Hús dagsins: Norðurgata 26

Norðurgata 26 er eitt af mörgum húsum sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði en það er reist árið 1926.  P7310221En húsið er tvílyft steinsteypuhús með tiltölulega lágu risi eða söðulþaki og hefur frá upphafi verið skipt í tvær íbúðir, byggt fyrir tvær fjölskyldur af þeim Magnúsi Halldórssyni og Jóni Sigurðssyni. Ekki er því þó skipt þannig að hvor íbúð sé á sinni hæð heldur skiptist það í miðju og er hvor íbúð á tveimur hæðum í hvorum enda. Húsinu hefur lítið verið breytt frá upphafi a.m.k. að utanverðu; í vesturenda eru upprunalegir gluggapóstar með einföldum glerjum sem gefa húsinu ákveðinn svip en skipt hefur verið um pósta í austurhluta. Hár skorsteinn er einnig áberandi- en þegar kynt var með kolum eða mó gat verið ágætt að hafa skorsteina í hærra lagi til að beina reyk hærra upp.  Annars er Norðurgata 26 nokkuð látlaust og einfalt að gerð og fellur vel inní götumynd Norðurgötu. Þessi mynd er tekin að kvöldi 31.júlí sl. farið er að halla sumri og tekið að rökkva á kvöldin.


Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð.

Undir bröttu brekkunni sem liggur að segja má milli Innbæjar og Miðbæjar standa nokkur glæsileg stórhýsi frá því um aldamótin 1900. P7090150Stærst og mest áberandi eru Samkomuhúsið (1906) og Gamli Barnaskólinn (1900) en syðst og elst er Hafnarstræti 49, Hvammur (1895). Þessi hús voru reist eftir "nákvæmum" mælingum á miðjunni milli Oddeyrar og Innbæjar en staðsetningin var í meira lagi óhentug, snarbrött og illfær brekka niður í sjó.  En nyrst í þessari húsatorfu, á einni víðlendustu lóð innan þéttbýlis á Akureyri, stendur þetta glæsihýsi, Hafnarstræti 63. Húsið á stórafmæli í ár, 110ára, en það reisti breskur maður, Frederic Jones árið 1901.  Húsið er tvær- þrjár álmur, önnur tvílyft með lágu risi, nærri ferningslaga að grunnfleti en hin er einlyft og talsvert löng, með lágu risi. Kjallari er undir húsinu og suður úr honum er steinsteypt, einlyft bygging með flötu þaki. Gæti ég trúað að það sé seinni tíma viðbygging. Einlyfta byggingin er sennilega byggð sem samkomusalur en tveggja hæða álman sem íbúðarhús, en Frederic var trúboði og reisti húsið undir safnaðarstarfsemi en hann stofnaði, ásamt öðrum landa sínum, Arthur Gook  Sjónarhæðarsöfnuðinn. Sá síðarnefndi gegndi um áratugaskeið forstöðu í söfnuðinum, sem enn hefur sitt aðsetur í húsinu og er etv. þekktastur fyrir hinar vinsælu sumarbúðir fyrir börn á Ástjörn, en þær hófu starfsemi 1946 og var Gook meðal upphafsmanna þeirra. Arthur Gook var um margt merkilegur maður, mikill grúskari og frumkvöðull á mörgum sviðum. Hann starfaði við kennslu og mun t.d. fyrstur manna hafa kynnt knattspyrnu fyrir Akureyringum 1908, stundaði lækningar og einnig mikilvirkur í fjölmiðlun; starfrækti blaðaútgáfu og 1928 startaði hann útvarpsstöð á Sjónarhæð- tveimur árum áður en Ríkisútvarpið hóf útsendingar! En sem áður segir þá hefur söfnuðurinn enn aðsetur í húsinu. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það er innréttað en líklegt þykir mér að salur sé í lágu byggingunni og íbúð í þeirri hærri en í kjallaraútbyggingu er hins vegar prentsmiðja. Húsið í mjög góðu ásigkomulagi sem og umhverfi þess; lóðin, sem telur þúsundir fermetra upp að brekkubrún við Eyrarlandsveg,  er mikið gróin og skógi vaxin. Þessi mynd er tekin að kvöldlagi 9.júlí 2011.

Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 

Einnig netheimildir sem ég vísa beint í með tenglum í texta.


Hús dagsins: Hríseyjargata 3

Húsið á myndinni, Hríseyjargötu 3 byggði Jón Eðvaldsson P4030997eftir teikningum Halldórs Halldórssonar árið 1937, en segja má að Halldór hafi verið eitt af "stóru nöfnunum" í húsateikningum á Akureyri áratugina 1920-40, ásamt þeim Sveinbirni Jónssyni og Tryggva Jónatanssyni. Önnur hús eftir Halldór má nefna Gránufélagsgötu 39-41 (1929) og Hríseyjargötu 21(1942) en þar er um ræða ein fyrstu fjölbýlis- og raðhúsin á Akureyri.  Hríseyjargata 5 er nokkuð einfalt og látlaust tvílyft steinhús með lágu risi, en það er undir talsverðum áhrifum frá Fúnkís byggingargerð sem var einmitt ráðandi árið 1937 þegar húsið var byggt. Áðurnefndur Tryggvi Jónatansson teiknaði mörg slík hús sem standa við Ægisgötu. Helsta fúnkís einkennið á húsinu eru horngluggarnir.  Eitthvað hefur verið byggt við húsið gegn um tíðina og í Oddeyrarbók Guðnýjar og Hjörleifs er það rakið;  þvottahúsbygging árið 1941 og bílgeymsla 1980. En Hríseyjargata 3 er einbýli og hefur líkast til verið alla tíð, það er í góðu standi og hefur lóð verið nýlega tekin í gegn. Myndin er tekin 3. apríl 2022.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 18

Gránufélagsgata 18 P6220118er elsta húsið við Gránufélagsgötuna en hún liggur samsíða Strandgötunni um 100m norðar á Oddeyrinni. Gatan hefur sennilega eina furðulegustu númeraröð sem þekkist á byggðu bóli hérlendis. T.d. eru húsin á móti þessu, 18, númer 29 og 31 en sléttu númer götunar standa að öllu jöfnu 10 númerum lægra. En á milli húsa nr. 27 og 29 standa hús nr. 39-43 en frá 29 helst númeraröð nv. rétt. Í öllu mínu fræðagrúski um sögu þessa bæjarhluta og í öllum Sögugöngum sem hafa verið farnar um Eyrina hef ég aldrei rekist á skýringuna á þessu. En númeraröð götunnar hefur um árabil vafist töluvert póstburðarfólki og sendlum sem ekki þekkja til.

En hús nr. 18 við þessa stórmögnuðu götu reisti maður að nafni Ólafur Árnason árið 1906. Er þetta einlyft timburhús með háu risi á steinkjallara og á austurgafli er lítil forstofubygging- hugsanlega seinni tíma viðbót en gæti allt eins verið upprunaleg. Húsinu hefur alltént ekki verið mikið breytt að utan, ekki stækkað eða risi lyft eins og algengt er með hús á þessum aldri og þessari stærð. Að vísu er húsið áfast einlyftri, steinsteyptri byggingu á vesturgafli en mér sýnist sú bygging ekki vera stækkun á húsinu, heldur að húsin séu samlæg en ótengd innan frá- líkt og raðhús. En bygging þessi tengir hús nr. 16 og 18 saman. Á sínum tíma, líklega um 1950 var húsið forskalað og gluggum breytt mjög og það sem mér fannst dálítið sérkenni á húsinu þá var hringlaga gluggi; kýrauga vinstra megin á götuhlið en honum var breytt í upprunalegt horf við endurbætur. Þær fóru fram um 1999 og eru einstaklega vel heppnaðar eins og sjá á húsinu, sem lítur stórglæsilega út og er mikil prýði í götumynd Gránufélagsgötu. Þessi mynd er ein þeirra sem ég tók á "misheppnaðri" sólstöðumyndagöngu á miðnætti 22.júní sl. en þar sem miðnætursólin faldi sig bakvið ský þá fór ég bara á  "almenna" myndagöngu Smile


Svipmyndir frá sumarkvöldum.

P6300129Hér koma nokkrar myndir sem ég hef tekið á göngutúrum um götur Akureyrar á sumarkvöldum sl. vikur. Sumarið hefur reyndar ekki verið alveg með besta móti, a.m.k. júnímánuður en júlí hefur þó verið skárri. En hér eru nokkrar sumarkvöldmyndir teknar núna fyrr í sumar.

Til hliðar: Hlíðarskálin er reyndar ekkert mjög sumarleg að sjá á, enda þótt þarna sé kominn 30.júní. Snjórinn er þakinn grárri ösku úr Grímsvötnum. Nú verður hinsvegar spennandi að sjá í haust hvort Hlíðarskálin fari í sundur, þ.e. bráðni á milli efri og neðri fannar eða hvort hret fram eftir vori og sumri nái að bjarga henni. (Ef ég legði það á annað borð í vana minn að "fótósjoppa" eða breyta myndunum mínum myndi ég klárlega þurrka út þennan helming af umferðarmerki í horninu. En þetta þvælist ekki mikið fyrir mér)

Súlutindur eða Ytri Súla P6300128(1167m) er heldur ekki mjög sumarleg en þessi mynd er tekin á nákvæmlega sama punkti, þ.e. neðan við svæði Háskólans á Akureyri á Sólborg. Þarna eru byggingarnar, Sólborg og fyrir miðju er nýjasti áfangi húsnæðisins sem vígður var 28.ágúst í fyrrahaust, nákvæmlega sama dag og Menningarhúsið Hof. Nýbyggingin ber í brekkuna miklu Súlumýrum sem standa þarna undir Súlutindi. Fremst á mýrunum má greina hvítan blett, en það skátaskálinn Fálkafell.

 

 

 

P7040136

 "Hefðbundnar" sólarlagsmyndir eru að öllu jöfnu teknar í kringum  fjöll eða sveitir eða smekklega byggð. Hér er ég með eina öðruvísi; sólarlag yfir iðnaðarsvæði en hér er sólin að setjast þann 4.júlí 2011 með athafnasvæði Slippsins og austurenda Nótastöðvarinnar Odda í forgrunni. Kaldbakur (1167m- jafn hár og Súlutindur) sést til hægri.

 

 

 

 

Hér var ég á göngu um Hafnarstrætið þ. 9.júlí. P7090155Ský dró fyrir kvöldsólina og úr varð þessi skemmtilega birta yfir Drottningarbraut og Pollinn. Örlítið fjær er Oddeyrin, húsaröðin við Strandgötu en sjá má að einhver sól skín á Vaðlaheiðina og Blámannshattinn lengst til vinstri.

 

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 5

P6220119Hríseyjargatan er neðst af þvergötunum sem ganga norður úr Strandgötu neðan Glerárgötu og ofan Hjalteyrargötu. Byggðin við hana er talsvert yngri en við efri göturnar Grundargötu, Norðurgötu og Lundargötu. En húsið á myndinni, Hríseyjargötu 5 byggði maður að nafni Þorgrímur Þorsteinsson árið 1922. Húsið er einlyft timburhús á steinkjallara, en á þessum tíma var orðið sjaldgæfara að byggð væru timburhús; steinsteypan var farin að vera allsráðandi. Árið 1927 var byggð bakbygging, einlyft með skúrþaki af þáverandi eiganda, Júlíusi Hafliðasyni og aftur var byggt við 1967. (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 97)  Þannig hefur húsið, sem vart getur talist mikið stórhýsi, í raun verið stækkað tvisvar frá upphafi! En Hríseyjargata 5 er stórglæsilegt hús, látlaust og einfalt að gerð. Helsta séreinkenni hússins er sérstakt brot efst á risinu og skv. Guðnýju Gerði og Hjörleifi er þetta rislag  kallað mansard. Húsið er klætt báruáli og þverpóstar í gluggum og er það í góðri hirðu. Nú er húsið einbýli en gæti hafa verið tví- eða þríbýli einhverntíman. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní 2011.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Lundargata 12; Gamli Iðnskólinn

Húsið hér á myndinni, Lundargata 12 var reist árið 1927 af Iðnaðarmannafélagi Akureyrar sem skólahús fyrir Iðnskólann, en félagið stofnaði þann skóla 1905. P7090145Starfsemi hans lá hinsvegar niðri meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð en var endurvakin uppúr 1920 og einn af þeim sem fyrir því stóð var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari. En hann teiknaði og stjórnaði byggingu skólahússins sem reist var úr r-steini, líkt og flestöll hús Sveinbjarnar. Húsið er einlyft með háu risi og miðjukvisti og virðist líkja dálítið eftir gömlum timburhúsum frá 18. og 19. öld (sjá t.d. Laxdalshús), þ.a. veggir tiltölulega lágir m.v. ris sem er bratt og mjög hátt.  Miðjukvistur hefur einhverntíma verið stækkaður niður á við og byggðar svalir framan á hann. En í húsinu voru 2 kennslustofur á neðri hæð, þaraf  önnur stór sem hægt var að loka í miðju og fá út tvær minni. Á efri hæð var svo teiknistofa ("dráttlist" stendur á teikningum Sveinbjarnar) og herbergi, líkast til kennaraherbergi. Iðnskólinn var þarna til húsa í 13 ár en 1940 fluttist hann í nýbyggt hús Gagnfræðaskólans. En sl. áratugi hefur húsið verið íbúðarhús og er nú einbýlishús. Það er í mjög góðu ásigkomulagi, hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið og er mikil prýði í götumynd Lundargötunnar. Á húsið hefur verið settur skjöldur með söguágripi hússins. Þessi mynd er tekin sl. laugardag, 9.júlí 2011.

Heimildir: Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál. Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

Steindór Steindórsson (1993) Akureyri, Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


R-steinar á Iðnaðarsafninu

Um Sveinbjörn Jónsson og húsin sem hann byggði og teiknaði hef ég fjallað þó nokkuð á síðunni hér. Enda var hann með eindæmum stórtækur í teikningum og byggingum húsa á Akureyri og nágrenni á 3. og 4. áratugnum. Hús Sveinbjarnar voru yfirleitt byggð úr R-steini sem var sérstakur hleðslusteinn sem hann fann upp og hóf framleiðslu á 1919. Hér gerði ég tilraun til að lýsa r-steininum en nú get ég boðið betur því hér er mynd af R-steinum, P7100165en ég rakst  þá  á Iðnaðarsafninu í gær. Þar er má ennfremur líta vélina sem notuð var til að móta og steypa þessa steina.

 

 

 

 

 

 

 

P7100167

En ég mæli eindregið með heimsókn á Iðnaðarsafnið, þar er svo sannarlega í mörg horn að líta. Bæði eru þar framleiðsluvélar frá ýmsum tíma Akureyrsks iðnaðar og einnig sýnishorn af framleiðslunni sjálfri- gamlar gosdrykkjaumbúðir og mjólkurfernur og niðursuðudósir o.s.frv.

Hér eru nokkrir pistlar um r-steinahús: Brekkugata 10 og 31, Knarrarberg-Kaupangskirkja-Syðri- Varðgjá, Norðurgata 16, Oddeyrargata 1


Hús dagsins: Strandgata 19

p6220124.jpgStrandgötu 19 reisti Norðmaðurinn  Johan Jacobsen árið 1886. Ég hef tekið eftir því, í grúski mínu um byggingasögu Akureyrar að það eru raunar ótrúlega mörg hús sem voru byggð 1886 og merkilegt nokk- standa ennþá! Fá hús, sem enn standa, virðast hafa verið byggð 1880-'85 og svo áratuginn '87-'95 en mikill kippur verður í byggingum eftir 1895, t.d. eru óhemju mörg hús byggð 1898. Hægt er að leika sér að ýmsum kenningum varðandi þetta; 1886 var kannski einhvers konar "2007" þess tíma, góðæri; mikið byggt og rífandi uppgangur. En 1887 var hins vegar alræmt harðindaár sbr. að aldrei fluttu fleiri Íslendingar til Vesturheims en einmitt það ár!  Svo er annað í þessu, í einhverjum tilvikum getur nefnilega skeikað fáeinum árum á uppgefnum byggingarártölum húsa frá þessum tíma.

Strandgata 19 er tvílyft timburhús með lágu risi á lágum steinkjallara. Upprunalega var húsið einlyft með háu risi en skömmu eftir 1900 var efri hæðin byggð. Þá hefur einnig einhverntíma verið byggt við húsið að aftan en þar er tvílyft bakbygging með skúrþaki. Neðri hæð hússins hefur verið verslunarhúsnæði mjög lengi en lengi vel rak maður að nafni Brynjólfur Stefánsson verslun þarna, Bröttuhlíð og var húsið kallað Brattahlíð lengi á eftir- eins og oft vill verða með nafntogaðar verslanir. En allskonar verslunarrekstur hefur verið í þessu húsi, þarna man ég eftir videóleigu, Videólandi um 1990 en frá 1998 hefur verið þarna handverks- og hönnunarverslanir, Gallerý Grúska lengi vel. Ein íbúð er á efri hæðinni. Þessi mynd er tekin skömmu eftir miðnætti 22.júní sl.


Hús dagsins: Norðurgata 3

p6220122.jpgEnn erum við stödd í neðst í Norðurgötu, síðast var nr. 1 en húsið á þessari mynd er Norðurgata 3. Það er jafn gamalt nr. 1, byggt 1899 af Valdimar Gunnlaugssyni skósmiði. Líklega hefur hann haft skósmíðastofu í kjallara eða hæð. Á þessum tíma voru nefnilega sérstök iðnaðarhúsnæði- eða verslunarhúsnæði sjaldgæf, iðnaðarmenn (eða verslunarmenn) bjuggu oftast og stunduðu iðju sína í sama húsi, eða alltént á sömu lóð- etv. með verkstæði í bakhúsum. Í kjallaranum í húsinu mun hafa verið brunnur sem þjónaði næstu húsum í Norðurgötu. En bak við húsið, milli Norðurgötu og Lundargötu rann lækur eða síki sem kallaður var Fúlilækur. En þangað var allt skólp Eyrarinnar losað og nafnið Fúlilækur trúlega ekki komið til af ástæðulausu! Brunnurinn mengaðist auðveldlega af læk þessum, einkum í leysingum og flóðum og það skapaði, eins og nærri má geta, hættu á ýmsum sóttkveikjum og pestum. Þetta vandamál var einn helsti hvatinn að því að vatnsveita var lögð á Akureyri árið 1914, enn frárennsliskerfi komu örugglega eitthvað seinna. En um 1930 voru flest öll ný hús búin þessum helstu nútímaþægindum, rennandi vatni, frárennsli og rafmagni- þó sjálfsagt hafi verið allur gangur á slíkri væðingu eldri húsa. Enn aftur að húsinu. Norðurgata 3 er einlyft timburhús á háum steinkjallara, með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti. Á bakhlið er stór flatur kvistur, raunar hefur risinu verið lyft* að hluta (einhvern tíma heyrði ég svona kvisti kallaða Hafnarfjarðarkvisti) og einnig eru svalir á efri hæð og nýlega hafa verið byggðar svalir á neðri hæð. Húsið er allt bárujárnsklætt og krosspóstar í gluggum. Íbúðaskipan hefur líklega tekið miklum breytingum gegn um tíðina, þarna hafa vafalítið búið margar fjölskyldur saman í eina tíð en nú eru í húsinu 3 íbúðir, tvær á hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní sl.

*Stundum er önnur hlið risþaka byggð upp, þ.a. það verði eins og heil hæð og þak er þá aflíðandi eða flatt. Það er kallað að risi sé lyft.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 260
  • Frá upphafi: 450364

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 165
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband