Hús dagsins: Norðurgata 1. "Hús dagsins" 2 ára

Í dag eru tvö ár frá því ég hóf að birta "Hús dagsins". Þá hafði ég tekið af og til myndir af gömlum og/eða skrautlegum húsum á Akureyri í dálítinn tíma eftir að hafa árum saman haft áhuga á sögu bæjarins og húsanna. Þótti mér því um að gera að deila þessu og varð þessi síða fyrir valinu. Þar áður hafði ég reyndar prófað myndasíður á borð við Flickr en langaði að bæta við meiri texta, en fyrst voru það og eru myndirnar sem voru aðalatriðið. Ég leggst sjaldan í mikið fræðagrúsk fyrir hvern pistil, læt yfirleitt fylgja nokkrar línur sem ég hef lesið í bókum eða heyrt í sögugöngum og man þá stundina. Stundum fer ég þó í  uppfletti- og rannsóknarvinnu og með myndum fylgja greinargóðar "smáritgerðir".   En ég vil heldur stilla lengd pistlanna í hóf og hafa þá stutta og hnitmiðaða, því sjálfum þykir mér langir textar óþægilegir aflestrar af tölvuskjá og netið er þannig miðill að fólk vafrar- og vill  kannski ekki staldra lengi við langa texta. Fyrsta húsið sem ég fjallaði um fyrir tveimur árum síðan 25.júní 2009 var Norðurgata 17, Gamla Prentsmiðjan

Og enn berum við niður í Norðurgötunni.P6220121Hús nr. 1 við þá götu reisti maður að nafni Jón Borgfjörð árið 1899 en hann var búsettur í Strandgötu 27og var húsið í raun bakhús á þeirri lóð. Norðurgata 1 er  einlyft timburhús með háu risi og tvöföldum miðjukvisti. Að aftanverðu er stigahús og flatur kvistur. Þá er sólpallur eða svalir bakatil. Húsið er mjög svipað næsta húsi, nr. 3 og handan götunnar er röðin 2-6 öll mjög svipuð, einlyft hús með kvisti. Þó eru öll þessi hús í raun mjög ólík t.d. eru bakhliðar þeirra allar ólíkar m.t.t. síðari tíma viðbygginga og kvista. Að innan eru þessi síðan gjörólík líka. Líklegast hefur Norðurgata 1 verið tvíbýli í upphafi, en svo íbúðum fjölgað eftir því sem á leið. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta fyrir 1990, bæði að utan sem innan og nú er húsið einbýli. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní 2011, er ég hugðist mynda miðnætursól sem ekki lét sjá sig. Þannig að ég myndaði nokkur hús á Eyrinni í staðinn sem koma væntanlega hérna á síðuna á næstu dögum og vikum.


Svipmyndir af bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní 2011

Að venju kíkti ég á Bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní sl. og að venju var ég með myndavélina með mér. Þarna kenndi að sjálfsögðu ýmissa grasa, þarna voru gljáfægðir sportkaggar, gamlir traktorar, jepplingar, jeppar og risatrukkar og bara allskonar tryllitæki. Hér koma nokkrar svipmyndir en ég læt myndirnar mest tala sínu máli.

P6170053   P6170055

Hér eru t.v. Cadillac Sedan Deville árgerð 1965. Vélin er V8 429 (sem þýðir 429 kúbiktommur eða u.þ.b. 7000 rúmcentimetrar ). En þessum er búið að breyta þ.a. að hann gengur líka fyrir vetni! Til hægri má svo sjá Porsche 911 Supercharged. Hann er með 3,6 l SC vél sem skilar litlum 400 hestöflum.

P6170063 p6170058_1093382.jpg

Hér er 2011 árgerð af Chevrolet Camaro. Þessi 426 hestafla kaggi er sprautaður eins og einn af Transformers tryllitækjunum, Bumblebee (Hugnangsfluga). Hann er í svipuðum litum, Ford Mustanginn til hægri en hann er töluvert miklu eldri, árgerð 1970. Vélin er 351 kúbiktommur eða ca. 5,7l og hestöflin hlaupa örugglega á hundruðum.

P6170067        P6170078

 P6170076  P6170073

Hér eru nokkrir valinkunnar fulltrúar jeppa, allir komnir á virðulegan aldur. Land Roverinn, er af árgerð 1970, dísilknúinn en þessi gengur dags daglega á matarolíu eða lífdísil. Opnun húdds er afar sérstök eins og sést, líkt og sardínudós. Til hægri að ofan er svo frambyggður bíll af gerðinni UAZ 467 en flestir þekkja svona trukka undir nafninu Rússajeppar. Þessi er árgerð 1974. Ford Broncoinn að neðan t.v. er einnig árgerð 1974. Range Rover er jafnan talin fyrsti "lúxusjeppinn" en framan af voru jeppar almennt mjög gróf og "hrá" farartæki, etv. frekar í ætt við landbúnaðartæki eða vinnuvélar. Þetta eintak er árgerð 1982. 

P6170083  P6170080       Og hér eru tveir knáir á sextugsaldri, Land Roverinn er árgerð 1954 en Willysin árinu eldri, árgerð 1953. Þessi Land Rover var  fyrsti læknabíllinn sem kom á Hvammstanga og er verið að gera hann upp.  Sjálfsagt er einnig mikil saga á bakvið Willysin líka en geta má nærri að þessir bílar hafa reynt ýmislegt á tæpum 60 árum. 

Ef einhver kannast við einhver þessara tryllitækja, tæknilegar upplýsingar eða sögu á bakvið þau þá er slíkt vel þegið hérna  í ummælakerfið. Ég læt aðallega myndirnar tala sínu máli en alltaf gaman að fá frekari upplýsingar. 


Sumarsólstöður.

Í dag eru líkt og allir vita sumarsólstöður, þ.a. að dagurinn er lengstur hér á norðurhveli. Sólin skín, þegar þetta er ritað 23.40, skært yfir Reistarárfjöll. Daginn  hefur verið að lengja frá 22.des og fer nú að stytta. Margir tengja þennan dag við að sumri fari að halla og senn að hausta- en það er nú bara "hystería". Því sumarið byrjar nefnilega þá fyrst að daginn hættir að lengja, sbr. júlí og ágúst eru að öllu jöfnu hlýrri mánuðir og júní og veður betri. Eins er þetta að vetrinum. Er vetrinum farið að halla á vetrarsólstöðum, 21.des? Onei, þá fyrst byrjar gamanið- janúar og febrúar með sínum frostum, myrkri og hríðarbyljum. Þannig að, þegar daginn fer að stytta byrjar sumarið fyrir alvöru og þegar hann fer að lengja byrjar veturinn af fullri hörku. Þannig er nú það.

p6220115.jpgKl. 00.00: Rétt fyrir miðnætti dró ský fyrir sólina en þó gægist hún hér á milli sementssílóa og asfaltstanks við Slippinn. Myndin tekin á Hjalteyrargötu, austan við Hagkaup. 


Komin tími á nokkur TRYLLITÆKI.

Ég hef af og til birt myndir af allskonar bílum, trukkum og tryllitækjum en nú er orðið langt um liðið síðan síðast, svo ekki er úr vegi að bæta úr því. Þess má kannski geta að ég á um 400 myndir af bílum og tryllitækjum, svona til samanburðar eru húsamyndirnar mínar rétt um 150! Þannig að þar er af nógu að taka. Svo má auðvitað benda á að um komandi helgi verða svokallaðir Bíladagar haldnir hér á Akureyri svo um að gera að koma og kíkja. Þar er hápunkturinn auðvitað 17.júní bílasýningin sem haldin hefur verið í áratugi, sl. 4 ár í Boganum en svo er keppni í götuspyrnu, "drifti" og margt fleira mótorsport tengt.

PB300090Þessi verklegi Ford F350 var á sýningunni Vetrarsport 2009 (sem reyndar var haldin 2008, 30.nóvember) í KA Heimilinu. Hann er á 46 tommu dekkjum og það mátti stíga uppí og skoða, því hann er auðvitað búinn öllum mögulegum fjarskipta- og leiðsögutækjum. (Oft er umhverfi ökumanns svona trukka líkara flugstjórnarklefa heldur en hefðbundnu mælaborði). Það er til marks um stærðina að þarna hefur tröppu verið komið fyrir við stigbrettið, svo að allir geti skoðað inn enda ekki á allra færi að príla í svona tryllitæki. 

 

 

 

 

Volvo XC70Þetta er Volvo XC70 árgerð 2004. Það er alltaf skemmtilegt að kíkja á sýningar eins og þessa í Brimborg Þórshamri, setjast uppí og kíkja undir húddið. Volvoinn er einhvernvegin alltaf auðþekkjanlegur, það er t.d. greinilegur svipur með þessum eðalvagni og gömlu  245 Station bílunum frá ca. 1980. Þessi er fjórhjóladrifin og mig minnir að hann hafi verið um 250 hestöfl. En þessa mynd tók ég sem áður segir á umboðssýningu í Brimborg 10.janúar 2004. 

 

 

 

 

 

Ford ExplorerHér er á ferðinni (reyndar er hann ekkert á ferðinni því hann stendur grafkyrr Smile) Ford Explorer árgerð 2005. Þessi mynd er einnig tekin á umboðssýningu hjá Brimborg ári seinna en myndin af Volvonum, 28.jan. 2005.

 

 

 

 

 

 

DeLorraene Svona kagga þekkja eflaust margir úr myndunum Back To The Future I-III  , en þetta DeLorean DMC-12, árg. 1981 eða 2. (Hann var raunar aðeins framleiddur á þessum tveimur árum). Á svona grip ferðuðust þeir Dr. Emmet Brown (Cristopher Lloyd) og Marty McFly (Michael J. Fox) frá árinu 1985 (þegar fyrsta myndin var frumsýnd) til áranna 1955, 2015 og loks aftur til 1885. Til að rjúfa "tímamúrinn" þurfti að ná 88mílum á klst. (145km/klst) og virkja svokallaðan straumþétti eða flux captacitorsem var uppfinning Dr. Brown.  Bíllinn er úr ryðfríu stáli líkt og eldhúsvaskur- og það var einmitt ryðfríi eiginleikinn sem var nauðsynlegur í tímaferðalög. Þessi mynd er tekin á bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní 2004.

 

 

P5280118

Og talandi um DeLorean tímavélina hans Dr. Brown, þá er hérna eitt eintak af henni Smile. Þessi er í Universal myndverinu í Orlando, Florida. Myndin er tekin 28.maí 2008.

 

 


Hús dagsins: Norðurgata 31

PA100004Norðurgata er ein lengsta íbúðargatan á Oddeyrinni, nær frá Strandgötu að verslunar- og iðnaðargötunni Furuvöllum til norðurs.  Liggur hún í sveig norður Eyrina og tekur beygju við Grænugötu en á því horni stendur þetta reisulega steinsteypuhús. Á svipuðum stað stóð eitt af fyrstu húsum á Oddeyrinni, torfbær byggður um 1850. Hann stóð reyndar ekki lengi, mun hafa verið rifin uppúr 1880 og var þá timburhús reist á lóðinni af konu að nafni Níelsína Jensen. Það hús var rifið skömmu fyrir 1930.  

Núverandi hús var byggt 1926, en það var eitt af stærstu húsum Oddeyrar á þeim tíma. Er þetta tvílyft steinsteypuhús með háu risi, og er risið raunar á tveimur hæðum (manngengt háaloft) sbr. glugga efst á gafli og á kvisti. Bakvið húsið er tvílyft útbygging með risi og kvisti. Steyptir þakkantar á göflum og kvisti standa uppfyrir þak og krossast; eiga að líkja eftir bjálkum sem ganga saman. Setur þetta látlausa skraut skemmtilegan svip á húsið. Nú eru í húsinu fimm íbúðir, þrjár í framhúsinu og tvær í bakhúsinu ein á hverri hæð hvoru megin. Húsið er í góðri hirðu, sem og gróskumikil lóð. Þessi mynd er tekin í haustblíðunni 10.10. 2010.


Fleiri plöntur

Eitt af því sem ég hef stundum ljósmyndað eru villtar plöntur. Ég á nokkrar myndir og hef þegar deilt nokkrum- en hér koma nokkrar í viðbót.

P7090032Hér má sjá Ljónslappa (Alchemilla alpina). Þessi brúskur er í um 350m hæð y.s. á mel nokkrum skammt norðan Fálkafells ofan Akureyrar. Myndin tekin að kvöldi 9.júlí 2009.

 

 

 

 

 

P7090021

Enn erum við stödd á melnum norðan Fálkafells en þetta góðviðriskvöld, 9.júlí 2009, tók ég einmitt létta göngu frá Hömrum uppá Súlumýrarbrúnirnar og niður hjá Fálkafelli. Myndavélin var auðvitað með í för og hefur afraksturinn sést hér á síðunni nokkrum sinnum. En þessi planta heitir því skemmtilega nafni Geldingahnappur ( Armeria maritima). Ekki hef ég hugmynd um hvernig nafnið er tilkomið. E.t.v. hefur   plantan verið vinsælt fóður hjá geltum búpening (Wink) en latneska heitið gefur til kynna tengingu við sjó, sbr. Maritima.

 

 

P7090031Blóðberg (Thymus praecox). Þessi runni er einnig á melnum við Fálkafell. Blóðberg er mikið sem kryddjurt við matargerð og blóðbergste þótti löngum og þykir enn mikill heilsubótardrykkur.

 

 

 

 

 

P8090016Nú færum við okkur niður á láglendi,  nefnilega niður á Hólma sunnan Akureyrarflugvallar en þar er þessi Umfeðmingur (Vicia cracca). Umfeðmingurinn virkar ekki ósvipaður lúpínu- enda skyldur henni, en við nánari skoðun eru líkindin svosem ekki mikil, önnur en blái liturinn. Myndin af umfeðmingnum er tekin nákvæmlega 13 mánuðum seinna en hinar myndirnar í færslunni þ.e. 9.ágúst 2010.


Hús dagsins: Fleiri býli í Glerárþorpi

Hér koma nokkur eldri býli í Glerárþorpi. Eins og öll eldri hús í Glerárþorpi hafa þessi hús  staðið í tveimur sveitarfélögum, en alltaf staðið á sama stað. En hvernig má það vera? Jú, fram til 1955 tilheyrði Glerárþorp nefnilega Glæsibæjarhreppi enda var um dreifbýli að ræða-þéttbýlismörkin lágu við Gleránna. Um svipað leyti var byggð brú skammt norðaustan SíS verksmiðjanna og þjóðvegurinn lagður þvert gegn um Þorpið- þá leið sem hann liggur enn um Hörgárbraut. Brúin frá 1955 er enn í fullri notkun en seinna var hún tvöfölduð, þ.e. reist önnur við hliðina. Nú er Glerá mest brúaða vatnsfall á Íslandi (a.m.k. miðað við lengd) En hér eru húsin.

P5220054Yfirleitt voru húsin í Glerárþorpi smá og léleg framan af en á 3. og 4.áratug 20.aldar risu þar þó nokkur steinsteypt stórhýsi. Meðal þeirra var Sandvík, sem nú stendur við Lyngholt 30 á lágri brekkubrún ofan iðnaðarsvæðis við Óseyri. Húsið er reist 1929, einlyft steinhús á háum kjallara. Skraut á göflum og kvisti undir áhrifum frá Jugendstíl.   Líklega er útbygging á gafli seinni tíma viðbót en húsið var allt tekið til endurbóta fyrir rúmum áratug og klætt timbri. 

 

 

 

 

 Á sömu brekkubrún um 300 metrum norðar en Sandvík P5220055 stendur Brautarholt. Húsið er byggt 1933, tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. 

 

 

 

 

 

 

 

p5220058_1087398.jpg Við Krossanesbraut á hæð ofan Sandgerðisbótar og litlu norðar og ofan við býlið Sandgerði stendur þetta einlyfta steinhús, Lundeyri og er það byggt 1946. Byggt hefur verið við húsið a.m.k einu sinni en við austurgafl má sjá garðskála. Húsið er með lágu risi sem er dálítið sérstakt að því leyti að það er brattara öðru megin, mænirinn þannig ekki ofan við miðju hússins. Þess konar ris hefði ég kallað ójafnt eða misbratt ris en ég veit ekki hvort þessi þakgerð hafi sérstakt heiti en misbrött ris eru raunar ekkert óalgeng.

Þessar myndir eru teknar síðdegis sl. sunnudag 22.maí 2011.


Öskudiskur á Akureyri

Í 6 fréttunum í gær heyrði ég af því að aska hefði fallið í Vaglaskógi. Þá taldi ég að nú færi að styttast í eitthvað hér og setti út hvíta undirskál um klukkan 19. Og þessi mynd er tekin um kl. 21, eftir 2klukkustundirm og þá mátti greina nokkur korn á diskinum:

p5220061.jpgÞetta er frekar lítið magn, á mörkum þess að sjást greinilega- og gæti allt eins verið "venjulegur skammtur" af svifryki. En þetta er klárlega aska. En seinna um kvöldið mátti greina þunnt lag á ljósum bílum og hvítu yfirborði og í morgun var lagið orðið greinilegt. Kíkjum næst á undirskálina góðu eftir sólarhring.

 

 

 

 

 

 

Svona lítur skálin út kl. 19 þann 23.maí, eftir sólarhring útivið- og "árangurinn" er greinilegur. Það hefur einnig verið talsverð úrkoma- snjókoma! þannig að þetta klessist við yfirborð og fýkur síður burt. Um kl. 23 ákvað ég að þurrka af helmingi disksins til að sjá hvað bættist við, og merkti hvoru megin.  En það sést ekki munur milli helminga. Enda er  yfirborð skálarinnar hallandi og þegar rignir á hana sígur allt niður að miðjunni.  p5230062.jpg


mbl.is Öskugrátt í Hlíðarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Skarðshlíð 36-40 og Undirhlíð 3. Elsta og yngsta fjölbýlishúsið í Glerárþorpi.

Brá mér út áðan í göngu um neðanvert Glerárþorp-með myndavélina að sjálfsögðu. M.a. myndaði ég tvenn fjölbýlishús sem standa á svipuðum slóðum en þetta eru annars vegar elsta og hinsvegar yngsta fjölbýlishúsið í Glerárþorpi og aldursmunurinn á þeim er rétt innan við hálf öld.

 En Skarðshlíð 38-40 P5220059er byggt árið 1965. Það er steinsteypt, þrjár hæðir auk kjallara og í því eru þrír stigagangar og íbúðirnar um 24. Stendur húsið undir klöpp og brekku neðan býlanna Ásbyrgis og Skúta. Er þetta í raun fyrsta stóra fjölbýlishúsið eða blokkin á Akureyri. Eldri fjölbýlishús eru reyndar á Oddeyri en það eru mikið minni hús- þetta er líkast til fyrsta fjölbýlið í bænum með fleiri en 10 íbúðum. Skarðshlíð 36-40 er einnig eitt fárra fjölbýlishúsa hér í bæ þar sem bílskúr fylgir nokkrum íbúðum og er slíkt raunar fátítt í stórum fjölbýlishúsum. (Nú eru reyndar oftast hafðir bílastæðakjallarar undir fjölbýlishúsum- en það er auðvitað ekki sama og bílskúr) En bílskúrabygging stendur uppí brekkunni norðan við húsið. Blokkin er sú fyrsta af mörgum sem risu 1965-70 við Skarðshlíð á kaflanum frá Glerá (beint á móti SíS verksmiðjunum) uppað Ásbyrgi. Húsið og lóð og umhverfi þess eru í mjög góðri hirðu.

Undirhlíð 3 P5220056er einum 46 árum yngri en Skarðshlíðarblokkin og talsvert ólík bæði að stærð og gerð. Byggingarár er 2011- enda er húsið óklárað og er þetta því yngsta fjölbýlishús í Glerárþorpi. Húsið verður sjö hæðir á kjallara og í því verða 27 íbúðir. Húsið er í hópi hærri bygginga á Akureyri en hæstu hús hér eru 9 hæðir. Það er byggingarverktakinn SS Byggir sem byggir húsið eftir teikningum Kollgátu  og þar verða í boði íbúðir fyrir 50 ára og eldri. Hér eru meiri upplýsingar um húsið. Myndirnar eru teknar fyrr í dag, 22.maí 2011.


Ef sá ameríski...

...sem spáði heimsendi núna 21.maí, í gær, (þ.s. komið er framyfir miðnætti) spáir einhverntíma Grímsvatnagosi þá er líkast til ekki von á góðu. Hann virðist nefnilega eiga það til að ruglast á þessu tvennu í spám sínum Smile.
mbl.is Horfði á bólsturinn koma upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 259
  • Frá upphafi: 450363

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 164
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband