggt ofaná einlyftu viðbygginguna. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, sennilega hefur fjöldi íbúða verið breytilegur gegn um tíðina, en síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli. Ég hef heyrt húsið kallað Hjaltalínshús, en ekki kann ég söguna á bakvið það viðurnefni.
Ekki eru til lýsingar hvernig húsið leit út upprunalega, en á þessari mynd er ég búinn að teikna líklegt útlit upprunalega hússins gróflega miðað við rislínuna. Er þetta eina myndin hingað til sem ég hef birt hér sem eitthvað hefur verið átt við eða breytt. Annars koma allar myndir á þessa síðu eins og þær koma fyrir úr myndavélinni. Notaði ég ósköp einfalt teikniforrit, Paint (undir Accesories) til verksins. Þegar steinblikkklæðningu var flett af húsinu í ágúst sl. komu nefnilega í ljós útlínur upprunalega hússins, greinileg skálína á gafli og einnig má sjá lítinn glugga undir súð sem hefur verið lokað fyrir. Ég stökk auðvitað til og tók þessa mynd af húsinu. Húsið var fyrir fáum árum farið að láta verulega á sjá en eins og sjá má er húsið í gagngerum endurbótum, bæði að utan. Það stefnir allt í að þetta 108 ára timburhús verði hið stórglæsilegasta eftir endurbætur og verður spennandi að sjá afraksturinn. Þessi mynd er tekin 24.ágúst 2011.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2011 | 17:25
Gránar í fjöll
Það hefur verið kuldalegt útlitið hér norðan heiða síðustu daga. Grátt í fjöll, hitinn um þetta um 4° og norðangjóla. Menn hafa þurft að snúa við á Víkurskarði og við Mývatn hef ég heyrt að ekki hafi sést milli húsa og í útvarpinu var talað um að færð væri að spillast á Sprengisandsleið og Öskjuleið lokuð. Er haustið þá komið? Ég veit það ekki, en ég held að við eigum nú eftir að fá nokkra sumardaga, því það er jú enn sumar- september ekki hálfnaður og tvær vikur í haustjafndægur. Það þarf meira en smá hret til að það teljist haust!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2011 | 18:18
Hús dagsins: Eyrarlandsstofa
Lystigarðurinn á Akureyri er einn af vinsælli áfangastöðum þeirra sem þeir sem heimsækja Akureyri. Þar eru þúsundir plöntutegunda, bæði innlendra plantna og erlendra skrautplantna og margt tjarna og gosbrunna- sá elsti frá því fyrir 1930.* En Lystigarðurinn stendur í landi Stóra Eyrarlands, en mestallt land sem Akureyrarbær stendur á tilheyrði Eyrarlandi.
Eina bæjarhús Eyrarlands sem enn stendur er íbúðarhús, stofa, byggð 1848. Er það einlyft timburhús með háu risi af algengri húsgerð þess tíma, áþekkt t.d. Aðalstræti 50 og 52 og Laxdalshúsi. Var það Geirþrúður Thorarensen sem átti býlið árið 1848 og sennilegast hefur hún reist húsið. Eyrarlandsstofa stendur enn í Lystigarðinum en eins og gefur að skilja lagðist búskapur af á Eyrarlandi snemma á 20.öld. Síðasti bóndinn á Eyrarlandi hét Jón Helgason en hann hóf búskap 1896 og hefur væntanlega búið í þessu húsi en hugsanlega hefur hann búið í gömlum torfbæ sem þarna stóð fram undir 1950. Eyrarlandsstofa hefur vissulega tekið miklum breytingum gegn um tíðina, húsið var tekið algjörlega í gegn að utan sem innan fyrir um 2-3 áratugum og er nú starfsmannaaðstaða fyrir Lystigarðinn. Að ytra byrði er húsið líkast til nálægt upprunanum, klætt timburborðum (súð) á veggjum og þaki og með sexrúðugluggum. Mér þykir reyndar líklegt að upprunalegir gluggar hafi verið minni. Þessi mynd er tekin á góðvirðisdegi, 9.ágúst 2011.
*Lystigarðurinn sem slíkur er auðvitað efni í sérstaka færslu. Ég tek það mál til athugunar og e.t.v. kemur pistill um hann innan fárra vikna :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2011 | 17:37
Hús dagsins: Lækjargata 18 og 22.
Efstu tvö íbúðarhúsin í Búðargili, og raunar efstu húsin, eftir að hesthúsin sem stóðu ofar voru rifin eru Lækjargata 18 og Lækjargata 22. Á lóð nr. 20 hefur ekki staðið hús í áratugi. En nr. 18 er rúmlega 130 ára gamalt, byggt 1880. Það er einlyft bárujárnsklætt timburhús á háum steinkjallara. Það hefur verið nokkrum sinnum við það, bæði einlyft bakbygging og svo hefur húsið einnig verið lengt til norðurs. Nú er húsið parhús og skiptist í 18 og 18a.
Lækjargata 22 er mikið yngra hús, en það er byggt 1915, tvílyft timburhús með lágu risi. Það er einnig parhús, 22 og 22a en við það hefur einnig verið byggt mikið við gegn um tíðina. Húsið er nú í gagngerum endurbótum en það var dálítið farið að láta á sjá að utan og sennilega hefur það líka verið komið á viðhald að innan. Það verður gaman að sjá hvernig húsið mun líta út að endurbótum loknum. Líkt og aðrar myndir úr syrpunni minni úr Búðargili eru þessar myndir teknar sunnudaginn 21.ágúst 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2011 | 22:04
Hús dagsins: Lækjargata 9 og 9a
Sunnanmegin í Búðargilinu, þar Lækjargatan er bröttust og þrengst standa þessi tvö látlausu timburhús, Lækjargata 9 og 9a. Þau eru bæði byggð á sama tíma, árið 1894 af þeim Hafliða Þorkelssyni og Jóhannesi Jónssyni- en í þeirri heimild (Akureyrarbók Steindórs) ég styðst við hér kemur þó ekki fram hvor þeirra byggði hvort húsið. Hugsanlega hafa þeir etv. byggt bæði húsin í sameiningu. En húsin voru reist í stað torfbæjar sem stóð þarna áður. En húsið næst á myndinni, hægra megin- stendur alveg uppvið götuna er Lækjargata 9. Það er einlyft múrhúðað timburhús á háum steyptum kjallara með háu risi. Einlyft viðbygging er á vesturgafli og er hún með skúrþaki. Nýir sexrúðupóstar eru í gluggum- en þeir koma í stað þverpósta sem voru í gluggunum um áratugi. Sennilega voru þverpóstarnir settir um svipað leyti og húsið var múrhúðað. En þessi tíska, að múrhúða eða forskala eldri timburhús var móðins um miðja 20.öld. Um leið og hús voru forsköluð voru yfirleitt gluggapóstum skipt út og allt timburskraut-ef var til staðar- tekið burt. Númer 9a, stendur vinstra megin við nr.9 er einnig timburhús, einlyft með háu risi. Það er ekki stórt að grunnfleti, áberandi mjótt en svipað á lengdina og framhúsið Er það næsta lítið breytt að utan frá upphafi, á mynd frá 1915 lítur það nánast eins út og í dag. Þá, sem nú, var húsið panelklætt að utan og með krosspóstum í gluggum. Bæði húsin eru bæði í góðri hirðu og líta vel út. Þau standa á skemmtilegum stað og í grónu umhverfi lóðarinnar rennur Búðarlækurinn opinn. Bæði húsin eru einbýlishús og hafa líkast til alla tíð verið. Í Akureyrarbókinni kemur fram að niðjar Jóhannesar og Hafliða hafi búið í húsunum lengi vel eftir þeirra dag. Þessa mynd tók ég í ljósmyndaleiðangri um Búðargilið sl. sunnudag 21.8.2011.
Heimild: Steindór Steindórsson (1993.) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt 1.9.2011 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2011 | 20:11
Hús dagsins: Lækjargata 7
Í beinu framhaldi af umfjöllun og myndasyrpu úr Búðargili er rétt að taka fyrir nokkur hús sem þar standa, í Lækjargötu, en sú gata liggur upp gilið frá Aðalstræti og kemur upp á Þórunnarstræti eða Höfðavegi,sem liggur að Kirkjugarði Akureyrar. Fyrir rúmum áratug var maður kominn uppí sveit þegar maður kom upp Lækjargötuna, því í beinu framhaldi af götunni var heimreiðin að býlinu Hlíð (fór reyndar í eyði um 1995, rifið 2001) og handan Þórunnarstrætis voru beitarlönd. Nú eru gatnamót Þórunnarstrætis og Miðhúsabrautar ofan Búðargils og þar Naustahverfi, sem byggst hefur upp eftir 2002.
En húsið hér á myndinni stendur hinsvegar neðarlega í Búðargili og er númer 7 við Lækjargötu. Húsið er byggt 1877, tvílyft timburhús með lágu risi á lágum grunni. Hugsanlegt gæti verið að það hafi verið einlyft í upphafi og risinu lyft síðar, en alltént var það komið með núverandi útlit um 1915. Lækjargata 7 er látlaust og einfalt hús, það virðist í góðu standi og vel við haldið og staðsetning þess er einkar skemmtileg hátt ofan við götuna á dálitlum hól í gilkjaftinum. Ein íbúð er í húsinu en gætu vel hafa verið fleiri í langri tíð hússins. (Aldur hússins er tvöfaldur aldur löggilts ellilífeyrisþega, 134ár sem er tvisvar 67 ) Bárujárn er á þaki og þverpóstar í gluggum en ég er hreinlega ekki viss hvort húsið er múrhúðað eða asbestklætt. Þessa mynd tók ég sl. laugardag 21.8.2011, í ljósmyndaleiðangri um Búðargilið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2011 | 18:35
Búðargil öðru nafni Lækjargil
Í byrjun síðasta árs fjallaði ég um gilin mörgu sem skera Brekkuna á Akureyri. En þeirra mest er Búðargilið eða Lækjargilið eins og það er einnig kallað en það er væntanlega tilkomið vegna Lækjargötunnar sem liggur um gilið. En Búðarlækurinn sem rann- og rennur vissulega enn um Búðargilið (að stórum hluta í lokræsi) skapaði hina eiginlegu Akureyri en sú eyri er fyrir löngu kominn inn í land með seinni tíma uppfyllingum. Byggð fór að myndast í Búðargili fljótlega uppúr miðri 19. öld og var þar um að ræða efnalítið fólk sem ekki fékk inni í byggðinni við Fjöruna og Akureyri. Enda sést greinilega munur á húsakosti Lækjargötunnar og Aðalstrætis og Hafnarstrætis, í fyrrnefndu götunni eru húsin mun lágreistari og látlausari. En í Búðargilinu hófu Akureyringar að rækta kartöflur árið 1808 og þar eru enn nokkrir kartöflugarðar og þá voru lengi vel vinsælar skíðabrekkur í gilinu á vetrum. Gripahús stóðu einnig lengi vel í gilinu og voru síðustu hesthúsin rifin um 2006. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók úr Búðargilinu í gær- en í sömu ferð ljósmyndaði ég einnig nokkur hús í Lækjargötunni, sem væntanlega verð hús dagsins næstu daga eða fáeinar vikur.
Hér er horft niður Lækjargötu u.þ.b. í gilinu miðju.Hús nr. 22 og 18 við götuna sjást til vinstri, Neðri hluti götunnar var malbikaður 2003 en á myndinni sést hvar það endar. Gatan er sennilega ein sú brattasta á Akureyri (og hér er alveg nóg af bröttum götum) og brattasti kaflinn er einmitt neðan við nr. 18- en sá partur er jafnframt sá þrengsti. Á myndinni hægra megin má sjá Spánarkerfil (Myrrhis odorata) en hann vex í stórum breiðum í efri hluta Búðargils. Plantan er svipuð skógarkerfli en er stórvaxnari og ljósgrænni og ekki eins ágengur en skógarkerfillinn verður víða plága þar sem hann leggst yfir.
T.v. Horft yfir á flatan sunnanmegin í gilinu en þar stóðu hesthús í áratugi, þau elstu voru frá fyrri hluta 20.aldar, en ég man örugglega eftir nýju hesthúsi í byggingu veturinn 1997-98. Öll hesthús voru hins vegar rifin 2006 og hesthús Akureyringa eru nú ofan bæjarins í Breiðholtshverfi neðan við Súlumýrar og við Lögmannshlíð. Viðarplatan á ljósastaurnum fyrir miðri mynd var notuð sem tilkynningatafla til hestamanna- og má segja að sé það eina sem eftir stendur af hesthúsahverfinu. Á hægri myndinni má sjá Búðarlækinn sjálfan en hann er opinn á nokkrum stöðum í gilinu. Þarna kemur hann úr lokræsi undir grunnum hesthúsanna, sýnist þetta ræsi hlaðið úr gömlum steyptum kantsteinum. Lækurinn er ekki ýkja vatnsmikill en hann getur en í miklum leysingum getur hann hinsvegar orðið að "ólgandi stórfljóti".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 16
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 279
- Frá upphafi: 450408
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 179
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar